Lykilinn að heiminum: Spennandi fundur um menntamál 16. janúar

Sjá viðburð á Facebook. 

Hvernig búum við ungmenni landsins undir framtíðina, í heimi þar sem hraðar breytingar eru regla en ekki undanteking, þar sem nýsköpun samfélaga ákvarðar lífsgæði borgaranna og aðgangur að gæðamenntun verður enn mikilvægari en í dag?

Niðurstöður PISA-könnunarinnar sýna enn á ný að við höfum tækifæri til að gera mun betur þegar litið er til þeirrar grunnfærni sem ungmenni þurfa til að geta tekist á við næstu skólastig. Menntun gefur okkur lykilinn að heiminum, áhugaverðum störfum og betri lífskjörum. Hvernig tryggjum við að börnin okkar fái lykilinn að heiminum, þekkingu sem þau sannarlega þurfa til að bæta kjör sín og ekki síður til að takast á við erfiðustu viðfangsefni samtímans, með vísindin að vopni?

Fimmtudaginn 16. janúar kl. 17-19 efnir Samfylkingin til samtals um menntamál, þar sem fimm fræðimenn flytja tíu mínútna erindi hver og veita okkur innsýn í hugmyndir sínar um hvernig við byggjum sterkan grunn menntunar fyrir betra samfélag.

 

Dagskrá:

– Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni

– Dr. Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við háskólann í Þrándheimi í Noregi og Háskólann í Reykjavík – PISA 2018: Staða okkar, ástæður og möguleikar

– Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands

– Dr. Berglind Gísladóttir, lektor á menntavísindasviði við Háskóla Íslands: Árangur íslenskra unglinga í stærðfræði og náttúrufræði. 

– Dr. Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar

– Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Boðið verður upp á súpu, verið öll hjartanlega velkomin!

Lykildagsetningar á 20 ára afmælisári Samfylkingarinnar

Framundan er spennandi starfsár í vændum hjá Samfylkingunni og koma hér lykildagsetningar sem gott er að hafa í huga og taka frá.

Fyrsti flokksstjórnarfundur ársins verður haldinn laugardaginn 7. mars.

Samfylkingin fagnar 20 ára afmæli á árinu og verður haldið upp á það þann 9. maí.

Landsfundur verður svo 6 og 7. nóvember.

Spennandi tímar framundan!

Nýr starfsmaður Samfylkingarinnar

Sigrún Einarsdóttir, hefur verið ráðin í stöðu verkefna- og viðburðarstjóra Samfylkingarinnar, hún hefur þegar hafið störf.
Sigrún var síðast verkefna- og þjónustustjóri hjá Norræna húsinu. Þá sá hún um stjórn verkefnisins Norðurlönd í fókus sem er hluti af samskiptasviði Norrænu ráðherranefndarinnar og sá um miðlun á starfi nefndarinnar á Íslandi.
Sigrún starfaði einnig í þrjú ár í sendiráði Íslands í Noregi og sinnti þar meðal annars borgaraþjónustu og öðrum verkefnum svo sem þýðingum og milligöngu forstöðumanna og ráðuneyta á Íslandi og í Noregi.

Sigrún er fjölmiðlafræðingur og hefur auk þess numið menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.

Staðan var auglýst fyrir áramót og voru umsækjendur 35 talsins. Valnefnd sá um vinnslu á umsóknum og var ráðningin svo staðfest af framkvæmdastjórn flokksins.

„Ef allir væru jafn góðir og skemmtilegir og þessi yndislega kona var, væri heimurinn sannarlega betri.“

Guð­rún Ögmunds­dótt­ir, fyrr­ver­andi þing­maður og borg­ar­full­trúi, er lát­in. Hún lést á gaml­árs­dag og var bana­mein hennar krabba­mein. Guðrún var einstök kona og í miklum metum höfð meðal samferðarmanna sinna. Eiginmaður hennar, Gísli Víkingsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, greindi frá andláti hennar í gær og hafa síðan fjölmargir minnst hennar á samfélagsmiðlum og víðar á netinu.

Guðrún var fyrst kjör­in til setu í borg­ar­stjórn fyr­ir Kvenna­list­ann árið 1992 og fyr­ir Reykja­vík­urlist­ann 1994-1998. Hún var kjör­in í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur fyr­ir Sam­fylk­ing­una árið 2018. Guðrún var kjör­in á þing fyr­ir Sam­fylk­ing­una í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi árið 1999 og sat á þingi til árs­ins 2007. Hún gegndi auk þess fjölda trúnaðarstarfa fyrir fyrir stjórnvöld og félagasamtök.

Fjölmargir landsmenn hafa minnst Guðrúnar og sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á síðu sinni.

„Ef allir væru jafn góðir og skemmtilegir og þessi yndislega kona var, væri heimurinn sannarlega betri.“

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar segir Guðrúnu hafa verið ljósbera.

„Allsstaðar þar sem hún kom birti til og hún færði fólki ljóstýru með baráttu sinni. Minnist hennar með hlýju og þakka fyrir vináttuna á meðan ég held baráttunni fyrir bættum heimi áfram með manngæsku hennar að leiðarljósi.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist enn ekki hafa fundið nægilega stór orð til að lýsa því hve mikill missir sé af Guðrúnu.

„Ráðagóð og risastór hjartahlý og hreinskilin. Ég samhryggist fjölskyldu hennar svo því það tómarúm sem skapast er einhvernvegin svo risastórt fyrir okkur öll sem samfélag en þeirra missir er mestur. Gunna elskaði sitt fólk mest um leið og hún elskaði alla og sýndi öllum virðingu og kærleika. Betri samstarfskonu og fyrirmynd er erfitt að finna.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri  segir Guðrúnu hafa tekist á við veikindin eins og aðra baráttu, það er að segja með lífsgleði, sjarma, jákvæðni og smitandi bjartsýni auk þess sem húmorinn hafi aldrei verið langt undan.

„Og baráttukona var Gunna alltaf. Hún ruddi brautina á ótalmörgum sviðum og skildi eftir sig djúp spor í samfélaginu og hjörtum fjölmargra. Hvar sem einstaklingar eða hópar sem áttu undir högg að sækja þurftu stuðning eða rödd var Gunna mætt með eldmóð og óbilandi baráttuhug í bland við klókindi og málafylgju. Eftir allan sinn magnaða feril var gríðarlegur fengur að fá hana aftur inn í borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar vorið 2018 og að sama skapi er það mikill missir að sjá á eftir henni, ekki aðeins sem stjórnmálakonu heldur ekki síður þeirri mögnuðu og sönnu manneskju sem hún var. Það urðu allir ríkari af því að kynnast Gunnu Ö. Engum hef ég kynnst sem hafði jafn mikið og djúpt innsæi í samskipti fólks og hópa. Gunna var örlát á ráð og reynslu og varð hvarvetna „límið“ í þeim félagsskap sem hún gekk til liðs við – og oftar en ekki sjálfskipaður veislustjóri – því enginn var meiri stemmningsmanneskja eða skemmtilegri á góðri stund. Mér þykir ótrúlega vænt um myndina sem ég læt fygja frá síðustu gleðigöngu en hún var jafnframt síðasta opinbera þátttaka Gunnu sem borgarfulltrúi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ég votta Gísla og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Guðrúnar Ögmundsdóttur.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segist hreinlega aldrei hafa kynnst skemmtilegri konu en Guðrúnu.

„Fólk varð held ég bara almennt betra með því að umgangast hana – alla vega náði hún alltaf að koma auga á það góða í fólki og leggja rækt við það. Og það ætla ég að reyna að hafa í huga hér eftir þegar við kveðjum þessa stórbrotnu konu.“

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, segir að Guðrún hafi kunnað að tala við fólk af virðingu og um fólk af fólk af virðingu.

„Það mættu sem flestir taka hana sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Þín verður sárt saknað, kæra samstarfskona og granni.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna ’78, segir að það séu margir sem eigi Guðrúnu svo margt að þakka.

„Stórkostleg kona, fyrirmynd og einn alöflugasti bandamaður hinsegin fólks á Íslandi.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar,  þakkar Guðrúnu fyrir sterka vináttu og stuðning í meira í en 40 ár.

„Takk fyrir allan hláturinn, dansinn, fjörið, matinn, heilræðin, ullarsokkana, skammirnar, örlætið, grátinn, trúnaðarsamtölin, yndisstundirnar og erfiðu stundirnar líka. Góða ferð í sumarlandið elsku vinkona.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segist minnast Guðrúnar fyrir einstaka nærveru, réttsýni, húmor og næmi.

„Örlát á stuðning og hvatningu, faðmlög og skilaboð löng og stutt. Svo ótrúlega dýrmæt manneskja.“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir að Guðrún hafi verið ein af þessum einstöku mannverum, mannvinum

„sem lét manni alltaf verða hlýtt í hjartanu þegar maður hitti hana og á sama tíma fyllast baráttumóð til handa öðrum. Blessuð sé minning hennar um alla tíð. Votta aðstandendum hennar djúpstæða samúð við fráfall hennar.“

Frekari minningarorð um Guðrúnu má meðal annars lesa hér:

Vísir – Með gleðina í lífinu sem ferðafélaga

RÚV – Manneskja með stórt hjarta sem gerði heiminn betri 

Árið 2010 kom út saga Guðrún­ar Ögmunds­dótt­ur, Hjartað ræður för, skráð af Höllu Gunn­ars­dótt­ur.

Óskar Steinn ræðir málin í útvarpsþætti Jafnaðarmanna Íslands

Við kynnum með stolti Stjórnmálaspjallið, nýja hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Óskars Steins Jónínusonar Ómarssonar, varaforseta Ungra jafnaðarmanna. Ef þér þykir vanta umræðu um það sem skiptir máli þá ættu þessir þættir að vera eitthvað fyrir þig! Athugaðu að þáttunum er bætt jafnharðan inn þannig enn á eftir að bætast í safnið.

 

Ójöfnuður á Íslandi

Hversu mikill er ójöfnuður á Íslandi og hvernig getum við minnkað hann? Óskar Steinn ræðir við Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar, um þetta og fleira. Hér má hlusta á þáttinn og einnig á Spotify

Samherji, spilling og sjávarútvegur

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spjallar við Óskar Stein um spillingarmál Samherja og hvaða þýðingu það hefur fyrir íslensk stjórnmál og sjávarútveg.  Hér má hlusta á þáttinn og einnig á Spotify

Hælisleitendur og útlendingar

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson ræðir við Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um málefni hælisleitenda og útlendinga. Helga Vala hefur sterkar skoðanir og víðtæka þekkingu á málefninu, en hún starfaði m.a. sem lögmaður fyrir hælisleitendur áður en hún tók sæti á Alþingi. Hér má hlusta á þáttinn og einnig á Spotify.

 

Kjarabarátta blaðamanna til umræðu á fundi Verkalýðsmálaráðs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir, blaðamaður á Vísi og fulltrúi í samninganefnd blaðamanna mætir á fund Verkalýðsmálaráðs Samfylkingar á sunnudaginn 1. desember í húsnæði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Strandgötu 43 í Hafnarfirði á milli kl. 14 og 16.

Fundarefnið er að þessu sinni kjör blaðamanna og kjarabarátta þeirra. Blaðamenn eru í einkennilegri stöðu því þeim er ætlað að fjalla um kjör annarra stétta en þeim reynist erfitt að fjalla um sína eigin stöðu. Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar vill hlusta.

Að vanda verður boðið upp á vöfflur, rjúkandi kakó og samræður um verkalýðsmál og allt hitt sem við teljum að muni gera samfélag okkar fallegt og réttlátt með jöfn tækifæri fyrir alla.

Leikföng og föndurdót fyrir börnin.

Um helgina opnar fyrirmyndar jólaþorp Hafnfirðinga beint á móti fundarsal Samfó.
Tilvalið að skreppa í jólaþorpið fyrir eða eftir vöfflur og kakó.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Mætum og ræðum framtíðarsamfélagið á miðvikudaginn!

Hjartanlega velkomin á súpufund í Sunnusal, Iðnó, miðvikudaginn 27.11.2019 kl. 17:00.  

Hvert er samspil menntunar og nýsköpunar?

Hvaða grunn þarf að leggja áherslu á til að geta byggt upp hugvitsdrifið atvinnulíf og samfélag á Íslandi?
Dagskrá fundar:

Menntun: Grunnur velferðarsamfélags  Logi Einarsson, alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar
Uppbygging hugvitsdrifings samfélags: Samspil menntunar og nýsköpunar Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni
Í hvernig samfélagi vill ungt fólk búa?  Ingibjörg Ruth Gulin, forseti Hallveigar – Félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík

Fjárfesting á rannsóknum – hagur samfélagsins  Vilhjálmur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Miðeindar
FundarstjóriÓskar Steinn Jónínu Ómarsson

Í lok fundar verða pallborðsumræður.
Súpa verður í boði menntamálanefndar Samfylkingarinnar.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, formaður menntamálanefndar Samfylkingarinnar

Gegn kvótabraski, skattaskjólum og spillingu

Ræðum leiðir gegn óábyrgum viðskiptaháttum, skattaskjólum og ægivaldi einstakra manna yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Á morgun á milli klukkan 17 til 19 á Kaffi-Læk. Sjá einnig viðburð á Facebook. 

Hvað á að gerast þegar fyrirtæki sem hafa aðgang að sameigilegri auðlind þjóðarinnar standa ekki undir trausti?

Hvernig aukum við gegnsæi í viðskiptaháttum?

Er hægt að uppræta skattaskjól?

Á fundinum verða meðal annars Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir og Magnús Árni Skjöld, deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst og formaður alþjóðanefndar Samfylkingarinnar.

Fundarstjóri verður Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og formaður umhverfisnefndar Samfylkingarinnar.

Fundurinn verður haldinn í hliðarsal í Kaffi Læk.

Fundurinn er öllum opinn. Við hlökkum til að sjá ykkur!

Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun 13 breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 upp á 20 milljarða. Tillögur Samfylkingarinnar eru að öllu leyti fjármagnaðar.

Fjárlagafrumvarpið opinberar vanmátt ríkisstjórnarinnar til að takast á við ójöfnuð annars vegar og framtíðina hins vegar. Félagslegir innviðir samfélagsins eru vanræktir, heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar fá raunlækkanir og barnafólk og örykjar skildir eftir. Í stað þess að styrkja tekjustofna í efnahagsuppgangi og búa í haginn er nú gerð aðhaldskrafa á opinbera grunnþjónustu. Samfylkingin lýsir þar að auki yfir vonbrigðum með metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en einungis 2% af fjárlögum er ráðstafað í umhverfismál.

„Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þau sem standa höllum fæti“ – Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

 

Framtíðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og loftslagsbreytinga.

 1.     Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: 4 milljarðar
 2.     Menntun: 3 milljarðar
 3. Háskólar (m.a. HÍ, LHÍ, HR, Bifröst og HA) 2 milljarðar.
 4. Framhaldsskólar 1 milljarður.
 5.     Rannsóknir og þróun: 1 milljarður
  1. Áhersla á Tækniþróunarsjóð, Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð.
 1.     Nýsköpun og skapandi greinar: 1 milljarður
  1. Endurgreiðsla rannsóknar og þróunarkostnaðar fyrirtækja um 700 milljónir.
 2. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar um 300 milljónir.
 3.     Almenningssamgöngur: 1 milljarður

Velferðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða til að verja velferðina.

 1.     Barnafjölskyldur: 2 milljarðar kr.
  1. Helmingi meiri aukning í barnabætur.
  2. Lengingu fæðingarorlofs flýtt.
 2.     Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri: 2 milljarðar kr.
 3.     Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni: 600 milljónir
 4.     Hjúkrunarheimili: 800 milljónir kr.
 5.   Málefni aldraðra: 2 milljarðar
 6.   Málefni öryrkja: 2 milljarðar
  1. Þessi upphæð er tvöfalt hærri en sú viðbót sem ríkisstjórnin ver til öryrkja.
 7.   Löggæsla: 400 milljónir
  1. Þessi upphæð er sama upphæð og fyrirhugaður niðurskurður ríkisstjórnarinnar til almennrar löggæslu.
 8.   Framlög til SÁÁ: 200 milljónir
  1.      Til að eyða biðlistum sem hafa aldrei verið lengri.

Tillögurnar, sem telja 20 milljarða kr. breytingu, yrðu fjármagnaðar m.a. með auknum tekjum af fiskveiðiauðlindinni (4ma), tekjutengdum auðlegðarskatti (6ma), kolefnisgjaldi (1ma), hækkun fjármagnstekjuskatts (4ma) og skattaeftirliti (5ma).

 

 

 

Hlustaðu á upplýsandi nýja hlaðvarðsþætti um mál í brennidepli

Við kynnum með stolti Stjórnmálaspjallið, nýja hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Óskars Steins Jónínusonar Ómarssonar, varaforseta Ungra jafnaðarmanna.

Í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins ræðir Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson við Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um málefni hælisleitenda og útlendinga. Helga Vala hefur sterkar skoðanir og víðtæka þekkingu á málefninu, en hún starfaði m.a. sem lögmaður fyrir hælisleitendur áður en hún tók sæti á Alþingi.

Hér má hlusta á þáttinn, en hann er einnig kominn á Spotify.

 

Stjórnmálaspjallið:
hælisleitendur og útlendingar

Meðferð stjórnvalda á albanskri konu sem vísað var úr landi í síðustu viku stangast á við fjölda laga og alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, í fyrsta þætti Stjórnmálaspjallsins.