Ræða Loga á flokkstjórnarfundi

Kæru félagar.

Við höfum öll mismunandi sýn á lífið og það gerir tilveruna margslungna, fjölbreytta og dásamlega.

Hins vegar lita aðstæður, hvers og eins, frásögnina og það finnst því miður allt of margt fólk sem býr við svo slæmar aðstæður að myndin sem það dregur upp verður óhjákvæmlega dökk, og því finnst ekkert benda til þess að hún muni breytast.

Ástæðurnar geta verið margar – fátækt – sjúkdómar – fordómar. Við eigum erindi við þetta fólk.

Eitt af því sem gerir mannkynið eins öflugt og raun ber vitni, er hæfileikinn til að segja flóknar sögur – aðrar og stærri en þær sem felast í staðreyndum hversdagsins og deila þeim hvert með öðru.

Við getum sagt sögur um tækni sem er ekki til staðar – samfélög sem finnast ekki enn þá – teiknað upp drauma sem heilla milljónir um allan heim.

Fólk af mismunandi þjóðerni, stéttum, trúarbrögðum – sem aldrei hefur hist – og mun líklega aldrei gera það, finnst það eiga eitthvað sameiginlegt og er tilbúið til að vinna að sama markmiði.

Við deilum t.d. þeirri sannfæringu, með hundruðum milljóna, að jafnaðarstefnan geti skapað mannkyninu betri og friðsælli framtíð – ekki fyrir suma heldur alla.

Við vitum vel að draumurinn raungerist ekki á stuttum tíma, með einni aðgerð, í einu landi. Það krefst þvert á móti þrotlausrar vinnu, samstöðu og stöðugs endurmats í síbreytilegum heimi.

Við þurfum að hafa skýra áætlun um hvað þarf til að gera hann að veruleika. – Annars verður draumurinn ekkert annað en örlítil friðþæging, sem yljar okkur í brauðstritinu.

Þó við séum auðvitað ósköp smá í alþjóðlegu samhengi, gegnir Samfylkingin mikilvægu hlutverki í þessari alþjóðlegu hreyfingu.

Nærtækasta verkefnið er auðvitað að tryggja jafnari og betri lífsskilyrði hér á landi en við þurfum líka að vera virkir samherjar í alþjóðlegri baráttu gegn stærstu ógnum samtímans: Ójöfnuði – ófriði og loftlagsvánni.

Samfylkingin er ekki hreyfing sem sprettur upp vegna tilfallandi aðstæðna eða dægurmála sem verða umdeils í samtímanum en gufar fljótt upp.

Við erum hluti af meira en 100 ára fjöldahreyfingu sem berst fyrir því að allt fólk búi við ásættanleg lífsskilyrði, geti lifað með reisn og erum sífellt að þróa verkfæri í þeirri baráttu.

Um leið og við erum þakklát þeim sem undan okkur voru og unnu áfangasigra, höldum við sem erum nú á vettvangi, baráttunni áfram. Og jafnvel þó okkur finnist stundum miða of hægt og við náum ekki öllum markmiðum, er góð tilfinning að vita að nýjar kynslóðir munu taka við og færa okkur nær markinu.

Þess vegna eigum við aldrei að láta glepjast af stundarhagsmunum, fara út af sporinu, ganga gegn grunngildum vegna mála sem eru einungis til þess fallin að skapa flokknum stundarávinning í kosningum.

Samfylkingin mun á endanum uppskera ef hún víkur ekki af leið umburðarlyndis, frelsis og samhjálpar.

Við eigum nefnilega skapalón sem við getum alltaf notað við ákvarðanatöku: Mun ákvörðunin gagnast þeim sem höllum fæti standa; hjálpar hún börnum, stuðlar hún að meiri jöfnuði, gagnast hún komandi kynslóðum – og ef svarið er já er ákvörðun oftast auðveld.

Kæru félagar,

Fyrir 10 árum ríkti hér hálfgert neyðarástand, eftir að bankarnir hrundu. Afleiðingar þess eru okkur öllum ljósar og enn hafa ekki allir jafnað sig á þeim.

Það var þungt og erfitt verkefni að koma landinu í skjól, m.a. með erfiðum ákvörðunum sem Samfylkingin þurfti að taka í ríkisstjórn en reyndust afgerandi.

Vissulega snérist vinna ríkisstjórnar Jóhönnu fyrst og fremst um að verja almenning; að bjarga því sem bjargað varð en þó einnig leggja grunninn að efnahagsbata, sem nú hefur skilað sér í fordæmalitlu hagvaxtarskeiði undanfarin ár.

Ýmislegt lagðist auðvitað með okkur og aðrir flokkar eiga líka sinn þátt. Makríllinn synti inn í lögsöguna og ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr. Síðast en ekki síst var það þó æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.

Þótt miklu hafi verið áorkað náðum við ekki að klára stór mál – við gengum ekki í Evrópusambandið og tókum ekki upp stöðugri gjaldmiðil – náðum ekki að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilar þjóðinni réttmætum arði og við búum enn við úrelta stjórnarskrá.

Allt eru þetta mál sem eru enn mikilvæg og við munum berjast fyrir áfram.

Allir stærstu sigrar jafnaðarmann hafa líka krafist þrotlausrar baráttu í langan tíma og í stjórnmálum er þolinmæði vanmetin dyggð.

Ágætu félagar

Nú þegar þjóðarskútan er komin á réttan kjöl, skiptir miklu máli að það sé tekinn nýr kúrs og stefnan sett á samfélag sóknar og jöfnuðar. Átök íslenskra stjórnmála næstu árin munu snúast um hvert skal halda.

Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað þarf að gera og hefur allt aðra hugmynd um það en höfuðandstæðingur okkar á hægri vængnum. Þess vegna er mikilvægt að við náum vopnum okkar og verðum nægilega stór til að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.

Auðvitað væri þó best að við kæmumst í stjórnarráðið strax á morgun – það bíða nefnilega mikilvæg verkefni.

Við þurfum að Koma á réttlátari skattbyrði til að draga úr vaxandi ójöfnuði og bæta þannig stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks og beita til þess klassískum aðferðum jafnaðarmanna.

Vinna að upptöku Evru, eins og meirihluti Íslendinga vill, samkvæmt nýjustu könnunum, – með aðild að Evrópusambandinu.

Með stöðugri gjaldmiðli gætu fjölskyldur sparað sér tugi þúsunda í hverjum mánuði og notið sambærilegra lífskjara og íbúar hinna Norðurlandanna. Fyrirtækin, ekki síst á sviði nýsköpunar, fengju öruggara rekstrarumhverfi.

Rétta hlut unga fólksins sem er að hefja sín fyrstu búskaparár og eignast börn. Þessi hópur verið skilinn eftir á hagvaxtarskeiði síðustu ára. Þau hafa ekki notið ávinning þess og eru læst inni á ómanneskjulegum húsnæðismarkaði; geta ekki keypt og varla leigt.

Þetta er þó kynslóðin sem mun bera uppi íslenskt samfélag næstu áratugi og það er afgerandi að við búum betur að þeim ef við eigum yfir höfuð að geta vænst þess að þau hafi áhuga eða möguleika á að búa og starfa hér.

Og ég sleppi ekki að nefna að sjálfsögðu myndum við tafarlaust ráðast í aðgerðir til að stöðva nýðingsskap sem viðgengst á vinnumarkaðnum. – Ekki síst gegn erlendu fólki, sem hingað kemur til að bæta lífskjör sín og skilar auk þess ómetanlegu framlagi til lífskjara okkar.

Kæru félagar, hér hafa alltof margir verið skyldir eftir og ekki notið góðæris síðustu ára.

Samfylkingin tekur því einarða afstöðu með launafólki sem býr sig nú undir harða kjarabaráttu í vetur. Hún ætti ekki að koma neinum á óvart – á meðan við sem erum hálaunafólk höfum fengið miklar launahækkanir er fólkið með verstu kjörin enn að bíða.

Ríkisstjórninn segir ekkert svigrúm handa fólki sem hefur ekki efni á mat ef bíllinn bilar – getur ekki sent börnin sín í tómstundastarf – þarf að neyta sér um læknisþjónustu eða veit varla hvar það mun búa eftir örfáa mánuði.

Hér búa 50.000 manns á ómannskjulegum leigumarkaði og þúsundir barna líða skort. Það er ósköp skiljanlegt að krafa launþegahreyfingana sé jafnari kjör.

Kæru félagar, við verðum líka að horfa enn lengra fram í tímann – nokkra áratugi.

Samfélag okkar er að taka stakkaskiptum og mannkynið stendur frammi fyrir foræmalitlum samfélagsbreytingum. Þjóðin er að eldast og sífellt færri munu þurfa að standa undir aukinni verðmætasköpun. Gríðarlegar tækniframfarir og sjálfvirkni munu kollvarpa öllu hinu daglega lífi eins og við þekkjum í dag.

Við munum ekki geta staðið gegn þeim og verðum að finna leiðir nýta þær okkur í hag – og það gætu þær vissulega gert.

– Þær gætu aukið framleiðni, sem er nauðsynleg til að takast á við lýðfræðilegar breytingar.
– Gert okkur kleift að framleiða vistvænni vörur sem er forsenda þess að við getum tekist á við loftlagsvandann.
– Skapað okkur betri og fjölskylduvænni lífsskilyrði og minnkað ójöfnuð milli fólks.

Verði ekki brugðist markvisst við þessum breytingum gætu stærstu áskoranir mannkyns orðið óviðráðanlegar – leitt til hruns siðmenningarinnar og stefnt öllu lífi á jörðinni eins og við þekkjum það í voða.

Samfylkingin mun þess vegna taka fullan þátt í vinnu nýrrar framtíðarnefndar þingsins, sem ætlað er að draga upp nokkrar sviðsmyndir af Íslandi næstu áratugina. – En við munum jafnframt móta eins róttækar aðgerðir og þörf er á til að tryggja ávinning af þeim.

Þrennt þurfum við t.d. örugglega að gera.

Í fyrsta lagi: Til þess að vinna gegn hlýnun jarðar, sem ógnar lífi á jörðinni, verður að fara leið jafnaðarmanna en ekki leið hægri aflanna. Þau trúa að markaðurinn muni leysa þetta af sjálfum sér en við vitum að skýr lög, reglur og grænir hvatar, sett af stjórnvöldum eru nauðsynleg forsenda umhverfisverndar sem dugar í þessari baráttu.

Í öðru lagi verðum við að fjárfesta miklu meira í menntun ef lífskjör hér á landi eiga að standast samanburð við þau lönd sem við berum okkur saman við – við höfum ekki efni á því að bíða.

Í framtíðinni þarf nýsköpun að verða lykilþáttur í öllum atvinnugreinum og mikilvægt að við ölum upp sem flesta einstaklinga sem geta horft á hlutina úr nýjum og óvæntum áttum.

Eiginleikar eins og frumkvæði og skapandi, djörf hugsun verða afgerandi og þess vegna þarf að þróa skóla sem laða fram og styrkja þessa þætti nemenda. – Leggja enn meiri áherslu á raun- og tæknigreinar, menningar- og listnám.

Öflugur stuðningur við nýsköpun er bæði nauðsynlegur til að halda samkeppnishæfi gagnvart öðrum þjóðum en ekki síður til að skapa möguleika breyttara atvinnulíf í stað þess að treysta um of á einhæft atvinnulíf og stór fyrirtæki.

Það er hvorki skynsamlegt til að því að treysta byggðir landsins eða tryggja stöðugt efnahagslíf, eins og dæmin sanna því miður alltof vel.

Í þriðja lagi þurfum við strax að endurhugsa skattkerfið með tilliti til þeirra miklu breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á vinnumarkaðnum.

Þegar mörg fyrirtæki munu geta framleitt vörur með færri vinnandi höndum, mun núverandi fyrirkomulag þar sem hver vinnustund er skattlögð, ekki duga.

Horfa verður til þess hvort greiða eigi skatt af róbótum, framleiðslueiningum eða finna aðrar leiðir. Við getum a.m.k. ekki látið allan ávinning nýrrar tækni renna til eigenda fjármagnsins og framleiðslutækjanna. – Það yki ójöfnuð og rýrði getu stjórnvalda til að tryggja öfluga velferð fyrir alla.

Sífellt fleiri viðurkenndar alþjóðlegar rannsóknir sýna að samfélögum, þar sem jöfnuður er mikill, vegnar betur. Þau eru friðsamari, fjölbreyttari og samkeppnishæfari – þessvegna eigum við mikið starf fyrir höndum!
Fleira þarf auðvitað að koma til en umfram allt verðum við að hætta að sitja alltaf föst í viðbrögðum; berja sífellt í brestina eins og aðkoma þingsins að laxeldismálinu sýndi kannski glögglega

Það gildir ekki síður um viðbrögð vegna úrelts landbúnaðarkerfis, gallaðrar stjórnarskrár, byggðaröskunar vegna sölu á kvóta eða kostnaði af óstöðugum gjaldmiðli sem launafólk í landinu þarf ævinlega að bera.

Við þurfum þvert á móti að vera opin, djörf og þora að gera róttækar grundvallarbreytingar.

Þá gildir að vera framsækin ekki íhaldssöm og umfram allt taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana – og við þurfum að hafa kjark til þess.

Kæru félagar,

það er yndislegt að vera staddur á jafn fjölmennum flokkstjórnarfundi, þar sem línurnar eru lagðar.

Samfylkingin er á blússandi siglingu – við náðum prýðilegu kjöri í kosningunum í vor og stýrum mörgum öflugum sveitarfélögum. Landsflokkurinn mælist nú næst stærsti flokkur landsins og við stefnum hiklaust að því að að verða enn stærri og öflugri.

Orðið mannauður kemur auðvitað fyrst upp í hugann þegar maður lítur yfir salinn.

Þið hafið verið ódrepandi – í grasrótarstarfi – í sveitarstjórnum – á Alþingi – í kaffitímum í vinnunni – að tala fyrir jafnaðarstefnunni og mikilvægi Samfylkingarinnar.

Það var kannski ekki svo auðvelt eða sjálfgefið þegar gekk sem verst.

En það er í mótvindi sem best kemur í ljós úr hverju fólk er gert og þið sýnduð sannarlega úr hverju þið eruð.

Rekstur stjórnmálaflokks er ekki einungis vettvangur pólitískrar deiglu og málefnavinnu, þó það skipti auðvitað mestu máli – það þarf líka að reka fjöldahreyfingu sem starfar um allt land.

Án ykkar hefði skrifstofunni á Hallveigarstíg að öllum líkindum verið lokað eftir kosningarnar 2016 og starfið koðnað niður.

Það voru framlög hins almenna flokksmanns sem héldu dyrunum opnum – og auðvitað Gerða sem var um tíð ekki bara skrifstofustjóri heldur í raun framkvæmdarstjóri og skúraði auk þess gólf þegar segja þurfti upp ræstingarþjónustu, vegna peningaleysis.

Sóknarátak flokksins hefur skilað 17 milljónum auk þess sem kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa líka lagt mikið fé að mörkum. Samkvæmt ný samþykktum ársreikningi er rekstrarviðsnúningur félagsins um 60 milljónir króna og reksturinn á öruggu róli.

Nú erum við auk þess búin að ráða öflugt starfsfólk og ekkert því til fyrirstöðu að sækja óhikað fram.

Þetta er ykkur að þakka kæru félagar og fyrir það er ég þakklátur!

En mest af öllu er ég þakklátur fyrir að þið gáfust ekki upp á að trúa því að Samfylkingin væri réttur vettvangur til að elta drauminn – um betri heim fyrir alla.

Og að lokum; kærar þakkir fyrir að vera svona helvíti skemmtileg – það skiptir líka heilmiklu máli.

Algjör viðsnúningur á rekstri Samfylkingarinnar

Samfylkingin hefur skilað samstæðueikningi fyrir árið 2017 til Ríkisendurskoðunar. Hagnaður af rekstri flokksins nam 26,7 milljónum króna í árslok 2017 og var eigið fé jákvætt um 76,6 milljónir króna.

Þetta er algjör viðsnúningur á stöðu flokksins frá árinu 2016 en þá nam tap af rekstri flokksins rúmlega 33,9 milljónir króna. Sveiflan á stöðu flokksins milli ára nemur því um 60 milljónum króna.

Tekjur Samfylkingarinnar komu að langstærstum hluta frá einstaklingum

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir árangurinn mjög ánægjulegan, ekki síst í ljósi þess að árið 2017 fóru fram Alþingiskosningar og var kostnaður flokksins alls af þeim 20,4 milljónir krónar.

Viðsnúningurinn á rekstrinum sé miklu aðhaldi að þakka en aðallega flokksmönnum sjálfum en alls námu styrkir frá einstaklingum 33,3 milljónum króna, af þeim hafi 15,7 milljónir komið frá kjörnum fulltrúum og nefndarfólki. Þá hafi 17.5 milljónir safnast tekjur í sóknarátökum. Framlög ríkisins til flokksins námu á árinu 2017 um það bil 23,1 milljónum króna og styrkir lögaðila voru 6,7 milljónir króna.

„Þessi viðsnúningur á fjárhagsstöðu flokksins, úr algjörri nauðvörn í sókn,  er aðeins hægt að þakka fólkinu sem gafst ekki upp, án þess hefði starfið koðnað niður og flokkurinn með. Það gerðist hins vegar ekki vegna þess fólks sem áfram trúði því að Samfylkingin væri góður farvegur til að vinna að betri heim fyrir alla. Þessu fólki vil ég þakka, það hefur gert flokknum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að sækja óhikað fram,” segir Logi.

 

Samfylkingin – Samstæðureikningur 2017

 

Flokksstjórnarfundur 13. október

Flokksstjórnarfundur verður haldinn laugardaginn 13. október  á Hótel Reykjavík Natura.

Flokksstjórnarfundir eru opnir öllum flokksfélögum og stuðningsmönnum, við hvetjum áhugasama til að mæta og taka virkan þátt í flokksstarfinu. Einungis kjörnir fulltrúar í flokksstjórn hafa þó atkvæðisrétt á fundinum.

Við upphaf fundar er innheimt kaffigjald. 

Við hlökkum til að sjá þig!

Tökumst á við framtíðina – saman
Samfylkingin  – jafnaðarmannaflokkur Íslands  

09:00 – 10:50  Ný stjórnarskrá, staðan og næstu skref
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir frá stöðunni í stjórnarskrármálinu.
Málefnahópur Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leiðir umræðuna um næstu skref með flokksstjórnarfulltrúum.

kaffihlé

11:00 – 12:00  Hvernig leysum við húsnæðisvandann?
Lausnir í húsnæðismálum á Íslandi ræddar með hagaðilum og stjórnmálamönnum. í pallborðsumræðum um málið verða meðal annars til svara:

 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
 • Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins
 • Henný Hinz hagfræðingur ASÍ
 • Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar
 • Una Jónsdóttir deildarstjóri leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs

Umræðum stýrir Arna Lára Jónsdóttir,bæjarfulltrúi á Ísafirði og varaþingmaður Samfylkingarinnar.

12:00 –12:15 Í kjölfar metoo-byltingarinnar
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, kynnir stefnu, verklag og uppfærðar siðareglur sem mælst er til þess að allir kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar undirriti á fundinum.

Hádegisverður

13:00-15:00  Ísland og samfélag framtíðarinnar: Hvert stefnum við?
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, kynnir málefnastarfið framundan.
Í nesti fá fundarmenn þrjá stutta og andríka fyrirlestra áður en hópunum er skipt upp í málstofur.

 • Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík og varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem unnið hefur að tengslum atvinnulífs og háskólastarfs auk verkefna sem miða að því að auka hlut kvenna í tækni.
 • Magnús Árni Magnússon, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, fyrrverandi pólitískur ráðgjafi á skrifstofu borgaralegs sendifulltrúa NATO í Afganistan.

Umræðuhópar:

 • Líf með reisn: félagslegt net framtíðarinnar, velferð og heilsa. Jafnréttismál og mannréttindi.
 • Til framtíðar: sterkt skólastarf á öllum stigum, iðnnám, skólar sem spennandi og frjóir vinnustaðir, þekkingarsamfélög háskólanna, fjórða iðnbyltingin, nýsköpun, hugvit og vinnumarkaður framtíðarinnar.
 • Ísland er ekki eyland: Loftslagsmál, ESB, móttaka flóttafólks, frelsið til að ferðast, alþjóðleg samvinna.

15:00 Almennar umræður

15:30 – 16:00 Ræða Loga Einarssonar formanns

16:00-17:30 Tilboð á barnum og stefnumót með þingmönnum

Átta lausnir Samfylkingarinnar til að leysa húsnæðisvandann

Samfylkingin hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í húsnæðismálum þar sem Alþingi er falið að gera skýra og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði – að miklu leyti vegna vöntunar á heildstæðri stefnumótun og framtíðarsýn síðustu ríkisstjórna. Átta aðgerðir eru lagðar fram í tillögunni sem ætlað er að auðvelda fólki fyrstu kaup, tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda og auka framboð leiguhúsnæðis.

Samfylkingin leggur til startlán að norskri fyrirmynd sem koma ungu fólki og viðkvæmum hópum til aðstoðar við fyrstu kaup sem fá ekki lán annars staðar, startlánin eru einnig veitt til endurfjármögnunar til að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda. Lagt er til að ráðist verði í endurreisn verkamannabústaðakerfisins með uppbyggingu 5000 hagkvæmra leiguíbúða og að öll sveitarfélög leggi sitt af mörkum þegar kemur að félagslegu húsnæði. Auk þess er lögð til hækkun húsnæðisstuðnings í formi vaxta- og húsnæðisbóta, að fjármagnstekjuskattur vegna tekna af langtímaútleigu á einni íbúð verði lækkaður, réttindi leigjenda efld og byggingarreglugerðin einfölduð og aðlöguð betur að Norðurlöndunum til að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost, svo eitthvað sé nefnt.

Húsnæðisöryggi óháð efnahag eða félagslegri stöðu er forsenda jafnra tækifæra. Sitjandi ríkisstjórn skilar auðu í húsnæðismálum; framlög til húsnæðisstuðnings hækka t.d. einungis um 106 milljónir króna milli ára og skýr húsnæðisstefna er hvergi sjáanleg. Í komandi kjarasamningsviðræðum er mikilvægt að stjórnvöld stígi inn og svari háværu kalli um húsnæðisöryggi.

 

„Hagkvæmt, öruggt húsnæði er risavaxið velferðarmál. Það er í raun ótrúlegt að stór hluti fólks geti ekki verið öruggt um að halda heimili á sama stað tvö, þrjú ár í senn. Aðgerðir stjórnvalda síðustu ár hafa síst gagnast ungu fólki og tekjulægri fjölskyldum en okkar tillögur snúa einmitt að þeim hópum.”

 • Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

 

Átta aðgerðir Samfylkingarinnar í húsnæðismálum:

 • Startlán á norskri fyrirmynd sem koma ungu fólki og viðkvæmum hópum til aðstoðar við fyrstu kaup sem fá ekki lán annars staðar. Stendur fjölskyldum einnig til boða sem eiga erfitt með að mæta útgjöldum vegna húsnæðiskostnaðar í formi endurfjármögnunar. Kynning íbúðalánasjóðs á startlánum: https://goo.gl/2LSTCD
 • Stjórnvöld verða að hraða uppbyggingu íbúða í samstarfi við verkalýðsfélögin og félög án hagnaðarsjónarmiða. Tryggja verður fjármagn til uppbyggingar 5000 hagkvæmra íbúða eins fljótt og auðið er.
 • Skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélag. Reykjavíkurborg greiðir allt að átta sinnum meira miðað við höfðatölu en hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
 • Hækkun húsnæðis- og vaxtabóta í samræmi við launaþróun og skerðingar minnkaðar með það að markmiði að minnka skattbyrði lág- og millitekjuhópa.
 • Einföldum byggingarreglugerðir í samræmi við reglugerðir Norðurlanda, til að greiða fyrir möguleikum á að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost.
 • Tekjur einstaklinga  verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti  vegna útleigu einnar íbúðar – til að hvetja til langtímaleigu og auka framboð á leiguíbúðum.
 • Breytum lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði öðlist rétt á húsnæðisbótum.
 • Breytum húsaleigulögum til að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda.

 

Hérna má nálgast tillöguna í heild sinni með ítarlegri greinargerð: https://www.althingi.is/altext/149/s/0005.html

 

Njörður Sigurðsson-Jómfrúarræða

Njörður kemur inn á Alþingi í fjarveru Oddnýjar Harðardóttur sem sinnir hlutverki sínu í Norðurlandaráði í Nuuk þessa dagana. Við bjóðum Njörð hjartanlega velkominn og óskum honum góðs gengis. Í dag flutti hann Jómfrúarræðu og spurði í henni Mennta- og menningarmálaráðherra um RÚV.

Herra forseti

Síðastliðinn miðvikudag kynnti hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra á blaðamannafundi hugmyndir sínar um stuðning ríkisins við einkarekna fjölmiðla og þar með talið aðgerðir til að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði um 560 mkr. Hugmyndin virðist vera að með því að draga úr auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins skapist meira svigrúm fyrir einkarekna fjölmiðla til tekjuöflunar. Viðleitni hæstvirts ráðherra til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla er góðra gjalda verð. Það er mikilvægt að til séu fréttamiðlar, sem vinni vandaðar fréttaskýringar, sinni rannsóknarblaðamennsku, séu vettvangur fyrir umræðu í samfélaginu og gæti þannig almannahagsmuna. Það er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur ekki komið skýrt fram hvort og hvernig Ríkisútvarpinu verði bættar þær 560 mkr. sem tillögur hæstvirts ráðherra gera ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar dragist saman um. Því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra hvort að hann hafi í hyggju að bæta Ríkisútvarpinu þessar 560 mkr. Og ef svo er hvernig hann hyggst gera það? Verður það með hækkun útvarpsgjaldsins eða á annan hátt?

 

Í kynningu hæstvirts ráðherra kom jafnframt fram að hann hefði í hyggju að 400 mkr. færu í einkarekna fjölmiðla og þær greiðslur úr ríkissjóði ættu að hefjast strax á árinu 2019. Við skoðun á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er þó hvergi að finna neitt um þetta. Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra, þar sem ekkert er um þetta í fjárlögum sem ræður fjárveitingum ríkisins, hvaðan fjármagnið eigi að koma?

 

 

 

Besta mögulega Ísland fyrir alla, ekki bara suma – ræða Albertínu

Ræða Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

Herra forseti – kæru áheyrendur,

Við Íslendingar eigum margt sameiginlegt. Á sama tíma erum við á margan hátt þjóð andstæðna; ríkir – fátækir, gamlir – ungir, landsbyggð – höfuðborg, stangveiði – fiskeldi, ríki – sveitarfélög – og þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega 350 þúsund þá eigum við stundum erfitt með að setja okkur í spor hvors annars.

Öll erum við þó í raun að biðja um það sama – að aðstöðumunurinn sé ekki óeðlilegur, leikreglurnar séu sanngjarnar og að allir hafi jöfn tækifæri til að skapa sér sómasamlegt líf.

Alltof oft virðist okkur vera ófært að ræða útfærslur og leiðir, heldur festumst við í einarðri umræðu um tilveruréttinn. Við þingmenn erum kannski ekki alltaf til fyrirmyndar í umræðum hér í þessum stól og þurfum að vanda okkur betur – en við sem þjóð þurfum líka að vanda okkur í samfélagslegri umræðu.

Það væri auðvelt að kenna samfélagsmiðlum um, en staðreyndin er sú að ákvörðunin og ábyrgðin liggur hjá okkur. Það erum við sem ráðum því hvernig við notum miðlana.

Kæru Íslendingar. Við erum lítil þjóð en höfum náð að skara fram úr á margan hátt. Ég hef þó trú á að við gætum gert svo miklu betur. Við erum rík þjóð og ættum auðveldlega að geta forgangsraðað þannig að sem flestir hafi það gott. Byggt upp besta heilbrigðiskerfið, skapað öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, gert öryrkjum kleift að lifa sómasamlegu lífi, og fleira mætti auðvitað telja upp.

Það er margt fleira. Í samfélagi sem treystir æ meira á rafmagn hefur aðgengi að raforku sjaldan skipt meira máli. Ný raforkuspá sem Orkustofnun birti nýlega gerir ráð fyrir að afhending frá dreifikerfinu muni aukast um 80% alls til ársins 2050. Þar er ekki verið að tala um aukna stóriðju, heldur aukna notkun heimila, veitna og fiskveiða.

Til að standa undir þessu eru tvær stórar spurningar sem við þurfum að svara: Hvernig ætlum við að styrkja flutningskerfi raforku til að tryggja aðgengi allra landsmanna og að sama skapi hvernig ætlum við að tryggja nægjanlega raforku?

Því tengt, þá við hljótum því að fagna þeim skrefum sem tekin voru í nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þó hefði verið gott að sjá stærri skref tekin og raunverulegar kerfisbreytingar eins og hæstvirtur forsætisráðherra boðaði. Þá má ekki gleyma því að aðgerðirnar 34 krefjast aukinnar raforku. Auðvitað þýðir þetta erfiðar ákvarðanir fram undan, en ef við getum það ekki – hvernig getum við ætlast til að aðrar þjóðir geri það?

Kæru áheyrendur. Við eigum að vera óhrædd við að stuðla að nýsköpun í stjórnsýslu og hugsa út fyrir kassann. Það er því miður alltof oft sem tölvan segir nei – í stað þess að leita leiða til að styðja við þá sem passa ekki inn í kassann. Við hljótum að vilja samfélag þar sem stutt er við þá sem þurfa á því að halda.

Hæstvirtur fjármálaráðherra þreytist reyndar ekki á að segja okkur hvað við höfum það gott og að við eigum ekki að vera að kvarta en því miður er raunveruleikinn sá að ýmis samfélagsleg vandamál virðast vera í hröðum vexti, svo sem vaxandi neysla ávanabindandi lyfja. Ný skýrsla Landlæknis sýnir að á árinu 2016 sögðust 9% ungmenna hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta eru þau sem lifðu af.

Við hljótum að spyrja okkur hvað er að samfélagi þar sem þetta er staðreyndin? Hvernig getum við breytt því?

Það er margt sem þarf að gera en því miður virðist enn skorta framtíðarsýn. Við þurfum að brúa gjána á milli okkar. Við þurfum að minnka aðstöðumun og auka jöfnuðinn í samfélaginu.

Kæru áheyrendur, við hljótum að vilja besta mögulega Ísland fyrir alla – ekki bara suma.

Takk fyrir.

Yfirlýsing frá Samfylkingunni

Að gefnu tilefni sendir Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands frá sér yfirlýsingu vegna þeirra ásakana sem birst hafa í fjölmiðlum í garð varaformanns flokksins, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa.

Heiðu Björgu barst bréf frá RG lögmönnum fyrir helgi er innihélt ásakanir í garð hennar um hegningarlagabrot, nánar tiltekið að hún hefði með orðum sínum í útvarpsþættinum Harmageddon, þann 23. mars sl., meitt æru fjögurra nafngreindra manna er komið hafa fram fyrir hönd hóps er kallar sig daddytoo. Í bréfinu eru meint ummæli Heiðu Bjargar ekki tilgreind með nákvæmum hætti og því óljóst hvað hún á að hafa gerst sek um. Hins vegar hafa einstaklingar er segjast koma fram fyrir hönd daddytoo hópsins ítrekað á undanförnum tveimur mánuðum sakað Heiðu Björgu opinberlega um að hafa sagt nafngreinda einstaklinga innan hópsins hafa beitt barnsmæður sínar ofbeldi. Allar þær ásakanir eru úr lausu lofti gripnar.

Það er hins vegar lykilatriði þessa máls að Heiða Björg hefur staðið í fararbroddi sístækkandi hóps fólks sem berst gegn hvers kyns ofbeldi. Hún hefur sett ofbeldismál í Reykjavík í öndvegi, hvoru tveggja með því að hafa tekið virkan þátt í stofnun ofbeldisvarnarráðs og Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis í samstarfi við ríkið, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og grasrótarsamtök er barist hafa gegn ofbeldi. Heiða Björg er ein öflugasta talskona kvenfrelsis á vettvangi stjórnmálanna og ötul baráttukona fyrir jafnrétti, jöfnuði og samfélagi án ofbeldis. Þá var Heiða Björg ein af upphafskonum metoo byltingarinnar hér á landi, er hópur stjórnmálakvenna steig fram og lýsti kerfisbundnu ofbeldi og mismunun gegn konum í stjórnmálum.

Samfylkingin er flokkur kvenfrelsis og jafnréttis sem tekur afstöðu með þolendum ofbeldis, gegn hvers kyns ofbeldi. Samfylkingin berst fyrir því að réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi. Hagsmunir barnsins skulu ávallt vera leiðarljós stjórnvalda þegar málefni barna eru til umfjöllunar og þar telur Samfylkingin að verk sé að vinna.

Reykjavík, 22. maí 2018

Stjórn Samfylkingarinnar,

Logi Einarsson, formaður
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður

Raddir kvenna í sveitarstjórnarkosningum – húsfyllir

Kvennahreyfing Samfylkingar stóð fyrir stórkostlegum viðburði í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar í Reykjavík við Hjartagarðinn í gær þann 26.04. 2018.

Tilgangur viðburðarins var að stefna saman frambjóðendum til sveitastjórna víða af landinu og kraftmiklum konum til þess að spjalla saman um málefni komandi kosninga og blása hvorri annarri baráttuandann í brjóst. Sex konur í forystu á listum tóku þátt í sófaspjalli, en það voru þær Kristín Soffía Jónsdóttir 4. sæti í Reykjavík, Sigurþóra Bergsdóttir 2. sæti á Seltjarnarnesi, Adda María Jóhannsdóttir 1. sæti í Hafnarfirði, Silja Jóhannesdóttir 1. sæti á Húsavík, Hilda Jana Gísladóttir 1. sæti á Akureyri og Arna Ír Gunnarsdóttir 2. sæti í Árborg. Steinunn Valdís Óskarsdóttir leiddi umræður og fórst vel úr hendi. Kosningamiðstöðin var þéttsetin og gestir tóku virkan þátt.

Í umræðum komu fram mismunandi áherslur á mill landsbyggða og mismunandi áskoranir sem að hver og ein þarf að eiga við. En það er ljóst að það er mikill auður í hópi kvenframbjóðenda Samfylkingarinnar um landið.

Oddný G. Harðardóttir alþingiskona kvaddi sér hljóðs á fundinum og hvatti konurnar til dáða og gaf þeim það ráð að styðja við hvora aðra og leita ráða hjá hvorri annari því þær væru sterkari saman.

Það er greinilegt að Samfylkingin teflir fram afar efnilegum konum um allt land og framtíðin er björt.

Fullt hús í Gamla bíó er Samfylkingin í Reykjavík kynnti stefnuna

Fullt var út úr húsi í Gamla bíó dag þegar Dagur B. Eggertsson borgartjóri kynnti helstu áherslumál flokksins og  Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar sem fór yfir farin veg og árangur meirihlutans. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri fór með gamanmál, KK spilaði nokkur lög og hljómsveitin Sykur lauk fundinum með laginu Reykjavík. Saga Garðarsdóttir leikkona var fundarstjóri. Fundurinn markaði upphafið af  kraftmikilli og jákvæðri kosningabaráttu flokksins.

Borgarlína, Miklabraut í stokk, leikskóli fyrir 12-18 mánaða og húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur eru meðal kosningamála Samfylkingarinnar í vor.

 

Í máli borgarstjóra kom  fram að á kjörtímabilinu hafi tíðni á helstu leiðum strætó verið aukin, næturstrætó farið að ganga og forgangur strætó í akstri hafi aukist til muna auk þess sem farþegum fjölgar hröðum skrefum. Næsta verkefni í almenningssamgöngum sé að klára samninga við ríkið og hefja framkvæmdir við borgarlínu á næsta ári. Borgin geti þá nýtt fjárhagslegan styrk sinn til að koma henni enn hraðar af stað.

Þá kom fram mikilvægi þess að leggja Miklubraut í stokk þar sem Reykjavíkurborg gæti tryggt fjármagn til stokksins þótt framlög ríkisins komi inn á lengri tíma. Stokkurinn væri mikilvægur til að auka öryggi, tengja hlíðarnar sitthvorumegin götunnar og hefja uppbyggingu ofan á stokknum. Samfylkingin vill að Reykjavíkurborg bjóðist til að fjármagna sérstakt félag rikis, borgar og annarra sveitarfélaga sem myndi ráðast í þessi verkefni strax, þótt greiðslur ríkis og annarra kæmu til á lengri tíma. Þannig myndu jákvæð áhrif umferð, umhverfi og uppbyggingu koma fram strax á næstu árum.

Borgarstjóri sagði að borgin hafi aldrei verið eins fjölbreytt, skemmtileg og spennandi. Mesta íbúafjölgun í 30 ár eigi sér nú stað í Reykjavík og aldrei hafi fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á nokkru öðru kjörtímabili í sögu borgarinnar. Samfylkingin vill halda áfram að tryggja húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa, fjölga félagslegum íbúðum og halda áfram að bjóða fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði en um leið hvatti borgarstjóri sveitarfélög í kraganum til að taka þátt í uppbyggingu húsnæðis fyrir þá allra verst settu – skattgreiðendur í Reykjavík geti ekki einir og sér borið ábyrgð á þeim hópi sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu og landsins alls eiga að bera sameiginlega.

Næsta verkefni á sviði húsnæðismála væri að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum 500 íbúðir í Gufunesi, Úlfarsárdal, B ryggjuhverfi, Skerjafirði, á Veðurstofuhæð og á lóð Stýrimannaskólans.

Borgarstjóri sagði í ræðu sinni að manneklan á leikskólum borgarinnar væri á góðri leið en áfram verði viðvarandi verkefni að fjölga starfsfólki. Næsta verkefni sem hægt væri að ráðast í á næsta kjörtímabili væri að klára uppbyggingu leikskólana og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Byggja þurfi 6 nýja leikskóla og fjölga leikskólaplássum um 800 á kjörtímabilinu, opna sjö nýjar ungbarnadeildir og sex nýjar leikskóladeildir þar sem eftirspurnin er mest strax í haust. Á kjörtímabilinu verði hægt að bjóða 12-18 mánaða börnum pláss á leikskólum borgarinnar.

 

Samfylkingin í Reykjavík hefur komið í lofti heimasíðu þar sem nálgast má stefnuna í heild sinni: https://xsreykjavik.is/ 

Framboðslisti Samfylkingar Seltirninga samþykktur

Listi Samfylkingar Seltirninga var samþykktur á fjölmennum fundi á Bókasafni Seltjarnarness fyrr í kvöld. Listann skipa öflugir ungir og nýir einstaklingar í bland við eldri reynslubolta úr sveitarstjórnarmálunum. Listinn er fjölbreyttur í aldurssamsetningu og sérfræðiþekkingu en flestir fulltrúar á listanum hafa sérfræðiþekkingu á þeirri þjónustu sem sveitarfélög standa að.

Guðmundur Ari Sigurjónsson tómstunda- og félagsmálafræðingur og bæjarfulltrúi skipar oddvitasætið, Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnastjóri og varabæjarfulltrúi skipar annað sætið, Þorleifur Örn Gunnarsson, grunnskólakennari skipar þriðja sætið og Karen María Jónsdóttir deildarstjóri skipar fjórða sætið.

Hér má sjá listann í heild sinni.
1. Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur
2. Sigurþóra Bergsdóttir – Verkefnastjóri
3. Þorleifur Örn Gunnarsson – Grunnskólakennari
4. Karen María Jónsdóttir – Deildarstjóri
5. Magnús Dalberg – Viðskiptafræðingur
6. Helga Charlotte Reynisdóttir – Leikskólakennari
7. Stefán Bergmann – Líffræðingur
8. Hildur Ólafsdóttir – Verkfræðingur
9. Tómas Gauti Jóhannsson – Handritshöfundur
10. Laufey Elísabet Gissurardóttir – Þroskaþjálfi
11. Stefanía Helga Sigurðardóttir – Frístundaleiðbeinandi
12. Árni Emil Bjarnason – Bókbindari
13. Gunnlaugur Ástgeirsson – Menntaskólakennari
14. Margrét Lind Ólafsdóttir – Bæjarfulltrúi