Almennar fréttir

Stöndum vörð um vinnu, velferð og heilbrigði landsmanna!

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í efnahags og viðskiptanefnd lagði fram nefndarálit í gær við frumvarp ríkisstjórnarinnar um frestun gjalddaga. Samfylkingin studdi frumvarpið svo langt sem það nær, en benti á að fleira þarf að koma til. Samfylkingin leggur þunga áherslu á að fleiri aðgerðir fylgi í kjölfarið og sem fyrst, ekki einungis til að styðja við rekstur fyrirtækja í landinu heldur einnig rekstur heimila.

Samfylkingin leggur til að eftirfarandi aðgerðir verði metnar strax :

 1. Bankar í eigu ríkisins komi til móts við fyrirtæki með aðgengi að lánum og greiðslufrestum. Hugsanlega getur ríkið beitt eigendastefnu til að hafa áhrif á þá stöðu.
 2. Sérstakur sjóður verði settur á fót til að tryggja sjálfstætt starfandi fólki sem missir vinnu vegna minni eftirspurnar, veikinda eða einangrunar tekjur á meðan ástandið varir.
 3. Fólki verði auðveldað að endurfjármagna húsnæðislán til að lækka greiðslubyrði heimila.
 4. Atvinnulausum verði veittur frestur til að greiða vexti og afborganir af húsnæðislánum.
 5. Hækka atvinnuleysisbætur.
 6. Tryggingagjald verði lækkað meira einkum hjá litlum fyrirtækjum.
 7. Skoðað verði að fresta einnig greiðslu á virðisaukaskatti 5. apríl.
 8. Ráðist verði í opinberar fjárfestingar sem skapa fjölbreytt störf, fyrir konur og karla með mismunandi menntun og bakgrunn. Lögð verði sérstök áhersla á grænar fjárfestingar og uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu.
 9. Fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði stóraukið.
 10. Fjármagni verði beint til skóla og símenntunar til að gefa fólki tækifæri á að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði á meðan hagkerfið tekur við sér.

Þessar aðgerðir og margar fleiri koma til álita í glímunni við þær efnahagslegu áskoranir sem blasa við.

Stöndum vörð um vinnu, velferð og heilbrigði landsmanna!

Hér má lesa nefndarálitið:

https://www.althingi.is/altext/150/s/1125.html

Opinn fundur í kvöld kl. 20 um stöðuna í efnahagsmálum

STAÐAN Í EFNAHAGSMÁLUM – Hvað er til ráða?

Efnahagsnefnd Samfylkingarinnar efnir til opins fundar miðvikudaginn 4. mars kl. 20.00 á Hilton í sal H.

Frummælendur verða:
• Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
• Drífa Snædal, forseti ASÍ
• Sigurður Hannesson, framkv.stj. Samtaka iðnaðarins

Fundarstjóri verður Bolli Héðinsson hagfræðingur, formaður efnahagsnefndar Samfylkingarinnar.

Fundurinn verður á Hótel Hilton í sal H og allir eru velkomnir.
Gengið er inn að aftan, sami inngangur og er merktur Hilton Spa, ef gengið er inn um aðalinngang hótelsins er farið upp á 2. hæð.

Hvernig læknum við heilbrigðiskerfið – opinn fundur í Iðnó

Samfylkingin bauð til fundar um heilbrigðismál í IÐNÓ á miðvikudagskvöldið 29. febrúar. Fundurinn var vel sóttur enda liggur mikið við þar sem við stöndum frammi fyrir hættuástandi á bráðamóttöku Landspítala og heilbrigðisstofnanir eru vanfjármagnaðar um land allt.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis stýrði fundinum og opnaði hann með því að segja aðeins frá hennar vinnu í velferðarnefnd síðustu vikur, en nefndin hefur varið miklum tíma í það frá áramótum að kynna sér stöðuna í heilbrigðiskerfinu til þess að fá mynd á það hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu sem hefur myndast.

Henný Hinz hagfræðingur ASÍ fór yfir fjármögnun heilbrigðiskerfisins í tölum og gröfum sem gaf mjög góða mynd af þróuninni í gegnum árin og sýnir fram á það að það er ekki um neina sérstaka stórsókn í heilbrigðismálum að ræða. Hún sýndi einnig fram á það hvernig við höfum dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að útgjöldum til heilbrigðisþjónustu. 

Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðadeild Landsspítalans lýsti ástandinu á spítalanum á afar lifandi hátt. Lýsingarnar voru ekki fallegar. Hún gaf mynd af bráðadeild þar sem þrengslin eru þvílík og ástandið óboðlegt, hvort sem er fyrir sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólk eða aðstandendur. Ekki má mikið út af bregða svo að illa fari. Margt spilar inn í þessar aðstæður en það er ekki síst skortur á hjúkrunarfræðingum sem er stóri vandinn. Fimmti hver hjúkrunarfræðingur er hættur að starfa við hjúkrun fimm árum eftir útskrift. Það segir mjög margt og greinilegt að þar er pottur brotinn. Hjúkrunarfræðingar hafa setið eftir í kjarasamningum í mörg ár og kjarasamningar hafa verið lausir nú í 10 mánuði. Hjúkrun er erfitt starf sem á að vera launað í samræmi við þá menntun sem hjúkrunarfræðingar hafa og það álag sem þeir vinna undir. 

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar fór yfir nokkrar leiðir sem hægt væri að fara til þess að bæta ástandið en hann telur að endurskipulagning á öllu kerfinu sé nauðsynleg. Við eigum að nýta heilsugæslurnar okkar betur og endurhugsa hvernig við nýtum sérfræðinga við langtímameðferðir.

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og það er greinilega mikill hugur og mikill metnaður í okkar fólki að hér verði byggð upp öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla óháð efnahag og búsetu.

 

Saman um róttækar aðgerðir í loftslagsmálum

Í gær fór fram leiðtogafundur norrænna jafnaðarmanna (SAMAK) í forsætisráðherrabústaðnum Marienborg, Danmörku. Þema ráðstefnunnar voru lausnir og aðgerðir í loftslagsmálum.

Logi Einarsson, sækir fundinn fyrir hönd Samfylkingarinnar. Aðrir leiðtogar sem sækja fundinn eru m.a. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Store, formaður norska verkamannaflokksins og Antti Rinne, formaður jafnaðarmanna í Finnlandi.

Sérstakir gestir fundarins eru Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs – stundum kölluð móðir sjálfbærrar þróunar – og Nicolas Schmit, framkvæmdarstjóri félags- og vinnumarkaðsmála Evrópusambandsins.

„Fundurinn að þessu sinni var allur helgaður loftlagsmálum. Við ræddum róttækar aðgerðir til að minnka losun en um leið nauðsyn þess að aðgerðir bitnuðu ekki á þeim hópum sem höllum fæti standa í samfélaginu. Þetta var mjög gott samtal og samtakamátturinn augljós.”” sagði Logi eftir fundinn.

Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt á fundinum:

Saman um róttæka og réttláta loftslagsstefnu

Staðan er alvarleg. Norðurskautið bráðnar, skógareldar og flóð verða sífellt tíðari, þurrkar og afleiðingar þeirra s.s. hungursneyð verða til þess að fleiri leggjast á flótta. Þetta gerist á okkar vakt, við berum ábyrgð sem einstaklingar og samfélag.

Norræna jafnaðarmannahreyfingin mun vera í fararbroddi róttækrar loftslagsstefnu og knýja fram réttlátt og grænt samfélag.

Til að ná markmiðum okkar þarf víðtækan stuðning og samtakamátt á öllum Norðurlöndunum. Aðgerðirnar verða að vera réttlátar. Engin önnur leið er möguleg. Það væri með öllu óásættanlegt ef að þeir sem minnst eiga í samfélaginu þyrftu að leggja mest af mörkum til grænni og öruggari framtíðar.

Við getum notað norræna módelið sem skapalón; víðtækt samstarf stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins, á landsvísu og í nærumhverfi. Stjórnmálin bera höfuðbyrgð. En verkalýðshreyfingin og atvinnulífið munu spila risastórt hlutverk ef við eigum að geta dregið nægilega úr kolefnislosun og skaðlegum áhrifum iðnaðar og framleiðslu á náttúruna. Neysla og framleiðsla orku þarf að verða grænni.

Í þessu liggja spennandi tækifæri til nýsköpunar í tækni og fjölbreyttara atvinnulífs. Öll getum við búist við að verða fyrir áhrifum, frá og með deginum í dag. Nauðsynlegt er að umbreyta hvernig við lifum, búum og ferðumst um. Áskoranir hvað varðar loftslagsvá og náttúruvernd eru nátengdar; við verðum að standa vörð um fjölbreytileika náttúrunnar og lífríki hafs og vatna. Við verðum að minnka plastneyslu og matarsóun – og svo margt fleira. Til þess þurfum við að breyta hugarfari okkar, hvert og eitt.

Norðurlöndin verða að taka forystu. Við eigum að gera allt til að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna.

Við höfum bæði styrk og vilja til þess að tryggja að Norðurlöndin verði brautryðjendur í loftslagsmálum. Jafnaðarmannaflokkar og verkalýðshreyfingar Norðurlandanna munu vinna saman að lausnum fyrir réttláta loftslagsstefnu.

Mette Frederiksen, formaður Socialdemokratiet (DK)

Stefan Löfven, formaður Socialdemokraterna Sverige

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Jonas Gahr Støre, formaður Arbeiderpartiet (NO)

Antti Rinne, formaður Socialdemokratiska Parti (FI)

Karl-Petter Thorwaldsson, formaður LO Sverige

Jarkko Eloranta, formaður Fackförbunds Centralorganisation (FI)

Hans-Christian Gabrielsen, formaður LO Norge

Lizette Risgaard, formaður Fagbevægelsens Hovedorganisation Danmark

Logi Einarsson og Stefan Löfven fyrir framan Marienborg.

 

Hvernig læknum við heilbrigðiskerfið?

Samfylkingin boðar til fundar í IÐNÓ næsta miðvikudag klukkan 20:00 um heilbrigðismál. Nú stöndum við frammi fyrir hættuástandi á bráðamóttöku Landspítala og heilbrigðisstofnanir eru vanfjármagnaðar um land allt. Á þessum fundi ætlum við að ræða af hverju staðan er eins og hún er hvað getum við gert til þess að breyta þessu.

Dagskrá fundarins
• Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis stýrir fundinum
• Henný Hinz hagfræðingur ASÍ
• Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur
• Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar

• Spurningar og umræður

Öll velkomin

Oddný um fiskveiðistjórnunarkerfið

Hér má lesa ræðu sem Oddný G. Harðardóttir hélt í sérstakri umræðu á Alþingi um fiskveiðistjórnunarkerfið:

 

Herra forseti

Fiskveiðistjórnunarkerfið okkar er meingallað, það hyglir fáum, vinnur gegn nýliðun og gerir ekki miklar kröfur á þá sem fá leyfi til að fénýta sjávarauðlindina. Auk þess er eftirlitið veikt.

„Bölvun auðlindanna“ er þekkt hugtak í hagfræði. Þetta kann að hljóma einkennilega en spilling er böl sem getur oft verið fylgifiskur skjótfengins gróða sem miklar náttúruauðlindir geta skapað.  Ísland býr yfir ríkulegum sjávarauðlindum og þessi bölvun vofir yfir okkur líkt og Namibíu.

Það hlýtur því að vera viðfangsefni okkar stjórnmálamanna að sjá til þess að kerfið sem við setjum um nýtingu þessara auðlinda, bæði hvað varðar úthlutun nýtingaleyfa sem og verðlagningu þeirra, verði sem gagnsæjast og byggi á jafnræði.  Pólitískar ákvarðanir um veiðigjöld og úthlutanir bjóða spillingunni heim.

Og í þessu ljósi eigum við að líta á allar ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið um nýtingarleyfi og auðlindagjöld og gera breytingar til að takmarka spillingarhættuna. Það er ákveðin vendipunktur í umræðum um auðlindanýtinguna nú þegar spillingarhættan verður svo sýnileg með Samherjaskjölunum.

Við í Samfylkingunni höfum í nær tvo áratugi, eða allt frá stofnun flokksins, lagt fram tillögur um sanngjarnara og gegnsærra kerfi. Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og bjóða út sérleyfin í viðráðanlegum skrefum og útfæra tilboðsleiða með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Ég vil benda hæstvirtum ráðherra og þeim stjórnarþingmanni háttvirtum sem talaði hér áðan á að útboðsskilyrði á markaði eru algeng.

Við höfum einnig lagt til að aukinn ávinningur gangi beint til sveitarfélaganna í landinu.

Það er hægt að laga gallað kerfi. Vilji er allt sem þarf.

Ræða Loga í umræðum um stöðuna í stjórnmálum

Hér má finna ræðu Loga Einarssonar í umræðu um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan á Alþingi.

Herra forseti, talsmenn ríkisstjórnarinnar stæra sig gjarnan af því að ráðist í viðamikla lífskjarasókn, innviðauppbyggingu og unnið stórafrek í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.

Skoðum nú aðeins hvað hefur raunverulega gerst frá því að ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við?

 • Hagvöxtur er horfinn og atvinnuleysi hefur tvöfaldast.
 • Það ríkir neyðarástand bráðamóttökunni og heilbrigðiskerfið allt er vanfjármagnað.
 • Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist.
 • Málefni útlendinga eru í ólestri.
 • Veiðileyfagjöld eru orðin helmingi lægri en þegar ríkisstjórnin tók við.
 • Öryrkjar og eldri borgarar hafa dregist enn lengra aftur úr öðrum hópum.
 • Dómskerfið okkar er í uppnámi og Ísland er á gráum lista.

Þetta er staðan þrátt fyrir að á undanförnum misserum höfum við Íslendingar búið við einstaka efnahagslega velsæld.

Við í Samfylkingunni höfum reynt að standa vaktina – og bent á að velferðin nær ekki til allra. Á meðan fjöldinn allur af fólki berst í bökkum verða örfáir ríkari og ríkari.

Ríkisstjórnin gefur raunar engin fyrirheit um raunverulegar breytingar í þágu jöfnuðar – og hana skortir alla framtíðarsýn. Hún hefur fengið næg tækifæri og við vitum nú hverjar áherslur þessarar ríkisstjórnar eru, þegar stutt er eftir af kjörtímabilinu.

Herra forseti,

Fyrir kosningarnar voru heilbrigðismálin stærsta málið. Kjósendur allra flokka settu þau í fyrsta sæti. En þrátt fyrir að hæstvirtur heilbrigðisráðherra hafi réttlætt veru VG í ríkisstjórninni með því að þau ætluðu að bjarga heilbrigðiskerfinu, blasir við ófögur mynd.

Enn er ósamið við fjölmennar kvennastéttir sem vinna gríðarlega mikilvæg störf við óboðlegar aðstæður. Að undanförnu hefur líka dregist upp mynd af Landspítalanum sem ekki er hægt að sætta sig við. Þá er heilbrigðisþjónustu víða á landsbyggðinni ógnað, jafnvel á stöðum sem reynslan sýnir að geta verið einangraðir frá höfuðborginni svo dögum skiptir.

Hæstvirtur ráðherra. Fimm prósent aukning á fjármunum til Landspítalans á þremur árum getur ekki talist sú stórsókn sem vænst var.

Sama á við í menntamálum. Þrátt fyrir stórkostlegar yfirlýsingar menntamálaráðherra um aðra stórsóknina þar hafa raunútgjöld til framhaldsskóla dregist saman og framlög til háskóla staðið í stað. Við erum því enn aðeins hálfdrættingur á við nágranna okkar á Norðurlöndunum.  Það sem er alvarlegt við þessa skammsýni er að fjárfesting í menntun er lang líklegasta trygging okkar fyrir því að við getum áfram verið samkeppnishæf í heimi sem er að taka stórkostlegum breytingum.

Menntun er ekki aðeins forsenda þess að við getum nýtt okkur möguleikana sem felast í tæknibyltingunni – ekki aðeins nauðsynleg þar sem lausnir á stærstu áskorunum mannkyns leynast í þekkingu – hún er auk þess líkleg til að skila okkur upplýstara og heilbrigðara samfélagi.

Auk fjárfestinga í sjálfum skólunum þurfum við líka að gera betur við ungt námsfólk sem mun bera uppi lífsgæði okkar næstu áratugina.

Menntun er mikilvægt jöfnunartæki. Og við tölum gjarnan um að veita öllum börnum jöfn tækifæri – en gerum við það?

Fjórðungur barna fá ekki viðunandi hjálp heima – innflytjendur hér koma mun verr út en á hinum Norðurlöndunum. Hvort sem horft er til fyrstu eða annarrar kynslóðar. Þetta eru börn fólks sem hefur lagt þungt lóð á vogaskálar efnahaglífsins. Börn sem búa við fátækt koma einnig verr út. Markmiðið okkar þarf að vera að ungt fólk hafi sem jöfnust tækifæri þegar þau koma út í lífið að skóla loknum.

Atburðir vetrarins hafa líka sett kastljósið á byggðaójöfnuð í landinu – sem verður einnig að leiðrétta. Óveður síðustu vikna með ófullburða rafmagnsdreifikerfi og snjóðflóðin hafa dregið þetta skýrt fram. Niðurstöður PISA-könnunarinnar reyndar líka.

Við getum og eigum að þróa samfélag þar sem allir landsmenn eiga sannarlega möguleika  á góðri heilbrigðisþjónustu, fyrsta flokks menntun, ásættanlegum samgöngum og annarri samfélagslegri þjónustu. Því miður skortir enn á það, eins og fjölmörg dæmi sýna. Og til þess að ná því dugar ekki það hálfkák sem málamiðlanir ósamstæðrar ríkisstjórnar fæða af sér.

Það er nefnilega ekki nóg að slá um sig með metnaðarfullum markmiðum í stjórnarsáttmála og ræðum. Það þarf líka að hafa hugmyndauðgi og framsýni til að setja fram skýrar aðgerðir og hafa kjark og samtakamátt til að fylgja þeim eftir

Við þurfum ríkisstjórn sem tryggir fólki aukið öryggi og hverjum einstakling tækifæri til að rækta hæfileika sína, sér og öðrum til hagsbóta. Fámenn þjóð hefur einfaldlega ekki efni á öðru en gera öllum sem vettlingi geta valdið kleift að leggjast á árar.

Herra forseti.

Stærsta málið sem heimurinn stendur frammi fyrir er hlýnun jarðar. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum kalla á festu, framtíðarsýn og skipulagi langt fram í tímann. Við verðum að setja okkur metnaðarfyllri og tímasett markmið – festa þau í lög og tryggja að aðgerðir séu að fullu fjármagnaðar. Þær geta verið íþyngjandi fyrir fólk til skamms tíma. Og því er mikilvægt að í ríkisstjórn sé nægilega kjarkað fólk til að fylgja loftslagsaðgerðum eftir en er jafnframt meðvitað um mikilvægi þess að verja veikustu hópa samfélagsins fyrir áhrifum þeirra, þótt allir verði að leggja sitt af mörkum.

Framtíðaráskoranir eins og loftslagsbreytingar og tæknibyltingin eiga eftir að hafa áhrif á líf okkar, vinnu og velsæld. Næstu ár verða að vera helguð því að tryggja öllum viðunandi kjör og að breytingarnar hafi meiri jöfnuð og hamingju í för með sér.

Stytting vinnuvikunnar er nærtækt í því samhengi. Um er að ræða risastórt kjaramál sem hefði jákvæð áhrif á umhverfið og yki velsæld. Þá er ég ekki bara um korter eða hálftíma, heldur jafnvel heilu vinnudagana. Til þess þurfum við þó að setja okkur langtímamarkmið – og vinna markvisst að þeim.

Herra forseti

Sitjandi ríkisstjórn er kolfallinn samkvæmt öllum könnunum. Og þótt kannanir séu eitt og kosningar annað er ekki vafamál að almennt hefur fólk ekki traust eða trú á að ríkisstjórnarsamstarf um kyrrstöðu og skaðaminnkun sé rétta svarið.

Vafalaust getum við öll náð saman um mörg stór hagsmunamál – og gerum það endilega!

En mörgum af okkar stærstu áskorunum getum við aldrei mætt á fullnægjandi hátt með málamiðlunum ósamstíga flokka.

Að vísu virðast ríkisstjórnarflokkarnir furðu samstíga í varðstöðu um óréttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi, gamaldags landbúnað – sem skilar mörgum bændum sultarkjörum – og veikan gjaldmiðil – sama hvað hann kostar launafólk – og framsækin nýsköpunarfyrirtæki.

En flokkar sem telja aukinn jöfnuð eftirsóknarverðan, vilja taka aðgerðir gegn hamfarahlýnun fastari tökum og mæta framtíðinni af meiri áræðni verða að mynda saman næstu ríkisstjórn.

Það er nefnilega kominn tími til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust, velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar, og stjórna á eigin forsendum.

Nú er kominn tími á samstilltari, djarfari og víðsýnni stjórn, án Sjálfstæðisflokksins – fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.

Samfylkingin er tilbúin í það verkefni.

 

 

Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun 13 breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 upp á 20 milljarða. Tillögur Samfylkingarinnar eru að öllu leyti fjármagnaðar.

Fjárlagafrumvarpið opinberar vanmátt ríkisstjórnarinnar til að takast á við ójöfnuð annars vegar og framtíðina hins vegar. Félagslegir innviðir samfélagsins eru vanræktir, heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar fá raunlækkanir og barnafólk og örykjar skildir eftir. Í stað þess að styrkja tekjustofna í efnahagsuppgangi og búa í haginn er nú gerð aðhaldskrafa á opinbera grunnþjónustu. Samfylkingin lýsir þar að auki yfir vonbrigðum með metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en einungis 2% af fjárlögum er ráðstafað í umhverfismál.

„Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þau sem standa höllum fæti“ – Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

 

Framtíðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og loftslagsbreytinga.

 1.     Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: 4 milljarðar
 2.     Menntun: 3 milljarðar
 3. Háskólar (m.a. HÍ, LHÍ, HR, Bifröst og HA) 2 milljarðar.
 4. Framhaldsskólar 1 milljarður.
 5.     Rannsóknir og þróun: 1 milljarður
  1. Áhersla á Tækniþróunarsjóð, Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð.
 1.     Nýsköpun og skapandi greinar: 1 milljarður
  1. Endurgreiðsla rannsóknar og þróunarkostnaðar fyrirtækja um 700 milljónir.
 2. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar um 300 milljónir.
 3.     Almenningssamgöngur: 1 milljarður

Velferðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að verja velferðina.

 1.     Barnafjölskyldur: 2 milljarðar kr.
  1. Helmingi meiri aukning í barnabætur.
  2. Lengingu fæðingarorlofs flýtt.
 2.     Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri: 2 milljarðar kr.
 3.     Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni: 600 milljónir
 4.     Hjúkrunarheimili: 800 milljónir kr.
 5.   Málefni aldraðra: 2 milljarðar
 6.   Málefni öryrkja: 2 milljarðar
  1. Þessi upphæð er tvöfalt hærri en sú viðbót sem ríkisstjórnin ver til öryrkja.
 7.   Löggæsla: 400 milljónir
  1. Þessi upphæð er sama upphæð og fyrirhugaður niðurskurður ríkisstjórnarinnar til almennrar löggæslu.
 8.   Framlög til SÁÁ: 200 milljónir
  1.      Til að eyða biðlistum sem hafa aldrei verið lengri.

Tillögurnar, sem telja 20 milljarða kr. breytingu, yrðu fjármagnaðar m.a. með auknum tekjum af fiskveiðiauðlindinni (4ma), tekjutengdum auðlegðarskatti (6ma), kolefnisgjaldi (1ma), hækkun fjármagnstekjuskatts (4ma) og skattaeftirliti (5ma).

 

 

 

Hlustaðu á upplýsandi nýja hlaðvarðsþætti um mál í brennidepli

Við kynnum með stolti Stjórnmálaspjallið, nýja hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Óskars Steins Jónínusonar Ómarssonar, varaforseta Ungra jafnaðarmanna.

Í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins ræðir Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson við Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um málefni hælisleitenda og útlendinga. Helga Vala hefur sterkar skoðanir og víðtæka þekkingu á málefninu, en hún starfaði m.a. sem lögmaður fyrir hælisleitendur áður en hún tók sæti á Alþingi.

Hér má hlusta á þáttinn, en hann er einnig kominn á Spotify.

 

Stjórnmálaspjallið:
hælisleitendur og útlendingar

Meðferð stjórnvalda á albanskri konu sem vísað var úr landi í síðustu viku stangast á við fjölda laga og alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins.

 

Hugsum smátt-fyrst

Smiðurinn – saumakonan – gistihúsaeigandinn – forritarinn – múrarinn og listamaðurinn.

Kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf er grunnurinn að góðri og öflugri almannaþjónustu, sem við reiðum okkur á allt lífið. Það vill alltof oft gleymast að langflest þessara fyrirtækja eru agnarlítil og rekin af harðduglegu fólki sem rekst áfram af áhuga á starfinu, hugsar fyrst og fremst um að skapa sjálfu sér og öðrum atvinnu en heldur í leiðinni uppi nærþjónustu um allt land.

Við sjáum þetta fólk allt í kringum okkur. Oft lætur það eigin laun sitja á hakanum til að ná að borga starfsmönnum sínum, veðsetur jafnvel persónulegar eigur til að halda rekstrinum gangandi og er með kvíða um mörg mánaðamót. Mörg geta ekki leyft sér að taka eðlilegt sumarfrí, nema endrum og sinnum. Við höfum ekki lagt nóga rækt við að búa þessum fyrirtækjum góð skilyrði. Megináherslur stjórnmálanna hafa snúist of mikið um stórfyrirtækin, stórkarlalega uppbyggingu og rekstrarumhverfi þeirra.

Samt skila ör- og smáfyrirtæki stórum hluta vergrar landsframleiðslu. Í ýmsum Evrópuríkjum er unnið út frá þumalputtareglunni „think small first“, það er að segja „hugsum smátt, fyrst“. Við alla mótun og ákvarðanir sem snúa að atvinnulífinu, ekki síst lög og reglugerðir, eru þarfir lítilla fyrirtækja hafðar að leiðarljósi. Þetta er hugsun sem við ættum að tileinka okkur í ríkara mæli hér á Íslandi líka. Einhæft atvinnulíf felur í sér of stóra áhættu, ekki síst fyrir lítið land en það er auk þess síður til þess fallið að mæta þeim væntingum sem ungt fólk gerir til lífsins í dag. Það mun bera uppi lífskjör okkar næstu áratugina og við verðum að búa svo um hnútana að það telji eftirsóknarvert að starfa hér, í samtíma þar sem það getur valið nánast allan heiminn til búsetu.

Við þurfum því að skjóta sterkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf. Annars vegar verðum við að bæta skilyrði þessara örfyrirtækja, sem ætla sér ekkert endilega að stækka en eru þó hjarta allra bæja og gera þá byggilega. Hins vegar þurfum við að auka veg nýsköpunarfyrirtækjanna, sem byggja oft á hugviti, eru oft metnaðarfull og vilja stækka. Þau hafa reynst hinum hefðbundnari atvinnugreinum ómetanleg í sókn þeirra til meiri verðmætasköpunar en geta líka með nýrri tækni horft á allan heiminn sem markað sinn. Þessi fyrirtæki þurfa að verða stærri þáttur í atvinnulífi okkar til framtíðar.

Þess vegna hef ég, ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja. Þar ber helst að nefna aukna lækkun tryggingagjalds, sérstaklega á lítil fyrirtæki, einfaldara og skýrara regluverk og sérstakan stuðning við fyrirtæki sem byggja á hugviti.

Við eigum að hugsa smátt – fyrst.

Logi Einarsson

Greinin birtis í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. nóvember.