Jafnaðarmaður vikunnar – Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður

Nafn: Heiða Björg Hilmisdóttir

Starf: Varaformaður Samfylkingarinnar og Borgarfulltrúi

Fjölskylduhagir: Ég er gift kona en maðurinn minn tók upp á því að búa í Kaupmannahöfn og þar býr líka elsta barnið okkar af fjórum. Hin þrjú sem eru 18, 11 og 9 ára búa með mér í Reykjavík og hjá okkur er oft mikið stuð, sérstaklega þegar allir eru heima.

Lýstu þér í fimm orðum: Jákvæð, skipulögð, heiðarleg, metnaðarfull, matarlistakona

Helsti löstur: Ætla mér oft of mikið og kem mér í vandræði með að hlaupa á milli staða

Heiða Björg ásamt fjölskyldunni sinni á góðri stundu

Heiða Björg ásamt fjölskyldunni sinni á góðri stundu

Hvað gerir þú í frítímanum?

Ég les mikið allskonar fróðleik og skáldskap í bland, fer í göngutúra um borgina, og tek svona tímabil í allskonar eins og: matargerð, garðyrkju, prjón og hekl, sjónvarpsseríu glápi, fjallaklifri svo dæmi séu tekin. Verð ekkert rosa góð í neinu hobbýi en kann svolítið í mörgu.

Af hverju ert þú jafnaðarmaður?

Samfélög þar sem jöfnuður ríkir eru betri samfélög. Þar líður fólki betur, er hraustara á sál og líkama, þar er minna um glæpi, ofbeldi og meira traust og meiri samstaða meðal fólks.  Allir menn eru jafnir og allir eiga rétt á að eiga mannsæmandi líf og til þess að það megi verða þarf að skipta jafnt á milli eins og börnin segja.

Hvað er brýnasta málið í íslenskum stjórnmálum í dag?

Mér finnst brýnast að vinna að auknum jöfnuði þannig að allir landsmenn geti lifað mannsæmandi lífi, búið í öruggu húsnæði, menntað sig og sótt heilbrigðisþjónustu ef þarf. Ísland er auðugt land en það er óþolandi að einungis lítill hluti landsmanna fái að hagnast á eign okkar allra, þar má nefna fiskinn í sjónum, á meðan stór hluti landsmanna sér ekki fram á að geta komist í öruggt húsnæði eða framfleitt sér og sínum.  Ég vil sjá samfélag þar sem fólk upplifir frelsi og raunveruleg tækifæri til að rækta sína hæfileika og láta drauma sina rætast óháð efnahag, menntun, fötlun, uppruna og svo framvegis.

Hvað er efst á bucket listanum þínum?

Að fara í heimsreisu

Hver er uppáhalds stjórnmálamaðurinn þinn og af hverju?

Það er til svo mikið af flottum stjórnmálamönnum en merkasti stjórnmálamaður sem Ísland hefur átt að mínu mati Jóhanna Sigurðardóttir. Hún er gegnheill jafnaðarmaður, samkvæm sjálfri sér og vann ótrúleg afrek á sínum langa pólitíska ferli í jafnréttismálum, húsnæðismálum, almannatryggingum og félagsmálum almennt. Þá var ég alveg starstruck þegar ég hitti Stefan Löfven en eftir að hafa hlustað á ræðu hans fylltist af orku til að berjast fyrir samfélag þar sem allir taka þátt og allir geta þróast lært og unnið eftir hæfileikum og áhuga.

Heiða fékk stjörnur í augun þegar hún hitti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíðþjóðar og leiðtoga jafnaðarmanna í Svíþjóð, á dögunum

Heiða fékk stjörnur í augun þegar hún hitti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíðþjóðar og leiðtoga jafnaðarmanna í Svíþjóð, á dögunum

Áttu þér eitthvað guilty pleasure?

Get dottið í súkkulaði

Hvernig tónlist hlustarðu á?

Allt nema þungarokk

Hverju ert þú stoltust af?

Hafa flutt ein til Svíþjóðar og lært sænsku af bekkjarfélögum mínum og orðabókinni góðu

Hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er með opinbera facebook síðu þar sem fólk getur fylgst með mér.