Fátækt og ójöfnuð má ekki líða

Eitt samfélag fyrir alla

Samfylkingin mun beita sér fyrir opinni umræðu um fátækt og afleiðingar félags- og efnahaglegs ójafnaðar. Krafa Samfylkingarinnar er að öllum verði gert kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Almenn og aðgengileg velferðarþjónusta kemur öllum til góða og kemur í veg fyrir þá stimplun sem sértæk þjónusta leiðir oft af sér.

Upprætum fátækt

Uppræta þarf fátækt en rannsóknir sýna að hún leiðir til lakari lífsgæða, verri heilsu og oft félagslegrar einangrunar og útskúfunar. Styðja þarf millitekjuhópa sem án stuðnings samfélagsins geta lent í fátækt.

Samfylkingin hefur það að markmiði að:

  • húsnæðisstuðningur verði veittur óháður búsetuformi og barnabætur verði fyrir öll börn.
  • lækka þjónustugjöld vegna opinberrar þjónustu með jafnt aðgengi óháð efnahag að leiðarljósi.
  • leggja fram heildstæða, tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt. Sérstaklega skal hugað að barnafátækt, að einstæðum- umgengnisforeldrum, öryrkjum og innflytjendum. Unnið verði að aðgerðaáætluninni í nánu samstarfi með fagfólki og félagasamtökum.
  • valdefla og virkja notendur til þátttöku í að skipuleggja og þróa þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og meta hana. Slíkt á við í heilbrigðisþjónustu, forvörnum og allri félagslegri þjónustu.
  • nýjar leiðir verði farnar til að finna lausn þeirra einstaklinga sem glíma við hemilisleysi. Til að mynda Housing First, þar sem fyrsta skrefið í stuðningi við heimilislausa einstaklinga með geðræn eða vímuefnavandamál er að útvega húsnæði.