Réttindi fólks með fötlun

Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland taki frumkvæði í mannréttindamálum en sé ekki farþegi í samfélagi þjóða og vill því árétta að þjónusta við fatlað fólk er mannréttindamál, ekki félagslegt úrræði. Frekari viðhorfsbreytingar er þörf sem og vinna að fullum rétti fatlaðs fólks til einkalífs og sjálfsákvörðunar.

Aukum réttindi – bætum kjör

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að allir eigi rétt á mannsæmandi lífi og húsnæði við hæfi. Þess vegna viljum við auka réttindi fatlaðs fólks og bæta kjör öryrkja og aldraðra.

Í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar er að finna margar tillögur sem varða fatlað fólk. Samfylkingin vill að:

  • Gerð verði heildstæð löggjöf um málefni fatlaðra sem tryggir réttindi, samfellu og jafnræði í þjónustu fyrir alla, um allt land.
  • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verði löggiltur strax. Þannig verði tryggt að virðing sé borin fyrir skoðunum, þörfum og vilja fatlaðs fólks.
  • Bætur hækki í 300 þúsund krónur á mánuði fylgi þróun lágmarkslauna.
  • skerðingar og tekjutengingar í almannatryggingakerfinu verði minnkaðar verulega.
  • Notendastýrð persónuleg þjónusta (NPA) verði gerð að lögbundinni þjónustu og raunhæfum kosti fyrir fatlað fólk.
  • Jafnt aðgengi allra að velferðarþjónustu án mismununar verði tryggt og gott eftirlit verði tryggt til að gæði velferðarþjónustunnar séu eins og best verði á kosið.
  • Þeir sem njóta opinberrar þjónustu eigi rétt á að taka þátt í að móta þá þjónustu.
  • Túlkaþjónusta í heilbrigðiskerfinu verði efld til muna, m.a. vegna samskiptaerfiðleika, heyrnarskerðingar, tungumáls eða vegna annarra aðstæðna.
  • Tryggja að allir fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, bæði í námi og strarfi.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa borið þessar tillögur áfram og flutt fleiri tillögur sem snúa að betra lífi fatlaðs fólks.