Nýjar leiðir og nýtt samtal við fólkið í landinu

 • Stórsókn í skólamálum og skapandi greinum fyrir samfélag framtíðar
 • Bætt siðferði í stjórnmálin
 • Nýja stjórnarskrá
 • Nýjan gjaldmiðil með aðild að Evrópusambandinu

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

 • Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
 • Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
 • Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
 • Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.

Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir. Óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.

 • Vinnum af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu

Listnám

Vönduð listgreinakennsla á öllum skólastigum er mikilvægur þáttur í fjölbreyttu námsframboði, getur stuðlað að minna brotthvarfi úr námi auk þess sem hún er forsenda þróttmikils menningarlífs og framhaldsmenntunar í listgreinum.

Samfylkingin leggur áherslu á að framtíð sérskóla á sviðum lista verði tryggð með varanlegu og endurbættu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga og að opinber stuðningur við ýmsa sérskóla í listum verði samræmdur. Samþætting listnáms listaskóla við skólastarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum er mikilvægt og auka ætti framboð á framhaldsmenntun í listum og efla menntun kennara í öllum listgreinum.

Öflugt ríkisútvarp

Útvarp í almannaþágu á að einkennast af sjálfstæði, frumkvæði, gæðum, hlutlægni og ábyrgð. Samfylkingin leggur áherslu á að stjórnvöld reki öflugt Ríkisútvarp sem gegnir mikilsverðu menningar- og lýðræðishlutverki.

Samfylkingin leggur áherslu á hlutlæga umfjöllun um fréttir og samfélagsmál, öflugri innlendri dagskrárgerð og aukið samstarfi við sjálfstætt starfandi listamenn, fagfélög og framleiðendur. Að aðgengi almennings að safnaefni Ríkisútvarpsins verði betra, til dæmis með rafrænni yfirfærslu dagskrárefnis til miðlunar á netinu. Að sérstök rækt verði lögð við þátt íslenskar tungu og vandaðs efnis fyrir börn og unglinga. Endurvekja á Menningarsjóður útvarpsstöðva sem veiti styrki með faglegum hætti til menningarverkefna og heimildarþáttagerðar í útvarps- og sjónvarpstöðvum. Styrkir skulu einnig ná til netmiðla.

Til að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar þarf að fjármagna hana með föstum tekjustofni, útvarpsgjaldi eða afnotagjaldi sem rennur óskipt til hennar, fylgir verðlagsþróun og er ákveðið til nokkurra ára í senn.

 

Skapandi greinar

Góð reynsla er komin á útflutning skapandi greina og reynslan af opinberum stuðningi er jákvæð. Samfylkingin vill treysta grundvöll kynningarmiðstöðva listgreina og hönnunar með langtímasamningum um hlutverk þeirra, starfsemi og markmið. Starf miðstöðvanna gegnir lykilhlutverki við að skapa skilyrði fyrir vaxandi atvinnu íslenskra listamanna á alþjóðavettvangi.

Samfylkingin setur fram eftirfarandi markmið fyrir vöxt skapandi greina, heima og að heiman:

 1. Útflutningssjóður skapandi greina verði efldur til að styðja við sókn listamanna á alþjóðamarkaði.
 2. Kynningarmiðstöð sviðslista verði sett á laggirnar.
 3. Treysta í sessi menningarsamninga landshlutanna og fjármagn til landshlutanna í þeim tilgangi.
 4. Menningarsetur og önnur staðbundin menningarstarfsemi í sveitarfélögum skulu njóta opinbers stuðnings úr sjóðum þar sem faglega er staðið að útthlutun. Byggt verði á heildstæðri stefnumótum og samræmdum reglum um framkvæmd samninganna.
 5. Virðisaukaskattur á bókaútgáfu verði felldur niður enda er öflug bókaútgáfa hornsteinn í menningu þjóðarinnar og undirstaða læsis.
 6. Virðisaukaskattur af innflutningi á íslenskum listaverkum verði felldur niður
 7. Mótuð verði heildstæð stefna um stoðþjónustu við tónleikahald, útgáfu, kynningu, markaðssetningu og útflutning sem gefur íslensku tónlistarfólki tækifæri til enn frekari afreka heima og að heiman.
 8. Langtímaáætlun um eflingu kvikmyndagerðar er forgangsmál til að festa góðan árangur greinarinnar í sessi.
 9. Myndlistarsjóð og aðra verkefnasjóði listgreinanna þarf að efla og tryggja þeim fjármagn til nokkurra ára í senn.  
 10. Tryggja þarf framtíð alþjóðlegra menningarhátíða með langtímasamningum. Menningarhátíðirnar gegna því lykilhlutverki að kynna verk íslenskra listamanna í alþjóðlegu samhengi og draga að erlenda gesti.

Skapandi atvinna

Menningarþjóð

Fjölskrúðugt lista- og menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags og þátttaka þjóðarinnar í menningarstarfi á vart sinn líka. Skapandi greinar eru mikilvæg burðargrein í íslensku atvinnulífi og ljóst að þeim fylgja ört vaxandi útflutningstekjur.

Íslensk menning í sinni fjölbreytilegustu mynd er á sama tíma annað helsta aðdráttarafl erlendra ferðamanna og á því stóran þátt í að skapa landinu gjaldeyristekjur. Samfylkingin ætlar að byggja skapandi greinar upp með samstarfi, þvert á stjórnkerfi, ráðuneyti og atvinnulíf og leggja áherslu á jafnræði listgreina varðandi aðgengi að fjármagni og rannsóknum.

Samfylkingin leggur áherslu á:

 1. Að gera aðgerðaáætlun fyrir menningarstefnu stjórnvalda í víðtæku samráði við fulltrúa menningarlífsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Í henni birtist áherslur og forgangsröðun í menningu og listum til ársins 2020.
 2. Þjóðhagsleg áhrif og umfang skapandi greina verði metið með reglubundnum hætti og upplýsingar gerðar aðgengilegar, rétt eins og í öðrum atvinnugreinum. Einkum skal hugað að hagrænum, félagslegum og menningarlegum áhrifum af menningarstarfsemi.
 3. Skipting opinbers fjár milli listgreina, menningarstofnana og sjálfstætt starfandi listamanna verði endurskoðuð á grundvelli heildstæðrar upplýsingaöflunar um stöðu mismunandi greina. Sérstaklega er brýnt að líta til greina og aðila sem hafa notið takmarkaðs opinbers stuðnings og skoða þarf starfsramma einstakra listgreina með það að markmiði að bæta samræmi á milli þeirra. Aðgangur og hlutdeild skapandi greina í opinberum rannsóknar- og nýsköpunarsjóðum verði efld.
 4. Mótuð verði sérstök markmið fyrir skapandi greinar.
 5. Veita sprotafyrirtækjum í skapandi greinum aðild að skattalegum hvatakerfum til jafns við önnur nýsköpunarfyrirtæki.
 6. Jafnræðis sé gætt við úthlutun menningartengdra styrkja.

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Raunverulegt jafnrétti til náms

Allir íslendingar eiga að hafa tækifæri á háskólamenntun, hvort sem þeir búa í borg, bæ eða sveit, eru karlar eða konur (eða intersex), fatlaðir eða ófatlaðir. 

Stór hluti námsmanna reiðir sig á Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem er ein af grunnstoðum menntakerfisins hvað varðar jöfnun tækifæra til náms. Nám er fjárfesting fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Samfylkingin vill að teknar verði upp að nýju samtímagreiðslur námslána og að framfærslulán LÍN dugi til viðunandi framfærslu enda styður það þá hugsun að 100% nám er 100% vinna.

Betri styrkir og námslán til námsmanna

Samfylkingin leggur áherslu á að hluti námslána breytist í styrk ef lánþegi lýkur námi sínu á tilskildum tíma.

Margir námsmenn stunda vinnu í námsleyfum og það er mikilvægt að hækka frítekjumark námsmanna verði hækkað án þess komi til stórfelldar skerðingum lána. Námslán ættu falla niður við eftirlaunatöku og fella skali niður ábyrgð á öllum námslánum. Til stuðnings námsmanna sem þurfa að sækja nám langt frá heimilum sínum þarf að efla dreifbýlisstyrkjakerfi Lánasjóðsins, rýmka úthlutunarreglur og efla þjónustuhlutverk hans.

Háskólamenntun á heimsmælikvarða

Bestu háskólarnir

Háskólamenntun er forsenda atvinnuþróunar, hagsældar og velferðar í samfélaginu. Efla þarf háskóla í landinu til að þeir standist áfram samjöfnuð við alþjóðlega háskóla í kennslu og rannsóknarstarfi. Hækka þarf framlög til háskóla til að jafna stöðu þeirra gagnvart háskólum sem við berum okkur saman við.

Samfylkingin vill efla samstarf og skýra verkaskiptingu háskóla í landinu með það fyrir augum að auka gæði og fjölbreytni náms. Ávallt verði að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu.

Ókeypis opinberir háskólar
Samfylkingin hafnar skólagjöldum í opinberum háskólum. Hún vill að skrásetningargjöld séu hófleg og endurgreidd í lok skólaárs sé námsframvinda eðlileg. Fjármagni verði forgangsraðað í þágu opinberra háskóla.

Samfylkingin leggur áherslu á að framlög til samkeppnissjóða verði aukin enda eru þeir besti farvegurinn fyrir stuðning við vísindastarfsemi og nýsköpun í landinu.

Markmið um háskólamenntun og vísindastarf:

 1. Setja mælistikur um skilvirkni háskóla, þ.m.t. um hámark námstíma og brotthvarf.
 2. Stuðla að formlegu samstarfi allra háskóla um framtíðarstefnumótun háskólastigsins. Þar verði m.a. hugað að samræmdu rekstrarformi háskólanna, fjármögnun háskólastofnana, kennslu og rannsóknum, aukinni sérhæfingu eftir fræðasviðum og tengslum við atvinnulíf og samfélag.
 3. Grunnframlög til rannsókna innan hvers fræðasvið í háskólum og rannsóknarstofnunum. Að öðru leyti verði opinberu rannsóknarfé úthlutað á grundvelli samkeppni og jafningjamats. Tryggja þarf nýliðun í vísindastarfi með því að veita yngri vísindamönnum aðgang að rannsóknarfé.
 4. Greina gæði og hagkvæmni þess að sameina opinberu háskólana og á svipaðan hátt skoða hvort auka megi sérhæfingu hvers háskóla.
 5. Opinberir háskólar og rannsóknarstofnanir fái fjárframlög til að nýta alþjóðlegar upplýsingaveitur.
 6. Fjármögnun grunnmenntunar á viðurkenndum fræðasviðum er á ábyrgð ríkisins. Brýnt er að gæta jafnræðis varðandi kostnaðarþátttöku nemenda á mismunandi skólastigum.
 7. Framlög opinberra aðila og einkaaðila til rannsókna og þróunar nái 4% af landsframleiðslu árið 2020.
 8. Samræma gæðamat með fjármögnun og eftirfylgni vísindarannsókna. Í því skyni ætti að kanna kosti þess og galla að allir opinberir rannsóknarsjóðir sameinist Rannsóknasjóði eða Tækniþróunarsjóði.

Fullorðins- og framhaldsfræðsla

Samfylkingin vill tryggja rétt almennings til framhaldsfræðslu og starfsþróunar, m.a. með eflingu raunfærnimats og stuðnings við net símenntunarmiðstöðva. Leita þarf víðtæks samstarfs við skóla og aðila vinnumarkaðarins um fjölgun möguleika fyrir einstaklinga á vinnumarkaði sem vilja snúa aftur í nám. Auka þarf fjölbreytni valkosta í framhaldsnámi með þróun nýrra námsbrauta og skoða þarf leiðir sem gefist hafa vel í öðrum löndum, t.a.m. starfræksla fagskóla og lýðskóla. Samfylkingin vill:

 • aukið samstarf og samfellu í starfi símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla og háskóla.
 • að þau sjálfsögðu réttindi að fara í nám á fullorðinsaldri án óyfirstíganlegs kostnaðar séu varin og að aldurstakmarkanir setji ekki skorður á starfsþróun fólks. Öflugir háskólar, vísindi og nýsköpun

Frístundir og félagsstarf skiptir máli

Samfylkingin hefur þá sýn að nám, íþróttir, leikur, listir og félagsfærni fléttist saman í uppbyggilegu frístundastarfi í bland við skóladaginn. Mikilvægi samstarfs fagstétta í leik- og grunnskólum, sem og í frístundastarfi er ótvírætt og skapar heildstæða og örugga umgjörð um innihaldsríkan skóladag yngstu barna.

Þáttur sköpunar aukist í skóla- og frístundastarfi með áherslu á fjölbreytt menningaruppeldi, og að ríki og sveitarfélög leiti leiða til að þróa samstarf listafólks og skóla, auki veg vandaðs framboðs barnamenningar sem skólum stendur til boða og að börn geti sótt listnám á skólatíma á sem hóflegustu verði.

Það má samþætta betur skólastarf við íþrótta – og tómstundastarf með virkum samráðsvettvangi menntamála, æskulýðshreyfingar og íþrótta- og tómstundastarfs. Samfylkingin styður að rammalöggjöf um starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila verði að veruleika enda treystir slík löggjöf stoðir þessa mikilvæga starfs. Þá er mikilvægt að bjóða upp á fleiri starfsmöguleika fyrir tómstunda- og félagsmálafræðinga, t.d. innan skólanna þar sem þeir geti starfað á jafnréttisgrundvelli við hlið annarra starfsstétta til að efla frjálsan leik, félagsfærni og skipulagt tómstundastarf.

Innihaldsríkur skóladagur yngstu barna

Jöfnuður og félagslegt réttlæti í menntamálum birtist í þeirri framtíðarsýn Samfylkingarinnar að öll börn eigi þess kost að sækja leikskóla þar sem mikilvægi hins frjálsa leiks er nýtt í öllu starfi. Sterkar grunnstoðir lesturs og lesskilnings eru lykillinn að sjálfstrausti og farsæld barna á menntabrautinni.

Upphaf leikskólagöngu þarf að þróast í takt við þarfir fjölskyldna en lykilatriði er lenging fæðingarorlofs til að eyða óvissu og óöryggi þegar foreldra snúa aftur til vinnu að loknu orlofi. Fæðingarorlof þarf að lengja í 12 mánuði og til framtíðar litið enn lengra í samræmi við aðrar Norðurlandaþjóðir.