Yfirlýsing vegna brottvísana barna á flótta

Yfirlýsing frá Samfylkingunni:

Samfylkingin fordæmir ómannúðleg vinnubrögð í útlendingamálum á Íslandi og krefst þess að stöðvuð verði brottvísun þeirra barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og nú stendur til að senda úr landi. Þá gagnrýnir Samfylkingin harðlega þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt á útlendingalögum og þrengja að réttindum fólks sem sækir hér um skjól – og auðvelda jafnvel brottvísanir til landa eins og Grikklands.

Talsvert fleiri börnum er vísað úr landi en fá hér alþjóðlega vernd. Á síðustu fimm árum hefur 317 börnum verið neitað um alþjóðlega vernd og vísað burt. Sumum jafnvel fylgdarlausum og börnum sem hafa fest hér rætur. Bara á þessu ári hefur 75 börnum verið neitað um vernd. Meðal þeirra eru Mahdi, Ali, Zainab og Amir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu.

Það er pólitísk ákvörðun að grípa ekki í taumana og koma í veg fyrir brottvísanir sem þessar – ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar.

Samfylkingin skorar á ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að endurskoða útlendingalög og framkvæmd þeirra frá grunni, með sérstöku tilliti til barna og fólks í viðkvæmri stöðu – og tryggi að mál þeirra séu skoðuð efnislega og einstaklingsbundið. Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að hætta að skýla sér á bak við Dyflinnarreglugerðina og annað alþjóðlegt samstarf við framfylgd harðlínustefnu í útlendingamálum.

Stjórn Samfylkingarinnar

 

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir ASÍ

Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér yfirlýsingu um stuðning við skattahugmyndir ASÍ.

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir Alþýðusambands Íslands, enda eru þær í takti við stefnu flokksins. Þingflokkurinn hvetur til þess að unnið verði eftir þessum hugmyndum við útfærslu breytinga á skattkerfinu. Með því mun draga úr ójöfnuði á Íslandi og allt samfélagið mun hagnast af réttlátara skattkerfi, lægri húsnæðiskostnaði almennings og stuðningi við ungar barnafjölskyldur.

Á undanförnum árum hafa þeir efnameiri hagnast á breytingum á skattkerfinu sem hafa að sama skapi bitnað á launafólki með lágar- og meðaltekjur. Þúsundum saman hafa fjölskyldur dottið út úr barna- og vaxtabótakerfinu á síðastliðnum sex árum. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur undir þá kröfu ASÍ að þessari þróun verði snúið við.

Við útfærslu slíkra hugmynda væri hægt að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og tryggja að 95% launafólks standi betur en áður.

Samfylkingin styður Öryrkjabandalag Íslands

Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin gefi þegar í stað út yfirlýsingu um til hvaða ráðstafana verði gripið til að leiðrétta þær búsetuskerðingar sem öryrkjar hafa ranglega orðið fyrir um margra ára skeið. Óljós og misvísandi skilaboð Tryggingastofnunar annars vegar og ráðherra hins vegar eru með öllu óboðleg. Skerðingarnar hafa bitnað harkalega á yfir 1000 öryrkjum í landinu og er krafa okkar að ranglætið verði stöðvað og hafist handa þegar í stað við leiðréttingar.

Samfylkingin fordæmir aðskilnað barna og foreldra við landamæri Bandaríkjanna

Þingflokkur og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þann 20.06.2018.

Samfylkingin fordæmir harðlega það framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs og krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.

Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólítískum deilum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er ekki nóg með að brotið sé á umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna með því að hneppa þá í varðhald – heldur eru börn þeirra einnig tekin af þeim og jafnvel komið fyrir í ómannúðlegum geymslum án umönnunar til lengri tíma.

Allt að 2700 fjölskyldur hafa þegar verið aðskildar með þessum hætti.

Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar beðið um fund í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag, og mun þar bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Samfylkingin lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af þeirri vegferð sem Bandaríkjaforseti fetar á alþjóðavettvangi. Bandaríkin hafa að undanförnu sagt sig úr Parísarsáttmálanum, Íran-samkomulaginu og nú síðast Mannréttindaráði SÞ. Bandaríkin eru þar að auki eina ríki Sameinuðu Þjóðanna sem hefur ekki fullgilt Barnasáttmálann.

Ísland á að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum og mannúðlegri mótttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við eigum að vera staðfastir talsmenn verndar barna á flótta og taka afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi,útlendingahatri og mismunun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Sveitarstjórnarkosningar 2018 – yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs

 

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands samþykkt á landsfundi 2018

Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings. Styðja þarf betur við bakið á barnafjölskyldum, hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi kost á leikskólaþjónustu. Við ætlum að auka stuðning við öryrkja og aldraða, sem margir hverjir búa við skammarlegar aðstæður og afnema krónu á móti krónu skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Við viljum auka húsnæðisstuðning bæði til þeirra sem leigja á gróðadrifnum leigumarkaði og þeirra sem eiga húsnæði en glíma við alltof háa vexti og verðtryggingu. Byggja þarf strax þúsundir leiguíbúða í félögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.

Alltof margir á Íslandi búa við kröpp kjör. Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang óttast barnafólk, eldri borgarar, öryrkjar og sjúklingar um afkomu sína um hver mánaðamót.

Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að þúsundir barna búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum og vaxandi hópur hefur ekki efni á að leita sér lækninga.

Hvert barn sem býr við skort er einu barni of mikið. Í jafn ríku þjóðfélagi og Íslandi á enginn að þurfa að búa í fátækt.

Forsenda öflugs velferðarkerfis er kröftugt og frjálst atvinnulíf sem byggir á nýsköpun og góðri menntun. Atvinnulífið þarf að búa við öruggt rekstrarumhverfi og stöðugun gjaldmiðil.

 

Sterkari Samfylking forsenda framfara

Frá því Samfylkingin fór úr ríkisstjórn hefur verið rekin hægri stefna sem gagnast best þeim sem mest hafa milli handanna. Sterkari Samfylking er nauðsynleg til þess að knýja í gegn löngu tímabærar samfélagsbreytingar þar sem almannahagur er í senn hreyfiafl og lokatakmark. Í haust svöruðum við kalli um meiri mannúð í útlendingamálum og unnum þar áfangasigur þó ýmis verk séu enn óunnin í þeim málaflokki.

Því miður hefur ekki tekist að mynda meirihluta á þingi sem hreyfir sig í takt við nýja strauma þó að almenningur hafi ítrekað lýst vilja sínum til breytinga:

 • Eftir kosningarnar í haust var hægt að mynda meirihluta á þingi um aukin jöfnuð og betri lífskjör almennings – samt er áfram rekin hægri stefna sem ógnar félagslegum og efnahagslegum stöðugleika
 • Eftir kosningar 2016 var hægt að mynda frjálslyndan meirihluta um betri samskipti við Evrópu, réttláta gjaldtöku í sjávarútvegi og landbúnaðarkerfi sem gagnaðist neytendum og bændum – samt var umbótum frestað
 • Árið 2012 greiddi meirihluti þjóðarinnar atkvæði með nýrri stjórnarskrá – samt hefur hún verið svæfð í nefndum

Sérhagsmunir hafa komið í veg fyrir að þessi umbótamál, sem Samfylkingin var stofnuð um hafi orðið að veruleika. Annað mikilvægt leiðarljós í starfi Samfylkingar frá stofnun hafa verið lýðræðisleg, fagleg og gagnsæ vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálamenn þurfa að umgangast þessi gildi af meiri virðingu ef takast á að endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum.

 

Frelsi, jafnrétti og samstaða

Yfirskrift landsfundar í ár er gamalkunnug en með nýrri tilvísun: Frelsi, jafnrétti og samstaða. Gildin úr frönsku byltingunni sem jafnaðarstefnan stendur á eiga enn fullt erindi í íslensk stjórnmál. Við tölum um samstöðu frekar en bræðralag vegna þess að samstaða allra um hagsmuni almennings er nauðsynleg ef mæta á áskorunum framtíðarinnar. Konur sem hafa stigið fram á liðnum mánuðum undir merkjum #METOO eru skýrt dæmi um það hverju samstaða getur skilað.

Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Við viljum virða mannréttindi allra og höfnum alfarið þeirri brotastarfsemi, sem er alltof algeng hér á landi þegar fólki eru borguð laun undir lágmarkslaunum og brotið á öðrum réttindum þeirra. Félagsleg undirboð bitna ekki bara á þeim sem verða beint fyrir brotunum heldur grafa þau undan störfum þeirra sem fá eðlileg laun fyrir sína vinna og þeim atvinnurekendum sem fara eftir reglum. Jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að bæta þjónustu við börn og fullorðna með annað móðurmál en íslensku því samfélag með jöfnuði verður ekki byggt án þess að búa vel að þeim sem hafa flust hingað til lands eða eiga rætur að rekja til annarra þjóða.

Hin „gleymda“ styrjöld í Jemen geisar sem aldrei fyrr og hefur valdið neyðarástandi í landinu. Íslendingar hafa komið við sögu þessara þjáninga með því að leyfa vopnaflutninga til eins helsta stríðsaðilans. Um leið og Samfylkingin harmar þær stjórnvaldsaðgerðir telur hún fulla ástæðu til að íslensk stjórnvöld veki á alþjóðavettvangi athygli á neyðinni í Jemen, hvetja til þess að allir aðilar máls leggi niður vopn og boðað verði til friðarviðræðna hið skjótasta.

 

Tæknibylting kallar á breytta skatta- og menntastefnu

Samfélag okkar stendur frammi fyrir tæknibyltingu sem mun hafa miklar breytingar í för með sér og eru þær að sumu leyti enn ófyrirséðar. Gervigreind gefur vélum áður óþekkta hæfni til að leysa verkefni og störf sem fólk með háskólamenntun, sérhæfða starfsmenntun og ófaglært sinnir í dag. Mikil tækifæri felast í sjálfvirknivæðingu og gervigreind en einnig ógnir ef ekki er rétt haldið á málum.

Móta verður skattkerfið í takt við þennan nýja veruleika þannig að öruggt verði að hinir ríku verði ekki sá hópur sem nýtur framfara langt umfram aðra.

Menntun leikur lykilhlutverk í undirbúningi þessarar framtíðar. Gæðamenntun fyrir alla sem tekur mið af þörfum, áhuga og hæfileikum hvers og eins er hryggjarstykkið í framsækinni stefnu jafnaðarmanna, því með jöfnum tækifærum allra barna til menntunar leggjum við grunn að samfélagi þar sem allir fá notið sín, óháð efnahag, uppruna eða félagslegri stöðu. Menntastefna 21. aldarinnar þarf að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun, leggja þarf áherslu á fjölbreytta nýtingu upplýsingatækni og efla list- og verknám til að mæta fjölbreytileika nemendahópsins. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og störf í velferðarþjónustunni.  Þá þarf að efla starfsþróun til að mæta þeim sem þurfa að horfast í augu við breytingar á stöðu sinni vegna nýrra atvinnuhátta.

Með nýrri tækni skapast tækifæri til þess að auka verðmætasköpun, ná betri árangri en áður í umhverfisvernd og baráttunni gegn hlýnun jarðar.

 

Sveitarstjórnarkosningnar í vor

Sveitarstjórnir gegna sífellt stærra og mikilvægara hlutverki. Reynslan sýnir að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri er hún.  En það er ekki endalaust hægt að flytja verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi og á þessu er því miður brotalöm. Meðal brýnustu verkefna Alþingis er að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum stærri hlut til að standa straum af vaxandi kostnaði við rekstur almannaþjónustunnar.

Í sveitarstjórnum verðum við að finna áherslu okkar á menntun, umhverfismál og öfluga félags- og nærþjónustu farveg. Sem dæmi þá hefur Reykjavík gjörbreyst á okkar vakt og Reykjavíkurlistans. Reykjavík hefur gjörbreyst, í nútímalega borg sem veitir góða þjónustu og leggur áherslu á mannréttindi, kvenfrelsi, menntun og menningu. Þar hefur þétting byggðar skipt miklu og Borgarlína mun reka smiðshöggið á. Borgin er orðin fallegri, heilsusamlegri og loks eru þessi áform mikilvægt innlegg í baráttu þjóðarinnar gegn loftslagsvandanum.

Það er því mikilvægt að okkur vegni vel út um allt land í kosningum í vor. Í þeim kappleik munu takast á framtíðin og fortíðin, jafnaðarmenn sem vilja tryggja framgang nauðsynlegra umbótamála og öfl afturhalds sem munu standa í vegi fyrir breytingum.

Breytum rétt – veljum spennandi framtíð undir forystu jafnaðarmanna!

Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla

 • Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks
 • Geðheilbrigði ungs fólks í algeran forgang
 • Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!

Fyrir síðustu kosningar var lofað stórauknum framlögum til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu þá að setja þessi mál í algeran forgang – en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, hafnar niðurskurðar- og einkavæðingar- stefnu núverandi stjórnarflokka og ætlar á komandi kjörtímabili og í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum beita sér af alefli fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þessi verkefni eru brýnust:

 • Eflum opinbera gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og höfnum einkavæðingu
 • Tryggjum grunnstoðirnar og eflum heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu
 • Geðheilbrigði ungs fólks fái sérstakan forgang með andlegri og líkamlegri heilsueflingu í leik-, grunn- og framhaldsskólum
 • Eflum sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum og í skólum – 100 nýir sálfræðingar um allt land
 • Lækkum strax greiðsluþátttöku sjúklinga
 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi
 • Ljúkum uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut

Látum hjartað ráða för!

Kjósum öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla!

Milljarður á ári í stórsókn gegn ofbeldi

Samfylkingin ætlar að ráðast í stórsókn gegn ofbeldi. Við höfum ákveðið að setja einn milljarð króna árlega inn í þetta verkefni.

Hvað ætlum við að gera?

1. Efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega.

Við ætlum í fyrsta lagi að efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti eitt hundrað löggur svo vel eigi að vera. Skortur á faglærðum lögregluþjónum er allsstaðar um landið og kemur það auðvitað niður á því starfi sem þar er unnið. Þetta kemur harkalega niður á meðferð kynferðis-, heimilis- og annarra ofbeldisbrota enda bitnar þetta á rannsóknum og meðferð mála. Það gengur ekki að brotaþolar sem og gerendur þurfi að bíða í 2 – 3 ár eftir niðurstöðu mála. Þetta fælir brotaþola frá því að kæra og rannsóknir verða einfaldlega ekki eins góðar.

2. Markviss vinna er varðar forvarnir og fræðslu

Í öðru lagi ætlum við að fara í markvissa vinnu er varðar forvarnir og fræðslu. Ekki enn eitt átakið sem lifir í mánuð heldur fókuserað starf sem sett er inn í allar menntastofnanir, öll skólastigin. Þar eru hvort tveggja gerendur og brotaþolar í nútíð og framtíð sem þurfa að læra það frá fyrsta degi að ofbeldi drepur. Langtímaverkefni er málið – setja þetta inn í alla samfélagsfræðslu og það með markvissum hætti.

3. Samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.

Í þriðja lagi verður farið í átak til að samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala er sífellt í þróun og að bæta þjónustu sína en betur má ef duga skal. Það þarf að samræma móttöku og meðferð mála um allt land og á sumum stöðum erum við áratugum á eftir þegar kemur að utanumhaldi þessara mála.

Látum hjartað ráða för – Ályktun flokksstjórnarfundar

Ályktun flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands
Hótel Natura, Reykjavík, 6. október 2017

Íslendingar ganga til kosninga í skugga spilltrar stjórnmálamenningar þar sem upplýsingum er haldið frá almenningi, ójöfnuður fer hratt vaxandi og hagsmunir hinna ríku ráða för á kostnað almannahagsmuna. Samfylkingin var stofnuð til þess að breyta stöðnuðu stjórnmálakerfi og jafna leikinn í þágu þeirra sem minna bera úr býtum. Það er grundvallarstefna jafnaðarmanna að allir njóti  góðs af auðlindum landsins og efnahagslegum uppgangi. Samfylkingin ætlar sér að skapa nýtt, betra og réttlátara samfélag.

Á komandi kjörtímabili leggur Samfylkingin megináherslu á þessi grundvallaratriði:

Betri lífskjör og aukinn jöfnuður

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sínu um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort.. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

 • Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
 • Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
 • Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
 • Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
 • Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

Við stöndum við stóru orðin í heilbrigðismálum

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. . Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

 • Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum höfuðáherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.
 • Lækkum heilbrigðiskostnað fólks verulega og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu.
 • Ráðumst í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.

Sókn í menntamálum

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

 • Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
 • Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
 • Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
 • Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.

Meiri mannúð og jafnrétti

 • Ráðumst í átak gegn ofbeldi.
 • Tökum á móti fleiri flóttamönnum og vöndum móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.

Samgöngur og umhverfi sem bæta lífsgæði

 • Stóraukum fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar.
 • Tökum markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
 • Flýtum orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Treystum þjóðinni
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir. Óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.

 • Vinnum af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu

Jafnaðarmönnum er best treystandi til að hrinda þessum réttlætismálum í framkvæmd. Við ætlum að reka öfluga gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu, stuðla að byggingu þúsunda íbúða, fjármagna kröftuga byggðastefnu og fara í menntasókn sem leggur grunn að því að lífskjör hér á landi verði áfram í fremstu röð. Við ætlum að hlúa betur að börnum og barnafjölskyldum, vinna gegn fátækt og sjá til þess að allir fái notið þeirra gæða sem við búum við. Látum hjartað ráða för.

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands