Aðgerðaráætlun í málefnum innflytjenda

Samfylkingin tilheyrir sterkri og rótgróinni hreyfingu jafnaðarmanna á Norðurlöndunum. Þar er að finna samkeppnishæfustu samfélög í heimi, sem hafa jafnrétti, velferð og samfélagslega ábyrgð í fyrirrúmi. Norðurlöndin hafa einnig verið í fararbroddi í málefnum innflytjenda. Bætt staða innflytjenda er réttlætismál og liður í að byggja upp gott samfélag sem eflir mannauð og eykur fjölbreytni. Hvort tveggja stuðlar að meiri sköpun, víðsýni og virkjun hugvits, samfélaginu til góðs.

Samfylkingin hefur þá framtíðarsýn um fjölmenningarlegt samfélag að aðfluttir Íslendingar og afkomendur þeirra eigi ríkan þátt í mótun réttláts samfélags. Viðurkenning á mikilvægi innflytjenda er meginstef í aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar í málefnum innflytjenda, sem samþykkt var á landsfundi árið 2013.

 

Menntun og frístundastarf fyrir alla

Menntun er trygging virkrar þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Það gildir jafnt um fullorðna sem börn af erlendum uppruna. Virkt tvítyngi tryggir bæði kunnáttu í íslensku og stuðningur við móðurmál barna er lykill að farsæld barna og ungmenna í skóla-, frístunda- og félagsstarfi, til að skilja samfélagið og taka fullan þátt í því. Því þarf að leggja höfuðáherslu á virkt tvítyngi í öllu skóla- og frístundastarfi og virðingu fyrir uppruna og reynsluheimi barna og ungmenna.

Samfylkingin vill að:

 • skóla- og frístundastarf taki mið af virðingu fyrir ólíkum uppruna og reynsluheimi barna sem og móðurmáli þeirra sem er auðlind þeirra og dýrmætur hluti af sjálfsmynd þeirra.
 • í skóla- og frístundastarfi sé vandað nám og þjálfun í íslensku sem öðru máli tryggt en þó alltaf með samhliða áherslu á virkni móðurmáls barna og ungmenna.
 • efla kennslu í eigin móðurmáli innflytjenda þar sem nýta má fyrirmyndir frá og samstarf við Norðurlönd. Stjórnvöld bera ábyrgð á fjármögnun móðurmálskennslu og setningu gæðaviðmiða um móðurmálskennslu en grasrótarsamtök innflytjenda gegna mikilvægu hlutverki við framkvæmd hennar með viðurkenningu og stuðningi frá stjórnvöldum.

Framhaldsmenntun fyrir alla

Börn fólks af erlendum uppruna sækja síður um nám í framhaldsskóla og mun lægra hlutfall útskrifast miðað við ungmenna sem eiga íslensku að móðurmáli. Þetta er áhyggjuefni og þarf að skoða með tilliti til þess hvernig bæði grunnskólinn og framhaldsskólinn kemur til móts við námslegar þarfir ungmenna. Virðing og viðurkenning á móðurmáli fólks er stór þáttur, en einnig þau viðhorf og þær væntingar sem mæta þeim í skólastarfi. Nauðsynlegt er að efna til stórátaks til að snúa þróuninni við.

Aðgerðir til að efla menntun fólks af ólíkum uppruna eru lykillinn að farsælli samþættingu fjölmenningarsamfélaga. Margir innflytjendur hafa menntun, reynslu og kunnáttu sem ekki er viðurkennd. Það er hagur allra að menntun og reynsla sé metin að verðleikum við komu til landsins.

Samfylkingin setur eftirfarandi aðgerðir í forgang:

 • Mennta- og menningarmálaráðuneyti vinni tvær heildstæðar áætlanir sem byggi á niðurstöðum rannsókna: a) um móttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í leik- og grunnskólum og skipulag náms þeirra b) um fyrirkomulag innritunar, móttöku nemenda í framhaldsskóla og skipulag náms þeirra.
 • Báðar áætlanir kveði skýrt á um rétt barna og ungmenna til virks tvítyngis: vandaðs náms í íslensku sem öðru tungumáli samhliða þjálfun í móðurmáli barna og virðingu fyrir því. Skólum verði gert kleift að rækta tengsl við heimili barna og ungmenna af erlendum uppruna og fái til þess fjárveitingar, m.a. til að greiða fyrir félagslega túlkun og hefðbundna túlkaþjónustu.

Báðum áætlunum fylgi fjárveiting úr Jöfnunarsjóði sambands íslenskra sveitarfélaga

 • Allir nemendur með annað móðurmál en íslensku, auk íslenskra ríkisborgarar sem búið hafa lengi erlendis, fái vandaða kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og kennslu í eigin móðurmáli. Á það jafnt við um grunn- og framhaldsskóla. Slíka kennslu má bjóða upp á í fjarnámi og mikilvægt er að hún sé metin til eininga.
 • Nauðsynlegt er að stjórnvöld skilgreini viðmið um gæði náms og starfs í skóla- og frístundastarfi.
 • Leggja rækt við endurmenntun starfsfólks í kennslu og færni íslensku sem annars máls. Efla þarf símenntun allra kennara í kennslu barna með annað móðurmál en íslensku, enda er hún ekki á ábyrgð sérkennara einna.
 • Upplýsingar um framhalds- og háskóla séu í boði á mörgum tungumálum þannig að innflytjendur eigi auðvelt með að skilja námsframboð, innritunarferli og kröfur sem gerðar eru. Námsráðgjöf í beggja skólastiga þarf undantekningalaust að tryggja fjármagn til túlkunar.
 • Menntun fullorðinna innflytjenda, sérstaklega í íslensku, þarf að auka og tryggja öllum innflytjendum lágmarkskennslu í íslensku þeim að kostnaðarlausu. Nauðsynlegt er að innleiða hvatakerfi fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir sem hvetji til þess að íslenskunámskeið fyrir starfsfólk séi í boði á vinnustað og í vinnutíma. Þróa þarf fjölbreyttari námsgögn, m.a. fyrir ólíkar starfsstéttir og styðja gerð íslenskra orðabóka sem ná til fleiri tungumála.

Atvinna fyrir alla

Atvinnustefna Samfylkingarinnar kveður á um að virkja mannauð landsins og þar skiptir framlag innflytjenda miklu máli. Tryggja þarf að Ísland sé áhugaverður staður fyrir útlendinga til að koma og vinna í öllum starfsgreinum. Atvinnuleysi meðal innflytjenda er hærra en hjá öðrum hópum, og ekki er sama fylgni milli menntunar og atvinnuleysis og hjá öðrum Íslendingum. Þetta er ein birtingarmynd fordóma og virðingarleysis fyrir menntun og reynslu innflytjenda.

Mikilvægt er að starfandi innflytjendur séu hluti af hinum formlega vinnumarkaði til að tryggja viðurkenningu á námi og reynslu þeirra sem og réttindi þeirra. Efla þarf fræðslu bæði til atvinnurekenda og innflytjenda og styrkja innviði eftirlitsstofnana. Innflytjendur eiga að ganga að því vísu að opinberir aðilar standi jafnt vörð um réttindi þeirra eins og um réttindi íslenskra starfsmanna.

Samfylkingin leggur áherslu á eftirfarandi aðgerðir:

 • Öllu starfsfólki af erlendum uppruna skal standa til boða námskeið um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Virkja þarf stéttarfélög og tengiliði innflytjenda í þessum tilgangi.
 • Styrkja þarf stofnanir sem hafa eftirlit með vinnustöðum og herða þarf eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í þeim starfsgreinum þar sem fjöldi erlendra starfsmanna er mikill.
 • Vinnumálastofnun bjóði öllum atvinnulausum innflytjendum ráðgjöf á tungumáli viðkomandi og raunfærnimat til að auka atvinnumöguleika þeirra. Innflytjendum sem hafa lokið hluta af framhaldsskóla eða starfsnámi standi til boða sömu leiðir og öðrum þar sem tekið verði tillit til íslenskukunnáttu þeirra. Stuðningurinn verði fjármagnaður af Vinnumálastofnun.
 • Samræma þarf alla umgjörð um atvinnuþátttöku innflytjenda, m.a. með því að samtengja og hraða afgreiðslu á dvalar- og atvinnuleyfum.
 • Bæta þarf skattaumgjörð og tryggja að upplýsingar og öll gögn um skattamál séu aðgengileg á mörgum tungumálum. Koma þarf á framtalslausum skattskilum og uppgjörum á brottflutningsári. Gefin verði út sérstök skattkort fyrir útlendinga sem koma til tímabundinna starfa.
 • Stjórnvöld beiti sér fyrir að setja opinberum stofnunum og fyrirtækjum ráðningarstefnu sem endurspegli það fjölmenningarsamfélag sem er nú þegar til staðar á Íslandi.
 • Menntun innflytjenda er dýrmæt fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðfélagið tapar á því að nýta ekki menntun innflytjenda til fulls. Oft er erfitt að fá viðurkenningu eða mat á menntun erlendis frá og því nauðsynlegt að samræma og einfalda vinnuferla varðandi viðurkenningu á menntun erlendis frá, sama hvort um Íslendinga eða innflytjendur er að ræða.

Velferð fyrir alla

Jafnaðarstefnan hefur ávallt lagt áherslu á víðsýni, virðingu og mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Eitt mikilvægasta og flóknasta verkefni samfélagsins er að vinna gegn gagnkvæmum fordómum með upplýstri umræðu. Þekking og skilningur er farsælasta leiðin til að uppræta fordóma og því er mikilvægt að sem flestir fái tækifæri til að kynnast innflytjendum af eigin raun. Slík viðkynning opnar samhliða dyrnar að íslensku samfélagi fyrir innflytjendur og börn þeirra.

Skóla- og frístundastarf án aðgreiningar, vinnumarkaður sem einkennist af víðsýni og fordómaleysi og velferðarkerfi fyrir alla eru lykilatriði í þessu sambandi. Margir innflytjendur nýta ekki þjónustu sem þeim stendur til boða vegna skorts á upplýsingum á tungumáli viðkomandi eða af þeim sökum að þjónustan er eingöngu í boði á íslensku. Tryggja þarf jafnt aðgengi og upplýsingar um opinbera þjónustu, bæði á vegum ríkis eins og heilbrigðis- og tryggingarþjónustu eða sveitarfélaga eins og skóla- og frístundastarf. Aðgengi að túlkaþjónustu á undantekningarlaust að vera til fyrirmyndar. Með góðri upplýsingamiðlun eru innflytjendur boðnir velkomnir til Íslands og slík miðlun gagnast líka til að kynna Ísland og íslenskt samfélag fyrir öðrum þjóðum.

Samfylkingin leggur áherslu á eftirfarandi aðgerðir:

 • Almenna upplýsingamiðlun þarf að efla og tryggja að nauðsynlegar upplýsingar séu aðgengilegar fyrir innflytjendur á fleiri tungumálum en nú er.
 • Samræma þarf upplýsingamiðlun ríkis og sveitarfélaga.
 • Stjórnvöld móti markvissari leiðir til að tryggja að allir innflytjendur fái upplýsingar um samfélagið óháð búsetu og tungumálagetu. Í því skyni þarf að nota netmiðla og rafræna ráðgjöf í ríkara mæli en gert er.
 • Velferðarráðuneytið í samstarfi við sveitarfélög leggi drög að ítarlegri fræðslu um íslenskt samfélag, réttindi og skyldur, tækifæri og stuðning. Tryggt verði að öllum nýjum innflytjendum standi til boða að sækja slíka fræðslu og að hún verði í boði með reglulegu millibili á mörgum tungumálum.
 • Sveitarfélög styðji frjáls félagasamtök við að gefa öllum innflytjendum kost á íslenskum tengilið eða stuðningsaðila sem þeir geta leitað til um upplýsingar og aðstoð við að skilja íslenskt samfélag. Reynt verði að virkja fólk á öllum aldri, börn jafnt sem eldri borgara þannig að allir fái stuðning við hæfi.
 • Bjóða þarf reglulega upp á fræðslu fyrir starfsfólk sveitarfélaga og opinberra stofnana sem sinnir þjónustu við innflytjendur um fjölmenningu, opinbera stefnu og réttindi innflytjenda.
 • Velferðarráðuneytið beiti sér fyrir því að stofnaður verði sjóður, sambærilegur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem greiðir fyrir alla túlkaþjónustu. Það á ekki að vera á valdi einstakra stofnana að ákveða hvort innflytjandi eigi rétt á túlkaþjónustu á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga heldur framkvæmdaatriði.
 • Samhliða þarf að skýra með ótvíræðum hætti hvenær innflytjendur eiga rétt á túlkaþjónustu og hvenær er mælt fyrir um hana. Slíkur sjóður gæti einnig skapað forsendur til að koma á formlegri gæðakröfum til ólíkra tegunda af fjölbreyttri túlkaþjónustu og stutt við formlegt réttindanám túlka.
 • Breyta þarf fyrirkomulagi skráninga þannig að allir innflytjendur séu réttilega og löglega skráðir í þjóðskrá til að allir fái notið réttinda sinna.
 • Tryggt verði að upplýsingaskylda opinberra stofnanna sé skilgreind á þann veg að hún feli í sér skyldu til að veita upplýsingar til allra sem búa á Íslandi, einnig þeirra sem ekki skilja íslensku.