Utanríkisviðskipti

Treysta ber samstarf við helstu viðskiptalönd Íslands. Jafnframt þarf að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands til lengri framtíðar með því að vinna í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin markaði um gerð fríverslunarsamninga við vaxandi lönd.

Landfræðileg staða, saga og menningartengsl gerir það að verkum að Evrópa mun til frambúðar vera langmikilvægasta markaðssvæði landsins. Til að auka stöðugleika í utanríkisviðskiptum, ýta undir erlendar fjárfestingar og bæta hag landsmanna vill Samfylkingin að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

Full þátttaka í sameiginlegum markaði Evrópuríkja er lykilatriði til að halda framsæknum fyrirtækjum í landinu og fjölga störfum. Aðild að ESB fæli í sér mikil sóknarfæri á sviði fullvinnslu sem gætu fjölgað störfum og skapað mikil verðmæti í sjávarbyggðum landsins.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • afnám tolla og annarra viðskiptahindrana af vöru og þjónustu til að lækka verð og stuðla þannig að auknum kaupmætti.
  • afnám viðskiptahindrana sem gætu skapað sérstök sóknarfæri fyrir íslenska frumkvöðla og skapandi greinar. Tollfrelsi í kjölfar aðildar myndi einnig skapa mikla möguleika fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum sem gætu stórstyrkt undirstöður greina einsog sauðfjárræktar. Sama gildir um sjávarútveg þar sem ýmsar tollareglur EES koma í veg fyrir að hægt sé að hámarka útflutningsverðmæti ýmissa íslenskra afurða.
  • að mikil tækifæri felist í viðskiptum við vaxandi hagkerfi og nýmarkaðsríki. Ísland stendur sterkara að vígi í samskiptum við þessi ríki sem fullgildur aðili að Evrópusambandinu en eitt síns liðs.
  • að samið verði sem fyrst um fríverslun við Grænland samhliða því að efla samskipti landanna á öllum sviðum.
  • að viðskiptasamningar íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja skulu ætíð taka mið af mannréttinda- og umhverfissjónarmiðum.