Úrslit í flokksvalinu í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson hlutu bindandi kosningu í fimm efstu sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kosningu lauk kl. 19 á laugardaginn 10. febrúar og neyttu 1852 félagsmenn atkvæðisréttar síns í flokksvalinu. Kjörsókn var 33,55%. Auð og ógild atkvæði voru 7.

Atkvæði í fimm efstu sæti féllu þannig:

 1. sæti – Dagur B. Eggertsson með 1610 atkvæði i fyrsta sæti, eða 87%
 2. sæti – Heiða Björg Hilmisdóttir með 1126 atkvæði í fyrst og annað sæti
 3. sæti – Skúli Helgason með 708 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti
 4. sæti – Kristín Soffía Jónsdóttir með 732 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti
 5. sæti – Hjálmar Sveinsson með 779 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti

14 voru í framboði og samkvæmt reglum um flokksvalið áttu kjósendur að greiða 8 til 10 frambjóðendum atkvæði. Niðurstaðan er bindandi fyrir efstu fimm sætin. Niðurstöðu flokksvalsins í heild sinni má sjá í töflunni hér fyrir neðan.

Ársþing Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar boðar til ársþings þann 1. mars. 2018 kl. 20. 00. í húsnæði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Strandgötu 43.

Dagsskrá:

 1. Skýrsla stjórnar.
 1. Reikningar félagsins lagðir fram
 1. Lagabreytingar
 1. Kosning stjórnar
 1. Önnur mál

 

Framboð til sjórnar!

Framboð til sjórnar skulu berast til formanns kjörstjórnar. Kvennahreyfingin auglýsir því eftir öflugum konum til þess að sitja í stjórn hreyfingarinnar næsta árið. Formaður er kosin sérstaklega en jafnframt eru kjörnir þrír aðalfulltrúar stjórnar og þrjár konur til vara. Velkomið er að hafa samband við formann Kvennahreyfingarinnar Steinunni Ýr Einarsdóttir í síma 869 3727 ef einhverjar spurningar eru.

 

Formaður kjörstjórnar er Dagbjört Pálsdóttir og framboð berist til hennar á netfangið daggapals@akureyri.is

Þingflokkur Samfylkingarinnar samgleðst Stundinni og Reykjavík Media

Þingflokkur Samfylkingarinnar samgleðst Stundinni og Reykjavík Media og fagnar því að Héraðsdómur skuli hafa hafnað kröfu Glitnis um staðfestingu á lögbanni Sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu á fréttaflutning af fjármálaumsvifum Bjarna Benediktssonar. Þetta mál er áminning um ómetanlegt hlutverk fjölmiðla við að veita aðhald og  upplýsingar sem eru ein forsenda lýðræðislegra stjórnarhátta.

Síðustu forvöð að skila inn tillögum til breytinga á málefnatillögum

Fimmtudaginn 1. febrúar eiga formenn aðildarfélaga að skila niðurstöðum/tillögum félagsfunda eftir umfjöllun þeirra um málefnatillögurnar til solveig@samfylking.is  Sama dag rennur út frestur til að skila tillögum að ályktunum frá aðildarfélögum eða einstökum félagsmönnum sem fjalla á um á landsfundi 2018 til solveig@samfylking.is.

Aðrar mikilvægar dagsetningar

Föstudaginn 9. febrúar eiga listar yfir fulltrúa aðildarfélaga á landsfundi að liggja fyrir lögum samkvæmt. Aðildarfélög skulu senda framkvæmdastjórn lista með nöfnum kjörinna landsfundarfulltrúa.

Fimmtudaginn 22. febrúar rennur út frestur til að skila formannsframboði  inn til framkvæmdastjórnar til gerda@samfylking.is.

2. mars Landsfundur settur

Formaður Landsfundarnefndar er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eitt samfélag fyrir alla – Tillaga að stefnu Samfylkingarinnar fyrir landsfund 2018

Síðustu forvöð að skila inn breytingatillögum á málefnatillögum

„Er forsvaranlegt að námsmenn lifi á 177 þúsund krónum?“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á bágum kjörum námsmanna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Beindi hann fyrirspurninni till Lilju Daggar Alferðsdóttur, menntamálaráðherra, og krafði hana svara um það hvort námsmenn megi vænta bættra kjara í væntanlegum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Lilja Dögg hefur enn ekki skipað nýja stjórn yfir Lánasjóðinn. Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur bent á að mikilvægt sé að það sé gert sem fyrst svo ný stjórn geti sett Lánasjóðnum úthlutunarreglur. Í nýjum úthlutunarreglum sé tækifæri til að bæta kjör námsmanna.

Lág framfærsla og dýrtíð á leigumarkaði

Guðmundur Andri spurði menntamálaráðherra um skoðun hennar á kjörum námsmanna. „Mig langar að heyra skoðun hæstvirts menntamálaráðherra, hvort henni þyki það forsvaranlegt að námsmenn lifi á 177 þúsund krónum áður en skerðingar hefjast,“ sagði Guðmundur Andri. „Í því sambandi er vert að rifja upp að frítekjumark námsmanna hefur ekki verið hækkað síðan 2014. Í þessu samhengi er líka rétt að muna að einungis níu prósent námsmanna við HÍ fá inni á stúdentagörðum, aðrir þurfa að reiða sig á almennan leigumarkað, þar sem ríkir skelfileg dýrtíð.“

Guðmunur Andri telur Lánasjóðinn ekki þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður: „Þessi lága framfærsla og lága frítekjumark festir námsmenn í vítahring því að þeir þurfa sífellt að vinna meira fyrir sér með náminu, sem er þó full vinna, eins og við vitum. Lánasjóðurinn var hugsaður til þess að efla jöfnuð og félagslegan stöðugleika, hann átti að vera nokkurs konar jöfnunarsjóður milli þeirra sem koma frá efnuðum heimilum og hinna sem ekki hafa slíkan fjárhagslegan bakhjarl. Eins og ástatt er um þennan sjóð þjónar hann ekki því hlutverki.“

Lilja svaraði á þann veg að það væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar að endurskoða umgjörð Lánasjóðsins og bæta kjör námsmanna. Mikilvægt sé að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag.

Logi í leiðtogaumræðum við upphaf vorþings

Ræða Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar í leiðtogaumræðum við upphaf vorþings, 22. janúar 2018

Mannkynið lifir á dramatískum tímum og Íslendingar bera sína ábyrgð á farsælli þróun jarðarinnar. Með nútíma tækni- og samskiptum hefur mannkynið aldrei verið nær því að vera eins og ein fjölskylda, þar sem öll bera ábyrgð hvert á öðru.  Pólitískur veruleiki hinu megin á hnettinum kemur okkur við og líf fólksins sem býr þar líka.

Í rúm sjötíu ár höfum við lifað í skugga kjarnorkusprengjunnar og gríðarleg orka farið í að viðhalda ógnarjafnvægi í heiminum.  Við lok kalda stríðsins önduðum við rólega í nokkur ár en blikur eru skyndilega aftur á lofti.   Þá höfum við gengið svo freklega á gæði jarðar að í óefni stefnir og höfum lítinn tíma til að snúa þróuninni við.

Það væri kaldhæðnislegt og afskaplega sorglegt  ef sú dýrategund sem býr yfir algjörum yfirburðum í lífríkinu, gerði jörðina óbyggilega, í stað þess að nýta þekkingu sína til að gera hana blómlegri.

Hugmyndakerfi sem keyrð hafa verið áfram af valdabaráttu, tortryggni og græðgi hafa stutt ósjálfbæra nýtingu, miskunnarlausa samkeppni, og um margt óheilbrigð viðhorf.

Þetta hefur leitt til þess að einstakir heimshlutar hafa orðið undir, lönd hafa farið halloka, stórir þjóðfélagshópar átt í vök að verjast og helmingur mannkyns, konur, beittar kerfisbundinni mismunun.

Styrjaldir, loftlagsógnin, kvennakúgun og kynþáttahatur eru hins vegar sjúkdómsmseinkenni, ekki sjálfur sjúkdómurinn. –  Hann heitir misskipting og gegn henni þarf að ráðast.

Það er tilgangslítið að berjast sífellt gegn birtingarmyndinni ef ekkert er gert til þess að ráðast að orsökunum. Álíka árangursríkt og reikna með því, að það að klóra sér, lækni hlaupabólu. Ísland verður auðvitað ekki afgerandi í baráttu fyrir betri heimi en við getum og ættum að sýna gott fordæmi.

Við eigum alltaf að taka afstöðu með friðsamlegum lausnum, ef þess er nokkur kostur.

Við þurfum að standa enn betur að þróunaraðstoð en nú er gert og virða samþykkta þingsályktunartillögu um hana frá árinu 2011.

Við þurfum að axla ríkari ábyrgð í málefnum flóttamanna,

Og við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi í loftlags- og jafnréttismálum.

En nærtækast og árangursríkast er þó að vinna stóra sigra á heimavelli og ráðast gegn sjúkdómnum sjálfum. Það gerum við með því að auka jöfnuð og útrýma fátækt.

 

Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu. Innan fárra áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við höfum þekkt hingað til.

Með nýrri tækni skapast mikil tækifæri til að komast á réttan kjöl.  Framleiðni getur aukist gríðarlega, einnig möguleikar á vistvænni framleiðslu, sem nauðsynleg viðbrögð við loftslagsógninni, en síðast en  ekki síst getur hún nýst til að jafna stöðu milli ríkari og fátækari hluta heimsins.

Þessum breytingum fylgja þó líka ógnir, ef ekki er rétt haldið á spilunum. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að sjá þá möguleika sem þessi tækni skapar í gerð nýrra vopna. Valdið og auðurinn getur færst á enn færri hendur, ójöfnuður aukist enn frekar og ýtt undir ófrið.

Því fagna ég boðaðri þverpólitískri vinnu um þessi mál, í samræmi við framlagða þingsályktun Samfylkingarinnar frá tveimur síðustu þingum og hugmyndum fleiri þingflokka.  Þar þarf ekki síst að endurhugsa skattkerfið og tryggja að ágóðinn af tæknivæðingunni verði ekki allur eftir hjá fyrirtækjunum.

 

Vissulega standa Íslendingar víða framarlega í samanburði við aðrar þjóðir. Jafnrétti er mikið, hér ríkir friður og við búum yfir auðlindum sem gætu gert okkur kleift að byggja mjög umhverfisvænt samfélag. Þá er fátækt víða minni.

Það er þó engin afsökun fyrir að láta staðar numið. Raunar ættum við að vera í meiri færum en ella.  Ísland er ríkt land og á einstöku hagsvaxtaskeiði gætum við gert betur en nokkru sinni áður.  Því eru áherslur nýrrar ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að þeim sem lakast hafa kjörin, mikil vonbrigði.

Í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sagði hæstvirtur heilbrigðisráðherra að til þess að mynda ríkisstjórn með þeim flokki sem Vinstri græn hafi gagnrýnt mest, hafi þurft skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Þau hafi haft það, þorað að taka frumkvæðið og gripið tækifærið.

Orðrétt sagði hún með leyfi forseta: „Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.“

Um leið og Samfylkingin fagnar hverri krónu sem sett er í styrkingu almannaþjónustunnar, teljum við enn of lítið gert og erum tilbúin að berjast með stjórninni, af meiri metnaði á því sviði, sé það gert með skynsamlegum hætti.

Við gagnrýnum hins vegar það hættuspil að fjármagna slík útgjöld með því að klípa af rekstrarafgangi ríkissjóðs en afla ekki tekna fyrir þeim. Slíkt getur auðveldlega leitt til hærri vaxta og aukinnar verðbólgu. Þessum áhyggjum deila bæði fjármálaráð og Peningastefnunefnd S.Í.

Og við hörmum að skattkerfið og önnur tekjujöfnunartæki séu ekki nýtt til þess að bæta stöðu viðkvæmustu hópanna; aldraðra, öryrkja, ungs fólks og tekjulágra, svo dæmi séu tekin.

Þá eru gefnir skattar lækkaðir um 21 milljarða frá fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar, sem hefði vel mátt nýta í baráttu gegn fátækt og skorti.  Loks verður fróðlegt að fylgjast með hvort ríkisstjórnin hyggist minnka arð þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum með lækkun veiðigjalds.

Miðstjórn ASÍ fullyrðir í ályktun að skattastefna núverandi stjórnvalda muni auka misskiptingu og varla er það gott vega nesti inni erfiða kjarasamninga á næstunni.

Er þetta virkilega hinn skýri pólitíski vilji Vinstri grænna, nú þegar „búið er að rétta efnahagslífið við eftir hrunið“, eins og hæstvirtur heilbrigðisráðherra orðaði það.

 

Herra forseti, til þess að hafa raunveruleg tækifæri til þess að dafna, þroska og nýta hæfileika sína þarf fólk að búa við viðunandi kjör.

Það geta ekki þau 6.000 börn sem búa við skort, ungt fólk sem hrekst um á ótryggum, gróða væddum leigumarkaði eða öldruð hjón sem njóta eingöngu tekna frá almannatryggingum. Þau fá hvort um sig tæplega 250.000 kr. á mánuði eftir skatt. –  Heldur ekki  aldraður einstaklingur sem fær 243.000,-krónur eða öryrki sem nær ekki einu sinni þeirri upphæð.

Þetta fólk getur ekki nýtt sér það fjölmarga sem Ísland hefur upp á að bjóða og telst nú til sjálfsagðra mannréttinda í dag. Þó það hafi kannski naumlega til hnífs og skeiðar, býr það við félagslega fátækt og vaxandi hópur þarf t.d. að neita sér um að leita til læknis.

Ríkisstjórnin hefur reyndar gefið í skyn að það eigi að ræða félagslegar umbætur í tengslum við kjarasamninga. En nauðsynlegt grunnkerfi á aldrei að vera skiptimynd í kjarasamningum og vinstriflokkur ætti að hafa meiri metnað en það:  Við eigum einfaldlega ekki að braska með fæði, klæði, húsnæði eða öryggi fólks.

Eins mikilvægt og það er að leitast við að ná breiðri sátt ólíkra sjónarmiða, eins og hæstvirtur forsætisráðherra hefur lýst þessu stjórnarsamstarfi, getur félagshyggjuflokkur tæplega sætt sig við málamiðlun sem leiðir til óbreyttrar þróunar í átt að aukinni misskiptingu.

 

Herra forseti.  Ríkisstjórnin birti í stjórnarsáttmálanum, metnaðarfullar tillögur í  loftlagsmálum en skortur á fjármögnun, í fjárlögum, veldur vonbrigðum.  Þá er áhyggjuefni að  ekkert er minnst á hlutverk hins byggða umhverfis í þessari baráttu; þrátt fyrir að þar sé kannski mest að sækja í málaflokknum.  Þar mun þétting byggðar og borgarlína höfuðborgarsvæðisins leika gríðarlega stórt hlutverk.  Í ljósi málflutnings fjögurra af fimm frambjóðenda, í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skiptir máli að heyra í þingmönnum flokksins, um stefnu hans og ríkisstjórnarinnar, varðandi þessa þætti.

 

Herra forseti, að lokum. Talsmönnum ríkisstjórnarinnar, var við myndun hennar tíðrætt um að hlutverk hennar væri að efla traust og auka pólitískan stöðugleika.

Traust er lykilþáttur í því að Alþingi og stjórnvöld geti risið undir skyldum sínum. Traust er þó hvorki hægt að kaupa eða krefjast. Það verður fólk að ávinna sér. Og eins mikilvægt og það er að forsætisráðherra skipi nefnd, sem útbúi vegvísa, er vísasta leiðin, að stjórnvöld og kjörnir fulltrúar hagi sé með þeim hætti, að það byggist upp.  –  Þá væri samþykkt nýrrar stjórnarskrár risaskref.

En ef einhver heldur að traust aukist með dómsmálaráðherra, sem hefur verið dæmd í Hæstarétti, fyrir afskipti sín að dómsvaldinu eða flokki sem hefur ekki náð að klára þrjú síðustu kjörtímabil sín í ríkisstjórn, fer hinn sami villu vegar.

Ríkisstjórnin hefur nú lifað sína stuttu hveitibrauðsdaga. Samfylkingin er fús til samstarfs en þá verða ríkisstjórnarflokkarnir að koma af fullri alvöru með okkur í að lengja fæðingarorlof, lækka greiðsluþáttöku sjúklinga, byggja mun fleiri leiguíbúðir og gera betur í baráttunni gegn ójöfnuði og fátækt.

Pétur Hrafn Sigurðsson leiðir lista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Pétur Hrafn Sigurðsson mun leiða lista Samfylkingarinnar í Kópavogi í  sveitarstjórnarkosningunum í vor.  Samfylkingin í Kópavogi hélt fund mánudaginn 15. janúar þar sem framboðslistinn var kynntur og samþykktur samhljóða.

Bergljót Kristinsdóttir formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og framkvæmdastjóri ICEPRO skipar annað sætið á listanum,  Elvar Páll Sigurðsson ráðgjafi í stafrænni markaðssetningu hjá PIPAR/TBWA  er í þriðja sæti og Donata H. Bukowska ráðgjafi í málefnum erlendra nemenda í Kópavogi skipar 4. sætið.

Listi Samfylkingarinnar í Kópavogi

1. Pétur Hrafn Sigurðsson

2. Bergljót Kristinsdóttir

3. Elvar Páll Sigurðsson

4. Donata H. Bukowska

5. Kristín Sævarsdóttir

6. Steini Þorvaldsson

7. Erlendur Geirdal

8. Svava Sigríður Svavarsdóttir

9. Tómas Þór Tómasson

10 .Þóra Marteinsdóttir

11. Sigurður Grétarsson

12. Hlín Bjarnardóttir

13. Steingrímur Steingrímsson

14. Róbert Gíslason

15. Helga Elínborg Jónsdóttir

16. Jóhann Hansen

17. Jóna Björk Gísladóttir

18. Magnús Norðdahl

19. Margrét Tryggvadóttir

20. Skafti Þ. Halldórsson

21. Rannveig Guðmundsdóttir

22. Sigríður Ása Richardsdóttir

Flokksval í Reykjavík 10. febrúar

Fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík, FRSR, ákvað á fundi sínum í dag, laugardaginn 13.janúar 2018, að viðhafa flokksval til að velja frambjóðendur í efstu sæti á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Valið fer fram þann 10.febrúar 2018 og framboðsfrestur er til 25.janúar 2018. Kosið verður um allt að 10 sæti og kosning bindandi í efstu 5 sæti listans með fyrirvara um kynjareglur flokksins.

Nánari upplýsingar gefur formaður stjórnar fulltrúaráðsins, Hörður J. Oddfríðarson í síma 7706067.

Hér fyrir neðan má finna reglur FRSR um flokksval 2018.

Reglur FRSR um flokksval 2018

 

Samfylkingin skrifar undir sameiginlega viljayfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Varaformaður Samfylkingarinnar, Heiða B. Hilmisdóttir undirritaði í gær, fyrir hönd Samfylkingarinnar, sameiginlega viljayfirlýsingu fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í henni kemur m.a. fram að íslensk lög og reglur kveði á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðin. Komi það upp skuli bregðast við því með markvissum hætti. Þá segir að öryggiskennd og góður starfsandi skipti sköpum fyrir vellíðan starfsmanna.

Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:

 • Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
 • Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að meðvirkni með geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.
 • Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
 • Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
 • Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
 • Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
 • Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
 • Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.

Viljayfirlýsingin var undirrituð á fundi Vinnueftirlitsins, stjórnar Vinnueftirlitsins og Velferðarráðuneytisins sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík. Markmið fundarins var að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Yfirlýsinguna er að finna í heild sinni vef Vinnueftirlitsins. Þar gefst forsvarsmönnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka jafnframt tækifæri til að undirrita hana með rafrænum hætti og gerast þar með aðilar að henni.

 

Landsfundur 2.-3. mars 2018

Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn dagana 2. og 3. mars á Reykjavík Natura. Landsfundur er opinn öllum flokksfélögum Samfylkingarinnar með málfrelsi og tillögurétt.

Aðildarfélögum ber að kjósa kjósa atkvæðisbæra fulltrúa úr hópi félagsmanna sinna. Ef þú hefur áhuga á að fara á landsfundinn og taka þátt í starfi Samfylkingarinnar sem fulltrúi félagsins þá skaltu endilega hafa samband við þitt aðildarfélag til að gerast landsfundarfulltrúi en kosningu fulltrúa á landsfundinn lýkur eigi síðar en 8. febrúar n.k.

 

Mikilvægar dagsetningar í undirbúningi landsfundar

 

Mánudaginn 15. janúar, 45 dögum fyrir landsfund rennur út lokafrestur til að krefjast allsherjaratkvæðagreiðslu vegna formannskjörs.

Fimmtudaginn 18. janúar er í síðasta lagi hægt að skila inn tillögum til breytinga á lögum flokksins. Breytingatillögum skal skilað inn til skrifstofu flokksins Hallveigarstíg 1, eða á netfangið gerda@samfylking.is.

Fimmtudaginn 1. febrúar eiga formenn aðildarfélaga að skila niðurstöðum/tillögum félagsfunda eftir umfjöllun þeirra um málefnatillögurnar til solveig@samfylking.is  Sama dag rennur út frestur til að skila tillögum að ályktunum frá aðildarfélögum eða einstökum félagsmönnum sem fjalla á um á landsfundi 2018 til solveig@samfylking.is.

Föstudaginn 9. febrúar eiga listar yfir fulltrúa aðildarfélaga á landsfundi að liggja fyrir lögum samkvæmt. Aðildarfélög skulu senda framkvæmdastjórn lista með nöfnum kjörinna landsfundarfulltrúa.

Fimmtudaginn 22. febrúar rennur út frestur til að skila formannsframboði  inn til framkvæmdastjórnar til gerda@samfylking.is.

2. mars Landsfundur settur

Formaður Landsfundarnefndar er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eitt samfélag fyrir alla – Tillaga að stefnu Samfylkingarinnar fyrir landsfund 2018