Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks
 • Geðheilbrigði ungs fólks í algeran forgang
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!

Fyrir síðustu kosningar var lofað stórauknum framlögum til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu þá að setja þessi mál í algeran forgang – en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, hafnar niðurskurðar- og einkavæðingar- stefnu núverandi stjórnarflokka og ætlar á komandi kjörtímabili og í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum beita sér af alefli fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þessi verkefni eru brýnust:

 • Eflum opinbera gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og höfnum einkavæðingu
 • Tryggjum grunnstoðirnar og eflum heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu
 • Geðheilbrigði ungs fólks fái sérstakan forgang með andlegri og líkamlegri heilsueflingu í leik-, grunn- og framhaldsskólum
 • Eflum sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum og í skólum – 100 nýir sálfræðingar um allt land
 • Lækkum strax greiðsluþátttöku sjúklinga
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi
 • Ljúkum uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut

Látum hjartað ráða för!

Kjósum öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla!

Réttlátt samfélag, bætt lífskjör og aukinn jöfnuð

 • Öruggt húsnæði fyrir alla – minnst 6000 nýjar leiguíbúðir
 • Tvöföldun barnabóta, hærri lífeyri og fjórfalt frítekjumark
 • Réttlátan arð af auðlindum í stað skatta á almenning
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks eða þjóðareignir

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sína um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

 • Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
 • Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
 • Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
 • Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
 • Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

 

Gott Ísland, þar sem fólki líður vel og getur verið gott hvert við annað

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Öflugt atvinnulíf og nýsköpun í sátt við náttúruna
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!
 • Mannúð, ábyrgð og framsýni í málefnum flóttafólks, á alþjóðavettvangi og gegn loftslagsvá

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

 • Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum höfuðáherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.
 • Lækkum heilbrigðiskostnað fólks verulega og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu.
 • Aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum og á heilsugæslustöðvum landsins – 100 nýir sálfræðingar um allt land.
 • Ráðumst í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi.
 • Tökum á móti fleiri flóttamönnum og vöndum móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.
 • Stóraukum fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar.
 • Tökum markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
 • Flýtum orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Milljarður á ári í stórsókn gegn ofbeldi

Samfylkingin ætlar að ráðast í stórsókn gegn ofbeldi. Við höfum ákveðið að setja einn milljarð króna árlega inn í þetta verkefni.

Hvað ætlum við að gera?

1. Efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega.

Við ætlum í fyrsta lagi að efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti eitt hundrað lögregluþjóna svo vel eigi að vera. Skortur á faglærðum lögregluþjónum er allsstaðar um landið og kemur það auðvitað niður á því starfi sem þar er unnið. Þetta kemur harkalega niður á meðferð kynferðis-, heimilis- og annarra ofbeldisbrota enda bitnar þetta á rannsóknum og meðferð mála. Það gengur ekki að brotaþolar þurfi að bíða í 2 – 3 ár eftir niðurstöðu mála. Þetta fælir brotaþola frá því að kæra og rannsóknir verða einfaldlega ekki eins góðar.

2. Markviss vinna er varðar forvarnir og fræðslu

Í öðru lagi ætlum við að fara í markvissa vinnu er varðar forvarnir og fræðslu. Ekki enn eitt átakið sem lifir í mánuð heldur fókuserað starf sem sett er inn í allar menntastofnanir, öll skólastigin. Þar eru hvort tveggja gerendur og brotaþolar í nútíð og framtíð sem þurfa að læra það frá fyrsta degi að ofbeldi drepur. Langtímaverkefni er málið – setja þetta inn í alla samfélagsfræðslu og það með markvissum hætti.

3. Samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.

Í þriðja lagi verður farið í átak til að samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala er sífellt í þróun og að bæta þjónustu sína en betur má ef duga skal. Það þarf að samræma móttöku og meðferð mála um allt land og á sumum stöðum erum við áratugum á eftir þegar kemur að utanumhaldi þessara mála.

Áherslur okkar í geðheilbrigðismálum

Í samræmi við geðheilbrigðisáætlun hefur sálfræðingum í heilsugæslunni verið fjölgað en það þarf að gera miklu betur í að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Samfylkingin vill bæta við 100 sálfræðingum  í skólum og heilsugæslu um allt land.  Það þarf að gera sálfræðiþjónustu ódýrari og færa hana undir hið opinbera heillbrigðiskerfi. Við leggjum áherslu á að Ísland verði heilsueflandi samfélag sem stuðlar að góðri geðheilsu fólks.

Þau atriði sem við teljum brýnust á næstu árum eru:

 • aðgengileg geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga
 • ráða 100 nýja sálfræðinga í skóla og á heilsugæslustöðvar landsins og færa sálfræðiþjónustu undir opinbera heilbrigðisþjónustu
 • stuðningur við börn fólks með geðrænan vanda
 • stórefling bráðamóttöku geðdeildar Landspítala

Allt fólk á rétt á geðheilbrigðisþjónustu, ekki bara hátekjufólk.

 

Sjá einnig: 

Ókeypis sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum

 

 

Réttindi fólks með fötlun

Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland taki frumkvæði í mannréttindamálum en sé ekki farþegi í samfélagi þjóða og vill því árétta að þjónusta við fatlað fólk er mannréttindamál, ekki félagslegt úrræði. Frekari viðhorfsbreytingar er þörf sem og vinna að fullum rétti fatlaðs fólks til einkalífs og sjálfsákvörðunar.

Aukum réttindi – bætum kjör

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að allir eigi rétt á mannsæmandi lífi og húsnæði við hæfi. Þess vegna viljum við auka réttindi fatlaðs fólks og bæta kjör öryrkja og aldraðra.

Í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar er að finna margar tillögur sem varða fatlað fólk. Samfylkingin vill að:

 • Gerð verði heildstæð löggjöf um málefni fatlaðra sem tryggir réttindi, samfellu og jafnræði í þjónustu fyrir alla, um allt land.
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verði löggiltur strax. Þannig verði tryggt að virðing sé borin fyrir skoðunum, þörfum og vilja fatlaðs fólks.
 • Bætur hækki í 300 þúsund krónur á mánuði fylgi þróun lágmarkslauna.
 • skerðingar og tekjutengingar í almannatryggingakerfinu verði minnkaðar verulega.
 • Notendastýrð persónuleg þjónusta (NPA) verði gerð að lögbundinni þjónustu og raunhæfum kosti fyrir fatlað fólk.
 • Jafnt aðgengi allra að velferðarþjónustu án mismununar verði tryggt og gott eftirlit verði tryggt til að gæði velferðarþjónustunnar séu eins og best verði á kosið.
 • Þeir sem njóta opinberrar þjónustu eigi rétt á að taka þátt í að móta þá þjónustu.
 • Túlkaþjónusta í heilbrigðiskerfinu verði efld til muna, m.a. vegna samskiptaerfiðleika, heyrnarskerðingar, tungumáls eða vegna annarra aðstæðna.
 • Tryggja að allir fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, bæði í námi og strarfi.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa borið þessar tillögur áfram og flutt fleiri tillögur sem snúa að betra lífi fatlaðs fólks.

Útboð á aflaheimildum

Það hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun að að vilja bjóða út fiskveiðikvóta. Þannig er almenningi best tryggðar sanngjarnar tekjur af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

kvotiÚthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti.

Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað. Þessi þróun mun ekki halda áfram verði Samfylkingin í ríkisstjórn.

Í Færeyjum var nýlega byrjað að bjóða út aflaheimildir að frumkvæði systurflokks okkar þar í landi.

Reynsla þeirra sýnir að við með útboðum á aflaheimildum gætum við fengið mun meiri tekjur af fiskveiðiauðlindum en í dag.

Útboðin þjóna þannig tvíþættum tilgangi:
– að veita nýliðum aðgengi og að
– skila eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar.

Með því að láta bjóða í fiskveiðiheimildirnar þá fær þjóðin hæst verð fyrir afnotin af eign sinni. Mikilvægt er að slíkt úboð verði vel undirbúið með aðkomu erlendra og innlendra fræðimanna og sérfræðinga á sviðinu.

Við erum óhrædd við að sækja tekjur í sameiginlegar auðlindir til að fjármagna frábæra, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu um land allt.

Ríkisfjármál og skattastefna

Réttlátt velferðarþjóðfélag

Skattastefna og fyrirkomulag tilfærslna í skattkerfinu eru á meðal helstu grunnstoða réttláts velferðarþjóðfélags. Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Hallalaus rekstur ríkissjóðs er mikilvæg forsenda velferðar og jafnaðar. Leggja þarf áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem nú er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Styrkjum stöðu ríkissjóðs

Styrkja verður stöðu ríkissjóðs með því að auka hlut almennings í þeirri auðlindarentu sem nýting fiskistofnanna og annarra takmarkaðra auðlinda í þjóðareign skapar. Þannig séu nýtingarleyfi veitt til hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi til auðlindasjóðs sem verði hluti ríkisreiknings.

Samfylkingin leggur áherslu á öflugt, skilvirkt og réttlátt skattkerfi til að fjármagna opinberan rekstur og ná pólitískum markmiðum um:

 • skilvirka efnahagsstjórn
 • tekjudreifingu og jöfnuð
 • húsnæðisstefnu og önnur félagsleg málefni
 • atvinnustefnu
 • umhverfismál

Í því augnamiði þarf að leggja á bæði beina og óbeina skatta. Til að ná fram markmiðum um tekjudreifingu og jöfnuð henta beinir skattar betur en óbeinir auk þess sem tilfærslukerfi ríkisins á borð við barnabætur og húsnæðisbætur, auk persónuafsláttar eru heppileg leið til tekjujöfnunar. Því verður skattkerfi hins opinbera ekki skoðað án þess að samhliða sé fjallað um tilfærslur hins opinbera.
Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjár­festingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, og í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Samfylkingin hafnar tvöföldu velferðarkerfi og telur að grunnþjónustu velferðarkerfisins eigi að fjármagna með almennri skattheimtu og halda beri beinni gjaldtöku notenda innan hóflegra marka.

Samfylkingin hefur eftirfarandi leiðarljós:

 •  tekjuskattur skal vera þrepaskiptur og þannig gegna því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka á bilið milli skattþrepa og fjölga þeim. Þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur.
 • efla á barnabótakerfið og koma á skilvirku kerfi húsnæðisbóta sem taki við af núverandi vaxta- og húsaleigubótakerfi.
 • auka ber vægi tilfærslukerfa barna- og húsnæðisbóta sem auk persónuafsláttarins eru mikilvægustu tekjujöfnunartæki hins opinbera.
 • tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
 • bein gjaldtaka af notendum velferðarþjónustunnar má aldrei verða til þess að mismuna og hindra að fólk geti nýtt sér þjónustuna. Þessi gjaldtaka hefur hækkað undanfarin misseri og er til muna hærri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Bein gjaldtaka fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun er eitt form skattheimtu. Slík gjaldtaka eykur ójöfnuð sem dregur til lengri tíma úr þrótti samfélagsins og almennri velsæld.
 • afmarka ber tekjur og gjöld vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkis­reiknings. Með því verði auðlinda­rentan gerð sýnileg almenningi.
 • raforkufyrirtæki greiði auðlindagjald hvort sem rafmagnsframleiðslan á sér stað í fallvötnum eða með gufuöflun. Hitaveitur borgi auðlindagjald af því vatni sem þau fá úr jörðu og útgerðir greiði fyrir heimildir til að sækja fiskistofna á Íslandsmiðum.
 • gera þarf áætlun um hvernig taka eigi á uppsöfnuðum vanda vegna skuldbindinga í opinbera lífeyriskerfinu. Fyrirséð er að greiðslur úr ríkissjóði vegna bakábyrgðar á skuldbindingum muni að óbreyttu hefjast innan fárra ára og nema tugum milljarða króna árlega. Engin áætlun liggur fyrir um með hvað hætti ríkissjóður hyggist mæta þessum stórauknu útgjöldum. Stefna skal að því að til framtíðar verði komið á einu samræmdu, sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn.

Efnahagsmál

Grunnur góðs efnahags og lífskjara almennings í velferðarríkinu hvílir á öguðu frelsi, arðsömu atvinnulífi og verðmætasköpun sem byggir jöfnum höndum á hugviti og hagnýtingu landsins gæða í þágu alls almennings. Hagkerfið á að vera opið fyrir inn­lendum og erlendum fjárfestingum og öguðu markaðsfrelsi allra atvinnugreina.

Nýting auðlinda í almannaþágu

Samfylkingin vill vinna að því að nýting auðlinda í almannaþágu verði í framtíðinni bæði arðsöm og sjálfbær, hvort sem er um að ræða fiskistofnana við landið eða hagnýtingu vatnsafls- og gufuvirkjana til frekari orkuvinnslu.

Velmegun þjóðarinnar

Við uppbyggingu Íslands með hugsjónir jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi hvílir velmegun þjóðarinnar á mann- og náttúruauði jafnt sem í hefðbundum framleiðslugreinum á borð við sjávarútveg, landbúnað og iðnað sem og í ferðaþjónustu og framsæknum hátækni- og þekkingariðnaði. Almenningi verði skapaðar varanlegar tekjur af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar í samræmi við tillögur auðlinda­nefndar þar um.

Fátækt og ójöfnuð má ekki líða

Eitt samfélag fyrir alla

Samfylkingin mun beita sér fyrir opinni umræðu um fátækt og afleiðingar félags- og efnahaglegs ójafnaðar. Krafa Samfylkingarinnar er að öllum verði gert kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Almenn og aðgengileg velferðarþjónusta kemur öllum til góða og kemur í veg fyrir þá stimplun sem sértæk þjónusta leiðir oft af sér.

Upprætum fátækt

Uppræta þarf fátækt en rannsóknir sýna að hún leiðir til lakari lífsgæða, verri heilsu og oft félagslegrar einangrunar og útskúfunar. Styðja þarf millitekjuhópa sem án stuðnings samfélagsins geta lent í fátækt.

Samfylkingin hefur það að markmiði að:

 • húsnæðisstuðningur verði veittur óháður búsetuformi og barnabætur verði fyrir öll börn.
 • lækka þjónustugjöld vegna opinberrar þjónustu með jafnt aðgengi óháð efnahag að leiðarljósi.
 • leggja fram heildstæða, tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt. Sérstaklega skal hugað að barnafátækt, að einstæðum- umgengnisforeldrum, öryrkjum og innflytjendum. Unnið verði að aðgerðaáætluninni í nánu samstarfi með fagfólki og félagasamtökum.
 • valdefla og virkja notendur til þátttöku í að skipuleggja og þróa þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og meta hana. Slíkt á við í heilbrigðisþjónustu, forvörnum og allri félagslegri þjónustu.
 • nýjar leiðir verði farnar til að finna lausn þeirra einstaklinga sem glíma við hemilisleysi. Til að mynda Housing First, þar sem fyrsta skrefið í stuðningi við heimilislausa einstaklinga með geðræn eða vímuefnavandamál er að útvega húsnæði.