Bæjarmálafundur í Kópavogi

Samfylkingin í Kópavogi býður til bæjarmálafundar í kvöld mánudaginn 8. apríl í Hlíðasmára 9, Kópavogi
Á fundinum munum við fara yfir bæjarpólitíkina í dag og heyra hvað brennur á nefndafólkinu okkar. Bæjarfulltrúarnir Pétur og Bergljót hafa ásamt öðrum í minnihluta óskað eftir að öldrunarmál í Kópavogi verði dagskrármál á bæjarstjórnarfundi á morgun og munu reifa það.

Allir velkomnir


Stjórnin og bæjarfulltrúarnir Pétur og Bergljót

Sveitarstjórnarkosningar 2018 – yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs

 

Flokksval 2018 í Reykjavík

Nú styttist í flokksvalið vegna borgarstjórnarkosninganna!

Kynningarfundur með frambjóðendum fer fram í Iðnó, laugardaginn 3. febrúar kl. 17-19.

Fjórtán öflugir frambjóðendur gefa kost á sér. Á kynninarfundinum munu þau Oddný Sturludóttir og Þórarinn Eyfjörð spyrja þau spjörunum úr um áherslur þeirra og framtíðarsýn. Síðan gefst fundargestum kostur á að spjalla við þau á borðum í sal. Við lofum fjörugum og upplýsandi fundi!

Flokksvalið sjálft fer svo fram frá kl. 12 þann 9. febrúar til kl. 19. þann 10. febrúar í rafrænni kosningu með íslykli eða rafrænum skilríkjum á www.xs.is Utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður á Hallveigarstígnum dagana 8. og 9. febrúar frá kl. 14-17 og 10. febrúar frá kl. 14-19. Úrslit verða tilkynnt laugardagskvöldið 10. febrúar á Bergson RE.

Upplýsingar um frambjóðendur

Frambjóðendurnir eru:

 • Skúli Helgason, borgarfulltrúi 3. sæti
 • Teitur Atlason, fulltrúi á Neytendastofu 7.-9. sæti
 • Þorkell Heiðarsson, náttúrufræðingur 5.-7. sæti
 • Aron Leví Beck, málari og byggingarfræðingur 3. sæti
 • Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarstjóri 1. sæti
 • Dóra Magnúsdóttir, varaborgarfulltrúi og leiðsögumaður 4. sæti
 • Ellen Calmon, fyrrverandi formaður ÖBÍ 5. sæti
 • Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila og fyrrverandi þingkona 5.-7. sæti
 • Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar 2. sæti
 • Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi 3. sæti
 • Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi 2. sæti
 • Magnús Már Guðmundsson, formaður borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar og formaður SffR 4. sæti
 • Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi 3.-4. sæti
 • Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri 4.-6. sæti

Nánari upplýsingar um frambjóðendur er að finna á síðu flokksvalsins.

Rekstur Reykjavíkurborgar fram úr björtustu vonum – skuldir halda áfram að lækka

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var jákvæð um ríflega 3,6 milljarða króna. Niðurstaðan er 2,5 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir. Skuldir borgarinnar hafa lækkað um 41 milljarð á kjörtímabilinu.

Fjárfest í velferð

,,Þetta gerir okkur kleift að bæta við fjárframlögum í skólamál, velferðar- og húsnæðismál og endurnýjun innviða,” segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. ,,Það höfum við gert frá því viðsnúningur varð í rekstrinum um mitt síðasta ár og munum halda því áfram í næstu fjárhagsáætlun. Sterkari fjárhagsstaða gerir þetta kleift og skólar, velferð, húsnæðismál og innvirðir eru í forgangi hjá meirihluta borgarstjórnar.”

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um tæpa 18,6 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,8 milljarða króna. Rekstrarniðurstaðan er því 10,8 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir.

Skuldir lækkað um 35 milljónir á dag

Skuldir Reykjavíkurborgar hafa lækkað jafnt og þétt frá árinu 2011 og í tíð núverandi borgarstjórnarmeirihluta hafa skuldirnar lækkað um 41 milljarð. Meirihlutinn í borginni hefur starfað í 1177 daga og hafa skuldir borgarinnar því lækkað um 35 milljónir á dag síðan hann tók við.

skuldirrvkborgar

 

Tillaga um kvöld- og næturstrætó samþykkt – „Þetta snýst um jöfnuð“

Á stjórnarfundi Strætó í dag var samþykkt að framlengja aksturstíma strætisvagna til kl 01 á kvöldin og innleiða næturakstur um helgar. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Strætó og varaformaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillöguna fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hún segir að framlengdur aksturstími snúist um jöfnuð – allir eigi að hafa tækifæri til að koma sér á milli staða.

„Á stjórnarfundi Strætó áðan var niðurstaðan að við viljum stórbæta þjónustu Strætó á komandi ári. Engin sumaráætlun, akstur til kl 1 á kvöldin, næturstrætó um helgar, leið 6 á 10 mínútna tíðni á álagstíma og bætt leiðakerfi innan sveitarfélaganna,“ segir Heiða Björg í færslu á Facebook. „Ég er gríðarlega ánægð með þennan áfanga og vona að við sveitarfélög sameinumst um þetta stóra skref í bættum almenningssamgöngum. Reykjavík mun gera það – áfram Strætó!“

Rökin fyrir tillögu um lengdan aksturstíma Strætó eru m.a. þau að margir sem vinna vaktavinnu eða á óhefðbundnum tímum geta ekki nýtt sér þjónustu fyrirtækisins vegna þess að allir vagnar keyra sínar síðustu ferðir fyrir miðnætti. Þá eigi það ekki að vera forréttindi þeirra sem keyra eigin bíl eða búa nálægt miðbænum að geta komið sér heim af kvöldskemmtun. „Þetta snýst einfaldlega um jöfnuð,“ segir Heiða Björg. Allir eigi að hafa tækifæri til að koma sér milli staða.

Ekki er allur björninn unninn því þessar áherslur fara inn í forsendur fjármálaáætlunar sem lögð verður fyrir stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þann 4. september næstkomandi. Það er því undir fulltrúum sveitarfélaganna í stjórn SSH komið hvort af þessu verði eða ekki.

Ungir jafnaðarmenn fagna

Ungir jafnaðarmenn hafa barist fyrir því að Strætó keyri lengur á kvöldin. Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, fagnar samþykkt stjórnar Strætó um framlengdan kvöldakstur. „Að efla almenningssamgöngur er mikilvægt út frá sjónarmiði umhverfisverndar, lýðheilsu, borgarskipulags og jöfnuðar. Í dag var stigið mikilvægt skref í að gera Strætó enn raunhæfari og fýsilegri kost sem ferðamáta en áður,“ segir Þórarinn og skorar á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að klára málið: „Reykjavík og stjórn Strætó hafa stigið skrefið, og nú skiptir sköpum að bæjarstjórnir nágrannasveitarfélaganna hafi þor til að láta þetta verða að veruleika.“

Róttæk, félagslega þenkjandi og stórhuga húsnæðisstefna

Að minnsta kosti 6250 íbúðir verða byggðar í Reykjavíkurborg á næstu 5 árum. Þetta kemur fram í drögum að húsnæðisáætlun borgarinnar, sem kynnt var í ráðhúsinu í gær. Áhersla verður á að auka framboð lítilla og meðalstórra íbúða.

Bygg­ing­ar­svæði fyr­ir yfir 2.500 íbúðir eru kom­in á fram­kvæmda­stig í borg­inni og fjölg­ar þeim hratt. Bygg­ing­ar­svæði fyr­ir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyr­ir í staðfestu skipu­lagi. Megin­áhersla í hús­næðisáætl­un borg­ar­inn­ar er á sam­starf við bygg­ing­ar­fé­lög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjón­ar­miða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir, fyr­ir stúd­enta, eldri borg­ara, fjöl­skyld­ur með lægri og milli­tekj­ur, og bú­setu.

„Þessi hús­næðismark­mið eru rót­tæk, fé­lags­lega þenkj­andi og stór­huga,“ sagði Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri á fund­in­um. Á öll­um nýj­um þró­un­ar­svæðum hef­ur verið samið um að hlut­fall leigu- og bú­setu­rétta­r­í­búða á hverju upp­bygg­ing­ar­svæði verði 20-25%. Jafn­framt hef­ur verið samið um að Fé­lags­bú­staðir hafi kauprétt að um 5% af öll­um nýj­um íbúðum. Hvort tveggja til að tryggja fé­lags­lega blönd­un um alla borg.

Sam­kvæmt áætl­un­um Reykja­vík­ur­borg­ar er stefnt að því að haf­in verði upp­bygg­ing á um 7.000 nýj­um íbúðum fram til árs­loka 2020. Þar af er gert ráð fyr­ir vel yfir 3.000 íbúðum á veg­um leigu- og húsæðis­fé­laga.

Borgin opnar ungbarnadeildir og fjölgar leikskólaplássum

Reykjavíkurborg ætlar að bæta þjónustu við foreldra með ung börn. Aðgerðir þess efnis voru samþykktar í borgarráði í síðustu viku. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir unnið að því að bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskólanna, fjölga leikskólakennurum og bæta kjör þeirra enn frekar.

Frá og með næsta hausti verða settar á fót sjö ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar. Um er að ræða leikskólana Miðborg, Holt (Breiðholti), Sunnuás (Laugardal) og Blásali (Árbæjarhverfi) og alls verður pláss fyrir 90 börn á þessum ungbarnadeildum. Stefnt er að því að slíkar ungbarnadeildir verði starfræktar í öllum hverfum borgarinnar.

Þá mun Reykjavíkurborg fjölga plássum um 300 í leikskólum borgarinnar og með samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla og hækka niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum. Niðurgreiðslurnar verða hækkaðar um 10% til viðbótar við 2,5% hækkun sem tók gildi um áramótin.

Nú er að störfum starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara sem skila mun tillögum sínum um mitt ár. Samhliða verður lögð aukin áhersla á að auglýsa og kynna störf á leikskólum Reykjavíkurborgar sem eftirsóknarverð og gefandi störf með börnum í skapandi umhverfi.

Fundaherferð í Reykjavík

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar og flokksfélögin í Reykjavík eru að hefja mikla sókn og fjölga spennandi fundum fram á sumar.

Fyrsti fundurinn er í næstu viku og mun Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, mæta á hann og fara yfir stöðu mála í borginni.

Fundurinn með Degi fer fram nk. þriðjudagskvöld, 28. febrúar, í Hannesarholti við Grundarstíg, og hefst kl. 20:00. Boðið verður upp á kaffi og te og vonumst við til að sjá sem flesta og að umræðurnar verði bæði upplýsandi og fjörugar.

Sveitastjórnarráð Samfylkingarinnar

Aðalfundur Sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar var haldinn 4. febrúar sl. í Mosfellbæ.

Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi í Sandgerði, var endurkjörinn formaður (t.v. á myndinni). Þá var Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, kjörinn varaformaður (t.h. á myndinni).

Með þeim tveimur í stjórn ráðsins voru kosin bæjarfulltrúarnir Anna Sigríður Guðnadóttir frá Mosfellsbæ, Elvar Jónsson frá Fjarðabyggð og Geirlaug Jóhannsdóttir frá Borgarbyggð.

Hlutverk Sveitarstjórnaráðs Samfylkingarinnar er að styðja kjörna sveitarstjórnarfulltrúa flokksins í þeirra störfum sem og að fjalla um þróun sveitarstjórnamála á hinum ýmsum sviðum þeirra.