COP28 og stöðumat Íslands

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefst í lok þessa mánaðar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hið 28. í röðinni og gengur undir nafninu COP28.  Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það markmið að ná svokölluðu kolefnishlutleysi árið 2040 og 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en árið 2030. Við höfum liðlega sex ár til að ná því verðuga markmiði. Útblástur gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá samgöngum og atvinnustarfsemi hér á landi hefur aukist jafnt og þétt á liðnum áratugum – með örlitlu sloti í heimsfaraldrinum – og markmiðin ekki í sjónmáli.

Á fræðsluvefnum Himinn og haf sem Birna Hallsdóttir starfrækir má finna gagnlegar upplýsingar um þróun losunar frá Íslandi. Þar kemur skýrt fram að hún hefur ekki einungis aukist meira en í löndunum í kringum okkur frá 1990 heldur er losun á hvern íbúa hérlendis einnig meiri en í nágrannalöndunum. Ísland er með 7. hæstu losun af OECD-löndunum 37 og reyndar þá hæstu ef losun vegna landnotkunar er meðtalin.

Stóriðjan hér á landi nýtur þess að vera innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) og er því er öll önnur losun, oft nefnd samfélagslosun, á ábyrgð stjórnvalda. Líkt og núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þreytist ekki á að nefna þá stendur Ísland vel að vígi þegar að því kemur að tækla samfélagslosunina. Við búum að því að eiga hitaveitu og framleiða rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum. Stærstu verkefni okkar í dag eru að draga rækilega úr losun GHL frá bílaumferð, standa við markmið okkar í úrgangsmálum, draga úr losun vegna landnotkunar og setja mengandi atvinnustarfsemi skilyrði er varða notkun bestu fáanlegu tækni í iðnaðarferlum. Síðan bíða stór verkefni í orkuskiptum á sjó og í lofti en hin þarf að leysa fyrst.

Allt hef­ur þetta legið fyr­ir árum sam­an en ekk­ert í aðgerðaáætl­un­um stjórn­valda trygg­ir að ár­ang­ur­inn ná­ist á til­sett­um tíma. Aðgerðaáætl­un um sam­drátt í los­un GHL frá 2020 hef­ur enn ekki verið upp­færð og fátt er að frétta af nauðsyn­leg­um laga- eða reglu­gerðarbreyt­ing­um sem skapa eiga hvata til sam­drátt­ar í los­un.

Á COP28 verður í fyrsta skipti kallað eft­ir stöðumati frá hverju ein­asta aðild­ar­ríki (e. global stock take). Því er ætlað að gefa ná­kvæma mynd af því hvar ríki eru stödd í aðgerðum sín­um í lofts­lags­mál­um með til­liti til ákvæða Par­ís­ar­samn­ings­ins. Á vef lofts­lags­ráðs seg­ir að COP28 eigi að ljúka með birt­ingu niðurstaðna úr stöðumat­inu á heimsvísu. Lofts­lags­ráð hef­ur rétti­lega lýst lofts­lagsaðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem óljós­um og ófull­nægj­andi. Stöðumatið hef­ur enn ekki verið birt en þegar rík­is­stjórn Íslands skil­ar því inn kem­ur á dag­inn hvar Ísland stend­ur og hversu langt er í land.