Almennar fréttir

Hvorki verið að verja velferðina né fjárfesta í framtíðinni

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 :

1.000 milljarða kr. fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nær ekki að mæta þeim loforðum sem gefin voru fjölskyldufólki, öryrkjum og námsmönnum. Fátt kem­u á óvart í frumvarpinu enda bygg­ist frum­varpið á fjár­mála­áætl­un­inni sem var samþykkt í vor. Við gagnrýndum áætlunina harðlega og sett­um fram breyt­ingar­til­lög­ur um að standa vörð um vel­ferðina í niður­sveifl­unni, setja meira fjár­magn í skól­ana, ný­sköp­un og rann­sókn­ir og ekki síst í loft­lags­mál­in. Sú gagn­rýni stend­ur enn og Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

 • Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru í litlu samræmi við raunveruleikann. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki útlistað hvernig tekið verður á fyrirsjáanlega versnandi stöðu og engin skref sýnd í frumvarpinu sem þyrfti að taka til  að undirbúa harkalegri niðursveiflu. Í kynningu á frumvarpinu 6. september síðastliðinn sagði fjármálaráðherra að afleiðingarnar kæmu fram bæði á gjalda og tekjuhliðinni og jafnvel verri afkomu. Hvað merkir þetta? Munum við sjá fram á frekari niðurskurð í velferðarkerfinu? Ekkert er gefið upp um það en því hvorki játað né neitað.
 • Landspítalinnm er enn og aftur fjársveltur. Að óbreyttu stefnir Landspítalinn í 4 milljarða kr. halla á þessu ári.
 • Enn vantar SÁÁ sárlega meira fjármagn, en þeir fjármunir sem fjárlaganefnd bætti við í fyrra virðast hafa fallið út í ár. Í þessu samhengi er vert að undirstrika að 581 einstaklingur undir 30 ára innritaðist í fyrstu meðferð á Vogi í fyrra, þar af 70 undir tvítugu.
 • Sérstök aðhaldskrafa í fjárlagafrumvarpinu er lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.
 • Neyðarástand ríkir í loftslagsmálum en einungis 2,5% fjárlaga fara í umhverfismál. Það er alls ekki nóg og lýsir metnaðarleysi stjórnvalda í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns.
 • Fjármunir eru beinlínis lækkaðir til framhaldsskóla milli ára í fjárlagafrumvarpinu. Erfitt er að koma auga á margboðaða sókn í menntamálum.
 • Fjármunir til háskólastigsins eru lækkaðir milli ára og er það réttlætt með því að LÍN hafi fengið ofgreiðslu. Það má spyrja af hverju ekki sé í lagi að leyfa málaflokknum að halda þeim fjármunum sem höfðu verið ákveðnir í hann því þörfin er svo sannarlega til staðar. Ljóst er að ríkisstjórnin mun ekki ná meðaltali framlaga OECD ríkja til háskóla og á enn langt í land með að ná meðaltali hinna norrænu ríkjanna. 
 • Afnám kr. á móti kr. skerðninga hjá öryrkjum er enn ófjármagnað. Framlög til réttindagæslu fatlaðra lækka einnig í frumvarpinu.
 • Aukningin fjármagns til aldraðra er sem fyrr einungis vegna fjölgunar í þeim hópi, hækkanir til lífeyrisþega fylgja ekki launaþróun lægstu launa og verða einungis 3,5% í stað 5,7%.
 • Fjármunir til þróunarsamvinnu eru lækkaðir um tæplega 400 milljónir m.a. vegna flutnings fjármuna frá fátækustu þjóðum heims til hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. 
 • Umbæturnar í velferðarmálum s.s. lenging fæðingarorlofs (um einn mánuð) og örlítil hækkun barnabóta (hækkunin nemur 0,1% af fjárlögunum) eru tilkomnar vegna aðgerða aðila vinnumarkaðarins en ekki vegna frumkvæðis stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa  ítrekað fellt tillögur Samfylkingar um slíkar aðgerðir. Barnabætur byrja að skerðast við 325 þús kr. laun.
 • Fjármagn til endurhæfingarþjónustu lækkar milli ára.
 • Fjármagn til almennrar löggæslu lækkar milli ára. Þrátt fyrir margföldun ferðamanna og töluverðri íbúafjölgun eru færri lögreglumenn í dag en fyrir 10 árum.
 • Ýmis gjöld sem almenningur er látinn greiða eru hækkuð og það kemur  verst niður á þeim sem hafa minnst milli handanna.
 • Veiðileyfagjaldið er áfram of lágt eða einungis 7 milljarðar. Veiðileyfagjaldið hefur lækkað um 40% síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum.
 • Einungis er gert ráð fyrir 3,5% launahækkun fyrir opinbera starfsmenn í fjárlagafrumvarpinu í verðbólgu sem verður líklegast mun hærri.
 • Skattastefna ríkisstjórnarinnar er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn eru það 5% ríkustu Íslendingarnir sem eiga næstum jafnmikið og hin 95%, í sérstöku skjóli ríkisstjórnarinnar á tímum niðursveiflu.
 • Það er miður að ríkisstjórnin skuli ekki hafa nægan metnað eða framsýni til þess að styðja betur við lítil fyrirtæki í landinu. Samfylkingin mun leggja sitt af mörkum og setja í forgang þingsályktun um stuðningsaðgerðir í þágu smárra fyrirtækja. Það þarf að lækka tryggingagjald meira á fyrirtæki sem það er mest íþyngjandi – fyrirtæki með háan launakostnað, lítil fyrirtæki. Létta á regluverki og afnema þak endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar.
 • Enn stendur til að lækka bankaskattinn á næstu árum. Tekjutap ríkissjóðs á 4 árum verður yfir 18 milljarðar. 
 • Ríkustu einstaklinga landsins á að verja fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á fjármagnstekjuskatti. Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.

 

Helga Vala nýr formaður velferðarnefndar Alþingis

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, er nýr formaður vel­ferðar­nefnd­ar Alþing­is. Samkvæmt samkomulagi Samfylkingarinnar og Pírata mun þingmaður Pírata taka við formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af Helgu Völu.

Hún var kjörin á Alþingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum árið 2017. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 11. september talaði Helga um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og vakti athygli á átakinu „ á allra vörum.“  Sagði hún meðal annars að á síðasta ári hafi 20 ungmenni undir 30 áralátist vegna lyfja eða fíkniefnanotkunar.

„581 einstaklingur undir 30 ára innritaðist í fyrstu meðferð á vogi í fyrra, þar af 70 undir 20 ára. Hann Einar Darri átti bara eitt líf, rétt eins og við hin, en við getum ekki sem samfélag látið þetta ganga svona lengur. Loforð um breytingar verður að efna og þar skora ég á stjórnvöld að gera miklu miklu betur“

Helga Vala hefur meðal annars lagt áherslu á jafnrétti, kostnaðar þáttöku sjúklinga, málefni flóttamanna og hælisleitenda, umfhverfismál og að Ísland fengi nýja stjórnarskrá.

Oddný: „Aukinn jöfnuður er bæði réttlætismál og skynsamleg hagfræði“

Ræða Oddnýjar G. Harðardóttur  í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 11. september 2019.  

 

Herra forseti, góðir landsmenn

Orð og athafnir stjórnvalda minna mig oft á skopmynd sem ég sá fyrir mörgum árum og sýndi mann sem talar af mikilli innlifun yfir konunni sinni um jafnréttismál og hvernig konur eigi að fá sömu tækifæri og sömu laun og karlar, en klykkir svo út með að segja: „Það er bara eitt sem ég skil ekki. Af hverju ertu aldrei búin að taka til og elda þegar ég kem heim?“

Orð eru því aðeins einhvers virði að þeim fylgi athafnir. Sumir stjórnarliðar tala stundum fallega um að samfélag jafnaðar sé eftirsóknarvert. En hvað eru þau að gera til að vinna gegn ójöfnuði? Hvað gera þau í raun og veru? Fátt eitt finnst okkur í Samfylkingunni. Það sem við blasir er þetta: þau gera allt sem þau geta til að verja ríkasta fólkið í landinu á meðan aðhaldskröfur eru gerðar í heilbrigðismálum og öðrum velferðarmálum. Stjórnvöld bregðast þeim sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar og þar á meðal eru fátækustu Íslendingarnir.

Engin krafa er gerð til þeirra efnameiri um að leggja sitt að mörkum í niðursveiflunni.

Ísland er samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam alþjóðlegum samtökum sem vinna  gegn fátækt, langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að bregðast við ójöfnuði.

Eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð og tekjuauka fyrir útgerðirnar.  Auðlindirnar okkar fást fyrir slikk og þeir sem fénýta þær eru í góðum málum en velferðarkerfið líður skort og samgöngukerfið er óboðlegt.

Aukinn jöfnuður er bæði réttlætismál og skynsamleg hagfræði. Jöfn samfélög eru rík samfélög og þar líður fólki almennt betur og er sáttara. Það trúir varla nokkur á brauðmolakenninguna lengur – en samt starfar ríkisstjórnin í anda hennar.

Stjórnarflokkarnir lofuðu bættum kjörum lífeyrisþega fyrir kosningar en lífeyrisgreiðslur eru nú rétt innan við 250 þúsund krónur á mánuði og allir hljóta að vera sammála um að það eru lök kjör sem þarf að bæta. Einungis þeir sem búa einir ná 300 þúsund króna markinu með heimilisuppbót.

Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökust kjörin eru konur sem voru í hlutastörfum á árum áður eða heimavinnandi af einhverjum ástæðum. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og þær hafa mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. Stjórnvöld virðast ekki hafa frétt af þeirra vanda því við honum er ekki brugðist. Þau leggja hins vegar til að lífeyrisgreiðslur hækki aðeins um 3,5% um áramótin á meðan lægstu laun hækka meira, eða um 5,7% þremur mánuðum seinna.

Bil á milli þeirra fátæku og ríku breikkar vegna aðgerðaleysis stjórnvalda sem segja eitt í ræðum en ákveða annað með fjárlögum.

Góðir landsmenn.

Mannkynið þarf að taka höndum saman yfir landamæri til að ná tökum á hamfarahlýnun jarðar. Hlýnunin veldur því að aðgangur opnast að auðlindum með bráðnun íss og opnar um leið tækifæri fyrir þá sem hugsa helst um eigin hag til skemmri tíma. Í þessum málum þurfa íslensk stjórnvöld að fara varlega og binda ekki trúss sitt við þá sem fara fram með blindu og græðgi. Bandaríkjastjórn hefur sýnt áhuga á að endurnýja ítök sín hér á landi, en við eigum að spyrna við fótum gagnvart vopnaskaki og ógn við frið og samvinnu þjóða. Sýnum í verki að við viljum friðsamlegar lausnir þegar að öryggi þjóða er ógnað vegna hamfarahlýnunar.

Góðar stundir.

Helga Vala: „Við eigum bara eitt líf“

Ræða Helgu Völu Helgadóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 11. september 2019.  

Herra forseti – Kæru landsmenn,

Við eigum bara eitt líf. Á meðan á því stendur er það okkar að gera sem best úr því, nýta styrkleika okkar en leita aðstoðar vegna veikleika ef einhverjir eru.

Þegar á reynir erum við merkilega samstíga. Þessa dagana er hið árlega átak, á allra vörum í gangi og að þessu sinni snýr það að þjóðarátakinu eitt líf. Eitt líf er mögnuð barátta fjölskyldu Einars Darra sem lést aðeins 18 ára gamall vegna lyfjaeitrunar. Hann hafði ekki átt sér neina sögu um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum eða fíkniefnum og því kom andlát hans fjölskyldu og vinum algjörlega í opna skjöldu.

En örlög Einars Darra eru ekki einsdæmi. Á síðasta ári létust 20 ungmenni undir 30 ára vegna lyfja eða fíkniefnanotkunar. Það er staðreynd að neysla hérlendis á tauga og geðlyfjum er töluvert meiri en í nágrannaríkjum okkar og erum við hér að tala um þá notkun sem er ávísað af læknum, ekki þau sem flutt eru inn ólöglega. Sem dæmi, þá nota 10% allra barna og unglinga geðlyf að staðaldri. Árið 2018 jókst neysla 10-14 ára barna á ávísuðum svefnlyfjum um rúm 20% og eru nú 670 börn sem nota slík lyf að staðaldri. Tíunda hvert barn á sama aldri fékk ávísað örvandi lyfi og er það fjölgun um 14%. Eru þau þrefalt fleiri en í Svíþjóð sem næst okkur koma af norðurlöndum. Ef við tökum svo fullorðna með í reikninginn notum við 30% meira af þessum lyfjum en Svíar.

Herra forseti – Hvað er eiginlega að okkur? Hvers vegna er þetta svona og er þetta eitthvað náttúrulögmál á Íslandi?

Í skýrslu velferðarráðuneytis frá því í maí 2018 segir að gera megi ráð fyrir að þróun samfélags og heilbrigðiskerfis á síðastliðnum áratugum eigi þátt í að skapa væntingar og menningu sem lítur á lyf sem lausn margra vandamála og leitt hefur til mikillar aukningar á notkun þeirra. Með öðrum orðum, við bjuggum til þetta ástand. Við bjuggum til það ástand að betra sé að gefa lyf en að eiga samtal við fagaðila í von um betri líðan. Sálfræðitíminn kostar ennþá 17000 kall á meðan örvandi og slæfgandi lyf ganga kaupum og sölum á skólalóðum og á netinu. Ekki misskilja mig, lyf eru nauðsynleg en notkun okkar á þeim er að mínu mati óeðlilega mikil.

Ný rannsókn meðal grunnskólanema sýnir að þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn sín eru á laugardagskvöldum, samverustundir fjölskyldu, tómstundaþáttaka og fleira fara þverrandi. Það er manngert ástand sem hefur bein áhrif á líðan ungmenna og við getum brugðist við, til dæmis með því sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir og tekið undir með verkalýðshreyfingunni sem er stytting vinnuvikunnar. Stjórnvöld hafa svarað þeirri kröfu með því að launþegar afsali sér matar og kaffitímum í skiptum fyrir styttingu vinnuviku sem er óásættanlegt. Reykjavíkurborg fór í tilraunaverkefni með styttingu vinnuviku og kom þar í ljós í öllum tilvikum að framleiðni jókst og starfsánægja og almenn vellíðan sömuleiðis.  Ánægt fullorðið fólk verður svo aftur að betri foreldrum og uppalendum. Foreldrar sem hafa meiri tíma með börnum sínum veita meira aðhald.

Á sama tíma og áðurnefndar tölur um vanlíðan og kvíða barna og ungmenna rjúka upp og lyfjanotkun eykst virðast stjórnvöld ekki reiðubúin að vinna í þessum lausnum. Afnema á vaktaálag hjúkrunarfræðinga við Landspítala svo dæmi sé tekið til að mæta aðhaldskröfu stjórnvalda, stytting vinnuviku er notuð sem skiptimynt í kjarasamningum við stjórnvöld og við ávísum enn fleiri kvíða og þunglyndislyfjum.

Á vorþingi 2018 ræddum við um vímuefnameðferðir ungmenna, sem þá þótti óverjandi að væru inni á Vogi vegna samskipta barna við eldri fíkla. Kom fram í ræðu og riti hæstvirts heilbrigðisráðherra, meðal annars í febrúar sl að Landspítalinn myndi innan sex mánaða taka við vímuefnameðferðum þessa hóps. Í samtali mínu við fulltrúa LSH í morgun kom í ljós að það var víst aldrei ætlunin, að minnsta kosti var landspítala aldrei tilkynnt um það. Þeirra var að taka á móti einu til þremur börnum af Stuðlum sem ættu við hvað bráðasta heilsufarsvanda að etja vegna fráhvarfa. Kom fram í máli hæstvirts ráðherra að bara þyrfti að breyta húsnæði og ráða í stöður og þá yrði bara keyrt í gang. Ekkert slíkt hefur hins vegar átt sér stað né virðist í bígerð. Deild var vissulega lokað á geðsviði í sumar í sparnaðarskydi og vegna manneklu en ekkert bólar á boðaðri meðferðardeild fyrir ungmenni, en þess ber að geta að 581 einstaklingur undir 30 ára innritaðist í fyrstu meðferð á vogi í fyrra, þar af 70 undir 20 ára. Svona ætlar ríkisstjórnin að taka á bráðum fíknivanda barnanna okkar og ungmenna.

Hann Einar Darri átti bara eitt líf, rétt eins og við hin, en við getum ekki sem samfélag látið þetta ganga svona lengur. Loforð um breytingar verður að efna og þar skora ég á stjórnvöld að gera miklu miklu betur.

 

Logi: „Ósamstíga og hugmyndasnauð ríkisstjórn“

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 11. september 2019.  

Herra forseti.

Hæstvirtur forsætisráðherra vék örfáum orðum að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þágu jöfnuðar en óþarflega fáum í hitt: Hversu eitrandi áhrif vaxandi eignaójöfnuður hefur á samfélög. Líka íslenskt. Einhverjir freistast kannski til að segja að hér sé allt í sómanum en þá er ekki úr vegi að skoða aðeins stöðuna.

Það má ímynda sér snotra blokk á stórri lóð. Í blokkinni eru 20 íbúðir, af mismunandi stærðum – íbúarnir af öllum gerðum.  Flestir hafa það þokkalegt, einhverjir eru fátækir en ein fjölskyldan forrík og ræður mestu. Það vekur nefnilega athygli að ein íbúðin er jafn stór hinum nítján. Og þó lóðin sé óskipt sameign, nýtir stærsti eigandinn bróðurpart hennar: Þar ræktar hann trufflusveppi og selur. Ágóðann notar hann til að kaupa sífellt stærri hluta eignarinnar, sem hann leigir aftur til íbúanna. Þó blokkin líti vel út að utan er viðhald sameignar lélegt.  T.d. vilja íbúar á neðri hæðum ekki taka þátt í þakviðgerðum og enginn sátt ríkir um hvernig greiða á í hússjóð.

Við getum kallað blokkina þjóðarheimilið.  Allt klippt og skorið á yfirborðinu – gott að meðaltali – en þegar betur er að gáð blasir við heilmikið óréttlæti.

Þó það sé vissulega ánægjulegt að verkalýðshreyfinginn hafi knúið fram skattalækkun á lágar og meðaltekjur er  galið að láta hana ganga upp allan stigann.  Í stað þess að láta ofsaríkt fólk leggja meira af mörkum er gerð aðhaldskrafa á velferðarþjónustuna sem er látin bera uppi niðursveiflu í kólnandi hagkerfi. Tekjulægra fólk sem ekki naut uppgangs síðustu ára gæti lent í meiri erfiðleikum –  en þau  5% prósent landsmanna sem eiga jafnmikið og hin 95% prósentin sigla lygnari sjó.

Kæru landsmenn

Það ætti ekki að skapa einstæðri móður stórkostlegan vanda ef úlpa barnsins týnist,

börn ættu ekki að vera á hrakhólum milli skólahverfa vegna ótryggs leigumarkaðs,

gamalt fólk ætti ekki að þurfa að neita sér um læknisþjónustu vegna auraleysis,

láglaunafólk og öryrkjar ekki að vera matarlitlir hluta af mánuðinum,

ungmenni í neyslu ekki að koma að lokuðum dyrum kerfisins,

börn sem hingað leita á flótta ekki að lifa í nagandi óvissu vegna kaldlyndrar stefnu

og konur ættu auðvitað ekki að fá lægri laun en kallar.

Og! –  efnalítið fólk ætti heldur ekki að þurfa að neita sér um menningu, listir, íþróttir og hluti sem eru ekki aðeins krydd í brauðstritinu, heldur jafn nauðsynlegt manninum og súrefni, svefn og vatn. – Það er líka fátækt herra forseti.

Þetta er nú samt enn staðan á Íslandi.

Forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags er að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.

Til þess þurfa þó leikreglurnar að þjóna almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum fárra.

Við þurfum nýja stjórnarskrá og þáttöku í fjölþjóðasamstarfi sem getur skilað okkur auknu öryggi, ríkari lífsgæðum, fjölbreyttni og víðari sjóndeildarhring; svo ekki sé talað um stöðugri gjaldmiðil.

Ríkisstjórnin boðar engar grundvallaraðgerðir sem munu breyta núverandi stöðu.  Efnahagsstjórnin er á forsendum Sjálfstæðisflokksins og það mun ekki færa okkur nær velsældarmarkmiðunum sem hæstvirtur forsætisráðherra talaði um hér áðan.

Herra forseti,

Hæstvirtur forsætisráðherra nefndi réttilega neyðarástand vegna hamfarahlýnunnar af mannavöldum – sem bætist við aðrar ógnir mannkyns – ójöfnuð og ófrið. Á tímum þar sem aldrei hefur verið meiri ástæða til samvinnu, veður uppi málflutningur afla sem afneita staðreyndum, grafa undan mannréttindum, ala á ótta og tortryggni, kynda undir ósætti.  Einnig í okkar heimshluta – líka á Íslandi.

Samt treystir ríkisstjórnin sér ekki til að ráðast í aðgerðir í loftlagsmálum sem uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Og í stað þess að boða nánari samvinnu við Evrópuríki – sem leiða aðgerðir gegn hamfarahlýnun – eygja þau frekar tækifæri í samstarfi við stórveldi, með leiðtoga, sem sjá skammtíma ávinning í glundroða.

Þá erum við stödd í miðri stafrænni tæknibyltingu sem er að gjörbreyta allri tilverunni. Störf hverfa, breytast og önnur verða til. Ný tækni unir engum landamærum og við höfum ekkert val um að taka þátt í þessari þróun.

Ný þekking og tækni gætu vissulega leitt til meiri framleiðni, minnkað sótspor og dregið úr fátækt. En tæknin getur líka haft neikvæðar afleiðingar – ef við bregðumst ekki rétt við. Auðurinn gæti þjappast á enn færri hendur, bæði hjá eignafólki innanlands, og hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Tekjur ríkisins því minnkað, þannig að það verði ófært um að standa undir þjónustu, sem tryggir almenningi lífsgæði og öryggi.

Augljósustu viðbrögð okkar væru grundvallarbreytingar á skattkerfinu í þágu jöfnuðar,  stóraukin fjárfesting í menntun og hugviti ásamt stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Nýtt fjárlagafrumvarp sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki framsýni til þess. – Framlög til menntamála lækka meira að segja!

Hugvit er okkar verðmætasta auðlind og sú eina sem er óþrjótandi. Nýleg umræða um aðra auðlind – orkuna-öskrar á að vilji þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá verði virtur. Og þótt hæstvirtur forsætisráðherra vilji það ef til vill, er rétt að minna á að hún myndaði ríkisstjórn með tveimur flokkum sem börðust hatrammlega gegn nýrri stjórnarskrá fyrir fáeinum árum og óvíst hvort þeim hafi snúis hugur.

Kæru landsmenn

Flatneskjan og hinn lægsti samnefnari eru ekki færar leiðir andspænis risaáskorunum samtímans og að þeim róttæku breytingum sem nauðsynlegar eru.

Eins fallegt og það kann að hljóma að mynda stjórn eftir endilöngu pólitíska litrófinu, dugar slíkt ekki.

Stjórnmálafólk mætir reyndar stundum í viðtöl og og segir að þó flokkar séu ekki alltaf sammála um leiðir séu þeir þó einhuga um markmið.  En fyrir utan það að ósætti um leiðir dragi úr líkum á hnitmiðuðum aðgerðum, þá eru íslenskir stjórnmálaflokkar bara heldur ekki sammála um markmið.

Sumir stjórnmálaflokkar hafa t.d. einfaldlega – hvorki áhuga á – eða áform um – að ráðast gegn ójöfnuði og óréttlæti.

Kæru landsmenn, okkar bíða óvenju flókin viðfangsefni en stundum er þó sagt að snjöllustu lausnirnar verði til við snúnustu aðstæðurnar. Ósamstíga og hugmyndasnauð ríkisstjórn – sem er hvorki sammála um leiðir eða markmið – mun ekki bjóða upp á slíkar lausnir.

Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin lagði í dag fram 10 breytingatillögur við fjármálaáætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni.

Samfylkingin telur að ríkisstjórnin taki skref aftur á bak með breytingartillögum við eigin fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin ætlar að láta þá hópa sem sátu eftir í uppsveiflunni taka höggið af niðursveiflunni; öryrkja, námsmenn, aldraða og fjölskyldur með lágar- eða meðaltekjur.

Breytingar á fjármálastefnu er alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Stefnan átti að duga í fimm ár en hún lifði í rétt um eitt ár. Fjármálaráð hefur bent á veikleika í hagstjórn stjórnvalda og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin hefur sömuleiðis varað við óábyrgri hagstjórn og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gera ráð fyrir 14 ára samfleytum hagvexti og óbreyttu gengi næstu fimm ár við áætlanagerð.

Samfylkingin leggur því fram 10 breytingartillögur við fjármálaætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni. Í ljósi þess að Samfylkingin er ekki í ríkisstjórn og leggur því ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim breytingum og aðgerðum sem hún myndi annars leggja fram í 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun.

A. Fjárfestum í framtíðinni:

Ein helsta gagnrýni sem Samfylkingin hefur haft uppi um ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er skortur á framtíðarsýn. Til að íslenskt framtíðarsamfélag verði farsælt verður að horfa lengra fram í tímann en næsta kjörtímabil og fjárfesta í menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum, og setja mun meira fjármagn í baráttuna gegn hamfarahlýnun.

 1. Framlag til loftslagsmála hækki um 8 milljarða kr.Áhersla lögð á grænar fjárfestingar og uppbyggingu umhverfisvænna innviða sem verkar sem innspýting í niðursveiflu.

Hægt er að fjármagna þessa breytingu að mestu leyti með því að fresta lækkun bankaskatts. Um væri að ræða tvöföldun á fjármunum ríkisstjórnarinnar í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

 1. Framlag til framhaldsskóla aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til framhaldsskóla verði dregin til baka og settir verði viðbótarfjármunir til skólanna og fjárfestinga þeim tengdum.

 1. Framlag til háskóla aukist um 1 milljarð kr.
 2. Framlag til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til nýsköpunar verði dregin til baka og fjárfest verði aukalega í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum.

 1. Framlög til húsnæðisstuðnings aukist um 2,5 milljarða kr.

Hér er lagt til að dregin verði til baka fyrirhuguð lækkun ríkisstjórnarinnar til málaflokksins.

B. Verjum velferðina

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að verja velferðina á tímum niðursveiflu í hagkerfinu og hlífa þeim hópum sem hafa setið eftir á hagsældarskeiðinu. Ríkisstjórnin leggur aftur á móti til að framlög til öryrkja taki mestum breytingum milli umræðna, eða um 4,5 milljarða króna. Samfylkingin vill draga þá skerðingu til baka og bæta í, ásamt því að verja sjúkrahúsþjónustuna, aldraða og barnafólk.

 1. Framlag til öryrkja aukist um 5 milljarða króna.

Samfylkingin leggur til að dregin verði til baka sú 4,5 milljarða kr. lækkun á 5 árum sem kemur fram í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og ríflega 4 milljörðum verði bætt við. Það væri tvöföldun á því sem ríkisstjórnin segist ætla að gera.

 1. Framlag til aldraðra aukist um 1 milljarð kr.
 1. Framlög til fæðingarorlofs hækki um 400 m. kr.

Hér er lagt til að tvöfalda það fjármagn sem rennur til fæðingarstyrks sem rennur til fólks utan vinnumarkaðar og/eða í námi

 1. Framlög til barnabóta aukist um 1 milljarð kr.
 2.  Framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu aukist um 1,8 milljarða kr.

Tekjuúrræði til að mæta auknum útgjöldum upp á 23 milljarða kr.:

Samfylkingin leggur til nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið. Áhersla er lögð á að hlífa almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu í niðursveiflunni, en sækja tekjur til útgerðarinnar, stórfyrirtækja og auðmanna.

 1. Auðlindagjöld: Hækkun um 3 milljarða kr.

Veiðileyfagjöld verði aftur jafn há og fyrir lækkun ríkisstjórnarflokkanna

 1. Fjármagnstekjuskattur: Hækkun um 3 milljarða kr. með 2%-stiga hækkun

Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum og yrði það áfram eftir 2%-stiga hækkun.

 1.  Tekjutengdur auðlegðarskattur: 3 milljarðar kr.

Þegar auðlegðarskatturinn var hæstur var hann tæpir 11 milljarðar kr. og því væri um að ræða tæplegan fjórðung af því sem hann var.

 1. Kolefnisgjald: Hækkun um 1 milljarð kr.

Tvöföld hækkun frá því sem ríkisstjórn gerði síðast.

 1. Skattaeftirlit: 5 milljarðar kr.
 2. Frestun á lækkun bankaskatts: 8 milljarðar kr.

 

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

 1. Húsnæðisstuðningur lækkar um 13% næstu fimm árin þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði.
 2.   Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3,2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin, frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar.
 3.   Umhverfismálin lækka um 1 milljarð kr. samanlagt næstu 5 árin frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni í breytingartillögunum við hana.
 4.   Framlag til framhaldsskóla eykst ekki næstu 5 árin þrátt fyrir hina margboðuðu menntasókn og hin mörgu loforð um að styttingarpeningarnir svokölluðu ættu að haldast inni. Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar fá framhaldsskólar 1,2 milljarð kr. lægri upphæð samanlagt næstu 5 árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars sl.
 5.   Háskólastigið án framlaga LÍN mun fá svipaða upphæð 2024 og það fær 2019, þrátt fyrir háfleyg loforð um að það ætti að ná meðaltali Norðurlanda og OECD ríkja.
 6.   Menning, listir, íþróttir- og æskulýðsmál lækka á áætlunartímanum um 7,6% þrátt fyrir augljóst gildi þessa málaflokks.
 7. Löggæsla og réttaröryggi lækkar um 7,7% þrátt fyrir mikla aukningu á ferðamönnum og flóknari verkefnum löggæslunnar.
 8.  Sjúkrahúsþjónusta hækkar í hlutfalli við hækkun á heildarútgjöldum ríkisins næstu fimm árin. Þetta gerist þrátt fyrir ört hækkandi hlutfall aldraðra og mikinn vilja þjóðarinnar til þess að setja stóraukna fjármuni í sjúkrahúsþjónustu. Hins vegar fær sjúkrahúsþjónusta um 2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin í breytingartillögunum, frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Framlög til heilsugæslu og sérfræðiþjónustu lækkar um 1,5 milljarða næstu 5 árin, frá eldri tillögu fjármálaáætlunar í meðförum meirihluta fjárlaganefndar.
 9. Þá lækka fjárframlög til öryrkja næstu 5 árin samanlagt um 4,5 milljarða frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram, fyrir rúmum 2 mánuðum. Öryrkjabandalag Íslands segir að þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna sé „algjörlega óásættanleg og mun engu breyta um kjör fólks sem búið hefur við verulegan skort árum saman“. Þá segir ÖBÍ að öryrkjar séu einnig skildir eftir í svokölluðum lífskjarasamningum.
 10. Aldraðir fá fyrst og fremst aukningu næstu fimm árin vegna fjölgunar í þeim hópi.
 11. Framlög til hjúkrunarþjónustu þ.e. hjúkrunarheimili lækkar næstu 5 árin um 3,3% þrátt fyrir mikla fjölgun á eldri borgurum.
 12. Skerðingar á barnabótum hjá millitekjuhópum hafa verið auknar og ennþá lendir þorri barnafólks í miklum skerðingum barnabóta.
 13. Engin sérstök innspýting er í vaxtabæturnar. Núgildandi fjárlög gera ráð fyrir minni fjármunum í vaxtabætur heldur en áætlað var á síðasta ári.
 14. Samgöngumál lækka um 17% næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf um allt land. Það vekur athygli að samgöngumál í breytingartillögunum 3 milljarð kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.
 15. Þróunarsamvinna lækkar í meðförum fjárlaganefndar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum 2 mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljarð samanlagt næstu fimm árin.
 16. Skattastefna hinna ríku og fáu er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn stendur til að lækka bankaskattinn um tæpa 8 milljarða kr. á ári þegar lækkunin er komin að fullu til framkvæmda. Tekjutap ríkissjóðs á 4 árum verður yfir 18 milljarðar vegna þessarar forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar. Þá stendur enn til að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt á Íslandi af öllum Norðurlöndum og jafnvel vernda ríkustu einstaklinga landsins fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á þeim skatti. Persónuafsláttur verður ennþá lægri en tilefni er til og veiðileyfagjaldið nálgast tóbaksgjaldið í upphæðum og er auðlegðarskattur bannorð hjá þessari ríkisstjórn.
 1. Forsendur fjármálaáætlunarinnar eru afskaplega óraunhæfar. Til dæmis er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm árin sem mun aldrei gerast. Og þá er byggt á forsendum um að hagkerfið taki strax við sér á næsta ári sem er ansi bjartsýn spá. Einnig er gert ráð fyrir lítilli hækkun launa opinberra starfsmanna og að atvinnuleysi og verðbólga verði frekar lág og breytist ekki mjög mikið.

 

 

Þingslályktunartillaga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks samþykkt á Alþingi

Alþingi tók nú í dag risastórt sögulegt skref og samþykkti þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með þessu verður Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og mun það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.

Málið er lagt fram að frumkvæði Samfylkingarinnar en Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrsti flutningsmaður málsins.

Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu hans. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings, sem hefur einungis verið fullgiltur eins og hér hefur verið gert, við íslensk lög víkja ákvæði samningsins.

Einungis þrír meginalþjóðasamningar hafa verið lögfestir á Íslandi og eru það Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall.

 

Helga Vala Helgadóttir í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Helga Vala Helgadóttir tók til máls í þriðju umferð.

Herra forseti

Með leyfi forseta flyt ég ykkur eitt af ljóðum Óskars Árna Óskarssonar, eins af okkar allra bestu skáldum, sem fjallar um það þegar páfinn í róm kom til Reykjavíkur.

Þegar páfinn í Róm kom til Reykjavíkur bauðst borgarbúum

að kyssa fætur hans að gömlum kaþólskum sið. Nokkur biðröð myndaðist á Landakotstúninu þar sem páfi sat í viðhafnarstól í

hvíta silkikyrtlinum sínum og rauðu skónum. Þegar röðin kom að lítilli stúlku sem átti heima á Sólvallagötunni, en langafi hennar var á sínum tíma þekktur hákarlaformaður, gerði hún sér lítið fyrir og beit í stórutána á páfanum. Síðan hefur páfinn í Róm ekki komið til Reykjavíkur.

Hvers vegna datt mér þetta ljóð í hug? Jú, vegna þess að ég sá að hæstvirtur fjármálaráðherra var, ásamt öðrum fjármálaráðherrum Evrópuríkja að ræða við páfann í Róm um loftslagsmál.

Okkur hefur, til þessa dags, þótt mikilvægt að tekið sé mark á okkur í samskiptum við aðrar þjóðir. Við viljum vera virt viðlits, vera tekin alvarlega og álitin sjálfstæð fullvalda þjóð. Við berum með okkur ríkt þjóðarstolt og virðumst sjaldnast stoltari en þegar eftir okkur er tekið á erlendri grundu. Þá fögnum sem eitt og stöndum saman í gleði og hamingju.

En það er nú svo að til þess að eiga heimtingu á að vera tekin alvarlega þurfum við að skoða hvernig við komum fram við aðra, hvaða augum við lítum þá sem við gerum samninga við og göngum til samstarfs með. Getum við vænst virðingar ef okkur er ómögulegt að sýna öðrum hið sama?

Mikið hefur verið rætt um fullveldið að undanförnu og að að því steðji ógn. En hvað er þetta fullveldi? Hugtakið kemur úr þjóðarétti og felst hið ytra fullveldi einmitt í rétti ríkja til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar. Það höfum við gert áratugum saman, allt frá því Ísland varð fullvalda.

Við höfum skuldbundið okkur að þjóðarétti, sem fullvalda ríki af fúsum og frjálsum vilja til að lúta ýmsum reglum. Það gerðum við t.a.m. árið 1953 þegar við gerðumst aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu. Við vorum ekki með því að afsala okkur fullveldi heldur þvert á móti sýna umheiminum, að við værum fullvalda þjóð sem teldum hagsmunum okkar betur borgið meðal annarra þjóða í samvinnu um aukin mannréttindi. Skemmst er að minnast máls Jóns Kristjánssonar sem leiddi til aðskilnaðar framkvæmdavalds og dómsvalds, máls Þorgeirs Þorgeirssonar sem styrkti tjáningarfrelsið, dóma sem opnaði augu stjórnvalda fyrir mikilvægi millidómstigs sem og fjölda annarra mála sem veitt hafa borgurum landsins nauðsynlegan rétt. Sama má segja um EES samstarfið sem án nokkurs vafa hefur aukið hér hagsæld og væri nú ekki úr vegi að leyfa þjóðinni að meta nú af alvöru hvað fælist í fullri aðild að því þjóðarbandalagi sem Evrópusambandið er.

En þegar við erum í viðlíka samstarfi, þá getum við einfaldlega ekki leyft okkur að virða gagnaðila einskis þegar okkur hentar. Hvers virði er slík samvinna ef samstarfsaðilinn byrjar að atyrða mann um leið og hann snýr sér við? Hvaða skilaboð eru það til íslensks almennings að við mætum prúðbúin á fundi um allan heim, heimsækjum erlend fyrirmenni, bjóðum þeim til fundar við okkur hér á landi, en þegar kemur að skuldbindingum íslenska ríkisins innanlands sem erlendis þá hefjist hér fúkyrðaflaumur og vandlætingar um það hvað þetta sé allt ömurlegt og ekki til neins gagns? Hvaða trúverðugleiki er í slíku samstarfi og hvaða sjálfsvirðing? Til hvers að mæta til alþjóðasamstarfs ef við stöndum ekki með því? Er það dæmi um fullvalda ríki sem gengur til samstarfs af fúsum og frjálsum vilja?

Samninga skal halda, um það er ekki deilt. Vilji maður ekki halda samstarfi áfram er það ekki leiðin að brjóta sáttmála og virða samninga að vettugi heldur ber stjórnvöldum, til að halda virðingu ríkisins hvort tveggja heimavið sem og á alþjóðavettvangi, að slíta samvinnu ellegar standa með henni og taka þátt. Við þurfum ekki að óttast ef við af heilindum tökum þátt í samstarfinu.

„Þetta er heimurinn, heimurinn hann er hér, Sumarhús, jörðin mín, það er heimurinn“ sagði Bjartur í Sumarhúsum, maðurinn sem taldi sig vera sjálfstæðasta manninn í landinu. Viljum við vera Bjartur?

 

 

Guðmundur Andri Thorsson í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Guðmundur Andri Thorsson tók til máls í annari umferð.

Virðulegi forseti. „Af jarðarinnar hálfu /  byrja allir dagar fallega … “

Með þessum orðum kvaddi Pétur Gunnarsson sér hljóðs í íslenskum bókmenntum í ljóðabókinni Splunkunýr dagur, og oft hefur manni verið hugsað til þessara fallegu upphafsorða að undanförnu, ekki síst þegar maður hefur verið árrisull og notið sólar og fuglasöngs, gróðurilms og sjávarniðs og annarra dásemda sem jörðin gefur okkur og við göngum út frá sem vísum.

„Af Jarðarinnar hálfu  byrja allir dagar fallega“ en svo fara mennirnir á fætur og mæta til vinnu og fara að róta og grafa og böðlast. Þannig getur þetta ekki gengið lengur, það sjáum við öll. Við vitum að við þurfum að læra að aðlagast lífinu á jörðinni alveg upp á nýtt, temja okkur nýja siði og nýja sýn. Maðurinn verður að hætta að ímynda sér að hann sé herra jarðarinnar og hætta að haga sér sem perri jarðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur vissulega sýnt viðleitni í þessa átt en þó finnst manni að ekki sé gengið nógu ákveðnum skrefum í eina átt. Við getum nefnilega ekki gengið bæði til vinstri og hægri í einu – við förum bara í aðra áttina í senn, eða stöndum í stað. Annaðhvort höfum við íhaldssama og auðhyggjusinnaða hægri stjórn hagsmunagæslunnar eða framsækna og frjálslynda vinstri stjórn sem hefur almannahag að leiðarljósi. Það er ekki hægt að vera hvort tveggja. Í loftslagsmálunum erum við hætt að heyra nefnt árið 2030, rétt eins og það sé löngu liðið, og það er langur vegur frá því að við séum nærri því að uppfylla skuldbindingar okkar í Kyoto-bókuninni.

Við þurfum að fá róttækari og beittari aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en ríkisstjórnin hefur sett fram. Endurheimt votlendis er frábær, og skógrækt þar sem hún á við, en við þurfum að vera miklu markvissari í því að draga úr losun. Við verðum að miða alla mannlega starfsemi við raunverulegan kostnað sem af henni hlýst – fyrir lífið á jörðinni. Við þurfum að gera sáttmála þvert yfir höf og lönd og þá dugir ekki heimsmynd músarholunnar, þrætugirnin og allt fyrir ekkert hugsunin heldur þurfa samfélögin að taka höndum saman. Í þessum málum þurfum við að hætta að hugsa sem Íslendingar og hugsa sem jarðlingar.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem á að taka til allra sviða þjóðlífsins. Græni þráðurinn í tillögunni er sjálfbær þróun, og þá er ekki átt við sjálfbærni sem orðaskraut um rányrkju, heldur orð sem lýsir raunverulegu hringrásarhagkerfi með umhverfistengdri hagstjórn og fjárlagagerð þar sem tekin verða markviss og raunveruleg skref í átt að því að tvö komma fimm prósent af vergri þjóðarframleiðslu renni í aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum, eins og Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna telur nauðsynlegt. Við viljum að markaðurinn sé virkjaður og honum stýrt með hagrænum hvötum og kröfum, framleiðsluferlum sé breytt og neytendur vaktir til vitundar. Við viljum gera breytingar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu; við viljum hraða orkuskiptum, draga úr útstreymi frá mengandi stóriðju og hækka kolefnisgjald og alls staðar hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

Því að „af hálfu jarðarinnar byrja allir dagar fallega, þolinmóð snýst hún og snýst,“ eins og Pétur Gunnarsson lýsir svo fallega í ljóðinu. Við eigum að nýta óendanlegt ríkidæmi hennar með ást og virðingu en ekki af meðvitundarleysi og frekju.

Oddný G. Harðardóttir í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Oddný G. Harðardóttir tók til máls í fyrstu umferð.

Herra forseti góðir landsmenn.

„Við – kynslóðin sem nú lifir og gengur á jörðinni – við erum síðasta kynslóðin sem getur gert eitthvað vegna þeirrar ógnar sem að okkur steðjar. Og þið stjórnmálamenn getið gert það sem gera þarf.“

Þetta sagði Benedikt Erlingsson leikari og leikstjóri þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Kona fer í stríð. Hann hvatti um leið stjórnmálamenn um allan heim til að vera hugrakkari og gefa  svona kosningaloforð:

„Kjósið mig og ég mun sjá til þess að þið fáið minna af næstum öllu. Minna dót, minna af kjöti, færri ferðalög.“

Og til að fá kjósendur til að bíta á agnið ættu stjórnmálamenn að lofa í staðinn meiri menningu og skemmtun, heilbrigðari lífstíl, lengra lífi. Meira af samveru, ljóðum og ást. Tónlist og bókmenntum. Þessi hvatningarorð Benedikts eru ágæt.

Hugrakkir stjórnmálamenn verða að leggja grunn að hagvexti sem er kolefnislaus, styðja umhverfisvæna vinnu sem stoð undir velferðina, vegna þess að hlýnun jarðar er ógn sem verður stöðugt áþreifanlegri og ágengari. Á norðurslóðum eru áhrifin þrisvar sinnum meiri en annars staðar og jöklar bráðna með skelfilegum afleiðingum. Hamfarahlýnun spyr ekki um landamæri og engin þjóð getur lýst yfir hlutleysi í stríðinu við hana.

Stærstu vandamál heimsins verða aðeins leyst með aukinni alþjóðlegri samvinnu, hvort sem þau snúa að baráttunni gegn fátækt, ójöfnuði eða loftslagsvá.

Það þarf kjarkmikla stjórnmálamenn til að leiða róttækar aðgerðir.

Máttleysisleg loftslagsáætlun ríkisstjórnar Íslands fær algjöra falleinkunn.

Þess vegna lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að útbúa grænan samfélagssáttmála sem taki til allra sviða þjóðlífsins. Meginþráður sáttmálans á að verða sjálfbærni og að Ísland verði grænt land, með grænt hagkerfi.

Unga fólkið krefst þess að við stjórnmálamenn leiðum breytingar sem virka. Þeirra er framtíðin – en aðeins ef við stöndum í lappirnar gegn stundargróða og sérhagsmunum og tökum stór græn skref fyrir börnin okkar og barnabörn.

Það er ekki aðeins hamfarahlýnun sem er ógn við framtíð barna á Íslandi. Nýjar tölur frá Rannsókn og greiningu benda til þess að fleiri en 13 þúsund börn verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Sum hver daglega. Afleiðingar þess að verða fyrir ofbeldi sem barn eru margfaldar á við fullorðna.

Ofbeldi gegn börnum fer oftast leynt og stjórnvöld taka þátt í feluleiknum því fullnægjandi eftirlit er ekki til staðar. Það er ekki nóg að skipta nafni húsnæðisráðherra út fyrir barnamálaráðherra eins og gert var á dögunum. Raunverulegra aðgerða er þörf.

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þessu þingi var aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu íslenskra barna. Sérstaklega voru tilgreindar aðgerðir til að vernda börn og ungmenni fyrir vanrækslu, heimilisofbeldi og kynferðisbrotum. Alþingi samþykkti að vísa tillögunni til ríkisstjórnar til frekari vinnslu, sem er vonandi eitthvað skárri niðurstaða en að láta hana sofna í nefnd. Aðgerðirnar eru allar framkvæmanlegar og snúa að barnavernd, lögreglu og heilsugæslu, virku samstarfi þar á milli og greiðari leiðum fyrir almenning og skóla til að tilkynna grun um ofbeldi gegn barni.

Því miður gætir sinnuleysis stjórnvalda um málefni barna víðar því skortur er á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga sem orðið hefur til þess að mörg þeirra eru án skýrra úrræða og illvirðráðanlegir fylgikvillar ná að myndast. Allt of mörg börn bíða greiningar og hjálpar.

Og það eru fleiri látnir bíða. Verkalýðsfélög náðu með kröfum sínum fram kauphækkunum en einnig loforðum stjórnvalda um skattkerfisbreytingu, hærri barnabótum og lausnum í húsnæðismálum, í svokölluðum lífskjarasamningum, sem reyndar er allt of stórt orð fyrir þá samninga.

Loforðin eru flest óútfærð en skilaboðin til aldraðra og öryrkja eru skýr. Þau skulu bíða til áramóta eftir hærri greiðslum. Í þeirra hópi er fátækasta fólkið á Íslandi sem þarf að láta sér nægja rúmar 200 þúsund krónur á mánuði. Og ég minni á að öll önnur norræn ríki gera meira en ríkisstjórn Íslands til að auka jöfnuð. Samfylkingin hefur lagt til að lífeyrir hækki í takti við lágmarkslaun og skorar á stjórnvöld um leið að draga úr tekjuskerðingum.

Þessa dagana bíða mörg þingmál afgreiðslu og umræður síðustu daga og nætur hafa sýnt mjög greinilega nauðsyn á auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem meiri hluti þjóðarinnar hefur lengi kallað eftir.

Og á meðal þingmála sem bíða er mál Samfylkingarinnar um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Við munum ekki fara í sumarfrí án þeirrar réttarbótar fyrir fatlaða Íslendinga.

Við bíðum enn á síðustu dögum þingsins eftir nýrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og  breyttri áætlun í ríkisfjármálum þar sem brugðist er við verri hagspá, samdrætti í ferðaþjónustu og loðnubresti.

Ekki er við þingið að sakast að fjármálaráðherrann hefur ekki kynnt nýja stefnu heldur vandræðagang ríkisstjórnarinnar sem fékk stjórnarmeirihlutann til að samþykkja algjörlega óraunhæfa fjármálastefnu fyrir rúmu ári síðan. Samfylkingin gagnrýndi þá stefnu harðlega en ríkisstjórnin hlustaði ekki á varnaðarorðin. En látum það nú vera þótt stjórnarliðar fari ekki að ráðum okkar jafnaðarmanna. Þau hunsuðu líka gagnrýni fjármálaráðs sem benti þeim á með skýrum orðum, að með stefnunni væri ríkisstjórnin að sníða sér spennitreyju í ríkisfjármálum og þau yrðu annaðhvort að skera niður útgjöld eða hækka skatta í niðursveiflunni.

Ríkisstjórn – sem hvorki getur komið sér saman um niðurskurð eða tekjuöflun – grípur til þess ráðs að leggja fram nýja stefnu og fer um leið gegn lögum um opinber fjármál.

Óábyrg stefna í ríkisfjármálum bitnar alltaf á almenningi sem ber kostnaðinn af gjörðum stjórnmálamanna sem eru ekki færir um að horfa út fyrir kjörtímabilið, en marka stefnu sem heldur ekki vatni og er óframkvæmanleg nokkrum mánuðum eftir samþykkt hennar.

Forsætisráðherra kallaði nýlega eftir því í erlendu riti, að framsæknar hreyfingar og vinstriflokkar í Evrópu sameinist og myndi fjölþjóðlega fylkingu um róttækar lausnir. Að á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójafnaðar þyrfti að marka djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.

Ég tek undir með ráðherranum en skilaboðin hafa holan hljóm þegar þau koma frá stjórnmálamanni sem segir eitt í útlöndum en gerir annað á heimavelli. Sem leiðir ríkisstjórn gömlu valda og íhaldsflokkanna og styður fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórn sem vill hvorki leggja á sanngjörn auðlindagjöld né láta auðmenn greiða sinn réttláta skerf til velferðarinnar. Ríkisstjórn stöðnunar og óréttlætis.

Góðar stundir.