Er þetta ekki bara dæmigert minnihlutasvekkelsi? - ræða Guðjóns

Ræða Guðjóns S. Brjánssonar þingmanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 13. september 2017. 

Frú forseti, góði landsmenn,

Fallegt sumar er á hægu undanhaldi og dagarnir styttast.  Og mikil blessun væri það fyrir almenning í þessu landi ef það sama ætti við um núverandi ríkisstjórn, að dagar hennar færu líka að styttast og ljúka sem fyrst.

Við höfum hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra þar sem hann horfir yfir sviðið úr iðandi blómabrekkunni. Vissulega árar vel – fyrir suma, ekki alla.  Nefndi ekki forsætisráðherra í ræðu sinni einkunnarorðin jafnvægi og framsýni?

Venjulegu fólki, fjölskyldum, börnum og öldruðum er gefið langt nef, fátækt og húsnæðisskortur er viðvarandi.  Ríkir eitthvert jafnvægi í lífi þessa fólks? Hvers konar framsýni felst í því að draga úr möguleikum stórra hópa til samfélagsþátttöku, aldraðra og öryrkja?

En er þetta ekki full djúpt í árina tekið, er þetta ekki bara dæmigert minnihlutasvekkelsi.  Frú forseti, nei, því miður.  Nú á einstöku velmegunarskeiði eftir mögur ár,  þegar hægt er að rétta hlut þeirra sem höllum fæti standa, sýnir það sig hvað hefur forgang.

Ríkisstjórnin gumar af því,  að nú um áramót hefjist stórkostleg vegferð í þágu aldraðra sem muni á fimm ára tímabili enda með hundrað þúsund króna frítekjumarki. Ríkisstjórnin ætti að hafa dug í sér og hækka þetta strax að algjöru lágmarki.  Reynsla og geta þessa hóps er stórlega vanmetin.  Við þurfum á öllum vinnufúsum höndum að halda.

Þessa ríkisstjórn skortir tengsl við almenning sem upplifir á eigin skinni félagslegt óréttlæti, ósanngirni og mismunun. Barnafjölskyldurnar, þessar einingar sem við leggjum allt okkar traust á, framtíð Íslands. Þar hefur íhaldið í tveimur ríkisstjórnum gengið einbeitt fram, skert stuðning við börn. Hverfandi hópur nýtur nú barnabóta, húsnæðisbóta og enn stórlækka vaxtabætur.  Hvernig rímar þetta við orð forsætisráðherra um mikilvægi þess að hlúa að börnum og komandi kynslóð?  Rótin er stefna ríkisstjórnarinnar undir gamalkunnu ægivaldi Sjálfstæðisflokksins, þeim finnst þetta í lagi.  Það finnst okkur í Samfylkingunni ekki og við krefjumst þess að hlutur barnafólks verði réttur og að allar barnafjölskyldur njóti barnabóta, betra atlætis.

Það er sama hvar borið er niður í velferðarmálum.  Gammar sölsa undir sig heilbrigðiskerfið, líta á þjónustuna sem rífandi bisness sem hann sannarlega getur verið í höndum gróðaafla. Tekjurnar eru öruggar, ríkið borgar fyrir hvert viðvik og viðskiptahópurinn stór, áhættan lítil. Opinberar stofnanir hins vegar sem þegar eru á heljarþröm eiga ekki möguleika, búa við áframhaldandi fjársvelti.  Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu blasir ekki bara við alvarleg staða hjá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum, þær molna niður.  

Einkageirinn svífur hins vegar seglum þöndum, Sjúkratryggingar Íslands borga. stofnun fer endurtekið fram úr fjárlögum, átölulítið.

Frú forseti, góðir landsmenn.  Einhver kann að spyrja, hvernig er hægt að vera með svona mikla ólund á fallegu síðsumarkvöldi?  Þetta er bara ekki ólund, þessi veruleiki blasir við þúsundum Íslendinga.  Við jafnaðarmenn getum ekki unað þessu hrópandi misrétti.

Þetta snýst um stjórnmál hvernig komið er. Fátækt á Íslandi er afleiðing pólitískra ákvarðana. Á því ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð öðrum fremur. Þessu er hægt að snúa við og skapa samfélag þar sem enginn þarf að kvíða morgundeginum, hvort til sé matur og föt. Það þarf hins vegar vilja og aðra sýn en sú ríkistjórn hefur sem nú situr við völd.

Góðir landsmenn.  Við eigum að standa vörð og vera jákvæð í garð landsbyggðar sem vill eflast á eigin forsendum, við eigum að styðja endursköpun okkar mikilvægu matvælaframleiðslu í landbúnaði og sömuleiðis nýjar atvinnugreinar í sátt við umhverfið, ónumin lönd eru í ferðaþjónustu. Í innviðauppbyggingu vega stórbættar samgöngur á landsbyggðinni þyngst.  En þetta eru afgangsstærðir hjá ríkisstjórninni.

Við höfum því miður orðið vitni að því,  í svo mörgu, að litlar efndir fylgja orðum. Þetta er ríkisstjórn öfugmæla.  Gefum því gaum hvað ríkisstjórnin segist vera að gera, ætla að gera, lofar að gera. Fylgist með hvernig forgangsröðun er háttað, fylgist með hvað þeir framkvæma síðan. Það eru ekki velferðarmálin, ekki hagur barna eða umburðarlyndi og mannúð gagnvart fólki í neyð, innan lands og utan.  Þeir sem standa höllum fæti eru settir til hliðar.  Þessu vill Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands breyta, það gerir ekki þessi ríkistjórn.