Að pissa í skóinn sinn

Pólitískir loftfimleikar snúast iðulega um undanbrögð, eftiráskýringar og kúvendingu í stefnumálum. Ríkisstjórnin iðkar þá íþrótt nú af miklum móð.

Síðasta haust voru framhaldsskólarnir plataðir til að sættast á styttingu úr fjórum árum í þrjú undir því yfirskini að það ætti að styrkja fjárhagsgrunn þeirra. Fyrrverandi menntamálaráðherra sór að við þetta yrði staðið en nýr ráðherra hefur nokkrum mánuðum síðar gengið hraustlega á bak orða forvera síns.

Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sagði um styttingu framhaldsskólans: „Áætlunin gerir ráð fyrir að allur sá sparnaður sem muni falla vegna styttingarinnar muni haldast innan kerfisins og fari í að efla framhaldsskólastigið enn frekar.“

Í nýrri fjármálaáætlun sem bíður samþykktar þingsins er öllu snúið á haus: „Eins og í fyrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að umtalsverður sparnaður komi fram í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú og sá sparnaður endurspeglast í lægri framlögum til málefnasviðsins.“

Sem sagt, á nokkrum mánuðum hafa fyrirheitin verið svikin.

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (bls. 265) er sérstaklega tekið fram að langvarandi aðhald í fjárheimildum framhaldsskóla hafi sett mark sitt á starfsemi og rekstrarstöðu þeirra. Undirfjármögnun hafi bitnað á gæðum kennslu og námsframboði. Hvorki hafi verið unnt að veita viðunandi stoðþjónustu né endurnýja búnað og kennslutæki. Eftir slíka klausu mætti gera ráð fyrir að í kjölfarið fylgdu upplýsingar um stórauknar fjárheimildir sem gerðu skólunum kleift að bæta stöðuna svo um munaði, en svo er ekki, þvert á móti. Áætlað er að yfir 600 milljónir hverfi út úr framhaldsskólakerfinu til ársins 2022, á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Nær væri að spýta hraustlega í, að minnsta kosti standa við gefin loforð.

Það þarf að búa íslenskt samfélag undir stórkostlegar breytingar í atvinnuháttum, samfara tæknibyltingu sjálfvæðingar, tölvu og gervigreindar, sem er framundan. Þar mun aukin og bætt menntun landsmanna leika algjört lykilhlutverk.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Fiskur á silfurfati

Þorskstofninn hefur aldrei mælst stærri en við síðustu mælingar Hafrannsóknastofnunar. Það verður því að teljast afar líklegt að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næstu fiskveiðiár enda hefur kvótinn nærri tvöfaldast síðustu 10 fiskveiðiár þrátt fyrir lakari mælingar.

Ríkisstjórnin, með sjávarútvegsráðherra Viðreisnar í fararbroddi málaflokksins, vill ekki breyta lögum um fiskveiðistjórnun svo hægt sé að bjóða út viðbótarkvótann. Þess vegna verður honum að óbreyttu skipt á milli núverandi kvótaeigenda. Alþingi er í fullum rétti til að stöðva þann gjafagjörning. Alþingi ætti að lögleiða réttlátari meðferð fiskveiðiauðlindarinnar fyrir hönd eigenda hennar. Í það minnsta ætti að stöðva áform ríkisstjórnarinnar um að færa viðbótarkvóta útgerðinni á silfurfati.

Með útboði á viðbótarkvóta fengist verðmæt reynsla af útboðsleiðinni sem gæti nýst vel í viðræðum sáttanefndar þeirrar sem sjávarútvegsráðherra hyggst skipa á næstunni um fiskveiðistjórnunarkerfið. Með reglum um útboð væri mögulegt að auðvelda aðkomu útgerða frá viðkvæmari svæðum landsins, stuðla að nýliðun og vinna gegn samþjöppun aflaheimilda.

Ef tækifærið er ekki nýtt verður það útboð sem fyrir er styrkt enn frekar, þ.e.a.s. útboð á kvóta sem nú er í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Á þeim útboðsmarkaði fór kílóið af þorski á 211 kr. í haust en gengur nú um stundir á 180 kr. en 11 kr. renna til ríkissjóðs í formi veiðigjalds. Skólar og heilbrigðisstofnanir eru á sama tíma í rekstrarvanda vegna fjárskorts og vegirnir að molna undan okkur.

Hvers vegna ætli stjórnvöldum finnist mikilvægara að færa útgerðinni viðbótarkvóta á spottprís frekar en að fá fyrir hann markaðsverð og láta tekjurnar renna til velferðarþjónustu fyrir almenning? Hvort sagðist Viðreisn fyrir kosningar ætla að gæta betur að sérhagsmunum eða hag almennings? Þjóðin á þessa auðlind og á rétt á sanngjörnu gjaldi fyrir afnotaréttinn af henni.

Á dögunum átti ég samtal við sjávarútvegsráðherra og þingflokksformann Viðreisnar um þessi mál í þinginu. Báðar lofuðu þær nefndum en engum efndum og líklega er það einmitt forsenda stjórnarsamstarfsins.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Svikin kosningaloforð

Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benenediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar að þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni, hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna.

Hvar er uppbygginguna að finna í þessari áætlun í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennri velferð og samgöngum?

Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna?

Hvar er að finna aðgerðirnar sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika?

Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði?

Svörin við öllum þessum spurningum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það úr fortíðinni? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðærinu og nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu 1. janúar 2019.

Fúsk í fjármálum
Fjármálaáætlunin er byggð á fjármálastefnunni sem enn er ekki afgreidd en umræður hafa verið um í þinginu að undanförnu. Í stefnunni er ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef hagspár reynast óraunsæjar og samdráttur verður í hagkerfinu á árunum fram til ársins 2022. Í samræmi við stefnuna er engin áform í áætluninni um að auka tekjur af efnaðasta fólki landsins og af þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu eða stóriðju. Það eru sérstök vonbrigði og ekkert annað en fúsk, að í engu sé brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs og Seðlabankans um fjármálastefnuna. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ekki sé tekið mið af hagsveifluleiðréttingu þegar að afkomumarkmiðin eru ákveðin. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri en stefnan og þar með fjármálaáætlunin gera ráð fyrir.

Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Norræn velferð
Forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar að ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019, þá væri almennaþrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. Áður en við segjum Jibbí! og Húrra! við þessu, skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verði þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum.

Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öfluðu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölin og hægrimenn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan að þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þver öfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Ákallið að engu haft

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var ­­fyrir helgi er því slegið upp að aukning til heilbrigðisþjónustu til ársins 2022 verði hvorki meira né minna en 20%. Látið er að því liggja að um leiftrandi sókn sé að ræða og verulegan viðsnúning til hagsbóta fyrir þá sem lengi hafa beðið. Þegar nánar er að gáð slæ r nokkrum fölva á myndina. Stóra Landspítalaverkefnið er hluti af þessari aukningu og reyndar meira en helmingur. Eftir standa 7,3 milljarðar til annarrar starfsemi og uppbyggingar, m.a. innan heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið sem þarfnast verulegs hluta af þessari upphæð.
Framlög til að starfrækja sjúkrahús/heilbrigðisstofnanir í landinu á milli áranna 2017 til 2018 munu aðeins hækka um tæplega 340 milljónir króna sem samsvarar prósentubroti. Ekki verður hægt að mæta fyrirliggjandi þörf fyrir þjónustu og niðurskurður er fram undan. Þvert á það sem var lofað.

Þá er hvergi að sjá að uppbygging á landsbyggðinni sé sett í forgang þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda. Þar verður sérfræðiþjónusta áfram í skötulíki.
Þá má nefna að engin teikn eru um aukna greiðsluþátttöku í tannlækningum fyrir viðkvæma hópa, m.a. aldraða og öryrkja.
Öldrunarheimili búa við verulega vanfjármögnun í dag. Samkvæmt áætluninni til ársins 2022 verða 292 ný hjúkrunarrými tekin í notkun. Þetta eru þörf markmið en sá galli er á gjöf Njarðar að til þess að hægt verði að starfrækja þau vantar að lágmarki þrjá milljarða króna inn í áætlunina. Það bætist við núverandi vanda hjúkrunarheimila sem hleypur á milljörðum. Þá vantar enn peninga til að fjölga dag­dvalarrýmum og bæta aðbúnað sem er aðkallandi á mörgum stofnunum.

Um raunverulega aukningu útgjalda til heilbrigðisþjónustu verður því miður ekki að ræða á tímabilinu eins og lofað var fyrir kosningar. Ekki verður annað séð en við séum enn í órafjarlægð frá endursköpun og uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Baráttan mun að óbreyttu standa um að halda í horfinu og áfram verður gengið á laskaða innviði.

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Einkavæðing bankanna

Það eru stór orð að segja að þjóðin hafi verið blekkt þegar Búnaðarbankinn var seldur. Einkavæðing bankanna og vöxtur þeirra í kjölfarið var rót hrunsins og við erum enn að glíma við slæmar afleiðingar þess.

Margir hafa getið sér til um einmitt það að um blekkingar hafi verið að ræða en ekki sannreynt fyrr en nú. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður gerði athuganir á sínum tíma á reikningum þýska bankans og benti á að ekkert væri þar að finna um að bankinn hefði verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans. Vilhjálmur hélt því fram að um blekkingar væri að ræða en viðbrögðin þá voru þau að athuganir hans voru gerðar tortryggilegar.

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu oft eftir athugun á stjórnsýsluháttum þegar að bankarnir voru einkavæddir og efuðust um gæði þeirra.

Ögmundur Jónasson þingmaður Vg hafði ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum efasemdir um raunverulega þátttöku þýska bankans í kaupunum og spurði þáverandi viðskiptaráðherra um það. Ögmundur fékk skriflegt svar í febrúar 2006 frá Fjármálaeftirlitinu á þann veg að stofnunin teldi að ekkert benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf.

Efasemdum og grun um blekkingar og slæma stjórnsýslu í aðdraganda einkavæðingarinnar og í kjölfar hennar var ýtt ákveðið til hliðar meðal annars af ráðherrum, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu. Í því ljósi er niðurstaða rannsóknarinnar sérstaklega sláandi um að eignarhald þýska bankans á hlutunum í Eglu hf og þar með í Búnaðarbankanum hafi aðeins verið að nafninu til og til málamynda og yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna kemur fram að S- hópnum hafi verið greint frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda Búnaðarbankans yrði gefinn „plús fyrir erlenda peninga“, eins og það var orðað.

Erlendur hluthafi í Eglu hf er kynntur til sögunar stuttu síðar og S-hópurinn komst upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem gerðar voru, voru óformlegar.

Hvers vegna voru blekkingarnar mögulegar? Hvers vegna var ekki gengið harðar eftir upplýsingum um aðkomu og fjármögnun þýska bankans sem öllum var ljóst, af umræðum í fjölmiðlum og við ráðamenn að skipti miklu máli við mat á kaupendum? Hvernig gat þetta gerst?

Alþingi samþykkti haustið 2012 þingsályktun sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar, Vg og Hreyfingarinnar undir forystu Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar, um að ráðast í rannsókn á einkavæðingu allra bankanna þriggja. Þeirri samþykkt hefur ekki verið fylgt eftir en á auðvitað að gera og hefja rannsóknina eins fljótt og auðið er.

Og sagan má aldrei endurtaka sig!

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Borgin opnar ungbarnadeildir á leikskólum

Eitt helsta forgangsmál meirihlutans í borginni er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær mikilvægan áfanga á þeirri leið. Samþykktin byggir á tillögum stýrihópsins Brúum bilið og felur m.a. í sér fjölgun leikskólaplássa um nærri 300 með áherslu á börn um 18 mánaða aldur.

Í haust verða opnaðar ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar og verða þær sérhæfðar, með aðstöðu, leikrými og búnaði sem hæfir þroska og þörfum barna á öðru og þriðja aldursári. Stefnt er að því að slíkar ungbarnadeildir verði starfræktar í öllum hverfum borgarinnar. Í fyrsta áfanga verða opnaðar sjö ungbarnadeildir við leikskólana Miðborg í miðbænum, Holt í Breiðholti, Sunnuás í Laugardal og Blásali í Árbæ og taka þær til starfa í ágúst/september 2017. Alls verður pláss fyrir um 90 börn á þessum sjö ungbarnadeildum. Þá er stefnt að því að reisa sérhæfðan ungbarnaleikskóla á Kirkjusandi.

Eftir páska verður opnað fyrir innritun barna sem fædd eru frá janúar til apríl 2016 á almennum leikskóladeildum borgarinnar. Þá munum við samþykkja fjölgun plássa fyrir ung börn í sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni um rúmlega 200. Með þessum aðgerðum vonumst við til að stór hluti barna sem fædd eru á fyrstu fjórum mánuðum síðasta árs hafi fengið boð um leikskólapláss í haust.

Loks verða niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum hækkaðar um 10% til viðbótar við 2,5% hækkun sem tók gildi um áramótin. Auglýst verður eftir nýjum dagforeldrum og settur á fót starfshópur með þátttöku dagforeldra um aukin gæði og öryggi í þjónustu dagforeldra.

Samhliða verður lögð aukin áhersla á að auglýsa og kynna störf á leikskólum Reykjavíkurborgar sem eftirsóknarverð og gefandi störf með börnum í skapandi umhverfi.

Stýrihópurinn mun á næstu mánuðum móta áætlun um hvernig megi bjóða 12-18 mánaða börnum leikskólapláss í borginni á komandi árum. Ljóst er að framundan er mikið uppbyggingarskeið í leikskólamálum í borginni samhliða vinnu við að bæta starfsumhverfi og aðbúnað starfsfólks leikskólanna.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ekki er kyn þó keraldið leki

Fyrir stuttu átti ég í samtali um kynjakvóta við tvo samnememendur mína, sem kváðust báðir vera femínistar. Pistill þessi gengur ekki út á að úthúða samnemendum mínum og skoðunum þeirra, en mér finnst viðhorf þeirra varpa ljósi á það sem heldur aftur af jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

„Ég er ekki hlynntur kynjakvóta því ég dæmi sjálfur ekki fólk út frá kyni“, útskýrði annar þeirra fyrir mér og hinn neminn tók undir með honum: „Já, ég vil ekki fá eitthvað starf bara af því að ég er kona.“

Báðar þessar röksemdarfærslur skutu mér skelk í bringu, því að mínu mati rangtúlka þær það sem kynjakvóti gengur út á. Fyrir það fyrsta er hættulegt að afsala sér sinni samfélagslegu ábyrgð með því að segjast ekki vera hluti af vandamálinu. Í öðru lagi er jafnréttisbarátta kynjanna ekki háð til þess að gera konum greiða. Kynjakvóti er ætlaður til þess að kynin standi jöfn að vígi.

Mikilvægt er að fólk átti sig á að samfélagið mótar okkur, og að sama skapi, mótum við samfélagið. Því getur reynst nauðsynlegt að beita róttækum aðgerðum til að brjóta upp þau samfélagslegu viðhorf sem nú ríkja. Lengi vel hafa konur verið undirskipaðar körlum og ef við viljum koma á kynjajafnrétti verðum við að beita aðgerðum á borð við kynjakvóta.

Það dugar ekki að loka augum og eyrum og miða allt út frá eigin reynsluheimi og skoðunum. Stærra samhengið er það sem skiptir máli. Viljir þú að meiri jöfnuður og meira umburðarlyndi ríki í samfélaginu þarftu að vera tilbúinn að leggja hönd á plóg. Okkur ber að skapa ný norm og viðhorf fyrir komandi kynslóðir.

Því þurfum við á kynjakvóta að halda. Hann er nauðsynlegur þar til við höfum normalíserað jöfnuð kynjanna í áhrifa-og valdastöðum.

Nikólína Hildur Sveinsdóttir, ungur jafnaðarmaður

Rósir í hnappagat jafnaðarmanna

Fyrir skömmu var efnt til sérstakrar umræðu á Alþingi um fríverslunarsamninga, mikilvægi þeirra og þróun á seinni árum. Málshefjandinn, Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dásamaði frelsi í viðskiptum og taldi að stjórnvöld yrðu ætíð að vera opin fyrir nýjum tækifærum. Undir þetta tók í öllum atriðum flokksbróðir hans, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Íslendingar hafa lifað misjafna tíma í viðskiptum sínum við önnur lönd. Á fyrri öldum supum við ýmsa fjöruna við aðstæður sem hnípin þjóð réð ekki við. Öldin er nú önnur, enn erum við þó í nokkrum fjötrum þar sem ríkja hindranir í framleiðslu og opnum viðskiptaháttum innanlands og valda því að neytendur njóta ekki bestu mögulegu kjara. Það hefði líklega verið nærtækara fyrir málshefjanda, Óla Björn Kárason, að gera að umtalsefni og tala fyrir fríverslun hér heima í stað þess að leggjast á árarnar með þeim sem verja með kjafti og klóm áratuga sérhagsmunavörslu Sjálfstæðisflokksins, til dæmis í landbúnaðarmálum þar sem bæði bændur og neytendur þola órétt. Á þeim bænum ríkir forpokuð stefna og jafnvel umræðubann um tiltekin frelsisákvæði í samskiptum við aðrar Evrópuþjóðir. Sú ráðstjórnarhefð hefur leitt til þess að hluti flokksmanna er nú á vergangi í tilvistarkreppu í öðru og nýju flokksbroti.

Bylting
Enginn stjórnmálaflokkur hefur staðið fyrir annarri eins byltingu í viðskiptum og fríverslun við önnur lönd og Alþýðuflokkurinn, forveri Samfylkingarinnar, og stuðlað með því að stórkostlega bættum hag almennings. Stærstu skrefin voru stigin með haftalosun Viðreisnarstjórnarinnar og aðild að EFTA árið 1971 undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar, þáverandi mennta- og viðskiptamálaráðherra. Annað risaverkefni sem jafnaðarmenn áttu frumkvæði að og leiddu í milliríkjaviðskiptum var EES-samningurinn sem gekk í gildi árið 1994 eftir mikla baráttu Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi utanríkisráðherra. Fríverslunarsamtök Evrópu og EES-samningurinn eru helstu grunnstoðir utanríkisverslunar Íslendinga. Með aðildinni að EES njóta landsmenn að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og meirihluti annarra Evrópuríkja með um 500 milljóna manna markað.
Gæta þarf að hagsmunum okkar til lengri framtíðar og vinna í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin markaði um gerð fríverslunarsamninga við fleiri lönd, t.d. fríverslunarsamninginn við Kína sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, leiddi til lykta.

Full þátttaka í sameiginlegum markaði Evrópuríkja er lykill að enn betri kjörum neytenda, til að halda framsæknum fyrirtækjum í landinu, fjölga störfum og skapa sóknarfæri fyrir íslenska frumkvöðla og skapandi greinar. Aðild að ESB og virk þátttaka fæli í sér mikil sóknarfæri á sviði fullvinnslu sem gæti líka fjölgað störfum og skapað mikil verðmæti í sjávarbyggðum. Tollfrelsi myndi einnig skapa mikla möguleika fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum og styrkja greinar eins og sauðfjárrækt og aðra landbúnaðarframleiðslu.

Í baráttumálum jafnaðarmanna er fólgið hreyfiafl til framfara. Þannig hefur það verið og baráttumál jafnaðarmanna verða áfram þau að gæta hagsmuna fyrir venjulegt fólk, auka jöfnuð og bæta hag almennra borgara.

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Aprílgabb ríkisstjórnarinnar

Fyrir kosn­ingar hróp­aði almenn­ingur á upp­bygg­ingu heil­brigð­is- og vel­ferð­ar­kerf­is­ins, mennta­stofn­ana, sam­göngu­mann­virkja og ann­arra inn­viða. Raunar af því­líkum krafti að allir flokkar lof­uðu að ráð­ast í þær, næðu þeir kjöri. Það var í raun ósköp eðli­legt, því á síð­ustu árum, jafn­vel eftir að létt­ast fór fyrir fæti í efna­hags­líf­inu hafa inn­við­irnir haldið áfram að drabb­ast nið­ur. Kallað var eft­ir á­formum um að mæta vanda ungs fólks sem ekki á hús­næði og leigj­enda. Það herðir stöðugt fastar að þessu fólki i fá­tækt­ar­gildru leigu­mark­að­ar­ins.

10 októ­ber síð­ast­liðin var sam­þykkt metn­að­ar­full en þörf sam­göngu­á­ætlun sem var svo skotin á kaf af starfs­stjórn Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks sem fann engar leiðir til að fjár­magna hana. Þá stefnu gleyptu rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir Björt fram­tíð og Við­reisn hráa til að geta hreiðrað um sig í nokkrum ráðu­neyt­u­m.

Við birt­ingu stjórn­ar­sátt­mál­ans kom svo í ljós að það átti að hlaupa á frá stóru orð­unum sem féllu í kosn­inga­bar­átt­unni, því engin til­raun var gerð til að afla tekna hjá þeim sem aflögu­færir voru. Milli­tekju­þrepið var fellt niður og aðra tekju­stofna á ekki nota, s.s. hátekju­skatt, auð­legð­ar­skatt, stig­vax­andi fjár­magnstekju­skatt og aukin auð­linda­gjöld af sjáv­ar­út­vegi og raf­orku.

Ef það á að takast að end­ur­reisa heil­brigð­is­kerf­ið, gera háskól­ana sam­keppn­is­hæfa við sam­an­burð­ar­skóla í nágranna­lönd­un­um, leggja grunn að félags­legum lausnum á hús­næð­is­mark­aði og bæta kjör aldr­aðra og öryrkja verður að auka tekj­ur. Það eina sem okkur vantar eru stjórn­völd sem sýna hug­rekki og kjark.

Fjár­mála­stefnan

Nú á næst­unni fer fram atkvæða­greiðsla á þingi um eitt mik­il­væg­asta þing­mál kjör­tíma­bils­ins, fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Tvennt vekur einkum athygli við hana.

Ann­ars vegar úti­lokar hún að flokk­arnir geti staðið við lof­orð sín frá því fyrir kosn­ingar og hins vegar teikna minni flokk­arnir tveir sig upp sem ósköp venju­legir hægri flokk­ar. 80 dagar liðnir og gríman hefur ekki aðeins verið felld, heldur hent í ruslagám­inn. Það er út af fyrir sig heið­ar­legt að gang­ast loks við sinni póli­tík en það verður fróð­legt að fylgj­ast með því hvort þeir gramsa í gámnum aftur eftir þrjú ár, freista þess að ná henni upp og end­ur­taka leik­inn.

Þessi svik birt­ast fólki skýrt þegar fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar verður birt en rammi hennar er snið­inn að fjár­mála­stefn­unni og þar kemur í ljós hverjar fjár­veit­ingar verða í ein­staka mála­flokka. Fjár­mála­á­ætl­un­ina á að birta fyr­ir 1.apríl. Þá verður hul­unni end­an­lega svipt af apr­ílgabb­inu. Það átti aldrei að standa við kosn­inga­lof­orð­in.

Þó að fjár­mála­stefnan sé almennt orðað skjal með mis­mun­andi mark­miðum birt­ist skýrt í henn­i hvers konar sam­fé­lag rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir ætla að byggja á næstu árum: Öllu má fórna svo ekki þurfa að ráð­ast í frek­ari skatt­heimtu.

Fjár­mála­stefnan ætti að vera þannig úr garði gerð að hún rúmi ann­ars vegar þær nauð­syn­legu upp­bygg­ingu sem brýnt er að ráð­ast í og hins vegar ætti hún að ver­a nægi­lega sveigj­an­leg til að gera stjórn­völdum kleift að bregð­ast við breyt­ingum sem kunna að verða í þjóð­ar­bú­skapn­um. Reynslan hefur nefni­lega kennt okkur Íslend­ingum að eftir feit ár koma önnur mög­ur; þessar sveiflur hafa gjarnan verið á sjö til átta ára frest­i.

Fjár­mála­stefnan gerir hvor­ugt.

Það kemur einna skýr­ast fram í útgjalda­regl­unni.

Útgjalda­reglan

Hún felur í sér að rík­is­út­gjöld mega ekki vera meira en til­tekið hlut­fall af lands­fram­leiðslu. Hlut­fall rík­is­út­gjalda fyrir árið 2017 er áætlað 41% af lands­fram­leiðslu. Við vitum úr fjár­laga­vinn­unni fyrir árið 2017 að útgjöld þurfa að aukast. Hvað ákveður hægri rík­is­stjórnin að gera? Sam­þykkir að útgjöld mega aðeins aukast um 0,5% af lands­fram­leiðslu umfram það sem spár gera ráð fyr­ir, og þau verði ekki umfram 41,5% af lands­fram­leiðslu á tíma­bil­in­u.

Það er mjög óskyn­sam­legt nú þegar vel gengur að styrkja ekki inn­við­ina eftir mögur ár. Svo er það bein­línis hættu­legt að festa útgjalda­reglu í fjár­mála­stefnu þannig að nið­ur­skurð­ar­hníf­ur­inn verði að fara á loft ef lands­fram­leiðsla dregst sam­an.

Ekk­ert gert með athuga­semdir fjár­mála­ráðs

Það veldur óneit­an­lega óhug að ekk­ert er gert með alvar­legar aðfinnslur fjár­mála­ráðs. Það er þó skipað af fjár­mála­ráð­herra, í þessu til­felli núver­andi for­sæt­is­ráð­herra; skip­stjór­anum á skút­unni. Fjár­mála­ráðið á að meta hvort stefnan sé í sam­ræmi við mik­il­væg mark­mið nýrra laga um opin­ber fjár­mál sem for­sæt­is­ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins lagði þunga áherslu á að næðu í gegn. En um ráðið segir á heima­síðu fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins: „Ráðið er sjálf­stætt og er því ætlað að leggja mat á hvort fjár­mála­stefna og fjár­mála­á­ætl­un, sem rík­is­stjórn leggur fyrir Alþingi, fylgi þeim grunn­gildum sem lögin segja að stefnu­mörkun í opin­berum fjár­málum skuli byggð á, en þau eru sjálf­bærni, var­færni, stöð­ug­leiki, festa og gagn­sæ­i.“

Það er skemmst frá því að þessi örygg­is­vent­ill rík­is­stjórn­ar­inn­ar, fjár­mála­ráð­ið, setur sér­stak­lega út á að áður­nefnd útgjalda­regla taki ekki mið af hag­sveiflu­leið­rétt­ingu. Væri það gert er ljóst að áætl­aður afgangur af opin­berum fjár­málum ætti að vera meiri nú þegar vel árar en raun ber vitni. Af umsögn ráðs­ins er ljóst að afla þarf auk­inna tekna núna og auka svig­rúm fyrir rík­is­út­gjöld ef þrengir að. Ann­ars verður vel­ferð­ar­kerfið fórn­ar­lamb nið­ur­skurðar þegar um hægist og stjórn­völd lenda í spenni­treyju fjár­mála­stefn­unn­ar.

Stöðvum þessa vit­leysu

Þetta er með öllu óásætt­an­legt og því leggur Sam­fylk­ingin það til að útgjalda­reglan verði felld brott úr stefn­unni þannig að stjórn­völd geti sett sér útgjalda­mark­mið á hverju ári þegar fjár­mála­á­ætlun er sam­þykkt.

Fjár­mála­stefnan er gríð­ar­lega mik­il­vægt plagg; þetta er stefna rík­is­stjórn­ar­innar út kjör­tíma­bilið og fjár­lög verða að tak mið af henn­i. Ekki er heim­ilt að víkja frá henni nema stór­kost­legar ham­farir ríða yfir sam­fé­lagið eða þjóð­ar­bú­ið. Þess vegna verða þing­menn stjórn­ar­meiri­hlut­ans að vakna og stöðva þessa vit­leysu rík­is­stjórn­ar­inn­ar!

Nor­ræna mód­elið

Að mati Sam­fylk­ing­ar­innar er þörf á meiri fjár­fest­ingu í heil­brigð­is- og mennta­kerf­inu og sér­stak­lega þarf að huga að því að bæta kjör barna­fjöl­skyldna, leigj­enda, fyrstu kaup­enda hús­næð­is, aldr­aða og öryrkja. Allt of margir í þessum hópum búa við kröpp kjör og fátækt. Líf­eyrir og laun þess­ara hópa eru að hækka minna en hús­næð­is­kostn­aður og það eykur á vand­ann.

Auð­velt er að fjár­magna þessi brýnu verk­efni með því að auka tekjur rík­is­ins af auð­lindum þjóð­ar­innar og styrkja jöfn­un­ar­hlut­verk skatt­kerf­is­ins.

Far­sæl þróun sam­fé­lags­ins bygg­ist á efna­hags­leg­um ­stöð­ug­leika. Rétt eins og félags­legum stöð­ug­leika sem er und­ir­staða þess að hér þró­ist frið­sælt og rétt­látt sam­fé­lag. Því miður hjó síð­asta rík­is­stjórn í þann stöð­ug­leika með því að veikja tekju­stofna, lækka vaxta- og barna­bætur og bregð­ast ekki við þeim fyr­ir­sjá­an­lega vanda sem var að skap­ast á hús­næð­is­mark­aðn­um. Ný rík­is­stjórn virð­ist ætla að festa þennan óstöð­ug­leika í sessi.

Ísland er í sókn­ar­færum til að gera bet­ur, nýta ein­stakt árferði sem er til­komið vegna vel heppn­aðrar úrvinnslu í efna­hags­málum í kjöl­far hruns­ins, mak­ríl­göngu og stór­auk­inna heim­sókna ferða­manna . Við erum að upp­lifa mesta hag­vöxt hins vest­ræna heims­hluta. Honum verður að skipta jafnt. Ann­ars verður engin sátt.

Saman getum við byggt upp til fram­tíð­ar, frið­sælt og kraft­mikið sam­fé­lag sem væri eft­ir­sókn­ar­vert fyrir fram­tíð­ar­kyn­slóðir að búa í. Skyn­sam­legt væri að byggja það upp á hinu nor­ræna mód­eli sem kannski er það besta sem ver­ald­ar­sagan hefur séð.

Það byggir á þremur stoð­um; stöðugri efna­hags­stjórn, þrí­hliða vinnu­mark­aðs­mód­eli laun­þega, atvinnu­rek­enda og rík­is­ins og öfl­ugu vel­ferð­ar­kerfi sem tryggir félags­legan stöð­ug­leika. Því miður hafa rík­is­stjórnin ekki næga fram­sýni til að stefna þang­að.

Logi Einarsson, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Fjármálastefna til 5 ára

Í dag verður síðari umræða á Alþingi um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem er mikilvægasta þingskjal kjörtímabilsins. Í henni felst skuldbinding um hvernig haga eigi skatta- og útgjaldastefnu stjórnvalda allt kjörtímabilið. Stjórnvöld þurfa að fylgja henni eftir og ströng skilyrði eru fyrir endurskoðun hennar. Aðeins má endurskoða fjármálastefnuna ef grundvallarforsendur hennar bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum.

Ef ekkert svo stórkostlegt gerist þá eiga stjórnvöld að grípa til aðgerða sem leiða til þess að markmiðum fjármálastefnunnar verði náð hvort sem er á tekjuhlið, gjaldahlið eða með niðurgreiðslu skulda. Þess vegna er mikið áhyggjuefni að í stefnunni sé ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef forsendur hagspárinnar breytast á tímabilinu og að ekki sé horft til þess að auka tekjuöflun frá efnaðasta fólki landsins og þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu, stóriðju og ferðaþjónustu. Útgjaldareglan sem ríkisstjórnin setur verður til þess að ekki verður mögulegt að afla tekna til að rétta af stöðuna ef hagstæðar spár ganga ekki eftir, heldur verður að ráðast í niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Fjármálaráð á samkvæmt lögum að leggja mat á fjármálastefnuna. Hvorki ríkisstjórnin né meirihluti fjárlaganefndar bregst við skýrum athugasemdum fjármálaráðs. Athugasemdirnar lúta m.a. að því að marka þurfi ferðaþjónustunni skýrari ramma og að afla þurfi frekari tekna frá hinum sívaxandi ferðamannafjölda. Fjármálaráðið gerir alvarlegar athugasemdir við að áætlunin tekur ekki mið af hagsveifluleiðréttingu. Væri það gert ætti áætlaður afgangur af opinberum fjármálum að vera meiri en stefnan segir til um. Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Fara á gamalkunna leið í ríkisfjármálum sem hægristjórnir hafa farið með íslenskt samfélag aftur og aftur. Niðurstaðan verður sú að ekki verður ráðist í aðkallandi úrbætur á samgöngukerfinu eða í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Það er óásættanlegt og ekki í samræmi við kosningaloforð.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar