Almennar fréttir

Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin lagði í dag fram 10 breytingatillögur við fjármálaáætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni.

Samfylkingin telur að ríkisstjórnin taki skref aftur á bak með breytingartillögum við eigin fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin ætlar að láta þá hópa sem sátu eftir í uppsveiflunni taka höggið af niðursveiflunni; öryrkja, námsmenn, aldraða og fjölskyldur með lágar- eða meðaltekjur.

Breytingar á fjármálastefnu er alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Stefnan átti að duga í fimm ár en hún lifði í rétt um eitt ár. Fjármálaráð hefur bent á veikleika í hagstjórn stjórnvalda og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin hefur sömuleiðis varað við óábyrgri hagstjórn og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gera ráð fyrir 14 ára samfleytum hagvexti og óbreyttu gengi næstu fimm ár við áætlanagerð.

Samfylkingin leggur því fram 10 breytingartillögur við fjármálaætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni. Í ljósi þess að Samfylkingin er ekki í ríkisstjórn og leggur því ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim breytingum og aðgerðum sem hún myndi annars leggja fram í 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun.

A. Fjárfestum í framtíðinni:

Ein helsta gagnrýni sem Samfylkingin hefur haft uppi um ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er skortur á framtíðarsýn. Til að íslenskt framtíðarsamfélag verði farsælt verður að horfa lengra fram í tímann en næsta kjörtímabil og fjárfesta í menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum, og setja mun meira fjármagn í baráttuna gegn hamfarahlýnun.

 1. Framlag til loftslagsmála hækki um 8 milljarða kr.Áhersla lögð á grænar fjárfestingar og uppbyggingu umhverfisvænna innviða sem verkar sem innspýting í niðursveiflu.

Hægt er að fjármagna þessa breytingu að mestu leyti með því að fresta lækkun bankaskatts. Um væri að ræða tvöföldun á fjármunum ríkisstjórnarinnar í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

 1. Framlag til framhaldsskóla aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til framhaldsskóla verði dregin til baka og settir verði viðbótarfjármunir til skólanna og fjárfestinga þeim tengdum.

 1. Framlag til háskóla aukist um 1 milljarð kr.
 2. Framlag til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til nýsköpunar verði dregin til baka og fjárfest verði aukalega í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum.

 1. Framlög til húsnæðisstuðnings aukist um 2,5 milljarða kr.

Hér er lagt til að dregin verði til baka fyrirhuguð lækkun ríkisstjórnarinnar til málaflokksins.

B. Verjum velferðina

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að verja velferðina á tímum niðursveiflu í hagkerfinu og hlífa þeim hópum sem hafa setið eftir á hagsældarskeiðinu. Ríkisstjórnin leggur aftur á móti til að framlög til öryrkja taki mestum breytingum milli umræðna, eða um 4,5 milljarða króna. Samfylkingin vill draga þá skerðingu til baka og bæta í, ásamt því að verja sjúkrahúsþjónustuna, aldraða og barnafólk.

 1. Framlag til öryrkja aukist um 5 milljarða króna.

Samfylkingin leggur til að dregin verði til baka sú 4,5 milljarða kr. lækkun á 5 árum sem kemur fram í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og ríflega 4 milljörðum verði bætt við. Það væri tvöföldun á því sem ríkisstjórnin segist ætla að gera.

 1. Framlag til aldraðra aukist um 1 milljarð kr.
 1. Framlög til fæðingarorlofs hækki um 400 m. kr.

Hér er lagt til að tvöfalda það fjármagn sem rennur til fæðingarstyrks sem rennur til fólks utan vinnumarkaðar og/eða í námi

 1. Framlög til barnabóta aukist um 1 milljarð kr.
 2.  Framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu aukist um 1,8 milljarða kr.

Tekjuúrræði til að mæta auknum útgjöldum upp á 23 milljarða kr.:

Samfylkingin leggur til nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið. Áhersla er lögð á að hlífa almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu í niðursveiflunni, en sækja tekjur til útgerðarinnar, stórfyrirtækja og auðmanna.

 1. Auðlindagjöld: Hækkun um 3 milljarða kr.

Veiðileyfagjöld verði aftur jafn há og fyrir lækkun ríkisstjórnarflokkanna

 1. Fjármagnstekjuskattur: Hækkun um 3 milljarða kr. með 2%-stiga hækkun

Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum og yrði það áfram eftir 2%-stiga hækkun.

 1.  Tekjutengdur auðlegðarskattur: 3 milljarðar kr.

Þegar auðlegðarskatturinn var hæstur var hann tæpir 11 milljarðar kr. og því væri um að ræða tæplegan fjórðung af því sem hann var.

 1. Kolefnisgjald: Hækkun um 1 milljarð kr.

Tvöföld hækkun frá því sem ríkisstjórn gerði síðast.

 1. Skattaeftirlit: 5 milljarðar kr.
 2. Frestun á lækkun bankaskatts: 8 milljarðar kr.

 

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

 1. Húsnæðisstuðningur lækkar um 13% næstu fimm árin þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði.
 2.   Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3,2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin, frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar.
 3.   Umhverfismálin lækka um 1 milljarð kr. samanlagt næstu 5 árin frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni í breytingartillögunum við hana.
 4.   Framlag til framhaldsskóla eykst ekki næstu 5 árin þrátt fyrir hina margboðuðu menntasókn og hin mörgu loforð um að styttingarpeningarnir svokölluðu ættu að haldast inni. Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar fá framhaldsskólar 1,2 milljarð kr. lægri upphæð samanlagt næstu 5 árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars sl.
 5.   Háskólastigið án framlaga LÍN mun fá svipaða upphæð 2024 og það fær 2019, þrátt fyrir háfleyg loforð um að það ætti að ná meðaltali Norðurlanda og OECD ríkja.
 6.   Menning, listir, íþróttir- og æskulýðsmál lækka á áætlunartímanum um 7,6% þrátt fyrir augljóst gildi þessa málaflokks.
 7. Löggæsla og réttaröryggi lækkar um 7,7% þrátt fyrir mikla aukningu á ferðamönnum og flóknari verkefnum löggæslunnar.
 8.  Sjúkrahúsþjónusta hækkar í hlutfalli við hækkun á heildarútgjöldum ríkisins næstu fimm árin. Þetta gerist þrátt fyrir ört hækkandi hlutfall aldraðra og mikinn vilja þjóðarinnar til þess að setja stóraukna fjármuni í sjúkrahúsþjónustu. Hins vegar fær sjúkrahúsþjónusta um 2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin í breytingartillögunum, frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Framlög til heilsugæslu og sérfræðiþjónustu lækkar um 1,5 milljarða næstu 5 árin, frá eldri tillögu fjármálaáætlunar í meðförum meirihluta fjárlaganefndar.
 9. Þá lækka fjárframlög til öryrkja næstu 5 árin samanlagt um 4,5 milljarða frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram, fyrir rúmum 2 mánuðum. Öryrkjabandalag Íslands segir að þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna sé „algjörlega óásættanleg og mun engu breyta um kjör fólks sem búið hefur við verulegan skort árum saman“. Þá segir ÖBÍ að öryrkjar séu einnig skildir eftir í svokölluðum lífskjarasamningum.
 10. Aldraðir fá fyrst og fremst aukningu næstu fimm árin vegna fjölgunar í þeim hópi.
 11. Framlög til hjúkrunarþjónustu þ.e. hjúkrunarheimili lækkar næstu 5 árin um 3,3% þrátt fyrir mikla fjölgun á eldri borgurum.
 12. Skerðingar á barnabótum hjá millitekjuhópum hafa verið auknar og ennþá lendir þorri barnafólks í miklum skerðingum barnabóta.
 13. Engin sérstök innspýting er í vaxtabæturnar. Núgildandi fjárlög gera ráð fyrir minni fjármunum í vaxtabætur heldur en áætlað var á síðasta ári.
 14. Samgöngumál lækka um 17% næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf um allt land. Það vekur athygli að samgöngumál í breytingartillögunum 3 milljarð kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.
 15. Þróunarsamvinna lækkar í meðförum fjárlaganefndar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum 2 mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljarð samanlagt næstu fimm árin.
 16. Skattastefna hinna ríku og fáu er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn stendur til að lækka bankaskattinn um tæpa 8 milljarða kr. á ári þegar lækkunin er komin að fullu til framkvæmda. Tekjutap ríkissjóðs á 4 árum verður yfir 18 milljarðar vegna þessarar forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar. Þá stendur enn til að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt á Íslandi af öllum Norðurlöndum og jafnvel vernda ríkustu einstaklinga landsins fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á þeim skatti. Persónuafsláttur verður ennþá lægri en tilefni er til og veiðileyfagjaldið nálgast tóbaksgjaldið í upphæðum og er auðlegðarskattur bannorð hjá þessari ríkisstjórn.
 1. Forsendur fjármálaáætlunarinnar eru afskaplega óraunhæfar. Til dæmis er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm árin sem mun aldrei gerast. Og þá er byggt á forsendum um að hagkerfið taki strax við sér á næsta ári sem er ansi bjartsýn spá. Einnig er gert ráð fyrir lítilli hækkun launa opinberra starfsmanna og að atvinnuleysi og verðbólga verði frekar lág og breytist ekki mjög mikið.

 

 

Þingslályktunartillaga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks samþykkt á Alþingi

Alþingi tók nú í dag risastórt sögulegt skref og samþykkti þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með þessu verður Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og mun það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.

Málið er lagt fram að frumkvæði Samfylkingarinnar en Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrsti flutningsmaður málsins.

Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu hans. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings, sem hefur einungis verið fullgiltur eins og hér hefur verið gert, við íslensk lög víkja ákvæði samningsins.

Einungis þrír meginalþjóðasamningar hafa verið lögfestir á Íslandi og eru það Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall.

 

Helga Vala Helgadóttir í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Helga Vala Helgadóttir tók til máls í þriðju umferð.

Herra forseti

Með leyfi forseta flyt ég ykkur eitt af ljóðum Óskars Árna Óskarssonar, eins af okkar allra bestu skáldum, sem fjallar um það þegar páfinn í róm kom til Reykjavíkur.

Þegar páfinn í Róm kom til Reykjavíkur bauðst borgarbúum

að kyssa fætur hans að gömlum kaþólskum sið. Nokkur biðröð myndaðist á Landakotstúninu þar sem páfi sat í viðhafnarstól í

hvíta silkikyrtlinum sínum og rauðu skónum. Þegar röðin kom að lítilli stúlku sem átti heima á Sólvallagötunni, en langafi hennar var á sínum tíma þekktur hákarlaformaður, gerði hún sér lítið fyrir og beit í stórutána á páfanum. Síðan hefur páfinn í Róm ekki komið til Reykjavíkur.

Hvers vegna datt mér þetta ljóð í hug? Jú, vegna þess að ég sá að hæstvirtur fjármálaráðherra var, ásamt öðrum fjármálaráðherrum Evrópuríkja að ræða við páfann í Róm um loftslagsmál.

Okkur hefur, til þessa dags, þótt mikilvægt að tekið sé mark á okkur í samskiptum við aðrar þjóðir. Við viljum vera virt viðlits, vera tekin alvarlega og álitin sjálfstæð fullvalda þjóð. Við berum með okkur ríkt þjóðarstolt og virðumst sjaldnast stoltari en þegar eftir okkur er tekið á erlendri grundu. Þá fögnum sem eitt og stöndum saman í gleði og hamingju.

En það er nú svo að til þess að eiga heimtingu á að vera tekin alvarlega þurfum við að skoða hvernig við komum fram við aðra, hvaða augum við lítum þá sem við gerum samninga við og göngum til samstarfs með. Getum við vænst virðingar ef okkur er ómögulegt að sýna öðrum hið sama?

Mikið hefur verið rætt um fullveldið að undanförnu og að að því steðji ógn. En hvað er þetta fullveldi? Hugtakið kemur úr þjóðarétti og felst hið ytra fullveldi einmitt í rétti ríkja til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar. Það höfum við gert áratugum saman, allt frá því Ísland varð fullvalda.

Við höfum skuldbundið okkur að þjóðarétti, sem fullvalda ríki af fúsum og frjálsum vilja til að lúta ýmsum reglum. Það gerðum við t.a.m. árið 1953 þegar við gerðumst aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu. Við vorum ekki með því að afsala okkur fullveldi heldur þvert á móti sýna umheiminum, að við værum fullvalda þjóð sem teldum hagsmunum okkar betur borgið meðal annarra þjóða í samvinnu um aukin mannréttindi. Skemmst er að minnast máls Jóns Kristjánssonar sem leiddi til aðskilnaðar framkvæmdavalds og dómsvalds, máls Þorgeirs Þorgeirssonar sem styrkti tjáningarfrelsið, dóma sem opnaði augu stjórnvalda fyrir mikilvægi millidómstigs sem og fjölda annarra mála sem veitt hafa borgurum landsins nauðsynlegan rétt. Sama má segja um EES samstarfið sem án nokkurs vafa hefur aukið hér hagsæld og væri nú ekki úr vegi að leyfa þjóðinni að meta nú af alvöru hvað fælist í fullri aðild að því þjóðarbandalagi sem Evrópusambandið er.

En þegar við erum í viðlíka samstarfi, þá getum við einfaldlega ekki leyft okkur að virða gagnaðila einskis þegar okkur hentar. Hvers virði er slík samvinna ef samstarfsaðilinn byrjar að atyrða mann um leið og hann snýr sér við? Hvaða skilaboð eru það til íslensks almennings að við mætum prúðbúin á fundi um allan heim, heimsækjum erlend fyrirmenni, bjóðum þeim til fundar við okkur hér á landi, en þegar kemur að skuldbindingum íslenska ríkisins innanlands sem erlendis þá hefjist hér fúkyrðaflaumur og vandlætingar um það hvað þetta sé allt ömurlegt og ekki til neins gagns? Hvaða trúverðugleiki er í slíku samstarfi og hvaða sjálfsvirðing? Til hvers að mæta til alþjóðasamstarfs ef við stöndum ekki með því? Er það dæmi um fullvalda ríki sem gengur til samstarfs af fúsum og frjálsum vilja?

Samninga skal halda, um það er ekki deilt. Vilji maður ekki halda samstarfi áfram er það ekki leiðin að brjóta sáttmála og virða samninga að vettugi heldur ber stjórnvöldum, til að halda virðingu ríkisins hvort tveggja heimavið sem og á alþjóðavettvangi, að slíta samvinnu ellegar standa með henni og taka þátt. Við þurfum ekki að óttast ef við af heilindum tökum þátt í samstarfinu.

„Þetta er heimurinn, heimurinn hann er hér, Sumarhús, jörðin mín, það er heimurinn“ sagði Bjartur í Sumarhúsum, maðurinn sem taldi sig vera sjálfstæðasta manninn í landinu. Viljum við vera Bjartur?

 

 

Guðmundur Andri Thorsson í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Guðmundur Andri Thorsson tók til máls í annari umferð.

Virðulegi forseti. „Af jarðarinnar hálfu /  byrja allir dagar fallega … “

Með þessum orðum kvaddi Pétur Gunnarsson sér hljóðs í íslenskum bókmenntum í ljóðabókinni Splunkunýr dagur, og oft hefur manni verið hugsað til þessara fallegu upphafsorða að undanförnu, ekki síst þegar maður hefur verið árrisull og notið sólar og fuglasöngs, gróðurilms og sjávarniðs og annarra dásemda sem jörðin gefur okkur og við göngum út frá sem vísum.

„Af Jarðarinnar hálfu  byrja allir dagar fallega“ en svo fara mennirnir á fætur og mæta til vinnu og fara að róta og grafa og böðlast. Þannig getur þetta ekki gengið lengur, það sjáum við öll. Við vitum að við þurfum að læra að aðlagast lífinu á jörðinni alveg upp á nýtt, temja okkur nýja siði og nýja sýn. Maðurinn verður að hætta að ímynda sér að hann sé herra jarðarinnar og hætta að haga sér sem perri jarðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur vissulega sýnt viðleitni í þessa átt en þó finnst manni að ekki sé gengið nógu ákveðnum skrefum í eina átt. Við getum nefnilega ekki gengið bæði til vinstri og hægri í einu – við förum bara í aðra áttina í senn, eða stöndum í stað. Annaðhvort höfum við íhaldssama og auðhyggjusinnaða hægri stjórn hagsmunagæslunnar eða framsækna og frjálslynda vinstri stjórn sem hefur almannahag að leiðarljósi. Það er ekki hægt að vera hvort tveggja. Í loftslagsmálunum erum við hætt að heyra nefnt árið 2030, rétt eins og það sé löngu liðið, og það er langur vegur frá því að við séum nærri því að uppfylla skuldbindingar okkar í Kyoto-bókuninni.

Við þurfum að fá róttækari og beittari aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en ríkisstjórnin hefur sett fram. Endurheimt votlendis er frábær, og skógrækt þar sem hún á við, en við þurfum að vera miklu markvissari í því að draga úr losun. Við verðum að miða alla mannlega starfsemi við raunverulegan kostnað sem af henni hlýst – fyrir lífið á jörðinni. Við þurfum að gera sáttmála þvert yfir höf og lönd og þá dugir ekki heimsmynd músarholunnar, þrætugirnin og allt fyrir ekkert hugsunin heldur þurfa samfélögin að taka höndum saman. Í þessum málum þurfum við að hætta að hugsa sem Íslendingar og hugsa sem jarðlingar.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem á að taka til allra sviða þjóðlífsins. Græni þráðurinn í tillögunni er sjálfbær þróun, og þá er ekki átt við sjálfbærni sem orðaskraut um rányrkju, heldur orð sem lýsir raunverulegu hringrásarhagkerfi með umhverfistengdri hagstjórn og fjárlagagerð þar sem tekin verða markviss og raunveruleg skref í átt að því að tvö komma fimm prósent af vergri þjóðarframleiðslu renni í aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum, eins og Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna telur nauðsynlegt. Við viljum að markaðurinn sé virkjaður og honum stýrt með hagrænum hvötum og kröfum, framleiðsluferlum sé breytt og neytendur vaktir til vitundar. Við viljum gera breytingar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu; við viljum hraða orkuskiptum, draga úr útstreymi frá mengandi stóriðju og hækka kolefnisgjald og alls staðar hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

Því að „af hálfu jarðarinnar byrja allir dagar fallega, þolinmóð snýst hún og snýst,“ eins og Pétur Gunnarsson lýsir svo fallega í ljóðinu. Við eigum að nýta óendanlegt ríkidæmi hennar með ást og virðingu en ekki af meðvitundarleysi og frekju.

Oddný G. Harðardóttir í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Oddný G. Harðardóttir tók til máls í fyrstu umferð.

Herra forseti góðir landsmenn.

„Við – kynslóðin sem nú lifir og gengur á jörðinni – við erum síðasta kynslóðin sem getur gert eitthvað vegna þeirrar ógnar sem að okkur steðjar. Og þið stjórnmálamenn getið gert það sem gera þarf.“

Þetta sagði Benedikt Erlingsson leikari og leikstjóri þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Kona fer í stríð. Hann hvatti um leið stjórnmálamenn um allan heim til að vera hugrakkari og gefa  svona kosningaloforð:

„Kjósið mig og ég mun sjá til þess að þið fáið minna af næstum öllu. Minna dót, minna af kjöti, færri ferðalög.“

Og til að fá kjósendur til að bíta á agnið ættu stjórnmálamenn að lofa í staðinn meiri menningu og skemmtun, heilbrigðari lífstíl, lengra lífi. Meira af samveru, ljóðum og ást. Tónlist og bókmenntum. Þessi hvatningarorð Benedikts eru ágæt.

Hugrakkir stjórnmálamenn verða að leggja grunn að hagvexti sem er kolefnislaus, styðja umhverfisvæna vinnu sem stoð undir velferðina, vegna þess að hlýnun jarðar er ógn sem verður stöðugt áþreifanlegri og ágengari. Á norðurslóðum eru áhrifin þrisvar sinnum meiri en annars staðar og jöklar bráðna með skelfilegum afleiðingum. Hamfarahlýnun spyr ekki um landamæri og engin þjóð getur lýst yfir hlutleysi í stríðinu við hana.

Stærstu vandamál heimsins verða aðeins leyst með aukinni alþjóðlegri samvinnu, hvort sem þau snúa að baráttunni gegn fátækt, ójöfnuði eða loftslagsvá.

Það þarf kjarkmikla stjórnmálamenn til að leiða róttækar aðgerðir.

Máttleysisleg loftslagsáætlun ríkisstjórnar Íslands fær algjöra falleinkunn.

Þess vegna lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að útbúa grænan samfélagssáttmála sem taki til allra sviða þjóðlífsins. Meginþráður sáttmálans á að verða sjálfbærni og að Ísland verði grænt land, með grænt hagkerfi.

Unga fólkið krefst þess að við stjórnmálamenn leiðum breytingar sem virka. Þeirra er framtíðin – en aðeins ef við stöndum í lappirnar gegn stundargróða og sérhagsmunum og tökum stór græn skref fyrir börnin okkar og barnabörn.

Það er ekki aðeins hamfarahlýnun sem er ógn við framtíð barna á Íslandi. Nýjar tölur frá Rannsókn og greiningu benda til þess að fleiri en 13 þúsund börn verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Sum hver daglega. Afleiðingar þess að verða fyrir ofbeldi sem barn eru margfaldar á við fullorðna.

Ofbeldi gegn börnum fer oftast leynt og stjórnvöld taka þátt í feluleiknum því fullnægjandi eftirlit er ekki til staðar. Það er ekki nóg að skipta nafni húsnæðisráðherra út fyrir barnamálaráðherra eins og gert var á dögunum. Raunverulegra aðgerða er þörf.

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þessu þingi var aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu íslenskra barna. Sérstaklega voru tilgreindar aðgerðir til að vernda börn og ungmenni fyrir vanrækslu, heimilisofbeldi og kynferðisbrotum. Alþingi samþykkti að vísa tillögunni til ríkisstjórnar til frekari vinnslu, sem er vonandi eitthvað skárri niðurstaða en að láta hana sofna í nefnd. Aðgerðirnar eru allar framkvæmanlegar og snúa að barnavernd, lögreglu og heilsugæslu, virku samstarfi þar á milli og greiðari leiðum fyrir almenning og skóla til að tilkynna grun um ofbeldi gegn barni.

Því miður gætir sinnuleysis stjórnvalda um málefni barna víðar því skortur er á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga sem orðið hefur til þess að mörg þeirra eru án skýrra úrræða og illvirðráðanlegir fylgikvillar ná að myndast. Allt of mörg börn bíða greiningar og hjálpar.

Og það eru fleiri látnir bíða. Verkalýðsfélög náðu með kröfum sínum fram kauphækkunum en einnig loforðum stjórnvalda um skattkerfisbreytingu, hærri barnabótum og lausnum í húsnæðismálum, í svokölluðum lífskjarasamningum, sem reyndar er allt of stórt orð fyrir þá samninga.

Loforðin eru flest óútfærð en skilaboðin til aldraðra og öryrkja eru skýr. Þau skulu bíða til áramóta eftir hærri greiðslum. Í þeirra hópi er fátækasta fólkið á Íslandi sem þarf að láta sér nægja rúmar 200 þúsund krónur á mánuði. Og ég minni á að öll önnur norræn ríki gera meira en ríkisstjórn Íslands til að auka jöfnuð. Samfylkingin hefur lagt til að lífeyrir hækki í takti við lágmarkslaun og skorar á stjórnvöld um leið að draga úr tekjuskerðingum.

Þessa dagana bíða mörg þingmál afgreiðslu og umræður síðustu daga og nætur hafa sýnt mjög greinilega nauðsyn á auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem meiri hluti þjóðarinnar hefur lengi kallað eftir.

Og á meðal þingmála sem bíða er mál Samfylkingarinnar um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Við munum ekki fara í sumarfrí án þeirrar réttarbótar fyrir fatlaða Íslendinga.

Við bíðum enn á síðustu dögum þingsins eftir nýrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og  breyttri áætlun í ríkisfjármálum þar sem brugðist er við verri hagspá, samdrætti í ferðaþjónustu og loðnubresti.

Ekki er við þingið að sakast að fjármálaráðherrann hefur ekki kynnt nýja stefnu heldur vandræðagang ríkisstjórnarinnar sem fékk stjórnarmeirihlutann til að samþykkja algjörlega óraunhæfa fjármálastefnu fyrir rúmu ári síðan. Samfylkingin gagnrýndi þá stefnu harðlega en ríkisstjórnin hlustaði ekki á varnaðarorðin. En látum það nú vera þótt stjórnarliðar fari ekki að ráðum okkar jafnaðarmanna. Þau hunsuðu líka gagnrýni fjármálaráðs sem benti þeim á með skýrum orðum, að með stefnunni væri ríkisstjórnin að sníða sér spennitreyju í ríkisfjármálum og þau yrðu annaðhvort að skera niður útgjöld eða hækka skatta í niðursveiflunni.

Ríkisstjórn – sem hvorki getur komið sér saman um niðurskurð eða tekjuöflun – grípur til þess ráðs að leggja fram nýja stefnu og fer um leið gegn lögum um opinber fjármál.

Óábyrg stefna í ríkisfjármálum bitnar alltaf á almenningi sem ber kostnaðinn af gjörðum stjórnmálamanna sem eru ekki færir um að horfa út fyrir kjörtímabilið, en marka stefnu sem heldur ekki vatni og er óframkvæmanleg nokkrum mánuðum eftir samþykkt hennar.

Forsætisráðherra kallaði nýlega eftir því í erlendu riti, að framsæknar hreyfingar og vinstriflokkar í Evrópu sameinist og myndi fjölþjóðlega fylkingu um róttækar lausnir. Að á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójafnaðar þyrfti að marka djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.

Ég tek undir með ráðherranum en skilaboðin hafa holan hljóm þegar þau koma frá stjórnmálamanni sem segir eitt í útlöndum en gerir annað á heimavelli. Sem leiðir ríkisstjórn gömlu valda og íhaldsflokkanna og styður fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórn sem vill hvorki leggja á sanngjörn auðlindagjöld né láta auðmenn greiða sinn réttláta skerf til velferðarinnar. Ríkisstjórn stöðnunar og óréttlætis.

Góðar stundir.

Samfylkingin leggur fram Grænan samfélagssáttmála

Á næstu fimm til tíu árum mun ráðast hvort hægt verður að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum eða fást við skelfilegar afleiðingar þeirra. Þótt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sé ágætt fyrsta skref í þeirri baráttu gengur hún of skammt og of litlu fjármagni er þar varið í loftslagsaðgerðir. Ísland getur orðið fyrirmynd annarra þjóða í loftslagsmálum – og því hefur Samfylkingin lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem tekur til allra sviða þjóðlífs. Meginþráðurinn í allri stefnumótun sáttmálans verður sjálfbær þróun – að Ísland verði grænt land með hringrásarhagkerfi. Í sáttmálanum felst:

 • Grundvallarstefnumótun sem mun krefjast breytinga á samfélagsskipan til framtíðar, en í því felast bæði áskoranir og tækifæri.
 • Samráð við almenning, vísinda- og fræðasamfélagið og atvinnulífið strax frá upphafi sem hefst á sérstökum þjóðfundi um Græna Ísland. Komið verði á fót sérstökum samráðsvettvangi og samtakamátturinn þannig virkjaður til að gera Ísland að sjálfbærri þjóð með grænt hagkerfi.
 • Endurskoðun og útvíkkun aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og fjármálaáætlun með það að markmiði að aðgerðir hins opinbera byggi á sjálfbærri þróun (í nýtingu auðlinda og allri umgengni við náttúruna, við opinberar fjárfestingar og framkvæmdir og lagasetningu).
 • Tekin verði upp umhverfistengd hagstjórn og fjárlagagerð.
 • Tekin verði markviss skref í átt að því að 2,5% af vergri landsframleiðslu renni í aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum líkt og Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsmál telur nauðsynlegt.
 • Stefnt sé að því að íslenskt hagkerfi verði raunverulegt hringrásarhagkerfi þar sem öll framleiðsla er hugsuð með hringrás efna í huga.
 • Markaðnum sé stýrt með hagrænum hvötum og kröfum, framleiðsluferlum breytt og stuðlað að vitundarvakningu neytenda.
 • Breytingar verði gerðar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
 • Aðgerðum við orkuskipti í vegasamgöngum verði flýtt, nýskráningar bensín- og dísilbíla bannaðar fyrr en áætlað er og uppbyggingu hraðað á nauðsynlegum samgönguinnviðum til að gera þéttbýli og borgarumhverfi vistvænna.
 • Dregið verði verulega úr útstreymi frá stóriðju og kolefnisgjald hækkað
 • Grænar rannsóknir og nýsköpun efldar
 • Lagaumgjörð mótuð um hvað teljist græn og sjálfbær fjárfesting.
 • Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir skuldbindi sig til að fjárfestingar þeirra standist markmið Parísarsáttmálans.
 • Íslenskt hagkerfi byggist í auknum mæli á hugviti til að skapa verðmæti – og í því augnamiði verði menntun aukin og nýsköpun efld.

Hérna er tillagan í heild: https://www.althingi.is/altext/149/s/1534.html

 

 

 

 

 

 

 

Áhugaverðir fundir hjá Samfylkingunni

Samfylkingarfélögin hafa verið öflug undanfarnar vikur og haldið áhugaverða fundi.

Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur og umsjónarmaður þáttarins „Hvað höfum við gert“ á RÚV mætti á sameiginlegan fund Kópavogs og Hafnarfjarðarfélaganna um loftslagsvandann og fór yfir leiðir  sem samfélagið, ekki síst sveitarfélögin, geta horft til í baráttunni gegn þessari miklu vá. Fundurinn var einkar vel sóttur og er hægt að horfa á upptöku af honum hér

Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum um þessar mundir, meðal annars vegna styrkingar krónunnar síðustu ár, samdráttar í ferðaþjónustu, aflabresti og gjaldþrotum. Samfylkingarfélagið í Reykjavík boðaði til fundar á Bryggjunni Brugghús þar sem farið var yfir þessar áskoarnir.

– Katrín Ólafsdóttir vinnumarkaðshagfræðingur og nefndarkona í peningamálastefnunefnd Seðlabanka Íslands var með erindið: „Krónan: Lítil og fljótandi“.
– Bolli Héðinsson,hagfræðingur og stundakennari við HR var með erindið „Það er svo gott að hafa krónuna“
– Vilhjálmur Þorsteinsson frumkvöðull og fjárfestir var með erindið „#blessuðkrónan: Meintir kostir og raunverulegir gallar.“

Má draga saman þá niðurstöðu að íslenska krónan eigi stóran þátt í stöðu dagsins í dag og aðstæður í hagkerfinu væru aðrar nyti krónunnar ekki við. Það var greinilegur vilji fundargesta og frummælenda að stefna að upptöku Evru.  „Eitt stærsta hagsmunamál heimilanna er að taka upp evru og þar með ganga í ESB“ (Vilhjálmur Þorsteinsson.)

  

 

 

 

 

Íhaldssöm fjármálastefna ógnar stöðugleika

Efnahagslegar forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar eru brostnar áður en hún kemur til umræðu á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur komið þjóðarbúinu í spennitreyju sem mun bitna á ungu fólki, fólki með lágar- og millitekjur, öryrkjum, eldri borgurum og á þeim sem þurfa helst á þjónustu ríkisins að halda. Forsendur áætlunarinnar eru óraunsæjar og augljóst er að bregðast verður við með niðurskurði eða tekjuöflun vegna þeirrar fjármálastefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér. Fjármálaráð, ASÍ og fleiri hafa gagnrýnt stefnuna harðlega.

Í ljósi kólnunar í hagkerfinu setur ríkið fram 2% aðhaldskröfu á flest málefnasvið hins opinbera, það bætist ofan á óumflýjanlegan niðurskurð ef kjarasamningar ríkisstarfsmanna leiða til meira en 0,5% launahækkana umfram verðlag.

Fjármálaráðherra hefur sagt að ef hagvöxtur verði minni en forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir, sjái hann enga aðra möguleika en að skera niður á útgjaldahliðinni. Óvissa í flugrekstri, loðnubrestur og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar geta orðið til þess að niðursveiflan dýpki enn frekar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðursveiflu í hagkerfinu er birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu og mun bitna á þeim sem síst skildi. 

Samfylkingin telur að breyta ætti fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar svo að svigrúm skapist til að minnka skaða niðursveiflunnar. Þannig væri hægt að liðka fyrir kjarasamningum með skattkerfisbreytingum, fjárfestingum í innviðum til að létta undir með verst stöddu hópunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tryggja velferðina í landinu. Það er í niðursveiflunni sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar fer að bíta. Þá reynir á viðbrögð stjórnvalda. Hvort þau hafa hag þeirra sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda fremstan eða hvort draumur Sjálfstæðismanna um minni ríkisumsvif og aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu fáist uppfylltur í gegnum þrengingar þjóðarinnar.

Fjármálaætlunin vinnur hvorki gegn ójöfnuði né tryggir hún stöðugleika. Á næstu vikum munu þingmenn rýna áætlunina frekar, lesa þær umsagnir sem berast og ræða hana á Alþingi. Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögur fyrir afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar. 

Helsta gagnrýni Samfylkingarinnar:

 • Viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneytin er laumað inn í fjármálaáætlun þannig að ef launabætur ríkisstarfsmanna á árunum 2020-2022 verði hærri en  0,5% umfram verðlag þá þurfa ráðuneyti að skera niður fyrir þeim kostnaði. Þetta gætu orðið verulegar upphæðir t.d. innan  heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis.
 • Stóru kvennastéttirnar eiga skv. áætlun ekki að hækka umfram 3,8% í launum á milli áranna 2019 og 2020 en ef svo verður þá þurfi þeir sem njóta þjónustu þeirra að bera kostnaðinn með skertri þjónustu eða kvennastéttirnar með auknu álagi.
 • Enn eru tekjustofnar ríkissjóðs veiktir. Á síðastliðnum uppgangsárum hafa tekjustofnar ríkisins markvisst verið veiktir með afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og neysluskatta ásamt því að stjórnvöld sóttu ekki tekjur til ferðaþjónustunnar á meðan vel áraði.
 • Framlög í húsnæðisstuðning munu lækka næstu fimm árin.
 • Ríkisstjórnin sýnir ekki nægilega mikinn metnað í loftslagsmálum, bregðast verður hraðar við því neyðarástandi sem blasir við okkur.
 • Framlög í menningar- og æskulýðsmál munu lækka næstu fimm árin.
 • Útgjöld til háskólastigsins lækka úr 46,8 milljörðum niður í 43,2 milljarða.
 • Engin áform eru um frekari umbætur á barnabótakerfinu og áfram er markmið stjórnvalda að barnabótakerfið sé eins konar fátækrastyrkur í stað almenns stuðnings við barnafjölskyldur. Í ár fá 13.000 færri fjölskyldur barnabætur en árið 2013.
 • Afnám kr. móti kr. skerðinga öryrkja er ófjármagnað. Lífeyrir hjá fólki í sambúð nær ekki lágmarkslaunum.
 • Fram koma í áætluninni óljósar og loðnar áætlanir hins opinbera til að auka svigrúm til fjárfestinga í innviðum. Þar er gefið í skyn að það eigi að selja bankana og hluti ríkisins í fyrirtækjum til að fjármagna innviðauppbyggingu án þess að það sé útfært frekar.
 • Skerða á framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, um þrjá milljarða. Hlutverk jöfnunarsjóðs er að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk og nauðsynlega þjónustu sveitarfélaga sem búa við veikan fjárhag.

 

Ræða Loga á Flokksstjórnarfundi

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Bifröst

Ræða formanns

 

Lífið er dásamlega flókið og samfélag mannanna hefur þróast út frá staðháttum og gjöfum jarðar. Með mögnuðu hugviti höfum við snúið mörgu af því sem áður voru ógnir í tækifæri – en þessi ofurfærni hefur þó leitt til  þess að við ofbeitum jörðina. Örlög lífs á jörðinni mun ráðast af því hvort   við snúum taflinu við. Þetta er megin verkefni stjórnmála dagsins.

Stundum freistast fólk til að útskýra lífið á einfaldan, grípandi hátt. Þannig hafði sögupersónan Forrest Gump eftir mömmu sinni að lífið væri eins og konfektkassi – þú vissir aldrei hvað þú fengir.

En þó líf einstaklingsins sé að einhverju leiti háð duttlungum tilverunnar höfum við þróað samfélög sem eiga að skapa þeim sem fá síðri mola,  tækifæri. Smæð Íslands, fólksfæð og nálægðin, knýr á að við vinnum saman, hjálpum hvert öðru – við megum ekki una ógæfu einstaklings og horfa bara á heildina.

En ef fólk hefur einhverja þörf fyrir einfalda myndlíkingu sem lýsir gangverki samfélagsins, mundi ég segja að það líktist reiðhjólaferð.

Til að halda góðu jafnvægi þarftu að vera á hæfilegri ferð – Of mikill hraði veldur því að þú missir stjórn, ef það hægir of á þér verður erfiðara að halda jafnvægi og stoppirðu – missirðu jafnvægið og dettur.

Sé ekki nægilegt loft í dekkjunum er ill mögulegt að taka af stað og mikið erfiðara að komast á áfangastað.

Ég freistast til þess teikna upp þessa myndlíkingu því helsti hægri stjórnmálaflokkur landsins talar gjarnan um stöðugleika og jafnvægi.

Við þurfum hins vegar ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggir á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings heldur jafnvægi hinum megin.

Þá byggir stöðugleiki flokksins á íhaldssemi og kyrrstöðu. Og stöðnuðum samfélögum vegnar ekki vel til lengdar.

 

Við þurfum framþróun og sókn sem byggir á almennri þáttöku fólks og hún næst ekki nema allir búi við sómasamleg lífskjör. Fyrir utan mannvirðinguna sem í því felst hefur fámennt samfélag ekki efni á öðru en veita öllum  tækifæri á að þroska styrkleika sína og örva þá til þess. Annað er ótrúleg    sóun verðmæta.

Ástæða þess að börn sem alast upp á efnameiri heimilum eru líklegri til að vera með háar tekjur síðar á ævinni og skýringin á því að færri konur sitja í stjórn fyrirtækja hefur ekkert með upplag einstaklingsins að gera, heldur samfélagsgerð sem byggir ekki á nægjanlega miklu jafnrétti og réttlæti.

Þó staðreyndin sé ef til vill sú að við fæðumst með merkilega þróaðan persónuleika ræður umbúnaðurinn fram á fullorðinsár hvernig við náum að spila úr honum.

____________________________________________________ Núverandi ríkisstjórn gefur ekki góð fyrirheit um gifturíkt ferðalag.

Kjörtímabilið er ekki hálfnað og við stöndum andspænis flókinni vinnudeilu

og erfiðri stöðu efnahagsmála.

Stöðugur vinnumarkaður endurspeglast í stórum og smáum  fyrirtækjum, sem búa við öruggt rekstrarumhverfi, heilbrigða samkeppni og geta borgað starfsfólki góð laun.

Fólk á lægri tekjum naut síður efnahagsbata síðustu ára, ekki síst vegna þess að stjórnvöld grófu ýmist kerfisbundið undan velferðarkerfinu og innviðum eða létu hvort tveggja drabbast niður með vanrækslu, í góðæri.

Flestir íbúar hafa sem betur fer gott, a.m.k. bærilegt en hér er þó fjöldi fólks sem líður skort, lifir í sífelldum kvíða, nær ekki að veita börnum sínum   sömu lífsjör og skólafélögunum. Einstaklingar sem eru villtir í frumskógi kerfisins eða hafa leiðst út í fikniefnaneyslu. Hér búa ungmenni sem hafa enga stefnu, hafa steitt á vegg og íhuga eða taka jafnvel eigið líf. Það er komið tími til að forgangsraða í þágu allra þessa – það er skynsamleg og siðleg fjárfesting.

Talsmenn launþegahreyfingarinnar og reyndar einnig atvinnulífsins hafa margsinnis bent á að það er fleira en launahækkanir sem tryggja góð lífsskilyrði: Réttlátt skattkerfi, almennari barna- og húsnæðisbætur,

 

gjaldfrjáls almannaþjónusta en ekki síst öruggur húsnæðismarkaður. Þetta er samhljóða hugmyndafræði Samfylkingarinnar sem margoft hefur lagt fram tlillögur í þessa átt.

Í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum vöktum við sérstaka athygli á því að næstu ríkisstjórn yrði að mynda um almenna lífskjarasókn – ella skapaðist erfið staða á vinnumarkaði. Það er nú komið á daginn. – Vinstri-græn og Framsókn völdu aðra samstarfsaðila og því situr ríkisstjórn Sjálftstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Samfylkingin hefur veitt ríkisstjórninni stíft aðhald og lagt áherslu á almennar lífkjarabætur.

Tillögur um – málefni ungs fólks, húsnæðismál, framlög til háskóla, nýsköpunar og rannsókna, lengra fæðingarorlof, bætta heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu, réttindi aldraða, öryrkja, hinsegin fólks og innflytjenda, umhverfisvernd og sjálfbærni. Ásamt fjölbreyttum skattatillögum sem miðar að því að jafna byrðar.

Lítið hefur verið gert með þær og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur meira segja gortað sig af að hafa fellt þær allar – kannski með velþóknun VG.

Staðreyndin er sú að byrðar lág- og meðaltekjufólks á Íslandi hafa aukist  meira en í samanburðarlöndum okkar og langt umfram skatta á hæstu launin. Nýlegt skattaútspil ríkisstjórnarinnar ber þess skýr merki að ekki eru áform  um að ráðast gegn þeim órétti.

Skattabreyting sem skilar ráðherra sömu krónutölu og þernu  á  hóteli  var blaut tuska í andlitið á launafólki. Sem var fylgt eftir með kaldri gusu þegar í ljós kom að frysta ætti persónuafslátt samhliða, sem gera skattalækkunina líklega að engu. Millitekjuhópunum var gefið langt nef og skerðast  barnabætur þeirra skarpar en áður og vaxtabótakerfið er nánast sagnfræði.

Með veikari krónu, hærri vöxtum og verðlagi gæti almenningur á endanum staðið uppi með kjararýrnun.

 

Það væri freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um en hægri stefnan virðist dafna ágætlega undir verndarvæng gamla góða Framsóknarflokksins og forsæti Vinstri-grænna. Sú harka sem nú er á vinnumarkaði er í boði ríkisstjórnar sem neitar að horfast í augu við það að hér búa hópar fólks; bótaþegar, lág- og meðaltekjufólk, námsmenn, við aðstæður sem ekki eru bjóðandi í ríku landi.

 

Afleiðingar vanrækslu síðustu ára hefur leitt til félagslegs óstöðugleika og fullkomin afneitun núverandi ríkisstjórnar gæti hugsanlega leitt til þess að atvinnulífið taki allan skellinn til að brúa það sem ríkisstjórnin hefur hunsað.

 

Það er óforskammað að stilla hlutunum þannig upp að launafólk kalli hamfarir yfir samfélagið, með því að beita verkföllum. Ábyrgð á slæmri stöðu láglaunafólks liggur annars staðar – m.a. hjá stjórnvöldum sem hafa leyft ójöfnuði að grassera og holað að innan velferðarkerfið.

 

Í umræðum við varaformann Sjálfstæðisflokksins sagði ég að fólk lifði ekki   í meðaltölum; hún svaraði að það borðaði heldur ekki háa vexti og  verðbætur. Það er sannarlega rétt en í orðunum felst bein hótun í garð láglaunafólks – haldið ykkur á mottunni!.

 

Ráðherra hefði verið nær að beita sér fyrir endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins, sem flokkur hennar lagði niður, auka aftur barna- og vaxtarbætur, sem flokkur hennar lækkaði, setja aftur á hátekju- og auðlegðarskatt, sem flokkur hennar aflagði. – Búa þannig um hnútana að fólk hefði ekki þurft tugprósenta hækkun launa.

 

Varaformaðurinn mætti líka horfa til leiðar út úr íslensku hávaxtaumhverfi með stöðugri mynt í stað þess að stunda eilífar hrossa og smáskammtalækningar.

 

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn leikur lausum hala í efnahaglífinu er svo beinlínis raunarlegt að horfa á Vinstri græn kyngja hverju málinu á fætur öðru, sem þau áður töluðu gegn:

 

Áframhaldandi hvalveiðum, Grimmari útlendingastefnu Rýmri rétt til hatursorðræðu

Óréttlátu skattkerfi.

Það sem stjórnarflokkarnir hafa þó verið samstíga um er íhalds- og afturhaldsemi. – Varðstöðu um krónuna og gamaldags atvinnupólitík.

 

Ég hélt í einfeldni minni að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn væru eðlisólíkir flokkar en líklega hef ég haft fullkomlega rangt fyrir mér. Og leiðtogi sósíalista sem dásamar skattbreytingu sem færir forstjóranum sömu krónutölu og þernu, vegna þess að þernan hafi fengið hlutfallslega meira, hefur líklega villst talsvert af leið. Forsætisráðherra, til upplýsingar kostar  dós af grænum baunum jafn þernuna jafnmikið og forstjórann – en reyndar hlutfallslega meira af kaupinu hennar.

Við þurfum nýja forystu sem áttar sig á því að sómasamleg lífskjör allra er forsenda þeirrar sóknar sem íslenskt samfélag verður að  ráðast  í  til  að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar á tímum miklla breytinga. En hefur jafnframt framsýni til að fjárfesta í þeim þáttum sem eru líklegastar eru til að skila okkur þangað.

——————————————–

Samkvæmt nýjustu spám mun stór hluti allra starfa hverfa á næstu áratugum og önnur ný verða til. Þetta mun leiða til meiri framleiðni, gæti minnkað vistspor og dregið úr fátækt – ef vel er á spilum haldið. En getur líka leitt til hörmunga ef auðurinn fær óheftur að safnast hjá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum – ójöfnuður aukist og samneyslan veikist.

 

Við getum og eigum ekki að reyna að stöðva þróun tækninnar en það þarf kjark og framsýni til þes að tryggja að hún verði til góðs og nýtist heildinni.

 

Besti undirbúningur okkar undir slíka framtíð er fjárfesting í menntun

 

Við verðum að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar og ungu fólki það góð skilyrði að því finnist eftirsóknarvert að sækja sér menntun; áhugavert og raunhæft að starfa hér í framtíðinni og ala upp börnin sín. Sú staðreynd  að það sé nánast óhugsandi að stunda hér nám án þess að eiga efnaða foreldra eða vinna með námi sýnir að eitthvað stórkostlegt er að. Það að meira en helmingur íslenskra nemenda á Norðurlöndunum velji nú að taka lán í námslandinu er áfellisdómur yfir LÍN.

 

Í betur fjármögnuðum skólum þurfum við að laða fram og styrkja eiginleika eins og hugmyndaflug, sköpunarkraft og frumkvæði. Leggja aukna áherslu á raun- og tæknigreinar en líka listir og menningu. Og á tímum örra tækniframfara þar sem siðvitið dregst sífellt aftur úr tækninni verður að   leggja meiri áherslu á almenn gildi.

 

Framsýn stjórnvöld stuðla að jöfnum tækifærum fólks í atvinnulífinu. Við munum ekki geta staðið undir betra velferðarkerfi samfara breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar nema með kröftugum fyrirtækjum, með mikla framleiðni, sem eru drifin áfram af áræðnum, framtakssömum og hugvitssömum einstaklingum. Það þarf því að stuðla að heilbrigðri samkeppni; auka fjölbreytni, eyða fákeppni og hvetja til aukinnar umhverfisvitundar.

 

Stundum er talað eins og atvinnulífið sé ein skepna, en staðreyndin er sú að meginþorri allra fyrirtækja eru lítil og meðalsmá. Rekin af harðduglegu fólki sem stjórnast af athafnaþrá, hugmyndaauðgi og  oft  af  hugsjónum  fyrir faginu og nærsamfélaginu. Það verður að auðvelda starfsemi þeirra með því

t.d. að lagfæra regluverk, hvetja og aðstoða þau við nýsköpun.

 

Þá ættum  við   að byggja enn meir hugviti í stað einfaldrar framleiðslu. Það  er líklegt til að byggja upp atvinnulíf sem rís undir hærri launum. Við höfum sýnt að t.d. á sviði vísinda, gervigreindar, hönnunar og lista getum við náð langt og skapað mikil verðmæti.

 

Einföld yfirlýsing um þetta væri að afnema þak á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði strax! – Þessu þarf svo að fylgja eftir með markvissri áætlun um upptöku stöðugri myntar – fátt mundi búa atvinnulífi framtíðar öruggari skilyrði.

 

 

En þó við verðum að byggja meira á hugviti og tækni megum við ekki vanrækja hefðbundnar framleiðslugreinar og í þessu tvennu felst aldeilis engin mótsögn.

 

Það er einmitt gleðilegt hvað sjávarútvegurinn hefur náð að margfalda verðmætasköpun með nýtingu tækni. – Bætt aðbúnað og öryggi starfsfólks og mörg hver nokkuð framsækin í umhverfismálum.

 

Við deilum ekki við forsvarsmenn greinarinnar um mikilvægi sjávarútvegs og viljum tryggja henni stöðugan rekstrargrundvöll, en við erum ósammála þeim um hvernig stjórn greinarinnar er best háttað. Við viljum virða jafnræðissjónarmið, mikilvægi nýliðunar og teljum rétt að greinin sjálf ákvarði gjald til þjóðarinnar, með samkeppni sín á milli. Þannig fær þjóðin sanngjarnan arð af takmarkaðri auðlind, sem er í eigu hennar. Þetta tryggir öruggan rekstrargrundvöll, greinin kemur með ábyrgum hætti að uppbyggingu samfélagsins og nær meiri sátt við þjóðina.

 

Landbúnaður hefur átt erfiðar uppdráttar. Þessi mikilvæga atvinnugrein skapar þúsundir starfa um allt land, er órofinn hluti menningar okkar og sér okkur fyrir nauðsynlegum matvælum. Landbúnaður hefur auk þess burði til þess að verða öflugur bandamaður í loftlagsmálum.

 

Það er því mikilvægt að þessi grein geti dafnað en til þess þurfa fleiri sem í henni starfa að svara kalli tímans. Nýjar neysluvenjur, tíðarandi og lífsýn fólks kalla á sífellda vöruþróun og framleiðsluhætti sem styðja þau.

Auðvitað skiptir máli að neytendur njóti fyllsta öryggis og viti um gæði og uppruna vöru en það verður að ætlast til þess að hræðsluáróður sé ekki notaður til að reisa viðskiptamúra, jafnvel þvert á hagsmuni neytenda.

Grænmetis- og ostaframleiður hafa sýnt að bændur geta og kunna að bregðast við innflutningi með gæðum og fjölbreyttari valkostum.

 

Samfylkingin vill styðja ríkulega við þróun greinarinnar en leggur áherslu á að stuðningur taki í auknum mæli mið af umhverfisþáttum, búsetu, menningu, nýsköpun og vöruþróun sem drifin er áfram af heiðarlegri samkeppni. Bændur þurfa svo líka að fá sómasamleg laun fyrir vinnu sína, það fá þeir ekki í núverandi kerfi.

 

Vel menntað og ánægt starfsfólk er besta tryggingin fyrir góðu rekstrarhæfi fyrirtækja framtíðarinnar ásamt stöðugleika sem fylgir stærri gjaldmiðli.

Forsenda stuðnings stjórnvalda við atvinnugreinar verður svo að byggja á virðingu þeirra fyrir umhverfinu og þau leggi sitt af mörkum við að koma okkur úr þeirri hrikalegu stöðu lífríkisins, sem rányrkja og subbuskapur og ofneysla mannsins hefur komið okkur í.

 

Ungt fólk hefur undanfarna föstudaga minnt á þessa stöðu Austurvelli og krefjast markvissari aðgerða gegn hnattrænni hlýnun. Í gær var fyrsta alþjóðlega loftslagsverkfallið haldið og milljónir ungmenna  í  hundrað löndum slepptu skólabókunum og streymdu út á göturnar. Ungt fólk er orðið þreytt á töfum, jafnvel afneitun stjórnvalda, um allan heim og hefur ákveðið að taka málin í sínar hendur.

 

Nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum sýna að hlýnun  jarðar er miklu hraðari  en áður var talið og afleiðingar hennar alvarlegri. Næstu fimm til tíu ár verða afgerandi fyrir mannkynið. Ef við snúum ekki við blaðinu horfumst við í   augu við hamfarir á innan við tuttugu árum. Staðreyndin er sú að á hverju ári er ágengni okkar gagnvart náttúrunni meiri en árið á undan. Við erum ekki eingöngu að ávísa vandamálunum á barnabörnin okkar, ef ekkert er að gert, ekki bara á börnin okkar heldur marga hér inni.

Ábyrgðin er okkar, það þýðir ekki að benda á arfleifð fortíðarinnar – það eru aðgerðirnar – eða aðgerðarleysið – núna sem verða afgerandi.

Íslendingar losa tvöfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en aðrir Evrópubúar. Tvöfalt. Fjórtán tonn á hvern íbúa á ári, aðgerðir þurfa því að vera róttækar.

Við þurfum víðtækan grænan samfélagssáttmála sem felur í sér gjörbreytta hegðun og stefnu í umhverfismálum. Stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar þurfa að koma sér saman um rótttækar aðgerðir. Samfylkingin mun leggja fram tillögur að slíku sem byggja á samráði við helstu fræði- og vísindamenn, atvinnulífið, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga. Við getum einnig byggt á fyrri vinnu okkar góðu félaga, s.s. Fagra Ísland og Græna hagkerfið.

Aðgerðaráætlun núverandi stjórnvalda í  loftslagsmálum  er  nauðsynlegt fyrsta skref – en hún gengur allt of skammt. Samkvæmt henni náum við ekki einu sinni að uppfylla markmið Parísarsáttmálans innan tímamarka.

Orkuskipti einkabílsins er nauðsynleg en ekki lausn á öllu eins og stundum kann að virðast á umræðunni. Við þurfum að venja okkur við að nota hann minna, búa nær hvert öðru, búa minna og neyta minna. Samhliða framlagi einstaklingsins þarf að samþætta aðgerðir alla stefnumótun – ekki bara hjá hinu opinbera heldur í einkageiranum líka.

 

Það krefst fjárfestinga og fórna. En með slíku samkomulagi getum við skapað betri störf í nýju,og grænna hagkerfi. Lítum því á þetta sem sóknarfæri til að blása nýju, fersku lífi í atvinnulífið.

Semjum um breytingar á skattkerfinu, samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu allt með sjálfbærni í huga. Eflum rannsóknir og nýsköpun til muna, virkjum hugvitið og verðum fyrirmyndir í baráttunni gegn hlýnun jarðar á alþjóðavettvangi. Við  getum  þetta  en þurfum bara að þora og vilja.

——————————————————————–

Baráttan gegn hlýnun jarðar hefst heldur ekki nema með nánari alþjóðlegrar samvinnu.

Það eru til þeir sem telja að veröldin snúist eingöngu um eigin túnfót og telja að hægt sé að verja hagsmuni sína, sjálfsákvörðunarrétt og fullveldið með    því að reisa bara hærri girðingar umhverfis  hann.  Samfylkingin  telur  að slíkir hagsmunir verði best tryggðir í miklu meira samstarfi við aðrar þjóðir.

 

Og ég er orðin hundleiður á því að stundum virðist öll umræða um fjölþjóða samvinnu snúast um beinhörð viðskipti. Hvað ég fæ útúr þessu. Bestu samningarnir eru þó þeir sem allir aðila hagnast á. Gott dæmi um slíkt er   EES samningurinn sem hefur skilað okkur mikilli hagsæld –Ég er   sannfærður um að upptaka Evru með góðum inngöngusamningi við Evrópusambandið yrði enn eitt gæfuspor í sögu þjóðarinnar.

 

Alþjóðleg samvinna verður þó líka að hvíla á félagslegum, heimspekilegum og menningarlegum grunni. Við eigum að binda trúss okkar við þjóðir sem standa fyrir gildum eins og virðingu og samhjálp og ábyrgð og vinna með þeim að betri heimi. Við getum ekki horft upp á neikvæða þróun þar sem sífellt er þrengt að viðkvæmum hópum sem hingað leita. Gleymum heldur ekki að þeir 38.000 útlendingar sem hér vinna léku lykilhlutverk við að   koma Íslandi aftur á lappir eftir hrun.

 

Við megum ekki leyfa ótta, hatri og jafnvel ofbeldi að grassera. Íslendingum sem ríkri þjóð ber siðferðileg skylda til að taka vel á móti fólki sem hingað leitar út af neyð – og gleymum því ekki að það er ekki svo langt síðan að við vorum í sömu stöðu. Þá þurfum við að hækka framlög til þróunarsamvinnu.

 

Íslendingar eru nefnilega ekki eyland, jafnvel þó Íslands sé eyland.

 

——————————————————————–

Það kann að virka nokkuð bratt að segja, nú þegar blikur eru í lofti í efnahagsmálum, að við ætlum að koma landinu á meiri hreyfingu. En með því að virkja þá þætti sem eru forsenda þess, getum við það. Ég nefni: Sómasamleg laun, jafnrétti, menntun, nýsköpun, stöðugri gjaldmiðill og aukin samskipti við útlönd.

Í næstu kosningum mun valið standa á milli stefnu sem byggir á íhaldssemi og stöðugleika hinnar óbreyttu skiptingar gæða eða framsækni, frumkvæði og stöðugleika sem byggir á jafnara samfélagi þar sem allir hafa betri tækifæri.

Leið Samfylkingarinnar er að byggja  upp  samkeppnishæft velferðarþjóðfélag að norrænni fyrirmynd. Þar sem umhverfi barnafólks er hagfellt, fæðingarorlof lengra, húsnæðismarkaður stöðugri og matarkarfan ódýrari. Þar sem jöfn tækifæri eru til náms og mannauður og hugvit samfélagsins nýtist sem best í grænu hagkerfi. Þar sem barist er gegn hvers konar mismunun, þátttaka og velferð innflytjenda er tryggð og tekið er vel á móti fólki á flótta. – Áskorarnir eru miklar og það er ekki hægt að mæta    þeim öllum á stuttum tíma. En við fyrsta skrefið er að snúa skútunni frá  hægri og taka nýjan réttari kúrs.

Við lifum á tímum þar sem stjórnmálafólk verður að vera hugrakkt, með  skýra framtíðarsýn en líka vera meðvitað um dagleg vandamál fólks. Ég finn til mikillar ábyrgðar, því ég veit að væntingarnar eru miklar til okkar í Samfylkingunni. En ég er líka sannfærður um að við getum risið undir þeim.

 

Við ætlum okkur að vera stór flokkur sem rúmar alls konar fólk með fjölbreyttan bakrunn og skoðanir, enda byggi þær á jafnaðarhugsjóninni.

Hreyfiafl flokksins á alltaf að vera bætt velferð og jöfn tækifæri fyri alla. Temjum okkur framsýni, frjálslyndi, samábyrgð – leitum af svörum við vandamálum samtímans sem leiða til réttlátara og gróskumeira samfélags í framtíðinni.

 

Traustir sameiginlegir innviðir eru uppistaðan að sterku og léttu stelli,

Velmenntuð þjóð sem býr við sómasamleg kjör tryggir nægt loft í dekkin,

Kraftmikið atvinnulíf, byggt nýsköpun, drífur áfram grænan, umhverfisvænan hjólhestinn,

og á hnakknum, með stöðugar hendur á stýri, situr ábyrgur jafnaðarflokkur.

Ályktanir á flokksstjórnarfundi

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram á laugardaginn á Bifröst, um 150 jafnaðarmenn af öllu landinu tóku þátt í fundinum. Flokksfélagar voru  virkir í undirbúningi flokksstjórnarfundar og fyrir fundinn lágu 11 ályktanir. Fjórar ályktanir voru samþykktar og sjö vísað til málefnanefndar eða stjórnar flokksins.

Tillögur sem hlutu samþykki:

Ályktun 9.1. Loftslagsmál 

„Nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum sýna að næstu fimm til tíu ár skipta öllu máli fyrir mannkynið. Á þessum árum mun ráðast hvort við náum að stemma stigu við hlýnun jarðar eða fást við skelfilegar afleiðingar. Flokksstjórn Samfylkingarinnar krefst þess að stjórnvöld ráðist í metnaðarfyllri aðgerðir gegn hlýnun jarðar og tekur undir kröfu ungmenna um allan heim að 2,5% af þjóðarframleiðslu renni beint í slíkar aðgerðir. Flokksstjórn telur ennfremur nauðsynlegt að hækka kolefnisgjaldið og felur þingflokki Samfylkingarinnar að leggja fram frumvarp þess efnis. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári, til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Evrópusambandið áætlar að 25% af fjármagni stofnunarinnar verði varið í loftslagsmál til ársins 2027.“

Ályktun 11.1. Störf án staðsetningar 

„Það er réttlætismál að fólk eigi kost á að sinna ríkisstörfum þótt það búi á landsbyggðinni og það er einnig réttlætismál að fólk geti valið sér búsetu á landsbyggðinni þótt það vinni hjá ríkinu. Þann 1. Janúar 2018 bjuggu 64% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu en þar eru um 70% ríkisstarfa staðsett. Hér hallar því á landsbyggðina. Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktar að opinber störf á vegum ríkisins skuli ávallt vera án staðsetningar, nema aðstæður krefjist annars.“

Ályktun 3.1.  ESB

„Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fagnar 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem var mikið heillaskref fyrir Íslendinga. Vissulega gefur samningurinn Íslendingum ekki færi á að hafa umtalsverð áhrif á stofnanir, löggjöf og þróun Evrópusambandsins. Slíkt fæst ekki nema með fullri aðild að Evrópusambandinu. Í ljósi hinnar góðu reynslu af samstarfinu innan EES telur Samfylkingin að mikilvægt sé að það skref sé stigið sem fyrst svo Íslendingar öðlist áhrif á þróun evrópsks samfélags til jafns við þorra annarra Evrópubúa“

Ályktun 5.1. Þróunarsamvinna

„Samfylkingin mun því næst þegar hún er í ríkisstjórn hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu til jafns við það sem gerist á öðrum Norðurlöndunum eða í kringum 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT). Árið 2017 námu framlögin 0,31% af VÞT og stefna núverandi ríkisstjórnarinnar um að hækka framlögin upp í 0,35 lýsir í raun metnaðarleysi að mati Samfylkingarinnar. Á þessum sviðum eru tröllauknar áskoranir. Því er lágmarkskrafa að ríkt land á borð við Ísland geri sitt ítrasta í þessum efnum og að því mun Samfylkingin vinna, hvort sem hún er í stjórn eða stjórnarandstöðu.“

Eftirfarandi ályktanir var vísað til stjórnar eða málefnanefndar sem taka ályktun til meðferðar:

Ályktun 1.1. Kjaradómur

Ályktun 4.1. LÍN

Ályktun 5.1. Þróunarsamvinna

Ályktun 6.1. Tekjutengd sektarupphæð

Ályktun 7.1. Bónusgreiðslur

Ályktun 8.1. Klemmudagakerfi

Ályktun 10.1. Árskort frádráttarbær