Allt að verða klárt fyrir landsfund

Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram í Grafarvogi á föstudag og laugardag. Kosningar til stjórnar fara fram síðdegis á föstudag og á laugardag verður opin hátíðardagskrá eftir hádegi, þar sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra auk forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins halda hátíðarræður.

Landsfundurinn átti að fara fram á liðnu hausti, en var frestað vegna skyndilegra kosninga til Alþingis. Ekki grátum við það, enda fáum við nú að halda landsfund sem stærsta stjórnmálaafl landsins og leiðandi afl í ríkisstjórn í fyrsta sinn í 12 ár.

Ljóst er að fundurinn verður fjölmennur, en mörg hundruð fulltrúar aðildarfélaga af landinu öllu eru skráðir og taka þátt í að móta framtíðarsýn íslenskra jafnaðarmanna. Yfirskrift fundarins er „Sterkari saman“ og eins og sjá má að meðfylgjandi mynd er undirbúningur langt kominn.

25 ára afmælishátíð!

Auk þess sem hefðbundin landsfundarstörf fara fram, með málefnastarfi og kosningum til stjórnar og annarra trúnaðarstarfa á föstudag og laugardag, býður Samfylkingin til opinnar hátíðardagskrár eftir hádegi á laugardag í tilefni af 25 ára afmæli Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.

Dagskráin er öllum opin og ekki þarf að skrá sig sérstaklega inn á landsfund til að geta fylgst með dagskránni sem fram fer eftir hádegi.

25 ára afmæli Samfylkingarinnar

Hátíðardagskránni verður streymt beint á vefmiðlum og hér á vef Samfylkingarinnar, fyrir þau sem ekki eiga heimangengt.

Forsætisráðherra opnar hátíðardagskránna á laugardag með ræðu, en auk þess halda forseti ASÍ og framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins hátíðarræður. Pallborðsumræður fara einnig fram um öryggis- og varnarmál og ráðherrar flokksins verða teknir í sófaspjall um fyrstu 100 daga ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.

Kort af staðsetningu landsfundar

Staðsetning landsfundar

Landsfundurinn er haldinn í Fossa Studios, kvikmyndatökuveri True North við Fossaleyni 21-23 í Grafarvogi. Þegar komið er inn í Grafarvoginn af Vesturlandsvegi er ekið inn til hægri að Egilshöll.

Einhverjar óáreiðanlegar upplýsingaveitur hafa haldið því fram að landsfundurinn sé í kvikmyndatökuveri í Gufunesi. Svo er ekki, eins og sjá má á kortinu hér að ofan!