Ræða Loga á flokksstjórnarfundi

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ hélt Logi Einarsson, formaður, ræðu þar er m.a. fjallað um:

  • mikilvægi þess að Alþingi fordæmi ferðabann Bandaríkjaforseta,
  • meint jafnvægi nýrrar ríkisstjórnar,
  • mikilvægi menntunar til þess að skapa ný störf í tæknivæddu samfélagi

 

 

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar, Mosfellsbæ 4. febrúar2017.

 

Kæru félagar

Það er gaman að sjá ykkur hér í dag og ég er sannfærður um að þessi dagur getur markað upphafið að gagnsókn Samfylkingarinnar, ef okkur lánast að ganga samtaka til verka.

Þá sendi ég kveðju yfir fjöllin til þeirra sem taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

 

Við getum ekki dvalið um of við liðna atburði.  Það er þó ljóst að flokkur sem hefur minnkað úr 20 þingmönnum í 3, á nokkrum árum verður að hugsa sinn gang.  Ástæður fyrir þessum ógöngum eru fjölmargar og samtvinnaðar og við skulum ræða þær af festu og hófsemd, en ekki til þess að leita að einstökum blórabögglum.

 

Eitt er þó öruggt, við getum ekki kennt kjósendum um. Og það hjálpar okkur ekki að tala sífellt um að meirihluti Íslendinga séu jafnaðarmenn ef við náum ekki eyrum þeirra.  Við þurfum að nota tímann vel og leita lausna. Auðvitað getum við flogist örlítið á; bara ef við munum að vera rausnarleg og umburðarlynd hvert við annað.  Fögnum fjölbreytileikanum; hann er mun líklegri til að skapa deiglu en hjörð já bræðra.

 

Reyndar eiga jafnaðarmenn víða um álfuna í nokkrum vanda. Kannski höfum við misst talsambandi við almenning. Við höfum beint sjónum okkar að ákveðnum hópum sem vissulega eiga heima undir regnhlíf jafnaðarstefnunnar. En við það hefur öðrum fundist þeir afskiptir.   Þegar við ætlum að lyfta einum hóp upp, þurfum við oftast kerfisbreytingar; afla meira fé í samneysluna.  Að öðrum kosti er hætt við að jafnharðan og við lyftum einum upp ýtum við öðrum niður.  Við þurfum því að berjast fyrir slíkum breytingum.

Ef við ætlum að snúa vörn í sókn er heldur ekki nóg að kunna utanbókar svörin við samfélagi gærdagsins, ekki fullnægjandi að skilja samtímann; við þurfum umfram allt að takast á við framtíðina og þeim áskorunum sem í henni felast.

 

Margt hefur á daga Samfylkingarinnar drifið frá því að við biðum ósigur í síðustu þingkosningum. Það kom þó þægilega á óvart hversu mikill áhugi var á Samfylkingunni í stjórnarmyndunarviðræðum, þrátt fyrir lítinn þingstyrk.  Það er ekki síst að þakka fyrrum þingmönnum flokksins sem hafa þótt ábyrgir og vinnusamir í samstarfi.  Það voru mikil vonbrigði að ekki tækist að mynda fimm flokka stjórn. Að mínu mati var enginn sá ágreiningur sem ekki hefði verið hægt að leysa, a.m.k. ef miðað var við kosningastefnur flokkanna.  Þá sýndist mér ljóst að enginn þessara fimm flokka myndi ná betri niðurstöðu í öðrum viðræðum.  Og það hefur komið á daginn. Kannski strandaði þetta þegar öllu var á botninn hvolft ekki á málum heldur fordómum og hræðslu við nýjan og fjölbreyttari kúltúr.  Mér finnst það ömurlegt.

 

Það hefði þurft sterkari jafnaðarflokk, á miðju litrófinu, svo hægt hefði verið að líma þetta saman.  Enn einu sinni var sundrung félagshyggjuafla vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins.

 

Niðurstaðan var því sú að tveir flokkar, sem reru talsvert á okkar mið, köstuðu kosningarloforðum síðan fyrir róða og leiddu til valda forsætisráðherra sem nefndur var í Panama skjölunum. En þau voru megin ástæða kosninganna.  Hann hefur síðan orðið uppvís að því að leyna þingið tveimur mikilvægum skýrslum; annarri sem afhjúpaði siðleysi efnaðs fólks sem kom sér hjá því að taka þátt í samneyslunni og hinni sem sýndi hvernig fyrrum ríkisstjórn mokaði peningum í ríkari hluta þjóðarinnar í nafni sanngirni og leiðréttingar.

 

Ég ætla ekki að þreyta ykkur á að teikna nákvæmlega upp þá mynd, sem blasir við þegar horft er á nýja ríkisstjórn, hana þekki þið jafnvel og ég.  Þó er ljóst að við munum þurfa að berjast áfram gegn vaxandi ójöfnuði og félagslegum óstöðugleika. Slást gegn frændhygli og einkavæðingu í opinberri þjónustu.  Í stefnuræðu forsætisráðherra notaði hann orðið jafnvægi. Það merkir í hans orðabók, óbreytt ástand; stöðnun.

 

Sjávarauðlindir þjóðarinnar verða áfram látnar af hendi fyrir alltof lága upphæð, til útvalinna, í stað þess að leyfa þjóðinni að njóta arðsins í formi sterkari heilbrigðisþjónustu, öflugra menntakerfis og traustari innviða.

 

Ég hef einnig áhyggjur af þróun ferðaþjónustunnar í höndum þessarar stjórnar.  Fái þessi mikilvæga atvinnugrein að vaxa stjórnlaust á forsendum einsleitni, veikra innviða og skammtíma sjónarmiða munum við upplifa enn eitt síldarævintýrið.

 

Í dag er hægt að vakna upp á hóteli, nánast hvar sem er í heiminum og litast um, án þess að hafa hugmynd í hvaða borg maður er staddur:  Pálmatré í lobbínu, egg og beikon í morgunmat og símynstrað gólfteppi  á göngunum. Þegar við löbbum út mæta okkur keimlíkar verslunarmiðstöðvar, alþjóðlegar skyndibitakeðjur og afþreying byggð á tísku líðandi stundar. Hér liggur okkar tækifæri; það er að verða ekki sjálf þessari flatneskju að bráð.

Í heimi sem verður sífellt einsleitari verður hið smáa og sérstaka stöðugt verðmætara. Við þurfum því að móta stefnu sem byggist á gæðum, varanleika og sérkennum okkar.

 

Önnur brýn verkefni framtíðarinnar eru loftlagsmálin. Þótt við séum fá, berum við mikla ábyrgð.  Sú staðreynd að það þyrfti nokkrar jarðir, ef allir væru jafn neyslufrekir og við Íslendingar, gerir beinlínis þá kröfu til okkar að við leggjum ríflega af mörkum.

 

Þróun tækninnar stillir okkur einnig upp andspænis fjölda áskoranna og siðferðisspurninga. Náum við að standast þær og nýta tæknina, í stað þess að verða þjónar hennar, getum við skapað betri og réttlátari heim.

Nútímalegur stjórnmálaflokkur í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar verður að vera opinn fyrir möguleikum hennar, til að efla grasrót flokksstarfsins og sækja nýja stuðningsmenn. En það er önnur saga.

 

Ef við hins vegar skellum skollaeyrum við og leyfum framtíðinni að koma aftan að okkur, getum við þurft að takast á við skelfilegar afleiðingar; aukinn ójöfnuð, félagsleg undirboð og ófrið.

 

Þegar verksmiðjur og fyrirtæki verða rekin án eða með fáum starfsmönnum verður aðhald vinnandi stétta veikara.  Störfin verða fjölbreyttari og ekki endilega víst að starfsfólki finnist það eiga jafn mikið sameiginlegt hvert með öðru og óljósara í hvaða hóp það vill skipa sér. Þetta verður gríðarleg áskorun fyrir stéttarfélögin; stærri en þau hafa staðið frammi fyrir í langan tíma. Þar munu þau þurfa öflugan pólitískan bandamann.  Meðal okkar helstu verkefna verður að hindra  að allur ávinningur þessara breytinga renni til fyrirtækja.  Slíkt mundi auka enn ójöfnuðinn og gera okkur vanmáttugri til að halda uppi öflugri almannaþjónustu.

 

Barátta jafnaðarmanna fyrir félagslegum stöðugleika, auknum jöfnuði og velferð er í fullkomnum samhljómi við kröfur stéttarfélaganna.  Og eins og hefur sýnt sig á  hinum  Norðurlöndunum er víst að samfélag okkar hefði mikinn hag af auknu samstarfi þessara aðila.  Við bjóðum því faðminn.

 

Mikil atvinnuþátttaka verður áfram lykillinn að velgengni landsins og hamingju íbúa. Hún mun þó breytast; vinnutími styttist og störf verða ekki jafn staðbundin.  Hér verður um byltingu að ræða, sem við fyrsta kastið lætur mann draga þá augljósu ályktun að allir verði hamingjusamari: Meiri frítími og meiri viðvera með fjölskyldu og hvað vildum við hafa það betra?  Vissuleg skapar þetta tækifæri á auðugra lífi.

 

Við þurfum strax að hefja aðlögun skólastarfsins að þessari framtíð. Í henni verður menntun hluti af tilveru einstaklingsins, með einum eða öðrum hætti, alla ævi.  Þeir dagar eru liðnir að ungur einstaklingur haldi út á vinnumarkaðinn með prófgráðu undir hendinni, sem öruggan lykil að framtíðinni.  Atvinnulífið  mun í auknum mæli kalla eftir skapandi, hugmyndaríkum einstaklingum, með frumkvæði og þá eiginleika verðum við að byrja að styrkja strax í leikskóla. Þetta mun vissulega kosta mikið í upphafi en skilar sér ríkulega þegar fram líða stundir.

 

En þó menntun sé mikilvæg er hún ekki nóg. Við þurfum líka að tryggja öllum börnum, það skjól og öryggi sem heimili á að veita.

 

Í dag er þetta því miður ekki sjálfgefið.  Ytri aðstæður gera börnum oft erfitt uppdráttar, jafnvel þótt flest skilyrði ættu að vera fyrir hendi. Dæmi eru um að foreldrar með all góðar tekjur geti ekki búið börnum sínum varanlegt heimili og örugga tilveru.   Staðan á húsnæðismarkaðnum er með þeim hætti að ungar fjölskyldur lenda gjarnan á hrakhólum.  Börn eru rifin úr umhverfi sínu með reglulegu millibili; hrekjast á milli skóla og slitna úr sambandi við vini sína.

 

Önnur börn búa síðan við aðstæður sem er erfitt að ímynda sér.  Skuggi fátæktar, óreglu, og ofbeldis, stundum jafnvel fáfræði sem fylgifisks, vofir stöðugt yfir.  Þetta dregur úr þroskamöguleikum þeirra og veikir félagslega. Sum komast vissulega vel frá þessu, önnur ekki. Auðvitað ætti enginn krakki að þurfa að ganga í gegnum slíka þolraun.

Rannsóknir sýna að þessi börn eru mun líklegri til að glíma við fátækt og andleg veikindi síðar á ævinni.  Það er því til mikils að vinna að jafna stöðu allra barna:  Fyrst og fremst fyrir þau sjálf en líka fyrir samfélagið og framtíðina.

 

Einfaldast væri auðvitað að binda í stjórnarskrá, að öll börn ættu að búa við ákjósanleg skilyrði og eiga foreldra sem geta alið önn fyrir þeim en það er því miður ekki hægt.  Þá er það stjórnvalda að skapa þessi skilyrði með jöfnum kjörum, góðum húsnæðismöguleikum, góðri heilbrigðisþjónustu,  fjölbreyttri menntun, auknu kynjajafnrétti og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

 

Það er ekki síst í skjóli fátæktar, misskiptingar og fáfræði sem öfgaöflin sá fræjum tortryggni, haturs og öfgahyggju.  Um það sjáum við því miður  alltof skýr dæmi, víða um heim.

Tilhæfulausar upphrópanir og fordómar í garð þjóðfélagshópa eða trúarbragða, í þeim eina tilgangi að egna fólki saman, eru kunnugleg stef sem við þekkjum úr mannkynssögunni. Besta svarið við þessu er að sjálfsögðu betri menntun, aukin  jöfnuður og meiri samskipti milli þjóða.

 

Fyrstu dagar Trumps í embætti kalla til að mynda á skjót og afar skýr viðbrögð.
Okkur er að verða ljóst að í valdamesta embætti heims situr nú maður með viðurstyggilega og mannfjandsamlega sýn. Hún getur auðveldlega verið vatn á myllu annarra öfgaafla í heiminum.  Íslensk stjórnvöld þurfa að mótmæla af meiri krafti.  Viðbrögðin, þó virðingarverð væru, komu seint frá utanríkisráðherra.  Í kjölfarið hafa þingmenn og hugmyndafræðilegir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins jafnvel dregið í land og borið bætifláka fyrir Trump. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt til að Alþingi samþykki þingsályktun, sem fordæmir ferðabann Trumps. Þannig sendir þjóðþingið skýr skilaboð til Bandaríkjanna og heimsins um að íslensk þjóð líði ekki mismunun á grundvelli trúarbragða eða þjóðernis. Við getum ekki gefið ekki afslátt af þeim grunngildum sem vestræn þjóðfélög byggja á.

 

Umræða um samstarf okkar við aðrar þjóðir má heldur aldrei einskorðast við viðskipti og efnahagslega hagsmuni.  Það hefur okkur sjaldan verið ljósara.  Samstarf við aðrar þjóðir á ekki síður að snúast um siðferðileg gildi; viðhorf til lýðræðisins, dauðarefsinga og annarra þátta er snúa að reisn mannsandans og virðingu fyrir öllu lífi.  Evrópusambandið er t.d. ekki síst hugsað til þess að tryggja frið í álfunni. Þessu hefðum við jafnaðarmenn án efa mátt halda hærra á lofti:  Við höfum leyft andstæðingum frjálslyndis og opinna samskipta að láta umræðuna hverfast eingöngu um efnahagslegt debet og kredit fyrir Íslendinga. Vissulega er efnahagslegi þátturinn þó mikilvægur.  Það þekkjum við sem búum í sveiflukenndu hagkerfi örmyntar, sem hefur leikið almennan launamann grátt, með reglubundnu millibili.  Þar sem húsnæðiskaup eru ekki spurning um trygga tilveru fjölskyldunnar, heldur líkari rúllettu og það því miður stundum rússneskri.

 

Í draumaheimi framtíðar, með færri vinnustundum og meiri frítíma kristallast einna helst þeir eiginleikar mannsins, sem skilja hann frá dýrum. Að geta látið sig dreyma og hugsað abstrakt.

 

Maðurinn lifir nefnilega ekki á brauði einu saman. Ekki lengur, sem betur fer.  Menning og listir eru t.d. enginn lúxusvarningur, heldur manninum jafn nauðsynlegar og að draga andann.

 

Ímyndið ykkur það að vakna upp í tómu herbergi; án mynda og bóka.  Þið leggið af stað í vinnuna og kveikið á útvarpi bílsins, en allt er þögult.  Engin tónlist eða tal. Styttur bæjarins horfnar, Hallgrímskirkjan gnæfir að vísu upp úr byggðinni en nú án allra tilbrigða. Fólkið sem þið mætir klæðist snið- og litlausum fatnaði. Ekki beint hugguleg tilvera.  Grasið er vissulega grænt og laufin bærast fallega í vindinum, en er það nóg?  Ég held ekki; ekki lengur: Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá Íslendingum síðustu áratugina og mannlífið orðið sífellt litríkara.

 

Þörfin fyrir fóður handa sálinni er ekki síst það sem gerir okkur að mönnum. Listamaðurinn er ekki á kostnað sjómannsins eða kennarinn á kostnað kaupmannsins, heldur þvert á móti styrkja þau hvert annað og gera lífið skemmtilegra og litríkara. Listin er líka mikilvægur og nauðsynlegur spegill á samfélagið hverju sinni.

 

Þannig samfélag viljum við jafnaðarmenn byggja; samfélag samhjálpar, jöfnuðar og innihalds.

Við, Íslendingar, getum vel búið við sömu kjör og aðstæður og frændur okkar á Norðurlöndunum. Í samstarfi við systurflokka okkar og verkalýðshreyfinguna  höfum við greint hvað það er sem einkennir norræna velferðarmódelið og hvernig við getum styrkt það á nýrri öld.

 

Huga þarf að þremur grunn stoðum:

  • Velferðinni; þar sem hið opinbera tryggir jöfn tækifæri allra,
  • Skipulögðum vinnumarkaði; þar sem launafólk, atvinnurekendur og hið opinbera eru sameiginlegir aðilar að heildarkjarasamningum
  • Ábyrgri efnahagsstjórn.

 

Ég tók við formennsku í Samfylkingunni við nokkuð  óvenjulegar aðstæður. Oddný steig til hliðar og dró þar línu í íslensk stjórnmál, sem mun eflaust setja fordæmi fyrir aðra.  Síðan þá hef ég haft góð kynni af félögum í flokknum og fundið fyrir kraftinum á erfiðum tímum í sögu hans.

 

Sérstaklega vil ég þakka  þingmanni okkar Guðjóni S. Brjánssyni, orðheppnum og hjartahlýjum manni en ekki síður hláturmildri Oddnýju G. Harðardóttur sem nestar okkur grænjaxlana með reynslu sinni og visku.

Ég er viss um að við getum snúið þessu tafli okkur í vil, ef við erum þolinmóð og samtaka. Ég vil gjarnan vera hluti af því liði .

 

Takk fyrir samfylgdina hingað til; hún hefur verið stutt en ánægjuleg.