Um Hildi

Um Hildi 2017-09-26T12:19:35+00:00

Sæti og kjördæmi: 3. sæti í Norðausturkjördæmi

Starfsheiti: Msc í Mannauðsstjórnun. Ráðgjafi í stefnumótunar- og ráðningarmálum og eigandi vefverslunarinnar eyrin.is sem senn mun líta dagsins ljós.

Í hnotskurn: 33 ára kona sem býr á Seyðisfirði með manni og barni. Hef brennandi áhuga á samfélagsmálum og umbótum í anda jafnaðarstefnunnar. Hef setið í bæjarstjórn og fræðslunefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar á þessu kjörtímabili sem hefur verið skemmtileg og dýrmæt reynsla. Er listræn og háð því að hlusta á tónlist við leik og störf. Elska góðan mat og að fara í berjamó með syni mínum. Ég er réttsýn og lausnamiðuð en mig hefur alla tíð sviðið misskipting og óréttlæti.

Fyrir hverju brennur þú helst í stjórnmálum? – Heilbrigðismálin skipta mig miklu máli. Ég vil sjá breytta forgangsröðun stjórnvalda í þágu heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisþjónusta á ekki að kosta sjúklinginn neitt heldur vera þjónusta sem allir eiga rétt á. Ég vil einnig sjá sálfræðiþjónustu ganga inn í heilsugæslurnar okkar sem hluti af þeirri þjónustu sem allir hafa rétt á.

Samgöngur eru einnig sérstakt áhugamál hjá mér en eins og flestir landsmenn vita berjast Seyðfirðingar fyrir göngum undir Fjarðarheiði. Samgöngur eru eitt af stærstu hagsmunamálum landsbyggðarinnar og fjórðungsins sem ég bý í og raunar grunnurinn að heilbrigðu atvinnulífi og byggðaþróun. Þá er ég ekki einungis að tala um vegi, brýr og göng heldur einnig um innanlandsflugið sem er svo dýrt að það skerðir lífsgæði fólks á landsbyggðinni. Menntamál og húsnæðismál eru einnig málflokkar sem skipta mig máli en húsnæðismál ungs fólks og heilbrigður leigumarkaður eru sérstakt áhyggjuefni um þessar mundir. Svo er það brýnt að klára breytingar á stjórnarskránni sem er grundvöllur að mikilvægum kerfisbreytingum í stórum málaflokkum.

Leyndur hæfileiki: Kannski ekki svo leyndur lengur en ég er nýkomin út úr skápnum með myndirnar sem ég hef teiknað síðan ég man eftir mér.

Í hverju felst hamingjan? -Hamingjan felst í lífsviðhorfi þar sem nægjusemi og þakklæti einkenna hugsanir manns. Í mínu tilfelli felst hamingjan í frelsinu til að gera það sem gleður og nærir og samveru með þeim sem ég elska mest.

Uppskrift af einhverju góðu: Sinnepskjúllinn minn frægi sem er einfaldasta uppskrift í heimi.
Ein krukka Sollu sinnep, salt, pipar, ólífuolía og heill kjúklingur.
Þú setur sinnepið í skál, bætir við slettu af ólífuolíu, sjávarsalti og góðum pipar og hrærir vel saman. Þvínæst penslarðu sinnepinu á heilan kjúkling og eldar í ofni á 180 gráðum í klukkutíma. Með þessu ber ég fram íslenskar kartöflur frá tengdaföður mínum sem ég hef skorið í sneiðar og bætt við góðu salti og pipar, ólífuolíu og rósmarín. Rósmarínið má gjarnan vera ferskt. Gott salat er nauðsynlegt með þessari máltíð.

Hvaða sjónvarpsþátt tætirðu í þig? -House of Cards koma fyrstir upp í hugann.

Fyrirmynd í stjórnmálum: Guðbjartur Hannesson heitinn, Katrín Júlíusdóttir og Katrín Jakobsdóttir eru gott dæmi um fyrirmyndir í stjórnmálum. Annars var Árni Gunnarsson mikil fyrirmynd í stjórnmálum þegar ég var að alast upp en ég var svo lánsöm að kynnast honum persónulega í gegnum kæra æskuvinkonu.