Réttlátt samfélag, bætt lífskjör og aukinn jöfnuð

 • Öruggt húsnæði fyrir alla – minnst 6000 nýjar leiguíbúðir
 • Tvöföldun barnabóta, hærri lífeyri og fjórfalt frítekjumark
 • Réttlátan arð af auðlindum í stað skatta á almenning
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks eða þjóðareignir

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sína um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

 • Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
 • Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
 • Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
 • Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
 • Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

 

Gott Ísland, þar sem fólki líður vel og getur verið gott hvert við annað

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Öflugt atvinnulíf og nýsköpun í sátt við náttúruna
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!
 • Mannúð, ábyrgð og framsýni í málefnum flóttafólks, á alþjóðavettvangi og gegn loftslagsvá

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

 • Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum höfuðáherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.
 • Lækkum heilbrigðiskostnað fólks verulega og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu.
 • Aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum og á heilsugæslustöðvum landsins – 100 nýir sálfræðingar um allt land.
 • Ráðumst í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi.
 • Tökum á móti fleiri flóttamönnum og vöndum móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.
 • Stóraukum fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar.
 • Tökum markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
 • Flýtum orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Nýjar leiðir og nýtt samtal við fólkið í landinu

 • Stórsókn í skólamálum og skapandi greinum fyrir samfélag framtíðar
 • Bætt siðferði í stjórnmálin
 • Nýja stjórnarskrá
 • Nýjan gjaldmiðil með aðild að Evrópusambandinu

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

 • Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
 • Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
 • Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
 • Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.

Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir. Óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.

 • Vinnum af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu

Landbúnaður

Mikil sóknarfæri eru í landbúnaði og liggja þau m.a. í þróun matvæla, tengslum við ferðaþjónustu og skógrækt. Endurskoða skal búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Stærri hluti stuðnings við landbúnað þarf að fara til þeirra í gegnum, byggðastyrki, græna styrki og nýsköpunargreiðslur.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

 • hagsmunir bænda og neytenda fari saman í áherslu á nýsköpun, sjálfbærni og framþróun í greininni og  styrkjaumhverfi landbúnaðarins tryggi rekstraröryggi og afkomu bænda.
 • rekstrarumhverfi landbúnaðarins verði með þeim hætti að það styrki byggðir, auki frelsi bænda og leiði af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu.
 • vöruverð til neytenda lækki og samkeppni verði aukin með lækkun verndartolla í landbúnaði.
 • ríkið setji sér matarstefnu sem taki mið af sjálfbærni í matvælaframleiðslu, loftslagsmálum, næringu, lýðheilsu og  félagslegum þáttum.

Forskot á fasteignamarkaði

Jöfnum leikinn og nýtum fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga. Kjósum heilbrigðari húsnæðismarkað.

Vandamálið í hnotskurn:

 • Stærsta vandamál ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er að kljúfa útborgunina, sem er mismunur á kaupverði og hámarksláni.
 • Margar fjölskyldur eru fastar á ótryggum leigumarkaði þar sem stærstu útgjöld heimilisins eru í leigu og minna til skiptanna fyrir aðrar nauðsynjar.
 • Mánaðarleigan er hærri en það sem fólk myndi borga af húsnæðisláni.
 • Ekkert er til skiptanna til að spara fyrir öruggu húsnæði.
 • Börn geta lent á vergangi þegar íbúðir eru teknar úr langtímaleigu í skammtímaleigu til ferðamanna.

 Forskot á fasteignamarkaðithriggja-milljona-forskota-fasteignamarkadi-3

Með því að greiða vaxtabætur næstu fimm ára út fyrirfram er hægt að styrkja fólk til kaupa á íbúð um:

 • 3,0 milljónir kr fyrir fólk í sambúð
 • 2,5 milljónir kr fyrir einstætt foreldri
 • 2,0 milljónir kr fyrir einstakling

Þrjár milljónir króna er til dæmis útborgun í 20 milljón króna íbúð m.v. 85% lán, eða stór hluti útborgunar í dýrari eign.

Það er stuðningur sem kemur unga fólkinu úr foreldrahúsum, námsmannaíbúðum og leigjendum í öruggt húsnæði.

Nýjar húsnæðisbætur

Samhliða Forskoti á fasteignamarkaði ætlum við að taka upp nýtt kerfi húsnæðisbóta, hækka skerðingarmörk og styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert. Við ætlum að láta vaxtabætur ráðast af fjölda barna, sem er nýmæli.

6.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu

Forskot á fasteignamarkaði er liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar. Í henni felst einnig veruleg fjölgun almennra leiguíbúða um 5000 á kjörtímabilinu auk 1000 námsmannaíbúða um allt land.

Einnig að tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur og útrýma barnafátækt á Íslandi, en árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort á Íslandi, þar af flest í leiguhúsnæði.

Atvinna og fjármagn

Aukin samkeppnishæfni og efling útflutnings gegna lykilhlutverki í endurreisn atvinnulífsins. Menntun og verkkunnátta þjóðarinnar og umgjörð atvinnulífsins skipta mestu í þessu sambandi og þar á Ísland að vera í fremstu röð.

Samfylkingin vill efla útflutning og fjölbreytta atvinnustarfsemi með stuðningi ríkisins við rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og að opið sé fyrir fjárfestingar innlendra og erlendra aðila í þjónustu og framleiðslu á sjálfbærum grunni. Endurskoða verður skattlagningu þá sem fólgin er í tryggingagjaldinu sem lagt er á launkostnað fyrirtækja en það leggst með meiri þunga á mannaflsfrek fyrirtæki sem veigra sér þá við að ráða fleira fólk til starfa.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

 • stemma verði stigu við möguleikum einstaklinga sem leika þann leik að stofna fyrirtæki, keyra þau í þrot og hefja reksturinn að nýju á nýrri kennitölu.
 • gefa verði almenningi tækifæri á að fjárfesta í fyrirtækum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veiti slík fjárfesting skattafrádrátt.

Með þeim gagnkvæma markaðsaðgangi sem þegar er opinn, og ykist með aðild að ESB, og þeim auknu kröfum sem gerðar eru hvarvetna til hreinnar og ómengaðrar framleiðslu, opnast fiskvinnslu og landbúnaði Íslendinga ný tækifæri. Í landbúnaði er brýnt að snúa frá þeirri stefnu sem beinir bændum inn í miðstýrt framleiðslukerfi takmarkaðra framleiðsluþátta með kvótum.

Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að þeim búskap sem hæfni þeirra og kostir jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör. Aðeins með þeim hætti er líklegt að sú nýsköpun sem er undanfari framfara verði að veruleika og að nýliðun verði nægjanleg í greininni.

Útboð á aflaheimildum

Það hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun að að vilja bjóða út fiskveiðikvóta. Þannig er almenningi best tryggðar sanngjarnar tekjur af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

kvotiÚthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti.

Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað. Þessi þróun mun ekki halda áfram verði Samfylkingin í ríkisstjórn.

Í Færeyjum var nýlega byrjað að bjóða út aflaheimildir að frumkvæði systurflokks okkar þar í landi.

Reynsla þeirra sýnir að við með útboðum á aflaheimildum gætum við fengið mun meiri tekjur af fiskveiðiauðlindum en í dag.

Útboðin þjóna þannig tvíþættum tilgangi:
– að veita nýliðum aðgengi og að
– skila eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar.

Með því að láta bjóða í fiskveiðiheimildirnar þá fær þjóðin hæst verð fyrir afnotin af eign sinni. Mikilvægt er að slíkt úboð verði vel undirbúið með aðkomu erlendra og innlendra fræðimanna og sérfræðinga á sviðinu.

Við erum óhrædd við að sækja tekjur í sameiginlegar auðlindir til að fjármagna frábæra, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu um land allt.

Heilbrigt fjármálakerfi

Þær breytingar sem unnið er að innan ESB á fjármálaeftirliti og innstæðu­tryggingum munu styrkja fjármálakerfi þjóðarinnar til frambúðar. Með því að taka upp evru og uppfylla þær kröfur um stjórn ríkisfjármála og fjármálamarkaða sem því fylgja, verður landsmönnum loks tryggður traustur gjaldmiðill. Þar með lækka vextir, hagur neytenda vænkast og samkeppnishæfni atvinnulífs batnar.

Mikilvægt er að fylgja þeirri þróun sem verður í helstu viðskipta- og nágranna­löndum okkar í þessum efnum. Samfylkingin er fylgjandi þeirri endurskoðun sem nú á sér stað á fjármálamörkuðum heimsins sem mun væntanlega leiða til heilbrigðara fjármálakerfis undir eftirliti fjöl­þjóðlegra stofnana sem gripið geta inn í áður en í óefni er komið.

Samfylkingin hefur eftirfarandi leiðarljós:

 • almenningur þarf fjármálakerfi með virkri samkeppni undir traustu eftirliti þar sem í boði eru fjölbreytt lánsform, jafnt verðtryggð lán og óverðtryggð og ríkisábyrgð á einkarekstri er lágmörkuð.
 • almenningur á að eiga kost á að skipta við trausta banka og sparisjóði sem reknir eru af hófsemi og gætni, sýna samfélagslega ábyrgð í verki og  virða óskir byggðanna sem þeir starfa í og óskir viðskiptavina um skilvirkan og gegnsæjan rekstur.

Samvinna um hagstjórn

Agaðri hagstjórn

Innlend hagstjórn verður að vera mun agaðri en verið hefur lengst af í fullveldissöguni hvort sem byggt er á íslenskri krónu eða evru. Reynsla fjölmargra ríkja sýnir hversu illa getur farið ef stjórnvöld halda ekki uppi aga í hagstjórn og hlúa ekki að samkeppnishæfni þjóðfélagsins í víðum skilningi. Tryggja verður að stjórnvöld geti á hverjum tíma tekið ákvarðanir um efnahagsmál þjóðarinnar á grundvelli bestu og nýjustu þekkingar.

Breiðari samstaða

Setja þarf á laggirnar vettvang á vegum hins opinbera þar sem fram fer úrvinnsla gagna með þeim hætti að þau nýtist ríkisstjórn, Alþingi og almenningi við mótun samfélagsins. Upplýsingar sem verða til á slíkum vettvangi þurfa að vera hafnar yfir staðreyndadeilur sem setja um of mark sitt á íslenska umræðuhefð. Slíkur vettvangur getur orðið til að skapa breiðari samstöðu stjórnmálaafla og hagsmunasamtaka í landinum um þau verkefni sem ekki er ágreiningur um og mótun stefnumála til langs tíma.

Ríkisfjármál og skattastefna

Réttlátt velferðarþjóðfélag

Skattastefna og fyrirkomulag tilfærslna í skattkerfinu eru á meðal helstu grunnstoða réttláts velferðarþjóðfélags. Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Hallalaus rekstur ríkissjóðs er mikilvæg forsenda velferðar og jafnaðar. Leggja þarf áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem nú er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Styrkjum stöðu ríkissjóðs

Styrkja verður stöðu ríkissjóðs með því að auka hlut almennings í þeirri auðlindarentu sem nýting fiskistofnanna og annarra takmarkaðra auðlinda í þjóðareign skapar. Þannig séu nýtingarleyfi veitt til hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi til auðlindasjóðs sem verði hluti ríkisreiknings.

Samfylkingin leggur áherslu á öflugt, skilvirkt og réttlátt skattkerfi til að fjármagna opinberan rekstur og ná pólitískum markmiðum um:

 • skilvirka efnahagsstjórn
 • tekjudreifingu og jöfnuð
 • húsnæðisstefnu og önnur félagsleg málefni
 • atvinnustefnu
 • umhverfismál

Í því augnamiði þarf að leggja á bæði beina og óbeina skatta. Til að ná fram markmiðum um tekjudreifingu og jöfnuð henta beinir skattar betur en óbeinir auk þess sem tilfærslukerfi ríkisins á borð við barnabætur og húsnæðisbætur, auk persónuafsláttar eru heppileg leið til tekjujöfnunar. Því verður skattkerfi hins opinbera ekki skoðað án þess að samhliða sé fjallað um tilfærslur hins opinbera.
Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjár­festingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, og í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Samfylkingin hafnar tvöföldu velferðarkerfi og telur að grunnþjónustu velferðarkerfisins eigi að fjármagna með almennri skattheimtu og halda beri beinni gjaldtöku notenda innan hóflegra marka.

Samfylkingin hefur eftirfarandi leiðarljós:

 •  tekjuskattur skal vera þrepaskiptur og þannig gegna því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka á bilið milli skattþrepa og fjölga þeim. Þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur.
 • efla á barnabótakerfið og koma á skilvirku kerfi húsnæðisbóta sem taki við af núverandi vaxta- og húsaleigubótakerfi.
 • auka ber vægi tilfærslukerfa barna- og húsnæðisbóta sem auk persónuafsláttarins eru mikilvægustu tekjujöfnunartæki hins opinbera.
 • tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
 • bein gjaldtaka af notendum velferðarþjónustunnar má aldrei verða til þess að mismuna og hindra að fólk geti nýtt sér þjónustuna. Þessi gjaldtaka hefur hækkað undanfarin misseri og er til muna hærri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Bein gjaldtaka fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun er eitt form skattheimtu. Slík gjaldtaka eykur ójöfnuð sem dregur til lengri tíma úr þrótti samfélagsins og almennri velsæld.
 • afmarka ber tekjur og gjöld vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkis­reiknings. Með því verði auðlinda­rentan gerð sýnileg almenningi.
 • raforkufyrirtæki greiði auðlindagjald hvort sem rafmagnsframleiðslan á sér stað í fallvötnum eða með gufuöflun. Hitaveitur borgi auðlindagjald af því vatni sem þau fá úr jörðu og útgerðir greiði fyrir heimildir til að sækja fiskistofna á Íslandsmiðum.
 • gera þarf áætlun um hvernig taka eigi á uppsöfnuðum vanda vegna skuldbindinga í opinbera lífeyriskerfinu. Fyrirséð er að greiðslur úr ríkissjóði vegna bakábyrgðar á skuldbindingum muni að óbreyttu hefjast innan fárra ára og nema tugum milljarða króna árlega. Engin áætlun liggur fyrir um með hvað hætti ríkissjóður hyggist mæta þessum stórauknu útgjöldum. Stefna skal að því að til framtíðar verði komið á einu samræmdu, sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn.