Norðurlöndin – örugg höfn í ólgusjó

Við lifum nú mikla breytingatíma. Félagslega, efnahagslega og pólitískt upplifir heimsbyggðin mikil umbrot, átök og öfgar. Óöryggi og hræðsla við framtíðina gerir víða vart við sig. Öfgar og lýðskrum hafa víða fengið byr undir báða vængi og þeirri heimsskipan og framþróun sem við höfum búið við undanfarna áratugi er að mörgu leyti ógnað. Þetta á við um alþjóðlegt samstarf, alþjóðaviðskipti, forsendur lýðræðis, stöðu mannréttinda, varnarsamstarf o.fl. Bandaríki Trumps, Brexit, uppgangur fasismans í Evrópu og þróun mála í Rússlandi, Tyrklandi og víðar, sýnir glögglega að heimsmyndin getur auðveldlega breyst stórkostlega til hins verra á komandi árum.

Norðurlöndin geta ekki tekið þá áhættu að sitja aðgerðalítil hjá og sætt sig við stöðu áhorfandans á þessum miklu umbrotatímum. Þvert á móti er afar mikilvægt að Norðurlöndin stórauki nú samstarf sitt og taki forystu í baráttu fyrir nýrri heimsskipan, þar sem félagslegt öryggi, jöfnuður, réttlæti og lýðréttindi eru í hávegum höfð. Norðurlöndin verða að standa þétt saman um þessi mikilvægu gildi, beita sér sameiginlega af alefli og leita bandamanna um heim allan sem vilja sjá sambærilega þróun á komandi tíð.

Norðurlöndin eru þekkt víða um heim fyrir mikla velmegun, frjálslyndi, jafnrétti, lýðræðislega þátttöku, samstarf, öryggi og jöfnuð. Þessi mikilvægu gildi verðum við að verja af öllu afli, enda er víða að þeim sótt. Allt of víða er þróunin því miður í öfuga átt og við það verður ekki unað. Okkar norrænu velferðarsamfélög hafa sýnt og sannað hvers þau eru megnug og það er okkar hlutverk að verja þau og þróa áfram, en ekki láta brjóta þau niður.

Sameinuð eru Norðurlöndin meðal tíu stærstu efnahagsstórvelda heimsins og þeirra fimm stærstu í Evrópu. Einnig í því ljósi geta Norðurlöndin kinnroðalaust krafist sætis við borðið þar sem framtíð Evrópu og heimsins er rædd og ákvarðanir teknar. Í okkar huga er það því forgangsmál að tryggja að Norðurlöndin vinni mun betur saman á alþjóðavettvangi, en hingað til. Að því munu jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vinna á komandi mánuðum og árum.


Phia Andersson, formaður, Svíþjóð
Henrik Dam Kristensen, Danmörku
Maarit Feldt-Ranta, Finlandi
Oddný G. Harðardóttir, Íslandi
Sonja Mandt, Noregi


í stjórn Jafnaðarmanna í Norðurlandaráði

Hommar í sjónvarpinu

Isak Valtersen er 17 ára norskur menntaskólanemi. Hann er aðalpersóna þriðju þáttaraðar norsku unglingaþáttanna Skam og hann er að mínu mati ein mikilvægasta sjónvarpspersóna síðustu ára. Isak upplifir í fyrsta sinn að verða skotinn í einhverjum af sama kyni. Hann berst við eigin fordóma, sættist við sjálfan sig og kemur út fyrir vinum sínum. Hann byrjar með strák, kyssir strák, stundar kynlíf með strák í fyrsta skipti.

Af hverju kalla ég Isak eina mikilvægustu sjónvarpspersónu síðustu ára? Vegna þess að við höfum aldrei kynnst neinum eins og Isak áður. Íslensk ungmenni hafa aldrei fengið að kynnast eins jákvæðri, heiðarlegri og opinskárri frásögn af samkynhneigð í sjónvarpi og nú. Við sjáum endalausar ástarsögur af gagnkynhneigðum pörum, en aldrei höfum við séð ástarsögu tveggja ungra einstaklinga af sama kyni sagða á eins heiðarlegan og umbúðalausan hátt og gert er í Skam.

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á að hinsegin ungmennum líði verr en öðrum í skólanum. Ein ástæðan er skortur á sýnileika. Þess vegna barðist ég fyrir innleiðingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. En meira þarf til. Efla þarf sýnileika hinsegin fólks í dægurmenningu. Hinsegin fyrirmyndir geta verið mikilvægar fyrir ráðvillt ungmenni sem eru að uppgötva og sættast við sjálf sig. Að þau geti speglað sig í einhverjum sem er að upplifa það sama og þau getur skipt sköpum. Isak Valtersen er fyrir fjölda unglingsstráka í dag þessi nauðsynlega fyrirmynd – fyrirmynd sem ég hefði sárlega þurft á að halda á mínum unglingsárum.

Isak er mikilvægur vegna þess að það er ekki verið að fela það að hann stundi kynlíf með kærasta sínum. Það er þessi sýnileiki sem skiptir öllu máli. Það er von mín að Skam ryðji brautina og að hinsegin ungmenni verði hér eftir mun sýnilegri í sjónvarpi og kvikmyndum. Íslenskir framleiðendur mega svo sannarlega ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Óskar Steinn Ómarsson, ritari Samfylkingarinnar

Hvernig endar þetta?

Fyrir stuttu sat ég í bíl með föður mínum og ræddi við hann um hefðir og venjur fjölskyldunnar. Sumar þeirra finnst mér undarlegar og ég fer ekkert leynt með það. Ég hafði meira að segja orð á því að í framtíðinni myndi ég breyta þessu á mínu heimili! Pabbi hafði ekki mikla trú á þessu og sagði að lokum: „Þú gerir þetta eins og fyrir þér hefur verið haft, það endar alltaf þannig.“

Það endar alltaf þannig.

Ég svaraði ekki en innst inni vissi ég að líklegast hefði hann á réttu að standa. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, eins og frægt er. Því lengra sem líður frá þessum samskiptum okkar þeim mun meira hugsa ég um þetta. Á síðustu dögum hefur hugmyndin þó þróast aðeins. Hvað er það sem Ísland hefur fyrir börnunum sínum? Læra börn Íslands einhverja vitleysu í dag?

Lítum á stöðu ungs fólks á Íslandi. Margt ungt fólk sér ekki fram á að geta flutt að heiman vegna aðstæðna á fasteigna- og leigumarkaði. Þetta er óviðunandi ástand sem þarf að finna lausnir á, hvort sem það eru markaðslausnir, aukin bygging félagslegra íbúða, aukin félagsleg aðstoð, breyting á fyrirkomulagi vaxtabóta eða aukið framboð á íbúðarhúsnæði. Lausnirnar þurfa bara að virka.

Kaupmáttur 16-19 ára fólks hefur farið minnkandi og ekki virðist staðan ætla að batna. Kjarasamningar SA kveða á um að 18 og 19 ára unglingar (fullorðnir einstaklingar) fái 95% grunnlaun tvítugs fólks. Þetta bætir ekki stöðu þeirra. Ákvæði um 95% grunnlaun 48 ára og 49 ára fólks félli ekki jafnvel í kramið hjá samninganefndum og þetta, þó ákvæðin séu hin sömu í grunninn.

Skólafólk er mestmegnis ungt fólk. Einungis á grundvelli þess er næstum hægt að fullyrða að ástandið í skólakerfinu okkar sé ekki til fyrirmyndar. Í grunnskólunum er gríðarlegt álag á kennurum og það ásamt lágum launum þeirra bitnar á gæðum menntunarinnar. Margir framhaldsskólar halda að sér höndum vegna fjárskorts, sem bitnar einna helst á iðnnámi og verklegum greinum. Í þokkabót hefur fólki eldra en 25 ára verið gert mjög erfitt fyrir að nema í framhaldsskólum. Í háskólunum er ástandið ekki gott heldur. Rektor Háskóla Íslands telur ekki ólíklegt að taka þurfi upp skólagjöld eða fækka námsleiðum. Bjarni Benediktsson sagði ríkisstofnunum að hætta að væla og fyrrverandi menntamálaráðherra sagði PISA niðurstöður íslenskra grunnskólabarna slæmar því prófið mælir ekki sköpun og félagsgreind meðal annars. Sami maður vildi breyta námslánakerfinu svo fólk sækti í „arðbært nám“ og fjársvelti Listaháskólann í sinni tíð sem menntamálaráðherra. Sköpunargáfan skipti hann ekki meira máli en það. Fjárfestum í menntun unga fólksins okkar, það er arðbær fjárfesting.

Ég þori ekki að spá fyrir um hvernig fer ef mín kynslóð gerir eins og fyrir henni hefur verið haft. Ég væri að minnsta kosti ekki til í að vera tvítugur árið 2040 ef svo fer. Bæta þarf stöðu ungs fólks svo það vilji vera áfram á Íslandi. Af hverju ætti maður sem ekki getur sótt sér þá menntun sem hann vill, býr við lakari lífskjör en aðrir á landinu og glímir við erfiða fasteignamarkaði að vilja búa á Íslandi?

Gerum unga fólkinu okkar kleift að koma þaki yfir höfuð sér. Styrkjum menntakerfið okkar svo fólk allsstaðar á landinu geti sótt sér háskólagráður, stúdentspróf og hvers kyns iðnmenntun. Eflum nýsköpun til að tryggja framfarir og atvinnumöguleika til framtíðar. Það liggur í augum uppi að það stofnar enginn fyrirtæki sem sér menntuðu fólki fyrir vinnu ef það er ekki til menntað fólk til að vinna þau störf. Menntun er grundvöllur nýsköpunar, sem stuðlar að tækniframförum og hagvexti.

Tökum á þessum málum strax, svo það verði ekki eðlilegt að staða ungs fólks á Íslandi sé alltaf léleg. Annars eigum við á hættu að missa það úr landi og þá er enginn eftir til að halda hér hagkerfinu gangandi.

Marinó Örn Ólafsson, háskólanemi og ungur jafnaðarmaður.

Áfengi í matvörubúðir?

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að leyfa sölu á áfengi, þ.m.t. vodka og brennivín, í matvöruverslunum. Flutningsmenn frumvarpsins hafa viðurkennt að áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Það er ekki sami hlutur að drekka hálfan lítra af vodka og hálfan lítra af mjólk svo dæmi sé nefnt. Enginn er dómbær og allsgáður sem hefur drukkið hálfan lítra af vodka, ólíkt þeim sem drakk mjólkina. Áfengi er vímugjafi og að okkar mati á það ekkert erindi í venjulegar verslanir, heldur þvert á móti ætti að takmarka aðgengi að því vegna eðlis og þeirrar skaðsemi sem það veldur.

Í gegnum árin hefur ríkt íhaldssöm stefna í áfengismálum á Íslandi. Sem merki um það var sala á áfengum bjór leyfð árið 1989 eftir 70 ára bann. Frá því ári til ársins 2007 jókst áfengisneysla á hvern Íslending 18 ára og eldri um 66%, eða úr 4,53 l á mann árið 1988 í 7,53 l á mann árið 2007, þegar áfengisneyslan náði hámarki. Síðan hefur dregið úr henni og var áfengisneysla árið 2015 um 7,35 l á hvern Íslending.

Áfengisvarnarstefna íslenskra stjórnvalda hvílir á fjórum þáttum, forvörnum, háum áfengiskaupaaldri, háum áfengissköttum og takmörkuðu aðgengi að áfengi. Stefna Íslands í áfengismálum hefur verið í samræmi við forvarnarstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) í áfengismálum sem eru háir áfengisskattar, takmarkað aðgengi og bann við auglýsingum á áfengi. Frumvarpið gengur gegn tveimur af þessum þremur meginstoðum í forvarnarstefnu WHO. Ef frumvarpið nær fram að ganga munu áfengisauglýsingar verða leyfðar í fjölmiðlum og aðgengi að áfengi mun aukast. Í dag rekur ÁTVR 50 verslanir, en ef frumvarpið nær fram að ganga mun verslunum þar sem áfengi verður selt fjölga í 250 verslanir um land allt.

Sérfræðingar sammála
Ekki þarf að efast um, að ef frumvarpið verður að lögum mun áfengisneysla á Íslandi aukast. Um það eru allir sérfræðingar sammála sem vinna við lýðheilsu og forvarnir. Meira að segja viðurkenna sumir flutningsmenn frumvarpsins sjálfir að svo muni fara. Það er staðreynd að aukin áfengisneysla leiðir til fleiri félagslegra vandamála, meiri ölvunaraksturs, fleiri heimilisofbeldismála, fleiri skilnaða, fleiri áfengistengdra dauðsfalla, fleiri tapaðra vinnustunda vegna áfengisneyslu. Stofnanir samfélagsins (félagsþjónusta, heilbrigðiskerfið, lögregla o.s.frv.) munu verða fyrir meiri tilkostnaði (mannskap og fé) í að glíma við afleiðingarnar. Það er óboðlegt í greinargerð með frumvarpinu að hvergi er minnst á afleiðingar aukinnar áfengisneyslu.

Í sænskri rannsókn var fjallað um hvaða áhrif það myndi hafa að leyfa sölu áfengis í matvöruverslun. Ölvunarakstri, árásum, dauðsföllum og veikindadögum myndi fjölga og ef tölurnar yrðu heimfærðar fyrir Ísland myndi tilfellum ölvunaraksturs þannig fjölga um 230 á ári, árásum um 700 á ári og dauðsföllum vegna meiri áfengisnotkunar um 70 á ári. Veikindadögum myndi fjölga um 390 þúsund (T. Norström og fleiri: Potential consequences of replacing a retail alcohol monopoly with a private licence system: results from Sweden).

Því er eðlilegt að spurt sé? Af hverju er verið að leggja fram þetta frumvarp? Er verið að þjóna velferðarhagsmunum almennings með þessu frumvarpi? Almenningur hefur ekki kallað eftir þeim breytingum og áhættu sem frumvarpið felur í sér. Hverra hagsmuna er verið að gæta? Almennings eða þröngra viðskiptahagsmuna verslunarinnar?

Guðjón Brjánsson alþingismaður og Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur.

Sala bankanna

Þegar við ræðum bankakerfið íslenska, umfang þess og þjónustu, þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn og markaðurinn lítill. Við þurfum þrátt fyrir smæðina að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts, og það er einnig forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun.

Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er líka eitt sérkenni íslenska hagkerfisins ásamt verðtryggingu.

Það er mikilvægt að ríkið beiti eigendaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri og hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans.

Markmið ætti að vera að hér á landi þrífist fjármálakerfi sem getur staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan fjármálakerfis á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn.

Mér finnst mikilvægt að við tryggjum það í núverandi stöðu að fjármálakerfið verði ekki til frambúðar í óbreyttri mynd. Aðkallandi breyting er að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Almenningur verði þannig varinn fyrir áhættu fjárfestingabankastarfsemi og búnir verði til bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er, við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Þess vegna eigum við alls ekki að selja bankana frá okkur núna, heldur nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið. Að því loknu mætti skoða hagkvæmni þess að selja hluta kerfisins.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.