Guðjón skorar á Heilbrigðisráðherra að nýta Sjúkrahúsið á Akranesi í meira mæli til framkvæmda biðlistaaðgerða og stytta þar með biðlista

Guðjón S. Brjánsson skorar á Heilbrigðisráðherra að nýta sér þá kostnaðargreiningu sem þegar hefur farið fram varðandi liðskiptaaðgerðir og hafa leitt í ljós að hægt er að framkvæma slíkar aðgerðir á hagstæðari hátt á Sjúkrahúsinu á Akranesi heldur en annars staðar.

Hér er ræðan í fullri lengd.

Virðulegur forseti. Um helgina var greint frá því í fjölmiðlum að fresta hafi þurft meira en 300 skurðaðgerðum á Landspítala á síðustu 12 mánuðum. Þetta er ekki óeðlilegt ef horft er til þess að Landspítali er sérhæfðasta bráðasjúkrahús landsins og bráðatilvik ganga fyrir. Þannig virka bráðasjúkrahús. Þessar frestanir þýða að einstaklingar sem þegar hafa beðið allt að tíu mánuði, sem er meðalbiðtími á Landspítala, þurfa að bíða enn lengur við óþægindi, skert lífsgæði og jafnvel þjáningar.

Við getum gert betur í þessum efnum og okkur ber að leita allra leiða. Við eigum opinberar heilbrigðisstofnanir í nánd við höfuðborgina sem hafa möguleika til að koma til liðs en þær hafa ekki verið nýttar sem skyldi. Það er fyrirtaksreynsla af sérhæfðum verkefnum á þessum stofnunum þótt fáar hafi fengið að lifa af í aðgerðastarfsemi eftir niðurskurð undanfarinna ára. Heilbrigðisstofnunin á Akranesi er þó ein þeirra en þar er öflug sérhæfð starfsemi á skurðsviði, kvennaaðgerðir og liðskiptaaðgerðir og fleiri mjög sérhæfðar, vandasamar aðgerðir.

Í svari við fyrirspurn minni fyrir allnokkru kom fram hjá ráðherra að með tilliti til kostnaðar sker ein stofnun sig úr hvað varðar liðskiptaaðgerðir, kostnað á hverja aðgerð á mjöðm og hné. Það er Akranes. Kostnaðurinn var um 35% hærri á Landspítala en á Akranesi og um 31% hærri á Sjúkrahúsinu á Akureyri en á Akranesi.

Allar spár hníga í þá átt að við höfum enn ekki undan varðandi biðlistaaðgerðir. Þjóðin þyngist, álagsmeiðsli og stoðkerfisvandamál eru útbreidd. Það þarf að bæta í fjármunum og það þarf líka að bæta skipulagið, styrkja sérhæfða umgjörð og tryggja samfellu. Ég hvet því ráðherra og skora raunar á hana að nýta sér þá kostnaðargreiningu sem þegar hefur farið fram varðandi liðskiptaaðgerðir. Það blasir við (Forseti hringir.) skynsamlegur, hagkvæmur og faglega öflugur kostur sem tryggir jafnframt góða nýtingu á innviðum í sameiginlegri eigu.

Verkefnin framundan í stjórnmálum: ræða Guðmundar Andra

Fyrsti þingfundur ársins var settur í dag kl 15:00 og byrjaði á dagskrárliðnum Staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra.

Guðmundur Andri Thorsson flutti ræðu fyrir hönd Samfylkingarinnar í fjarveru formanns og sagði meðal annars;

Fjölskyldufólk er svo sannarlega salt jarðar og undirstaðan í farsælu samfélagi en stundum er eins og allt samfélagið sé sett á herðarnar á því fólki á sama tíma og það ætti að vera að einbeita sér að því að ala börnin sín upp.

Barnafólk þarf að vinna hörðum höndum til að hafa í sig og á og standa undir stórfelldum kostnaði við þau lágmarksmannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, eiga heimili; það þarf að borga námslánin; það þarf að borga matinn sem er óhóflega dýr hér vegna krónu og vöruverndar; það þarf að borga virðisaukaskattinn á nauðsynjavörur; það þarf að borga tómstundastarfið og heimsóknir til lækna og skóladótið og allt hitt sem fylgir blessuðum börnunum; það þarf að borga lánin af bílunum til að komast á milli með börnin og sig; það er kannski líka á ótryggasta leigumarkaði Evrópu og þarf að rífa sig og sína upp á fardögum með nýjum áskorunum; hjá einmitt þessu fólki þykir ástæða til að barnabæturnar séu skertar ef það dirfist til að afla sér tekna sem gætu komið því spölkorn frá heljarþröminni.

Og nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga þarf þetta fólk brátt að borga vegaskatta milli bæjarhluta til að byggja upp ónýtt vegakerfi landsins.

Ræðuna má nálgast í heild sinni hér.

Ræða Loga Einarssonar á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum

Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, flutti eftirfarandi ræðu á hátíðarfundi Alþingis sem haldinn var fimmtudaginn 18. júlí 2018 kl. 14 að Lögbergi á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins.

 

Herra forseti, forseti Íslands, kæra þjóð.

Skáldið Einar Bragi orti í Báruljóði:

 

Lítill kútur – lék í fjöru – og hló,

báran hvíta – barnsins huga – dró.

Langrar ævi – yndi og vos – á sjó,

báran svarta – bylti líki – og hló.

 

Í þessu áhrifaríka ljóði lýsir skáldið  vel nöprum veruleika Íslendinga langt fram á okkar daga og sýnir hvað við erum lítil og máttvana gagnvart náttúruöflunum; jafnvel þeim sömu og eru undirstaða lífsafkomu okkar.

Á sama tíma og þau fæða okkur, klæða og seiða til sín í fegurð sinni, geta þau breyst í ófreskju í einu vetfangi, hrifsað til sín líf okkar eða kvalið seigdrepandi dauðdaga; skilið ástvini eftir berskjaldaða og agnarsmáa.

Með tímanum hefur mannskepnan lært að búa í haginn; hagnýta  tækni, þannig að náttúran fer ekki jafn óblíðum höndum um hana í amstri dagsins; en um leið gengið svo nærri þolmörkum hennar á mörgum sviðum að risastór skuggi hvílir yfir öllu mannkyninu. Brýnasta verkefni okkar er að endurskoða algerlega umgengni um náttúruna, þannig að við stefnum ekki tilvist mannkyns og lífríkis, eins og við þekkjum, í voða.

Við Íslendingar þurfum að afla nýrrar þekkingar, vera varkár, nýta landið okkar skynsamlega með sjálfbærum hætti. En einnig að búa þannig um hnútana að við getum tekið þátt í verkefnum, sem eðli þeirra vegna krefjast fjölþjóðlegs samstarfs. Það er nauðsynlegt til að tryggja fullveldi okkar og styrkja það til framtíðar.

En á meðan náttúran getur verið duttlungafull og stundum miskunnarlaus er menningin verk okkar sjálfra.  Skipting efnahagslegra og félagslegra gæða, skólar og heilbrigðisþjónusta eða auðlindastýring eru t.d. ekki náttúrulögmál – þar erum við sjálf okkar gæfu smiðir.

Við verðum því að hafa getu til að takast á við grundvallarverkefni samtímans.  Með skynsamlegri samneyslu getum við tryggt hverjum einasta íbúa landsins mannsæmandi lífskjör og með nýrri stjórnarskrá fest þessi og önnur grundvallarréttindi enn betur í sessi.

En við þurfum líka að gangast við ábyrgð okkar sem manneskjur og muna hvaðan við komum. Það er of stutt síðan að Íslendingar gátu ekki brauðfætt börn sín og flúðu þúsundum saman vestur um haf í leit að betra lífi, til þess að við getum litið undan nú, þegar milljónir manna eru á flótta undan fátækt, stríði og loftslagsógnum.

Og måske jeg skal sige det på dansk også – jeg minder om at det er et af det vigtigste at vi bør vise kærlighed og sammenfølelse og hjælpe vores medbrødre over hele verden som nu flygter fattighed og krig uavhængig af religion eller hudfarge.

Þó þessi litla þingsályktunartillaga, sem hér er rædd, sé ekki lausn á öllum okkar vandamálum er hún táknræn fyrir vilja allra þingflokka til að beina sjónum að framtíðinni og því sem skiptir okkur mestu, þrátt fyrir allt.

Annars vegar er yfirlýsing um rétt barna og nauðsyn þess að þau fái öll að njóta blæbrigða lífsins en hins vegar um mikilvægi náttúruauðlinda okkar, hafsins í þessu tilfelli, og ábyrgð sem á herðum okkar hvílir, að vernda þær.

Herra forseti, í dag er vissulega merkilegur áfangi í sögu þjóðar sem lifði í árhundruð, ekki aðeins af náttúrunni heldur einnig þrátt fyrir hana.  Nú þegar við höfum komið ár okkar vel fyrir borð verður nánasta framtíð að snúast um að tryggja öllum réttmæta hlutdeild í gæðum landsins.

Fullveldi þjóðar er vissulega dýrmætt og eitthvað til að gleðjast yfir en fölnar óneitanlega ef við getum ekki tryggt öllum þeim sem henni tilheyra möguleika á að lifa við öryggi og reisn alla ævi.

Kæra þjóð, til hamingju með daginn.

Skjaldborg um sérhagsmuni

Ræða Guðmundar Andra Thorssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 14.12.2017

Virðulegi forseti, góðir landsmenn,

Við erum ofurseld dyntum og lögmálum náttúrunnar hér á landi og við höfum lært að laga okkur að þeim. En náttúrulögmálin ríkja ekki jafn víða í lífi okkar og stundum mætti ætla.

Það er til dæmis ekki náttúrulögmál að hér séu háir vextir og yfirþyrmandi afborganir af lánum fyrir allt venjulegt launafólk sem er bara að fullnægja þeirri grundvallarþörf hverrar fjölskyldu – og grundvallar mannréttindum –  að hafa húsaskjól.

Gjaldmiðillinn er ekki náttúrulögmál og krónan er ekki þjóðargersemi sem við eigum að elska eins og lóan eða þoltasóleyin, heldur ákveðið fyrirkomulag á skiptingu verðmæta í samfélaginu sem hentar þeim ríku og voldugu, sérhagsmunum, en bitnar á öllum almenningi í formi vaxtaokurs og verðtryggingar, að ekki sé talað um þær stórfelldu kjaraskerðingar sem við kennum við gengisfellingar.

Það er ekki náttúrulögmál sem veldur því að arður þjóðarinnar af sjávarauðlind sinni í formi veiðigjalda er eitt prósent af tekjum ríkisins. Það er ákvörðun stjórnmálamanna að hafa þetta svona vegna þess að það hentar voldugum öflum. Fyrir vikið verðum við af öflugum, réttlátum og varanlegum tekjustofni til að styrkja samfélagið en ofsagróði kvótaeigendanna smýgur um allt þjóðlífið með alls konar afleiðingum – sá sem á annað borð ratar aftur heim frá skattaskúmaskotum heimsins

Það er ekki náttúrulögmál sem við þurfum bara að aðlagast að ráðherrar svíki loforð sín eftir kosningar eins og gert var með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og gert hefur verið aftur og aftur – og enn og aftur nú – í framlögum til heilbrigðismála og menntamála. Í lýðræðisríki ættu svikin kosningaloforð að vera pólitískur ómöguleiki.

Það er ekki náttúrulögmál að þessi ríka og vel menntaða þjóð búi við heilbrigðiskerfi sem einkennist af stjórnleysi, langvarandi vanrækslu, óhóflegu vinnuálagi og sífelldum þrýstingi til einka- og gróðavæðingar kerfis sem landsmenn vilja að sé opinbert.

Ekkert af þessu er náttúrulögmál en allt vitnar þetta um að almannahagsmunir eru fyrir borð bornir en ákvarðanir teknar með sérhagsmuni að leiðarljósi. Þetta er ekki vegna þess að stjórnmálamenn séu spilltar og vondar manneskjur heldur þarf gagngerar og djúptækar kerfisbreytingar á íslensku samfélagi. Því miður vitnar ekkert í stefnuræðu forsætisráðherra eða komandi fjárlögum um að slíkar breytingar séu í vændum heldur bendir flest til þess að núverandi stjórnarflokkar hafi ákveðið að slá skjaldborg um sérhagsmunina.

Horfa á ræðu:

 

Afstöðuleysi – Ræða Helgu Völu

Ræða Helgu Völu Helgadóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 14.12.2017

Virðulegur forseti, góðir landsmenn.

Íslendingar hafa skapað sér nafn á alþjóðavísu fyrir afstöðu sína til jafnréttis kynjanna. Hér var fyrsta konan kosin þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum og hefur skýr afstaða til jafnréttis kynjanna upp frá því skapað okkur ákveðna sérstöðu meðal þjóða heims.

Íslendingar hafa einnig skapað sér nafn vegna umhverfismála, málefna Norðurslóða og loftslagsmála, mögulega að ósekju, en engu að síður höfum við náð að vekja á okkur athygli fyrir þessa skýru afstöðu okkar með náttúrunni. Er því ekki úr vegi að hrósa forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hafa greint svo frá á ráðstefnu í París fyrr í vikunni að Ísland myndi standa við sínar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins um kolefnishlutleysi árið 2040. Sú skýra afstaða ríkisstjórnarinnar til loftslagsins er lofsverð.

Ísland hefur einnig tekið skýra afstöðu í réttindamálum samkynhneigðra og verið á margan hátt leiðandi í þeim málum, sem og þegar kemur að sjálfstæðisbaráttu ríkja, en þar gekk Ísland fremst í flokki er sjálfstæði Eistrasaltsríkja sem og Palestínu var viðurkennt. Fyrir þessa skýru afstöðu í réttindabaráttu hér heima og erlendis sköpum við okkur sértöðu.

Þess vegna vakti það athygli þegar forsætisráðherra lýsti afstöðu sinni til þeirrar eldflaugar er Donald Trump bandaríkjaforseti skaut í hjartastað friðarumleitana milli Ísraela og Palestínumanna á dögunum. Sagði forsætisráðherra ákvörðun Trump um að lýsa Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels vera vonbrigði. Var þetta áréttað í stefnuræðunni í kvöld, þar sem þetta var sagt dapurlegt.

Íslendingar eru herlaus þjóð. Ennþá. Við erum því í kjöraðstæðum til að taka skýra afstöðu með friði og gegn stríði í heiminum, afstöðu gegn valdamiklum körlum sem sækjast í átök og ófrið. Við eigum að fylgja Sameinuðu þjóðunum í þessu máli. Þessi mikli vilji Bandaríkjaforseta til að efna til átaka á þessu svæði er þegar farinn að valda tjóni og grefur undan friðarumleitunum. Helstu þjóðarleiðtogar hafa ýmist fordæmt þessar gjörðir bandaríkjaforseta eða lýst yfir megnri andúð. En ríkisstjórn Íslands virðist aðallega vera döpur og hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessar ákvarðanir Trump. Þannig virðist þessari stjórn vera það lífsins ómögulegt að taka einarða afstöðu gegn því verki Donalds Trump sem við nú fylgjumst með.

Það vekur óneitanlega athygli að á sama tíma og fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka svona mildilega til orða eru samþykkt lög á Bandaríkjaþingi þess efnis að bandaríski sjóherinn fái sem samsvarar eins og hálfs milljarðs króna fjárframlagi til að gera endurbætur á flugskýlum bandaríkjahers hér á Íslandi á næsta ári. Þessi frétt vekur athygli enda hafði gleymst að kynna landsmönnum að búið væri að heimila hersetu á Íslandi á nýjan leik, og það í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Ríkisstjórnin talar um vonbrigði og dapurleika vegna ákvarðana Donalds Trump.  Ríkisstjórnin kynnti í dag fjárlög sín fyrir komandi ár hvar hún ánafnar sjálfri sér 20 milljónir í viðbótarframlag til kynningarmála stjórnarráðsins. Þessi ríkisstjórn sem í stjórnarsáttmála talar um loftslag og sókn gegn ofbeldi í miðri Me Too byltingu ætlar nákvæmlega sömu fjárhæð, eða 20 milljónir í þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis á Neyðarmóttökum um allt land sem og í heildarvinnu vegna loftslagsmála. Sama fjárhæð er hugsuð í þessa þrjá hluti, viðbótarframlag til kynningarmála ríkisstjórnar, þjónustu við þolendur ofbeldis og loftslag. Þetta, góðir landsmenn er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þarna birtist hún svart á hvítu.

Svo ég taki orð forsætisráðherra mér í munn þá lýsi ég því hér með yfir að þetta eru mér vonbrigði og ég er einlæglega döpur yfir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á hennar fyrstu dögum.

Gleðileg jól.

Horfa á ræðu:

Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum

Ræða Loga Einarssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 14.12.2017

Herra forseti, ágætu landsmenn.

Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og fagna því að nú situr kona, í forsæti öðru sinni.  Vonandi telst það ekki til tíðinda í náinni framtíð.

Það eru nokkur ágætis fyrirheit í nýjum sáttmála. Metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, lenging fæðingarorlofs og átak í samgöngumálum, svo eitthvað sé nefnt.

Þá eru boðuð aukin framlög til heilbrigðis og menntamála, þó það sé mikið áhyggjuefni að bæta eigi í rekstur, án þess að byggja það á varanlegri tekjuöflun.

Þá er nefnt að styrkja eigi Alþingi og ná betri samstöðu með minnihlutanum.  Fyrstu skref ríkisstjórnarinnar benda þó til lítils annars en að nú eigi allt falla í ljúfa löð af því að nákvæmlega þessir flokkar setjast í ríkisstjórn.  Öllum óskum minnihlutans var hafnað en með sáttinni vísað í þverpólitískar nefndir, m.a. í stjórnarskrármálinu og um útlendingalög.

Það þarf nú ekkert sérstakt hugmyndaflug til að sjá að sú tilhögun varpar fyrst og fremst ljósi á óleystan ágreining ríkisstjórnarflokkanna.

Hæstvirtur forsætisráðherra freistar þess í ræðunni að réttlæta stjórnarsamstarfið og talar um óvenjulegar aðstæður, breitt samstarf, gildi málamiðlana og mikilvægi þess að skapa traust.

Það sem einkum hefur skilið þessa flokka að er afstaða þeirra til skattkerfisins og viðhorf til jöfnuðar.  Í stjórnarsáttmálanum felst sú málamiðlun að Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Hún fellst því aðallega í því að gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði.

Breidd samstarfsins er að öðru leyti stórlega orðum aukin. Þau eru fullkomlega samstíga í varðstöðu um sérhagsmuni og afturhald í málum sem þarfnast umbóta: Um ónýtan gjaldmiðil, háa vexti, óréttlæti í sjávarútvegi, einokun í landbúnaði og úrelta stjórnarskrá.

Viðhorf þeirra til sameiginlegra auðlinda almennings er svo kórónað í stórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: „Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“  Það á sem sagt að gefa takmarkaðar auðlindir.

Traustið sem hæstvirtum forsætisráðherra er svo tíðrætt um í ræðunni er nærtækast að endurheimta með baráttu gegn þeirri spillingu, leyndarhyggju og frændhygli sem varð tveimur síðustu ríkisstjórnum að falli.

Það hyggjast Vinstri græn gera með því að leiða aðal leikarana úr tveimur síðustu harmleikjum á sviðið á ný; meira eða minna í sömu hlutverkum.

Það ekki trúverðugt að fela núverandi fjármálaráðherra endurskipulagningu bankanna og láta hann sýsla með arð af ríkisfyrirtækjum. Kaldhæðni að hann leiði baráttu gegn skattsvikum og undanskotum.

Og það eru vonbrigði að dómsmálaráðherra sem tók flokkinn sinn fram yfir almenning í nýlegu máli, er varðar uppreist æru, skulli leidd aftur til valda. Dapurlegt að treysta henni fyrir málefnum flóttamanna.

Nei herra forseti, þetta samstarf mun ekki endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum en líklega hitti hæstvirtur forsætisráðherra þó naglann á höfuðið þegar hún sagði í ræðunni að „þetta væri svolítið óvenjuleg nálgun“.

Kæru landsmenn. Samtakamáttur kvenna að undanförnu sýnir okkur skýrt að það þarf hugarfarsbyltingu í samfélaginu. Hann teiknar upp skýra og afar ógeðfellda mynd af árþúsunda gamalli karlamenningu sem stendur í veginum fyrir jafnrétti kynjanna. Það er auðvitað nauðsynlegt að ráðast í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi, en ekki síður kerfislægri niðurlægingu, mismunun og ókurteisi gegn konum, sem eitra allt daglegt líf, jafnvel án þess að við karlar gerum okkur fyllilega grein fyrir því.

Og eins mikilvægt og það er að konur rjúfi glerþök Alþingis og annara valdastofnanna, má ekki gleyma að mörg erfiðustu og mikilvægustu störf samfélagsins, sem eru nær eingöngu unnin af konum, eru láglauna störf; Nægir að nefna  fiskvinnslu- og ræstingarkonur, sjúkraliða, kennara.  Þetta er því miður engin tilviljun, heldur karllægt gildismat og afar skýr birtingarmynd kynjamisréttis og ójöfnuðar í samfélaginu.

Og á þessu fordæmalitla hagvaxtarskeiði ætti baráttan fyrir jafnrétti kynjanna, og gegn misskiptingu einmitt að vera megin viðfangsefni stjórnvalda.

Hæstvirtur forsætisráðherra á það til að vitna í franska hagfræðinginn Thomas Piketty.   Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ein leið til þess dreifa auðinum jafnar er að lækka skatta á stóra hópa og hækka skatta á þá sem allra mest eiga, til að misskiptingin auðs, nái ekki hæstu hæðum.“

Þessi orð rýma prýðilega við stefnuskrá Vinstri grænna, en ekki við stjórnarsáttmálann eða fjárlög.

Það er nauðsynlegt að styrkja innviði og almannaþjónustu. Til þess þarf þó að afla varanlegra tekna. Ekki berja aðeins í brestina og nota afgang og arð sem eru jafn hverfulir og íslenskt veður.

Á toppi hagsveiflu er besti tíminn til þess að auka tekjur og jafna kjörin.  Það er auk þess skynsamlegt, til þess að fresta og milda næstu niðursveiflu, lækka vexti og halda aftur af verðbólgu.

Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Líklega nóg til að þeirra mati. Afleiðingum þess er velt yfir á næstu ríkisstjórn.

Hækkun skatts á fjármagnstekjur mun litlu sem engu skila vegna nýrrar reiknireglu. Lækka á neðra þrep tekjuskatts, sem færir þeim tekjuhæstu þrefalt meira í vasann en öðrum á lágmarkslaunum. Fólki sem getur með engu móti náð endum saman.

Ríkissjóður verður af milljörðum króna í tekjur sem gætu nýst til að ráðast gegn ójöfnuði og fátækt.

Kannski birtist þó forgangsröðun ríkisstjórnarinnar með nöturlegustum hætti þegar bornar eru saman tvær setningar úr stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að bregðast við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma”.

Á öðrum stað, með leyfi forseta; „Gerð verði úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt…”

Hæstvirta ríkisstjórn, það er hægt að hefjast strax handa til að bæta hag fátækra barna.  Úttekt má hins vegar vel gera samhliða.  Við vitum nákvæmlega hvar skórinn kreppir og þekkjum vel  leiðir til að losa um hann.

Hækka þarf barna- og vaxtabætur, ásamt grunnlífeyri aldraðra og öryrkja.  Lítið er minnst á þetta í stjórnarsáttmálanum og engar hækkanir í fjárlögum. Sama á við um innflytjendur og fólk á flótta.

Umfram allt verður að ráðast í stórátak í húsnæðismálum. Því miður snýr umfjöllun ríkisstjórnarinnar helst að því að þrengja lánamöguleika ungs fólks.

Herra forseti.  Bilið milli fátækra og ríkra mun halda áfram að aukast, undir forsæti sósíalista: Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi.

Kæru landsmenn. Hæstvirtur forsætisráðherra segir að í augum alþjóðasamfélagsins séum við fyrirmyndar þjóðfélag að ýmsu leiti. Og að við eigum að gleðjast yfir því sem vel gengur.

Það er hárrétt og Þó það sé vafalaust rétt að allir hafi það nokkuð gott að meðaltali, birtast daglega óhuggulegar andstæður; líka hér á Íslandi:

Eldri hjón sitja fyrir framan arineld í rándýru einbýlishúsi og skrifa jólakort meðan gömul kona hýrist í kjallaraholu og veltir því fyrir sér hvort hún eigi að greiða rafmagnsreikninginn eða sækja sér læknishjálpar.

Miðaldra kall sankar að sér íbúðum til að leigja á gróðavæddum skortmarkaði, meðan annar heldur upp á fimmtugsafmælið sitt í húsbíl í Laugardal og vonar að nóttin verði ekki köld.

Útsjóna samur auðkýfingur andar léttar í lok dags eftir að hafa komið peningunum sínum fyrir á Panama en lítill strákur fær ekki bestu mögulegu lyf vegna þess að það vantar tugi milljarða af týndu fé í samneysluna.

Ung fjölskylda, með börn, situr í þotu á leið til Þýskalands í aðventuferð. Fáum sætum aftar er ungur maður, veik ófrísk kona og lítið barn þeirra á leið burt úr öryggi, út í óvissuna, vegna þess að Ísland hafði ekki tök á því að veita þeim skjól.

Lítill strákur fer að sofa á Þorláksmessukvöldi, fullur tilhlökkunar. Hann er sannfærður um að Kertasníkir verður rausnarlegur morguninn eftir og vonast svo eftir leikjatölvu í jólagjöf.  Bekkjarfélagi hans skríður upp í rúmið sitt á sama tíma, veit að hann fær ekkert í skóinn og sofnar með kvíðatilfinningu vegna jólanna.

Kæru landsmenn við getum gert svo mikið betur; gleðilega aðventu.

Horfa á ræðu:

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar, 6. október 2017

Til eru dýr sem eru gríðarlega litrík og falleg.  Þegar þau ber fyrir augu gleymist allt annað og  þau fanga alla athygli um stund. Þau geta samt sum ekki vænst þess að lifa nema í örfáar klukkustundir.

Önnur eru lífseigari eins og Þessi fallega marglytta, Turritopsis dohrnii.  Hún býr yfir þeim einstaka hæfileika að hafa sigrast á dauðanum.  Þegar líður að lokum, skríður hún inn í kjarna sinn og endurfæðist, nákvæmlega eins.  Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki sérstaklega eftirsóknarverður kostur.

Mannskepnan er líka býsna merkileg.  Hún hefur náð yfirburðastöðu í lífríkinu, ekki síst vegna einstaks hæfileika síns að geta numið og uppgötvað og miðlað þekkingu milli kynslóða.  Þá getur hún hugsað skapandi og abstrakt. En maðurinn er líka breiskur og sést ekki alltaf fyrir og hefur kannski orðið fórnarlömb eigin velgengni.

Stjórnmálahreyfingar eru líka margs konar. Sumar spretta upp vegna einstakra dægurmála,  stemmningar í samfélaginu eða jafnvel persónulegs ágreinings. Slíkir flokkar skjóta illa rótum og geta ekki vænst langra lífdaga.

Aðrir endast lengur og verða kannski eilífir, en neita að horfast í augu við eigin mistök og takast á við óheilbrigðan kúltúr.

Svo eru til þeir sem byggja á sterkum rótum og djúpum tilgangi. Þeir verða gjarnan fjöldahreyfingar með sterka grasrót og öfluga innviði. Slíkir flokkar eiga þó sína góðu og slæmu daga eins og gengur. Þegar illa árar nægir þeim ekki að draga sig inn í skel tímabundið og birtast aftur óbreyttir. Þeir horfa í eigin barm, skerpa á stefnunni, aðlaga hana að samtímanum og endurnýja áhöfnina.

Við mætum nú til leiks með mikið breyttan hóp í framlínunni, sem er fullur ákefðar að bera fram stefnu sósíaldemókrata og bjóða upp á lausnir sem hafa gert Norðurlöndin að kraftmestu og manneskjulegustu samfélögum í sögu mannkynsins.

Rætur okkar hreyfingar má rekja allt aftur til iðnbyltingarinnar á 18.öld. Gufuvélin og önnur tækni kom fram á sjónarsviðið og leysti vöðvaflið af hólmi.  Alþýðan flyktist úr sveitum og borgir stækkuðu gríðarlega.  Til urðu algjörlega nýjar og óþekktar aðstæður.

Bregðast þurfti við grundvallarhlutum s.s. húsnæðisþörf en einnig urðu sýnilegri ýmis félagsleg vandamál í svo fjölmennu sambýli.

En þetta efldi  samtakamátt fólks og stéttarvitund, sem leiddu af sér stærri breytingar en nokkru sinni áður í sögu mannkyns; aukin borgaraleg réttindi, almenna barnafræðslu, bann við barnaþrælkun, kosningarrétt kvenna svo eitthvað sé nefnt.

Hér á Íslandi gerðust hlutirnir örlítið seinna og kannski með heldur ljóðrænni hætti:

Sjómaður setti sig niður við sjávarsíðuna. Hann valdi stað með góðu bátalægi, þar sem stutt var á miðin. Áhöfn réð sig á bátinn og lítil þyrping húsa reis, ásamt kirkju. Vegna þess að maður er manns gaman stofnuðu íbúarnir kvenfélag og kór. Börnum fjölgaði og barnaskóli var settur á stofn. Þörf varð fyrir smið, sauma- og yfirsetukonu og kaupmann.

Þarna var líka sérvitur stúlka sem málaði litlar myndir á masonitplötur með lélegum litum og nokkrir sem voru ekki bjargálna. Þeim var hjálpað og fundið verkefni við hæfi. Þorpið reis við holótta götu sem endaði í torgi við kirkjuna. Þar safnaðist fólkið saman á tyllidögum. Þorpið var orðið samfélag.

Í þessu litla og dæmigerða íslenska þorpi birtist á sama tíma frumkvöðlakraftur og áræðni einstaklingsins en um leið kannski það fallegasta í mannsálinni; samkennd og samhjálp.

Saga Samfylkingarinnar og forvera hennar er samofin réttindabaráttu alþýðunnar og margir af stærstu áfangasigrunum í baráttu fyrir betri kjörum hafa unnist fyrir tilstilli okkar. Vökulögin, lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður námsmanna eru dæmi um réttarbætur þar sem þeir lögðu styrkastar hendur á plóginn.  Þá tryggðu jafnaðarmenn ákvæði í fiskveiðistjórnunarlög, um að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Loks er ótalið framlag þeirra  í þágu viðskiptafrelsis og opnari samskipta við önnur ríki.  Í dag búa  þúsundir barna enn við fátækt, launamunur eykst og sífellt stærri hluti auðsins safnast á fárra hendur.

Við höfum því enn mikilvæg verk að vinna. Og hlutverk okkar skal líka verða stórt í að bæta íslenskt samfélag framtíðarinnar.

Hvernig má það það  t.d. vera að í þessu  auðuga landi, ríku af auðlindum, með hátt menntunarstig skuli vinnandi, harðduglegar fjölskyldur ekki  ná endum saman. Og við minnsta áfall geta þær lent í stórkostlegum vandræðum. Fjölskyldur , þar sem báðir foreldrar vinna úti, þurfa jafnvel að velja milli þess að greiða reikninga, veita börnum sínum tómstundir eða sækja sér læknisþjónustu.

Og hvað er að þegar þúsundir barna í þessu vel stæða samfélagi líða skort?

Þetta er óboðlegt.  Kosningar nú  gefa okkur kærkomið tækifæri til þess að auka félagslegan stöðugleika  og færa okkur nær norræna módelinu sem svo oft er litið til.

Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi og stöðugleika og guð má vita hvað hann á við með því eða af hverju honum dettur í hug að þau verði á einhvern hátt tryggð með viðveru hans.

Við göngum nú til kosninga, öðru sinni á einu ári eftir að tvær ríkisstjórnir, með hann innanborðs, hrökklast frá völdum, rúnar trausti, að kröfu almennings.

Í fyrra skiptið vegna spillingar en í seinna skiptið vegna leyndarhyggju; þar sem reynt var að fela upplýsingar um ofbeldismál gegn börnum.  Í fyrra leyndi forsætisráðherra skýrslu um panamaskjölin; ástæðu kosninganna.

Í þessari kosningabaráttu verður að ræða um gildi og siðferði samfélagsins. Þótt lög og reglur séu mikilvægar mun ekkert samfélag lifa, ef þau eru hinn eini marktæki mælikvarði.  Þrátt fyrir allt byggir samfélagssáttin fyrst og fremst á hinum óskráðu viðmiðum og siðviti manna.

Í dag komust íslensk stjórnmál enn á ný  í kastljós erlendra fjölmiðla vegna  skorts á siðferði og heiðarleika forsætisráðherra þjóðarinnar.

Traust á milli íslenskra stjórnmálamanna og almennings verður ekki endurheimt nema þessi mál séu rædd ýtarlega og gerð upp.  Auk þess þarf almenningur að fá meiri aðkomu að mikilvægum ákvörðunum.

Viljum við t.d. að stjórnmálamennirnir skrifi samfélagssáttmálann einir?  Eiga þeir að setja leikreglurnar sem þeir starfa eftir einir?  Auðvitað ekki . Nú þegar öldur hrunsáranna eru farnar að lægja, er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að þjóðin ráði för í stjórnarskrármálinu.

Evrópumálin er annað mál sem klýfur þjóðina í herðar niður. Þjóðaratkvæðagreiðsla er besta leiðin til að útkljá það mál. ´Viljum við taka upp evru og létta þungri vaxtabyrði af heimilinum eða viljum við það ekki?  Á þessu hafa margir skoðun; leitum til þjóðarinnar.

 

Mikilvægt verkefni stjórnmálanna í dag er að bæta kjörin og auka jöfnuð.

Við þurfum að tryggja að almenningur búi við öryggi frá vöggu til grafar og minnstu áföll setji fólk ekki í stórkostlegan vanda.  Sérstaklega þarf að huga að barnafjölskyldum.  Fátt er börnum jafn mikilvægt og að búa við öryggi og stöðugleika. Nýjar tölur frá verkalýðshreyfingunni og Hagstofunni sýna að stöðugt er þrengt að venjulegu fólki á meðan skattbyrði er létt af breiðustu bökunum.

Samfylkingin vill því hlífa lág- og millitekjuhópum sérstaklega við frekari álögum og þvert á móti grípa til aðgerða til að bæta stöðu þessa hóps.

Unga fólkið mun draga vagninn í framtíðinni og við viljum nesta það betur út í þann leiðangur.

Við viljum tvöfalda barnabætur, hjálpa ungu fjölskyldufólki og verðlauna fyrir þá dýrmætu fjárfestingu sem börnin okkar eru.

Við munum auka vaxta og húsnæðisbætur.  Við ætlum að tryggja að hér verði  byggðar nokkur þúsund íbúðir í almennum leigufélögum. Þær íbúðir eiga að verða raunhæfur valkostur fyrir lægri tekjuhópa.

Við viljum að öldruðum sé sýnd sú virðing sem þeir eiga skilið fyrir að hafa fært okkur það samfélag sem við búum við í dag, þrátt fyrir allt.  Við viljum að öryrkjar búi við betri aðstæður.  Við ætlum að auka lífsgæði þeirra, bæta kjörin og draga úr tekjuskerðingum. Þessi ásetningur okkar er undirstrikaður af framjóðendum okkar sem hafa látið sig þessi mál varða um langan tíma. Ég nefni Ellert B. Schram, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ernu Indriðadóttur og að ógleymdum Björgvini Guðmundssyni.

86.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að mæta þessum vilja þjóðarinnar. Í fjárlögum næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna þjónustu í einkarekstri. Samfylkingin hafnar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggur áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu. Við ætlum að svara kalli þjóðarinnar.

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar sem mun hafa gríðarlega og ófyrirséðar breytingar á samfélagið.

Vinnumarkaðurinn mun taka stakkaskiptum og menntakerfið þarf að búa nemendur undir þessar breytingar.  Auknar kröfur verða á eiginleika s.s. skapandi hugsun og tæknifærni. Við þurfum að leggja meiri áherslu á skapandi greinar, listir, rannsóknir og nýsköpun til að geta mætt þessum nýja veruleika.

Við erum hálfdrættingar á við Norðurlöndin  þegar kemur að fjármögnun háskólanna, þarna þarf að gera betur. Sama á við um framhaldsskóla landsins. Við þurfum að auka virðingu á kennarastéttinni og bæta aðstæður þeirra. Þeir munu leika lykilhlutverki í þessari nýju framtíð.

Í jöfnu aðgengi að menntun felst líka öflug byggðarstefna. Aukið þekkingarstig og ný tækni gera fólki kleift að stunda vinnu sína hvar sem er í heiminum. Líka á Stöðvarfirði og Bíldudal. Til að fólk vilji og geti búið út um allt land verðum við að bjóða fólki upp á greiðar samgöngur, raforkuöryggi og gott netsamand.

Auðvitað er ekki alltaf augljóst ekki hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar fari  saman. En landsbyggðirnar þurfa á sterkri höfuðborg að halda og höfuðborg á sterkum landsbyggðum.

Góðu vinir, hér er ekki hægt að tala án þess að drepa á málum sem snerta hjörtu jafnaðarmanna og þurfa að fá meira rúm í umræðunni.

Við þurfum að ráðast af alefli gegn kynbundnu ofbeldi og herða róðurinn í átt að jafnrétti kynjanna. Þar skiptir ekki minnstu máli að breyta gildismati og uppeldi barnanna okkar. Við karlar þurfum að umgangast konur af miklu meiri virðingu. Stjórnarslitin voru óþægileg áminning um það.

Að sjálfsögðu er barátta gegn öllu misrétti, allri kúgun samofin baráttu okkar jafnaðarmanna.

Jafnaðarmenn geta heldur ekki lokað augunum fyrir stórum vandamálum sem herja á mannkynið

Við verðum að sýna ábyrgð og stíga miklu ákveðnari skref í baráttu gegn loftlagsógninni;  hvort sem um er að ræða hlýnun jarðar, súrnun sjávar eða aðra þætti. Við þurfum að sjálfsögðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og gera helst betur.

Annað stórt vandamál er misskipting í heiminum og stríð sem eiga rætur í henni. Milljónir manna eru á flótta. Ekkert siðað samfélag getur lokað augunum fyrir því. Mannúð er þrátt fyrir allt besti mælikvarðinn  á hver við erum. Við þurfum að gera miklu betur í þessum efnum og hugsa sérstaklega um hag barna.

Ágætu félagar, það er ágætt að hafa orð Olof Palme í huga í upphafi þessarar baráttu: Pólitík er vegferð og þú kemst kannski aldrei í mark, en þú nálgast það.  Og umfram allt má aldrei braska með heilbrigði fólks, fæði, húsnæði og menntun.

Ágætu vinir

Köngulóin er merkilegt dýr. Hún kemur t.d. í veg fyrir pestir með því að halda frá okkur ýmsum óæskilegum kvikindum á heimilum okkar. Hún er hagleiksvera og lipur í hreyfingum en ef allir fætur köngulónnar hefðu sjálfstæðan vilja, væri sú merkilega skepna auðvitað útdauð.

Samstarf og samhæfni er lykilþáttur nú þegar við leggjum í mikilvægar kosningar. Ef okkur auðnast að snúa bökum þétt saman, leggjast öll á árar, vera góð hvert við annað og glöð í hjarta er ég viss um að við munum uppskera ríkulega 28. október, þjóðinni til heilla.

Takk fyrir mig og áfram veginn!.