Nútímasamfélag er fjölmenningarsamfélag

Samfylkingin ætlar að leiða uppbyggilega umræðu um gildi þess fjölmenningarsamfélags sem við viljum í sameiningu skapa hér á landi. Sú samræða er ögrandi og krefjandi en nauðsynleg í samfélagi sem byggir á fjölbreytni og frjálsu flæði fólks milli landa.

Samfélag virðingar

Samfylkingin ætlar að auka fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun. Það á við hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig byggjum við gott samfélag þar sem fólk bera virðingu hvert fyrir öðrum og njóta jafnréttis. Ísland er heimili okkar allra.

Samfylkingin leggur áherslu á að innflytjendur eru þátttakendur í samfélaginu, þeir eru ólíkir innbyrðis og þeir gegna ólíkum hlutverkum í samfélaginu; þeir eru foreldrar, launþegar, námsmenn, nágrannar og ástvinir, rétt eins og við sem fæddumst hér og ólumst upp.

Mannréttindi og réttlæti

Samfylkingin leggur í störfum sínum áherslu á að allir beri ábyrgð á því að vinna gegn rasisma, fordómum og mismunun, en þó er ábyrgð pólitískra fulltrúa og fjölmiðla enn meiri. Samfylkingin stundar og leiðir pólitíska umræðu sem einkennist af virðingu fyrir mannréttindum, réttlæti og lýðræði.

Við styðjum við menningarlegan fjölbreytileika á Íslandi. Í því felst stuðningur við íslenska menningu, en þó án þröngsýnnar þjóðernishyggju sem elur á fordómum og andúð á annarri menningu.

Gegn fordómum og hatursorðræðu

Taka á alvarlega athugasemdir úr skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. The European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) frá árinu 2012. Þær beindust meðal annars að hatursorðræðu, ábyrgð fjölmiðla og menntun barna af erlendum uppruna.

Við viljum að starfandi sé stofnun sem berst gegn rasisma og mismunun á grundvelli kynþáttar, hörundslitar, tungumáls, trúarbragða, þjóðernis eða svæðisbundins uppruna. Þá er mikilvægt að koma á fræðsluátaki um mikilvægi innflytjenda fyrir samfélagið, sem hefur það markmið að berjast gegn fordómum og mismunun.