Fjársvelti og undirmönnun í heilbrigðiskerfinu óboðleg

Mánudaginn 13. janúar 2020 sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér eftirfarandi ályktun:

 

Ályktun frá þingflokki Samfylkingarinnar

Lýsingar á aðstæðum sjúkra og vinnuumhverfi starfsfólks á bráðamóttöku og öðrum deildum Landspítalans sýna að ástandið þar er ekki sæmandi velferðarsamfélagi eða okkur sem þjóð.

Staðan á Landspítalanum er með öllu ólíðandi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Landspítalinn og heilbrigðiskerfið allt býr við langvarandi álag, undirmönnun og fjársvelti.  Starfsfólk lýsir neyðarástandi og á sama tíma krefst ríkisstjórnin milljarða niðurskurðar í rekstri. Það er skammarlegt.

Raunverulegt velferðarsamfélag lætur slíkt ekki gerast. Í heilbrigðismálum eru Íslendingar eftirbátar hinna norrænu ríkjanna, hvort sem litið er til fjármögnunar eða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Stjórnarflokkarnir hafa ítrekað fellt tillögur Samfylkingarinnar um aukin fjárframlög til heilbrigðismála.

Kjarasamningar fjölda heilbrigðisstétta hafa verið lausir í meira en níu mánuði. Í þeim hópi eru stórar kvennastéttir, svo sem hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar, ljósmæður og annað starfsfólk sem heldur daglegum rekstri heilbrigðiskerfisins gangandi. Þessi seinagangur er óásættanlegur.

Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin bregðist strax við þessu ófremdarástandi.

 

 

 

 

Samfylkingin tekur forystu í loftslagsmálum

Gert er ráð fyrir að dregið sé úr losun gróðurhúslofttegunda um 55% árið 2030, notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt árið 2030, sérstakt embætti loftslagsráðherra verði sett og 2,5% af vergri landsframleiðsu til loftslagsaðgerða. Þetta er meðal sem fram kemur í ályktun um aðgerðir við loftslagsvá, sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, 19. október í Austurbæ í Reykjavík. Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og formaður málefnanefndar flokksins um umhverfismál, kynnti ályktunina á fundinum. Hún segir að með samþykkt hennar sé Samfylkingin orðin leiðandi í umhverfismálum hér á landi og hafi lýst sig reiðubúna að taka við leiðtogahlutverki flokkanna þeim samfélagsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað vegna loftslagsváinnar sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Stefna Samfylkingarinnar um Sjálfbært Ísland er róttækasta stefna sem sett hefur verið fram í loftslagsmálum í dag,“ segir Eva.

Eva segir einnig að þótt stefnan sé róttækari en það sem áður hefur þekkst meðal stjórnmálaflokka á Íslandi, sé  hún er heildræn og raunhæf. Þá sé hún einnig í samræmi við það sem önnur lönd í kringum okkur hafi þegar lagt til, svo sem Danmörk og Þýskaland.

Um stefnuna og aðgerðir má lesa hér auk meðfylgjandi skjals.

Ályktun-loftslagsmál-haust2019v

Sjálfbært Ísland – Ályktun og aðgerðalisti Samfylkingarinnar um aðgerðir við loftslagsvá

Ályktun flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar í Austurbæ, Reykjavík, 19. október 2019 um aðgerðir við loftslagsvá

Flokksstjórnarfundurinn tekur undir kröfur skipuleggjenda loftslagsverkfallanna og skorar á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Í því felst að ráðast í aðgerðir af þeim þrótti að dregið verði úr losun gróðurhúslofttegunda um a.m.k. 55% árið 2030.[1] Ísland setji stefnuna til framtíðar á að verða grænt velsældarhagkerfi með jöfnuð að leiðarljósi. Til nauðsynlegra breytinga skal á næstu árum verja a.m.k. 2.5% af vergri landsframleiðslu verði veitt til loftlagsaðgerða.

Loftslagsváin er mesta ógnin sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Loftslagsbreytingar eru ekki aðeins umhverfismál, heldur snerta allt samfélagið með einum eða öðrum hætti. Grípa þarf til alvöru aðgerða, skapa um þær samstöðu meðal þjóðarinnar og veita þeim sterka pólitíska forystu.

Jarðefnaeldsneyti – sem er sökudólgurinn – þarf að uppræta jafnt og þétt og aðrir orkugjafar – grænir – þurfa að koma í staðinn til að mæta orkuþörf okkar. Samfara orkuskiptum þarf að binda kolefni í ríkum mæli með öllum aðferðum sem tiltækar eru, ekki síst með því að koma landinu í upprunalegt horf með endurheimt votlendis og aukinni ræktun. Hér þarf að flokka aðgerðir eftir árangri og ganga hratt til verks.

Fyrst og fremst vekja loftslagsbreytingar okkur upp við þann vonda draum að lifnaðarhættir okkar ganga ekki og að við þurfum að skoða alvarlega forgangsröðun í samfélaginu, neyslu okkar, hegðunarvenjur og skipulag. Hagkerfið þarf að taka stakkaskiptum og sjónarmið sjálfbærni að verða leiðarljós þess.

Að efnaminni líði ekki fyrir breytingar

Tryggja þarf, í samræmi við áherslur jafnaðarmanna, að hinir efnaminni líði ekki við þær vandasömu og kostnaðarsömu breytingar sem fram verða að fara á því umbreytingartímabili sem fram undan er við færsluna yfir í samfélag án kolefna – þó ljóst sé að allir verði með einum eða öðrum hætti að taka ábyrgð á þeim breytingum. Meginreglan við opinbera stefnumótun og aðgerðir er að sá sem mengar borgar (mengunarbótareglan/greiðslureglan), sem meðal annars verður grundvallarreglan við upptöku hærri kolefnisgjalda og annarra grænna skatta.

Forvitni og jákvæðni

Samfélagið þarf að breytast. Hægt er að vinna að því verkefnið er með forvitni og jákvæðni eða reyna standa á móti nauðsynlegum breytingum í ótta – en að endingu snýst málið raunverulega um að bjarga okkur sjálfum og lífríki jarðar. Verkefnið er nátengt og fer saman við önnur mál jafnaðarmanna, til dæmis styttingu vinnuvikunnar og betri geðheilbrigðisþjónustu. Færa má rök fyrir því að það að streita og álag samfélagsins minnki hafi jákvæð áhrif á líðan fólks og vinnugleði, og stuðli að aukinni lýðheilsu.

Mannkynið hefur sjaldan staðið frammi fyrir jafnstórri áskorun. Til að mæta henni þurfum við nýsköpun í hugsun á flestum sviðum samfélagsins – ekki síst í stjórnmálum – hætta að hugsa aðeins út frá núverandi kerfum. Við þurfum að temja okkur djarft viðhorf og sýna pólitískt hugrekki. Við stefnum að framtíðarsýninni Sjálfbært Íslandog tillögurnar hér að neðan eru fyrsta varðan í leið að þeirri samfélagsmynd.

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar leggur til eftirfarandi aðgerðir, að tillögu umhverfishóps flokksins:

 

 1. Lýst verði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, og gripið til þessara aðgerða:
 2. Dregið verði úr losun umm.k. 55% á tímabilinu til loka árs 2030 (miðað við losun 2005). Markmiðið verði bundið í lög.
 3. Varið verði a.m.k 2,5% af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða.
 4. Ákveðin verði og færð í lög tímasett og magnbundin áætlun um samdrátt gróðurhúsalofttegunda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og innlend markmið, í samræmi við lið 2.
 5. Græn fjárlög og grænt hagkerfi. Sjálfbærni og grænar áherslur verði færð inn í fjárlagagerðina[2] og við fjárhagsáætlunargerð ríkis og sveitarstjórna. Íslendingar setji sér það markmið á að verða grænt velsældarhagkerfi með áherslu á hringrásarhagkerfið. Breytingar verði skoðaðar á hagvaxtarlíkani og aðrir þættir teknir inn. Þá verði teknar upp fleiri grænar vottanir og ívilnanir fyrir fyrirtæki á sviði grænna lausna.
 6. Komið verið á sérstöku ráðuneyti loftslagsráðherra – sem sér um að framfylgja verkefnum þvert á ráðuneyti. Það endurspeglist á Alþingi með skipan tímabundinnar fastanefndar sem fjalli sérstaklega um loftslagsmál. Sveitarstjórnir styrki áherslur á sviði loftslagsmála í stjórnkerfi sínu með svipuðum hætti.
 7. Stjórnsýsla loftslagsmála, sem nú er í uppnámi, verði gerð öflug og skilvirk.
 8. Opinberar áætlanir verði loftslagsmetnar. Loftslagsmat fylgi öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi.
 9. Tímasett útfösun jarðefnaeldsneytis. Nýtum þá meðgjöf sem land og þjóð hafa með endurnýjanlegum orkugjöfum og jarðvarma. Flýta þarf uppbyggingu á dreifikerfi rafmagns um allt land í sátt við samfélag og náttúru. Með útfösun jarðefnaeldsneytis fæst umtalsverður ávinningur – efnahagslegur með því að gjaldeyrir sparast við að innflutningi á olíu er hætt, mengun minnkar og loftgæði aukast til muna.[3] Markviss markmið ár frá ári verði sett um þessa umbreytingu í samræmi við aðgerðaáætlunina, og samráð haft um hana við samtök atvinnurekenda og almannasamtök. Stefnt skal að því að þessum aðgerðum ljúki árið 2030 og að þá verði jarðefnaeldsneyti ekki lengur nýtt á Íslandi nema í undantekningartilvikum.
 10. Til að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum verði stóraukið opinbert fjármagn til uppbyggingar rafhleðslustöðva um landið og við heimili. Ríki og sveitarfélög þurfa að huga að einfalda ferli við skipulag, leyfisveitingar og eftirlit til að hægja ekki á ferlinu.
 11. Hafnar verði sérstakar rannsóknir um súrnun sjávar og áhrif hennar á lífríki í hafinu umhverfis landið. Íhugað verði hvort hægt er að efla rannsóknir og undirbúning aðgerða með alþjóðlegri samvinnu strandríkja.
 12. Nýskráningum á bensín- og díselbílum hætt sem fyrst. Núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar miðast við 2030 sem er of seint. Nú þegar þarf að aðstoða almenning við að velja rafmagnsbíl í stað bensín- eða dísilbíls, einkum á eftirmarkaði.
 13. Hækkun kolefnisgjalds. Sjónarmiðið hér er að sá sem mengar borgar. Á meðan breytingin stendur yfir með útfösun jarðefnaeldsneytis þarf að leggja á hátt kolefnisgjald, einkum á atvinnugreinar sem standa fyrir utan ETS-kerfið, en jafnframt á notkun bíla.
 14. Stórfellt átak við endurheimt votlendis, ræktun og bindingu í jörðu. Þessar leiðir geta skilað árangri á tiltölulega skömmum tíma, þótt ólíklegt sé að nokkur þeirra geti komið í stað beins samdráttar í losun. Lagalegar flækjur sem kunna að standa þessum verkefnum í vegi verði einfaldaðar.
 15. Opinberar fjárfestingar við hágæðaalmenningssamgöngur. Fjármögnun almenningssamgangna um allt land verði tryggð.
 16. Aukið fjármagn renni til rannsókna og þróunar. Þak verði afnumið á endurgreiðslum til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar sem leiða til grænna lausna og rannsóknarsjóðir hins opinbera á þessu sviði efldir.
 17. Lífrænni matvælaframleiðslu verði gert hærra undir höfði – með aukinni áherslu á ræktun grænmetis og ávaxta. Hér þarf að huga að ívilnunum og opinberum styrkjum. Endurskoða þarf búvörusamninga.
 18. Regluverk fyrir grænar fjárfestingar – regluverk verði sett um grænar fjárfestingar, græn skuldabréf.
 19. Sjálfbærir neytendur og þeir sem huga að kolefnisfótspori sínu fái betri opinberan stuðning og umbun. Til þess verði skoðaðar ívilnanir í gegnum skattkerfi, samgöngustyrkir auknir og útfærðar frekar hugmyndir á borð við „grænar ávísanir“. Verslanir bjóði í meira mæli umbúðalausar vörur.
 20. Matvæli verði merkt með kolefnisfótspori, og skattkerfinu beitt til að draga úr neyslu á mengandi afurðum og hvetja til kaupa á afurðum sem menga minna.
 21. Markvissari skref tekin í átt að styttingu vinnuvikunnar. Stytting vinnuvikunnar er dæmi um vinnumarkaðsmál sem stuðlar að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir sýna að við það að stytta vinnuvikuna um 20% myndum við draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 16% vegna breyttra samgöngumáta og neysluhátta.
 22. Stöðvuð verði svartolíumengun frá skemmtiferðaskipum í íslenskum höfnum og á íslensku hafsvæði, og komið upp aðstöðu til annarskonar orkuþjónustu við skipin.
 23. Ísland verði leiðtogi í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Loftslagsmál verði forgangsmál í samskiptum við Evrópusambandið, m.a. á vettvangi EES, og í öðru alþjóðasamstarfi. Stjórnvöld tali fyrir öflugum aðgerðum og viðsnúningi vegna loftslagsmála og umhverfismála, fyrst og fremst með því að sýna árangur á heimavelli.

 

[1] 55% samdráttur fyrir 2031 miðað við stöðuna 2005 er nú til umræðu innan Evrópusambandsins í stað þeirra 40% sem í fyrstu voru talin duga til að uppfylla markmið Parísarsamningsins frá 2015. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til rætt um 29% samdrátt.

[2] Hjá OECD – Efnahags- og framfarastofnun Evrópu er að finna töluvert efni um græn fjárlög (e. green budgeting).

[3] Í Ósló hefur borgarstjórnin sett þau markmið að borgin verði án jarðefnaeldsneytis árið 2030.

 

Ályktun-loftslagsmál-haust2019v

Yfirlýsing vegna brottvísana barna á flótta

Yfirlýsing frá Samfylkingunni:

Samfylkingin fordæmir ómannúðleg vinnubrögð í útlendingamálum á Íslandi og krefst þess að stöðvuð verði brottvísun þeirra barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og nú stendur til að senda úr landi. Þá gagnrýnir Samfylkingin harðlega þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt á útlendingalögum og þrengja að réttindum fólks sem sækir hér um skjól – og auðvelda jafnvel brottvísanir til landa eins og Grikklands.

Talsvert fleiri börnum er vísað úr landi en fá hér alþjóðlega vernd. Á síðustu fimm árum hefur 317 börnum verið neitað um alþjóðlega vernd og vísað burt. Sumum jafnvel fylgdarlausum og börnum sem hafa fest hér rætur. Bara á þessu ári hefur 75 börnum verið neitað um vernd. Meðal þeirra eru Mahdi, Ali, Zainab og Amir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu.

Það er pólitísk ákvörðun að grípa ekki í taumana og koma í veg fyrir brottvísanir sem þessar – ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar.

Samfylkingin skorar á ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að endurskoða útlendingalög og framkvæmd þeirra frá grunni, með sérstöku tilliti til barna og fólks í viðkvæmri stöðu – og tryggi að mál þeirra séu skoðuð efnislega og einstaklingsbundið. Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að hætta að skýla sér á bak við Dyflinnarreglugerðina og annað alþjóðlegt samstarf við framfylgd harðlínustefnu í útlendingamálum.

Stjórn Samfylkingarinnar

 

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir ASÍ

Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér yfirlýsingu um stuðning við skattahugmyndir ASÍ.

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir Alþýðusambands Íslands, enda eru þær í takti við stefnu flokksins. Þingflokkurinn hvetur til þess að unnið verði eftir þessum hugmyndum við útfærslu breytinga á skattkerfinu. Með því mun draga úr ójöfnuði á Íslandi og allt samfélagið mun hagnast af réttlátara skattkerfi, lægri húsnæðiskostnaði almennings og stuðningi við ungar barnafjölskyldur.

Á undanförnum árum hafa þeir efnameiri hagnast á breytingum á skattkerfinu sem hafa að sama skapi bitnað á launafólki með lágar- og meðaltekjur. Þúsundum saman hafa fjölskyldur dottið út úr barna- og vaxtabótakerfinu á síðastliðnum sex árum. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur undir þá kröfu ASÍ að þessari þróun verði snúið við.

Við útfærslu slíkra hugmynda væri hægt að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og tryggja að 95% launafólks standi betur en áður.

Samfylkingin styður Öryrkjabandalag Íslands

Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin gefi þegar í stað út yfirlýsingu um til hvaða ráðstafana verði gripið til að leiðrétta þær búsetuskerðingar sem öryrkjar hafa ranglega orðið fyrir um margra ára skeið. Óljós og misvísandi skilaboð Tryggingastofnunar annars vegar og ráðherra hins vegar eru með öllu óboðleg. Skerðingarnar hafa bitnað harkalega á yfir 1000 öryrkjum í landinu og er krafa okkar að ranglætið verði stöðvað og hafist handa þegar í stað við leiðréttingar.

Samfylkingin fordæmir aðskilnað barna og foreldra við landamæri Bandaríkjanna

Þingflokkur og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þann 20.06.2018.

Samfylkingin fordæmir harðlega það framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs og krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.

Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólítískum deilum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er ekki nóg með að brotið sé á umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna með því að hneppa þá í varðhald – heldur eru börn þeirra einnig tekin af þeim og jafnvel komið fyrir í ómannúðlegum geymslum án umönnunar til lengri tíma.

Allt að 2700 fjölskyldur hafa þegar verið aðskildar með þessum hætti.

Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar beðið um fund í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag, og mun þar bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Samfylkingin lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af þeirri vegferð sem Bandaríkjaforseti fetar á alþjóðavettvangi. Bandaríkin hafa að undanförnu sagt sig úr Parísarsáttmálanum, Íran-samkomulaginu og nú síðast Mannréttindaráði SÞ. Bandaríkin eru þar að auki eina ríki Sameinuðu Þjóðanna sem hefur ekki fullgilt Barnasáttmálann.

Ísland á að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum og mannúðlegri mótttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við eigum að vera staðfastir talsmenn verndar barna á flótta og taka afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi,útlendingahatri og mismunun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Sveitarstjórnarkosningar 2018 – yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs

 

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands samþykkt á landsfundi 2018

Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings. Styðja þarf betur við bakið á barnafjölskyldum, hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi kost á leikskólaþjónustu. Við ætlum að auka stuðning við öryrkja og aldraða, sem margir hverjir búa við skammarlegar aðstæður og afnema krónu á móti krónu skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Við viljum auka húsnæðisstuðning bæði til þeirra sem leigja á gróðadrifnum leigumarkaði og þeirra sem eiga húsnæði en glíma við alltof háa vexti og verðtryggingu. Byggja þarf strax þúsundir leiguíbúða í félögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.

Alltof margir á Íslandi búa við kröpp kjör. Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang óttast barnafólk, eldri borgarar, öryrkjar og sjúklingar um afkomu sína um hver mánaðamót.

Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að þúsundir barna búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum og vaxandi hópur hefur ekki efni á að leita sér lækninga.

Hvert barn sem býr við skort er einu barni of mikið. Í jafn ríku þjóðfélagi og Íslandi á enginn að þurfa að búa í fátækt.

Forsenda öflugs velferðarkerfis er kröftugt og frjálst atvinnulíf sem byggir á nýsköpun og góðri menntun. Atvinnulífið þarf að búa við öruggt rekstrarumhverfi og stöðugun gjaldmiðil.

 

Sterkari Samfylking forsenda framfara

Frá því Samfylkingin fór úr ríkisstjórn hefur verið rekin hægri stefna sem gagnast best þeim sem mest hafa milli handanna. Sterkari Samfylking er nauðsynleg til þess að knýja í gegn löngu tímabærar samfélagsbreytingar þar sem almannahagur er í senn hreyfiafl og lokatakmark. Í haust svöruðum við kalli um meiri mannúð í útlendingamálum og unnum þar áfangasigur þó ýmis verk séu enn óunnin í þeim málaflokki.

Því miður hefur ekki tekist að mynda meirihluta á þingi sem hreyfir sig í takt við nýja strauma þó að almenningur hafi ítrekað lýst vilja sínum til breytinga:

 • Eftir kosningarnar í haust var hægt að mynda meirihluta á þingi um aukin jöfnuð og betri lífskjör almennings – samt er áfram rekin hægri stefna sem ógnar félagslegum og efnahagslegum stöðugleika
 • Eftir kosningar 2016 var hægt að mynda frjálslyndan meirihluta um betri samskipti við Evrópu, réttláta gjaldtöku í sjávarútvegi og landbúnaðarkerfi sem gagnaðist neytendum og bændum – samt var umbótum frestað
 • Árið 2012 greiddi meirihluti þjóðarinnar atkvæði með nýrri stjórnarskrá – samt hefur hún verið svæfð í nefndum

Sérhagsmunir hafa komið í veg fyrir að þessi umbótamál, sem Samfylkingin var stofnuð um hafi orðið að veruleika. Annað mikilvægt leiðarljós í starfi Samfylkingar frá stofnun hafa verið lýðræðisleg, fagleg og gagnsæ vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálamenn þurfa að umgangast þessi gildi af meiri virðingu ef takast á að endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum.

 

Frelsi, jafnrétti og samstaða

Yfirskrift landsfundar í ár er gamalkunnug en með nýrri tilvísun: Frelsi, jafnrétti og samstaða. Gildin úr frönsku byltingunni sem jafnaðarstefnan stendur á eiga enn fullt erindi í íslensk stjórnmál. Við tölum um samstöðu frekar en bræðralag vegna þess að samstaða allra um hagsmuni almennings er nauðsynleg ef mæta á áskorunum framtíðarinnar. Konur sem hafa stigið fram á liðnum mánuðum undir merkjum #METOO eru skýrt dæmi um það hverju samstaða getur skilað.

Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Við viljum virða mannréttindi allra og höfnum alfarið þeirri brotastarfsemi, sem er alltof algeng hér á landi þegar fólki eru borguð laun undir lágmarkslaunum og brotið á öðrum réttindum þeirra. Félagsleg undirboð bitna ekki bara á þeim sem verða beint fyrir brotunum heldur grafa þau undan störfum þeirra sem fá eðlileg laun fyrir sína vinna og þeim atvinnurekendum sem fara eftir reglum. Jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að bæta þjónustu við börn og fullorðna með annað móðurmál en íslensku því samfélag með jöfnuði verður ekki byggt án þess að búa vel að þeim sem hafa flust hingað til lands eða eiga rætur að rekja til annarra þjóða.

Hin „gleymda“ styrjöld í Jemen geisar sem aldrei fyrr og hefur valdið neyðarástandi í landinu. Íslendingar hafa komið við sögu þessara þjáninga með því að leyfa vopnaflutninga til eins helsta stríðsaðilans. Um leið og Samfylkingin harmar þær stjórnvaldsaðgerðir telur hún fulla ástæðu til að íslensk stjórnvöld veki á alþjóðavettvangi athygli á neyðinni í Jemen, hvetja til þess að allir aðilar máls leggi niður vopn og boðað verði til friðarviðræðna hið skjótasta.

 

Tæknibylting kallar á breytta skatta- og menntastefnu

Samfélag okkar stendur frammi fyrir tæknibyltingu sem mun hafa miklar breytingar í för með sér og eru þær að sumu leyti enn ófyrirséðar. Gervigreind gefur vélum áður óþekkta hæfni til að leysa verkefni og störf sem fólk með háskólamenntun, sérhæfða starfsmenntun og ófaglært sinnir í dag. Mikil tækifæri felast í sjálfvirknivæðingu og gervigreind en einnig ógnir ef ekki er rétt haldið á málum.

Móta verður skattkerfið í takt við þennan nýja veruleika þannig að öruggt verði að hinir ríku verði ekki sá hópur sem nýtur framfara langt umfram aðra.

Menntun leikur lykilhlutverk í undirbúningi þessarar framtíðar. Gæðamenntun fyrir alla sem tekur mið af þörfum, áhuga og hæfileikum hvers og eins er hryggjarstykkið í framsækinni stefnu jafnaðarmanna, því með jöfnum tækifærum allra barna til menntunar leggjum við grunn að samfélagi þar sem allir fá notið sín, óháð efnahag, uppruna eða félagslegri stöðu. Menntastefna 21. aldarinnar þarf að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun, leggja þarf áherslu á fjölbreytta nýtingu upplýsingatækni og efla list- og verknám til að mæta fjölbreytileika nemendahópsins. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og störf í velferðarþjónustunni.  Þá þarf að efla starfsþróun til að mæta þeim sem þurfa að horfast í augu við breytingar á stöðu sinni vegna nýrra atvinnuhátta.

Með nýrri tækni skapast tækifæri til þess að auka verðmætasköpun, ná betri árangri en áður í umhverfisvernd og baráttunni gegn hlýnun jarðar.

 

Sveitarstjórnarkosningnar í vor

Sveitarstjórnir gegna sífellt stærra og mikilvægara hlutverki. Reynslan sýnir að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri er hún.  En það er ekki endalaust hægt að flytja verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi og á þessu er því miður brotalöm. Meðal brýnustu verkefna Alþingis er að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum stærri hlut til að standa straum af vaxandi kostnaði við rekstur almannaþjónustunnar.

Í sveitarstjórnum verðum við að finna áherslu okkar á menntun, umhverfismál og öfluga félags- og nærþjónustu farveg. Sem dæmi þá hefur Reykjavík gjörbreyst á okkar vakt og Reykjavíkurlistans. Reykjavík hefur gjörbreyst, í nútímalega borg sem veitir góða þjónustu og leggur áherslu á mannréttindi, kvenfrelsi, menntun og menningu. Þar hefur þétting byggðar skipt miklu og Borgarlína mun reka smiðshöggið á. Borgin er orðin fallegri, heilsusamlegri og loks eru þessi áform mikilvægt innlegg í baráttu þjóðarinnar gegn loftslagsvandanum.

Það er því mikilvægt að okkur vegni vel út um allt land í kosningum í vor. Í þeim kappleik munu takast á framtíðin og fortíðin, jafnaðarmenn sem vilja tryggja framgang nauðsynlegra umbótamála og öfl afturhalds sem munu standa í vegi fyrir breytingum.

Breytum rétt – veljum spennandi framtíð undir forystu jafnaðarmanna!

Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks
 • Geðheilbrigði ungs fólks í algeran forgang
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!

Fyrir síðustu kosningar var lofað stórauknum framlögum til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu þá að setja þessi mál í algeran forgang – en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, hafnar niðurskurðar- og einkavæðingar- stefnu núverandi stjórnarflokka og ætlar á komandi kjörtímabili og í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum beita sér af alefli fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þessi verkefni eru brýnust:

 • Eflum opinbera gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og höfnum einkavæðingu
 • Tryggjum grunnstoðirnar og eflum heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu
 • Geðheilbrigði ungs fólks fái sérstakan forgang með andlegri og líkamlegri heilsueflingu í leik-, grunn- og framhaldsskólum
 • Eflum sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum og í skólum – 100 nýir sálfræðingar um allt land
 • Lækkum strax greiðsluþátttöku sjúklinga
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi
 • Ljúkum uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut

Látum hjartað ráða för!

Kjósum öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla!