Evrópusambandið

Við viljum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðan við ESB. Þjóðin á að ráða för í þessu risastóra hagsmunamáli með það fyrir augum að hér verði hægt að njóta annarra valkosta í gjaldeyrismálum.

Samfylkingin hefur til margra ára talað fyrir því að hagsmunum Ísland sé best borgið innan Evrópusambandsins. Margfalt hærri vextir hér á landi rýra lífskjör fólks hér og hækka húsnæðiskostnað fram úr hófi.

Besta leiðin til að lækka vexti og tryggja stöðugleika er að taka upp evru samhliða inngöngu í Evrópusambandið. Upptaka evru er líka nauðsynleg til að skapa betri starfsskilyrði hér á landi fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og í nýsköpun.

Frjáls Palestína

Samfylkingin fagnar því að sífellt fleiri ríki viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Palestínu og áheyrnaraðild ríkisins að Sameinuðu þjóðunum og fylgi þar með fordæmi Íslendinga. Mikilvægt er að fylgja eftir frumkvæði Samfylkingarinnar gagnvart Palestínu.

Næsta skref er að styðja við inngöngu Palestínu í fjölþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar og að palestínskum yfirvöldum verði boðið að opna sendiráð á Íslandi.

 

Þróunarsamvinna

Samfylkingin leggur áherslu á að alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Íslendingum ber að leggja ríkulega af mörkum til að taka þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr hungri, fátækt, barnadauða og félagslegu ranglæti. Það er siðferðileg skylda auðugrar þjóðar að hjálpa hinum fátækustu til sjálfshjálpar. Sjálfbær þróun, ekki síst á sviðum sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku, á jafnan að vera í öndvegi.

Trúverðugleiki Íslands byggir á virkri þátttöku og að framlög til þróunarsamvinnu nái viðmiðum SÞ um 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu.

Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir aðgerðum sem auðvelda þróunarlöndum þátttöku í alþjóðaviðskiptum, sér í lagi afnámi hvers kyns tolla og tæknilegra hindrana. Eitt stærsta hagsmunamál þróunarlanda er bætt aðgengi að mörkuðum Vesturlanda.

Sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði viðurkenndur

Íslenska friðargæslan einbeiti sér áfram að mannúðarverkefnum og taki ekki þátt í hernaðarlegum aðgerðum. Leggja þarf áherslu á að efla konur til menntunar, atvinnu og sjálfstæðis í þróunarlöndum

Traustur gjaldmiðill er lykilatriði

Upptaka evru

Samfylkingin vill hagstjórn sem felur í sér að Íslendingar geti gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. Sú stefna styður jafnframt við krónuna og auðveldar afléttingu gjaldeyrishafta. Með upptöku evru yrði lands­mönnum loks tryggður traustur, alþjóðlegur gjaldmiðill til fram­tíðar. Vextir myndu lækka, verðtrygging verða óþörf og við­skipta­kostnaður minnka. Allt yrði þetta til að bæta lífskjör og treysta stoðir velferðarsamfélagsins í þágu almennings í landinu.

Raunhæf stefna í gjaldeyris- og peningamálum

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur til langs tíma haft skýra og raunhæfa stefnu í gjaldeyris- og peninga­málum, stefnu sem styrkir forsendur  hagvaxtar, fjárfestingar, atvinnu­sköpunar og velferðar á næstu árum og áratugum.

Evrópsk samvinna

Samfylkingin vill að unnið verði með Evrópusambandinu, evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og hvernig henni verði skipt út fyrir evru. Áætlun sem unnin yrði í samvinnu við þessa aðila, með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu að markmiði, hefur þann trúverðugleika sem þarf til að skila árangri.

Utanríkisviðskipti

Treysta ber samstarf við helstu viðskiptalönd Íslands. Jafnframt þarf að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands til lengri framtíðar með því að vinna í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin markaði um gerð fríverslunarsamninga við vaxandi lönd.

Landfræðileg staða, saga og menningartengsl gerir það að verkum að Evrópa mun til frambúðar vera langmikilvægasta markaðssvæði landsins. Til að auka stöðugleika í utanríkisviðskiptum, ýta undir erlendar fjárfestingar og bæta hag landsmanna vill Samfylkingin að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

Full þátttaka í sameiginlegum markaði Evrópuríkja er lykilatriði til að halda framsæknum fyrirtækjum í landinu og fjölga störfum. Aðild að ESB fæli í sér mikil sóknarfæri á sviði fullvinnslu sem gætu fjölgað störfum og skapað mikil verðmæti í sjávarbyggðum landsins.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • afnám tolla og annarra viðskiptahindrana af vöru og þjónustu til að lækka verð og stuðla þannig að auknum kaupmætti.
  • afnám viðskiptahindrana sem gætu skapað sérstök sóknarfæri fyrir íslenska frumkvöðla og skapandi greinar. Tollfrelsi í kjölfar aðildar myndi einnig skapa mikla möguleika fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum sem gætu stórstyrkt undirstöður greina einsog sauðfjárræktar. Sama gildir um sjávarútveg þar sem ýmsar tollareglur EES koma í veg fyrir að hægt sé að hámarka útflutningsverðmæti ýmissa íslenskra afurða.
  • að mikil tækifæri felist í viðskiptum við vaxandi hagkerfi og nýmarkaðsríki. Ísland stendur sterkara að vígi í samskiptum við þessi ríki sem fullgildur aðili að Evrópusambandinu en eitt síns liðs.
  • að samið verði sem fyrst um fríverslun við Grænland samhliða því að efla samskipti landanna á öllum sviðum.
  • að viðskiptasamningar íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja skulu ætíð taka mið af mannréttinda- og umhverfissjónarmiðum.