Sá siðlausasti vinnur

Fjölmiðlar hafa síðustu daga fjallað um baráttuna um formannsembættið í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Kosningin fer fram næstu helgi og af umfjöllun fjölmiðla að dæma er hart barist um embættið. Svo hörð er baráttan að aðferðirnar sem ungliðarnir beita ættu að ofbjóða flestu sæmilega heiðarlegu fólki.

Ásakanir um óheiðarlegar framboðsaðferðir beinast helst að framboði Ísaks Rúnarssonar, fyrrverandi formanni Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Stjórn Heimdallar er sögð vera með Ísaki í liði og er hún sökuð um að meina yfirlýstum andstæðingum hans þátttökurétt á sambandsþinginu. Þá hefur komið á daginn að hópur ungra sjálfstæðismanna, sem allir höfðu lögheimili utan Reykjavíkur áður, hafa skyndilega flutt lögheimili sín á heimili vinar Ísaks, Þengils Björnssonar, við Álftamýri í Reykjavík. Ísak segist ekkert vita og Þengill fullyrðir að mennirnir sjö búi með sér í húsinu.

Spillt stjórnmálamenning

Vinnubrögð af þessu tagi virðast því miður vera lenskan í Sjálfstæðisflokknum. Það er engu líkara en að í stofnunum flokksins sé innbyggður hvati til óheiðarleika og spillingar. Þetta er ekki bara vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur fyrir samfélagið allt. Spillt stjórnmálamenning í stjórnmálaflokki á það til að smitast yfir í sveitarstjórnir, Alþingi og aðrar stofnanir samfélagsins. Við brenndum okkur á þessu haustið 2008, þegar spillingin í Sjálfstæðisflokknum átti stóran þátt í að setja Ísland á hausinn.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, segir máltækið. Spilling virðist grassera eins og myglusveppur í Valhöll og einkennin sjást greinilega í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins, þar sem formannsbarátta virðist vera einhvers konar keppni í klækjum. Það er orðið löngu tímabært að þessi stærsti stjórnmálaflokkur landsins fari í meiriháttar naflaskoðun og taki heiðarlegt uppgjör við stjórnmálamenninguna í flokknum. Það er nauðsynlegt ef okkur á einhvern tíma að takast að skapa heilbrigða stjórnmálamenningu á Íslandi.

„Unga fólkið er framtíðin,“ skrifaði Ísak Rúnarsson í pistli á Vísi þann 26. júlí síðastliðinn. Það er hins vegar engin framtíð fólgin í spillingu og óheiðarleika. Við sem erum ung og að stíga okkar fyrstu skref í pólitík verðum að bera gæfu til þess að hafna slíkum vinnubrögðum fortíðar. Annars mun okkur aldrei takast að auka traust á stjórnmálum, heldur þvert á móti halda áfram að draga úr því með vondum afleiðingum fyrir lýðræðið.

Óskar Steinn Ómarsson, ritari Samfylkingarinnar

Börn og jöfnuður

Það er þjóðarskömm að þúsundir barna á Íslandi geti ekki tekið þátt í félagsstörfum og íþróttastarfi vegna þess að foreldrarnir eiga ekki peninga nema rétt fyrir fæði, klæði og húsnæði. Börn í þessari stöðu tengjast oft ekki jafnöldrum sínum og skólafélögum félagslega, verða út undan og eru vansæl. Og tónlistarnám á Íslandi er nánast einungis fyrir börn tekjuhárra foreldra og því verður að breyta.

Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hefur ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar. Til að vinna að árangursríku skólastarfi þarf að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Bakgrunnur nemenda, þ.e. viðhorf foreldra til menntunar og væntingar þeirra til barna sinna skipta miklu máli fyrir námsárangur. Skólinn þarf að koma ákveðið til móts við nemendur, hvetja þá, styðja og örva, eins og kostur er ef foreldrar standa ekki nægilega með þeim eða geta það ekki einhverra hluta vegna.

Skólinn skiptir máli

Í öllum skólum ætti leiðarljósið að vera jöfnuður og umburðarlyndi og huga jafnt að góðum árangri og vellíðan barna. Virkt samstarf kennara innan skóla og á milli skóla stuðlar að bættum árangri. Að menntun hvers barns, koma margir kennarar og starfsmenn skóla, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Öll umræða um að árangurstengja laun kennara er því á algerum villigötum og án nokkurra raka. Tryggjum öllum kennurum góð laun og sýnum störfum þeirra með börnunum okkar virðingu. Ýtum frekar undir samstarf um gott og árangursríkt skólastarf og faglegan metnað en að hlusta á bull nýfrjálshyggjufólks um yfirburði einkarekstrar og samkeppni um fjármagn innan skóla og á milli þeirra.

Forgangsröðun stjórnvalda hvort sem er ríkisins eða sveitarfélaga skiptir börnin miklu máli, þ.e. að málefnum barna og ungra fjölskyldna sé raðað framar. Staða barna efnaminni fjölskyldna er óásættanleg. Við erum rík þjóð og eigum að jafna lífsgæði allra barna. Það er hægt og við höfum efni á því!

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Aukum jöfnuð

Í nýrri könnun ASÍ kemur fram að skattar hafa hækkað á alla tekjuhópa frá árinu 1998, langmest á þá tekjulægstu. Á þessum 19 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár, lengst af í öndvegi. Hann hefur horn í síðu skatta og lítur alls ekki á þá sem leið til tekjujöfnunar. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú og á síðasta kjörtímabili, dregið úr þrepaskiptingu skattkerfisins, afnumið auðlegðarskatt og stórminnkað barna- og húsnæðisstuðning. Álögum hefur verið létt af ríkasta fólki landsins en verið auknar á venjulegt fólk, ekki síst þá tekjulægstu. Þetta er ómannúðleg forgangsröðun í samfélagi þar sem fjöldi fólks, á öllum aldri, berst í bökkum og meira en 6.000 börn búa við skort. Og það í góðæri.

Sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að mikill jöfnuður er líklegur til að skapa friðsælt, kraftmikið samfélag og því skiptir jöfnunarhlutverk skattkerfisins miklu máli. Sú staðreynd að danskt lágtekjufólk sé mun líklegra til að upplifa „ameríska drauminn“ en fólk í sömu stöðu í Bandaríkjunum talar líklega sínu máli.

Hún er vel þekkt mantra Sjálfstæðisflokksins um að ævinlega beri að lækka skatta, enda sé einstaklingurinn ávallt betur til þess fallinn en ríkið, að ráðstafa tekjum sínum. Þessi frasi er yfirborðskenndur, villandi og skammsýnn; hann dugar ekki einu sinni til að tryggja vel launuðu fólki öryggi, hvað þá hinum tekjulægri. Flest lendum við nefnilega í veikindum eða stórum áföllum á ævinni og án sterkrar samneyslu værum við langflest illa í stakk búin til að mæta þeim. Því væri nær að fullyrða að réttlát skattgreiðsla sé gáfulegasta fjárfesting sem flestir Íslendingar taka þátt í á ævinni.

Í nýsamþykktri fjármálaáætlun fullyrða Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð að skattar séu andstæða frelsis. Þótt þessi fífilbrekkulega fullyrðing virðist kannski léttvæg, felst í henni nöturleg framtíðarsýn. Fram undan er hatrömm barátta milli þeirra flokka sem munu auka bilið milli þeirra efnameiri og tekjulægri, og hinna sem vilja byggja samfélag aukins jöfnuðar.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Eitt eilífðar námslán

Aukin þekking og menntun í hvaða mynd sem er leiðir almennt til víðsýni og umburðarlyndis, eflir og bætir samfélög. Á Íslandi hafa viðhorfin til fyrirgreiðslu við námsfólk þróast með öðrum hætti en í nágrannalöndum. Síðasta aldarfjórðung hefur verið horft á fjárhagslega námsaðstoð í meginatriðum sem hefðbundin lán sem greiðast skuli til baka að fullu, verðtryggð. Að þessu leyti skiljum við Íslendingar okkur algjörlega frá öðrum norrænum þjóðum sem er til vansa fyrir þjóð sem byggir æ meira á þekkingarleit og menntun.

Sanngjarnar lagfæringar
Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram frumvarp til laga um sanngjarnar lagfæringar á núverandi lögum um námslán, síðast á nýliðnu þingi. Þær lúta að tveimur þáttum. Annars vegar, að skuldbindingar ábyrgðarmanna á eldri lánum falli niður þegar viðkomandi nær 67 ára aldri eða við fráfall hans. Dæmi eru um það í núgildandi lögum að háaldrað fólk verði fyrir verulegum búsifjum vegna ábyrgða. Ákvæðin ganga út yfir gröf og dauða og afkomendur standa jafnvel andspænis óvæntum og óréttlátum skuldbindingum. Hin breytingin er sú að námslán falli niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri. Með því er verið að nálgast viðmót Norðurlandaþjóðanna þar sem endurgreiðslutíminn er mun styttri eða jafnan um 15 til 20 ár. Þar eru reyndar styrkir verulegur hluti náms­aðstoðarinnar.

Ágreiningur um mikilvæg atriði
Í fyrravor var lagt fyrir Alþingi frumvarp um námslán og námsstyrki sem ekki náði fram að ganga þar sem ágreiningur var um mikilvæg atriði. Efnislega hneig þó frumvarpið í þá átt sem ásættanlegt getur talist en verulega galla þarf að sníða burt. Ef hin umkomulausa ríkisstjórn sem nú situr við völd hugsar sér ekki til hreyfings varðandi ný lög um námslán og námsstyrki strax á næsta þingi mun Samfylkingin endurflytja frumvarp sitt enn einu sinni í þeirri viðleitni að knýja fram sanngjarna réttarbót fyrir námsfólk og ábyrgðarmenn eldri lána.

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar

Hlutverk kennara

Nýlega sagði formaður mennta- og allsherjarnefndar Alþingis að ein leið til að sporna við kennaraskorti væri aukin einkavæðing og frammistöðutenging launa kennara. Það er sjálfsagt auðvelt að árangurstengja laun verðbréfasala. Og æskilegt að umbuna góðum kennara fyrir vel unnin störf. En þegar greiða á bónus fyrir barnakennslu flækjast málin. Á að veita þeim kennara umbun sem fær nemanda, vel nestaðan hæfileikum, úr góðum aðstæðum og stendur sig vel á vorprófi, betur en öðrum sem kennir þeim með erfiðari bakgrunn, sem nær miklum framförum, þótt hann fái ekki jafn háar einkunnir og sá fyrr nefndi?
Við eigum að hafna menntakerfi sem gerir einstökum skólum færi á að lokka til sín valda nemendur og rukka jafnvel aukagjöld af þeim sem ráða við þau. Slíkt leiðir til slæmrar aðgreiningar. Við þurfum að reka sterka opinbera skóla sem tryggja öllum nemendum jafnt aðgengi að góðri menntun í umhverfi sem endurspeglar fjölbreytni samfélagsins. Í því felst líka dýrmætt uppeldi og menntun. Það þarf að nálgast hvern einstakling á forsendum styrkleika hans og búa hann undir flókið líf fullorðinsáranna.

Markmið skóla er heldur ekki eingöngu að nemandi leysi námsefni sitt óaðfinnanlega. Hlutverk hans er að gera hverjum og einum kleift að þróa sem best hæfileika sína og þroska með honum eiginleika svo sem víðsýni, umburðarlyndi, samkennd og aðra lyndisþætti sem gera hann að nýtum og farsælum borgara. Eiginleikar sem sumir verða seint og illa mældir en stuðla að betra og friðsælla samfélagi.

Menntun mun leika lykilhlutverk í þeim gríðarlegu breytingum sem samfélagið stendur frammi fyrir fyrir m.a. vegna yfirstandandi tæknibyltingar. Svarið við þeim er alls ekki að veikja opinbera skólakerfið, heldur að styrkja það og fjármagna mun betur.

Tryggjum kennurum sanngjörn laun, bætum vinnuaðstöðu þeirra og lögum aðbúnað skóla, þannig að þeir geti sem best sinnt mikilvægu hlutverki sínu í þágu okkar allra.
 
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Ljótur leikur

Mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála er að auka jöfnuð landsmanna; eyða fátækt og bæta kjör þeirra sem standa höllum fæti.

Yfir sex þúsund íslensk börn búa við fátækt. Það gera margir öryrkjar einnig og hafa ekki uppskorið í góðærinu síðustu ár. Aldraðir lifa sumir við nagandi óöryggi og skort. Ungt fólk hrekst milli íbúða á ótryggum og gróðavæddum leigumarkaði, hefur litla möguleika á að kaupa húsnæði og sér jafnvel takmarkaða framtíð hér á landi.

Til að bæta úr þessari þjóðarskömm þarf að virkja það fegursta í mannssálinni; samkennd og samhjálp. Ná víðtækri sátt um samneyslu sem miðar að því að jafna lífskjörin. Við sem berum mikið úr býtum getum borið meiri álögur um leið og hlífa á þeim sem minna hafa milli handanna. Þá þarf þjóðin að fá sanngjarnari arð af auðlindunum.

Hækka þarf lægstu launin, tryggja öryrkjum og öldruðum ásættanlegan lífeyri og gera þeim kleift að afla aukatekna, án þess að lífeyrir sé jafnharðan skertur. Þá þarf að auka barna- og húsnæðisstyrk, þannig að ungt fjölskyldufólk fari vel nestað út í lífið.

Um þetta eru margir Íslendingar sem betur fer sammála en því miður ber nú á nokkuð nýjum og heldur ömurlegum tón í umræðunni. Þær raddir verða sífellt háværari í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og jafnvel hjá stjórnmálamönnum, sem fullyrða að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur sé á kostnað þeirra Íslendinga sem eiga erfitt. Það er ósmekklegt að ýja órökstutt að því að einn hópur sem á um sárt að binda beri ábyrgð á öðrum í vondri stöðu. Og það er beinlínis ógeðslegt ef sá málflutningur er notaður til að afla stjórnmálaflokkum fylgis. Samfylkingin mun ekki taka þátt í slíku og andæfa honum kröftuglega.

Ísland er ríkt land og við getum vel bætt aðstæður Íslendinga sem höllum fæti standa, um leið og við öxlum sjálfsagða ábyrgð: Að rétta þeim hjálparhönd, sem hingað leita, úr ömurlegum aðstæðum og af sárri neyð.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Börnin okkar

Á Íslandi ætti ekkert barn að þurfa að búa við efnislegan skort. En því miður er það þó raunin að hér finnast dæmi um sárafátækt og þúsundir barna geta ekki tekið þátt í tómstunda- og íþróttastarfi vegna þess að foreldrarnir eiga ekki peninga nema rétt fyrir fæði, klæði og húsnæði. Þau börn tengjast oft ekki jafnöldrum sínum félagslega, verða út undan og líður illa.

Þessa stöðu má bæta með því að nota jöfnunartækin sem ríkið á og hafa sýnt sig að virka best; barnabætur, vaxtabætur og annan húsnæðisstuðning. Jöfnunartækin hafa illu heilli verið veikt mjög mikið vegna aðgerða síðustu ríkisstjórnar og sú sem nú heldur um stjórnartaumana hefur sýnt á spilin í fimm ára fjármálaáætlun og ætlar greinilega að veikja þau enn frekar. Á meðan mun staða margra barna versna.

Húsnæðismál efnaminni fjölskyldna eru í miklum ólestri og verður ekki komið í lag nema með aðkomu hins opinbera. Ríkið getur ekki bara varpað vandanum á sveitarfélögin. Vandann þarf að leysa af hinu opinbera hratt og vel því staðan mun ekki lagast af sjálfri sér.

Forgangsröðun stjórnvalda hvort sem er ríkisins eða sveitarfélaga skiptir börn miklu máli, þ.e. að málefnum barna og ungra fjölskyldna sé raðað framar. Staða efnaminni fjölskyldna er óásættanleg hér á landi. Við erum rík þjóð og eigum að gæta að lífsgæðum allra barna. Það er hægt og við höfum efni á því!

Við eigum jafnframt að gera allt sem við getum til að vernda börn gegn fólki sem beitir þau ofbeldi, nauðgar og misnotar með ýmsum hætti. Þar skiptir máli að lögreglan hafi fjármagn og þekkingu til að sinna slíkum málum af myndugleika og að með sálgæslu og umhyggju sé málunum fylgt fast eftir.

Öll börn eru okkar börn og okkur ber að tryggja þeim öllum gott líf. En til þess þarf vilja og stjórnvöld með hjartað á réttum stað.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Himnesk heilbrigðisþjónusta

Draumaferð fyrrverandi þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins til Svíþjóðar varð að fjölmiðlaefni fyrir skömmu. Þangað fór hún í fimm manna hópi í liðskiptaaðgerð. Svo vildi til að Klíníkin skipulagði ferðina en þar er forstjóri og aðaleigandi gömul samstarfskona og flokkssystir ferðalangsins. Meðeigendur fyrirtækisins eru úr fjölskyldu forsætisráðherra.

Allir farþegarnir voru af biðlista Klíníkurinnar, enginn hafði verið á bið hjá Landspítala, á Akureyri eða Akranesi. Stofa þessi hefur verið að reyna að brjóta sér leið að opinberum sjóðum til að veita heilbrigðisþjónustu. Sérkennilegt hvernig þetta ber allt að, kannski óheppileg tilviljun í samhengi hlutanna.

Ferðinni lýsti ráðherrann fyrrverandi af tilfinningamóð í viðtölum. Hámarki sælunnar virtist náð þegar rennt var í hlað spítalans góða og henni tjáð að þetta væri einkarekið sjúkrahús sem að eigin sögn kom algjörlega flatt upp á hana. Allt voru þetta mikil undur og dásemdin ein.

Ferðin var farin á grundvelli EES-tilskipunar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Sú heimild er ein afurð þess ágæta samstarfs sem jafnaðarmenn knúðu í gegn fyrir 25 árum. Draga þurfti Sjálfstæðisflokkinn með, bæði tregan og klofinn. Það er ánægjulegt að flokksmaðurinn skuli hafa fengið að upplifa kosti þessa sambands svo jákvætt á eigin skinni.

Hún rakti himinlifandi í viðtölum að ríkið greiddi allan kostnað. Um þessar ferðir gilda ákvæði reglugerðar nr. 484/2016 sem Sjúkratryggingar Íslands framfylgja skv. settum skilyrðum.

Það er skömm að bið eftir brýnum aðgerðum skuli vera svo löng á Íslandi, og ástæðan er mannanna verk. Ráðandi öfl í samfélaginu úr hópi Svíþjóðarfarans hafa ljóst og leynt svelt opinberar heilbrigðisstofnanir en alið við brjóst sér einkareknar heilbrigðisstofur sem leika lausum hala á kostnað annarra þátta.

Samfylkingin er með fullbúnar tillögur um stóraukið fé til heilbrigðisþjónustunnar, einkum Landspítala og annarra sjúkrahúsa og nálgast þar með Norðurlönd. Með því yrði hægt að taka á biðlistum og draga úr greiðslum fyrir dýrar aðgerðir erlendis.

Afhjúpandi áætlun

Aðfaranótt 1. júní var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára samþykkt með einu atkvæði, 32-31. Áætlunin hefur fengið furðu litla athygli miðað við hversu áhrif hennar verða mikil fyrir íslenskt samfélag ef hún nær fram að ganga. Sérstaklega þarf að hafa áhyggjur af heilbrigðismálum, menntamálum, málefnum öryrkja og fatlaðs fólks, húsnæðis- og fjölskyldumálum ásamt samgöngum og löggæslu. Þetta eru einmitt málin sem rætt var mikið um í kosningabaráttunni og allir flokkar gáfu loforð um að raða framar. En auk þessa eru helstu jöfnunartækin veikt; barnabætur og húsnæðisbætur og áætlunin mun leiða til aukins ójafnaðar. Þetta gengur allt gegn stefnu jafnaðarmanna. Þess vegna lagði Samfylkingin fram breytingartillögur við fyrrgreind málasvið áætlunarinnar svo og við þróunarsamvinnu.

Við gerðum einnig tillögur á tekjuhliðinni um réttlátara skattkerfi, sem spornar gegn auðsöfnun á fárra hendur og gefur sanngjarnari tekjur af auðlindum þjóðarinnar. Tillögur okkar eru raunhæfar og hefðu stuðlað að auknum jöfnuði, uppbyggingu innviða og betra velferðarkerfi ef þær hefðu verið samþykktar. En þær voru felldar af hægristjórninni eins og við var að búast, enda hafa þau þegar svikið nær allt sem þau lofuðu fyrir kosningar.

Ríkisfjármálin hafa stýrandi áhrif á velferð landsmanna. Ekki er að vænta endurreisnar heilbrigðiskerfisins í valdatíð núverandi ríkisstjórnar þó um 90 þúsund manns hafi krafist þess með undirskriftum. Jafnrétti til náms á einnig undir högg að sækja vegna sveltistefnu bæði á framhaldsskóla- og háskólastiginu. Það sama á við um umferðaröryggi á holóttum og þröngum vegum. Stefnuleysi og skortur á uppbyggingu hjúkrunarheimila hefur ekki aðeins slæm áhrif á fólkið sem þarf á þjónustunni að halda, heldur einnig á daglegt líf þeirra sem hlúa að öldruðum fjölskyldumeðlimum sem bíða mánuðum saman eftir plássi á hjúkrunarheimilum.

Fjármálaáætlunin ríkisstjórnarinnar varðar alla landsmenn og afhjúpar stjórnarflokkana þrjá, betur en nokkuð annað, sem hægriflokka undir sterkum áhrifum nýfrjálshyggju.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Aldraðir, eru til peningar?

Nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar 2013 ritaði formaður Sjálfstæðisflokksins eldri borgurum bréf þar sem hann tíundaði loforð um átak í þeirra þágu. Það átti snarlega að afnema kjaraskerðingu, lækka fjármagnstekjuskatt og afnema tekjutengingar ellilífeyris. Sjálfstæðisflokkurinn hjarir enn við völd og allt hefur þetta verið sniðgengið svo ekki sé dýpra tekið í árinni, enn bíða aldraðir og nú er komið árið 2017.
Við jafnaðarmenn áréttum að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25.000 krónum á mánuði í 100.000 krónur í áföngum á árunum 2018-2022 er breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 krónur á mánuði. Það eru einungis um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum. Hér þurfum við að gera betur og samþykkja á Alþingi hið fyrsta gjörning sem tryggir sæmandi afkomu, bæði aldraðra og öryrkja. Að því mun þingflokkur okkar vinna.
Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, með öðrum orðum að ekki séu til peningar í málaflokkinn. Þetta er rangt. Peningarnir eru til en þeir eru ekki í okkar höndum sameiginlega, heldur í vösum einkafyrirtækja sem fá t.d. óáreitt að nýta sér auðlindir þjóðarinnar án þess að þurfa að gangast undir þær samfélagslegar skuldbindingar að stuðla að velferð og jöfnuði með eðlilegri greiðslu fyrir afnotin.
Það bíða verkefni í þágu aldraðra. Brýn eru þau sem lúta að almennum kjörum en ekki síður lausn á vanda þeirra sem bíða þjónustu, aðstoðar og stuðnings heima fyrir, hafa væntingar og loforð um ásættanlegt búsetuúrræði í heimabyggð eða þeirra sem bundnir á sjúkrahúsi og eiga ekki annan kost.
Í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar lofa stjórnvöld að byggð verði tæplega 300 hjúkrunarrými til að leysa vandann, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Þá liggja jafnframt fyrir loforð um að endurbæta eldra húsnæði á stofnunum sem víða eru starfrækt á undanþágum frá eftirlitsaðilum, einnig að bæta dagþjálfun og fleiru er lofað. Allt er þetta jákvætt og í sjálfsögðu samræmi við nútímaleg viðhorf. Gallinn er bara sá að ríkisstjórnin hefur ekki dug til að afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að standa við loforðin, enn vantar líklega um tug milljarða til þess. Stefna og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er orsökin.
Það er því miður rík ástæða til að efast um efndir. Það væri eftir öðru að Sjálfstæðisflokkurinn færi samviskulaus í þriðju kosningarnar í röð með sömu innihaldslausu loforðin og vanefndirnar í farteskinu. Munu aldraðir sætta sig við að allt sé þá þrennt er?
Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar