Skapandi atvinna

Menningarþjóð

Fjölskrúðugt lista- og menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags og þátttaka þjóðarinnar í menningarstarfi á vart sinn líka. Skapandi greinar eru mikilvæg burðargrein í íslensku atvinnulífi og ljóst að þeim fylgja ört vaxandi útflutningstekjur.

Íslensk menning í sinni fjölbreytilegustu mynd er á sama tíma annað helsta aðdráttarafl erlendra ferðamanna og á því stóran þátt í að skapa landinu gjaldeyristekjur. Samfylkingin ætlar að byggja skapandi greinar upp með samstarfi, þvert á stjórnkerfi, ráðuneyti og atvinnulíf og leggja áherslu á jafnræði listgreina varðandi aðgengi að fjármagni og rannsóknum.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  1. Að gera aðgerðaáætlun fyrir menningarstefnu stjórnvalda í víðtæku samráði við fulltrúa menningarlífsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Í henni birtist áherslur og forgangsröðun í menningu og listum til ársins 2020.
  2. Þjóðhagsleg áhrif og umfang skapandi greina verði metið með reglubundnum hætti og upplýsingar gerðar aðgengilegar, rétt eins og í öðrum atvinnugreinum. Einkum skal hugað að hagrænum, félagslegum og menningarlegum áhrifum af menningarstarfsemi.
  3. Skipting opinbers fjár milli listgreina, menningarstofnana og sjálfstætt starfandi listamanna verði endurskoðuð á grundvelli heildstæðrar upplýsingaöflunar um stöðu mismunandi greina. Sérstaklega er brýnt að líta til greina og aðila sem hafa notið takmarkaðs opinbers stuðnings og skoða þarf starfsramma einstakra listgreina með það að markmiði að bæta samræmi á milli þeirra. Aðgangur og hlutdeild skapandi greina í opinberum rannsóknar- og nýsköpunarsjóðum verði efld.
  4. Mótuð verði sérstök markmið fyrir skapandi greinar.
  5. Veita sprotafyrirtækjum í skapandi greinum aðild að skattalegum hvatakerfum til jafns við önnur nýsköpunarfyrirtæki.
  6. Jafnræðis sé gætt við úthlutun menningartengdra styrkja.