Í vikulokin

Við í þingflokki Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands á Alþingi létum til okkar taka dagana 13. mars – 26. mars 2017 eins og við var að búast.
Dagarnir 13. – 17. mars voru nefndardagar í þinginu. Þá unnu nefndirnar að hinum ýmsu málum. Það var mismikið að gera hjá nefndunum og fæstar þeirra nýttu alla fundartíma sem þeim voru úthlutað enda hefur ríkisstjórnin ekki verið afkastamikil frá því að hún tók til starfa. Þingmannamálin hafa því fengið meira vægi sem er í raun ágætt.
Í lok nefndarvikunnar, föstudaginn 17. mars sótti ég afar gagnlegan fund í Stokkhólmi um vinnumarkaðsmál með fulltrúum þingflokks jafnaðarmanna í Norðurlandaráði og fulltrúum verkalýðsfélaga.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á mánudaginn spurði Logi Einarsson fjármála- og efnahagsráðherra um fátækt á Íslandi og viðbrögð stjórnvalda. Ráðherrann sagði að ekki stæði til að nýta skattkerfið til jöfnunar. Það kom ekki á óvart.
Guðjón S. Brjánsson átti orðastað við heilbrigðisráðherra um samning við einkasjúkrahús og fagnaði því að ekki yrði að þeirri samningagerð enda hefði ráðherra þá gengið gróðaöflunum stefnulítið á vald. Guðjón ræddi einnig styttingu biðlista.
Logi mælti fyrir afar mikilvægu máli á fimmtudaginn um fjölgun leiguíbúða sem hljóðar svo: „Alþingi ályktar að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir.“ Hér er ræða Loga um málið.
Ég mælti fyrir tveimur góðum málum í vikunni sem bæði eru endurflutt mál frá Valgerði Bjarnadóttur (Valgerður Bjarnadóttir) fyrrum þingmanni Samfylkingarinnar. Annað er frumvarp um breytingar á þingskaparlögum sem leyfa ráðherrum að segja tímabundið af sér þingmennsku og varaþingmaður taki sæti þeirra á þingi á meðan. Hitt er frumvarp um stofnun Þjóðhagsstofnunar.
Guðjón talaði undir liðnum störf þingsins um vandann á húsnæðismarkaði sem verst bitnar á eignalitlum einstaklingum og barnafjölskyldum sem ekki eiga eigið húsnæði. Guðjón minnti einnig á tillögur Samfylkingarinnar frá síðasta kjörtímabili um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Ástandið á húsnæðismarkaði sýnir að ef þær hefðu verið samþykktar væri vandinn þar ekki eins mikill og hann er nú.
Logi átti orðastað við Njál Trausta Friðbertson þingmann Sjálfstæðisflokksins um útgjaldareglu ríkisstjórnarinnar sem mun leiða til niðurskurðar í velferðarkerfinu og samgöngukerfinu ef hagstæðar hagspár ganga ekki eftir og hvað Njáli fyndist um það. Fátt var um svör.
Eftir að forseti þingsins hafi beðið Björn Leví Gunnarsson að gæta orða sinna, en hann hafði í ræðu sinni bent á það augljósa að forsætisráðherra sagði ósatt um birtingu skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum, gerðu nokkrir þingmenn athugasemdir við orð forsetans. Það gerði Logi með kröftuglegum hætti sem sjá má hér.
Á mánudaginn tókum við Guðjón þátt í sérstakri umræðu um skipulag haf- og strandsvæða og leyfisveitingar fyrir opin sjókví í fiskeldi og fórum þar með varnaðarorð. Hér er ræða Guðjóns og hér er mín.
Sérstök umræða var um lífeyrissjóðsmál á miðvikudaginn og Logi og Guðjón tóku átt í henni. Sérstök umræða var einnig um samgönguáætlun og Logi og Guðjón tóku þátt í henni
Formaður Samfylkingarinnar var eftirsóttur viðmælandi í vikunni í útvarps- og sjónvarpsþáttum um stjórnmál líðandi stundar. Hann stóð sig vel að vanda og kom stefnu okkar Samfylkingarfólks skýrt og vel á framfæri. Á mánudaginn var hann gestur þáttarina Harmageddon á x-inu og ræddi m.a. um nauðsyn þess að nýta skattkerfið til jöfnunar. Hann var í Vikulokunum á rás1 á laugardaginn og ræddi um sölu bankanna og efnahagsmálin. Strax að loknum Vikulokunum var Logi í þættinum Víglínan á stöð2 og þar var rætt um velferðarmál og fátækt. Síðast en ekki síst var Logi í Silfrinu og ræddi um fátækt og efnahagsmál.
Föstudaginn 23. mars fór ég á vegum þingsins ásamt fleiri þingmönnum til Brussel til ágætis fundar með þingmannanefndum Íslands og Evrópuþingsins um samskipti Íslands og ESB. Þar var rætt um ýmisleg og þar á meðal áhrif Brexit á Ísland og önnur lönd, fiskveiðistjórnun, efnahagsmál og hlutverk ESB sem efnahagsbandalag og friðarbandalag.
Handan við hornið er spennandi vika framundan með umræðum m.a. um fjármálastefnu ríkisins til næstu fimm ára og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu bankanna.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands