Tvöföldum framlög til jafnréttismála

Jafnréttisstofa gegnir víðtæku og mikilvægu eftirlitshlutverki með jafnréttislögunum, sér um rannsóknir, fræðslu- og upplýsingarstarfsemi sem varðar jafnréttismál ásamt því að vera aðhald við stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki. Ljóst að fjármunirnir sem henni hefur verið úthlutað á þessu kjörtímabili duga ekki fyrir því víðtæka hlutverki sem henni er ætlað og því viljum við í Samfylkingunni tvöfalda þessi framlög hið minnsta – því framfarir gerast ekki af sjálfu sér.

Eyðum launamun kynjanna

Samfylkingin hefur um árabil verið leiðandi afl í að útrýma launamun kynjanna. Undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var ráðist í ýmsar aðgerðar, svo sem að koma á jafnlaunastaðli, setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða og jafna hlut kynjanna í ríkisstjórn og æðstu embættum ríkisins.

Stöðnun undir hægri stjórn
Undir ríkisstjórn Jóhönnu minnkaði launamunur kynjanna talsvert en verkinu var hvergi nærri lokið. Undir ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins hefur þessi jákvæða þróun aftur á móti staðnað og launamunur kynjanna jafnvel aukist – með þessu áframhaldi næst ekki launajafnrétti fyrr en eftir 200 ár.

Samspil hins opinbera og atvinnulífsins
Launamunur kynjanna er því enn alltof mikill – hann mælist enn milli 11 og 12% eftir að búið að er taka tillit til breyta svo sem vinnustunda og ábyrgðar í starfi. Samfylkingin vill, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, eyða kynbundnum launamun. Í því skyni vill Samfylkingin að forstöðumenn opinberra stofnana verði áminntir ef kynbundinn launamunur viðgengst undir þeirra stjórn. Draga þarf markvisst úr ólaunuðu vinnuframlagi kvenna og álaginu sem því fylgir og meta hefðbundin „kvennastörf” að verðleikum.

Jafnrétti og stjórnsýsla

Við alla opinbera ákvarðanatöku þarf að passa upp á það að ólík staða kynjanna sé höfð í huga svo að ríkið þjónu körlum og konum jafn vel.

Samþætting kynjasjónarmiða felst einmitt í því að ólík staða kynjanna sé höfð í huga við stefnumótun og ákvarðanatöku ríkisins, til dæmis við hagstjórn og fjárlagagerð.

Samfylkingin vill þingmenn, ráðherrar, fulltrúar í sveitarstjórnum og starfsmenn í stjórnsýslu vinni að samþættingu jafnréttissjónarmiða s.s kynjaða hagstjórn og fái bæði fræðslu og tækifæri til að þróa hugmyndafræðina. Við viljum að í ráðuneytum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga starfi jafnréttisfulltrúar sem hafa þekkingu og tíma til að vinna að jafnréttismálum.

Aðgerðaráætlun gegn kynferðisofbeldi

Vitundarvakning hefur orðið um kynferðisofbeldi á síðustu misserum með hinni svokölluðu Beauty tips byltingu, frelsun geirvörtunnar og druslugöngunni en slíkt ofbeldi er þó ennþá alltof algengt í okkar samfélagi. CEDAW, nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gegn konum, benti árið 2016 á að taka þurfi á ofbeldi gegn konum á Íslandi, og nefndi sérstaklega ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna og konum með fötlun.

Samfylkingin setur í forgang nýrrar ríkistjórnar að samþykkja ítarlega aðgerðaráætlun um það hvernig koma eigi í veg fyrir kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, í samstarfi við skóla, heilbrigðisþjónustuna, lögreglu, dómstóla og félagasamtök.

Samfylkingin leggur til að aðgerðaráætlun gegn kynferðislegu ofbeldi leggi áherslu á:

Fækkum gerendum til þess að fækka þolendum

 • Forvarnir og fræðsla gegn kynferðisofbeldi
 • Vitundavakning um afleiðingar kynferðisofbeldis
 • Samræmd viðbragðsáætlun í skólum og stofnunum

Bætum þjónustu fyrir brotaþola um allt land

 • Enn frekari efling neyðarmóttöku á Landspítalanum
 • Betri móttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis óháð aðstæðum: búsetu, kynhneigð, fötlun, kynþætti og efnahag
 • Fagaðilar sem sinna kynferðisofbeldi og sálfræðiþjónusta
 • Tryggja niðurgreidda þjónustu fyrir brotaþola

Kerfisbreytingar fyrir þolendur

 • Skýr löggjöf um stafrænt kynferðisofbeldi
 • Sértækar aðgerðir til að fjölga konum í lögreglunni um allt land
 • Efling kynferðisbrotadeild lögreglunnar um allt land
 • Samræmd meðferð mála í réttarvörslukerfinu
 • Sérmenntun lögreglumanna/kvenna í meðferð kynferðisbrota
 • Aðgerðir til að fjölga konum í dómstólum

Betri greining á vandanum

 • Ítarleg greining á umfangi kynferðisbrota
 • Greining stöðu kvenna af erlendum uppruna og fatlaðra sérstaklega, og á aðgengi þeirra að aðstoð