Yfirlýsing frá Samfylkingunni

Að gefnu tilefni sendir Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands frá sér yfirlýsingu vegna þeirra ásakana sem birst hafa í fjölmiðlum í garð varaformanns flokksins, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa.

Heiðu Björgu barst bréf frá RG lögmönnum fyrir helgi er innihélt ásakanir í garð hennar um hegningarlagabrot, nánar tiltekið að hún hefði með orðum sínum í útvarpsþættinum Harmageddon, þann 23. mars sl., meitt æru fjögurra nafngreindra manna er komið hafa fram fyrir hönd hóps er kallar sig daddytoo. Í bréfinu eru meint ummæli Heiðu Bjargar ekki tilgreind með nákvæmum hætti og því óljóst hvað hún á að hafa gerst sek um. Hins vegar hafa einstaklingar er segjast koma fram fyrir hönd daddytoo hópsins ítrekað á undanförnum tveimur mánuðum sakað Heiðu Björgu opinberlega um að hafa sagt nafngreinda einstaklinga innan hópsins hafa beitt barnsmæður sínar ofbeldi. Allar þær ásakanir eru úr lausu lofti gripnar.

Það er hins vegar lykilatriði þessa máls að Heiða Björg hefur staðið í fararbroddi sístækkandi hóps fólks sem berst gegn hvers kyns ofbeldi. Hún hefur sett ofbeldismál í Reykjavík í öndvegi, hvoru tveggja með því að hafa tekið virkan þátt í stofnun ofbeldisvarnarráðs og Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis í samstarfi við ríkið, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og grasrótarsamtök er barist hafa gegn ofbeldi. Heiða Björg er ein öflugasta talskona kvenfrelsis á vettvangi stjórnmálanna og ötul baráttukona fyrir jafnrétti, jöfnuði og samfélagi án ofbeldis. Þá var Heiða Björg ein af upphafskonum metoo byltingarinnar hér á landi, er hópur stjórnmálakvenna steig fram og lýsti kerfisbundnu ofbeldi og mismunun gegn konum í stjórnmálum.

Samfylkingin er flokkur kvenfrelsis og jafnréttis sem tekur afstöðu með þolendum ofbeldis, gegn hvers kyns ofbeldi. Samfylkingin berst fyrir því að réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi. Hagsmunir barnsins skulu ávallt vera leiðarljós stjórnvalda þegar málefni barna eru til umfjöllunar og þar telur Samfylkingin að verk sé að vinna.

Reykjavík, 22. maí 2018

Stjórn Samfylkingarinnar,

Logi Einarsson, formaður
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður

Raddir kvenna í sveitarstjórnarkosningum – húsfyllir

Kvennahreyfing Samfylkingar stóð fyrir stórkostlegum viðburði í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar í Reykjavík við Hjartagarðinn í gær þann 26.04. 2018.

Tilgangur viðburðarins var að stefna saman frambjóðendum til sveitastjórna víða af landinu og kraftmiklum konum til þess að spjalla saman um málefni komandi kosninga og blása hvorri annarri baráttuandann í brjóst. Sex konur í forystu á listum tóku þátt í sófaspjalli, en það voru þær Kristín Soffía Jónsdóttir 4. sæti í Reykjavík, Sigurþóra Bergsdóttir 2. sæti á Seltjarnarnesi, Adda María Jóhannsdóttir 1. sæti í Hafnarfirði, Silja Jóhannesdóttir 1. sæti á Húsavík, Hilda Jana Gísladóttir 1. sæti á Akureyri og Arna Ír Gunnarsdóttir 2. sæti í Árborg. Steinunn Valdís Óskarsdóttir leiddi umræður og fórst vel úr hendi. Kosningamiðstöðin var þéttsetin og gestir tóku virkan þátt.

Í umræðum komu fram mismunandi áherslur á mill landsbyggða og mismunandi áskoranir sem að hver og ein þarf að eiga við. En það er ljóst að það er mikill auður í hópi kvenframbjóðenda Samfylkingarinnar um landið.

Oddný G. Harðardóttir alþingiskona kvaddi sér hljóðs á fundinum og hvatti konurnar til dáða og gaf þeim það ráð að styðja við hvora aðra og leita ráða hjá hvorri annari því þær væru sterkari saman.

Það er greinilegt að Samfylkingin teflir fram afar efnilegum konum um allt land og framtíðin er björt.

Fullt hús í Gamla bíó er Samfylkingin í Reykjavík kynnti stefnuna

Fullt var út úr húsi í Gamla bíó dag þegar Dagur B. Eggertsson borgartjóri kynnti helstu áherslumál flokksins og  Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar sem fór yfir farin veg og árangur meirihlutans. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri fór með gamanmál, KK spilaði nokkur lög og hljómsveitin Sykur lauk fundinum með laginu Reykjavík. Saga Garðarsdóttir leikkona var fundarstjóri. Fundurinn markaði upphafið af  kraftmikilli og jákvæðri kosningabaráttu flokksins.

Borgarlína, Miklabraut í stokk, leikskóli fyrir 12-18 mánaða og húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur eru meðal kosningamála Samfylkingarinnar í vor.

 

Í máli borgarstjóra kom  fram að á kjörtímabilinu hafi tíðni á helstu leiðum strætó verið aukin, næturstrætó farið að ganga og forgangur strætó í akstri hafi aukist til muna auk þess sem farþegum fjölgar hröðum skrefum. Næsta verkefni í almenningssamgöngum sé að klára samninga við ríkið og hefja framkvæmdir við borgarlínu á næsta ári. Borgin geti þá nýtt fjárhagslegan styrk sinn til að koma henni enn hraðar af stað.

Þá kom fram mikilvægi þess að leggja Miklubraut í stokk þar sem Reykjavíkurborg gæti tryggt fjármagn til stokksins þótt framlög ríkisins komi inn á lengri tíma. Stokkurinn væri mikilvægur til að auka öryggi, tengja hlíðarnar sitthvorumegin götunnar og hefja uppbyggingu ofan á stokknum. Samfylkingin vill að Reykjavíkurborg bjóðist til að fjármagna sérstakt félag rikis, borgar og annarra sveitarfélaga sem myndi ráðast í þessi verkefni strax, þótt greiðslur ríkis og annarra kæmu til á lengri tíma. Þannig myndu jákvæð áhrif umferð, umhverfi og uppbyggingu koma fram strax á næstu árum.

Borgarstjóri sagði að borgin hafi aldrei verið eins fjölbreytt, skemmtileg og spennandi. Mesta íbúafjölgun í 30 ár eigi sér nú stað í Reykjavík og aldrei hafi fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á nokkru öðru kjörtímabili í sögu borgarinnar. Samfylkingin vill halda áfram að tryggja húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa, fjölga félagslegum íbúðum og halda áfram að bjóða fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði en um leið hvatti borgarstjóri sveitarfélög í kraganum til að taka þátt í uppbyggingu húsnæðis fyrir þá allra verst settu – skattgreiðendur í Reykjavík geti ekki einir og sér borið ábyrgð á þeim hópi sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu og landsins alls eiga að bera sameiginlega.

Næsta verkefni á sviði húsnæðismála væri að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum 500 íbúðir í Gufunesi, Úlfarsárdal, B ryggjuhverfi, Skerjafirði, á Veðurstofuhæð og á lóð Stýrimannaskólans.

Borgarstjóri sagði í ræðu sinni að manneklan á leikskólum borgarinnar væri á góðri leið en áfram verði viðvarandi verkefni að fjölga starfsfólki. Næsta verkefni sem hægt væri að ráðast í á næsta kjörtímabili væri að klára uppbyggingu leikskólana og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Byggja þurfi 6 nýja leikskóla og fjölga leikskólaplássum um 800 á kjörtímabilinu, opna sjö nýjar ungbarnadeildir og sex nýjar leikskóladeildir þar sem eftirspurnin er mest strax í haust. Á kjörtímabilinu verði hægt að bjóða 12-18 mánaða börnum pláss á leikskólum borgarinnar.

 

Samfylkingin í Reykjavík hefur komið í lofti heimasíðu þar sem nálgast má stefnuna í heild sinni: https://xsreykjavik.is/ 

Framboðslisti Samfylkingar Seltirninga samþykktur

Listi Samfylkingar Seltirninga var samþykktur á fjölmennum fundi á Bókasafni Seltjarnarness fyrr í kvöld. Listann skipa öflugir ungir og nýir einstaklingar í bland við eldri reynslubolta úr sveitarstjórnarmálunum. Listinn er fjölbreyttur í aldurssamsetningu og sérfræðiþekkingu en flestir fulltrúar á listanum hafa sérfræðiþekkingu á þeirri þjónustu sem sveitarfélög standa að.

Guðmundur Ari Sigurjónsson tómstunda- og félagsmálafræðingur og bæjarfulltrúi skipar oddvitasætið, Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnastjóri og varabæjarfulltrúi skipar annað sætið, Þorleifur Örn Gunnarsson, grunnskólakennari skipar þriðja sætið og Karen María Jónsdóttir deildarstjóri skipar fjórða sætið.

Hér má sjá listann í heild sinni.
1. Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur
2. Sigurþóra Bergsdóttir – Verkefnastjóri
3. Þorleifur Örn Gunnarsson – Grunnskólakennari
4. Karen María Jónsdóttir – Deildarstjóri
5. Magnús Dalberg – Viðskiptafræðingur
6. Helga Charlotte Reynisdóttir – Leikskólakennari
7. Stefán Bergmann – Líffræðingur
8. Hildur Ólafsdóttir – Verkfræðingur
9. Tómas Gauti Jóhannsson – Handritshöfundur
10. Laufey Elísabet Gissurardóttir – Þroskaþjálfi
11. Stefanía Helga Sigurðardóttir – Frístundaleiðbeinandi
12. Árni Emil Bjarnason – Bókbindari
13. Gunnlaugur Ástgeirsson – Menntaskólakennari
14. Margrét Lind Ólafsdóttir – Bæjarfulltrúi

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands samþykkt á landsfundi 2018

Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings. Styðja þarf betur við bakið á barnafjölskyldum, hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi kost á leikskólaþjónustu. Við ætlum að auka stuðning við öryrkja og aldraða, sem margir hverjir búa við skammarlegar aðstæður og afnema krónu á móti krónu skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Við viljum auka húsnæðisstuðning bæði til þeirra sem leigja á gróðadrifnum leigumarkaði og þeirra sem eiga húsnæði en glíma við alltof háa vexti og verðtryggingu. Byggja þarf strax þúsundir leiguíbúða í félögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.

Alltof margir á Íslandi búa við kröpp kjör. Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang óttast barnafólk, eldri borgarar, öryrkjar og sjúklingar um afkomu sína um hver mánaðamót.

Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að þúsundir barna búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum og vaxandi hópur hefur ekki efni á að leita sér lækninga.

Hvert barn sem býr við skort er einu barni of mikið. Í jafn ríku þjóðfélagi og Íslandi á enginn að þurfa að búa í fátækt.

Forsenda öflugs velferðarkerfis er kröftugt og frjálst atvinnulíf sem byggir á nýsköpun og góðri menntun. Atvinnulífið þarf að búa við öruggt rekstrarumhverfi og stöðugun gjaldmiðil.

 

Sterkari Samfylking forsenda framfara

Frá því Samfylkingin fór úr ríkisstjórn hefur verið rekin hægri stefna sem gagnast best þeim sem mest hafa milli handanna. Sterkari Samfylking er nauðsynleg til þess að knýja í gegn löngu tímabærar samfélagsbreytingar þar sem almannahagur er í senn hreyfiafl og lokatakmark. Í haust svöruðum við kalli um meiri mannúð í útlendingamálum og unnum þar áfangasigur þó ýmis verk séu enn óunnin í þeim málaflokki.

Því miður hefur ekki tekist að mynda meirihluta á þingi sem hreyfir sig í takt við nýja strauma þó að almenningur hafi ítrekað lýst vilja sínum til breytinga:

  • Eftir kosningarnar í haust var hægt að mynda meirihluta á þingi um aukin jöfnuð og betri lífskjör almennings – samt er áfram rekin hægri stefna sem ógnar félagslegum og efnahagslegum stöðugleika
  • Eftir kosningar 2016 var hægt að mynda frjálslyndan meirihluta um betri samskipti við Evrópu, réttláta gjaldtöku í sjávarútvegi og landbúnaðarkerfi sem gagnaðist neytendum og bændum – samt var umbótum frestað
  • Árið 2012 greiddi meirihluti þjóðarinnar atkvæði með nýrri stjórnarskrá – samt hefur hún verið svæfð í nefndum

Sérhagsmunir hafa komið í veg fyrir að þessi umbótamál, sem Samfylkingin var stofnuð um hafi orðið að veruleika. Annað mikilvægt leiðarljós í starfi Samfylkingar frá stofnun hafa verið lýðræðisleg, fagleg og gagnsæ vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálamenn þurfa að umgangast þessi gildi af meiri virðingu ef takast á að endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum.

 

Frelsi, jafnrétti og samstaða

Yfirskrift landsfundar í ár er gamalkunnug en með nýrri tilvísun: Frelsi, jafnrétti og samstaða. Gildin úr frönsku byltingunni sem jafnaðarstefnan stendur á eiga enn fullt erindi í íslensk stjórnmál. Við tölum um samstöðu frekar en bræðralag vegna þess að samstaða allra um hagsmuni almennings er nauðsynleg ef mæta á áskorunum framtíðarinnar. Konur sem hafa stigið fram á liðnum mánuðum undir merkjum #METOO eru skýrt dæmi um það hverju samstaða getur skilað.

Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Við viljum virða mannréttindi allra og höfnum alfarið þeirri brotastarfsemi, sem er alltof algeng hér á landi þegar fólki eru borguð laun undir lágmarkslaunum og brotið á öðrum réttindum þeirra. Félagsleg undirboð bitna ekki bara á þeim sem verða beint fyrir brotunum heldur grafa þau undan störfum þeirra sem fá eðlileg laun fyrir sína vinna og þeim atvinnurekendum sem fara eftir reglum. Jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að bæta þjónustu við börn og fullorðna með annað móðurmál en íslensku því samfélag með jöfnuði verður ekki byggt án þess að búa vel að þeim sem hafa flust hingað til lands eða eiga rætur að rekja til annarra þjóða.

Hin „gleymda“ styrjöld í Jemen geisar sem aldrei fyrr og hefur valdið neyðarástandi í landinu. Íslendingar hafa komið við sögu þessara þjáninga með því að leyfa vopnaflutninga til eins helsta stríðsaðilans. Um leið og Samfylkingin harmar þær stjórnvaldsaðgerðir telur hún fulla ástæðu til að íslensk stjórnvöld veki á alþjóðavettvangi athygli á neyðinni í Jemen, hvetja til þess að allir aðilar máls leggi niður vopn og boðað verði til friðarviðræðna hið skjótasta.

 

Tæknibylting kallar á breytta skatta- og menntastefnu

Samfélag okkar stendur frammi fyrir tæknibyltingu sem mun hafa miklar breytingar í för með sér og eru þær að sumu leyti enn ófyrirséðar. Gervigreind gefur vélum áður óþekkta hæfni til að leysa verkefni og störf sem fólk með háskólamenntun, sérhæfða starfsmenntun og ófaglært sinnir í dag. Mikil tækifæri felast í sjálfvirknivæðingu og gervigreind en einnig ógnir ef ekki er rétt haldið á málum.

Móta verður skattkerfið í takt við þennan nýja veruleika þannig að öruggt verði að hinir ríku verði ekki sá hópur sem nýtur framfara langt umfram aðra.

Menntun leikur lykilhlutverk í undirbúningi þessarar framtíðar. Gæðamenntun fyrir alla sem tekur mið af þörfum, áhuga og hæfileikum hvers og eins er hryggjarstykkið í framsækinni stefnu jafnaðarmanna, því með jöfnum tækifærum allra barna til menntunar leggjum við grunn að samfélagi þar sem allir fá notið sín, óháð efnahag, uppruna eða félagslegri stöðu. Menntastefna 21. aldarinnar þarf að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun, leggja þarf áherslu á fjölbreytta nýtingu upplýsingatækni og efla list- og verknám til að mæta fjölbreytileika nemendahópsins. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og störf í velferðarþjónustunni.  Þá þarf að efla starfsþróun til að mæta þeim sem þurfa að horfast í augu við breytingar á stöðu sinni vegna nýrra atvinnuhátta.

Með nýrri tækni skapast tækifæri til þess að auka verðmætasköpun, ná betri árangri en áður í umhverfisvernd og baráttunni gegn hlýnun jarðar.

 

Sveitarstjórnarkosningnar í vor

Sveitarstjórnir gegna sífellt stærra og mikilvægara hlutverki. Reynslan sýnir að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri er hún.  En það er ekki endalaust hægt að flytja verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi og á þessu er því miður brotalöm. Meðal brýnustu verkefna Alþingis er að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum stærri hlut til að standa straum af vaxandi kostnaði við rekstur almannaþjónustunnar.

Í sveitarstjórnum verðum við að finna áherslu okkar á menntun, umhverfismál og öfluga félags- og nærþjónustu farveg. Sem dæmi þá hefur Reykjavík gjörbreyst á okkar vakt og Reykjavíkurlistans. Reykjavík hefur gjörbreyst, í nútímalega borg sem veitir góða þjónustu og leggur áherslu á mannréttindi, kvenfrelsi, menntun og menningu. Þar hefur þétting byggðar skipt miklu og Borgarlína mun reka smiðshöggið á. Borgin er orðin fallegri, heilsusamlegri og loks eru þessi áform mikilvægt innlegg í baráttu þjóðarinnar gegn loftslagsvandanum.

Það er því mikilvægt að okkur vegni vel út um allt land í kosningum í vor. Í þeim kappleik munu takast á framtíðin og fortíðin, jafnaðarmenn sem vilja tryggja framgang nauðsynlegra umbótamála og öfl afturhalds sem munu standa í vegi fyrir breytingum.

Breytum rétt – veljum spennandi framtíð undir forystu jafnaðarmanna!

#MeToo – Nýtt verklag Samfylkingarinnar

Sérstakur umræðufundur um#Metoo var haldinn í hádeginu á landsfundi Samfylkingarinnar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar tók fyrst til máls og fór yfir upphaf og farveg #metoo byltingarinnar.

Í pallborðsumræðum sem Þórarinn Snorri, nýkjörinn ritari Samfylkingarinnar, stýrði bað Rósanna Andrésdóttir, verkefnastjóri Ungra jafnaðarmanna, allar konur í salnum sem höfðu lent í kynferðislegri áreitni eða ofbeldi að rétta upp hönd. Hver einasta kona í salnum rétti upp hönd.

Elfur Logadóttir tók að lokum til máls og kynnti nýtt verklag Samfylkingarinnar í meðferð um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni.

 

Nýjir fulltrúar framkvæmdarstjórnar

Atkvæðagreiðslu um fulltrúa nýrrar framkvæmdarstjórnar Samfylkingarinnar er lokið og eru niðurstöður eftirfarandi:

Framkvæmdastjórn
1. Henný Hinz
2. Vilhjálmur Þorsteinsson
3. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
4. Auður Alfa Ólafsdóttir
5. Ellen J. Calmon
6. Hörður J. Oddfríðarson

Varafulltrúar
1. Árni Rúnar Þorvaldsson
2. Guðrún Arna Kristjánsdóttir
3. Sigrún Rikharðsdóttir
4. Helena Mjöll Jóhannsdóttir
5. Einar Þór Jónsson
6. Erlendur H. Geirdal

Ungir jafnaðarmenn áberandi í forystu Samfylkingarinnar

Í morgun var tilkynnt um kjör í ýmis embætti innan Samfylkingarinnar. Ungir jafnaðarmenn voru áberandi en formaður UJ, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, var kjörinn ritari Samfylkingarinnar og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir nýr formaður Framkvæmdarstjóranar.

Einnig var kjörinn formaður laganefndar, Silja Jóhannesdóttir fer með það embætti og í Verkalýðsmálaráð.

Verkalýðsmálaráð
Auður Alfa Ólafsdóttir
Hrólfur Þórhallsson
Krisín Erna Arnardóttir
Sólveig Jónasdóttir
Þórarinn Eyfjörð Eiríksson

Fullkomin samstaða um Loga

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur á Hotel Reykjavík Natura kl 15:00 í dag.

Logi Már Einarsson var einn í framboði til formanns og hlaut hann hvorki meira né minna en öll greidd atkvæði í kjörinu. Kjörið endurspeglar ánægju og traust flokksfélaga til hans og hans starfa í þágu flokksins.

Logi setti tóninn með hárbeittri opnunarræðu; „Vopnaflutningur til stríðshrjáðra landa var heimilaður á sama tíma og framlög til þróunarmála og móttaka flóttamanna eru langt frá eðlilegum viðmiðum. Þingið hefur ekki bönd á sjálftöku þingmanna; birta upplýsingar illa, seint eða alls ekki”, sagði hann í ræðunni, „skýrslum er leynt og stjórnsýslan stenst illa skoðun. Og loks situr dómsmálaráðherra brött,  þrátt fyrir að fengið á sig hæstaréttardóm vegna skipan heils nýs dómsstigs. Þessi vinnubrögð og valdhroki verða ekki á okkar vakt. Þau eru hluti af gamaldags stjórnmálamenningu sem er löngu tímabært að kveðja.”

Áður en hann gaf ræðustólinn eftir til borgarstjóra hafði hann þetta að segja um kosningarnar í vor „Við erum mætt aftur til leiks, ætlum okkur góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum í vor og verða aftur sá burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum sem almenningur þarfnast.”

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók þá við og kynnti málefnaáherslur Reykjavíkurborgar fyrir fundargestum; „Samfylkingin er á fljúgandi ferð; við erum á leiðinni – og við erum að koma til baka; stærri og sterkari samfylking jafnaðarmanna; kjölfestuflokkur sem rúmar alls konar sjónarmið – frá miðju og til vinstri, eins og vera ber – og skapar raunverulegt, öflugt mótvægi við harðasta hægrið á Íslandi.”

Dagskrá heldur áfram eftir kvöldmatarhlé þar sem málefnavinna fer fram, varaformannsframboð eru kynnt og kjöri varaformanns að lýst kl 22:00.

Á morgun, laugardag, er dagskráin ekki síður spennandi – þá verða sveitarstjórnarmálin og kosningarnar í vor í brennidepli, ný stefna Samfylkingarinnar í tengslum við #metoo verður kynnt, stjórnmálaályktanir afgreiddar, Jóhanna Sigurðardóttir ávarpar hópinn og endurkjörinn formaður heldur stefnuræðu sína.

Opnunarræða Loga Einarssonar
Ávarp Dags B. Eggertssonar

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar

Öflugur framboðslisti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar samþykktur

Framboðslisti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar í vor var samþykktur samhljóða og með lófataki í dag, á fundi á Hótel Natura. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir listann en hann varð efstur í flokksvali sem haldið var fyrr í mánuðinum. Í efstu fimm sætunum sitja borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, á eftir Degi koma Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson. Er sú röð í samræmi við niðurstöðu flokksvalsins.

Í næstu sætum þar fyrir neðan sitja Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi, Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi alþingiskona og Magnús Már Guðmundsson varaborgarfulltrúi. Í níunda sæti situr Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúndentaráðs Háskóla Íslands og í tíunda sæti Ellen Jacqueline Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Listinn er skipaður 20 körlum og 26 konum, og gott jafnvægi í aldri, búsetu, menntun og starfsreynslu meðal frambjóðenda. Um afar öflugan hóp er að ræða og ljóst að í vor byggjum við saman jafnaðarborgina Reykjavík.

1 sæti Dagur B. Eggertsson
2 sæti Heiða Björg Hilmisdóttir
3 sæti Skúli Þór Helgason
4 sæti Kristín Soffía Jónsdóttir
5 sæti Hjálmar Sveinsson
6 sæti Sabine Leskopf
7 sæti Guðrún Ögmundsdóttir
8 sæti Magnús Már Guðmundsson
9 sæti Ragna Sigurðardóttir
10 sæti Ellen Jacqueline Calmon
11 sæti Aron Leví Beck Rúnarsson
12 sæti Dóra Magnúsdóttir
13 sæti Sigríður Arndís Jóhannsdóttir
14 sæti Þorkell Heiðarsson
15 sæti Berglind Eyjólfsdóttir
16 sæti Sara Björg Sigurðardóttir
17 sæti Ásmundur Jóhannsson
18 sæti Margrét M. Norðdahl
19 sæti Teitur Atlason
20 sæti Sigurveig Margrét Stefánsdóttir
21 sæti Guðjón Friðriksson
22 sæti Sonja Björg Jóhannsdóttir
23 sæti Ólafur Örn Ólafsson
24 sæti Ída Thorlacius Finnbogadóttir
25 sæti Ari Guðni Hauksson
26 sæti Sigrún Skaftadóttir
27 sæti Alexander Harðarson
28 sæti Eldey Huld Jónsdóttir
29 sæti Ása Elín Helgadóttir
30 sæti Sigurður S. Svavarsson
31 sæti Jana Thuy Helgadóttir
32 sæti Kristján Ingi Kristjánsson
33 sæti Magnús Ragnarsson
34 sæti Steinunn Ása Þorvaldsdóttir
35 sæti Nikólína Hildur Sveinsdóttir
36 sæti Rúnar Geirmundsson
37 sæti Sólveig Jónasdóttir
38 sæti Stefán Benediktsson
39 sæti Sassa Eyþórsdóttir
40 sæti Þórarinn Snorri Sigurgeirsson
41 sæti Ellert B. Schram
42 sæti Margrét Pálmadóttir
43 sæti Guðrún Ásmundsdóttir
44 sæti Sigurður E. Guðmundsson
45 sæti Adda Bára Sigfúsdóttir
46 sæti Steinunn Valdís Óskarsdóttir