Almennar fréttir

Ræða Loga Einarssonar á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum

Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, flutti eftirfarandi ræðu á hátíðarfundi Alþingis sem haldinn var fimmtudaginn 18. júlí 2018 kl. 14 að Lögbergi á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins.

 

Herra forseti, forseti Íslands, kæra þjóð.

Skáldið Einar Bragi orti í Báruljóði:

 

Lítill kútur – lék í fjöru – og hló,

báran hvíta – barnsins huga – dró.

Langrar ævi – yndi og vos – á sjó,

báran svarta – bylti líki – og hló.

 

Í þessu áhrifaríka ljóði lýsir skáldið  vel nöprum veruleika Íslendinga langt fram á okkar daga og sýnir hvað við erum lítil og máttvana gagnvart náttúruöflunum; jafnvel þeim sömu og eru undirstaða lífsafkomu okkar.

Á sama tíma og þau fæða okkur, klæða og seiða til sín í fegurð sinni, geta þau breyst í ófreskju í einu vetfangi, hrifsað til sín líf okkar eða kvalið seigdrepandi dauðdaga; skilið ástvini eftir berskjaldaða og agnarsmáa.

Með tímanum hefur mannskepnan lært að búa í haginn; hagnýta  tækni, þannig að náttúran fer ekki jafn óblíðum höndum um hana í amstri dagsins; en um leið gengið svo nærri þolmörkum hennar á mörgum sviðum að risastór skuggi hvílir yfir öllu mannkyninu. Brýnasta verkefni okkar er að endurskoða algerlega umgengni um náttúruna, þannig að við stefnum ekki tilvist mannkyns og lífríkis, eins og við þekkjum, í voða.

Við Íslendingar þurfum að afla nýrrar þekkingar, vera varkár, nýta landið okkar skynsamlega með sjálfbærum hætti. En einnig að búa þannig um hnútana að við getum tekið þátt í verkefnum, sem eðli þeirra vegna krefjast fjölþjóðlegs samstarfs. Það er nauðsynlegt til að tryggja fullveldi okkar og styrkja það til framtíðar.

En á meðan náttúran getur verið duttlungafull og stundum miskunnarlaus er menningin verk okkar sjálfra.  Skipting efnahagslegra og félagslegra gæða, skólar og heilbrigðisþjónusta eða auðlindastýring eru t.d. ekki náttúrulögmál – þar erum við sjálf okkar gæfu smiðir.

Við verðum því að hafa getu til að takast á við grundvallarverkefni samtímans.  Með skynsamlegri samneyslu getum við tryggt hverjum einasta íbúa landsins mannsæmandi lífskjör og með nýrri stjórnarskrá fest þessi og önnur grundvallarréttindi enn betur í sessi.

En við þurfum líka að gangast við ábyrgð okkar sem manneskjur og muna hvaðan við komum. Það er of stutt síðan að Íslendingar gátu ekki brauðfætt börn sín og flúðu þúsundum saman vestur um haf í leit að betra lífi, til þess að við getum litið undan nú, þegar milljónir manna eru á flótta undan fátækt, stríði og loftslagsógnum.

Og måske jeg skal sige det på dansk også – jeg minder om at det er et af det vigtigste at vi bør vise kærlighed og sammenfølelse og hjælpe vores medbrødre over hele verden som nu flygter fattighed og krig uavhængig af religion eller hudfarge.

Þó þessi litla þingsályktunartillaga, sem hér er rædd, sé ekki lausn á öllum okkar vandamálum er hún táknræn fyrir vilja allra þingflokka til að beina sjónum að framtíðinni og því sem skiptir okkur mestu, þrátt fyrir allt.

Annars vegar er yfirlýsing um rétt barna og nauðsyn þess að þau fái öll að njóta blæbrigða lífsins en hins vegar um mikilvægi náttúruauðlinda okkar, hafsins í þessu tilfelli, og ábyrgð sem á herðum okkar hvílir, að vernda þær.

Herra forseti, í dag er vissulega merkilegur áfangi í sögu þjóðar sem lifði í árhundruð, ekki aðeins af náttúrunni heldur einnig þrátt fyrir hana.  Nú þegar við höfum komið ár okkar vel fyrir borð verður nánasta framtíð að snúast um að tryggja öllum réttmæta hlutdeild í gæðum landsins.

Fullveldi þjóðar er vissulega dýrmætt og eitthvað til að gleðjast yfir en fölnar óneitanlega ef við getum ekki tryggt öllum þeim sem henni tilheyra möguleika á að lifa við öryggi og reisn alla ævi.

Kæra þjóð, til hamingju með daginn.

Staða framkvæmdastjóra

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands auglýsir eftir umsóknum um starf framkvæmdastjóra.

Samfylkingin er fjöldahreyfing og telur félaga og aðildarfélög um allt land. Við leitum að manneskju til að hjálpa okkur að halda áfram að vaxa og dafna. Starfið er skemmtilegt, krefjandi og oft á tíðum óútreiknanlegt, því leitum við að lausnarmiðuðum og sveigjanlegum einstaklingi sem er fljótur að setja sig inn í verkefni og leiða saman ólíka krafta.

 

Framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar:

 • Sinnir daglegum rekstri flokksins og fjárreiðum hans
 • Ber ábyrgð á starfsmannamálum
 • Ber ábyrgð á eflingu aðildarfélaga og grasrótar
 • Framkvæmir ákvarðanir stjórnar og framkvæmdastjórnar flokksins í samstarfi við formann framkvæmdastjórnar
 • Skipuleggur viðburði, undirbýr fundi og heldur utan um ýmis verkefni
 • Hefur umsjón með kynningarstarfi flokksins, samskiptum við fjölmiðla og sinnir útgáfu, þ.m.t. vefsíðu og samfélagsmiðlum
 • Annast alþjóðleg tengsl Samfylkingarinnar önnur en þau er lúta að þingflokki
 • Vinnur að heildarhagsmunum og markmiðum Samfylkingarinnar

 

Hagnýt reynsla og miklir skipulags- og samskiptahæfileikir eru lykilatriði.

 

Kostir sem litið verður til:

 • Menntun sem nýtist í starfi
 • Reynsla af skipulagi kosninga, annarra herferða og/eða stærri verkefna.
 • Reynsla og þekking á fjölmiðlum og markaðssetningu
 • Reynsla af starfsmannahaldi og –stjórnun
 • Reynsla af stjórnmála- og/eða félagsstarfi
 • Reynsla af virkjun grasrótar og sjálfboðaliða
 • Þekking á gerð fjárhagsáætlana og fjármálastjórn
 • Hafi framúrskarandi samskiptahæfileika og eigi auðvelt með að starfa með ólíkum einstaklingum með breiðan bakgrunn
 • Taki frumkvæði og sé skipulagður

 

Við hvetjum fólk af öllum kynjum til að sækja um stöðuna.

 

Umsóknir og fyrirspurnir berist á radning@samfylking.is. Frestur til að sækja um er til og með 20. ágúst og umsækjandi þarf að geta hafið störf í haust.

Kjaradeila ljósmæðra – bókun Samfylkingarinnar á fundi velferðarnefndar Alþingis

Á fundi velferðarnefndar 3. júlí 2018, lagði þingmaður Samfylkingarinnar, Guðjón S. Brjánsson, fram eftirfarandi bókun:

Síðastliðna 10 mánuði hafa ljósmæður barist fyrir því að fá laun sín leiðrétt en samningaviðræður Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins engu skilað. Með hverjum mánuðinum sem líður horfum við fram á fleiri uppsagnir og nú er að skapast það hættuástand á Landspítalanum sem að Samfylkingin, aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar og heilbrigðisstarfsmenn- og stofnanir hafa endurtekið varað við.

Samfylkingin beinir þeim skýlausum tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þegar í stað verði beitt öllum tiltækum ráðum til þess að leiða til lykta hina erfiðu deilu sem nú stendur yfir við ljósmæður, fámennrar en mikilvægrar heilbrigðisstéttar, hreinustu kvennastéttar á Íslandi. Skorað er á ráðherra að kjör ljósmæðra verði leiðrétt til samræmis við sérhæft fagfólk með sex ára háskólanám að baki.

Samfylkingin fordæmir aðskilnað barna og foreldra við landamæri Bandaríkjanna

Þingflokkur og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þann 20.06.2018.

Samfylkingin fordæmir harðlega það framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs og krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.

Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólítískum deilum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er ekki nóg með að brotið sé á umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna með því að hneppa þá í varðhald – heldur eru börn þeirra einnig tekin af þeim og jafnvel komið fyrir í ómannúðlegum geymslum án umönnunar til lengri tíma.

Allt að 2700 fjölskyldur hafa þegar verið aðskildar með þessum hætti.

Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar beðið um fund í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag, og mun þar bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Samfylkingin lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af þeirri vegferð sem Bandaríkjaforseti fetar á alþjóðavettvangi. Bandaríkin hafa að undanförnu sagt sig úr Parísarsáttmálanum, Íran-samkomulaginu og nú síðast Mannréttindaráði SÞ. Bandaríkin eru þar að auki eina ríki Sameinuðu Þjóðanna sem hefur ekki fullgilt Barnasáttmálann.

Ísland á að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum og mannúðlegri mótttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við eigum að vera staðfastir talsmenn verndar barna á flótta og taka afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi,útlendingahatri og mismunun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Sveitarstjórnarkosningar 2018 – yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs

 

Fréttatilkynning: Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar óraunsæ og ósanngjörn

Þingflokkur Samfylkingarinnar boðaði til blaðamannafundar 7. júní kl. 10. Jafnframt sendi hann frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

 

Þingflokkur Samfylkingarinnar telur fjármálaáætlun meirihlutans byggja á óraunhæfum forsendum og muni ýta undir frekari ójöfnuð í samfélaginu og skammarleg kjör ákveðinna hópa samfélagsins.

Þrátt fyrir fjölmargar og grafalvarlegar athugasemdir, frá mörgum umsagnaraðilum, við tæplega 5.000 milljarða króna fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á ekki að hnika til krónu. Flestir umsagnaraðilar eru sammála um að forsendur fjármálaáætlunarinnar séu fullkomlega óraunsæjar. Þær byggja á að hér verði 13 ára samfleytt hagsvaxtarskeið sem hefur aldrei gerst í sögu Íslandsbyggðar. Einnig er gert ráð fyrir óbreyttu raungengi krónunnar næstu 5 árin en raungengið hefur aldrei verið eins sterkt og nú er. Við slíkar aðstæður hefur gengið alltaf fallið sem hefur bein áhrif á hagvöxt, verðbólgu, vexti, skatttekjur, einkaneyslu o.s.frv. Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins í umfjöllun sinni lýstu því að reka íslenskt fyrirtæki í samkeppni við erlend fyrirtæki væri eins og „að búa í harmonikku á sveitaballi“.

Að mati Samfylkingarinnar er því fjármálaáætlunin pólitísk tálsýn og draumsýn ríkisstjórnarinnar.

Helstu gagnrýnisatriði þingflokks Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun:

 1. Sett er þak á þá fjármuni sem eiga að renna til barnabóta og vaxtabóta sem er ekki krónu hærri en það sem nú rennur til þessara mikilvægu úrræða velferðarkerfisins.
 2. Landspítalinn telur sig þurfa um 87 milljarða kr. til viðbótar samanlagt næstu fimm árin og strax á næsta ári um 5,4 milljarða sem er „algjört lágmark“ til að mæta núverandi þörf.
 3. Fjármunir sem renna til aldraðra eru fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi og enn eru ekki tryggðir nægjanlegir fjármunir til reksturs hjúkrunarheimila.
 4. Gert er ráð fyrir einungis um 4 milljarða kr. aukningu til öryrkja umfram þá fjármuni sem bætast við vegna fjölgunar í þeim hópi. Slík upphæð er um einn þriðji af því sem afnám svokallaðrar „krónu-á-móti-krónu“ getur kostað fyrir utan aðrar kjarabætur sem öryrkjar hafa verið að kalla eftir.
 5. Fjármunir sem renna til framhaldsskólanna er einungis það fé sem sparaðist vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Því hafði verið lofað af fyrrverandi ríkisstjórn og getur því alls ekki kallast stórsókn í menntamálum eins og ríkisstjórnarflokkarnir vilja vera láta.
 6. Háskólastigið fær minna en helming af því sem lofað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.
 7. Helmingi minna fjármagn rennur í uppbyggingu leiguíbúða en nú er gert.
 8. Boðuð er skattastefna sem færir tekjuháum einstaklingum þrisvar sinnum meiri skattalækkun en þeim sem minnst hafa. Þá er lækkun skatta á banka sett í forgang.
 9. Framlög til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála lækka næstu fimm árin.
 10. Fjárframlög til samgöngumála á tímabilinu ná ekki einu sinni 10 ára meðaltali fjármagns í þennan málaflokk og eru einungis svipuð og þau hafa verið undanfarin 5 ár.
 11. Samneyslan (neysla hins opinbera) dregst saman næstu fimm árin þrátt fyrir orð forsætisráðherra fyrir nokkrum mánuðum um að samneyslan ætti að aukast vegna innviðauppbyggingar og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.

Samfylkingin telur að eftirfarandi breytingar á framlögum myndu ganga langt til að skapa sátt og ýta undir stöðugleika í landinu. Breytingartillögurnar eru að fullu fjármagnaðar.

 1. Framlög aukin um 6 milljarða til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri
 2. Framlög til barnabóta aukin um 3 milljarða kr. og vaxtabóta um 2 milljarða kr.
 3. Framlög til framhaldsskóla aukist um 400 millj. kr. og háskóla um 3 milljarðar kr.
 4. Einum milljarð bætt inn í átak í samgöngumálum.
 5. Framlög til að bæta kjör aldraðra aukist um 1,5 millj. kr.
 6. Framlög í málefni öryrkja aukist um 3 milljarð króna til að mæta afnámi krónu-á-móti-krónu skerðingunni.
 7. Stofnframlög til almennra íbúða aukist um 1,5 milljarða kr.
 8. Framlög til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni aukist um 500 milljónir kr.
 9. Heilsugæslan efld með 400 milljónir kr. viðbót
 10. Framlög til þróunarsamvinnu aukin um 900 millj. kr

Áhrif breytingartillagna Samfylkingarinnar eru rúmlega 23 milljarða kr. og yrðu að fullu fjármagnaðar með annarri forgangsröðun í skattamálum. Með því að falla frá 1%-stigs lækkun tekjuskatts hefði ríkissjóður um 14 milljarða króna meira á milli handanna á ári. Þá kostar fyrirhuguð niðurfelling bankaskattsins 7,3 milljarða og afnám samsköttunar færir ríkinu um 2,7 milljarð króna. Hér er því að ræða um samanlagt 24 milljarða króna sem gætu fjármagnað ofangreindar breytingartillögur.

Guðjón S. Brjánsson í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 4. júní. Guðjón S. Brjánsson tók til máls í þriðju umferð.

Virðulegur forseti, kæru landsmenn.

Vorið er gengið í garð með fyrirheit um gróðurríkt sumar og yl í lofti. Ungt fólk fagnar um þessar mundir áföngum í framhalds- og háskólum, bændur yrkja jörðina, húseigendur stússa í görðum sínum,  börn fæðast í heiminn,  trillukarlar róa til fiskjar, íþróttafólk tekur kipp úti við, útgerðin kvartar.  Allt eru þetta merki um líf og mótun og gerjun í okkar litla samfélagi þar sem tekist er á um lítil og stór mál sem miklu varða.

Ný ríkisstjórn tók við völdum rétt fyrir aðventu, telur sig vera tímamótastjórn sem muni láta fjölmargt gott af sér leiða.  Nú er senn liðið hálft ár frá því að ráðherrar settust í stólana, hafa fengið tækifæri til að hreiðra um sig og kynna sín áform, tala mikið.

Það er svo stutt síðan, að landsmenn muna vel hver áhersluatriði allra stjórnmálaflokka voru í aðdraganda kosninga. Þau voru skýr, krefjandi en ekki flókin.

Það voru velferðarmálin, heilbrigðismál, málefni aldraðra, fátæks fólks, öryrkja, barnafjölskyldna. Að bæta félagslega stöðu hópa sem um langt skeið hafa farið halloka, að styrkja innviði samfélagsins, eins og það heitir, að fyrirmynd annarra Norðurlanda. Þetta var og er ákall þjóðarinnar og um þetta voru stjórnmálamenn, flokkar og frambjóðendur sammála.  Og hvert stefnir.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára liggur fyrir og bíður loka umfjöllunar þingsins. Í henni kristallast sýn stjórnvalda. Þar er kalli þjóðarinnar því miður ekki svarað. Ekki er krónu bætt við i barnabætur eða vaxtabætur, úrræði sem gagnast ungu fólki best.  Um enga raun aukningu er að ræða í fjármunum sem renna eiga til aldraðra umfram eðlilega fjölgun í þessum hópi.  Öryrkjar munu áfram búa við bág kjör, krónu á móti krónu skerðingunni verður ekki aflétt að óbreyttu.  Heilbrigðisþjónustan býr við stefnuleysi sem jaðrar við öngþveiti. Sjúkratryggingar Íslands gera samninga um þjónustu út og suður með ómarkvissum hætti og án þarfagreiningar. Á sumum sviðum sárvantar þjónustu en á öðrum er kraninn galopinn.  Stofnanir í heilbrigðiskerfinu sem reyna að halda uppi lögbundnum verkefnum segja hátt og skýrt: Það er boðað áframhaldandi undanhald og niðurskurður.  Þau segja öll sömu söguna, allt í kringum landið: Við getum ekki haldið uppi óbreyttri þjónustu ef ríkisstjórnin breytir engu. Landspítalinn, langstærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnunin fullyrðir til dæmis, að strax á næsta ári vanti um fimm og hálfan milljarð svo halda megi sjó.

Endurspeglar þetta vilja þúsundanna í aðdraganda kosninga, þær skoðanir sem fram komu í sögulegri undirskriftasöfnun um átak í heilbrigðisþjónustu?

Nei, herra forseti, þjóðin vill nýjar áherslur, áherslur sem miða að umbótum fyrir efnalítinn almenning í landinu. Það var ekki kallað eftir skattalækkunum sem þessi ríkisstjórn lét verða sitt fyrsta verk að samþykkja og afsalar sér þar með 13 milljörðum króna, það var kallað eftir samfélagslegum umbótum. Það endurspeglar ekki heldur vilja þjóðarinnar að færa stærstu og fjársterkustu útgerðum landsins 3 milljarða í lækkuðum veiðigjöldum. Fyrir þá peninga væri strax hægt að stíga stór skref og aflétta skerðingum hjá öryrkjum.

Það er kallað eftir stefnu sem miðar að velferð og afkomulegu öryggi fyrir alla landsmenn. Við viljum áfram tilheyra fjölskyldu Norðurlanda og vera hluti hins norræna velferðarkerfis sem flestar þjóðir heims horfa til með aðdáun. Núverandi stjórnvöld stefna í aðra átt, í átt til einhvers konar frjálslyndisstefnu þar sem velferðin er skilyrt með háaum skerðingum og lágum frítekjumörkum.  Í dag er það í raun hlutskipti aldraðra og öryrkja að þeir geti hvorki unnið eða sparað.  Þeir séu um leið komnir í heljargreipar skerðinga. Þessu verður að linna.

Um 70% aldraðra eru með tekjur undir framfærsluviðmiðum. Af þeim sem búa einir og standa illa að vígi eru 70% konur, konur sem hafa unnið láglaunastörf við umönnun og önnur þjónustustörf og þeirra bíður fátækt.

Það er sama hvar borið er niður í málefnum almannatrygginga og í lífeyrismálum. Ísland rekur lestina alls staðar meðal Norðurlandanna og það dregur í sundur.  Það er ekki tilviljun, það er pólitísk stefna og ákvarðanir stjórnvalda sem ráða, þessi ríkisstjórn viðheldur óbreyttu ástandi.

Ef við snúum ekki við blaðinu nú þegar, ef við sýnum ekki merkin í þeirri fjármálaáætlun sem við ætlum að afgreiða í þessari viku, þá stimplum við okkur út úr norræna velferðarmódelinu.

Herra forseti,  endurspeglar það vilja landsmanna, ég held ekki.

Ágúst Ólafur í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 4. júní. Ágúst Ólafur Ágústsson tók til máls í annari umferð.

 

Kæru landsmenn

Það er nokkuð sérkennileg tilfinning að vera kjörinn aftur á Alþingi eftir 8 ára fjarveru. Ýmislegt hefur breyst en annað ekki. Eftir hrun var ákall um meiri samstöðu inni á þingi og eru mikil loforð í stjórnarsáttmálanum um samráð og eflingu þingsins.

Það er því mjög sorglegt að sjá að núverandi ríkisstjórn hefur í engu breytt hinum hvimleiða skotgrafahernaði stjórnmálanna.

Mig langar að spyrja kjósendur Vinstri grænna heima í stofu nokkurra spurninga.

Kusu þið Vinstri græn fyrir rúmum sex mánuðum svo þau gætu fellt tillögur í þessum sal um hækkun barnabóta eða vaxtabóta?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu fellt tillögur um aukna fjármuni til Landspítalans og til sjúkrahúsa út á landi?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu fellt tillögur um fjármuni til úrbóta í meðferð kynferðisbrota?

Kusu þið Vinstri græn, svo þau gætu slegið skjaldborg utan um dómsmálaráðherra sem braut lög að mati Hæstaréttar?

Og kusu þið Vinstri græn, svo ljósmæður, af öllum stéttum, þurftu að standa í mánaðarlöngum deilum við ríkisstjórnina um mannsæmandi kjör?

Mig langar einnig að spyrja kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem eru að fylgjast með þessari umræðu.

Kusu þið þessa flokka svo þeir gætu fellt tillögur um aukna fjármuni til aldraða og öryrkja?

Og kusu þið þessa tvo flokka svo þeir gætu fellt tillögur um aukna fjármuni í framhaldsskólana og í nauðsynlegar samgöngubætur?

 

Kæru landsmenn

Þessar tillögur hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír allir fellt, þvert á vilja ykkar.

Mér sýnist að þessir þrír stjórnmálaflokkar og sérstaklega Vinstri græn hafi gjörsamlega misst alla tengingu við kjósendur sína og þjóðina.

Þetta gerist vart skýrar en þegar þau vilja nú forgangsraða hagsmunum kvótagreifa og skattakónga fram yfir aldraða, öryrkja og barnafjölskyldur.

 

Kæru landsmenn

Ég hef velt fyrir mér að undanförnu á hvaða vegferð samfélagið okkar er eiginlega.

Förum yfir 4 staðreyndir:

Númer eitt: 26 bankamenn, sem að stærstum hluta vinna hjá ríkisbanka, fá einn milljarð í laun á ári. Þetta er upphæð sem er einn tíundi á því sem ríkisstjórnin tímir að setja í allar barnabætur landsmanna og er einn fjórði af því sem sett er í allar vaxtabætur almennings.

Númer tvö: Forstjórar hefðbundinna íslenskra kauphallarfyrirtækja eru með 1-2 milljónir í laun, á viku! Á viku.

Númer þrjú: Útgerðarmaður gengur nýlega út með 22 þúsund milljónir í vasanum vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Númer fjögur: 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% Íslendinga á.

Auðvitað á fólk að uppskera eins og það sáir. En ekki gera ljósmæður það og ekki gera kennarar, lögreglumenn eða eldri borgarar það heldur.

Við erum ein þjóð í þessu landi. En hér er að myndast sjálftökustétt ofurlaunamanna, sem langflestir eru yfirlýstir Sjálfstæðismenn.

Almennur kjósandi Sjálfstæðisflokksins ætti að íhuga þá staðreynd og spyrja sig hvort þeir eigi að veita þessum flokki sérhagsmuna brautargengi.

 

Kæru landsmenn

Verkefnin eru ærin.

Við erum með vaxandi þunglyndi og fíknivanda meðal þjóðarinnar en í hverri viku er framið sjálfsvíg í okkar litla landi.

Um 6.000 börn líða skort en Öryrkjabandalag Íslands kallaði nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ávísun á fátækt og eymd. Ávísun á fátækt og eymd.

Þá erum við með framkvæmd útlendingastefnu sem oft jaðrar við mannvonsku og gjaldmiðil sem gagnast eingöngu fjármagnseigendum og peningaprentsmiðjunni á Englandi.

Það er allt of dýrt að lifa á Íslandi, hvort sem litið er til matvæla, húsnæðis eða jafnvel peninga.

En Ísland er 11. ríkasta land í heimi.

Þetta þarf því ekki að vera svona en til að hlutirnir geti breyst þarf þjóðin að senda þessa ráðherra heim.

 

Takk fyrir

Oddný í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 4. júní en Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar tók fyrst til máls.

 

Herra forseti góðir landsmenn

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur starfað í sex mánuði. Ríkisstjórnin fékk mikinn stuðning í fyrstu enda átti hún að hafa breiða skírskotun og sætta sjónarmið frá vinstri til hægri. Flokkarnir höfðu lofað miklu fyrir kosningar og almenningur batt vonir við að efndirnar létu ekki á sér standa.

Nú sex mánuðum síðar hefur stuðningurinn minnkað umtalsvert og skýr mynd teiknast upp af ríkisstjórninni. Skýr mynd af bandalagi um sérhagsmuni.

Glöggt dæmi um sérhagsmunagæslu er sá stuðningur og sú skjaldborg sem slegin var um embættisfærslur dómsmálaráðherra við geðþóttaákvörðun um skipan dómara í Landsrétt, sem hún hafði þó verðið dæmd fyrir af hæstarétti og síðan áformin um lækkun þeirra gjalda sem útgerðin greiðir fyrir heimildina til að nýta auðlind þjóðarinnar.

Forsætisráðherra sagði fyrir kosningar að stjórnmálamenn þyrftu að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og gagnrýndi þáverandi ríkisstjórn harkalega fyrir að láta öryrkja og aldraðra bíða eftir mannsæmandi kjörum og fyrir dekur við auðmenn.

Eftir kosningar segir hún hins vegar umræður um aukinn jöfnuð og traust vera áhugaverðar og bregst hratt og örugglega við kalli útgerðarmanna um lægri veiðigjöld á meðan aðrir þurfa að bíða.

Þetta er sláandi því Sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa hagnast um 300 milljarða króna á síðustu 8 árum. Fyrirtækin hafa greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað mikið.

Ríkisstjórnin ætlar að rétta úrgerðinni  tæpa 3 milljarða og stórútgerðinni bróðurpartinn af því fé, stórútgerðinni sem sannarlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar.

Ríkisstjórnin er ekki eins snögg að hlaupa undir bagga með þeim sem minnst hafa handa á milli og býður upp á áframhaldandi hokur og skammarleg kjör á meðan ójöfnuður er í hröðum vexti.

Ójöfnuður, hvort sem litið er til tekna eða eigna er að aukast hér á landi. Það er óheillaþróun sem ýtir undir ósætti í samfélaginu.

Ríkustu 10% þjóðarinnar tóku til sín nær helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á árinu 2016 svo dæmi sé tekið og þeir allra ríkustu stærsta hlutann.

Ef stjórnvöld vildu í alvöru jafna leikinn, ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vildi draga úr ójöfnuði, þyrfti hún að beita bæði skatta- og bótakerfinu í þá veru. Fleiri skattþrep, hærri persónuafsláttur, þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur og stóreignaskattur á umtalsverðar eignir, slá á ójöfnuð. Aukið vægi barnabóta og húsnæðisbóta eru önnur mikilvæg jöfnunartæki sem stjórnvöld geta beitt.

En vill ríkisstjórnin jafna leikinn?

Svarið við þeirri spurningu er að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Og svarið er nei. Það á ekki að jafna leikinn á þessu kjörtímabili.

Barnabætur verða alltof lágar og húsnæðisstuðningur afar veikburða. Húsnæðisvandinn stendur óleystur og bætur almannatrygginga verða áfram rýrar.

Í eldhúsdagsumræðum fyrir ári síðan fjallaði núverandi forsætisráðherra einmitt um það sem gera þyrfti til að auka jöfnuð. Þá sagði hún orðrétt: „Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig. Kannski vill ríkisstjórnin hafa það þannig. Ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur, skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum og Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni af sanngirni til þjóðarinnar.“ Þetta voru hennar eigin orð 29. maí 2017.

Og ég var þá – svo innilega sammála Katrínu Jakobsdóttur og þess vegna hryggir mig áhrifaleysi hennar sem forsætisráðherra sem engu kemur í gegn um ríkisstjórn sína í þessum efnum nema málamyndabreytingum á fjármagnstekjuskatti með litlum ávinningi fyrir ríkissjóð sem  verður svo að engu strax á næsta ári.

En þrátt fyrir þær skattkerfisbreytingar sem stendur skýrum stöfum í fjármálaáætluninni að standi til, sem gefa þeim ríkustu þrisvar sinnum meira en þeim sem minnst hafa, vitum við ekki með vissu hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, því ráðherrar tala út og suður. Fjármálaráðherrann, vill alls ekki bótavæða samfélagið, eins og hann kallar þá norrænu velferð sem flestir landsmenn vilja sjá. Hann heldur sig við fjármálaáætlunina og segir að hærri skattur á auðmenn komi ekki til greina. En forsætisráðherrann veltir vöngum og talar óljóst um eitthvað annað, án þess þó að slá á fingur fjármálaráðherrans.

Herra forseti góðir landsmenn

Stærsta sameiginlega verkefni mannskyns nú um stundir er að finna leiðir til að draga úr hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í viðbrögðum við lofslagsvánni. Og ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar eins og útlit er fyrir, verður íslenska ríkið að kaupa losunarheimildir á alþjóðamarkaði. Það mun valda okkur fjárhagslegu tjóni en ekki síður ímyndartjóni. Við höfum stært okkur af orkuskiptum við húshitun og endurnýjanlegum orkugjöfum í okkar hreina fallega Íslandi. Sú ímynd er á hröðu undanhaldi.

Súrnun sjávar, hlýnun hafsins, hækkandi yfirborð sjávar, plastmengun í hafinu og rányrkja eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti og þar ættum við að vera í fararbroddi.

„Að flytja inn bensín á Íslandi er eins og að flytja inn fisk“ var á dögunum haft eftir fyrrverandi loftlagsstjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðir stjórnvalda verða að virka til að draga úr bensín og dísilnotkun hér á landi og við aðkallandi orkuskipti í samgöngum. Og aðkoma ríkisins að uppbyggingu borgarlínu og eflingu almenningssamgangna um allt land er nauðsynleg.

Við í Samfylkingunni köllum eftir meiri metnaði í aðgerðum stjórnvalda í loftlagsmálum.

Við köllum einnig eftir raunverulegum aðgerðum sem auka jöfnuð og bæta kjör þeirra sem minnst hafa.

Við köllum eftir sanngjarnara skattkerfi sem stendur undir velferðarsamfélagi sem er fyrir alla og að enginn verði skilinn eftir.

Við köllum eftir nýju stjórnarskránni með auðlindaákvæði sem ver þjóðina fyrir bandalagi um sérhagsmuni.

Góðar stundir

Kosningakaffi og kosningavökur

Í kosningunum á laugardaginn mun hvert einasta atkvæði skipta máli. Hér fyrir neðan má sjá hvar og hvenær kosningakaffi og kosningavökur framboða Samfylkingarinnar eru.

 

Reykjavík

Á kjördag verður kosningakaffi Samfylkingarinnar í Víkingsheimilinu í Traðarlandi frá kl. 13.30-17.30.Kosningavaka XS Reykjavík verður í Austurbæ á Snorrabraut 37 (áður Austurbæjarbíó).Við ætlum að hittast og fagna saman góðri og öflugri kosningabaráttu og fylgjast með úrslitum á stórum skjá. Boðið er upp á akstur á kjörstað í síma 6240031.

Húsið opnar kl. 21:00.

Mosfellsbær

Kosningakaffi á kosningaskrifstofunni  í Þverholti 3 frá kl 9-18 á laugardaginn en  einnig verður opið fram að kosningavökunni sem verður haldin á sama stað kl.22.

Ef þig vantar akstur á kjörstað hringdu í síma 8694116.  

 

Akureyri

Kosningakaffi í Brekkuskóla

Hið margrómaða kosningakaffi Samfylkingarinnar fer fram í Brekkuskóla á kosningadag, laugardaginn 26. maí kl. 14-17. viljum við minna á akstursþjónustu okkar á kjördag fyrir þá sem þurfa. Símanúmerið er 660-7981.Komdu í hressilegt kosningapartí á kosningaskrifstofu okkar á annarri hæð í verslunarsmiðstöðinni Sunnuhlíð laugardagskvöldið 26. maí. Úrslit kvöldsins á stóru tjaldi. Fjörið hefst kl. 21. Öll velkomin.

 

Kópavogur

Kosningakaffið okkar er í Hamraborg 11, austursal Kaffi Catalínu, milli 14-17, og kosningavaka á sama stað frá kl. 9.

Fyrir akstur á kjörstað, hafið samband í síma 611-2393.

 

Akranes

Kosningakaffið á laugardag verður í Tónbergi kl. 14-18 og svo verður kosningavaka á Stillholtinu frá kl. 22.00.

Ef þig vantar akstur á kjördag, hringdu þá í Valgarð í síma 8970547.

 

Árborg

Á kjördag verður kosningarskrifstofan okkar Eyravegi 15 Selfssi opin frá kl 09:00 um morguninn. Kosningarvakan hefst kl 21:00 og verður fram eftir kvöldi. Léttar veitingar og skjávarpi.Kjördagsþjónusta og akstur í síma 623 5732.

Allir velkomnir og hvattir til að mæta.

 

Húsavík

Kosningakaffi milli 14:00 og 18:00 á Garðarsbraut 39 og kosningavaka um kvöldið klukkan 22:00 á sama stað.

 

Hafnarfjörður

Kosningakaffi 10 til 18 á Strandgötu 43.Kosningavaka hefst  20:00.

Samfylkingin í Hafnarfirði býður kjósendum upp á akstur á kjörstað á kjördag.

Sími: 7669458.Við bjóðum einnig uppá akstur fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

 

Vopnafjörður

Kosningakaffi á Hótel Tanga frá klukkan 14 til 17 og kosningavaka í fiskmarkaðinum klukkan 20:00.

 

Grindavík

Kosningakaffi í kosningamiðstöðinni Víkurbraut 27 frá klukkan 11:00 og kosningavaka í Kvikunni menningarhúsi frá klukkan 17:00

 

Seltjarnarnes

Kosningavakan er á Rauða Ljóninu frá klukkan 21:00.Kosningakaffið á eftir að ákveða en verður í hjólhýsinu.

 

Reykjanesbær

Kosningakaffi á kosningamiðstöðinni á Hafnargötu 12 frá klukkan 11:00 og kosningavaka á sama stað. Boðið er upp á akstur á kjörstað í síma: 6981404.

 

Borgarbyggð

Kosningakaffi verður í Englendingavík frá klukkan 13:00 til 19:00 og kosningavaka á sama stað klukkan 20:00.