Nemendamiðuð menntastefna

Aukið svigrúm og samvinna

Samfylkingin vill að menntun barna og ungmenna miði að því að nemendur á öllum aldri nýti styrkleika sína, færni og áhugasvið og að þeir fái aukið svigrúm til að ráða námshraða og skipulagi náms í samræmi við námsgetu og áform í námi. Samfylkingin leggur ríka áherslu á að réttindi barna og ungmenna verði tryggð í skóla margbreytileikans. Gefa þarf nemendum sem þurfa sérstakan stuðning eða skipulag í námi sínu vegna fötlunar, veikinda eða annarra örðugleika tækifæri til að stunda nám á sínum forsendum með leiðum sem skila árangri.

Bestu hugsanlegu námsaðstæður

Nýttar verði markvisst gagnreyndar aðferðir í kennslu og námi til að tryggja nemendum bestu hugsanlegu námsaðstæður. Samfylkingin vill auka samvinnu skóla og miðlun þekkingar um árangursríkar og fjölbreyttar aðferðir við kennslu. Notkun upplýsingatækni, öflug starfsþróun kennara, þróun lærdómssamfélaga sem leggja áherslu á sameiginlega ábyrgð allra sem starfa í skólum á námi barna og ungmenna og aðgangur að fjölbreyttri kennsluráðgjöf eru allt lykilatriði í skólastarfi allra skólastiga.

Samfylkingin vill að:

  • skipulag skóla og náms stefni að því marki að allir nemendur ljúki námi með brautskráningu.
  •  nemendum sem fallið hafa brott úr skóla verði auðveldað að hefja nám að nýju.
  • innleiddar verði heildstæðar leiðir til að þjóna nemendum með mismunandi þarfir, jafnt nemendum sem glíma við náms- eða hegðunarerfiðleika og bráðgerum nemendum.
  • börn hafi jafnan aðgang að almennum skólum, sérúrræðum og eftir atvikum sérskólum.
  • starfsstéttir sameinist um að tryggja farsæld barna og ungmenna í skólum, bæði í skólanum og í nánu samstarfi við hann. Ætíð skal hafa í huga að kennarar eru sérfræðingar í að skipuleggja nám og kennslu en þegar fjölþættur vandi er til staðar er kunnátta og færni ólíks fagfólks mikilvæg til að finna heildstæða lausn.
  • stuðlað verði að frekari þróun dreifnáms og sveigjanlegs náms í því skyni að jafna aðgengi landsmanna að námi á öllum skólastigum.
  • börn með skerta heyrn fái tækifæri til þess að öðlast virkt tvítyngi íslensku og íslensks táknmáls. Vald á íslensku táknmáli er grunnur menntunar, lífsgæða og sjálfsmyndar heyrnarskertra barna.

Auðveldum nemendum að klára framhaldsskóla

Samfylkingin vill að skipulag skóla og náms stefni að því marki að allir nemendur ljúki námi með brautskráningu. Til þess þarf að auðvelda nemendum sem fallið hafa brott úr skóla að hefja nám að nýju og gera sálfræðiþjónustu við framhaldsskólanema gjaldfrjálsa.
Styðja þarf skóla til að nota heildstæðar og gagnreyndar leiðir til að þjóna nemendum með mismunandi þarfir, jafnt nemendum sem glíma við náms- eða hegðunarerfiðleika og bráðgerum nemendum.

Jafn aðgangur

Börn eiga að hafi jafnan aðgang að almennum skólum, sérúrræðum og eftir atvikum sérskólum óháð búsetu eða efnahag. Til þess þarf að þróa frekar dreifnám og sveigjanlegt nám til að jafna aðgengi allra landsmanna að námi á öllum skólastigum

Allar starfsstéttir sem koma að menntun barna verða að sameinast um að tryggja farsæld barna og ungmenna í skólum, bæði í skólanum og í nánu samstarfi við hann. Þá skal hafa í huga að kennarar eru sérfræðingar í að skipuleggja nám og kennslu, en þegar fjölþættur vandi er til staðar er kunnátta og færni ólíks fagfólks mikilvæg til að finna heildstæða lausn.