Besta mögulega Ísland fyrir alla, ekki bara suma - ræða Albertínu

Ræða Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

Herra forseti – kæru áheyrendur,

Við Íslendingar eigum margt sameiginlegt. Á sama tíma erum við á margan hátt þjóð andstæðna; ríkir – fátækir, gamlir – ungir, landsbyggð – höfuðborg, stangveiði – fiskeldi, ríki – sveitarfélög – og þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega 350 þúsund þá eigum við stundum erfitt með að setja okkur í spor hvors annars.

Öll erum við þó í raun að biðja um það sama – að aðstöðumunurinn sé ekki óeðlilegur, leikreglurnar séu sanngjarnar og að allir hafi jöfn tækifæri til að skapa sér sómasamlegt líf.

Alltof oft virðist okkur vera ófært að ræða útfærslur og leiðir, heldur festumst við í einarðri umræðu um tilveruréttinn. Við þingmenn erum kannski ekki alltaf til fyrirmyndar í umræðum hér í þessum stól og þurfum að vanda okkur betur – en við sem þjóð þurfum líka að vanda okkur í samfélagslegri umræðu.

Það væri auðvelt að kenna samfélagsmiðlum um, en staðreyndin er sú að ákvörðunin og ábyrgðin liggur hjá okkur. Það erum við sem ráðum því hvernig við notum miðlana.

Kæru Íslendingar. Við erum lítil þjóð en höfum náð að skara fram úr á margan hátt. Ég hef þó trú á að við gætum gert svo miklu betur. Við erum rík þjóð og ættum auðveldlega að geta forgangsraðað þannig að sem flestir hafi það gott. Byggt upp besta heilbrigðiskerfið, skapað öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, gert öryrkjum kleift að lifa sómasamlegu lífi, og fleira mætti auðvitað telja upp.

Það er margt fleira. Í samfélagi sem treystir æ meira á rafmagn hefur aðgengi að raforku sjaldan skipt meira máli. Ný raforkuspá sem Orkustofnun birti nýlega gerir ráð fyrir að afhending frá dreifikerfinu muni aukast um 80% alls til ársins 2050. Þar er ekki verið að tala um aukna stóriðju, heldur aukna notkun heimila, veitna og fiskveiða.

Til að standa undir þessu eru tvær stórar spurningar sem við þurfum að svara: Hvernig ætlum við að styrkja flutningskerfi raforku til að tryggja aðgengi allra landsmanna og að sama skapi hvernig ætlum við að tryggja nægjanlega raforku?

Því tengt, þá við hljótum því að fagna þeim skrefum sem tekin voru í nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þó hefði verið gott að sjá stærri skref tekin og raunverulegar kerfisbreytingar eins og hæstvirtur forsætisráðherra boðaði. Þá má ekki gleyma því að aðgerðirnar 34 krefjast aukinnar raforku. Auðvitað þýðir þetta erfiðar ákvarðanir fram undan, en ef við getum það ekki – hvernig getum við ætlast til að aðrar þjóðir geri það?

Kæru áheyrendur. Við eigum að vera óhrædd við að stuðla að nýsköpun í stjórnsýslu og hugsa út fyrir kassann. Það er því miður alltof oft sem tölvan segir nei – í stað þess að leita leiða til að styðja við þá sem passa ekki inn í kassann. Við hljótum að vilja samfélag þar sem stutt er við þá sem þurfa á því að halda.

Hæstvirtur fjármálaráðherra þreytist reyndar ekki á að segja okkur hvað við höfum það gott og að við eigum ekki að vera að kvarta en því miður er raunveruleikinn sá að ýmis samfélagsleg vandamál virðast vera í hröðum vexti, svo sem vaxandi neysla ávanabindandi lyfja. Ný skýrsla Landlæknis sýnir að á árinu 2016 sögðust 9% ungmenna hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta eru þau sem lifðu af.

Við hljótum að spyrja okkur hvað er að samfélagi þar sem þetta er staðreyndin? Hvernig getum við breytt því?

Það er margt sem þarf að gera en því miður virðist enn skorta framtíðarsýn. Við þurfum að brúa gjána á milli okkar. Við þurfum að minnka aðstöðumun og auka jöfnuðinn í samfélaginu.

Kæru áheyrendur, við hljótum að vilja besta mögulega Ísland fyrir alla – ekki bara suma.

Takk fyrir.