Skapandi greinar

Góð reynsla er komin á útflutning skapandi greina og reynslan af opinberum stuðningi er jákvæð. Samfylkingin vill treysta grundvöll kynningarmiðstöðva listgreina og hönnunar með langtímasamningum um hlutverk þeirra, starfsemi og markmið. Starf miðstöðvanna gegnir lykilhlutverki við að skapa skilyrði fyrir vaxandi atvinnu íslenskra listamanna á alþjóðavettvangi.

Samfylkingin setur fram eftirfarandi markmið fyrir vöxt skapandi greina, heima og að heiman:

  1. Útflutningssjóður skapandi greina verði efldur til að styðja við sókn listamanna á alþjóðamarkaði.
  2. Kynningarmiðstöð sviðslista verði sett á laggirnar.
  3. Treysta í sessi menningarsamninga landshlutanna og fjármagn til landshlutanna í þeim tilgangi.
  4. Menningarsetur og önnur staðbundin menningarstarfsemi í sveitarfélögum skulu njóta opinbers stuðnings úr sjóðum þar sem faglega er staðið að útthlutun. Byggt verði á heildstæðri stefnumótum og samræmdum reglum um framkvæmd samninganna.
  5. Virðisaukaskattur á bókaútgáfu verði felldur niður enda er öflug bókaútgáfa hornsteinn í menningu þjóðarinnar og undirstaða læsis.
  6. Virðisaukaskattur af innflutningi á íslenskum listaverkum verði felldur niður
  7. Mótuð verði heildstæð stefna um stoðþjónustu við tónleikahald, útgáfu, kynningu, markaðssetningu og útflutning sem gefur íslensku tónlistarfólki tækifæri til enn frekari afreka heima og að heiman.
  8. Langtímaáætlun um eflingu kvikmyndagerðar er forgangsmál til að festa góðan árangur greinarinnar í sessi.
  9. Myndlistarsjóð og aðra verkefnasjóði listgreinanna þarf að efla og tryggja þeim fjármagn til nokkurra ára í senn.  
  10. Tryggja þarf framtíð alþjóðlegra menningarhátíða með langtímasamningum. Menningarhátíðirnar gegna því lykilhlutverki að kynna verk íslenskra listamanna í alþjóðlegu samhengi og draga að erlenda gesti.