Ríkisfjármál og skattastefna

Réttlátt velferðarþjóðfélag

Skattastefna og fyrirkomulag tilfærslna í skattkerfinu eru á meðal helstu grunnstoða réttláts velferðarþjóðfélags. Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Hallalaus rekstur ríkissjóðs er mikilvæg forsenda velferðar og jafnaðar. Leggja þarf áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem nú er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Styrkjum stöðu ríkissjóðs

Styrkja verður stöðu ríkissjóðs með því að auka hlut almennings í þeirri auðlindarentu sem nýting fiskistofnanna og annarra takmarkaðra auðlinda í þjóðareign skapar. Þannig séu nýtingarleyfi veitt til hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi til auðlindasjóðs sem verði hluti ríkisreiknings.

Samfylkingin leggur áherslu á öflugt, skilvirkt og réttlátt skattkerfi til að fjármagna opinberan rekstur og ná pólitískum markmiðum um:

 • skilvirka efnahagsstjórn
 • tekjudreifingu og jöfnuð
 • húsnæðisstefnu og önnur félagsleg málefni
 • atvinnustefnu
 • umhverfismál

Í því augnamiði þarf að leggja á bæði beina og óbeina skatta. Til að ná fram markmiðum um tekjudreifingu og jöfnuð henta beinir skattar betur en óbeinir auk þess sem tilfærslukerfi ríkisins á borð við barnabætur og húsnæðisbætur, auk persónuafsláttar eru heppileg leið til tekjujöfnunar. Því verður skattkerfi hins opinbera ekki skoðað án þess að samhliða sé fjallað um tilfærslur hins opinbera.
Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjár­festingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, og í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Samfylkingin hafnar tvöföldu velferðarkerfi og telur að grunnþjónustu velferðarkerfisins eigi að fjármagna með almennri skattheimtu og halda beri beinni gjaldtöku notenda innan hóflegra marka.

Samfylkingin hefur eftirfarandi leiðarljós:

 •  tekjuskattur skal vera þrepaskiptur og þannig gegna því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka á bilið milli skattþrepa og fjölga þeim. Þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur.
 • efla á barnabótakerfið og koma á skilvirku kerfi húsnæðisbóta sem taki við af núverandi vaxta- og húsaleigubótakerfi.
 • auka ber vægi tilfærslukerfa barna- og húsnæðisbóta sem auk persónuafsláttarins eru mikilvægustu tekjujöfnunartæki hins opinbera.
 • tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
 • bein gjaldtaka af notendum velferðarþjónustunnar má aldrei verða til þess að mismuna og hindra að fólk geti nýtt sér þjónustuna. Þessi gjaldtaka hefur hækkað undanfarin misseri og er til muna hærri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Bein gjaldtaka fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun er eitt form skattheimtu. Slík gjaldtaka eykur ójöfnuð sem dregur til lengri tíma úr þrótti samfélagsins og almennri velsæld.
 • afmarka ber tekjur og gjöld vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkis­reiknings. Með því verði auðlinda­rentan gerð sýnileg almenningi.
 • raforkufyrirtæki greiði auðlindagjald hvort sem rafmagnsframleiðslan á sér stað í fallvötnum eða með gufuöflun. Hitaveitur borgi auðlindagjald af því vatni sem þau fá úr jörðu og útgerðir greiði fyrir heimildir til að sækja fiskistofna á Íslandsmiðum.
 • gera þarf áætlun um hvernig taka eigi á uppsöfnuðum vanda vegna skuldbindinga í opinbera lífeyriskerfinu. Fyrirséð er að greiðslur úr ríkissjóði vegna bakábyrgðar á skuldbindingum muni að óbreyttu hefjast innan fárra ára og nema tugum milljarða króna árlega. Engin áætlun liggur fyrir um með hvað hætti ríkissjóður hyggist mæta þessum stórauknu útgjöldum. Stefna skal að því að til framtíðar verði komið á einu samræmdu, sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn.