Um Samfylkinguna

Um Samfylkinguna 2017-09-27T15:09:07+00:00

Flokkur jöfnuðar og réttlætis

Stofnfundur Samfylkingarinnar var haldinn í Borgarleikhúsinu þann 5. maí, árið 2000. Fyrsti formaður var kjörinn Össur Skarphéðinsson en talsmaður kosningabandalags þriggja flokka í alþingiskosningunum vorið 1999 var Margrét Frímannsdóttir, þá formaður Alþýðubandalagsins.

Sameiningin leiddi saman fólk sem fram að því hafði verið pólitískir keppinautar og starfað í stjórnmálaflokkum sem voru ólíkir að uppbyggingu og höfðu viðhaft mismunandi verklag. Þessir flokkar voru Kvennalistinn sem bauð fyrst fram 1983, Alþýðubandalagið sem bauð fyrst fram 1956 (sem kosningabandalag) og Alþýðuflokkurinn sem var stofnaður 1916.

Samfylkingin er fjöldahreyfing með yfir tuttugu þúsund skráða flokksfélaga um land allt og fulltrúa í sveitarstjórnum í nær öllum sveitarfélögum á Íslandi sem víða fara með meirihlutavald. Markmið Samfylkingarinnar er að fá umboð kjósenda til að taka forystu í landstjórninni, með jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Innan Samfylkingarinnar hefur frá upphafi verið kraftmikil umræða um lýðræði, lýðræðishefð og lýðræðislegar umbætur. Sameining jafnaðarmanna, félagshyggjufólks og kvenfrelsissinna í Samfylkingunni gerði sjálfkrafa þá kröfu að átakahefð liðinnar aldar legðist af. Engin niðurstaða er lengur fyrirfram gefin vegna þess að „kenningin“ mæli fyrir um það og þess vegna er heldur ekki lengur deilt um „sanna túlkun“ kenningarinnar. Það sem máli skiptir er veruleiki venjulegs fólks. Verkefnið er að sjá og heyra hver vandamál hins daglega lífs eru í raun, taka á dagskrá og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálanna.

Stefna flokksins og störf byggjast á frelsi og lýðræði, kvenfrelsi, jafnrétti og samábyrgð.

Manifesto Samfylkingarinnar

Samfylkingin er stjórnmálaflokkur sem aðhyllist markmið og leiðir jafnaðarstefnunnar. Stefna flokksins og störf byggjast á frelsi og lýðræði, kvenfrelsi, jafnrétti og samábyrgð. Í samræmi við stefnu sína hyggst flokkurinn og eiga náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og frjáls félagasamtök, og vinna með öðrum jafnaðarflokkum á alþjóðavettvangi.

Það er grundvallarsjónarmið Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.

Við viljum frelsi einstaklingsins sem frelsi allra einstaklinga, óháð kyni, kynþætti, trúar- og stjórnmálaskoðunum, félagslegum uppruna eða öðrum mun manna.

Við teljum að frelsi fylgi ábyrgð gagnvart frelsi annarra, ábyrgð sem ber að tryggja með mótun heilbrigðra félagstengsla. Við viljum samfélag sem geri sérhverjum einstaklingi kleift að njóta fjölbreyttra lífstækifæra og að læra um leið að veita öðrum slíkt hið sama.

Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða. Einstaklingar, samtök á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt.

Við viljum að jöfnuður verði tryggður með samhjálp. Allir þegnar samfélagsins eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri samfélagslegri þjónustu óháð efnahag. Öllum þarf að tryggja mannsæmandi lífsviðurværi óháð möguleikum til eigin tekjuöflunar. Samhjálp á aldrei að vera ölmusa og á ekki að gera þá sem hana þiggja að annars flokks samfélagsþegnum, heldur efla sérhvern einstakling til að nýta hæfileika sína sér og öðrum til hagsbóta.

Við leggjum áherslu á jafnræði kynja á vinnumarkaði, í fjölskyldulífi og hvarvetna á vettvangi samfélagsmála. Við viljum vinna gegn núverandi misrétti og skapa samfélag þar sem bæði kyn geta tekið fullan þátt í atvinnulífi og sinnt um leið uppeldi og öðru fjölskyldulífi af eðlilegri ábyrgð og ánægju.

Við viljum beita almannavaldinu með hófsemd, með áherslu á að tryggja mannréttindi og lífstækifæri allra einstaklinga og gegn hvers konar misrétti.

Fyrirheit um að hver einstaklingur geti notið sín á samleið með áherslu á efnahagslegar framfarir. Mannauður er nú lykilatriði í atvinnulífi sem og á öðrum sviðum samfélagsins. Menntun verður því leiðin til farsældar hjá einstaklingum, fyrirtækjum og þjóðum. Við viljum að menntakerfi framtíðarinnar þjóni hlutverki nýs jöfnunartækis.

Stofnfundur Samfylkingarinnar 5. og 6. maí 2000
Borgarleikhúsið Reykjavík

Aðalskrifstofa

Hallveigarstíg 1, 2. hæð
101 Reykjavík
Sími 414 2200
Fax 414 2201
Opnunartími
Mánud. – föstud. kl. 10.00-16.00
Netfang