Árangursríkara menntakerfi

Eflum skólastarf – aukum árangur

Öflugt menntakerfi er fjárfesting í framtíðar hagvexti og forsenda nýsköpunar. Hættum að skera menntakerfið niður og byrjum að fjárfesta í því.

Samfylkingin vill koma á fót samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga, skólafólks, nemenda, foreldra og aðila vinnumarkaðarins, sem hafi það hlutverk að móta tillögur að umbótum í menntamálum með það fyrir augum að að efla skólastarf, draga úr endurtekningu námsefnis á mörkum skólastiga og gera kennarastarfið að vel launuðum og eftirsóknarverðum starfsvettvangi.

Þar verði tekin fagleg afstaða til hugmynda um að stytta námstíma í skólakerfinu og um flutning framhaldsskólanna til sveitarfélaga. Samfylkingin leggur áherslu á að:

 • skólagjöld og námskostnaður í leik-, grunn- og framhaldsskólum verði felld niður
 • efling innra starfs skólanna, til að bæta starfskjör kennara og skólastarfsfólks, minnka námshópa í framhaldsskólum, bæta aðbúnað og tækjakost, styðja við breytta kennsluhætti og þróunarstarf í skólum.
 • skoða þurfi markvisst fjölgun styttri námsbrauta til starfsréttinda.
 • greina þurfi sérstaklega þarfir framhaldsskólastigsins þar sem margir skólar eru komnir að þolmörkum vegna aðhaldsaðgerða.
 • tryggja þurfi jafnt aðgengi allra landsmanna og allra aldurshópa að námi á framhaldsskólastigi. Samfylkingin hafnar þeim tálmunum sem settar hafa verið á framhaldsskólanám fyrir 25 ára og eldri.
 • Boðið verði upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.

Háskólamenntun á heimsmælikvarða

Háskólamenntun er forsenda atvinnuþróunar, hagsældar og velferðar í samfélaginu. Efla þarf háskóla í landinu til að þeir standist áfram samjöfnuð við alþjóðlega háskóla í kennslu og rannsóknarstarfi. Hækka þarf framlög til háskóla til að jafna stöðu þeirra gagnvart háskólum sem við berum okkur saman við.

Samfylkingin vill efla samstarf og skýra verkaskiptingu háskóla í landinu með það fyrir augum að auka gæði og fjölbreytni náms. Ávallt verði að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu.

Ókeypis opinberir háskólar
Samfylkingin hafnar skólagjöldum í opinberum háskólum. Við viljum að skrásetningargjöld séu hófleg og endurgreidd í lok skólaárs sé námsframvinda eðlileg. Fjármagni verði forgangsraðað í þágu opinberra háskóla.

Samfylkingin leggur áherslu á að framlög til samkeppnissjóða verði aukin enda eru þeir besti farvegurinn fyrir stuðning við vísindastarfsemi og nýsköpun í landinu.

Markmið um háskólamenntun og vísindastarf:

 • Setja mælistikur um skilvirkni háskóla, þ.m.t. um hámark námstíma og brotthvarf.
 • Stuðla að formlegu samstarfi allra háskóla um framtíðarstefnumótun háskólastigsins. Þar verði m.a. hugað að samræmdu rekstrarformi háskólanna, fjármögnun háskólastofnana, kennslu og rannsóknum, aukinni sérhæfingu eftir fræðasviðum og tengslum við atvinnulíf og samfélag.
 • Grunnframlög til rannsókna innan hvers fræðasvið í háskólum og rannsóknarstofnunum. Að öðru leyti verði opinberu rannsóknarfé úthlutað á grundvelli samkeppni og jafningjamats. Tryggja þarf nýliðun í vísindastarfi með því að veita yngri vísindamönnum aðgang að rannsóknarfé.
 • Greina gæði og hagkvæmni þess að sameina opinberu háskólana og á svipaðan hátt skoða hvort auka megi sérhæfingu hvers háskóla.
 • Opinberir háskólar og rannsóknarstofnanir fái fjárframlög til að nýta alþjóðlegar upplýsingaveitur.
 • Fjármögnun grunnmenntunar á viðurkenndum fræðasviðum er á ábyrgð ríkisins. Brýnt er að gæta jafnræðis varðandi kostnaðarþátttöku nemenda á mismunandi skólastigum.
 • Framlög opinberra aðila og einkaaðila til rannsókna og þróunar nái 4% af landsframleiðslu árið 2020.
 • Samræma gæðamat með fjármögnun og eftirfylgni vísindarannsókna. Í því skyni ætti að kanna kosti þess og galla að allir opinberir rannsóknarsjóðir sameinist Rannsóknasjóði eða Tækniþróunarsjóði.