Útgefnar skýrslur á færslusniði

Samúð og samkennd – ræða Loga

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 13. september 2017. 

 

Frú forseti, kæru landsmenn.

Einhvern tímann hefði það þótt skynsamlegt, þegar forsætisráðherra semur stefnuræðu á sama tíma og fjármálaráðherra skrifar fjárlagafrumvarp, að þeir bæru örlítið saman bækur sínar.
Það virðist þessum herramönnum þó ekki hafa dottið í hug. Þetta samskiptaleysi þeirra frænda er pínlegt.
Á meðan hæstvirtur forsætisráðherra talar um nauðsyn á góðu heilbrigðiskerfi og mikilvægi menntunar, birtir hæstvirtur fjármálaráðherra metnaðarlítið frumvarp, þar sem hvorugum málaflokknum eru sýndur skilningur.

Þá var ræðan dapurlegt framlag inn í komandi kjaraviðræður. Stéttarfélög og félagsmenn eru skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Nær væri að forsætisráðherra lærði af hinum Norðurlöndunum: Vinnumarkaðslíkan þeirra byggir ekki eingöngu á efnahagslegum stöðugleika; heldur líka félagslegum. Það mætti ríkisstjórnin að fara að skilja. Á hinum Norðurlöndunum er fjárfesting hins opinbera í velferðar- og menntakerfinu ásamt umbótum í atvinnulífinu stór hluti af sátt á vinnumarkaði: Raunverulegar lausnir í húsnæðismálum, auknar vaxtabætur, ríkari stuðningur við barnafjölskyldur hefðu liðkað fyrir, en í nýjum fjárlögum er þetta því miður allt skorið við nögl.

Þá er ömurlegt að vilji almennings um uppbyggingu á opinberu heilbrigðiskerfi skuli fullkomlega hunsaður. Sú aukning sem þó er boðuð mun lenda í vasa einkaaðila, og grafa enn frekar undan opinberri heilbrigðisþjónustu.

Hæstvirtur forsætisráðherra talar um mikilvægi öldrunarþjónustu.
Veit hann virkilega ekki að hún er vanfjármögnuð um marga milljarða. Sá kostnaður er m.a. borinn uppi af nokkrum sveitarfélögum sem þurfa að borga hallann með útsvarstekjum, sem ætlaðar voru í aðra þjónustu. Þetta rýrir samkeppnishæfni þeirra og er óboðlegt.

Hæstvirtur forsætisráðherra bítur þó höfuðið af skömminni þegar hann fullyrðir í ræðunni, að það skipti engu máli að skattbyrði hækki mest á lægstu launin. Almenn velsæld hafi nefnilega aukist svo mikið.
Skítt með þótt bilið milli þeirra hæst og lægst launuðu breikki.

Það væri kannski ágætis hugmynd að hæstvirtur forsætisráðherra bankaði uppá hjá nokkur þúsund börnum sem líða skort, fólki sem hrekst um á ótryggum húsnæðismarkaði, öryrkjum sem lifa margir á hungur lús eða öldruðum í krappri stöðu. Hann gæti kannski hjálpað þeim að finna, og tína upp brauðmolana, sem falla af veisluborðinu, sem aldrei fyrr.

Við erum ríkt land og getum vel boðið öllum mannsæmandi líf. Það verður aðeins gert með klassískum aðferðum sem gert hafa Norðurlöndin að fyrirmynd annara ríkja: Með því að tryggja öllum öryggi, velferð og menntun og ekki síst skipta gæðum og byrðum réttlátar.

Frú forseti. Það er mikilvægt að ríða þétt öryggisnet sem grípur fólk ef það af einhverjum ástæðum fellur milli skips og bryggju og tryggir þeim öryggi og skjól.
En fyrst og fremst eigum að skapa samfélag sem gefur öllum tækifæri til að eflast, þroska hæfileika sína og standa á eigin fótum. Það er því skammsýni að gefa ekki eldra fólki tækifæri á að vinna, án þess að megnið af þeim launum skerðist. Og það er óviturlegt að bæta ekki kjör öryrkja, skerða húsnæðisstuðning og draga úr barnabótum.

Vissulega er alltaf mikilvægt hlutverk stjórnvalda að bregðast við óvæntum aðstæðum og leiða þær sem best til lykta. En við megum þó ekki festast algjörlega í stjórnmálum sem fyrst og fremst snúast um viðbragð. Hvort sem um er að ræða sveiflur á gengi örmyntar eða offramleiðslu á kindakjöti.
Við verðum að vera nógu skynsöm til að horfa til framtíðar og nógu djörf til að fjárfesta í henni.

Þær breytingar sem eru að verða á samfélagi okkar, samfara aukinni tölvu- tækni og sjálfvirknivæðingu, beinlínis krefjast þess. Atvinnulíf framtíðarinnar mun í auknu mæli þurfa að byggjast á þróun og nýsköpun og þar þurfum við að reiða okkur á eiginleika eins og sköpun, innsæi og frumkvæði.
Aukin framleiðni og verðmætasköpun eru forsenda þess að við getum tekist á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar, skapað samfélag þar sem allir eru virkir þátttakendur og staðist samkeppni við aðrar þjóðir.

Í dag getur ungt fólk valið sér allan allan heiminn að vettvangi og við verðum að fjárfesta í framtíð þess ef við viljum vera í fremstu röð. Svarið við þessari áskorun er menntun, menntun og aftur menntun.

Skólastarf þarf að taka mið af þessari nýju framtíð. Menntun verður hluti af veruleika einstaklingsins, með einum eða öðrum hætti, alla ævi. Við eigum að leggja enn meiri áherslu á tækni- og skapandi greinar; líka menningu og listir. Þær veita manninum ekki bara ánægju, heldur skipa stöðugt stærri sess í atvinnulífi þjóðarinnar og þroska frumlega og skaspandi hugsun. Sókn í menntamálum mun vissulega kosta okkur mikla peninga í upphafi en skila sér margfalt, þegar lengra líður.

Frú forseti. Við höfum vissulega náð góðum árangri í jafnréttismálum, en eigum þó enn langt í land.
Áskorunin felst ekki síst í því að breyta óskrifuðum reglum og gildismati samfélagsins. Þau eiga sér rætur í margra alda kerfi sem stjórnað hefur verið af okkur körlum.
Á síðustu árum hafa fleiri og fleiri rannsóknir afhjúpað hvernig þáttur kvenna var beinlínis falinn, langt fram á okkar daga. Við erum enn að glíma við óútskýrðan kynbundin launamun og hefðbundin kvennastörf eru oftar verðmetin ver en dæmigerð karlastörf, nægir þar að nefna kennslu og umönnun.

Við þekkjum líka öll dæmi af bryggjukallinum sem var búinn að eyðileggja skrokkinn af púli um miðjan aldur. Erfiðisstörf samtímans eru iðulega unnin af konum. Góð dæmi eru fiskvinnslukonur og sjúkraliða.

Við verðum að horfa sérstaklega á slíkar staðreyndir þegar samið er um kaup og kjör næstu misseri.

Kæru þingmenn
Við trúum því að allir menn séu fæddir jafnir og með víðtæk mannréttindi.
En það er þó grundvallarmunur á því hvaða merkingu við leggjum í þetta og hvaða leiðir stjórnmálaflokkar vilja fara til að tryggja þetta. Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd gegnum tíðina. Í krafti 30% fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70% þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans né stefna.

Það eru gömul og ný sannindi að bátur kemst hraðar og lengra ef fleiri leggjast á árar og þess vegna er brýnt að flokkar sem aðhyllast félagshyggju og mikla samhjálp nái vopnum sínum.
Við verðum að skilgreina mikilvægustu snertifletina, vinna þéttar saman og þá, verðum við raunverulegur valkostur, fyrr en varir. Um stór mál getum við alltaf sameinast, þótt okkur greini á um einstakar útfærslur: Ég nefni aukin jöfnuð, sterkt opinbert mennta- og heilbrigðiskerfi, sanngjarnt afgjald af auðlindum og nýja stjórnarskrá. Ef okkur auðnast þetta ekki höldum við áfram að vera á víxl, fylgitungl Sjálfstæðisflokksins, með vel þekktum afleiðingum, bæði fyrir flokkana en sérstaklega fyrir samfélagið.

Kæru landsmenn. Við höfum ekki alltaf verið vel stæð þjóð; raunar aðeins í skamman tíma. Fyrir rúmum 100 árum vorum við meðal fátækustu þjóða í vestur Evrópu. Í upphafi Brekkukotsannáls, segir Álfgrímur, með leyfi forseta:

„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“
Tilvitnun líkur. Þessi orð eru vissulega upp úr skáldsögu en lýsa þó nöprum veruleika þess tíma á Íslandi.

Og þau nísta ekki síst inn að beini, vegna þess að það er svo stutt síðan forfeður okkar, jafnvel afar og ömmur, gátu almennt ekki tryggt börnum sínum öryggi og mikil óvissa var um hvort þau kæmust á legg.

Þjóð sem bjó við slíkar aðstæður fyrir örfáum áratugum, hlýtur og verður að geta sett sig í spor annarra. Stutt og sýnt þeim kærleik, sem nú búa við svipaðar og jafnvel verri stöðu.

Aðstoð við einn hóp í erfiðri stöðu er ekki á kostnað annars sem á bágt. Við erum rík þjóð og höfum vel efni á því að gera vel við þá báða, ef við aðeins deilum gæðunum jafnar.

Góðir landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft er samúð og samkennd líklega það fallegasta sem mannskepnunni er gefið.

Eldhúsdagur: Guðjóns S. Brjánsson

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi þann 29. maí 2017. Guðjón S. Brjánsson talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar ásamt Loga Einarssyni, formanni.

 

Virðulegur forseti, kæru landsmenn, það vorar á Íslandi, birtir um allt, gróandinn er í algleymingi hvert sem litið er.  Það árar líka vel í samfélaginu, tekjur hins opinbera jafnt sem fyrirtækja nálgast áður óþekktar hæðir, atvinnaástand er gott.  Við þessar uppörvandi aðstæður er þó glímt við ýmis hagræn vandamál. Upp í hugann kemur fyrst hinn óstöðugi litli gjaldmiðill sem feykist um, upp og niður líkt og fiðrildi í frísklegum sunnan þyt. Hátt gengi íslensku krónunnar þessi dægrin er áhyggjuefni stjórnvalda. Afstaða þeirra til krónunnar er svipuð og hjá Don Kíkóti í baráttunni við vindmyllurnar, afneitun og veruleikafirring.  Það er ekki annað að sjá en stjórnvöld einfaldlega skorti þekkingu, framsýni eða dirfsku til að taka á þessum vanda sem liggur áfram óleystur, vanda sem einn og sér veldur landsmönnum ómældum útgjöldum.  Jafnaðarmenn boða hins vegar raunhæfa leið til hagsbóta fyrir almenning frá þeirri nauðung sem krónan veldur

Í efnahagslegu góðviðri eins og nú ríkir fer fiðringur um peningaöflin í landinu, öflin sem sitja við völd í íslensku samfélagi.  Við minnumst með hryggð þeirra stóru áfalla og niðurlægingar sem þjóðin upplifði fyrir nokkrum árum þegar þjóðarskútunni var siglt í strand. Þeim leiðangri stýrði Sjálfstæðisflokkurinn með sína ógæfulegu áhöfn.  Og enn berja þeir sér á brjóst eins og enginn sé morgundagurinn.  Loks þegar búið er að losa skútuna af strandstað og farsæl sigling hafin á ný, þá taka þeir upp gömlu sjókortin aftur og ætla vísa leiðina. Það má ekki viðgangast og því verður aðeins afstýrt,  að þessi ríkisstjórn valdastólanna víki og við taki velferðarstjórn fyrir fólkið í landinu.

Virðulegur forseti, ágætu landsmenn, ráðandi öfl telja nú hæfilega langan tíma liðinn frá hruni, að þeir peningar Íslendinga sem enn liggja í skjólum út um veröldina fái nú vinnu. Peningar sem hurfu sporlaust um nótt af landi brott með hjálp grímuklæddra manna. Nú er flest til sölu, Áfengisbúðir til einkaaðila, bankarnir, Keflavíkurflugvöllur upplögð söluvara, góð hugmynd að selja vegabúta og gera þá gjaldskylda og framhaldsskólana líka – og svo auðvitað bestu bitana úr heilbrigðisþjónustunni, nema hvað.  Allt er þetta gulltryggður bisness. Það er búið að rúlla út rauða dreglinum fyrir kaupahéðna sem bíða í röðum.  Þjóðin er ekki búin að gleyma sölunni á Símanum sem flýta átti byggingu nýs Landspítala. Muna menn ekki enn hvernig fór fyrir þeim sveitarfélögum sem létu undan frjálshyggjupésum og seldu frá sér flestar fasteignirnar til að leigja þær síðan aftur. Það átti að vera miklu hagstæðara að nýta féð til uppbyggingar en ekki vera með það bundið í eignum eins og það var orðað, það væri gamaldags. Þessi sveitarfélög lentu flest hver í fjárhagslegum háska.  Nú er sama mantran kyrjuð upp á nýtt.

Um leið og við horfum til uppbyggingar og framfara skulum við vera á varðbergi gagnvart lýðskrumi og prettum.  Minnug þess að enginn flokkur hefur kostað íslenska þjóð jafn mikið með efnahagslegum afglöpum og Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég nefndi hér að framan að það væri uppgangur í íslensku samfélagi. Brúnin virðist létt á landsmönnum nú í sumarbyrjun, að minnsta kosti er kaupgleðin umtalsverð, það er galsi í verslun og viðskiptum. Samfélagið nýtur allt góðs af, ríkissjóður eflist og það er borð fyrir báru. Það styrkir okkar til að standa vel saman um að veita öllum þegnum brautargengi.  Og hefur ekki ríkisstjórnin skilning á því?  Á kjörum þeirra sem skildir hafa verið eftir árum saman af því að tímarnir voru svo erfiðir?  Nei, því miður og það er smán hvernig við förum að ráði okkar. Jafnaðarmenn geta ekki unað við óbreytt ástand, við heimtum að blaðinu verði snúið við strax.

Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og þeim gert erfiðara um vik að búa í haginn og ala upp börn sín, sprota framtíðarinnar við öruggar aðstæður. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman eins og í tíð fyrri ríkistjórnar. 12.000 barnafjölskyldur urðu af barnabótum á því tímabili og þeim fjölgar enn sem búa munu áfram við þrengri kost og fátækt. Við erum hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin.

Sömu sögu er að segja um fæðingarorlof.  Stjórnarliðar hafa engan skilning á þörf fyrir átak, hvorki með hækkun á hámarksgreiðslum eða lengingu fæðingarorlofs.

Aldraðir sitja enn óbættir hjá garði og tekjulægstu hóparnir búa við kjör sem eru hrein vanvirða. Óljós vilyrði eru gefin um bragarbætur á hagsmunum öryrkja, í fyrsta lagi árið 2019.  Á meðan búa þeir við flókin, ógagnsæ réttindi, hópur sem stendur mjög höllum fæti.

Það geta allir í samfélaginu lifað við fjárhagslegt öryggi og það eiga allir okkar þegna að fá þetta tækifæri. Þetta er ekki draumsýn, við höfum efni á því.  Þetta er spurning um áherslur og forgangsröðun. Og góðir landsmenn, það skiptir máli hverjir stýra, það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn.  Þeir sem nú stýra skynja því miður hvorki daginn né veginn, við hvaða kjör barnafjölskyldur, leigjendur, aldraðir eða öryrkjar búa. Skynja ekki ákall og kröfu þjóðarinnar um breytingar, jöfnuð, réttlæti og sanngirni.

Virðulegur forseti, ég trúi því að þjóðin, allir landsmenn eigi betri ríkisstjórn skilið en við búum við í dag, ríkisstjórn sem stendur við fyrirheit um átak í velferðarmálum en svíkur þau ekki. Í þeirri von að birtutíðin fram undan og útivera geri stjórnarliðum gott, að þeir nái áttum og það renni upp fyrir þeim ljósið, þá óska ég þeim og landsmönnum öllum farsældar og gleði í sumar

Eldhúsdagur: Logi Einarsson

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi þann 29. maí 2017. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar ásamt Guðjóni S. Brjánssyni

 

Ræða Loga í fyrstu umferð:

Frú forseti.  Það er vissulega forvitnilegt fyrir nýjan þingmann að horfa um öxl og gera upp þingveturinn.

Það var súrt að ekki skuli hafa tekist að mynda stjórn um kerfisbreytingar: Réttláta meðferð auðlinda, nýja stjórnarskrá og framtíðar tilhögun peningamála, sem tryggði jafnari lífskjör og stöðugra efnahagslíf.

Og það var skúffandi og um leið ótrúlegt sjá flokka, sem fyrir kosningar töluðu fyrir slíkum málum, henda loforðum sínum í ruslið í skiptum fyrir fáein misseri í ríkisstjórn.

Stærstu vonbrigðin eru þó að horfa upp á fullkomið skilningsleysi gagnvart þeim sem minnst hafa milli handanna, svik á stórfelldri uppbyggingu innviða og algjört  metnaðarleysi þegar kemur að því að búa okkur undir þær stórkostlegu breytingar á atvinnuháttum sem  eru handan hornsins.

Við megum ekki festast í viðbragðs stjórnmálum þar sem metnaðurinn snýst aðeins um það að lágmarka tjónið þegar skaðinn er skeður.

Frú forseti, samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu.

Nýja iðnbyltingin er að þessu leyti frábrugðin þeim fyrri að nú mun tæknin ekki eingöngu leysa vöðvaafl af hólmi, heldur líka hugaraflið að einhverju marki.  Gervigreindin gefur vélum áður óþekkta hæfni.

 

Þær eru farnar að hlusta, tala og skilja. Þurfa ekki daglega stjórn frá mönnum til að leysa flókin og margbreytileg verkefni. Störf sem bæði háskólamenntaðir og minna menntaðir sinna í dag munu hverfa. Þótt tæknin hafi verið í stöðugri þróun er ýmislegt sem bendir til þess að í hinum stafræna, vel tengda heimi, munu þessar breytingar gerast á ógnarhraða; hraðar enn nokkru sinni áður .

Þessi nýi veruleiki gefur okkur tækifæri til meiri samskipta við fjölskyldu, vini og auknar frístundir.  Þá felast í honum miklir möguleikar fyrir mannkynið allt: Jafnari skipting gæða milli ríkari og fátækari hluta heimsins, vistvænni framleiðsla og mikilvæg viðbrögð við loftlags vánni.

Sem sagt: friðsælli og betri heimur.

Að honum geta stafað ógnir. Það þarf að kortleggja hvaða störf breytast, tapast og hvað ný störf verða til. Hindra þarf að hagnaður slíkrar hagræðingar endi allur hjá þeim sem eiga fyrirtækin.  Slíkt mundi leiða til enn meiri misskiptingar og gera okkur vanmáttug til að standa undir almannaþjónustu.

Menntun er lang mikilvægasti undirbúningur okkar fyrir slíka framtíð.  Skapandi hugsun og tölvufærni mun verða lykilþáttur í þróun atvinnulífsins.

Ekkert í stefnu stjórnarinnar mætir þessu:

Framlag til framhaldsskóla, háskóla og nýsköpunar eru í engu samræmi við það sem þau þyrftu að vera.  Áfram verða íslenskir háskólar hálfdrættingar á við það systurskóla sína Norðurlöndunum.

Loforð um að framhaldsskólarnir njóti  hagræðingar vegna styttingar þeirra var svikið. Fleiri hundruð milljónir verða hrifsaðir úr skólunum á næstu árum. Komið hefur í ljós að hér var um sparnaðaraðgerð að ræða en ekki áform um að bæta skólastarf í landinu.

Þegar rætt eru um styttingu náms má spyrja hvort sníða eigi ungu fólki svo þröngan stakk. Er rétt að herða svo að kröfum um námsframvindu að ekki gefist tími til þess að njóta lífsins, sinna tómstundum og prófa sig áfram á þessu mikilvæga þroskaskeiði.

 

Frú forseti. Ríkisstjórnin hlustar ekki á þjóðina þegar kemur að heilbrigðismálum. Hún hunsar vilja 92. prósenta sem vilja aukna fjármuni í málaflokkinn og skellir skollaeyrum við þeim 86 prósentum sem vilja reka félagslegt heilbrigðiskerfi.

Opinbera heilbrigðiskerfinu er haldið við sultarmörk meðan fjármunir renna ljúflega í einkarekstur, án þess að sýnt sé fram á hagkvæmi slíks. Þar er kraninn opinn. Ríkisstjórnin tilbúinn að borga eftir hendinni þegar læknar í einkarekstri senda reikning en opinberum stofnunum sagt að hagræða.

Landspítalinn er orðinn svo heit kartafla að stjórnin getur ekki haldið á henni. Hún ræður ekki við reksturinn; sér þá einu lausn að setja pólitíska agenta yfir stjórn spítalans til að fela vandræðagang sinn.

Þrátt fyrir þá staðreynd að margt sé vel gert í heilbrigðismálum er æpandi sú staðreynd að þeim fjölgar sem sleppa því að sækja sér læknisþjónustu vegna kostnaðar.

 

Góðar samgöngur og fjarskipti eru ekki bara spurning um öryggi. Í þeim felst jöfnun búsetuskilyrða og mikilvægur stuðningur við atvinnuuppbyggingu. Það er ótækt að ekki sé staðið við þau loforð sem allir flokkar gáfu fyrir kosningar.

Sú uppbygging er einmitt fyrirtaksleið til að huga að hinu smáa í atvinnulífinu.  Slík uppbygging gagnast alls staðar, ekki síst smáum fyrirtækjum.  Þannig, erum við líklegust til að styrkja byggðir landsins; reisa þeim öflugar stoðir og glæða lífi.

Örvun smáfyrirtækja hefur ótvíræða kosti: Uppbyggingin er ódýr, áhættulítil, þarfnast lítillar yfirbyggingar og gerist hægt eða hratt, eftir smekk, vilja eða nauðsyn. Fólk getur starfað við það sem hugurinn girnist, hvar sem er. Fyllt líf sitt af meiri hamingju, sem er gott fyrir fjölskyldulífið, smitar út í samfélagið og styrkir byggðirnar.

Það þarf að ráðast í framkvæmdir strax og skjóta rótum undir ferðaþjónustu um allt land.

Eina ráð ríkisstjórnarinnar er að selja mikilvægar og vel reknar einingar, s.s. Keflavíkurflugvöll, til að fjármagna uppbygginguna.

Sama vitleysa birtist líka í áformum um einkavæðingu Fjölbrautaskólans í Ármúla. Stjórnin ræður illa við ríkisreksturinn. Hún er föst í gömlum hægri tuggum sem ekki hafa staðist tímans tönn.

Sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að aukinn jöfnuður sé farsælasta leiðin til að skapa kraftmikið samfélag velsældar og friðar.  Það er því óþolandi að ríkisstjórnin noti ekki skattkerfið og markaðstengd auðlindagjöld til þess að auka jöfnuð og gefa öllum tækifæri til þátttöku.

Í fjármálaáætlun er meira að segja fullyrt að skattlagning sé andstæða frelsis.

Hvaðan kemur sú undarlega hugmynd frú forseti?

Samneyslan skapar þvert á móti flestum landsmönnum frelsi. Hún tryggir stærstum hluta almennings áhyggjulítið og innihaldsríkt líf.  Við gætum þó með sanngjarnara skattkerfi gert enn betur.  Hægt væri að tryggja öllum betri skólagöngu, ódýrari heilbrigðisþjónustu, áhyggjulaust ævikvöld og margvísleg önnur lífsgæði.  Án samneyslunnar væru flest okkar illa varin fyrir stórum áföllum sem henda flesta einhvern tímann á ævinni.

Því fullyrði ég á móti: Skattgreiðslur eru skynsamlegasta fjárfesting langflestra Íslendinga  á ævinni.

Í samneyslunni birtist það fallegasta í mannlífinu; samkennd og samhjálp.

Með aukinni velsæld landsins hafa viðmið fyrir það sem er nauðsynlegt breyst. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og við sættum okkur ekki lengur við að eiga eingöngu til hnífs og skeiðar og öruggt húsaskjól. Við þurfum líka fóður fyrir andann. Því verða stjórnvöld líka að hafa metnað fyrir hönd íþrótta, menninga og lista. Ekki líta á þær sem einhvern lúxusvarning eða afgangsstærð.

Öll börn og unglingar eiga að hafa aðgang að þeim óháð efnahag foreldra.

 

Frú forseti, saman komumst við á lappir eftir hrunið á undra skömmum tíma. Það er ekki síst að þakka stórkostlegum fórnum almennings. Enn súpa þó alltof margir seyðið af því.  Við erum á leið upp úr öldudal en alltof margt fólk er enn í lágbárunni og á langt í land. Við þurfum nú öll að hjálpast að;  við megum ekki skilja neinn eftir.

Það er aumt til þess að vita að á einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði landsins, sé ekki svigrúm til þess.

Og umfram allt þurfum við að haga okkar efnahagsstjórn með þeim hætti að við siglum lygnari sjó. Við þurfum að viðurkenna að félagslegur stöðugleiki er ekki andstæða efnahagslegs stöðugleika og hvort tveggja forsenda þess að hér verði ró á vinnumarkaði.

Þá þurfum við ræða gjaldmiðlastefnu landsins af yfirvegun og með rökum en ekki neðan úr gömlum skotgröfum.

Við þurfum stjórnvöld sem trúa á mátt samhjálparinnar og þorir að afla tekna hjá þeim sem auðveldlega geta lagt meira að mörkum, í þágu þeirra sem hallari fótum standa og samfélagsins alls. Sem nýtir hinn frjálsa markað þar sem við á en stendur þéttan vörð um mikilvæga almannaþjónustu.

Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hefur meiri framsýni og kjark.

 

Ræða Loga í þriðju og síðustu umferð:

Frú forseti, nú þegar dagarnir eru hvað lengstir horfa flestir landsmenn fram á sumarfrí í faðmi fjölskyldunnar.  Og ef íslenskir stjórnmálamenn hefðu virkilega ráðið við hlutverk sitt, gerðu allir landsmenn þessa ríka lands það með tilhlökkun.

Þannig er það þó því miður ekki.

Um þessi mánaðamót munu þúsundir Íslendinga horfa í gaupnir sér og velta áhyggjufullir fyrir sér næstu dögum og vikum. Taka ákvörðun um hvort borga eigi reikninga, veita börnunum tómstundir í sumar eða greiða fyrir læknisþjónustu.

Þúsundir barna munu ekki upplifa drauma sumarfríið sem við betur stæðir foreldrar getum veitt okkar börnum.  Þessi börn munu þó líklega ekki hafa orð á neinu. Börn eru merkilega þroskuð. Flest munu þau bera harm sinn í hljóði og hlífa foreldrum sínum við þeim áhyggjum. En á huga margra þeirra  mun þó eflaust leita þessi nagandi spurning:  Af hverju hún, af hverju hann? Af hverju ekki ég?

Frú forseti.  Við fimm til sex ára aldurinn gerist svolítið ótrúlega fallegt og mikilvægt í þroskaferli barnsins. Það byrjar að finna til samúðar með öðrum.  Það lærir  að setja sig inn í aðstæður annara; finna til með öðrum. Hver hefur ekki reynt að hugga óstöðvandi grát barns þegar það skynjar sorglega atburðarrás í teiknimynd eða barnabók?

Þegar við fullorðnumst öðlumst við hæfileika til að setja hluti í samhengi , horfa á heildarmynd hlutanna en líka að hugsa abstrakt og brynja okkur fyrir tilfinningum gagnvart einstökum atburðum. Þá grípum við  gjarnan til þess að réttlæta alla mögulega og ómögulega hluti út frá heimi meðaltalsins og vístölunnar.

En frú forseti, við lifum ekki  í þannig heimi, öll erum við af holdi og blóði. Fólk sem á rétt til þess að lifa með reisn.

Þótt almenn lífskjör Íslendinga hafi batnað gríðarlega og ójöfnuður sé minni en víðast hvar er markmiðum okkar hvergi náð. Það verður að vera stefna okkar að skapa samfélag þar sem allir eru þátttakendur. Hver á sínum forsendum þó.

Ísland er nógu ríkt land og auðugt af auðlindum til að hægt sé að tryggja öllum ásættanleg kjör.  Til þess þarf að jafna gæðunum réttlátar og deila byrðum eftir getu hvers og eins.

Við getum auðvitað aldrei blandað pólitíska mixtúru sem gerir alla ánægða og hamingjusama; komið í veg fyrir sjúkdóma eða jafnvel mannlega breyskleika. En við getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör.

Meðaltölin fletja ekki bara út veruleikann heldur draga athygli okkar stundum frá vanda sem við er að etja. Þau geta jafnvel leitt umræðu á villigötur.

Nýverið birti menntamálastofnun tölfræði sem sýndi að nemendur á höfuðborgarsvæðinu stæðu sig betur í samræmdum prófum en börn utan af landi.   Draga mátti jafnvel þá ályktun að börn landsbyggðarinnar væru verri námsmenn og hefðu vanhæfari kennara. Eflaust eru einhverir skólar í fámenninu vanbúnari og  i verri færum.  En þegar niðurstöðurnar eru krufnar betur má sjá að einkunnir ráðast fremur af  félagslegri stöðu barns en búsetu þess. Þau börn sem búa við lakari félagsleg skilyrði, hafa veikara bakland og minni hvatningu, gengur verr.

Til að bregðast við þessum niðurstöðum er því nærtækast að auka  jöfnuð, laga búsetuskilyrði,  styrkja velferðarkerfið og ráðast gegn fátækt.

Dettur einverjum um í hug að barn efnaðra eða vel menntaðra foreldra sé fætt gáfaðra?

Fyrir þá sem ekki skilja eða viðurkenna þá mannfyrirlitningu  sem felst í miklum ójöfnuði  er kannski vænlegra að tefla fram efnahagslegum rökum gegn honum.

Vegna breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar þarf framleiðni að aukast eigi okkur að takast að bæta almenn lífskjör. Tæknibyltingin framundan mun kalla á vel menntaða, hugmyndaríka einstaklinga, með mikið frumkvæði. Af þeim ástæðum einum höfum við ekki efni á því að skilja nokkurt barn eftir. Við þurfum að þróa menntakerfi sem mætir ólíkum þörfum hvers og eins; byggja á styrkleikum þeirra í stað þess að hamra á veikleikunum.

Það er sorglegt að ríkisstjórnin geri það ekki að algjöru forgangsatriði að styðja betur við menntakerfið. Í því felst bæði virðingarleysi og skammsýni.

 

 

Samfylkingin lýsir yfir stuðningi við sjómenn

Á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina kom fram ríkur stuðningur við baráttu sjómanna við útgerðina sem hefur hagnast um hundruði milljarða á liðnum árum.

 

Samfylkingin lýsir yfir áhyggjum af stöðu launafólks í landvinnslu vegna aðgerða aðila í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem margir hverjir hafa sagt starfsmönnum upp þrátt fyrir margra milljarða króna hagnað fyrirtækjanna á liðnum árum. Útgerðin verður að deila arði af vinnslu þjóðareignarinnar með starfsfólki sínu og þjóðinni allri.

 

Samfylkingin hafnar lagasetningu á verkfall sjómanna.

 

Þess ályktun var samþykkt í framkæmdastjórn Samfylkingarinnar í kjölfarið á eindregnum stuðningi félagsmanna við sjómenn á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, 4. február sl. 

Samþykkjum ekki einkarekna sjúkrahúsþjónustu

Þingflokkur Samfylkingarinnar skorar á að heilbrigðisráðherra að samþykkja ekki einkarekna sjúkrahúsþjónustu. Það á að vera forgangsverkefni að styrkja opinbera hluta heilbrigðiskerfisins.

Umsókn um leyfi til að starfrækja sérhæft sjúkrahús í einkarekstri er á borði heilbrigðisráðherra. Samþykkt ráðherrans fæli í sér grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfinu.

Umsóknin snýr að starfsemi sem opinberu spítalarnir eru í fullum færum til að framkvæma og eiga að sinna. Samþykki ráðherra umsóknina fæli það í sér mikið óhagræði, veikari sérfræðiþjónustu og flutning á fjármagni frá fjárþurfa opinberu kerfi í hagnaðardrifinn einkarekstur. Kostnaður mundi aukast vegna lélegri nýtingar á þeirri þjónustu sem hið opinbera þarf að veita, m.a. til að sinna nauðsynlegri bráðaþjónustu.

Þá vekur þingflokkur Samfylkingarinnar athygli á að Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar hefur lagst gegn þessum áformum opinberlega. Það hefur forstjóri Landspítalans einnig gert og sagt þau skammsýni og óþarfa kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um að heilbrigðisráðherra þurfi að fá samþykkt Alþingis til að semja um aukin einkarekstur eða einkavæðingu. Það er mikilvægt að þingmenn sameinist um afgreiðslu málsins. Slíkar stefnumarkandi ákvarðanir eiga heima á Alþingi en ekki á bak við luktar dyr.

Guðjón um stefnuræðu

Ræða Guðjóns S. Brjánssonar nýs þingmanns Samfylkingarinnar í umræðu á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, 24. janúar 2017.

Frú forseti, góðir landsmenn,

við höfum í kvöld hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra og umræður og viðhorf stjórnmálaflokka á Alþingi,  – en nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir um velfarnað í öllum sínum verkefnum.

Stefnuræða forsætisráðherra var ljóðræn á köflum og full með fögrum fyrirheitum. Mörgum þótti nýleg stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar vera fátæk að innihaldi, lítið vera sem hönd á festi og flest leysast upp í fyrirvara og viðtengingarhætti – og eftir umræður kvöldsins er þetta enn blindingsleikur.  Hverjar eru áherslurnar þegar til kastanna kemur, hver er sýn nýrrar ríkisstjórnar um bætt og betra samfélag fyrir alla?

Fram kom hjá hæstvirtum forsætisráðherra að gildi eða leiðarstef ríkistjórnarinnar eru af tvennum toga og heita jafnvægi og framsýni, rammíslensk hugtök sem vekja jákvæð hughrif. En hvað tákna þau raunverulega í huga þeirra sem nú fara með húsbóndavaldið?  Heitir það jafnvægi að standa vörð um óbreytt ástand og skiptingu sameiginlegra gæða landsmanna eða þetta góða samband milli stjórnvalda og þeirra sem ráða yfir dýrmætustu auðlind þjóðarinnar gegn málamynda afnotagjaldi?  Er skilningurinn sá að ekki megi hrófla við þeirri kyrrstöðu, því jafnvægi sem ríkt hefur undanfarin ár um lífskjör barnafjölskyldna, aldraðra og þeirra sem hafa skerta starfsorku?

Frú forseti. Það eru allir sammála um að efnahagslegt jafnvægi, stöðugleiki og ábyrg fjármálastjórnun sé hornsteinn velferðar.  Það hefur á hinn bóginn ríkt smánarlegt ójafnvægi gagnvart stórum hluta þegnanna, hið efnahagslega og félagslega ójafnvægi. Það er ekki sæmandi í velferðarsamfélagi,  að þúsundir einstaklinga eigi tæplega til hnífs og skeiðar.  Við vitum líka að það býr í landinu fámennur hópur sem hefur ofgnótt fjár handa á milli,  og því miður eru engin merki um að nýrri ríkisstjórn sé kappsmál að draga úr ójöfnuði og vinna að auknu réttlæti og sanngirni að þessu leyti. Er þetta jafnvægið sem forsætisráðherra á við?   Ef eitthvað er, þá hefur óréttlætið eitt verið í jafnvægi og því verður að aflétta.

Framsýni er annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar.  Það verður tæplega sagt um Sjálfstæðisflokkinn sem hefur verið ráðandi stjórnmálafl í áratugi að framsýni hafi verið í forgrunni eða ábyrgð og umhyggja fyrir náttúru og umhverfi þessa lands. Viðreisnarbrot Sjálfstæðisflokks fylgir nú gagnrýnislítið sínum gamla húsbónda og sú hætta vofir yfir að horft sé til bjartrar framtíðar á nákvæmlega sama hátt og áður, með hagsmuni útvalinna í huga. Ný kynslóð kallar hins vegar eftir annarri hugsun, öðrum leiðum, og virðingu fyrir sameiginlegum eigum landsmanna, náttúru og auðlindum.

Við í Samfylkingunni, frú forseti hvetjum almenning til að gleyma ekki kosningaloforðum stjórnarflokkanna, hengið þau á ísskápinn í eldhúsinu, límið þau á rúmstokkinn í svefnherberginu, látið þau ekki hverfa úr huganum.  Hin góðu mál jafnaðarmanna hafa reynst þeim haldgóð til skyndinota, efndir að engu orðið, við höfum lifandi dæmin. Dýrmæt gildi okkar um aukinn jöfnuð, sanngjarna skiptingu gæðanna, samhjálp og réttlæti í þágu almennings eru hins vegar sígild og fyrir þeim munum við jafnaðarmenn berjast áfram, – fáliðuð um sinn á þingi.

Hávær umræða var um heilbrigðismál á nýliðnu ári, frú forseti sem snerist að umtalsverðu leyti um Landspítala og þann vanda sem blasir við starfseminni, bæði í rekstri og aðstöðuleysi. Spítalinn gegnir eins og allir vita lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna og það verður ekki undan því vikist að skapa honum grundvöll til eðlilegrar starfsemi.  Það eru fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar sem valda áhyggjum og brýnt að horfa til.  Heilsugæslan, grunnþjónustan er í lamasessi í Reykjavík og ekki síður á landsbyggðinni.  Á allflestum heilsugæslustöðvum þar,  er læknisþjónusta veitt að hluta til eða öllu leyti í skammtímaverktöku.  Svona hefur þetta verið frá efnahagshruni þegar stofnanir lutu allt að fjórðungs niðurskurði í fjárveitingum og bera ekki sitt barr eftir.  Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem landsbyggðin fer halloka og nýtur ekki jafnræðis.  Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar er að vinna að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu og krafan er vitaskuld sú að hugað verði að endurreisn á öllu landinu.

Frú forseti. Ný ríkisstjórn tekur við þegar vel árar, atvinnuvegir í blóma, afkoma góð og ytri aðstæður jákvæðar.  Þegar svona háttar til eigum við að hefja raunverulega endurreisn velferðarsamfélagsins,  þar sem enginn er undanskilinn og allir eru með. Ef það verður raunin, þá gleðjast sannir jafnaðarmenn þúsundum saman, hvar sem þeir eru í sveit settir á Íslandi.

Góðar stundir

Oddný um stefnuræðu

Ræða Oddnýjar Harðardóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í umræðu á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, 24. janúar 2017. 

Frú forseti góðir landsmenn.

Fögur fyrirheit voru gefin í ræðu forsætisráðherra. Hér þarf sannarlega að efla innviði samfélagsins og byggja upp grunnþjónustu og það var líka skýr krafa almennings fyrir kosningar. Ég treystir hins vegar ekki þessari ríkisstjórn til að gera þetta sómasamlega, hvað þá til að hafa jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi í verkum sínum, enda er því svo sem  ekki lofað.

Leiðarstef ríkisstjórnarinnar eru tvö að sögn forsætisráðherra: jafnvægi og framsýni. Það hljómar alls ekki illa, en ég veit,  og ég tel að þjóðin viti það líka af fyrri reynslu af verkum íhaldsaflanna, að skilningur okkar á þessum hugtökum er harla ólíkur. Jafnvægi í þeirra skilningi, merkir, að öllum brögðum megi beita. Hvort sem það er að fela auð fyrir skattinum, fela skýrslur fyrir almenningi fram yfir kosningar eða afvegaleiða umræðu með fölskum loforðum og skrautsýningum.

Það er hins vegar rétt sem forsætisráðherra segir, að þjóðfélagið er samansafn þeirra einstaklinga sem það byggja, með ólíka sýn og þarfir og það er vissulega „misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir“. En til þess að þjóðfélagið virki sem skyldi, þurfa allir að leggja sitt að mörkum.

Panamaskjölin sýna að stór hópur fólks kýs að geyma auðæfi sín í skattaskjólum og er þannig í stöðu til að ákveða sjálft, hve mikið eða hvort það leggur sitt að mörkum til samneyslunnar en fær samt að njóta góðs af öllu því sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Þeim finnst jafnvægið fólgið í því að aðrir beri þeirra byrðar við rekstur velferðarkerfisins.

Það sem Panamaskjölin upplýstu okkur um eru ákveðin merki um siðrof, sem varð á Íslandi, þegar ýmsir nýttu sér ófullnægjandi regluverk og lítið eftirlit til að velta byrðum yfir á aðra.  Ójöfnuður jókst í samfélaginu og græðgi náði nýjum hæðum. Þessi hegðun var og er meinsemd og þá meinsemd þarf að uppræta.

Það er ekki hægt að tala um jafnvægi, jöfn tækifæri eða sátt í samfélagi þar sem slíkt er látið viðgangast.

Nýlega las ég skáldsöguna Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, og sú bók varð mér mikið umhugsunarefni. Þessi hrollvekjandi skáldsaga vakti hjá mér hugrenningar um hve auðveldlega siðuð samfélög geta hrunið við áföll. Hversu brothætt samfélög eru í raun. Tekist er á við hvað það er að tilheyra fjölskyldu og vera Íslendingur, hvað sameini okkur og sundri og hve stutt getur verið í sérhygli, fordóma og öfga þjóðernishyggju.

Bókin vakti upp hugsanir um hvað hefði getað gerst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins,  en þó enn frekar um ýmsar hörmungar sem bæði sagan og nútíminn geyma um hrun menningarríkja. Þegar fólk telur sig ekki lengur þurfa að fylgja leikreglum samfélagsins.

Öll viljum við góða og örugga framtíð fyrir börn og afkomendur og við Íslendingar höfum verið lánsöm. En illska og hörmungar finnast víða í kring um okkur.

Við höfum horft á Sýrland líða undir lok á fáum árum, og við sitjum hálf máttvana hjá yfir þeim ósköpum þegar hundruð þúsunda saklausra er fórnað í illskiljanlegum stríðsátökum. Við getum ekki leitt flóttamannavandann hjá okkur.

Það er bara ein  jörð, eitt Hótel Jörð, og við Íslendingar erum ekki einu gestirnir. Ófriður og loftslagsváin er það sem rekur flóttafólk áfram í leit að betra lífi og margir vilja koma til okkar. Við eigum að mæta þessum vanda af samúð og mannúð og koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Ísland er fjölmenningarsamfélag eins og forsætisráðherra benti á í ræðu sinni og það þýðir að við verðum að bregðast við, mjög ákveðið og skýrt, gegn fordómum, öfgum og hatursorðræðu í garð innflytjenda.

Öfgafull þjóðernishyggja er að færast í aukanna víða um hinn vestræna heim. Við verðum að mæta slíku af ákveðni.

Ég vil því að lokum hvetja alla íslenska stjórnmálaflokka til að tengjast ekki með nokkrum hætti populískum öfgaflokkum eða þjóðernissinnum hvort sem er á Norðurlöndum, í Evrópu eða Vestanhafs og varast daður við slíka hugmyndafræði.

Kæru landsmenn. Tökum öll afstöðu með mannréttindum og lýðræðisöflum, jöfnuði og réttlæti. Tökum öll skýra afstöðu gegn öfgum og fordómum.

Góðar stundir

 

 

 

Logi um stefnuræðu

Ræða Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í umræðu á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, 24. janúar 2017. 

Það er sjálfsögð kurteisi að óska nýskipaðri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi og vona að störf hennar verði þjóðinni til heilla.

En þegar það hefur verið sagt, þá er líka rétt að halda því til haga að hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvernig hann efnir gefin loforð.  Sama á við um flokka.

Ef við berum saman kosningaloforð stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmálann birtist merkilegt ósamræmi:

Stórfelld uppbygging heilbrigðis- og menntakerfisins, viðamiklar kerfisbreytingar, þjóðaratkvæðargreiðsla um ESB viðræður, breytingar á stjórnarskrá eru allt mál sem virðast að finna sér nýjan og óvæntan farveg í stjórnarsamstarfinu.

Flokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar en slík fyrirheit eru ekki í sáttmálanum.

Við þekkjum nýleg dæmi úr matvælaframleiðslu, þar sem kjötlokur voru án kjöts og brúnegg, með vistvænum stimpli, voru lítið annað en útlitið. Það kölluðu menn vörusvik og vörunum var skilað.

Því miður er ekki hægt að skila atkvæði. Jafnvel þótt leiddur hafi verið til valda forsætisráðherra, sem sat á mikilvægri skýrslu um gríðarleg undanskot Íslendinga til aflandseyja. Og annarri sem sýnir að ríkisstjórn sem hann sat í á síðasta kjörtímabili mokaði peningum til ríkasta fólks landsins í nafni leiðréttingar en skyldi ungt og efnaminna fólk eftir.

Að undanförnu hefur mikið hefur verið rætt um sterka stöðu ríkisins og uppgang í efnahagslífinu og vissulega er ýmislegt sem hefur lagst með okkur.  En málin vandast þegar talað er eins og þjóðin sé ein manneskja.

Stundum henda atburðir sem láta okkur hrökkva við.  Við áttum okkur á því að á Íslandi búa 340.000 manns, þar sem hvert og eitt okkar skiptir máli.

Allar landsins vísitölur og meðaltöl segja nefnilega aðeins litla sögu.  Á bakvið aragrúa af tölum leynist fólk, af holdi og blóði:  Fólk sem býr við alltof ólík kjör.

Á Íslandi búa yfir 6000 börn við fátækt,  kjör öryrkja eru óviðunandi og aldraðir verða margir að neita sér um læknisþjónustu sökum fjárskorts.  Opinber þjónusta hefur laskast.

Við slíkar aðstæður verður að leggja alla áherslu á jafnari byrðar fólks. Þyngri á þá sem eru vel aflögufærir en hlífa venjulegu launafólki og þeim sem standa höllum fæti.

Engin slík áform eru uppi, þvert á móti:  Uppbyggingu innviða á svo að greiða með óljósum væntingum um bólgnara efnahagskerfi.

Þetta mun veikja hið norræna velferðar módel; ójöfnuður eykst og auðurinn færist á æ færri hendur. Og það gera völdin í samfélaginu líka.

Við sjáum nú þegar að auðugustu einstaklingar landsins hreiðra um sig samtímis í sjávarútvegsfyrirtækjum, tryggingarfyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum, dagblöðum og nú síðast í óþroskuðum og viðkvæmum leigumarkaði.

Ísland er ríkt land og hér eru aðstæður til að skapa eitt samfélag fyrir alla. Það nægir ekki að ríða  net sem grípur þá sem falla milli skips og bryggju, við verðum byggja samfélag sem aðstoðar fólk til sjálfsbjargar og gerir því kleift að byggja á styrkleikum sínum:  Samfélag þar sem  fá allir tækifæri og verkefni við hæfi.

Það er ekki einungis réttlætismál, heldur er samfélag jöfnuðar líklegast til að vera friðvænlegt, litríkt og samkeppnishæft.

Nú þurfum við að horfa til langrar framtíðar.  Huga að málefnum almenns launafólks, ekki síst ungu fólki.

Ungt fólk er okkar dýrmætasta auðlind. Í dag getur það valið sér allan heiminn að vettvangi og það er síður en svo sjálfgefið að Ísland verði fyrir valinu. Það þarf örugga vinnu, góða opinbera þjónustu, fjölbreytta afþreyingu en ekki síst öruggt húsnæði. Ungt fólk mun bera uppi samneyslu framtíðarinnar og það er skammarleg hvernig það er nestað í þann leiðangur.

Það er ótrúlegt að hvorki stjórnarsáttmálinn eða stefnuræðan geri húsnæðismál að forgangsatriði. Uppbygging langtíma leigumarkaðs, sem ekki byggir á skammtímasjónarmiðum eða gróðavon fyrirtækja, er forgangsmál.

Það verður að grípa strax til aðgerða og koma í veg fyrir að ungar fjölskyldur lendi á vergangi, vegna rándýrs og ótryggs leigumarkaðar.

Atvinnulíf er að taka stakkaskiptum.  Tæknibyltingin mun  hafa meiri áhrif á líf okkar en flesta grunar. Mörg almenn störf munu heyra sögunni til og verða framkvæmd af tölvum eða vélum.  Smjörþefinn finnum við þegar við innritum okkur í flug, greiðum fyrir vörur í IKEA eða notum heimabankaþjónustu.

Það er mikilvægt að gæta þess að ágóði af þessari hagræðingu  renni einnig til samfélagsins,  ekki bara í hendur fyrirtækjaeigenda, sem ýtir undir enn ójafnari skiptingu eigna og fjármagns.

Allar rannsóknir sýna að þau störf sem þó verða áfram unnin af mönnum munu krefjast sérhæfingar og menntunar.  Það er nauðsynlegt fyrir velgengni okkar og hamingju er að hér verði áfram mikil atvinnuþáttaka og því væri skammsýni að taka þessa þróun ekki alvarlega.  Vanfjármagnað menntakerfi er klárlega ekki svarið við þessu.  Enn lýsi ég furðu á að ekki sé vikið meira að þessari áskorun menntunnar í stjórnarsáttmálanum.

Við þurfum að aðlaga skólastarf að þessari nýju framtíð. Í henni verður menntun hluti af tilveru einstaklingsins, með einum eða öðrum hætti, alla ævi.  Þeir dagar eru liðnir að ungur einstaklingur haldi út á vinnumarkaðinn með prófgráðu undir hendinni, sem öruggan lykil að framtíðinni.

Atvinnulífið  mun í auknum mæli kalla eftir skapandi, hugmyndaríkum einstaklingum, með frumkvæði og þá eiginleika verðum við að byrja að styrkja strax í grunnskóla. Þetta mun vissulega kosta mikið í upphafi en skilar sér ríkulega þegar fram líða stundir.

Lítil þjóð hefur ekki efni á því að standa í ára eða áratuga löngum innbyrðis deilum.

Skipting arðs af náttúruauðlindum er dæmi um mál sem verður að nást sátt um. Og ekki síður ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum.

Annað og einfaldara mál sem er furðulegt að ekki hafi náðst að leiða til lykta, er staðsetning flugvallar í Reykjavík.  Á sama tíma og við landsbyggðafólk eigum réttmæta kröfu um gott aðgengi að stjórnsýslu, heilbrigðis- menntakerfi og menningu, höfuðborgarinnar, verðum við líka að virða og skilja sjónarmið Reykvíkinga.  Umræðan um þétta og skilvirka byggð er ekki einungis spurning um öryggis- og heilbrigðismál, heldur líka umhverfismál.  Með skynsamlegri uppbyggingu þéttbýlis eigum við einna mest að sækja í loftlagsmálum. Og þau eru einhver mikilvægustu verkefni samtímans.

Höfuðborgin þarf á sterkum landsbyggðum að halda en landsbyggðirnar þurfa líka á kraftmikilli höfuðborg að halda.

Mannkyn sem hefur komið sér til tunglsins , hlýtur að getað leyst tæknilegt úrlausnarefni af þessum toga, þannig að allra sjónarmiða sé gætt.

Sérstaklega er þegar lausn í því máli getur beinlínis falið í sér ávinning fyrir alla aðila, ef rétt er á málum haldið.

Þingið getur heldur ekki legið endalaust í skotgröfunum. Í grundvallaratriðum erum við mörg ósammála og tökumst endilega hart á um þau.

Sé hins vegar horft til úrslita kosninganna ætti þingið þó að getað náð breiðri sátt í mikilvægum málum, Ég nefni; umhverfis og loftslagsmál, stjórnarskrármálið, málefni flóttamanna, þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB viðræður og ekki síst sjávarútvegsmálum.

Við, Íslendingar, getum búið við sömu kjör og aðstæður og frændur okkar á Norðurlöndunum. Í samstarfi við systurflokka okkar og verkalýðshreyfinguna  höfum við greint hvað það er sem einkennir norrænu velferðarsamfélögin og hvernig við getum styrkt það á nýrri öld.

Huga þarf að þremur grunn stoðum:

  • Velferðinni; þar sem hið opinbera tryggir jöfn tækifæri allra,
  • Skipulögðum vinnumarkaði; þar sem launafólk, atvinnurekendur og hið opinbera eru sameiginlegir aðilar að heildarkjarasamningum
  • Ábyrgri efnahagsstjórn.

Því miður hafa stjórnvöld á liðnum árum glatað tækifærum til þess að koma á friði á vinnumarkaði með því að reka hér hægri sinnaða skatta- og velferðarpólitík. Allt bendir til þess að ný ríkisstjórn muni feta sömu slóð.  Áfram verði vegið að velferðinni.

Ríkisstjórnin gefur ekki skýr fyrirheit um hvernig á að takast á við vanda þúsunda barna sem búa við skort og fátækt, húsnæðisvanda ungs fólks eða aukinni misskiptingu í samfélaginu. Við það verður ekki unað.

Íslenskir jafnaðarmenn hafa unnið stóra áfangasigra. Lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður námsmanna eru dæmi um réttarbætur þar sem þeir lögðu styrkasta hönd á plóginn. Þá ótalið framlag okkar í þágu viðskiptafrelsis og opnari samskipta við önnur ríki.

Þótt við jafnaðarmenn séum tímabundið með lítinn þingflokk, munum við berjast áfram fyrir hugsjónum okkar:

Fyrir almannahagsmunum,  gegn sérhagsmunum og af alefli gegn því að lýðræðið láti í minni pokann fyrir auðræðinu.

Um myndun ríkisstjórnar

Bréf sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sendi félögum í Samfylkingunni 10. janúar 2017 þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð væru að mynda nýja ríkisstjórn.

Kæru félagar,

um leið og ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka það liðna er ljóst að okkar bíða mikilvæg verkefni. Í gær varð endanlega ljóst að nú verður til ríkisstjórn þriggja flokka; Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ekki verður annað séð enn að sú stjórn sé fremst mynduð um óbreytt ástand, þar sem varðstaða um sérhagsmuni og peningaöfl verður öflugri en áður hefur þekkst. Hún kemst á koppinn vegna atbeina tveggja flokka sem sigldu undir nokkuð fölsku flaggi í kosningarbaráttunni. Björt framtíð og Viðreisn lögðu báðar áherslu á kerfisbreytingar í mikilvægum málaflokkum, ekki síst til að hægt væri að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu á heilbrigðis- og menntamálum og bæta lífskjör almennings. Við blasir hins vegar að löngu tímabærar breytingar sem voru á stefnuskrá þessara flokka fyrir kosningar voru bara til skrauts og áframhaldandi auðsöfnun á fárra hendur þar sem enginn vilji virðist til þess að nýta tekjuöflunarmöguleika ríkisins til að dreifa byrðunum með réttlátari hætti.

Samfylkingin tók virkan þátt í tilraunum til stjórnarmyndunar, þótt með misjöfnum hætti væri. Tvívegis var gerð tilraun til að mynda umbótastjórn fimm flokka og það eru mér mikil vonbrigði að þær tilraunir bæru ekki ávöxt.  Raunar er það óskiljanlegt, því ekkert kom fram í viðræðunum sem bentu til þess að gjáin milli einstakra hreyfinga væri óbrúanleg.  Raunar vil ég fullyrða að enginn þessara fimm flokka hefði nokkurn möguleika á því að fá meira út úr því samstarfi en í öðru mynstri, a.m.k. ef taka átti baráttumál þeirra fyrir kosningar trúanleg. Í ljós kemur nú að Viðreisn hefur fullkomlega fellt grímuna sem harðskeyttur hægri flokkur. Hún gefur nú eftir helstu baráttumál sín, ESB, kerfisbreytingar í sjávar- og landbúnaði, fyrir ráðherrastóla. Í kaupunum fylgir raunar að hin nýja stjórn mun fylgja skattastefnu Sjálfstæðisflokksins, sem fellur henni líklega betur í geð, þótt þægilegra hafi verið að minnast ekki á hana í aðdraganda kosninga. Hvað varðar Bjarta Framtíð eru tíðindin kannski enn óvæntari og líklegast að flokkurinn hafi tekið sjálfan sig fram yfir stefnumálin og hag þjóðarinnar.

Þegar hyllti undir þessa nýju stjórn rétt fyrir jól, ræddu formenn Framsóknar og VG við mig um snertifleti flokkanna og hvort hægt væri að mynda ríkisstjórn þessara flokka ásamt Sjálfstæðisflokki. Að sjálfsögðu var þingflokkurinn til í samtal við þau, án þess þó að gefnar væru of miklar væntingar um að slíkt gæti borið ávöxt. Samtalið, sem var mjög óformlegt, varði fram yfir áramót. Það fór fyrst og fremst fram með símtölum en þó freistuðu menn þess að festa niður á blað einhvers konar sameiginlega sýn á verkefnin framundan. Þá kom í ljós að  ýmislegt greindi Samfylkinguna frá þessum þremur flokkum í grundvallaratriðum.  Mér fannst ólíklegt að vilji væri til þess að mæta kröfum Samfylkingarinnar í einstökum málum, sem eru reyndar að hluta til þau sömu og Viðreisn og Björt framtíð hafa gefið eftir nú. Ég gerði því formanni VG grein fyrir því að ekki væri grundvöllur til staðar af okkar hálfu til slíkrar eftirgjafar, án þess að verulegrar árangur myndi nást í jöfnun lífskjara og eflingu velferðarkerfisins. Þá benti ég henni góðfúslega á að þau þyrftu ekki okkar atbeina þar sem flokkarnir þrír byggju yfir nægilegum þingstyrk en VG virtust hins vegar ekki treysta sér í slíkan leiðangur nema hafa okkur með.  Í mjög mörgum málum eigum við mikla samleið með VG og munum ásamt þeim berjast fyrir réttlátara og heilnæmara samfélagi. Sá kokteill sem hér átti að bjóða uppá virtist ekki vera mikið annað en framlenging á stjórnarstefnu síðustu ríkisstjórnar.

Stefnumál Samfylkingarinnar eru okkur mörg of dýrmæt til þess að við getum látið hagsmunamat þæginda og valdastóla ráða för. Það munum við ekki gera. Ferðalag okkar verður því um fjallabak með erfiðum brekkum og óbrúuðum ám, en við hlökkum engu að síður til þess ferðalags.  Það er satt að segja góð tilfinning að vakna upp eftir kosningar, trúr stefnu sinni, vitandi það að öll barátta tekur tíma. Stjórnmál eru langtíma verkefni.  Þannig hafa líka sigrar okkar jafnaðarmanna unnist gegnum tíðina; með elju og þrautseigju.

Formenn stjórnarandstöðunnar hittust á fundi í gær til þess að stilla saman strengi sína, að því leiti sem það er hægt og skynsamlegt. Við erum sammála um að sýna nýrri stjórn fullt en málefnalegt aðhald. Þá höfum við ákveðið að reyna að sannmælast um nefndarskipan á Alþingi, og það verður mikilvægt að hinn litli þingflokkur Samfylkingarinnar fái ásættanlega lendingu í þau mál.

Verkefnin framundan verða að sjálfsögðu fjölmörg og ég mun reyna að gera þeim skil í stuttum bréfum til ykkar, eftir því sem tilefni gefast til. Við munum hins vegar, eins og áður sagði leggja rækt við okkar stefnu og vera henni trú. Veikleiki okkar er lítill þingflokkur og því þurfum við á allri hjálp flokksmanna að halda til þess að rödd okkar heyrist.  Við þurfum að kalla þau ykkar til sem kunnið á fjöl- og nýmiðla en ekki ekki síður þau sem treysta sér til að skrifa greinar. Á morgun mun framkvæmdarstjórn vafalaust ákveða fyrirhugaðan flokkstjórnarfund, og þar gefst okkur tóm til að varða leiðina fram á við og upp.

Verkefni dagsins  í dag á þingi eru því miður einkennandi fyrir þá þróun sem er að verða á íslensku samfélagi og við verðum að berjast gegn.  Það er raunveruleg hætta á því að í stað virks lýðræðis almennings, sé að verða hér til auðræði fárra.  Hún er heldur nöturleg skýrslan um eignir Íslendinga á lágskattasvæðum. Hún lýsir því vel hvernig vel stæðir einstaklingar og fyrirtæki hafa valdið hér stórkostlegu samfélagslegu tjóni, með kerfisbundnu undanskoti peninga. Einstaklingar sem sumir hafa dásamað íslensku krónuna flúðu sjálfir með sinn auð til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Þannig áttu þeir stóran þátt í að fella gengið í hruninu. Afleiðingarnar af því þekkjum við öll; venjulegu launafólki blæddi og fjölmargir misstu heimili sín eða urðu a.m.k. fyrir verulegum skakkaföllum.  Skattaundanskot eru grafalvarlegur glæpur sem grefur undan velferðarkerfinu, eykur ójöfnuð og leggur þyngri byrðar á þá sem minna mega sín.

Fjármálaráðherra, verðandi forsætisráðherra, leyndi skýrslunni í aðdraganda kosninga og það sýnir óvenjumikla forherðingu. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð gefur ekki fyrirheit um nýja og opnari stjórnarhætti af hálfu ríkisstjórnarinnar. Alveg sama þótt formaður Bjartrar framtíðar, teldi í viðtölum í gær, að ný vinnubrögð yrðu í öndvegi.

Ekki síst í þessu ljósi er ný ríkisstjórn kvíðvænleg og ljóst að jafnaðarmenn hafa mikið verk að vinna.

Kveðja,
Logi Einarsson
formaður Samfylkingarinnar.

Stjórnarskrá og fjármálakerfi

Ályktun aukalandsfundar Samfylkingarinnar haldinn 3-4. júní 2016

Eitt samfélag fyrir alla er sýn okkar jafnaðarmanna. Samfélag sem byggir á jöfnuði, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, heilbrigðri samkeppni og mannréttindum, með áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til mannsæmandi lífs.
Birting Panamaskjalanna dregur vel fram að gera þarf róttækar breytingar á íslensku samfélagi til að jafna ábyrgð okkar allra á rekstri þess og tryggja heilbrigða samkeppni í atvinnulífinu. Við viljum skapa þróttmikið og sanngjarnt samfélag sem byggir á gegnsæi í ákvarðanatöku og almennum leikreglum. Því höfnum við því að ákveðnir hópar fái forgang umfram aðra við sölu opinberra eigna og úthlutun auðlinda líkt og viðgengist hefur hér á landi og leitt hefur til misskiptingar og vantrausts.
Samfylkingin byggir á traustum grunni hundrað ára starfi verkalýðshreyfingar og jafnaðarmanna á Íslandi sem á brýnna erindi við almenning en nokkru sinni fyrr. Jafnaðarstefnan hefur lagt grunn að velferðarsamfélögum Norðurlanda og skapað skýran valkost við nýfrjálshyggju sem hefur leitt til vaxandi misskiptingar, siðrofs og vantrúar á stjórnvöld og stjórnmál víða um heim.
Við jafnaðarmenn viljum gera mikilvægar breytingar á íslensku samfélagi svo þessi markmið megi nást.

Stjórnarskrá og fjármálakerfi:
– Við viljum breyta stjórnarskránni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem meirihluti studdi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
– Við viljum jafna vægi atkvæða meðal landsmanna.
– Við viljum breyta íslenska fjármálakerfinu og aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi.
– Við viljum gera Landsbankann að þjóðarbanka.
– Við viljum endurreisa Þjóðhagsstofnun.