Almennar fréttir

Gerum líf fólks auðveldara og ódýrara-ræða Ágústs

Ræða Ágústs Ólafs Ágústssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

 

Kæru Íslendingar Í þessari viku mun einn Íslendingur deyja vegna ofneyslu lyfja. Í þessari viku mun einn Íslendingur fremja sjálfsvíg. Í þessari viku búa 6000 íslensk börn við fátækt og í þessari viku búa um hundrað eldri borgarar á spítalanum því önnur úrræði eru ekki fyrir hendi.

Þetta er sorglegur vitnisburður um annars ágætt samfélag.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Við erum einungis 350 þúsund á þessari eyju og við erum 11. ríkasta land í heimi.

Við þurfum ekki láta eldri borgara þessa lands og fjölskyldur þeirra búa við óvissu og bág kjör.

Við þurfum ekki refsa öryrkjum fyrir að vinna.

Við þurfum ekki að setja minni fjármuni í háskólana okkar en það sem nágrannaþjóðir okkar gera. V

ið þurfum ekki láta ljósmæður fara í kjaradeilu.

Við þurfum ekki að láta löggæslu og samgöngur drappast niður.

Við þurfum ekki að hafa samfélag þar sem ríkasta 1% landsmanna á meira en 80% þjóðarinnar.

Við þurfum ekki að hafa bæjarstjórann í Þorlákshöfn með hærri laun en borgarstjórinn í London.

Við þurfum ekki að lækka veiðileyfagjöld helmingi meira en það sem stendur til að hækka persónuafslátt fólks.

Og við þurfum ekki að vera eitt dýrasta land í heimi.

Kæru Íslendingar Þetta er ekki spennandi ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn sérhagsmuna og stólakaupa. Engin prinsipp eru hjá ríkisstjórninni, hvort sem litið er til hvalveiða, kjaradeilu ljósmæðra, skipun dómara, utanríkisstefnu eða velferðarmála. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fá sjúkrahúsin og lögreglan minna en það sem þörf er á. Enn eru eldri borgarar og sjúklingar á biðlistum en þið hafið mörg hver kynnst því eða munu gera það í náinni framtíð, að þurfa að bíða eftir eðlilegum úrræðum fyrir ykkur sjálf eða aldraða foreldra ykkar og þá er sáralítil aðstoð við Alzheimersjúklinga í okkar ríka samfélagi. Enn eru meðferðarúrræði, jafnvel fyrir börnin okkar, af of skornum skammti, öryrkjum er ennþá refsað fyrir samfélagsþátttöku sína og þá er húsnæði ennþá allt of dýrt.

Kæru Íslendingar Komist Samfylkingin til valda lofum við því að breyta þessu samfélagi til batnaðar fyrir venjulegt fólk, en ekki bara suma, eins og þessi ríkisstjórn gerir.

Samfylkingin mun hlúa að eldri borgurum og að unga fólkinu.

Samfylkingin mun aldrei sætta sig við samfélag þar sem einn Íslendingur deyr á viku vegna ofneyslu lyfja.

Samfylkingin vill burt með verðtrygginguna og háa vexti en það gerist best með nýjum gjaldmiðli.

Samfylkingin vill nýja stjórnarskrá fólksins og berjast gegn alþjóðlegum fasisma og þröngsýni.

Samfylkingin vill setja hagsmuni neytenda, nýsköpunar og smáfyrirtækja í forgrunn en ekki hagsmuni Mjólkursamsölunnar og stórútgerðar.

Og þá vill Samfylkingin frjálst samfélag þar sem frelsi fjármagnsins hefur ekki forgang heldur frelsi frá fátækt.

Kæru Íslendingar Við höfum allt til alls á landinu okkar ef við viljum. Hættum að dekra við sérhagsmuni og sjálftökuliðið eins og þessi ríkisstjórn gerir. Hlúum að hinum venjulega Íslendingi og gerum líf hans og hennar auðveldara og ódýrara.

Til þess eru almennileg stjórnvöld. Þessi ríkisstjórn er það hins vegar ekki.

Veljum framsækni fram yfir íhald- ræða Loga

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

Herra forseti, það eru blikur á lofti. Ýmislegt bendir til að við séum á leið aftur niður í dal eftir að hafa verið á tindi hagsveiflu í langan tíma. Komandi mánuðir eru afgerandi.

Stjórnvöld undanfarinna ára hafa ekki nýtt fordæmalítið svigrúm til að jafna kjörin nægilega og auka félagslegan stöðugleika.

Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það í besta falli gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, m.a. okkar.

Undanfarið hefur stjórnmálafólk, ólíklegustu flokka, sagt að stjórnvöld eigi ekki að blanda sér of í kjarasamninga – það sé hlutverk launþega og atvinnurekenda.

Stjórn ríkis er hins vegar ekki eins og hver annar sjoppurekstur og hlutverk stjórnvalda er að skapa öllum landsmönnum viðunandi aðstæður og öryggi.

Þess vegna þurfa stjórnvöld að koma með afgerandi hætti að lausn samningana framundan.

Ég gagnrýni hins vegar seinaganginn og vara við þeirri aðferð að nota sífellt slík útspil sem skiptimynd á síðustu stundu – félagshyggjustjórn hefði kynnt slík áform strax í stjórnarsáttmála

Stjórnvöld síðustu ára hafa hins vegar fremur unnið þannig að það þyngi samningsgerð – þau hafa hrifsað ávinning af launahækkunum, með frystingu persónuafsláttar og lækkun barna- og vaxtabóta, ekki bætt kjör aldraðra og öryrkja nægilega.

Forsætisráðherra sagði í ræðunni að stigin væru mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggðu að þau tekju- og eignamestu leggðu meira af mörkum. Skrefin eru hins vegar alltof lítil.

Síðustu fimm ár hefur Samfylkingin lagt fram tillögur við afgreiðslu fjárlaga sem snúast um þetta –hækkun barnabóta, hækkun vaxtabóta en tekjuöflun á móti með t.d. auðlindagjöldum – en þær hafa allar verið felldar samhljóða af stjórnarmeirihlutum – líka þessari ríkisstjórn.

Það er vissulega framför að ríkisstjórnin taki í einhverjum atriðum undir með Samfylkingunni í nýjum fjárlögum en þetta eru þó bara hænufet sem óvíst er að skili nokkru vegna óstöðugs gjaldmiðils.

Það leiðir hugann að því hversu skynsamlegt það er, þegar öllu er á botninn hvolft, að halda fram gagnsemi og jafnvel nauðsyn breiðrar ríkisstjórnar, flokka, sem eru í grundvallaratriðum ósammála um bæði leið og jafnvel markmið.

Nú verður auðvitað hver að svara fyrir sig en ég trúi ekki á leiðangur sem gengur út á of mikla eftirgjöf frá grundvallargildum, við kjöraðstæður, til að breyta samfélaginu í þágu jöfnuðar og réttlætis.

Það er nefnilega einungis gleðin yfir áfanganum – samvistir fjölskyldunnar, sem skapar ljúfar minningar um undarlega samsetningu á matardiski í fermingarveislu.

Roastbeef, graflax, lamb, rauðkál, rækjuhlaup með brúnni sósu, saman á disk, er ekki í áhugavert í sjálfu sér.

Stjórnmál verða að fara að snúast um framtíðarsýn; hvers konar samfélag er skynsamlegt og siðlegt og hvaða leið er rétt að því marki.

Ég veit að þar greinir okkur á. en þó það sé alveg ljóst að hrogn og súkkulaði eru hvort tveggja uppistaða í rétti – er ólíklegt að hráefnin henti í sömu uppskrift.

Stjórnmál eiga ekkert að vera huggulegur selskapsklúbbur, þar sem augljóst er að allir eigi eða geti unnið saman í ríkisstjórn, þó við getum sýnt hverju öðru kurteisi og sameinast um einstök góð mál,

Við getum t.d. stutt við mótun frekari loftlagsaðgerða en ekki sætt okkur við of lítið fé til sjúkrahúsþjónustu, metnaðarleysi í menntamálum eða ömulegt úrræðaleysi í húsnæðismálum. Og aldrei óréttlatt skattkerfi, þar sem ekkert er tekið á vaxandi eignaójöfnuði.

Það þarf að stíga mikið róttækari skref í átt að jöfnuði til að hægt sé að hefja lífskjarasókn fyrir alla. Búa launafólki, öldruðum og öryrkjum fjárhagslegt öryggi og félagslegt svigrúm. Gera velferðar- og heilbrigðisþjónustu ódýrari.

Herra forseti. Ungt fólk hefur t.d. ekki notið uppgangs síðustu ára. Það hefur verið skilið eftir þrátt fyrir að vera lykillinn að farsælli framtíð okkar. Við þurfum stórsókn í húsnæðismálum sem tryggir þeim og tekjulágu fólki hagkvæmar íbúðir til kaups og leigu á viðráðanlegum kjörum. Hækka barna- og húsnæðisbætur meir og draga úr skerðingum. Lengja fæðingarorlof eins og alltof lengi hefur verið lofað. Umfram allt verðum við að fjárfesta í menntun. Það er afgerandi á tímum mikilla tækniframfara og breytinga á aldursamsetningu þjóðarinnar.- Annars drögumst við aftur úr öðrum þjóðum Góðir skólar eru undirstaða öflugs atvinnulífs, þar sem hugvit og nýsköpun verða helsta útflutningsvaran. Ungt fólk getur valið allan heiminn að vettvangi og þau þurfa viðunandi skilyrði til þess að þau hafi yfir höfuð áhuga eða efni á að búa á Íslandi.

Við verðum að hætta að festast í viðbrögðum og bútasaumi. Hafa kjark og framsýni til þess að skapa framtíð sóknarfæra og stöðugleika. Við getum valið frjálslyndi eða stjórnlyndi – framsækni eða íhald – og við sjáum öll hvar núverandi ríkisstjórn liggur á þeim ási. Þessvegna verður að gera grundvallarbreytingar, þar sem almannahagsmunir ráða – ekki þröngir sérhagsmunir. Breyta gjaldtöku af sameiginlegum náttúruauðlindum, þannig að meiri arður renni til almennings. Endurskoða landbúnaðarkerfið. auka samkeppni og nýsköpun, með hag neytenda í fyrirrúmi. Efna loforð um nýja stjórnarskrá – eins og þjóðin hefur samþykkt í atkvæðagreiðslu. Og ekki síst! Nú þegar fyrisjánlegt er að krónan komi almenningi í vandræði eina ferðina enn – er nauðsynlegt að vinna að upptöku evru með inngöngu í Evrópusambandið.

Herra forseti. Við höfum mikla hagsmuni af alþjóðlegu samstarfi og getum ekki leyft þjóðernispopúlískum röddum að stefna EES samningnum í uppnám. – Enginn samningur hefur fært okkur meiri velsæld og tækifæri. En við höfum líka samningsbundnar og siðferðilegar skyldur. Við eigum að taka fullan þátt í baráttu gegn loftslagsáhrifum – leggja meira að mörkum til þróunarsamvinnu, og axla ábyrgð á vanda fólks á flótta. Loks þarf að tryggja betur réttindi og koma sómasamlega fram við innflytjendur og erlent verkafólk, sem á stóran þátt í efnahagsuppgangi landsins síðustu ára.

Herra forseti. Ísland er auðugt land og vandalaust að teikna meðaltöl sem sem sýna almenna velsæld. Munum samt að í skugga meðaltala leynast börn sem búa við skort, ungt fólk í fíknivanda, fjölskyldur á hrakhólum – fátækt fólk. Þó stjórnvöld komi auðvitað aldrei í veg fyrir að fólk verði dapurt, sorgmætt, veikist eða deyi getum við tryggt að öll börn fái að rækta hæfileika sína og styrkleika, óháð efnahag foreldra. – Það er hagur allra.

Mikill jöfnuður er lykilinn að hamingjusömu, framsæknu og kraftmiklu samfélagi. Kæra þjóð Lífið hefur uppá margt að bjóða og fólk þarf líka að andlega næringu. Þess vegna eigum við að styðja alla til þátttöku í íþróttum, menningu og listum. Árangur okkar þar skiptir miklu fyrir sjálfsmynd lítillar þjóðar og ánægjulegt að fagna góðum árangri síðustu misseri.

En í heimi fullum af öfgum; þar sem alið er á hatri tortryggni og hræðslu verða það fyrst og fremst umburðarlyndi, samhjálp og víðsýni sem ákvarða hvort við erum lítil þjóð eða stór.

Karen Kjartansdóttir nýr framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar

Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdarstjóra hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

Karen hefur mikla reynslu af störfum við verkefna- og viðburðastjórnun, fjölmiðlum og kynningarmál. Hún lætur af störfum hjá ráðgjafafyrirtækinu ATON þar sem hún hefur starfað við skipulagða upplýsingamiðlun og almannatengsl. Hún hefur áður starfað sem samskiptastjóri SFS, blaðamaður og pistlahöfundur á DV og einnig sem fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2. Karen er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Karen unnið fjölda trúnaðarstarfa fyrir félagasamtök og félög í atvinnulífinu.

„Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hve stór hópur öflugra og hæfileikaríkra einstaklinga sýndu því áhuga að vinna með okkur að markmiðum Samfylkingarinnar og fyrir hugsjónum um betra samfélag. Á sama tíma og við bjóðum Karenu velkomna til starfa þökkum við öllum umsækjendum kærlega fyrir, sagði Inga Björk Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar Samfylkingarinnar.

Við bjóðum Karen hjartanlega velkomna til starfa!

Flokksstjórnarfundur

Boðað hefur verið til flokksstjórnarfundar 13. október 2018. Fundurinn verður haldinn á Reykjavík Natura.

Formannafundur verður haldinn í tensglum við fundinn.

Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

 

 

 

 

Tómas ráðinn til þingflokks Samfylkingarinnar

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ráðið Tómas Guðjónsson sem upplýsingafulltrúa. Starfið felst í alhliða þjónustu og ráðgjöf við þingmenn ásamt samskiptum við fjölmiðla í tengslum við störf þingflokksins. Tómas hefur þegar hafið störf.

Tómas hefur á starfað við stjórnun herferða, í markaðsmálum og viðburðarstjórnun á síðustu árum samhliða BA-námi í stjórnmálafræði.

Hann hefur gengt lykilstörfum fyrir Samfylkinguna en hann var t.a.m. kosningastjóri í Norðausturkjördæmi 2016 og verkefnastjóri í Alþingiskosningunum 2017. Hann starfaði auk þess sem miðlægur kosningastjóri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og skipulagði landsfund flokksins sama ár.

Við bjóðum Tómas hjartanlega velkominn til starfa!

Ræða Loga Einarssonar á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum

Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, flutti eftirfarandi ræðu á hátíðarfundi Alþingis sem haldinn var fimmtudaginn 18. júlí 2018 kl. 14 að Lögbergi á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins.

 

Herra forseti, forseti Íslands, kæra þjóð.

Skáldið Einar Bragi orti í Báruljóði:

 

Lítill kútur – lék í fjöru – og hló,

báran hvíta – barnsins huga – dró.

Langrar ævi – yndi og vos – á sjó,

báran svarta – bylti líki – og hló.

 

Í þessu áhrifaríka ljóði lýsir skáldið  vel nöprum veruleika Íslendinga langt fram á okkar daga og sýnir hvað við erum lítil og máttvana gagnvart náttúruöflunum; jafnvel þeim sömu og eru undirstaða lífsafkomu okkar.

Á sama tíma og þau fæða okkur, klæða og seiða til sín í fegurð sinni, geta þau breyst í ófreskju í einu vetfangi, hrifsað til sín líf okkar eða kvalið seigdrepandi dauðdaga; skilið ástvini eftir berskjaldaða og agnarsmáa.

Með tímanum hefur mannskepnan lært að búa í haginn; hagnýta  tækni, þannig að náttúran fer ekki jafn óblíðum höndum um hana í amstri dagsins; en um leið gengið svo nærri þolmörkum hennar á mörgum sviðum að risastór skuggi hvílir yfir öllu mannkyninu. Brýnasta verkefni okkar er að endurskoða algerlega umgengni um náttúruna, þannig að við stefnum ekki tilvist mannkyns og lífríkis, eins og við þekkjum, í voða.

Við Íslendingar þurfum að afla nýrrar þekkingar, vera varkár, nýta landið okkar skynsamlega með sjálfbærum hætti. En einnig að búa þannig um hnútana að við getum tekið þátt í verkefnum, sem eðli þeirra vegna krefjast fjölþjóðlegs samstarfs. Það er nauðsynlegt til að tryggja fullveldi okkar og styrkja það til framtíðar.

En á meðan náttúran getur verið duttlungafull og stundum miskunnarlaus er menningin verk okkar sjálfra.  Skipting efnahagslegra og félagslegra gæða, skólar og heilbrigðisþjónusta eða auðlindastýring eru t.d. ekki náttúrulögmál – þar erum við sjálf okkar gæfu smiðir.

Við verðum því að hafa getu til að takast á við grundvallarverkefni samtímans.  Með skynsamlegri samneyslu getum við tryggt hverjum einasta íbúa landsins mannsæmandi lífskjör og með nýrri stjórnarskrá fest þessi og önnur grundvallarréttindi enn betur í sessi.

En við þurfum líka að gangast við ábyrgð okkar sem manneskjur og muna hvaðan við komum. Það er of stutt síðan að Íslendingar gátu ekki brauðfætt börn sín og flúðu þúsundum saman vestur um haf í leit að betra lífi, til þess að við getum litið undan nú, þegar milljónir manna eru á flótta undan fátækt, stríði og loftslagsógnum.

Og måske jeg skal sige det på dansk også – jeg minder om at det er et af det vigtigste at vi bør vise kærlighed og sammenfølelse og hjælpe vores medbrødre over hele verden som nu flygter fattighed og krig uavhængig af religion eller hudfarge.

Þó þessi litla þingsályktunartillaga, sem hér er rædd, sé ekki lausn á öllum okkar vandamálum er hún táknræn fyrir vilja allra þingflokka til að beina sjónum að framtíðinni og því sem skiptir okkur mestu, þrátt fyrir allt.

Annars vegar er yfirlýsing um rétt barna og nauðsyn þess að þau fái öll að njóta blæbrigða lífsins en hins vegar um mikilvægi náttúruauðlinda okkar, hafsins í þessu tilfelli, og ábyrgð sem á herðum okkar hvílir, að vernda þær.

Herra forseti, í dag er vissulega merkilegur áfangi í sögu þjóðar sem lifði í árhundruð, ekki aðeins af náttúrunni heldur einnig þrátt fyrir hana.  Nú þegar við höfum komið ár okkar vel fyrir borð verður nánasta framtíð að snúast um að tryggja öllum réttmæta hlutdeild í gæðum landsins.

Fullveldi þjóðar er vissulega dýrmætt og eitthvað til að gleðjast yfir en fölnar óneitanlega ef við getum ekki tryggt öllum þeim sem henni tilheyra möguleika á að lifa við öryggi og reisn alla ævi.

Kæra þjóð, til hamingju með daginn.

Staða framkvæmdastjóra

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands auglýsir eftir umsóknum um starf framkvæmdastjóra.

Samfylkingin er fjöldahreyfing og telur félaga og aðildarfélög um allt land. Við leitum að manneskju til að hjálpa okkur að halda áfram að vaxa og dafna. Starfið er skemmtilegt, krefjandi og oft á tíðum óútreiknanlegt, því leitum við að lausnarmiðuðum og sveigjanlegum einstaklingi sem er fljótur að setja sig inn í verkefni og leiða saman ólíka krafta.

 

Framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar:

 • Sinnir daglegum rekstri flokksins og fjárreiðum hans
 • Ber ábyrgð á starfsmannamálum
 • Ber ábyrgð á eflingu aðildarfélaga og grasrótar
 • Framkvæmir ákvarðanir stjórnar og framkvæmdastjórnar flokksins í samstarfi við formann framkvæmdastjórnar
 • Skipuleggur viðburði, undirbýr fundi og heldur utan um ýmis verkefni
 • Hefur umsjón með kynningarstarfi flokksins, samskiptum við fjölmiðla og sinnir útgáfu, þ.m.t. vefsíðu og samfélagsmiðlum
 • Annast alþjóðleg tengsl Samfylkingarinnar önnur en þau er lúta að þingflokki
 • Vinnur að heildarhagsmunum og markmiðum Samfylkingarinnar

 

Hagnýt reynsla og miklir skipulags- og samskiptahæfileikir eru lykilatriði.

 

Kostir sem litið verður til:

 • Menntun sem nýtist í starfi
 • Reynsla af skipulagi kosninga, annarra herferða og/eða stærri verkefna.
 • Reynsla og þekking á fjölmiðlum og markaðssetningu
 • Reynsla af starfsmannahaldi og –stjórnun
 • Reynsla af stjórnmála- og/eða félagsstarfi
 • Reynsla af virkjun grasrótar og sjálfboðaliða
 • Þekking á gerð fjárhagsáætlana og fjármálastjórn
 • Hafi framúrskarandi samskiptahæfileika og eigi auðvelt með að starfa með ólíkum einstaklingum með breiðan bakgrunn
 • Taki frumkvæði og sé skipulagður

 

Við hvetjum fólk af öllum kynjum til að sækja um stöðuna.

 

Umsóknir og fyrirspurnir berist á radning@samfylking.is. Frestur til að sækja um er til og með 20. ágúst og umsækjandi þarf að geta hafið störf í haust.

Kjaradeila ljósmæðra – bókun Samfylkingarinnar á fundi velferðarnefndar Alþingis

Á fundi velferðarnefndar 3. júlí 2018, lagði þingmaður Samfylkingarinnar, Guðjón S. Brjánsson, fram eftirfarandi bókun:

Síðastliðna 10 mánuði hafa ljósmæður barist fyrir því að fá laun sín leiðrétt en samningaviðræður Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins engu skilað. Með hverjum mánuðinum sem líður horfum við fram á fleiri uppsagnir og nú er að skapast það hættuástand á Landspítalanum sem að Samfylkingin, aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar og heilbrigðisstarfsmenn- og stofnanir hafa endurtekið varað við.

Samfylkingin beinir þeim skýlausum tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þegar í stað verði beitt öllum tiltækum ráðum til þess að leiða til lykta hina erfiðu deilu sem nú stendur yfir við ljósmæður, fámennrar en mikilvægrar heilbrigðisstéttar, hreinustu kvennastéttar á Íslandi. Skorað er á ráðherra að kjör ljósmæðra verði leiðrétt til samræmis við sérhæft fagfólk með sex ára háskólanám að baki.

Samfylkingin fordæmir aðskilnað barna og foreldra við landamæri Bandaríkjanna

Þingflokkur og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þann 20.06.2018.

Samfylkingin fordæmir harðlega það framferði Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn og foreldra við landamæri Bandaríkjanna til suðurs og krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist tafarlaust við þessum brotum á réttindum barna og flóttafólks.

Það á ekki að líðast að börn séu notuð sem skiptimynt í pólítískum deilum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er ekki nóg með að brotið sé á umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna með því að hneppa þá í varðhald – heldur eru börn þeirra einnig tekin af þeim og jafnvel komið fyrir í ómannúðlegum geymslum án umönnunar til lengri tíma.

Allt að 2700 fjölskyldur hafa þegar verið aðskildar með þessum hætti.

Samfylkingin krefst þess að íslensk stjórnvöld sendi frá sér harðorða opinbera yfirlýsingu vegna málsins og beiti sér á alþjóðlegum vettvangi, t.a.m. í NATÓ þar sem einna mest samskipti við Bandaríkin eiga sér stað. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar beðið um fund í Utanríkismálanefnd Alþingis vegna málsins, sem verður nú á mánudag, og mun þar bera uppi tillögur þess efnis ef ríkisstjórnin bregst ekki við með afgerandi hætti í millitíðinni.

Samfylkingin lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af þeirri vegferð sem Bandaríkjaforseti fetar á alþjóðavettvangi. Bandaríkin hafa að undanförnu sagt sig úr Parísarsáttmálanum, Íran-samkomulaginu og nú síðast Mannréttindaráði SÞ. Bandaríkin eru þar að auki eina ríki Sameinuðu Þjóðanna sem hefur ekki fullgilt Barnasáttmálann.

Ísland á að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum og mannúðlegri mótttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við eigum að vera staðfastir talsmenn verndar barna á flótta og taka afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi,útlendingahatri og mismunun, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Sveitarstjórnarkosningar 2018 – yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs