Nýjar leiðir og nýtt samtal við fólkið í landinu

 • Stórsókn í skólamálum og skapandi greinum fyrir samfélag framtíðar
 • Bætt siðferði í stjórnmálin
 • Nýja stjórnarskrá
 • Nýjan gjaldmiðil með aðild að Evrópusambandinu

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

 • Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
 • Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
 • Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
 • Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.

Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir. Óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.

 • Vinnum af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu

Varnar- og öryggismál

Alþjóðlegri glæpastarfsemi, uppgangi öfgahópa, farsóttum, umhverfisvá og truflunum á fjarskiptum vex fiskur um hrygg. Áherslu skal leggja á netöryggi og viðbúnað til leitar og björgunar. Samfylkingin fagnar því að nú er unnið að mótun þjóðaröryggisstefnu á grundvelli niðurstöðu úr samvinnu allra stjórnmálaflokka sem Samfylkingin leiddi. Viðbúnaður þarf að vera til staðar gagnvart margvíslegum ógnum, þar með talið alþjóðlegri glæpastarfsemi, farsóttum, truflunum á fjarskiptum og umhverfis, og efla enn frekar samstarf við nágrannaríki um slík verkefni.

Samfylkingin leggur áherslu á:

 • aukið norrænt samstarf í öryggismálum og áframhaldandi samvinnu og samstöðu Norðurlandanna.
 • að innganga í Evrópusambandið er öryggismál fyrir Ísland á víðsjárverðum tímum.
 • Aðild veitir Íslendingum ekki einungis efnahagslegan stöðugleika til framtíðar heldur einnig vörn gegn ógnum við öryggi landsins.
 • ESB aðild veitir ennfremur fulla aðild að Europol, lögreglusamstarfi Evrópuríkja og eykur þannig möguleika á að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.
 • að íslensk stjórnvöld séu málsvarar friðsamlegrar samvinnu þjóða á milli, afvopnunar og útrýmingar gereyðingarvopna í öllu alþjóðlegu samstarfi
 • að íslensk stjórnvöld haldi á lofti ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 sem kveður á um að beina aðkomu kvenna að formlegum og óformlegum friðarferlum og beiti sér fyrir því að hún sé höfð að leiðarljósi þegar fulltrúar stjórnvalda fara til funda um stríðsátök.
 • Ísland verði yfirlýst kjarnorkuvopnalaust svæði þar sem öll umferð kjarnavopna um hafsvæði eða lofthelgi Íslendinga er bönnuð.

 

Lýðræði og vald

Valddreifing og lýðræðisumbætur

Samfylkingin berst fyrir valddreifingu og lýðræðisumbótum. Mörg slík baráttumál hafa nú þegar náð í höfn en svo lýðræði fái dafnað til lengdar þarf að standa dyggan vörð um það sem áunnist hefur og um leið huga stöðugt að umbótum.

Sjálfstæði dómstóla

Það er mikilvægt að stjórnvöld virði og standi vörð um sjálfstæði dómstóla og ákæruvalds. Að staðinn sé vörður um faglegar ráðningar í embætti og opinber störf. Að stuðlað sé að vönduðum vinnubrögðum og góðu siðferði í stjórnsýslu.

Að eftirlitsstofnunum sé gert kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu og fái fjárframlög í samræmi við það og að lokið verði endurskoðun lagareglna um ráðherraábyrgð og landsdóm og þau færð til nútímahorfs.

Frjáls og óháð rannsóknarblaðamennska

Frjáls og óháð rannsóknablaðamennsku er einn af hornsteinum lýðræðislegrar umræðu og aðhalds gagnvart stjórnvöldum á hverjum tíma. Samfylkingin ætlar að stofna Fjölmiðlasjóð sem veitir styrki á samkeppnisforsendum til verkefna á sviði rannsóknarblaðamennsku.

Þar að auki er mikilvægt að bæta réttarstöðu þeirra sem starfa við fjölmiðla sem fjalla um samfélagsmál, m.a. með úrbótum á meiðyrðalöggjöf. Sérstaklega þarf að huga að stuðningi við starfrækslu staðbundinna fjölmiðla í öllum landshlutum.

Ný stjórnarskrá

Ný stjórnarskrá

Samfylkingin vill breyta stjórnarskránni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem meirihluti studdi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljúka skal ferlinu þar sem frá var horfið vorið 2013 og nýja stjórnarskráin lögð fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.

Við höfum lagt á það áherslur að ný stjórnarskrá tryggi eign almennings á auðlindum og sjálfbæra nýtingu þeirra. Þá er aðgreining valdþátta, ekki síst löggjafarvalds og framkvæmdarvalds mikilvæg.

Raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða

Við viljum raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða allra kjósenda. Stjórnarskrá skal leggja áherslu á kvenfrelsi og fyllstu mannréttindi þar með talin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Í nýrri stjórnarskrá skulu vera skýr ákvæði um framsal valds vegna alþjóðasamninga auk ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Lækkun kosningaaldurs

Lækkum kosningaaldur niður í 16 ára

Hafin verði vinna sem miði að því að lækka kosningaaldur í 16 ár en þó þannig að aldurstakmark kjörgengis (18 ár) haldist óbreytt.

Eflum lýðræðisvitun barna og ungmenna

Sett verði af stað átak innan menntakerfisins um eflingu lýðræðisvitundar barna og ungmenna allt frá leikskólaaldri í víðtækri samvinnu stjórnvalda, menntastofnana og félagasamtaka.  Samfylkingin styður að æskulýðssamtök, skólar og yfirvöld taki höndum saman um að halda skuggakosningar í skólum samhliða kosningum.