Almennar fréttir

Ályktun framkvæmdarstjórnar um upptökurnar af Klaustri

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar fordæmir ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem féllu á veitingastaðnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Hegðun af því tagi er engum sæmandi og allra síst kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga.

Sárt er að verða vitni að samtali sem opinberar slíka mannfyrirlitningu. Vandséð er hvernig hægt sé að ætlast til þess að samstarfsfólk þingmannanna á Alþingi vinni með þeim á ný — ekki síst ef haft er í huga að afsökunarbeiðnir viðkomandi þingmanna hafa að mestu einkennst af undanbrögðum frekar en iðrun. Upptökurnar eru jafnframt, og því miður, til vitnis um bakslag í jafnréttisbaráttu kynjanna, í baráttu kvenna, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Það er grátlegt að jaðarsettir hópar þurfi að sitja undir slíkum árásum enn þann dag, sér í lagi af hálfu þeirra sem setja lög í landinu um réttindi þeirra og kjör.

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar telur að vegna framgöngu sinnar og viðbragða séu viðkomandi þingmenn rúnir trausti. Óskandi væri að þeir settu virðingu Alþingis og traust á stjórnmálum í landinu ofar eigin hag, og segðu af sér þingmennsku.

Samfylkingin er flokkur jafnaðarmanna og málsvari mannréttinda, jafnréttis og kvenfrelsis, og lítur á þannig á það sem hlutverk sitt að styðja við og valdefla þá hópa sem jaðarsettir eru í samfélaginu.

Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði leitar að framkvæmdastjóra

Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði leitar af jafnaðarmanni með góða þekkingu á Norðurlöndum og norrænum stjórnmálum. Viðkomandi þarf að vera með mikla skipulagshæfileika, reynslu af stjórnmálastarfi og fjármálastjórnun ásamt því að vera með viðeigandi menntun. Mikilvægt er að hafa mikla þekkingu á verkalýðshreyfingum á Norðurlöndum og forsenda ráðningar er að vera skráður í jafnaðarmannaflokk á Norðurlöndum.

Hlutverk framkvæmdastjóra er margþætt og felur í sér að leiða stjórnmálastarf innan flokkahópsins, starfa sem ráðgjafi og tengiliður fyrir fulltrúa hans, ásamt því að bera ábyrgð á rekstri og upplýsingamiðlun.

Framkvæmdastjóri sér um að skipuleggja starfsemi og fundi flokkahópsins, samhæfir og fylgir eftir stjórnmálastarfi og heldur utan um verkefni starfsmanna flokkahópsins. Hann þarf einnig að vera vakandi yfir málum og hagsmunum flokkahópsins innan Norðurlandaráðs og sjá um upplýsingamiðlun.

Framkvæmdastjóri vinnur sjálfstætt eftir stefnumörkun stjórnar flokkahópsins. Starfið krefst þess að viðkomandi hafi möguleika á því að ferðast töluvert.  

Vinnutungumálið er eitt af þremur skandínavísku tungumálunum, sænska, danska eða norska; önnur tungumálakunnátta er kostur.

Vinnustaðurinn er staðsettur í danska þinghúsinu í Kaupmannahöfn, en þar í borg eru einnig skrifstofur Norðurlandaráðs og Norrænu Ráðherranefndarinnar.

Laun eftir samkomulagi.

Umsóknir berist með tölvupósti á formann flokkahópsins Martin kolberg martin.kolberg@stortinget.no fyrir 1. febrúar 2019. Martin Kolberg svarar jafnframt spurningum um starfið í síma +47 907 75 258.

Í Flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði sitja þingmenn frá Norðurlöndunum fimm ásamt sjálfstjórnarlöndunum þremur.

Móttaka og meðferð kvartana vegna eineltis og áreitni

Við minnum á að Samfylkingin hefur mótað stefnu og verklag til að takast á við tilkynningar um einelti og hvers kyns áreitni eða ofbeldi. Auk þess hafa siðareglur flokksins verið uppfærðar. Ráðist var í þessa vinnu til að geta komið til móts við ákall samfélagsins um breytingar í kjölfar #metoo-byltingarinnar.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar kynnti varaformaður okkar, Heiða Björg Hilmisdóttir, nýtt verklag og er það afrakstur mikillar vinnu sem hefur farið fram frá landsfundi, þar sem ákveðið var að endurskoða siðareglur og að móta stefnu flokksins svo hægt sé að bregðast við tilkynningum með skilvirkustum hætti.

Trúnaðarnefnd hefur tekið til starfa ásamt trúnaðarmönnum Samfylkingarinnar sem skipaðir voru af framkvæmdastjórn auk aðila sem kosnir voru á flokksstjórnarfundi. Tekið er á móti erindum til trúnaðarnefndar með hverjum þeim hætti sem málshefjandi velur. Í gegnum tölvupóst á netfang nefndarinnar, munnlega, skriflega, á formlegum fundi eða í óformlegu samtali. Allt í samræmi við siðareglur flokksins.

Öllum fulltrúum flokksstjórnarfundarins var gert að skrifa undir yfirlýsingu um að þau heiti því að sýna ætíð háttvísi og virðingu í samskiptum hvert við annað, við umbjóðendur flokksins og samstarfsfólk.

Þarna erum við komin með verklag til að taka við umkvörtunum eða ábendingum um ótilhlýðilega háttsemi á framfæri og setja þær þar með í formlegan, málefnalegan farveg sem leiðir til réttlátrar niðurstöðu.

Við í Samfylkingunni getum verið stolt af því að við erum búin að svara kalli um að vera flokkur sem tekur þessi mál alvarlega.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Pétur Hrafn nýr formaður Sveitarstjórnaráðs Samfylkingarinnar

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi úr Kópavogi var kjörinn formaður stjórnar Sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar á aðalfundi þess sem fór fram í Reykjavík föstudaginn 12. október s.l. Hann tekur við formennsku af Ólafi Þór Ólafssyni sem hefur verið formaður frá árinu 2014. Í stjórn með Pétri voru kjörin Guðrún Ögmundsdóttir frá Reykjavík, Magni Þór Harðarson frá Fjarðabyggð, Ólafur Þór Ólafsson úr Sameiginlegu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis og Silja Jóhannesdóttir úr Norðurþingi.

Ræða Loga á flokkstjórnarfundi

Kæru félagar.

Við höfum öll mismunandi sýn á lífið og það gerir tilveruna margslungna, fjölbreytta og dásamlega.

Hins vegar lita aðstæður, hvers og eins, frásögnina og það finnst því miður allt of margt fólk sem býr við svo slæmar aðstæður að myndin sem það dregur upp verður óhjákvæmlega dökk, og því finnst ekkert benda til þess að hún muni breytast.

Ástæðurnar geta verið margar – fátækt – sjúkdómar – fordómar. Við eigum erindi við þetta fólk.

Eitt af því sem gerir mannkynið eins öflugt og raun ber vitni, er hæfileikinn til að segja flóknar sögur – aðrar og stærri en þær sem felast í staðreyndum hversdagsins og deila þeim hvert með öðru.

Við getum sagt sögur um tækni sem er ekki til staðar – samfélög sem finnast ekki enn þá – teiknað upp drauma sem heilla milljónir um allan heim.

Fólk af mismunandi þjóðerni, stéttum, trúarbrögðum – sem aldrei hefur hist – og mun líklega aldrei gera það, finnst það eiga eitthvað sameiginlegt og er tilbúið til að vinna að sama markmiði.

Við deilum t.d. þeirri sannfæringu, með hundruðum milljóna, að jafnaðarstefnan geti skapað mannkyninu betri og friðsælli framtíð – ekki fyrir suma heldur alla.

Við vitum vel að draumurinn raungerist ekki á stuttum tíma, með einni aðgerð, í einu landi. Það krefst þvert á móti þrotlausrar vinnu, samstöðu og stöðugs endurmats í síbreytilegum heimi.

Við þurfum að hafa skýra áætlun um hvað þarf til að gera hann að veruleika. – Annars verður draumurinn ekkert annað en örlítil friðþæging, sem yljar okkur í brauðstritinu.

Þó við séum auðvitað ósköp smá í alþjóðlegu samhengi, gegnir Samfylkingin mikilvægu hlutverki í þessari alþjóðlegu hreyfingu.

Nærtækasta verkefnið er auðvitað að tryggja jafnari og betri lífsskilyrði hér á landi en við þurfum líka að vera virkir samherjar í alþjóðlegri baráttu gegn stærstu ógnum samtímans: Ójöfnuði – ófriði og loftlagsvánni.

Samfylkingin er ekki hreyfing sem sprettur upp vegna tilfallandi aðstæðna eða dægurmála sem verða umdeils í samtímanum en gufar fljótt upp.

Við erum hluti af meira en 100 ára fjöldahreyfingu sem berst fyrir því að allt fólk búi við ásættanleg lífsskilyrði, geti lifað með reisn og erum sífellt að þróa verkfæri í þeirri baráttu.

Um leið og við erum þakklát þeim sem undan okkur voru og unnu áfangasigra, höldum við sem erum nú á vettvangi, baráttunni áfram. Og jafnvel þó okkur finnist stundum miða of hægt og við náum ekki öllum markmiðum, er góð tilfinning að vita að nýjar kynslóðir munu taka við og færa okkur nær markinu.

Þess vegna eigum við aldrei að láta glepjast af stundarhagsmunum, fara út af sporinu, ganga gegn grunngildum vegna mála sem eru einungis til þess fallin að skapa flokknum stundarávinning í kosningum.

Samfylkingin mun á endanum uppskera ef hún víkur ekki af leið umburðarlyndis, frelsis og samhjálpar.

Við eigum nefnilega skapalón sem við getum alltaf notað við ákvarðanatöku: Mun ákvörðunin gagnast þeim sem höllum fæti standa; hjálpar hún börnum, stuðlar hún að meiri jöfnuði, gagnast hún komandi kynslóðum – og ef svarið er já er ákvörðun oftast auðveld.

Kæru félagar,

Fyrir 10 árum ríkti hér hálfgert neyðarástand, eftir að bankarnir hrundu. Afleiðingar þess eru okkur öllum ljósar og enn hafa ekki allir jafnað sig á þeim.

Það var þungt og erfitt verkefni að koma landinu í skjól, m.a. með erfiðum ákvörðunum sem Samfylkingin þurfti að taka í ríkisstjórn en reyndust afgerandi.

Vissulega snérist vinna ríkisstjórnar Jóhönnu fyrst og fremst um að verja almenning; að bjarga því sem bjargað varð en þó einnig leggja grunninn að efnahagsbata, sem nú hefur skilað sér í fordæmalitlu hagvaxtarskeiði undanfarin ár.

Ýmislegt lagðist auðvitað með okkur og aðrir flokkar eiga líka sinn þátt. Makríllinn synti inn í lögsöguna og ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr. Síðast en ekki síst var það þó æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.

Þótt miklu hafi verið áorkað náðum við ekki að klára stór mál – við gengum ekki í Evrópusambandið og tókum ekki upp stöðugri gjaldmiðil – náðum ekki að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilar þjóðinni réttmætum arði og við búum enn við úrelta stjórnarskrá.

Allt eru þetta mál sem eru enn mikilvæg og við munum berjast fyrir áfram.

Allir stærstu sigrar jafnaðarmann hafa líka krafist þrotlausrar baráttu í langan tíma og í stjórnmálum er þolinmæði vanmetin dyggð.

Ágætu félagar

Nú þegar þjóðarskútan er komin á réttan kjöl, skiptir miklu máli að það sé tekinn nýr kúrs og stefnan sett á samfélag sóknar og jöfnuðar. Átök íslenskra stjórnmála næstu árin munu snúast um hvert skal halda.

Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað þarf að gera og hefur allt aðra hugmynd um það en höfuðandstæðingur okkar á hægri vængnum. Þess vegna er mikilvægt að við náum vopnum okkar og verðum nægilega stór til að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.

Auðvitað væri þó best að við kæmumst í stjórnarráðið strax á morgun – það bíða nefnilega mikilvæg verkefni.

Við þurfum að Koma á réttlátari skattbyrði til að draga úr vaxandi ójöfnuði og bæta þannig stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks og beita til þess klassískum aðferðum jafnaðarmanna.

Vinna að upptöku Evru, eins og meirihluti Íslendinga vill, samkvæmt nýjustu könnunum, – með aðild að Evrópusambandinu.

Með stöðugri gjaldmiðli gætu fjölskyldur sparað sér tugi þúsunda í hverjum mánuði og notið sambærilegra lífskjara og íbúar hinna Norðurlandanna. Fyrirtækin, ekki síst á sviði nýsköpunar, fengju öruggara rekstrarumhverfi.

Rétta hlut unga fólksins sem er að hefja sín fyrstu búskaparár og eignast börn. Þessi hópur verið skilinn eftir á hagvaxtarskeiði síðustu ára. Þau hafa ekki notið ávinning þess og eru læst inni á ómanneskjulegum húsnæðismarkaði; geta ekki keypt og varla leigt.

Þetta er þó kynslóðin sem mun bera uppi íslenskt samfélag næstu áratugi og það er afgerandi að við búum betur að þeim ef við eigum yfir höfuð að geta vænst þess að þau hafi áhuga eða möguleika á að búa og starfa hér.

Og ég sleppi ekki að nefna að sjálfsögðu myndum við tafarlaust ráðast í aðgerðir til að stöðva nýðingsskap sem viðgengst á vinnumarkaðnum. – Ekki síst gegn erlendu fólki, sem hingað kemur til að bæta lífskjör sín og skilar auk þess ómetanlegu framlagi til lífskjara okkar.

Kæru félagar, hér hafa alltof margir verið skyldir eftir og ekki notið góðæris síðustu ára.

Samfylkingin tekur því einarða afstöðu með launafólki sem býr sig nú undir harða kjarabaráttu í vetur. Hún ætti ekki að koma neinum á óvart – á meðan við sem erum hálaunafólk höfum fengið miklar launahækkanir er fólkið með verstu kjörin enn að bíða.

Ríkisstjórninn segir ekkert svigrúm handa fólki sem hefur ekki efni á mat ef bíllinn bilar – getur ekki sent börnin sín í tómstundastarf – þarf að neyta sér um læknisþjónustu eða veit varla hvar það mun búa eftir örfáa mánuði.

Hér búa 50.000 manns á ómannskjulegum leigumarkaði og þúsundir barna líða skort. Það er ósköp skiljanlegt að krafa launþegahreyfingana sé jafnari kjör.

Kæru félagar, við verðum líka að horfa enn lengra fram í tímann – nokkra áratugi.

Samfélag okkar er að taka stakkaskiptum og mannkynið stendur frammi fyrir foræmalitlum samfélagsbreytingum. Þjóðin er að eldast og sífellt færri munu þurfa að standa undir aukinni verðmætasköpun. Gríðarlegar tækniframfarir og sjálfvirkni munu kollvarpa öllu hinu daglega lífi eins og við þekkjum í dag.

Við munum ekki geta staðið gegn þeim og verðum að finna leiðir nýta þær okkur í hag – og það gætu þær vissulega gert.

– Þær gætu aukið framleiðni, sem er nauðsynleg til að takast á við lýðfræðilegar breytingar.
– Gert okkur kleift að framleiða vistvænni vörur sem er forsenda þess að við getum tekist á við loftlagsvandann.
– Skapað okkur betri og fjölskylduvænni lífsskilyrði og minnkað ójöfnuð milli fólks.

Verði ekki brugðist markvisst við þessum breytingum gætu stærstu áskoranir mannkyns orðið óviðráðanlegar – leitt til hruns siðmenningarinnar og stefnt öllu lífi á jörðinni eins og við þekkjum það í voða.

Samfylkingin mun þess vegna taka fullan þátt í vinnu nýrrar framtíðarnefndar þingsins, sem ætlað er að draga upp nokkrar sviðsmyndir af Íslandi næstu áratugina. – En við munum jafnframt móta eins róttækar aðgerðir og þörf er á til að tryggja ávinning af þeim.

Þrennt þurfum við t.d. örugglega að gera.

Í fyrsta lagi: Til þess að vinna gegn hlýnun jarðar, sem ógnar lífi á jörðinni, verður að fara leið jafnaðarmanna en ekki leið hægri aflanna. Þau trúa að markaðurinn muni leysa þetta af sjálfum sér en við vitum að skýr lög, reglur og grænir hvatar, sett af stjórnvöldum eru nauðsynleg forsenda umhverfisverndar sem dugar í þessari baráttu.

Í öðru lagi verðum við að fjárfesta miklu meira í menntun ef lífskjör hér á landi eiga að standast samanburð við þau lönd sem við berum okkur saman við – við höfum ekki efni á því að bíða.

Í framtíðinni þarf nýsköpun að verða lykilþáttur í öllum atvinnugreinum og mikilvægt að við ölum upp sem flesta einstaklinga sem geta horft á hlutina úr nýjum og óvæntum áttum.

Eiginleikar eins og frumkvæði og skapandi, djörf hugsun verða afgerandi og þess vegna þarf að þróa skóla sem laða fram og styrkja þessa þætti nemenda. – Leggja enn meiri áherslu á raun- og tæknigreinar, menningar- og listnám.

Öflugur stuðningur við nýsköpun er bæði nauðsynlegur til að halda samkeppnishæfi gagnvart öðrum þjóðum en ekki síður til að skapa möguleika breyttara atvinnulíf í stað þess að treysta um of á einhæft atvinnulíf og stór fyrirtæki.

Það er hvorki skynsamlegt til að því að treysta byggðir landsins eða tryggja stöðugt efnahagslíf, eins og dæmin sanna því miður alltof vel.

Í þriðja lagi þurfum við strax að endurhugsa skattkerfið með tilliti til þeirra miklu breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á vinnumarkaðnum.

Þegar mörg fyrirtæki munu geta framleitt vörur með færri vinnandi höndum, mun núverandi fyrirkomulag þar sem hver vinnustund er skattlögð, ekki duga.

Horfa verður til þess hvort greiða eigi skatt af róbótum, framleiðslueiningum eða finna aðrar leiðir. Við getum a.m.k. ekki látið allan ávinning nýrrar tækni renna til eigenda fjármagnsins og framleiðslutækjanna. – Það yki ójöfnuð og rýrði getu stjórnvalda til að tryggja öfluga velferð fyrir alla.

Sífellt fleiri viðurkenndar alþjóðlegar rannsóknir sýna að samfélögum, þar sem jöfnuður er mikill, vegnar betur. Þau eru friðsamari, fjölbreyttari og samkeppnishæfari – þessvegna eigum við mikið starf fyrir höndum!
Fleira þarf auðvitað að koma til en umfram allt verðum við að hætta að sitja alltaf föst í viðbrögðum; berja sífellt í brestina eins og aðkoma þingsins að laxeldismálinu sýndi kannski glögglega

Það gildir ekki síður um viðbrögð vegna úrelts landbúnaðarkerfis, gallaðrar stjórnarskrár, byggðaröskunar vegna sölu á kvóta eða kostnaði af óstöðugum gjaldmiðli sem launafólk í landinu þarf ævinlega að bera.

Við þurfum þvert á móti að vera opin, djörf og þora að gera róttækar grundvallarbreytingar.

Þá gildir að vera framsækin ekki íhaldssöm og umfram allt taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana – og við þurfum að hafa kjark til þess.

Kæru félagar,

það er yndislegt að vera staddur á jafn fjölmennum flokkstjórnarfundi, þar sem línurnar eru lagðar.

Samfylkingin er á blússandi siglingu – við náðum prýðilegu kjöri í kosningunum í vor og stýrum mörgum öflugum sveitarfélögum. Landsflokkurinn mælist nú næst stærsti flokkur landsins og við stefnum hiklaust að því að að verða enn stærri og öflugri.

Orðið mannauður kemur auðvitað fyrst upp í hugann þegar maður lítur yfir salinn.

Þið hafið verið ódrepandi – í grasrótarstarfi – í sveitarstjórnum – á Alþingi – í kaffitímum í vinnunni – að tala fyrir jafnaðarstefnunni og mikilvægi Samfylkingarinnar.

Það var kannski ekki svo auðvelt eða sjálfgefið þegar gekk sem verst.

En það er í mótvindi sem best kemur í ljós úr hverju fólk er gert og þið sýnduð sannarlega úr hverju þið eruð.

Rekstur stjórnmálaflokks er ekki einungis vettvangur pólitískrar deiglu og málefnavinnu, þó það skipti auðvitað mestu máli – það þarf líka að reka fjöldahreyfingu sem starfar um allt land.

Án ykkar hefði skrifstofunni á Hallveigarstíg að öllum líkindum verið lokað eftir kosningarnar 2016 og starfið koðnað niður.

Það voru framlög hins almenna flokksmanns sem héldu dyrunum opnum – og auðvitað Gerða sem var um tíð ekki bara skrifstofustjóri heldur í raun framkvæmdarstjóri og skúraði auk þess gólf þegar segja þurfti upp ræstingarþjónustu, vegna peningaleysis.

Sóknarátak flokksins hefur skilað 17 milljónum auk þess sem kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa líka lagt mikið fé að mörkum. Samkvæmt ný samþykktum ársreikningi er rekstrarviðsnúningur félagsins um 60 milljónir króna og reksturinn á öruggu róli.

Nú erum við auk þess búin að ráða öflugt starfsfólk og ekkert því til fyrirstöðu að sækja óhikað fram.

Þetta er ykkur að þakka kæru félagar og fyrir það er ég þakklátur!

En mest af öllu er ég þakklátur fyrir að þið gáfust ekki upp á að trúa því að Samfylkingin væri réttur vettvangur til að elta drauminn – um betri heim fyrir alla.

Og að lokum; kærar þakkir fyrir að vera svona helvíti skemmtileg – það skiptir líka heilmiklu máli.

Samfylkingin leggur fram umbyltingu í þágu barna

Samfylkingin hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun fyrir árin 2019– 2022, til að styrkja stöðu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Málið er ein umfangsmesta tilaga í málefnum barna á Ísland og hljóti hún samþykki verður það umbylting í málaflokknum. 49 aðgerðir eru lagðar fram sem ætlað er að styrkja stöðu barna. Aðgerðirnar byggjast meðal annars á rétti barna eins og hann er skilgreindur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og lögð er til samræming og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna. Áhersla er lögð á forvarnir, varnir gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum og á bætta stöðu barna innflytjenda, barna með þroskafrávik og langveikra barna. Á samt því að lögð er áhersla á fjölskylduvænni vinnumarkað, styttri vinnuviku, lengra fæðingaorlof og betri barnabætur. Oddný G. Harðardóttir mælti fyrir málinu í þinginu í gær.

„Við viljum með tillögunni setja málefni barna í forgang og skilja ekkert þeirra útundan. Við teljum mjög aðkallandi að gera tímasetta og fjármagnaða áætlun til að bæta hag og líðan barna hér á landi.“

Oddný G. Harðardóttir, fyrsti flutningsmaður

Meginatriði aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:

 

  •      Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda þeirra eða fötlunar.
  •      Flutt verði frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði.
  •      Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, meðal annars með því að hækka barnabætur  og sjá til þess að fleiri fjölskyldur fái barnabætur, nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum og niðurgreiddan hádegismat og að aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi verði bætt, ekki síst þeirra er búa við veikan fjárhag. Umgengnisforeldrum verði tryggður stuðningur til framfærslu og umgengni við börn sín.
  •      Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu og í heilbrigðiskerfinu.
  •      Aukinn verði stuðningur við langveik börn og börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.
  •      Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
  •      Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin.
  •      Unnið verði að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.
  •      Áhersla verði lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.
  •      Forvarnastarf gegn hverskyns ofbeldi og vanrækslu verði eflt og stuðningur jafnframt aukinn við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.

Hérna má nálgast tillöguna í heild sinni með ítarlegri greinargerð: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=13

 

Gerum líf fólks auðveldara og ódýrara-ræða Ágústs

Ræða Ágústs Ólafs Ágústssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

 

Kæru Íslendingar Í þessari viku mun einn Íslendingur deyja vegna ofneyslu lyfja. Í þessari viku mun einn Íslendingur fremja sjálfsvíg. Í þessari viku búa 6000 íslensk börn við fátækt og í þessari viku búa um hundrað eldri borgarar á spítalanum því önnur úrræði eru ekki fyrir hendi.

Þetta er sorglegur vitnisburður um annars ágætt samfélag.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Við erum einungis 350 þúsund á þessari eyju og við erum 11. ríkasta land í heimi.

Við þurfum ekki láta eldri borgara þessa lands og fjölskyldur þeirra búa við óvissu og bág kjör.

Við þurfum ekki refsa öryrkjum fyrir að vinna.

Við þurfum ekki að setja minni fjármuni í háskólana okkar en það sem nágrannaþjóðir okkar gera. V

ið þurfum ekki láta ljósmæður fara í kjaradeilu.

Við þurfum ekki að láta löggæslu og samgöngur drappast niður.

Við þurfum ekki að hafa samfélag þar sem ríkasta 1% landsmanna á meira en 80% þjóðarinnar.

Við þurfum ekki að hafa bæjarstjórann í Þorlákshöfn með hærri laun en borgarstjórinn í London.

Við þurfum ekki að lækka veiðileyfagjöld helmingi meira en það sem stendur til að hækka persónuafslátt fólks.

Og við þurfum ekki að vera eitt dýrasta land í heimi.

Kæru Íslendingar Þetta er ekki spennandi ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn sérhagsmuna og stólakaupa. Engin prinsipp eru hjá ríkisstjórninni, hvort sem litið er til hvalveiða, kjaradeilu ljósmæðra, skipun dómara, utanríkisstefnu eða velferðarmála. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fá sjúkrahúsin og lögreglan minna en það sem þörf er á. Enn eru eldri borgarar og sjúklingar á biðlistum en þið hafið mörg hver kynnst því eða munu gera það í náinni framtíð, að þurfa að bíða eftir eðlilegum úrræðum fyrir ykkur sjálf eða aldraða foreldra ykkar og þá er sáralítil aðstoð við Alzheimersjúklinga í okkar ríka samfélagi. Enn eru meðferðarúrræði, jafnvel fyrir börnin okkar, af of skornum skammti, öryrkjum er ennþá refsað fyrir samfélagsþátttöku sína og þá er húsnæði ennþá allt of dýrt.

Kæru Íslendingar Komist Samfylkingin til valda lofum við því að breyta þessu samfélagi til batnaðar fyrir venjulegt fólk, en ekki bara suma, eins og þessi ríkisstjórn gerir.

Samfylkingin mun hlúa að eldri borgurum og að unga fólkinu.

Samfylkingin mun aldrei sætta sig við samfélag þar sem einn Íslendingur deyr á viku vegna ofneyslu lyfja.

Samfylkingin vill burt með verðtrygginguna og háa vexti en það gerist best með nýjum gjaldmiðli.

Samfylkingin vill nýja stjórnarskrá fólksins og berjast gegn alþjóðlegum fasisma og þröngsýni.

Samfylkingin vill setja hagsmuni neytenda, nýsköpunar og smáfyrirtækja í forgrunn en ekki hagsmuni Mjólkursamsölunnar og stórútgerðar.

Og þá vill Samfylkingin frjálst samfélag þar sem frelsi fjármagnsins hefur ekki forgang heldur frelsi frá fátækt.

Kæru Íslendingar Við höfum allt til alls á landinu okkar ef við viljum. Hættum að dekra við sérhagsmuni og sjálftökuliðið eins og þessi ríkisstjórn gerir. Hlúum að hinum venjulega Íslendingi og gerum líf hans og hennar auðveldara og ódýrara.

Til þess eru almennileg stjórnvöld. Þessi ríkisstjórn er það hins vegar ekki.

Veljum framsækni fram yfir íhald- ræða Loga

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

Herra forseti, það eru blikur á lofti. Ýmislegt bendir til að við séum á leið aftur niður í dal eftir að hafa verið á tindi hagsveiflu í langan tíma. Komandi mánuðir eru afgerandi.

Stjórnvöld undanfarinna ára hafa ekki nýtt fordæmalítið svigrúm til að jafna kjörin nægilega og auka félagslegan stöðugleika.

Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það í besta falli gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, m.a. okkar.

Undanfarið hefur stjórnmálafólk, ólíklegustu flokka, sagt að stjórnvöld eigi ekki að blanda sér of í kjarasamninga – það sé hlutverk launþega og atvinnurekenda.

Stjórn ríkis er hins vegar ekki eins og hver annar sjoppurekstur og hlutverk stjórnvalda er að skapa öllum landsmönnum viðunandi aðstæður og öryggi.

Þess vegna þurfa stjórnvöld að koma með afgerandi hætti að lausn samningana framundan.

Ég gagnrýni hins vegar seinaganginn og vara við þeirri aðferð að nota sífellt slík útspil sem skiptimynd á síðustu stundu – félagshyggjustjórn hefði kynnt slík áform strax í stjórnarsáttmála

Stjórnvöld síðustu ára hafa hins vegar fremur unnið þannig að það þyngi samningsgerð – þau hafa hrifsað ávinning af launahækkunum, með frystingu persónuafsláttar og lækkun barna- og vaxtabóta, ekki bætt kjör aldraðra og öryrkja nægilega.

Forsætisráðherra sagði í ræðunni að stigin væru mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggðu að þau tekju- og eignamestu leggðu meira af mörkum. Skrefin eru hins vegar alltof lítil.

Síðustu fimm ár hefur Samfylkingin lagt fram tillögur við afgreiðslu fjárlaga sem snúast um þetta –hækkun barnabóta, hækkun vaxtabóta en tekjuöflun á móti með t.d. auðlindagjöldum – en þær hafa allar verið felldar samhljóða af stjórnarmeirihlutum – líka þessari ríkisstjórn.

Það er vissulega framför að ríkisstjórnin taki í einhverjum atriðum undir með Samfylkingunni í nýjum fjárlögum en þetta eru þó bara hænufet sem óvíst er að skili nokkru vegna óstöðugs gjaldmiðils.

Það leiðir hugann að því hversu skynsamlegt það er, þegar öllu er á botninn hvolft, að halda fram gagnsemi og jafnvel nauðsyn breiðrar ríkisstjórnar, flokka, sem eru í grundvallaratriðum ósammála um bæði leið og jafnvel markmið.

Nú verður auðvitað hver að svara fyrir sig en ég trúi ekki á leiðangur sem gengur út á of mikla eftirgjöf frá grundvallargildum, við kjöraðstæður, til að breyta samfélaginu í þágu jöfnuðar og réttlætis.

Það er nefnilega einungis gleðin yfir áfanganum – samvistir fjölskyldunnar, sem skapar ljúfar minningar um undarlega samsetningu á matardiski í fermingarveislu.

Roastbeef, graflax, lamb, rauðkál, rækjuhlaup með brúnni sósu, saman á disk, er ekki í áhugavert í sjálfu sér.

Stjórnmál verða að fara að snúast um framtíðarsýn; hvers konar samfélag er skynsamlegt og siðlegt og hvaða leið er rétt að því marki.

Ég veit að þar greinir okkur á. en þó það sé alveg ljóst að hrogn og súkkulaði eru hvort tveggja uppistaða í rétti – er ólíklegt að hráefnin henti í sömu uppskrift.

Stjórnmál eiga ekkert að vera huggulegur selskapsklúbbur, þar sem augljóst er að allir eigi eða geti unnið saman í ríkisstjórn, þó við getum sýnt hverju öðru kurteisi og sameinast um einstök góð mál,

Við getum t.d. stutt við mótun frekari loftlagsaðgerða en ekki sætt okkur við of lítið fé til sjúkrahúsþjónustu, metnaðarleysi í menntamálum eða ömulegt úrræðaleysi í húsnæðismálum. Og aldrei óréttlatt skattkerfi, þar sem ekkert er tekið á vaxandi eignaójöfnuði.

Það þarf að stíga mikið róttækari skref í átt að jöfnuði til að hægt sé að hefja lífskjarasókn fyrir alla. Búa launafólki, öldruðum og öryrkjum fjárhagslegt öryggi og félagslegt svigrúm. Gera velferðar- og heilbrigðisþjónustu ódýrari.

Herra forseti. Ungt fólk hefur t.d. ekki notið uppgangs síðustu ára. Það hefur verið skilið eftir þrátt fyrir að vera lykillinn að farsælli framtíð okkar. Við þurfum stórsókn í húsnæðismálum sem tryggir þeim og tekjulágu fólki hagkvæmar íbúðir til kaups og leigu á viðráðanlegum kjörum. Hækka barna- og húsnæðisbætur meir og draga úr skerðingum. Lengja fæðingarorlof eins og alltof lengi hefur verið lofað. Umfram allt verðum við að fjárfesta í menntun. Það er afgerandi á tímum mikilla tækniframfara og breytinga á aldursamsetningu þjóðarinnar.- Annars drögumst við aftur úr öðrum þjóðum Góðir skólar eru undirstaða öflugs atvinnulífs, þar sem hugvit og nýsköpun verða helsta útflutningsvaran. Ungt fólk getur valið allan heiminn að vettvangi og þau þurfa viðunandi skilyrði til þess að þau hafi yfir höfuð áhuga eða efni á að búa á Íslandi.

Við verðum að hætta að festast í viðbrögðum og bútasaumi. Hafa kjark og framsýni til þess að skapa framtíð sóknarfæra og stöðugleika. Við getum valið frjálslyndi eða stjórnlyndi – framsækni eða íhald – og við sjáum öll hvar núverandi ríkisstjórn liggur á þeim ási. Þessvegna verður að gera grundvallarbreytingar, þar sem almannahagsmunir ráða – ekki þröngir sérhagsmunir. Breyta gjaldtöku af sameiginlegum náttúruauðlindum, þannig að meiri arður renni til almennings. Endurskoða landbúnaðarkerfið. auka samkeppni og nýsköpun, með hag neytenda í fyrirrúmi. Efna loforð um nýja stjórnarskrá – eins og þjóðin hefur samþykkt í atkvæðagreiðslu. Og ekki síst! Nú þegar fyrisjánlegt er að krónan komi almenningi í vandræði eina ferðina enn – er nauðsynlegt að vinna að upptöku evru með inngöngu í Evrópusambandið.

Herra forseti. Við höfum mikla hagsmuni af alþjóðlegu samstarfi og getum ekki leyft þjóðernispopúlískum röddum að stefna EES samningnum í uppnám. – Enginn samningur hefur fært okkur meiri velsæld og tækifæri. En við höfum líka samningsbundnar og siðferðilegar skyldur. Við eigum að taka fullan þátt í baráttu gegn loftslagsáhrifum – leggja meira að mörkum til þróunarsamvinnu, og axla ábyrgð á vanda fólks á flótta. Loks þarf að tryggja betur réttindi og koma sómasamlega fram við innflytjendur og erlent verkafólk, sem á stóran þátt í efnahagsuppgangi landsins síðustu ára.

Herra forseti. Ísland er auðugt land og vandalaust að teikna meðaltöl sem sem sýna almenna velsæld. Munum samt að í skugga meðaltala leynast börn sem búa við skort, ungt fólk í fíknivanda, fjölskyldur á hrakhólum – fátækt fólk. Þó stjórnvöld komi auðvitað aldrei í veg fyrir að fólk verði dapurt, sorgmætt, veikist eða deyi getum við tryggt að öll börn fái að rækta hæfileika sína og styrkleika, óháð efnahag foreldra. – Það er hagur allra.

Mikill jöfnuður er lykilinn að hamingjusömu, framsæknu og kraftmiklu samfélagi. Kæra þjóð Lífið hefur uppá margt að bjóða og fólk þarf líka að andlega næringu. Þess vegna eigum við að styðja alla til þátttöku í íþróttum, menningu og listum. Árangur okkar þar skiptir miklu fyrir sjálfsmynd lítillar þjóðar og ánægjulegt að fagna góðum árangri síðustu misseri.

En í heimi fullum af öfgum; þar sem alið er á hatri tortryggni og hræðslu verða það fyrst og fremst umburðarlyndi, samhjálp og víðsýni sem ákvarða hvort við erum lítil þjóð eða stór.

Karen Kjartansdóttir nýr framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar

Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdarstjóra hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

Karen hefur mikla reynslu af störfum við verkefna- og viðburðastjórnun, fjölmiðlum og kynningarmál. Hún lætur af störfum hjá ráðgjafafyrirtækinu ATON þar sem hún hefur starfað við skipulagða upplýsingamiðlun og almannatengsl. Hún hefur áður starfað sem samskiptastjóri SFS, blaðamaður og pistlahöfundur á DV og einnig sem fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2. Karen er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Karen unnið fjölda trúnaðarstarfa fyrir félagasamtök og félög í atvinnulífinu.

„Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hve stór hópur öflugra og hæfileikaríkra einstaklinga sýndu því áhuga að vinna með okkur að markmiðum Samfylkingarinnar og fyrir hugsjónum um betra samfélag. Á sama tíma og við bjóðum Karenu velkomna til starfa þökkum við öllum umsækjendum kærlega fyrir, sagði Inga Björk Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar Samfylkingarinnar.

Við bjóðum Karen hjartanlega velkomna til starfa!

Flokksstjórnarfundur

Boðað hefur verið til flokksstjórnarfundar 13. október 2018. Fundurinn verður haldinn á Reykjavík Natura.

Formannafundur verður haldinn í tensglum við fundinn.

Nánari dagskrá verður auglýst síðar.