Ágúst Ólafur í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 4. júní. Ágúst Ólafur Ágústsson tók til máls í annari umferð.

 

Kæru landsmenn

Það er nokkuð sérkennileg tilfinning að vera kjörinn aftur á Alþingi eftir 8 ára fjarveru. Ýmislegt hefur breyst en annað ekki. Eftir hrun var ákall um meiri samstöðu inni á þingi og eru mikil loforð í stjórnarsáttmálanum um samráð og eflingu þingsins.

Það er því mjög sorglegt að sjá að núverandi ríkisstjórn hefur í engu breytt hinum hvimleiða skotgrafahernaði stjórnmálanna.

Mig langar að spyrja kjósendur Vinstri grænna heima í stofu nokkurra spurninga.

Kusu þið Vinstri græn fyrir rúmum sex mánuðum svo þau gætu fellt tillögur í þessum sal um hækkun barnabóta eða vaxtabóta?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu fellt tillögur um aukna fjármuni til Landspítalans og til sjúkrahúsa út á landi?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu fellt tillögur um fjármuni til úrbóta í meðferð kynferðisbrota?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu slegið skjaldborg utan um dómsmálaráðherra sem braut lög að mati Hæstaréttar?

Og kusu þið Vinstri græn, svo ljósmæður, af öllum stéttum, þurftu að standa í mánaðarlöngum deilum við ríkisstjórnina um mannsæmandi kjör?

Mig langar einnig að spyrja kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem eru að fylgjast með þessari umræðu.

Kusu þið þessa flokka svo þeir gætu fellt tillögur um aukna fjármuni til aldraða og öryrkja?

Og kusu þið þessa tvo flokka svo þeir gætu fellt tillögur um aukna fjármuni í framhaldsskólana og í nauðsynlegar samgöngubætur?

 

Kæru landsmenn

Þessar tillögur hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír allir fellt, þvert á vilja ykkar.

Mér sýnist að þessir þrír stjórnmálaflokkar og sérstaklega Vinstri græn hafi gjörsamlega misst alla tengingu við kjósendur sína og þjóðina.

Þetta gerist vart skýrar en þegar þau vilja nú forgangsraða hagsmunum kvótagreifa og skattakónga fram yfir aldraða, öryrkja og barnafjölskyldur.

 

Kæru landsmenn

Ég hef velt fyrir mér að undanförnu á hvaða vegferð samfélagið okkar er eiginlega.

Förum yfir 4 staðreyndir:

Númer eitt: 26 bankamenn, sem að stærstum hluta vinna hjá ríkisbanka, fá einn milljarð í laun á ári. Þetta er upphæð sem er einn tíundi á því sem ríkisstjórnin tímir að setja í allar barnabætur landsmanna og er einn fjórði af því sem sett er í allar vaxtabætur almennings.

Númer tvö: Forstjórar hefðbundinna íslenskra kauphallarfyrirtækja eru með 1-2 milljónir í laun, á viku! Á viku.

Númer þrjú: Útgerðarmaður gengur nýlega út með 22 þúsund milljónir í vasanum vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Númer fjögur: 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% Íslendinga á.

Auðvitað á fólk að uppskera eins og það sáir. En ekki gera ljósmæður það og ekki gera kennarar, lögreglumenn eða eldri borgarar það heldur.

Við erum ein þjóð í þessu landi. En hér er að myndast sjálftökustétt ofurlaunamanna, sem langflestir eru yfirlýstir Sjálfstæðismenn.

Almennur kjósandi Sjálfstæðisflokksins ætti að íhuga þá staðreynd og spyrja sig hvort þeir eigi að veita þessum flokki sérhagsmuna brautargengi.

 

Kæru landsmenn

Verkefnin eru ærin.

Við erum með vaxandi þunglyndi og fíknivanda meðal þjóðarinnar en í hverri viku er framið sjálfsvíg í okkar litla landi.

Um 6.000 börn líða skort en Öryrkjabandalag Íslands kallaði nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ávísun á fátækt og eymd. Ávísun á fátækt og eymd.

Þá erum við með framkvæmd útlendingastefnu sem oft jaðrar við mannvonsku og gjaldmiðil sem gagnast eingöngu fjármagnseigendum og peningaprentsmiðjunni á Englandi.

Það er allt of dýrt að lifa á Íslandi, hvort sem litið er til matvæla, húsnæðis eða jafnvel peninga.

En Ísland er 11. ríkasta land í heimi.

Þetta þarf því ekki að vera svona en til að hlutirnir geti breyst þarf þjóðin að senda þessa ráðherra heim.

 

Takk fyrir