Frístundir og félagsstarf skiptir máli

Samfylkingin hefur þá sýn að nám, íþróttir, leikur, listir og félagsfærni fléttist saman í uppbyggilegu frístundastarfi í bland við skóladaginn. Mikilvægi samstarfs fagstétta í leik- og grunnskólum, sem og í frístundastarfi er ótvírætt og skapar heildstæða og örugga umgjörð um innihaldsríkan skóladag yngstu barna.

Þáttur sköpunar aukist í skóla- og frístundastarfi með áherslu á fjölbreytt menningaruppeldi, og að ríki og sveitarfélög leiti leiða til að þróa samstarf listafólks og skóla, auki veg vandaðs framboðs barnamenningar sem skólum stendur til boða og að börn geti sótt listnám á skólatíma á sem hóflegustu verði.

Það má samþætta betur skólastarf við íþrótta – og tómstundastarf með virkum samráðsvettvangi menntamála, æskulýðshreyfingar og íþrótta- og tómstundastarfs. Samfylkingin styður að rammalöggjöf um starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila verði að veruleika enda treystir slík löggjöf stoðir þessa mikilvæga starfs. Þá er mikilvægt að bjóða upp á fleiri starfsmöguleika fyrir tómstunda- og félagsmálafræðinga, t.d. innan skólanna þar sem þeir geti starfað á jafnréttisgrundvelli við hlið annarra starfsstétta til að efla frjálsan leik, félagsfærni og skipulagt tómstundastarf.