Atvinna og fjármagn

Aukin samkeppnishæfni og efling útflutnings gegna lykilhlutverki í endurreisn atvinnulífsins. Menntun og verkkunnátta þjóðarinnar og umgjörð atvinnulífsins skipta mestu í þessu sambandi og þar á Ísland að vera í fremstu röð.

Samfylkingin vill efla útflutning og fjölbreytta atvinnustarfsemi með stuðningi ríkisins við rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og að opið sé fyrir fjárfestingar innlendra og erlendra aðila í þjónustu og framleiðslu á sjálfbærum grunni. Endurskoða verður skattlagningu þá sem fólgin er í tryggingagjaldinu sem lagt er á launkostnað fyrirtækja en það leggst með meiri þunga á mannaflsfrek fyrirtæki sem veigra sér þá við að ráða fleira fólk til starfa.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • stemma verði stigu við möguleikum einstaklinga sem leika þann leik að stofna fyrirtæki, keyra þau í þrot og hefja reksturinn að nýju á nýrri kennitölu.
  • gefa verði almenningi tækifæri á að fjárfesta í fyrirtækum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veiti slík fjárfesting skattafrádrátt.

Með þeim gagnkvæma markaðsaðgangi sem þegar er opinn, og ykist með aðild að ESB, og þeim auknu kröfum sem gerðar eru hvarvetna til hreinnar og ómengaðrar framleiðslu, opnast fiskvinnslu og landbúnaði Íslendinga ný tækifæri. Í landbúnaði er brýnt að snúa frá þeirri stefnu sem beinir bændum inn í miðstýrt framleiðslukerfi takmarkaðra framleiðsluþátta með kvótum.

Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að þeim búskap sem hæfni þeirra og kostir jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör. Aðeins með þeim hætti er líklegt að sú nýsköpun sem er undanfari framfara verði að veruleika og að nýliðun verði nægjanleg í greininni.