Samfylkingin ætlar að bjóða strax upp á betri stuðning við leigjendur, úrræði fyrir fyrstu kaupendur,  hærri barnbætur og betra fæðingarorlof. Við í Samfylkingunni ætlum að bæta kjör allra barnafjölskyldna og útrýma barnafátækt á Íslandi. Árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort. Það er algerlega óviðunandi þegar ríkasta 1% landsmanna á 507 milljarða í hreinni eign.

Við ætlum að setja aukið fjármagn í verkefnið sem nemur tvöföldun á þeim stuðningi sem barnafjölskyldur fá í dag í formi barnabóta og fæðingarorlofsgreiðslna.

Styðjum betur við leigjendur
Þau börn sem eru í mestri hættu á að búa við fátækt eru á leigumarkaði. Fólk á leigumarkaði festist margt hvert í fátæktrargildru vegna  lítils framboðs af leiguhúsnæðis og hárrar leigu, sem kemur í veg fyrir að það geti safnað fyrir útborgun til að geta keypt íbúð. Þess vegna er forgangsmál að mæta vanda leigjenda.

  • Við bjóðum þeim sem ekki eiga húsnæði þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði með fyrirframgreiðslu vaxtabóta. Lestu meira um þessa nýju leið Samfylkingarinnar hér.
  • Tryggja að bygging 5.000 nýrra leiguíbúða hefjist á næstu 4 árum.
  • Styðja mun betur við leigjendur með nýjum húsnæðisbótum þar sem mánaðarlegar greiðslur eru mun hærri og með mun minni tekjutengingum en í núverandi stuðningskerfi.  

Hækkun barnabóta
Barnabætur er auðveldasta leiðin til að styðja við foreldra barna og þar verður að gera betur. Við viljum hækka barnabætur þeirra þrjátíuþúsund fjölskyldna sem fá barnabætur í dag og greiða þeim 9.000 fjölskyldum sem duttu út úr barnabótakerfinu á liðinu kjörtímabili vegna niðurskurðar aftur barnabætur.

Við viljum að foreldrar geti verið heima með börnum sínum fyrsta æviárið
Við ætlum að hækka þak á fæðingarorlofsgreiðslur í 600 þúsund svo fleiri foreldrar sjái sér fært að taka orlof svo að fleiri börn fái að njóta samvista við báða foreldra sína á fyrsta ári þeirra.

Við ætlum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Það er mikilvægt fyrsta skref í að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla sem verður að brúa. Kostnað vegna lengingarinnar á að greiða úr ríkissjóði en ekki með hærri tryggingagjaldi.

Styttum vinnuvikuna
Stytting vinnuvikunnar er eitt stærsta hagsmunamál fjölskyldunnar og stórt heilbrigðismál líka. Styttri vinnudagur virðist minnka streitu, fækka veikindadögum og auka ánægju í starfi. Við ætlum að halda áfram að þróa þessa hugmynd líkt við gerum í Reykjavíkurborg í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Markmiðið er að fleiri vinnustaðir geti stytt vinnuviku fólks og stutt þannig við heilbrigðara samfélag.