Auður Alfa Ólafsdóttir

Kæru félagar,

Ég heiti Auður Alfa og ég býð mig fram í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Ég er 31 árs gömul, móðir 11 ára drengs og stjórnmálahagfræðingur að mennt. Ég starfa hjá verkalýðshreyfingunni, nánar tiltekið hjá Alþýðusambandi Íslands sem sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum. Ég er með fjölbreyttan bakgrunn, bæði hvað varðar lífsreynslu og atvinnu og hef sjálf upplifað hvað það skiptir miklu máli að kerfið styðji við fólk með mismunandi bakgrunn og jafni stöðu þess og tækifæri.  

Ég hef tekið virkan þátt í starfi flokksins síðustu ár og setið í framkvæmdastjórn flokksins síðustu fjögur ár. Þá hef ég setið í verkalýðsmálaráði, fræðsluráði og framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna svo eitthvað sé nefnt.

Flokkurinn stendur að mörgu leiti vel enda hefur farið fram mikil uppbygging innan hans á síðustu árum. Lengi má þó gott bæta og tel ég að við getum komið sterkari fram í ýmsum stórum málum og talað meira um loftslagsmál, Evrópusambandið, breytingar á kvótakerfinu og ýmis velferðar- og réttlætismál. 

Ég tel að flokkurinn þurfi að tala meira og betur til fólks sem býr við kröpp kjör og auka trúverðugleika sinn með meiri fjölbreytni í framlínu flokksins þannig að hún endurspegli betur þá hópa sem flokkurinn talar til og fyrir. Þá þurfum við vera duglegri að nýta þann mannauð sem flokkurinn býr yfir og byggja upp og styðja við grasrót flokksins og efla málefnastarfið. Að lokum tel ég að flokkurinn þurfi að líta í meiri mæli verkalýðshreyfingarinnar í stefnumótun og málflutningi. 

Kær kveðja,

Auður Alfa