Gott Ísland, þar sem fólki líður vel og getur verið gott hvert við annað

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Öflugt atvinnulíf og nýsköpun í sátt við náttúruna
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!
 • Mannúð, ábyrgð og framsýni í málefnum flóttafólks, á alþjóðavettvangi og gegn loftslagsvá

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

 • Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum höfuðáherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.
 • Lækkum heilbrigðiskostnað fólks verulega og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu.
 • Aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum og á heilsugæslustöðvum landsins – 100 nýir sálfræðingar um allt land.
 • Ráðumst í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi.
 • Tökum á móti fleiri flóttamönnum og vöndum móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.
 • Stóraukum fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar.
 • Tökum markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
 • Flýtum orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Milljarður á ári í stórsókn gegn ofbeldi

Samfylkingin ætlar að ráðast í stórsókn gegn ofbeldi. Við höfum ákveðið að setja einn milljarð króna árlega inn í þetta verkefni.

Hvað ætlum við að gera?

1. Efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega.

Við ætlum í fyrsta lagi að efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti eitt hundrað lögregluþjóna svo vel eigi að vera. Skortur á faglærðum lögregluþjónum er allsstaðar um landið og kemur það auðvitað niður á því starfi sem þar er unnið. Þetta kemur harkalega niður á meðferð kynferðis-, heimilis- og annarra ofbeldisbrota enda bitnar þetta á rannsóknum og meðferð mála. Það gengur ekki að brotaþolar þurfi að bíða í 2 – 3 ár eftir niðurstöðu mála. Þetta fælir brotaþola frá því að kæra og rannsóknir verða einfaldlega ekki eins góðar.

2. Markviss vinna er varðar forvarnir og fræðslu

Í öðru lagi ætlum við að fara í markvissa vinnu er varðar forvarnir og fræðslu. Ekki enn eitt átakið sem lifir í mánuð heldur fókuserað starf sem sett er inn í allar menntastofnanir, öll skólastigin. Þar eru hvort tveggja gerendur og brotaþolar í nútíð og framtíð sem þurfa að læra það frá fyrsta degi að ofbeldi drepur. Langtímaverkefni er málið – setja þetta inn í alla samfélagsfræðslu og það með markvissum hætti.

3. Samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.

Í þriðja lagi verður farið í átak til að samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala er sífellt í þróun og að bæta þjónustu sína en betur má ef duga skal. Það þarf að samræma móttöku og meðferð mála um allt land og á sumum stöðum erum við áratugum á eftir þegar kemur að utanumhaldi þessara mála.

Eyðum launamun kynjanna

Samfylkingin hefur um árabil verið leiðandi afl í að útrýma launamun kynjanna. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur réðst í ýmsar aðgerðir, svo sem að koma á jafnlaunastaðli, setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða og jafna hlut kynjanna í ríkisstjórn og æðstu embættum ríkisins.  Farið var í jafnréttisátak á heilbrigðisstofnunum meðal svokallaðra kvennastétta.

Samspil hins opinbera og atvinnulífsins
Launamunur kynjanna er því enn alltof mikill – hann mælist enn upp að 12% eftir að búið að er taka tillit til breyta svo sem vinnustunda og ábyrgðar í starfi. Samfylkingin vill, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, eyða kynbundnum launamun. Í því skyni vill Samfylkingin að forstöðumenn opinberra stofnana verði áminntir ef kynbundinn launamunur viðgengst undir þeirra stjórn. Draga þarf markvisst úr ólaunuðu vinnuframlagi kvenna og álaginu sem því fylgir og meta hefðbundin „kvennastörf” að verðleikum.

Nútímasamfélag er fjölmenningarsamfélag

Samfylkingin ætlar að leiða uppbyggilega umræðu um gildi þess fjölmenningarsamfélags sem við viljum í sameiningu skapa hér á landi. Sú samræða er ögrandi og krefjandi en nauðsynleg í samfélagi sem byggir á fjölbreytni og frjálsu flæði fólks milli landa.

Samfélag virðingar

Samfylkingin ætlar að auka fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun. Það á við hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig byggjum við gott samfélag þar sem fólk bera virðingu hvert fyrir öðrum og njóta jafnréttis. Ísland er heimili okkar allra.

Samfylkingin leggur áherslu á að innflytjendur eru þátttakendur í samfélaginu, þeir eru ólíkir innbyrðis og þeir gegna ólíkum hlutverkum í samfélaginu; þeir eru foreldrar, launþegar, námsmenn, nágrannar og ástvinir, rétt eins og við sem fæddumst hér og ólumst upp.

Mannréttindi og réttlæti

Samfylkingin leggur í störfum sínum áherslu á að allir beri ábyrgð á því að vinna gegn rasisma, fordómum og mismunun, en þó er ábyrgð pólitískra fulltrúa og fjölmiðla enn meiri. Samfylkingin stundar og leiðir pólitíska umræðu sem einkennist af virðingu fyrir mannréttindum, réttlæti og lýðræði.

Við styðjum við menningarlegan fjölbreytileika á Íslandi. Í því felst stuðningur við íslenska menningu, en þó án þröngsýnnar þjóðernishyggju sem elur á fordómum og andúð á annarri menningu.

Gegn fordómum og hatursorðræðu

Taka á alvarlega athugasemdir úr skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. The European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) frá árinu 2012. Þær beindust meðal annars að hatursorðræðu, ábyrgð fjölmiðla og menntun barna af erlendum uppruna.

Við viljum að starfandi sé stofnun sem berst gegn rasisma og mismunun á grundvelli kynþáttar, hörundslitar, tungumáls, trúarbragða, þjóðernis eða svæðisbundins uppruna. Þá er mikilvægt að koma á fræðsluátaki um mikilvægi innflytjenda fyrir samfélagið, sem hefur það markmið að berjast gegn fordómum og mismunun.

Réttindi fólks með fötlun

Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland taki frumkvæði í mannréttindamálum en sé ekki farþegi í samfélagi þjóða og vill því árétta að þjónusta við fatlað fólk er mannréttindamál, ekki félagslegt úrræði. Frekari viðhorfsbreytingar er þörf sem og vinna að fullum rétti fatlaðs fólks til einkalífs og sjálfsákvörðunar.

Aukum réttindi – bætum kjör

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að allir eigi rétt á mannsæmandi lífi og húsnæði við hæfi. Þess vegna viljum við auka réttindi fatlaðs fólks og bæta kjör öryrkja og aldraðra.

Í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar er að finna margar tillögur sem varða fatlað fólk. Samfylkingin vill að:

 • Gerð verði heildstæð löggjöf um málefni fatlaðra sem tryggir réttindi, samfellu og jafnræði í þjónustu fyrir alla, um allt land.
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verði löggiltur strax. Þannig verði tryggt að virðing sé borin fyrir skoðunum, þörfum og vilja fatlaðs fólks.
 • Bætur hækki í 300 þúsund krónur á mánuði fylgi þróun lágmarkslauna.
 • skerðingar og tekjutengingar í almannatryggingakerfinu verði minnkaðar verulega.
 • Notendastýrð persónuleg þjónusta (NPA) verði gerð að lögbundinni þjónustu og raunhæfum kosti fyrir fatlað fólk.
 • Jafnt aðgengi allra að velferðarþjónustu án mismununar verði tryggt og gott eftirlit verði tryggt til að gæði velferðarþjónustunnar séu eins og best verði á kosið.
 • Þeir sem njóta opinberrar þjónustu eigi rétt á að taka þátt í að móta þá þjónustu.
 • Túlkaþjónusta í heilbrigðiskerfinu verði efld til muna, m.a. vegna samskiptaerfiðleika, heyrnarskerðingar, tungumáls eða vegna annarra aðstæðna.
 • Tryggja að allir fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, bæði í námi og strarfi.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa borið þessar tillögur áfram og flutt fleiri tillögur sem snúa að betra lífi fatlaðs fólks.

Mannréttindi

Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland vinni að mannréttindamálum á alþjóðlegum vettvangi sem málsvari mannúðar, jafnréttis og lýðræðis.

Ísland á að beita rödd sinni gegn hvers kyns mannréttindabrotum og til stuðnings réttindabaráttu minnihlutahópa, til dæmis vegna kynferðis, kynhneigðar, kynþáttar, skoðana eða trúar.

Ísland á að vera í forystu í alþjóðlegri baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks.

Fátækt og ójöfnuð má ekki líða

Eitt samfélag fyrir alla

Samfylkingin mun beita sér fyrir opinni umræðu um fátækt og afleiðingar félags- og efnahaglegs ójafnaðar. Krafa Samfylkingarinnar er að öllum verði gert kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Almenn og aðgengileg velferðarþjónusta kemur öllum til góða og kemur í veg fyrir þá stimplun sem sértæk þjónusta leiðir oft af sér.

Upprætum fátækt

Uppræta þarf fátækt en rannsóknir sýna að hún leiðir til lakari lífsgæða, verri heilsu og oft félagslegrar einangrunar og útskúfunar. Styðja þarf millitekjuhópa sem án stuðnings samfélagsins geta lent í fátækt.

Samfylkingin hefur það að markmiði að:

 • húsnæðisstuðningur verði veittur óháður búsetuformi og barnabætur verði fyrir öll börn.
 • lækka þjónustugjöld vegna opinberrar þjónustu með jafnt aðgengi óháð efnahag að leiðarljósi.
 • leggja fram heildstæða, tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt. Sérstaklega skal hugað að barnafátækt, að einstæðum- umgengnisforeldrum, öryrkjum og innflytjendum. Unnið verði að aðgerðaáætluninni í nánu samstarfi með fagfólki og félagasamtökum.
 • valdefla og virkja notendur til þátttöku í að skipuleggja og þróa þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og meta hana. Slíkt á við í heilbrigðisþjónustu, forvörnum og allri félagslegri þjónustu.
 • nýjar leiðir verði farnar til að finna lausn þeirra einstaklinga sem glíma við hemilisleysi. Til að mynda Housing First, þar sem fyrsta skrefið í stuðningi við heimilislausa einstaklinga með geðræn eða vímuefnavandamál er að útvega húsnæði.

Varnar- og öryggismál

Alþjóðlegri glæpastarfsemi, uppgangi öfgahópa, farsóttum, umhverfisvá og truflunum á fjarskiptum vex fiskur um hrygg. Áherslu skal leggja á netöryggi og viðbúnað til leitar og björgunar. Samfylkingin fagnar því að nú er unnið að mótun þjóðaröryggisstefnu á grundvelli niðurstöðu úr samvinnu allra stjórnmálaflokka sem Samfylkingin leiddi. Viðbúnaður þarf að vera til staðar gagnvart margvíslegum ógnum, þar með talið alþjóðlegri glæpastarfsemi, farsóttum, truflunum á fjarskiptum og umhverfis, og efla enn frekar samstarf við nágrannaríki um slík verkefni.

Samfylkingin leggur áherslu á:

 • aukið norrænt samstarf í öryggismálum og áframhaldandi samvinnu og samstöðu Norðurlandanna.
 • að innganga í Evrópusambandið er öryggismál fyrir Ísland á víðsjárverðum tímum.
 • Aðild veitir Íslendingum ekki einungis efnahagslegan stöðugleika til framtíðar heldur einnig vörn gegn ógnum við öryggi landsins.
 • ESB aðild veitir ennfremur fulla aðild að Europol, lögreglusamstarfi Evrópuríkja og eykur þannig möguleika á að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.
 • að íslensk stjórnvöld séu málsvarar friðsamlegrar samvinnu þjóða á milli, afvopnunar og útrýmingar gereyðingarvopna í öllu alþjóðlegu samstarfi
 • að íslensk stjórnvöld haldi á lofti ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 sem kveður á um að beina aðkomu kvenna að formlegum og óformlegum friðarferlum og beiti sér fyrir því að hún sé höfð að leiðarljósi þegar fulltrúar stjórnvalda fara til funda um stríðsátök.
 • Ísland verði yfirlýst kjarnorkuvopnalaust svæði þar sem öll umferð kjarnavopna um hafsvæði eða lofthelgi Íslendinga er bönnuð.

 

Málefni Norðurslóða

Samfylkingin hvetur til þess að ríkisstjórnin leggi aukna áherslu á málefni norðurslóða í anda einróma samþykktar Alþingis um stefnu Íslands gagnvart norðurslóðum. Ísland á hvarvetna að leggja atbeina sinn að því að efla Norðurskautsráðið og vinna ötullega gegn svokölluðu „fimm-ríkja-samstarfi“ sem dregur úr áhrifum Íslands og frumbyggja norðursins á ákvarðanir sem varða þróun norðurslóða.

Ríkisstjórn Íslands ber að setja sér stefnu um réttindi frumbyggjanna og styðja baráttu þeirra fyrir sem mestum áhrifum á umhverfi sitt og afkomu. Jafnframt ber að efla samvinnu um norðurslóðir á sviði vísinda og menntunar með gagnkvæmum samningum við aðrar þjóðir.

Samfylkingin hefur eftirfarandi að leiðarljósi:

 • aðild að Evrópusambandinu veitir Íslendingum einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þróun norðurslóða til framtíðar í gegnum stefnumótun sambandsins. Loftslagsmál eru lykilþáttur í þessu sambandi og þar á Ísland að gegna mikilvægu hlutverki. Sem fullgilt aðildarríki að ESB fengjum við mikilvæga bandamenn og sterkari samningsstöðu í umhverfismálum, bæði á norðurslóðum og á alþjóðavettvangi.
 • vestnorræna ráðið er mikilvægur samstarfsvettvangur um norðurslóðir og efling þess fer saman við íslenska hagsmuni. Með tilliti til langtímahagsmuna er sömuleiðis mikilvægt að styrkja samband Íslands við önnur svæði á Norðurslóðum, ekki síst Alaska og norðursvæði Kanada.
 • öll aðkoma Íslands í málefnum norðurslóða á að grundvallast á umhverfisverndarsjónarmiðum.
 • opnun siglingaleiða og betri aðgangur að auðlindum norðurheimskautsins felur í sér áhættu en skapar um leið tækifæri. Treysta ber Norðurskautsráðið sem þann vettvang þar sem málefnum svæðisins er ráðið til lykta. Forgangsverkefni er að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis til að Íslendingar geti komið að öllum alþjóðlegum ákvörðunum sem varða svæðið.
 • vinna þarf sérstaklega gegn mengun á hafsvæðum í kringum landið.
 • Verndun norðurslóða er mjög mikilvæg. Þar er átt við umhverfissjónarmið vegna þess hve viðkvæmt vistkerfi svæðisins er, en einnig vernd hagsmuna íbúa og þá einkum frumbyggja
 • Í ljósi bindandi samnings um leit og björgun á norðurslóðum eiga Íslendingar að leggja áherslu á að byggja upp alþjóðlegt björgunarteymi sem í senn getur gagnast okkur og heiminum öllum. Brýnt er að ríkisstjórn Íslands leggi aukna rækt við að afla stuðnings norðurskautsþjóða og Evrópusambandsins við að hér á landi verði ein af miðstöðvum leitar, björgunar og mengunarvarna vegna umferðar um norðurhöf.

Hælisleitendur og flóttafólk

Íslensk stjórnvöld þurfa að taka á móti fleira flóttafólki en nú er gert. Opnum faðminn, tökum á móti fleira fólki á flótta og verum almennilegt samfélag.

Samfylkingin hefur alltaf lagt áherslu á að Ísland taki á móti fleira flóttafólki. Innflytjendur og flóttafólk auðga íslenskt samfélag og menningu.

Á síðasti ári lögðum við fram tillögu að þingsályktun á Alþingi um að taka eigi á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum.

Við leggjum áherslu á að:

 • Bjóða fleiri fjölskyldur frá stríðshrjáðum ríkjum velkomnar til Íslands.
 • Sameina fjölskyldur á flótta.
 • Hælisleitendum sem koma til Íslands á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum sé veitt sérstök þjónusta.
 • Hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám.
 • Foreldrar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga.
 • Flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér á landi.
 • Vinna gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar.
 • Íslenskt samfélag sé alþjóðlegt og byggi á fjölbreytni og frjálsu flæði einstaklinga og fjölskyldna milli landa.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun, hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig mótum við samfélag þar sem borgarar bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta jafnréttis.

Ísland er heimili okkar allra.