Málefni Norðurslóða

Samfylkingin hvetur til þess að ríkisstjórnin leggi aukna áherslu á málefni norðurslóða í anda einróma samþykktar Alþingis um stefnu Íslands gagnvart norðurslóðum. Ísland á hvarvetna að leggja atbeina sinn að því að efla Norðurskautsráðið og vinna ötullega gegn svokölluðu „fimm-ríkja-samstarfi“ sem dregur úr áhrifum Íslands og frumbyggja norðursins á ákvarðanir sem varða þróun norðurslóða.

Ríkisstjórn Íslands ber að setja sér stefnu um réttindi frumbyggjanna og styðja baráttu þeirra fyrir sem mestum áhrifum á umhverfi sitt og afkomu. Jafnframt ber að efla samvinnu um norðurslóðir á sviði vísinda og menntunar með gagnkvæmum samningum við aðrar þjóðir.

Samfylkingin hefur eftirfarandi að leiðarljósi:

  • aðild að Evrópusambandinu veitir Íslendingum einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þróun norðurslóða til framtíðar í gegnum stefnumótun sambandsins. Loftslagsmál eru lykilþáttur í þessu sambandi og þar á Ísland að gegna mikilvægu hlutverki. Sem fullgilt aðildarríki að ESB fengjum við mikilvæga bandamenn og sterkari samningsstöðu í umhverfismálum, bæði á norðurslóðum og á alþjóðavettvangi.
  • vestnorræna ráðið er mikilvægur samstarfsvettvangur um norðurslóðir og efling þess fer saman við íslenska hagsmuni. Með tilliti til langtímahagsmuna er sömuleiðis mikilvægt að styrkja samband Íslands við önnur svæði á Norðurslóðum, ekki síst Alaska og norðursvæði Kanada.
  • öll aðkoma Íslands í málefnum norðurslóða á að grundvallast á umhverfisverndarsjónarmiðum.
  • opnun siglingaleiða og betri aðgangur að auðlindum norðurheimskautsins felur í sér áhættu en skapar um leið tækifæri. Treysta ber Norðurskautsráðið sem þann vettvang þar sem málefnum svæðisins er ráðið til lykta. Forgangsverkefni er að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis til að Íslendingar geti komið að öllum alþjóðlegum ákvörðunum sem varða svæðið.
  • vinna þarf sérstaklega gegn mengun á hafsvæðum í kringum landið.
  • Verndun norðurslóða er mjög mikilvæg. Þar er átt við umhverfissjónarmið vegna þess hve viðkvæmt vistkerfi svæðisins er, en einnig vernd hagsmuna íbúa og þá einkum frumbyggja
  • Í ljósi bindandi samnings um leit og björgun á norðurslóðum eiga Íslendingar að leggja áherslu á að byggja upp alþjóðlegt björgunarteymi sem í senn getur gagnast okkur og heiminum öllum. Brýnt er að ríkisstjórn Íslands leggi aukna rækt við að afla stuðnings norðurskautsþjóða og Evrópusambandsins við að hér á landi verði ein af miðstöðvum leitar, björgunar og mengunarvarna vegna umferðar um norðurhöf.