Almennar fréttir

Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun 13 breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 upp á 20 milljarða. Tillögur Samfylkingarinnar eru að öllu leyti fjármagnaðar.

Fjárlagafrumvarpið opinberar vanmátt ríkisstjórnarinnar til að takast á við ójöfnuð annars vegar og framtíðina hins vegar. Félagslegir innviðir samfélagsins eru vanræktir, heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar fá raunlækkanir og barnafólk og örykjar skildir eftir. Í stað þess að styrkja tekjustofna í efnahagsuppgangi og búa í haginn er nú gerð aðhaldskrafa á opinbera grunnþjónustu. Samfylkingin lýsir þar að auki yfir vonbrigðum með metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en einungis 2% af fjárlögum er ráðstafað í umhverfismál.

„Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þau sem standa höllum fæti“ – Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

 

Framtíðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og loftslagsbreytinga.

 1.     Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: 4 milljarðar
 2.     Menntun: 3 milljarðar
 3. Háskólar (m.a. HÍ, LHÍ, HR, Bifröst og HA) 2 milljarðar.
 4. Framhaldsskólar 1 milljarður.
 5.     Rannsóknir og þróun: 1 milljarður
  1. Áhersla á Tækniþróunarsjóð, Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð.
 1.     Nýsköpun og skapandi greinar: 1 milljarður
  1. Endurgreiðsla rannsóknar og þróunarkostnaðar fyrirtækja um 700 milljónir.
 2. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar um 300 milljónir.
 3.     Almenningssamgöngur: 1 milljarður

Velferðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að verja velferðina.

 1.     Barnafjölskyldur: 2 milljarðar kr.
  1. Helmingi meiri aukning í barnabætur.
  2. Lengingu fæðingarorlofs flýtt.
 2.     Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri: 2 milljarðar kr.
 3.     Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni: 600 milljónir
 4.     Hjúkrunarheimili: 800 milljónir kr.
 5.   Málefni aldraðra: 2 milljarðar
 6.   Málefni öryrkja: 2 milljarðar
  1. Þessi upphæð er tvöfalt hærri en sú viðbót sem ríkisstjórnin ver til öryrkja.
 7.   Löggæsla: 400 milljónir
  1. Þessi upphæð er sama upphæð og fyrirhugaður niðurskurður ríkisstjórnarinnar til almennrar löggæslu.
 8.   Framlög til SÁÁ: 200 milljónir
  1.      Til að eyða biðlistum sem hafa aldrei verið lengri.

Tillögurnar, sem telja 20 milljarða kr. breytingu, yrðu fjármagnaðar m.a. með auknum tekjum af fiskveiðiauðlindinni (4ma), tekjutengdum auðlegðarskatti (6ma), kolefnisgjaldi (1ma), hækkun fjármagnstekjuskatts (4ma) og skattaeftirliti (5ma).

 

 

 

Hlustaðu á upplýsandi nýja hlaðvarðsþætti um mál í brennidepli

Við kynnum með stolti Stjórnmálaspjallið, nýja hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Óskars Steins Jónínusonar Ómarssonar, varaforseta Ungra jafnaðarmanna.

Í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins ræðir Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson við Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um málefni hælisleitenda og útlendinga. Helga Vala hefur sterkar skoðanir og víðtæka þekkingu á málefninu, en hún starfaði m.a. sem lögmaður fyrir hælisleitendur áður en hún tók sæti á Alþingi.

Hér má hlusta á þáttinn, en hann er einnig kominn á Spotify.

 

Stjórnmálaspjallið:
hælisleitendur og útlendingar

Meðferð stjórnvalda á albanskri konu sem vísað var úr landi í síðustu viku stangast á við fjölda laga og alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins.

 

Hugsum smátt-fyrst

Smiðurinn – saumakonan – gistihúsaeigandinn – forritarinn – múrarinn og listamaðurinn.

Kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf er grunnurinn að góðri og öflugri almannaþjónustu, sem við reiðum okkur á allt lífið. Það vill alltof oft gleymast að langflest þessara fyrirtækja eru agnarlítil og rekin af harðduglegu fólki sem rekst áfram af áhuga á starfinu, hugsar fyrst og fremst um að skapa sjálfu sér og öðrum atvinnu en heldur í leiðinni uppi nærþjónustu um allt land.

Við sjáum þetta fólk allt í kringum okkur. Oft lætur það eigin laun sitja á hakanum til að ná að borga starfsmönnum sínum, veðsetur jafnvel persónulegar eigur til að halda rekstrinum gangandi og er með kvíða um mörg mánaðamót. Mörg geta ekki leyft sér að taka eðlilegt sumarfrí, nema endrum og sinnum. Við höfum ekki lagt nóga rækt við að búa þessum fyrirtækjum góð skilyrði. Megináherslur stjórnmálanna hafa snúist of mikið um stórfyrirtækin, stórkarlalega uppbyggingu og rekstrarumhverfi þeirra.

Samt skila ör- og smáfyrirtæki stórum hluta vergrar landsframleiðslu. Í ýmsum Evrópuríkjum er unnið út frá þumalputtareglunni „think small first“, það er að segja „hugsum smátt, fyrst“. Við alla mótun og ákvarðanir sem snúa að atvinnulífinu, ekki síst lög og reglugerðir, eru þarfir lítilla fyrirtækja hafðar að leiðarljósi. Þetta er hugsun sem við ættum að tileinka okkur í ríkara mæli hér á Íslandi líka. Einhæft atvinnulíf felur í sér of stóra áhættu, ekki síst fyrir lítið land en það er auk þess síður til þess fallið að mæta þeim væntingum sem ungt fólk gerir til lífsins í dag. Það mun bera uppi lífskjör okkar næstu áratugina og við verðum að búa svo um hnútana að það telji eftirsóknarvert að starfa hér, í samtíma þar sem það getur valið nánast allan heiminn til búsetu.

Við þurfum því að skjóta sterkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf. Annars vegar verðum við að bæta skilyrði þessara örfyrirtækja, sem ætla sér ekkert endilega að stækka en eru þó hjarta allra bæja og gera þá byggilega. Hins vegar þurfum við að auka veg nýsköpunarfyrirtækjanna, sem byggja oft á hugviti, eru oft metnaðarfull og vilja stækka. Þau hafa reynst hinum hefðbundnari atvinnugreinum ómetanleg í sókn þeirra til meiri verðmætasköpunar en geta líka með nýrri tækni horft á allan heiminn sem markað sinn. Þessi fyrirtæki þurfa að verða stærri þáttur í atvinnulífi okkar til framtíðar.

Þess vegna hef ég, ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja. Þar ber helst að nefna aukna lækkun tryggingagjalds, sérstaklega á lítil fyrirtæki, einfaldara og skýrara regluverk og sérstakan stuðning við fyrirtæki sem byggja á hugviti.

Við eigum að hugsa smátt – fyrst.

Logi Einarsson

Greinin birtis í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. nóvember. 

Samfylkingin tekur forystu í loftslagsmálum

Gert er ráð fyrir að dregið sé úr losun gróðurhúslofttegunda um 55% árið 2030, notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt árið 2030, sérstakt embætti loftslagsráðherra verði sett og 2,5% af vergri landsframleiðsu til loftslagsaðgerða. Þetta er meðal sem fram kemur í ályktun um aðgerðir við loftslagsvá, sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, 19. október í Austurbæ í Reykjavík. Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og formaður málefnanefndar flokksins um umhverfismál, kynnti ályktunina á fundinum. Hún segir að með samþykkt hennar sé Samfylkingin orðin leiðandi í umhverfismálum hér á landi og hafi lýst sig reiðubúna að taka við leiðtogahlutverki flokkanna þeim samfélagsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað vegna loftslagsváinnar sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Stefna Samfylkingarinnar um Sjálfbært Ísland er róttækasta stefna sem sett hefur verið fram í loftslagsmálum í dag,“ segir Eva.

Eva segir einnig að þótt stefnan sé róttækari en það sem áður hefur þekkst meðal stjórnmálaflokka á Íslandi, sé  hún er heildræn og raunhæf. Þá sé hún einnig í samræmi við það sem önnur lönd í kringum okkur hafi þegar lagt til, svo sem Danmörk og Þýskaland.

Um stefnuna og aðgerðir má lesa hér auk meðfylgjandi skjals.

Ályktun-loftslagsmál-haust2019v

Loftslagsmál og kjaramál í forgrunni á flokksstjórnarfundi

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram í Austurbæ í dag. Hátt í 200 jafnaðarmenn af öllu landinu tóku þátt. Fjórar ályktanir voru lagðar fyrir fundinn. Þar af voru þrjár ályktanir samþykktar og einni vísað til málefnanefnda flokksins til frekari vinnslu. Þar má nefna metnaðarfulla ályktun um aðgerðir í loftslagsmálum og einnig lýsir flokksstjórn stuðningi við kjarabaráttu opinbera starfsmanna og styður kröfu þeirra um styttingu vinnuvikunnar. Þá var gerð breyting á skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista.

Tillögur sem hlutu samþykki:

Ályktun um loftslagsmál

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar tekur undir kröfur skipuleggjenda loftslagsverkfallanna og skorar á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og ráðist í aðgerðir af þeirri stærðargráðu að dregið verði úr losun gróðurhúslofttegunda um a.m.k. 55% fyrir árið 2030. Ísland setji stefnuna til framtíðar á að verða grænt velsældarhagkerfi með jöfnuð að leiðarljósi

Ályktunin felur í sér í 18 aðgerðir þar sem t.d er lagt til að sett verði metnaðarfyllri markmið um kolefnishlutleysi og þau fest í lög, útfösun jarðefnaeldsneytis verði tímasett og lagt er til að vinnuvikan verði stytt í þágu loftslags og sérstakt embætti loftslagsráðherra verði komið á fót.

Ályktun um jöfnuð og kjaramál

Í hálfa öld hefur vinnuvikan miðast við 40 stundir. Það er löngu tímabært að stíga nauðsynleg skref í átt til fjölskylduvænna samfélags með því að fækka vinnustundum launafólks hér á landi. Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar tekur heils hugar undir kröfur BSRB og BHM um styttingu vinnuvikunnar.

 

Ályktun um skipan rannsóknarnefndar

Flokksstjórn Samfylkingarinnar krefst þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd um rannsóknaraðferðir og meðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla á fyrrum dómþolum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Það er nauðsynlegt fyrir trúverðugleika réttarríkisins og traust til stjórnvalda til framtíðar að slík rannsókn fari fram.

Samþykkt breytingartillaga:

Breytingatillögur á skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista

„Breytingartillaga á skuldbindandi reglum flokksstjórnar um aðferðir við val á framboðslista, sem í stuttu máli snýst um að breyta kynjakvótaákvæðum sem gilda um uppstillingu framboðslista okkar í kvennakvóta. Það er að segja, að fáist þessi breyting samþykkt, mun körlum ekki lengur lyft upp um sæti vegna ákvæða um kynjakvóta, aðeins konum.“ Þetta er meðal þess sem kom fram i ræðu Þórarins Snorra Sigurgeirssonar sem flutti tillöguna en hann benti á að kynjakvótar hefðu verið hugsaðir til að jafna hlut kvenna i stjórnmálum og þar sem enn hefði ekki náðst jafnvægi milli kynja a Alþingi væri mikilvægt að huga að tilgangi þeirra sem hefði ekki snúist um að jafna hlut karla gagnvart konum. TIllagan væri þvi liður í því að sjá til þess að kynjakvótar gegndu áfram sínu hlutverki.

Eftirfarandi ályktun var vísað til málefnanendar flokksins:

Ályktun um veggjöld

 

Dagskrá flokksstjórnarfundar

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar í Austurbæ, laugardaginn 19. október 

10:00 Innskráning hefst með setningu og morgunkaffi.

10:30 Nýjar hugmyndir í loftslagsmálum í hnattrænu samhengi
Annette L. Bickford
, sérfræðingur í loftslagsréttlæti ræðir nýjar hugmyndir í hnattrænu samhengi

11:00 Ræða formanns
Logi Einarsson
, formaður Samfylkingarinnar

11:45 – 12:30 Hlé og hádegisverður með léttu ívafi

12:30 – 13:30 Tækifæri og áskoranir jafnaðarmanna í umhverfismálum á Íslandi

Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari stýrir umræðum og pallborði um aðgerðir í umhverfismálum.

 • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
 • Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri

Í pallborðsumræðum með þeim Degi og Hildu Jönu verða einnig:

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, í námi sínu við Goldman School of Public Policy við Kaliforníuháskóla í Berkley lagði hún áherslu á stefnumótun á sviði loftslagsmála og í lokaverkefni  sínu lagði hún mat á stefnu íslenskra stjórnvalda um rafbílavæðingu.
Brynhildur Pétursdóttir,  framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Sjálfbær og siðræn neysla er eitthvað sem Neytendasamtökin hafa alltaf láta sig varða og fjallað mikið um enda eitt af hlutverkum neytendasamtaka að fræða og upplýsa neytendur svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun.

Umræður og fyrirspurnir

13:30 – 15:00 Vinnustofa – Hvað getum við gert?

Áskoranir í loftslagsmálum eru margvíslegar og þvera allt svið samfélagsins. Ef við leggjum hugvit okkar saman fást bestu lausnirnar. Fundargestir munu vinna eftir þemu á borðunum og skila af sér afurð í formi tillagna til þingflokks og sveitarstjórnar Samfylkingarinnar– hagkerfið, samgöngur og skipulag, græn atvinnumál, einstaklingar/neytendur, nýsköpun og tæknilausnir – framtíðin.

Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur á sviði loftslagsmála, stýrir vinnustofu ásamt borðastjórum: Óskar Steinn Ómarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Inger Erla Thomsen, Geir Guðjónsson og Eysteinn Eyjólfsson.

15:00 – 15:10 Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og einn skipuleggjanda Loftslagsverkfallsins, fer yfir kröfur ungs fólks til stjórnmálamanna

15:10 – 16:40 Almennar umræður og afgreiðsla tillagna

16:40 – 17:00 Skilaboð frá Ungum jafnarðarmönnum

Stefnumót og happy hour með þingmönnum og sveitarstjórnarfólki á barnum. DJ og skemmtiatriði.

 

Fundarstjóri Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar

 

Ályktanatillögur

Ályktun um skipan rannsóknarnefndar

Ályktunartilllaga um veggjöld

Ályktun um loftslagsmál

Ályktun stjórnar um jöfnuð og kjaramál

Breytingartillögur

Breytingatillögur á Skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista

 

 

Ræða Loga á flokksstjórnarfundi

Hér má lesa ræðu Loga sem hann flutti á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 19. okt:

Ágæta flokksstjórn, góðir félagar.

Pólitík er vissulega skrítin skepna og það getur verið snúið að umgangast hana.

Flokkar falla oft í þá gryfju að eyða megnið af tímanum í að eltast við duttlunga hennar í stað þess að stjórna henni.

Auðvitað þurfum við að geta brugðist við óvæntum aðstæðum en allt of oft erum við einfaldlega að glíma við aðstæður sem skapast vegna þess kerfis sem við sjálf höfum búið til.  Ég nefni flöktandi gengi örmyntar, kjötfjöll og kjötskort eða vandræðagang samfara alþjóðasamvinnu, vegna úreltrar stjórnarskrár.

Önnur alvarleg vandamál sem við glímum við, svo sem fíkniefnavandi ungs fólks, eru líka að einhverjum hluta afleiðing samfélags sem við höfum þróað. Lág laun of margra, of langur vinnudagur, ósveigjanlegt menntakerfi og svo framvegis.

Við höfum líka búið til hringrás, þar sem þeir ríkustu sem hafa greiðari aðgang að peningum, ódýrara fjármagni og geta auk þess fært fé fram og til baka milli gjaldmiðla eftir því sem vindar blása – ná að ávaxta auð sinn langt umfram almenning.

Himinn háar upphæðir erfast svo milli kynslóða og auðurinn færist á sífellt færri hendur, bilið milli þeirra sem eiga mjög mikið og hinna sem eiga mjög lítið breikkar stöðugt og svo koll af kolli.

Meðan sum komast áhyggjulaus gegnum lífið eru allt of mörg í sífelldu basli í brauðstritinu.

Á mjög mörgum sviðum verðum því að gera grundvallarbreytingar ekki láta það nægja að stoppa í sokkana.  Áskoranir samtímans; hvort sem þær eru vegna breyttrar heimsmyndar, byltingar í tækni eða hamfarahlýnunar, krefjast, frumlegra lausna, djarfra ákvarðana og markvissra aðgerða.

Samfylkingin verður að bjóða upp á skýra og trúverðuga stefnu sem mætir þeim – þá er ég viss um að flokkurinn fær umboð til að leiða saman umbótaöflin í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Við skulum nýta þennan fund hér í dag til að ræða stóru myndina í stjórnmálunum. Ræða hreinskiptið hvaða skyldum flokkurinn okkar hefur að gegna í dag? Hvað hvert og eitt getur gert, til að áhrif okkar nýtist sem best í baráttunni fyrir frjálslyndi, sjálfbærni ogog betri lífskjörum almennings á Íslandi.

Kæru félagar

Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi:

Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum, á 20. öldinni – gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni; hann er klofinn – þvers og kruss.

Frjálslyndi vængurinn brotnaði í Viðreisn og fjaðrir úr þeim íhaldssama reitast nú til Miðflokksins. Fálkanum er að fatast flugið og hann er ósköp ráðvilltur.

Þetta eru stór tíðindi og aðrir flokkar þurfa að bregðast við.

Nú er runninn upp sá tími í íslenskum stjórnmálum  og ég vona að vinir okkar sem halda nú landsfund á Grand hótel, heyri þetta vel og skilji, nú er runninn upp sá tími  að íslensk stjórnmál hætti að snúast um hvaða félagshyggjuflokkur það er hverju sinni sem hleypst undan merkjum og laumar sér í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Þetta fyrirkomulag passaði kannski við pólitískt landslag 20. aldarinnar en nú er öldin önnur og landslagið er breytt . Því fyrr sem umbótaöflin í samfélaginu skilja þetta, og taka höndum saman, því betra.

En hvaða skyldum hefur flokkurinn okkar að gegna við þessar aðstæður sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum?

Við, Samfylkingin, verðum að tala skýrt og skorinort , bjóða fram trúverðuga forystu í málum  og sýna að það er til önnur leið; það er betri valkostur í boði, fyrir fólkið í landinu.

Ísland er ríkt land og það er hvorki óhjákvæmilegt eða réttlætanlegt að barn sem fæðist með varanlega fötlun sé dæmt til fátæktar út lífið , eldri hjón sem hafa stritað allt sitt líf þurfi að neita sér um læknisþjónustu, ungt fólk búi við slæmt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og flosni upp úr námi vegna þröngra skilyrða Lánasjóðsins – eða barnafjölskyldur hrekist um á ómanneskjulegum leigumarkaði.

Það er hægt að þróa samfélag þar sem fólk getur lifað með reisn og borið höfuðið hátt.

Við þurfum sanngjarnara skattkerfi, við þurfum að þora að sækja fram á sviði menntunar og sköpunnar, minnka vægi frumframleiðslu,  sem drifin er áfram af nýtingu takmarkaðra auðlinda en sækja fram á einu ótæmandi auðlindinni- hugvitinu – sem vex meira að segja eftir því sem við notum það meira. Við þurfum raunverulega sókn í menntamálum!

Það er ekki einungis skynsamlegt til að þróa framsæknara atvinnulíf fyrir unga fólkið okkar, heldur er það líklegri leið til að byggja upp sjálfbært, kraftmikið samfélag sem verður í fremstu röð í baráttu gegn hamfarhlýnun.

Og góðu fréttirnar eru að það er hægt að breyta – og fordæmin eru svo sannarlega til staðar.

Af því við erum hér stödd í okkar ágætu höfuðborg skulum við rifja aðeins upp söguna.

Sjálfstæðisflokkurinn réð lögum og lofum nær óslitið í 60 ár  og ríghélt í völdin með því að nota borgarkerfið sem úthlutunarapparat fyrir flokksgæðinga.

Eina sem þurfti til að hnekkja þessu var að umbótaaöflin í borginni stæðu saman. Reykjavíkurlistinn var myndaður fyrir 25 árum af mörgum ólíkum flokkum: Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Kvennalistanum  og veitti svo trúverðuga og trausta forystu  og gerði svo jákvæðar breytingar fyrir borgarbúa, að hann vann allar kosningar, þrjú kjörtímabil í röð! Reykjavíkurlistinn tapaði aldrei í kosningum.

Í dag erum við enn að vinna sigra í Reykjavík, og leiða mikilvægar breytingar.

Hér höfum við sýnt og sannað að það er hægt að vinna og það er hægt að vinna saman, í samstarfi við aðra flokka, við höfum fordæmið og þurfum að gera nákvæmlega þetta í landsstjórninni líka. Að sameina umbótaaöflin og leiða ríkisstjórn sem er fær um að takast á við framtíðina, ráðast í nauðsynlegar breytingar og gera betur fyrir fólkið í landinu.

Þetta er skylda okkar í dag  og alla daga, því þetta er hið sögulega hlutverk Samfylkingarinnar; að fylkja saman fólki og knýja fram breytingar til hins betra,

hvort sem það er gert í einum stórum flokki eða góðu samstarfi margra flokka.

Kæru félagar.

Samfylkingin á 20 ára afmæli á næsta ári, árið 2020, og saga okkar er vissulega stormasöm, þó hún sé stutt, það er saga mikilla væntinga og vonbrigða, en margir mikilvægir sigrar hafi unnist á leiðinni.

Kosningarnar 2016 voru mikil vonbrigði, vægast sagt  og algjör niðurlæging fyrir stórhuga stjórnmálaflokk.

En ég spyr, hvern hefði grunað að strax árið 2017 værum við komin til baka í þingkosningum og hefðum tvöfaldað fylgi flokksins , tvöfaldað þingmannafjölda Samfylkingarinnar? Og reyndar gott betur.

Og hvert ykkar hefði grunað, á þessum tíma, að strax árið 2018 ætti flokkurinn okkar eftir að koma svona til baka í sveitarstjórnarkosningum líka og vinna góða sigra, vítt og breitt um landið?

Og þá er ég ekki bara að tala um sigurinn hér í Reykjavík, sem ég nefndi áðan, heldur líka með þáttöku Samfylkingarinnar í  meirihluta á Akureyri – í Reykjanesbæ – í Árborg – á Akranesi – þetta eru fjögur fjölmennustu sveitarfélög landsins utan höfuðborgarsvæðisins – og í Borgarbyggð og Norðurþingi og svo mætti lengi áfram telja… svo ekki sé minnst á sigra hér og þar undir merkjum sameinaðra lista félagshyggjufólks, sem við styðjum heils hugar → eins og t.d. í Fjarðabyggð, þar sem Fjarðalistinn felldi meirihlutann með 1 atkvæði… og á Seyðisfirði þar sem Seyðisfjarðarlistinn felldi meirihluta íhalds og framsóknar í fyrsta skipti síðan 1974.

Kæru félagar,

þessi árangur er ykkur að þakka, okkar sigrar og skýrt merki um það að Samfylkingin á ennþá sterkar rætur um land allt.

Ég má reyndar til með að ljúka þessari yfirferð með því að benda á eina stórmerkilega staðreynd um sveitarstjórnir á Íslandi: Vissuð þið að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi, enginn flokkur er í meirihlutastjórnum fyrir hönd fleiri Íslendinga en flokkurinn okkar, Samfylkingin og munurinn er reyndar mikill á milli okkar og þess flokks sem kemur næstur að þessu leyti.

Það er greinilegt af þessu að Íslendingar treysta okkar fólki vel til að taka ákvarðanir um þau mál sem standa þeim næst í hinu daglega lífi; skólana, skipulagsmálin, öldrunarmálin, umhverfismálin og svo framvegis.

Höfum þetta hugfast hér í dag; við megum vera stolt og hnarreist af því að Samfylkingin er að mæta tilbaka af fullum krafti, jafnt og þétt, skref fyrir skref og það eru mikil sóknarfæri í landsmálunum líka. Þar erum við líka að endurheimta traust fólks — og sjálfstraustið í leiðinni.

Kjörtímabilið er hálfnað  og samkvæmt næstum öllum könnunum kjörtímabilsins mælist Samfylkingin næst stærsti flokkur landsins. Við höfum mælst með stuðning hátt í 20% kjósenda, þó oft séum við nær 15%, og við þurfum að stefna hærra en eitt er víst: Ríkisstjórnarflokkarnir hafa fyrir löngu misst tiltrú og stuðning meirihluta kjósenda, þetta sýna allar kannanir.

Kæru félagar,

í þeim nýja veruleika sem nú er uppi í íslenskum stjórnmálum  og ef við höfum sögulegt hlutverk Samfylkingarinnar í huga – þá liggur í augum uppi að næsta stóra verkefni okkar er þetta: Við verðum, og segjum það bara skýrt, við verðum að fella þessa ríkisstjórn í kosningunum 2021, til að mynda betri, djarfari og víðsýnni stjórn fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir, við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.

Því þessi ríkisstjórn er ófær um að takast á við öll stóru framtíðarmálin og þær miklu áskoranir sem samfélagið okkar, og samfélög um allan heim, standa nú frammi fyrir.

Heimurinn breytist hratt og við þurfum að breyta í takt við tímann. Þó snjöllustu lausnirnar verði oft til við snúnustu aðstæðurnar, mun sú ósamstíga og hugmyndasnauða ríkisstjórn sem nú er við völd  og er hvorki sammála um leiðir eða markmið, ekki bjóða upp á slíkar lausnir.

Við skulum taka nokkur dæmi.

Stjórnin er of  svifasein og metnaðarlítil í loftlagsmálum  enda er einum stjórnarflokkanna nokkuð sama um þau og virðist ekki hafa aðra stefnu en þvælast sem allra mest fyrir og aðhafast sem minnst.

“En hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur?” Já, “hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur?.” Svona spyrja helstu hugmyndafræðingar hins klofna og veiklaða Sjálfstæðisflokks og afhjúpa þar með vandræðalegan aulahátt og ráðaleysi flokksins andspænis stærstu áskorunum samtímans.

Þessi hugsun endurspeglar líka eina hlið hins djúpstæða vanda ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherrann er vissulega allur af vilja gerður, og hún er öflug í því að vekja athygli á þessum málum, en hún nær því miður litlum árangri, enda í rangri ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunnar eða lögbinda markmið um kolefnishlutleysi sem skuldbindur hana til aðgerða. En þó ríkisstjórninn treysti sér ekki til þess að lýsa yfir neyðarástandi, þá ríkir sannarlega neyðarástand í loftslagsmálum.

Hér þarf róttæka stefnu og aðgerðir, til að tryggja að hægt verði að taka á vandanum án þess að honum sé alfarið velt yfir á þá sem lakast standa í landinu, með eintómum flötum sköttum og gjöldum, án mótvægisaðgerða, sem bíta auðvitað fastast hjá þeim sem bera minnsta ábyrgð á ástandinu.

Og hver er stefnan í menntamálum? Hvernig ætlar ríkissstjórnin að búa þjóðina undir breytingar á vinnumarkaði og störf framtíðarinnar?  Nú, það stendur reyndar skýrt í fjárlagafrumvarpinu ríkisstjórnarinnar, það á að draga úr framlögum til menntamála, skera niður í skólunum okkar, stefna afturábak en ekki áfram…

Og í staðinn fyrir að stíga nauðsynleg skref í átt til fjölskylduvænna samfélags og semja við opinberra starfsmenn og háskólafólk um styttri vinnuviku, spyrnir ríkið niður fæti og skilaboðin eru býsna skýr. Á meðan laun ríkisforstjóra hafa hækkað um 40 – 80% þurfa sjúkraliðar, kennarar og hjúkrunarfræðingar að sætta sig við einungis 3%, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Það skyldi þó ekki vera að þetta tengist stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum? Þar sem fjármálaráðherrann hefur lagt mesta áherslu á lækka bankaskattinn og veiðigjöld á stórútgerðina. Þá er fyrirhugað að lækka erfðafjárskattinn, ekki síst á þau sem erfa mest og loks stendur til að búa til algjörlega einstakt fyrirkomulag til að tryggja fjármagnseigendum einum hópa í samfélaginu, sérstaka vernd gegn verðbólgu.

Svona er nú skattastefnan rekin, í skjóli vinstri grænna  og ýtir undir enn meiri ójöfnuð í landi þar sem 5 prósent íbúanna eiga nú þegar jafnmiklar eignir og hin 95 prósentin.

Já, þetta er vond ríkisstjórn: Loftslagsmálin í lamasessi, menntamálin í afturför og skattastefna sem eykur ójöfnuð og til skammar fyrir alla nema harðsvíruðustu hægrimenn.

Þá eru ótalin samskipti Íslands við umheiminn.

Þar er staðan nú ekki beysin og gætir vaxandi einangrunarhyggju í stjórnarliðinu, þar sem stefnan virðist tekin á minni samvinnu við Evrópuþjóðir og aukna eftirlátssemi við vafasama stjórnarherra stórveldanna. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins keppast jafnvel við að apa upp það nýjasta eftir hægripopúlistum úti í heimi, í stað þess að standa vörð um hagsmuni Íslands, sem felast í alþjóðlegri samvinnu og frjálsum viðskiptum.

Það er ekki svona sem við búum í haginn fyrir unga fólkið okkar á 21. öldinni; þessari skammsýni og minnimáttarkennd í alþjóðamálum verður að linna. Við eigum að stefna í þveröfuga átt.

Ágæta flokksstjórn og kæru vinir.

Við þurfum sögulegt samhengi — til að greina sóknarfærin.

Það er sem sagt komin upp ný og gjörbreytt staða í stjórnmálum á Íslandi, sem felur í sér tækifæri til breytinga; sögulegt tækifæri, til að fylkja saman umbótaöflunum í landinu og sýna að það er til betri valkostur fyrir íslenskan almenning: Það er frumskylda okkar flokks að hafa forystu um þetta!

Stórar áskoranir bíða okkar , loftslagsmálin, kjaramálin, menntamálin – og við getum tekið á þeim með festu án þess að það bitni á þeim sem síst mega við því.

Við þurfum að koma hugsjónum okkar um frelsi, jafnrétti, framsýni og samvinnu í framkvæmd.

Og, við getum gert það. Við erum að vaxa, eflast og ávinna okkur aukið traust fólks um land allt.

Við verðum að halda áfram á þessari braut  og við sem erum saman komin hér í dag, hvert og eitt okkar – getum haft mikil áhrif á gang mála.

Kærar þakkir, eigið gleðilegan og góðan flokksstjórnarfund

 

Samfylking og Píratar leggja til grænan samfélagssáttmála

Samfylkingin og Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem tekur til allra sviða þjóðlífs. Síðastliðið vor lögðu flokkarnir báðir fram svipaðar tillögur en með framlagningu þessa þingmáls eru tillögur flokkanna sameinaðar. Þótt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sé ágætt fyrsta skref gengur hún of skammt og er of litlu fjármagni varið í loftslagsaðgerðir. Ísland hefur tækifæri til að vera fyrirmynd í loftslagsmálum en mikið skortir upp á svo að sá möguleiki raungerist.  Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að stjórnvöld og almenningur sameinist um allsherjar endurhugsun á grunnstoðum samfélagsins. Þar eru öll svið þjóðfélagsins undir: hagkerfið, matvælaframleiðsa, neysluvenjur, orkuframleiðsla og svo mætti lengi telja. Samþykkt þessarar tillögu myndi bjóða upp á stórt skref í átt að þeirri endurskoðun.

Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra boði til þjóðfundar um „Græna Ísland“ vorið 2020 og í kjölfar hans verði tillögur um grænan samfélagssáttmála unnar af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í framtíðarnefnd forsætisráðherra, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og fjármálaráðherra, auk þess sem fram fari endurskoðun á gildandi lögum og stefnu. Framtíðarnefnd skili tillögum sínum til forsætisráðherra eigi síðar en 1. febrúar 2021.

Tillögurnar fela í sér að eftirfarandi markmiðum verði náð fyrir árið 2030:

 1. Ísland verði kolefnishlutlaust land, en þess skal gætt að aðgerðirnar bitni sem minnst á launafólki og jaðarsettum hópum.
 2. Efnahagsleg framtíð landsins verði tryggð með sjálfbærni sem ófrávíkjanlegu skilyrði.
 3. Teknir verði upp nýir mælikvarðar á velsæld í hagkerfinu, með hliðsjón á þörfinni á velmegun án vaxtar sem minnkar álagið á umhverfið.
 4. Ráðist verði í verulegar fjárfestingar á nauðsynlegum innviðum og uppbyggingu til að markmið sáttmálans nái fram að ganga innan settra tímamarka, í samræmi við viðmið milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.
 5. Ísland verði í framvarðasveit ríkja þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsvánni.
 6. Stuðlað verði að auknu alþjóðlegu samstarfi og samtali um tæknileg málefni, sérfræðiaðstoð, vörur, þjónustu og fjármagn sem gæti nýst öðrum þjóðum við kolefnisbindingu og að ná kolefnishlutleysi.

Hlekkur á málið: https://www.althingi.is/altext/150/s/0031.html

Evrópusambandið er Imagine

Hérna má lesa einstaklega fallega ræðu Guðmundar Andra um Evrópusamstarfið sem hann flutti í dag í umræðum um EES skýrsluna. 

 

Virðulegi forseti mig langar að hefja mál mitt hér á því að fara með nokkrar línur úr þekktum sálmi.

Ímyndið ykkur ekkert himnaríki

sem er auðvelt ef maður reynir

ekkert helvíti undir okkur

og yfir okkur einungis himin.

Ímyndið ykkur allt fólkið

láta hverjum degi nægja sína þjáningu

Ímyndið ykkur engin lönd

sem er ekkert erfitt

ekkert til að drepa og deyja fyrir

og engin trúarbrögð heldur

Ímyndið ykkur allt fólkið

búa saman í friði

Virðulegi forseti, þannig hljóða hraðsnarað fyrstu línurnar úr ljóð Johns Lennon, Imagine, þar sem skáldið reynir að leiða efasemdamönnunum og úrtölumönnunum fyrir sjónir að hugsjónirnar um frið og kærleika og samfélag manna séu ekkert endilega óraunhæfari en stríðsæsingar og hatursáróður, og biður þau sem orðin eru kaldrifjuð og neikvæð að gera sér þetta allt bara í hugarlund. Þannig hljóðar Bítlaávarpið. Það er auðvitað leitun á jafn óskáldlegu fyrirbrigði og Evrópusambandinu með allar sínar smásmugulegu reglugerðir og ákvæði, alla sína samviskusamlegu og gersamlega húmorlausu texta sem reynt er að gera eins lítið tvíræða og margræða og hægt er, allt sitt þras um kjötframleiðslu og stærð á skrúfum. Og samt er Evrópusambandið einmitt friðarviðleitni þeirrar kynslóðar sem hreifst af Bítlunum og kærleiksboðskap þeirra og mundi síðustu stóru stríðin í Evrópu á árunum milli 1914 og 1918 og svo 1936 og 1944 – mundi kalda stríðið og kjarnorkuógnina – Evrópusambandið er framlag þeirrar kynslóðar til þess að raungera þær hugsjónir sem John Lennon gerði ódauðlegar í söng sínum: Imagine.

Evrópusambandið er Imagine. Það snýst ekki um að rækta ágreining heldur finna sátt í hverju máli, leita niðurstöðu sem allir geti unað. Það snýst ekki um að standa vörð um rétt hins sterka til ofríkis gagnvart hinum veika heldur um hitt að skapa reglur sem allir verða að lúta jafnt, meira að segja gömul nýlenduveldi; skapa umhverfi þar  allir hafa jafna möguleika til að lifa og starfa í samræmi við hæfileika sína.

Og er Evrópusambandið þá sæludalur, sveitin best? Himnaríki á jörðu? Því fer auðvitað fjarri – slíkir staðir eru aðeins til í hugum okkar og í trúarbrögðunum: Í Evrópusambandinu eru ótal hlutir sem farið hafa aflaga, þar er líka óréttlæti og misrétti, atvinnuleysi og misskipting, og alls konar óáran og erfiðleikar: en þetta samband er engu að síður viðleitni þjóða til að taka höndum saman og vinna saman að sameiginlegum úrlausnarefnum sem blasa við í netvæddum heimi sem þarf að takast á við hamfarahlýnun og áskoranir sem fylgja nýrri tækni á vinnumarkaði, ofvöxt risafyrirtækja sem telja sig yfir þjóðríkin hafin, einokun, offramleiðslu, rányrkju, réttindi vinnandi fólks og neytenda og ótal önnur mál sem ekki verða leyst með því að hinn sterki sitji yfir hlut hins veika.

En eins og annað skáld, Megas, orðaði það í öðru kvæði: “Af hundingsspotti höfum við best næmi”.. Við erum stundum móttækilegri fyrir afkáralegum og upplognum fréttum af bognum bananatilskipunum en fréttum af því að neytendur og framleiðendur sitji við sama borð þvert á landamæri. Það er auðveldara að skapa ótta og ugg í hugum margra en umburðarlyndi og félagsanda gagnvart öðru fólki.

Virðulegi forseti, þetta er öndvegisskýrsla og það þarf í rauninni ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt það er Íslendingum og íslensku samfélagi að tengjast Evrópusambandinu, þó ekki væri nema fyrir þá sök að EES-samningurinn opnar fyrir okkur þennan milljónamarkað, sem upp undir áttatíu prósent af útflutningi okkar rennur til – íslensk fyrirtæki starfa þannig á milljónamarkaði en ekki örmarkaði eins og áður, sem breytir öllu fyrir þau. Þessi samningur hefur breytt samfélagi okkar á ótal sviðum: hann hefur fært launafólki og neytendum margvísleg réttindi – almenningi. Hann hefur gert ungu fólki kleift að fara til Evrópu til náms og starfa og koma til baka reynslunni ríkara. Hann hefur gert ungu fólki víðsvegar úr Evrópu kleift að koma hingað til náms og starfa og auðga þannig samfélag okkar, víða um land.

Við erum Evrópuþjóð og eigum menningarlega, hugmyndalega og sögulega samleið með öðrum Evrópuþjóðum, sem langflestar hafa kosið að tengjast þessu bandalagi með einum eða öðrum hætti, þarna eru þær þjóðir sem okkur standa næst, nefni bara Norðurlandaþjóðirnar og Íra, og una sér þar vel og hafa dafnað þar og náð að virkja það afl sem í þessum samfélögum býr – og má nefna sérstaklega Íra í þessu sambandi, sem svo lengi voru undir járnhæl Englendinga með tilheyrandi kúgun og volæði og eymd, en blómstra nú í samfélagi jafningja innan Evrópusambandsins; við getum nefnt Finna líka, sem fengu sitt fullveldi sama ár og Íslendingar, 1918, en bjuggu áratugum saman í skugganum af þeim gráa ógnarmúr sem Sovétríkin voru, en hafa blómstrað hin seinni árin meðal jafningja innan Evrópusambandsins; við eigum að líta til þessara þjóða sem eiga sér svipaða sögu og við um erlent vald með tilheyrandi kúgun og doða en hafa náð að blómstra meðal jafningja innan Evrópusambandsins. Og hafa náð að hafa þar ómæld áhrif umfram stærð á gildismat og hugsjónir sem til grundvallar eru margháttuðu regluverki.

Virðulegi forseti. Íslendingar eru smáþjóð. Eða ég veit raunar ekki hvort það orð nær utan um okkur – Danir eru smáþjóð – við erum þjóðarkríli. En við erum sem sé hér, með okkar sögu, menningarvitund, tungumál, hagsmuni, og við höfum sama rétt og aðrar fullvalda þjóðir á vettvangi heimsins. Þannig upplifum við okkur og þannig á það líka að vera. við eigum heima í samfélagi þjóða og eigum að hafa þar áhrif og láta gott af okkur leiða, og vera þar sem ákvarðanir eru teknar í stað þess að taka við þeim nöldrandi.

Harðsnúin öfl hér innanlands komu því svo fyrir að íslenska þjóðin fékk aldrei að vita hvað það myndi tákna að ganga alla leið inn í Evrópusambandið, hvað það myndi tákna fyrir þjóðarbúskap okkar og yfirráð yfir auðlindum okkar. Samningaviðræður voru ekki kláraðar og þess vandlega gætt að niðurstöður fengju aldrei að blasa við landsmönnum um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Það var séð til þess að aldrei hefur verið horft á þetta dæmi af yfirvegun og skynsemi heldur hefur þar ráðið för heill orkupakki af tröllasögum og ranghugmyndum.

Evrópusambandið er flókið og þungt í vöfum enda þarf að taka tillit til margra ólíkra sjónarmiða. Það er ekki Himnaríki á Jörðu enda er himnaríki ekki til nema í þjóðsögum og ævintýrum. Það er heldur ekki Heimsveldi hins illa. Þar er ekki erlent stórveldi sem ásælist auðlindir okkar. Evrópusambandið er Evrópusamband. Það er net fullvalda þjóða sem tala saman, semja og finna leiðir til að lifa saman í friði en ekki stríðandi. Það er viðleitni til að skapa regluverk með sanngirni og rétt neytenda að leiðarljósi. Það er tengslanet. Og ég hlýt því að spyrja, virðulegi forseti, er ekki kominn tími til að tengja?

Þið getið kallað mig draumóramann

en ég er ekki sá eini

ég vona að þið sláist í hópinn einn daginn

og þá verður heimurinn sem einn

 

 

Aðalfundur Fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík 

Framkvæmdastjórn Fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík boðar til aðalfundar Fulltrúaráðsins mánudaginn 28.október 2019 kl. 19:30 að Hallveigarstíg 1.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi í samræmi við lög Fulltrúaráðsins:

 1. Skýrslu framkvæmdastjórnar
 2. Ársreikninga og árshlutareikning þess árs sem aðalfundur er haldinn
 3. Skýrslur aðildarfélaga
 4. Skýrslur þingsveitar og borgarstjórnarflokks
 5. Lagabreytingar
 6. Ákvörðun um árgjöld til Fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík
 7. Kjör framkvæmdastjórnar
  • Kjör formanns
  • Kjör gjaldkera
  • Kjör annarra stjórnarmanna
  • Kjör varamanna
  • Kjör skoðunarmanna
 8. Kjör valnefndar
 9. Önnur mál

Hér má finna breytingartillögur