Ástþór Jón Ragnheiðarson

Kæru félagar,

Mig langar hér með að lýsa yfir framboði mínu í verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar á komandi landsfundi.

Ég ætla hér að reyna að segja mjög stuttlega frá mér: Ástþór Jón Ragnheiðarson heiti ég. Ég er uppalinn Mýrdælingur en búsettur á Hellu í dag. Ég bý þar ásamt kærustunni minni Tönju Margréti Fortes og eigum við von á okkar fyrsta barni í apríl á næsta ári. Ég starfa sem þjálfari í frjálsíþróttum hjá íþróttafélögunum í Rangárvallasýslu, en hafði þar áður starfað við þjálfun hjá fjöldamörgum íþróttafélögum síðan árið 2015, unnið á lyftara, sem frístunda- og menningarfulltrúi, á leikskóla og í félagsmiðstöð svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef víðtæka reynslu af félagsmálum, þá helst innnan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar. Innan Samfylkingarinnar hef ég síðan setið í miðstjórn UJ með hléum síðan 2017, verið í stjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og var nýlega kjörinn varaformaður Sigríðar - Ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi.

Reynslu mína af verkalýðsmálum langar mig að nýta í starfi innan verkalýðsmálaráðs. Það að hafa verið á vinnumarkaði alfarið frá 18 ára aldri, í stað þess að ganga menntaveginn líkt og margir jafnaldrar mínir, gerir það að verkum að ég hef talsvert aðra upplifun og reynslu á mörgum sviðum. Ég hef síðan 2018 setið í stjórn ASÍ-UNG, verið varaformaður síðan 2020 og hef ég einnig átt sæti í efnahags- og skattanefnd ASÍ síðan 2018.

Þá hef ég einnig reynslu af sveitarstjórnarstiginu, en ég var varamaður í sveitarstjórn Mýrdalshrepps á árunum 2018-2020 og sat einnig í fræðslunefnd, íþrótta- og tómstundanefnd og umhverfis- og atvinnumálanefnd hjá sveitarfélaginu.

Það er mín ósk að verkalýðshreyfingin og jafnaðarmannaflokkur íslands, Samfylkingin, gangi í takt og vinni ávallt að hagsmunum vinnandi fólks. Mig langar því að bjóða fram krafta mína og leggja mitt af mörkum til þess að gera það að veruleika og halda áfram því góða starfi.