Átta lausnir Samfylkingarinnar til að leysa húsnæðisvandann

Samfylkingin hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í húsnæðismálum þar sem Alþingi er falið að gera skýra og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði – að miklu leyti vegna vöntunar á heildstæðri stefnumótun og framtíðarsýn síðustu ríkisstjórna. Átta aðgerðir eru lagðar fram í tillögunni sem ætlað er að auðvelda fólki fyrstu kaup, tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda og auka framboð leiguhúsnæðis.

Samfylkingin leggur til startlán að norskri fyrirmynd sem koma ungu fólki og viðkvæmum hópum til aðstoðar við fyrstu kaup sem fá ekki lán annars staðar, startlánin eru einnig veitt til endurfjármögnunar til að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda. Lagt er til að ráðist verði í endurreisn verkamannabústaðakerfisins með uppbyggingu 5000 hagkvæmra leiguíbúða og að öll sveitarfélög leggi sitt af mörkum þegar kemur að félagslegu húsnæði. Auk þess er lögð til hækkun húsnæðisstuðnings í formi vaxta- og húsnæðisbóta, að fjármagnstekjuskattur vegna tekna af langtímaútleigu á einni íbúð verði lækkaður, réttindi leigjenda efld og byggingarreglugerðin einfölduð og aðlöguð betur að Norðurlöndunum til að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost, svo eitthvað sé nefnt.

Húsnæðisöryggi óháð efnahag eða félagslegri stöðu er forsenda jafnra tækifæra. Sitjandi ríkisstjórn skilar auðu í húsnæðismálum; framlög til húsnæðisstuðnings hækka t.d. einungis um 106 milljónir króna milli ára og skýr húsnæðisstefna er hvergi sjáanleg. Í komandi kjarasamningsviðræðum er mikilvægt að stjórnvöld stígi inn og svari háværu kalli um húsnæðisöryggi.

 

„Hagkvæmt, öruggt húsnæði er risavaxið velferðarmál. Það er í raun ótrúlegt að stór hluti fólks geti ekki verið öruggt um að halda heimili á sama stað tvö, þrjú ár í senn. Aðgerðir stjórnvalda síðustu ár hafa síst gagnast ungu fólki og tekjulægri fjölskyldum en okkar tillögur snúa einmitt að þeim hópum.”

  • Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

 

Átta aðgerðir Samfylkingarinnar í húsnæðismálum:

  • Startlán á norskri fyrirmynd sem koma ungu fólki og viðkvæmum hópum til aðstoðar við fyrstu kaup sem fá ekki lán annars staðar. Stendur fjölskyldum einnig til boða sem eiga erfitt með að mæta útgjöldum vegna húsnæðiskostnaðar í formi endurfjármögnunar. Kynning íbúðalánasjóðs á startlánum: https://goo.gl/2LSTCD
  • Stjórnvöld verða að hraða uppbyggingu íbúða í samstarfi við verkalýðsfélögin og félög án hagnaðarsjónarmiða. Tryggja verður fjármagn til uppbyggingar 5000 hagkvæmra íbúða eins fljótt og auðið er.
  • Skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélag. Reykjavíkurborg greiðir allt að átta sinnum meira miðað við höfðatölu en hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hækkun húsnæðis- og vaxtabóta í samræmi við launaþróun og skerðingar minnkaðar með það að markmiði að minnka skattbyrði lág- og millitekjuhópa.
  • Einföldum byggingarreglugerðir í samræmi við reglugerðir Norðurlanda, til að greiða fyrir möguleikum á að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost.
  • Tekjur einstaklinga  verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti  vegna útleigu einnar íbúðar – til að hvetja til langtímaleigu og auka framboð á leiguíbúðum.
  • Breytum lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði öðlist rétt á húsnæðisbótum.
  • Breytum húsaleigulögum til að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda.

 

Hérna má nálgast tillöguna í heild sinni með ítarlegri greinargerð: https://www.althingi.is/altext/149/s/0005.html