Efnahagsmál

Grunnur góðs efnahags og lífskjara almennings í velferðarríkinu hvílir á öguðu frelsi, arðsömu atvinnulífi og verðmætasköpun sem byggir jöfnum höndum á hugviti og hagnýtingu landsins gæða í þágu alls almennings. Hagkerfið á að vera opið fyrir inn­lendum og erlendum fjárfestingum og öguðu markaðsfrelsi allra atvinnugreina.

Nýting auðlinda í almannaþágu

Samfylkingin vill vinna að því að nýting auðlinda í almannaþágu verði í framtíðinni bæði arðsöm og sjálfbær, hvort sem er um að ræða fiskistofnana við landið eða hagnýtingu vatnsafls- og gufuvirkjana til frekari orkuvinnslu.

Velmegun þjóðarinnar

Við uppbyggingu Íslands með hugsjónir jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi hvílir velmegun þjóðarinnar á mann- og náttúruauði jafnt sem í hefðbundum framleiðslugreinum á borð við sjávarútveg, landbúnað og iðnað sem og í ferðaþjónustu og framsæknum hátækni- og þekkingariðnaði. Almenningi verði skapaðar varanlegar tekjur af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar í samræmi við tillögur auðlinda­nefndar þar um.