Traustur gjaldmiðill er lykilatriði

Upptaka evru

Samfylkingin vill hagstjórn sem felur í sér að Íslendingar geti gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. Sú stefna styður jafnframt við krónuna og auðveldar afléttingu gjaldeyrishafta. Með upptöku evru yrði lands­mönnum loks tryggður traustur, alþjóðlegur gjaldmiðill til fram­tíðar. Vextir myndu lækka, verðtrygging verða óþörf og við­skipta­kostnaður minnka. Allt yrði þetta til að bæta lífskjör og treysta stoðir velferðarsamfélagsins í þágu almennings í landinu.

Raunhæf stefna í gjaldeyris- og peningamálum

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur til langs tíma haft skýra og raunhæfa stefnu í gjaldeyris- og peninga­málum, stefnu sem styrkir forsendur  hagvaxtar, fjárfestingar, atvinnu­sköpunar og velferðar á næstu árum og áratugum.

Evrópsk samvinna

Samfylkingin vill að unnið verði með Evrópusambandinu, evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og hvernig henni verði skipt út fyrir evru. Áætlun sem unnin yrði í samvinnu við þessa aðila, með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu að markmiði, hefur þann trúverðugleika sem þarf til að skila árangri.