Kveðja frá formanni og varaformanni Samfylkingarinnar

Kæru vinir,

Um þessar mundir líður mörgum eins og þau séu föst í hliðarveruleika eða skrýtnum draumi. Þótt allt virðist eins og það var á yfirborðinu er tilveran gjörbreytt og erfitt að sjá það sem framundan er. Við Íslendingar erum eins og aðrar þjóðir að fást við smitsjúkdóm sem kallar á viðbrögð sem við töldum okkur aldrei þurfa að grípa til. Covid-19 er fjölþættari ógn en sú sem við tókumst á við sem samfélag eftir fjármálahrunið 2008. Staðan nú vekur ekki aðeins hjá okkur afkomuótta heldur erum við mörg líka hrædd um heilsu okkar og ástvina. Það gerir stöðuna svo enn erfiðari að við erum mörg hver einangaðri en við eigum að venjast vegna nauðsynlegra sóttavarna.

Manngæskan í ótal myndum

Stundirnar nú minna okkur samt líka á allt það sem skiptir okkur máli og hverjar hinar raunverulegu stoðir samfélagsins okkar eru. Við sjáum skýrt að íslenska þjóðin er ekki bara samansafn af einstaklingum heldur erum við samfélag. Án stuðnings annarra megum við okkar lítils en sameinuð getum við áorkað miklu. Samstaða og samhjálp hafa gert íslenskt samfélag sterkt þó að það sé fámennt. Við höfum byggt upp öflugt velferðarkerfi sem er grundvöllur verðmætasköpunar og þetta samfélag viljum við verja og efla. Við sjáum líka manngæskuna í ótal myndum um þessar mundir og hvað fólk og fjölskyldur um land allt er tilbúið að færa miklar fórnir – fyrir hvert annað, fyrir samfélagið okkar.

Við sjáum líka skýrar hvað skiptir okkur raunverulega máli, þetta eru oft athafnir sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut daglegs lífs. Kvöldverður með vinum eða stórfjölskyldunni, íþróttaæfingar hjá börnunum, heimsóknir til ættingja og vina, gönguferðir og kóræfingar svo dæmi séu tekin. Við finnum hversu samveran og nándin er dýrmæt. Hana verðum við að reyna að rækta áfram þrátt fyrir erfiðar aðstæður, með símtölum, fjarfundum og samfélagsmiðlum.

Verkefni af nýrri stærðargráðu

Í svona ástandi sjáum við líka skýrt hvaða störf það eru sem binda samfélagið okkar saman og gerum okkur enn betur grein fyrir mikilvægi fólksins sem starfar í framlínunni; í skólunum, við félagsstarf, umönnun, hjúkrun, við þrif og afgreiðslu og þannig mætti áfram lengi telja.

Samfylkingin vill koma á framfæri djúpu þakklæti til þessa fólks og allra Íslendinga sem sýna samstöðu og samhjálp í verki á þessum tímum.

Við erum sem samfélag að takast á við verkefni af stærðargráðu sem við höfum ekki fengist áður við. Í því umhverfi er mikilvægt að fólk víki til hliðar ýtrustu flokkapólitík en leggist saman á árarnar. Við þurfum að vera gagnrýnin og uppbyggileg í senn.

Rík­is­stjórnin kynnti á dög­unum aðgerða­pakka sem var því miður ekki unn­inn í sam­ráði stjórnar og stjórn­ar­and­stöðu. Und­an­tekn­ingin frá því er hluta­bóta­leiðin svo­kall­aða, sem batn­aði mjög í með­förum vel­ferð­ar­nefndar og jókst að umfangi, en það er stærsta og mik­il­væg­asta aðgerðin í pakk­an­um. Eftir nauð­syn­legar breyt­ingar nær hluta­bóta­leiðin niður í 25 pró­sent starfs­hlut­fall og er með sér­stöku gólfi þannig að laun fólks hald­ast óskert undir 400 þús­und krónum á mán­uði. Þar náðum við breyt­ingum til hins betra.

Verjum velferðina

Það er mjög mikilvægt að koma atvinnulífinu til aðstoðar en útkoman má ekki verða sú að rík­is­stuðn­ingur miði helst við þá stóru og sterku en kaldur kap­ít­al­ismi ríki fyrir alla hina. Sam­fylk­ingin leggur höf­uð­á­herslu á þetta – ekki aðeins með árangur aðgerð­anna og vel­ferð almenn­ings í huga, heldur líka vegna þess að það skiptir máli fyrir traust í sam­fé­lag­inu og trú fólks á að lýð­ræðið virki sem skyldi þegar á reyn­ir. Þess vegna viljum við að fólk í við­kvæmri stöðu fái þá hjálp sem þarf og að smærri fyr­ir­tæki hafi jafnan aðgang að aðstoð, eða jafn­vel enn betri, en þau sem eru stærri og sterkari. Hægt er að fara betur yfir gagnrýni okkar Samfylkingarfólks á aðgerðir ríkisstjórnarinnar hér.

Verkefnin framundan mæða þó sannarlega á fleiri en þingmönnum. Víða um land fást sveitarstjórnir við vaxandi atvinnuleysi og mikinn tekjusamdrátt á sama tíma og sjaldan hefur verið mikilvægara að verja nærþjónustu og velferð. Velferðarþjónusta er forsenda góðs samfélags og verðmætasköpunar, þess vegna verðum við jafnaðarmenn að kappkosta við að verja hana og efla af kappi á næstu misserum.

 

Viðkvæmari og hljóðlátari hópar mega ekki gleymast

Covid-19 útheimtir margs konar viðbrögð sem munu hafa víðtækar afleiðingar á samfélag okkar. Að mörgu þarf að huga til að verja velferð fólks og grunnstoðir samfélagsins fyrir frekari skakkaföllum. Þegar mikið gengur á er hætta á að viðkvæmari og hljóðlátari hópar samfélagsins gleymist. Við ákvarðanatöku á næstunni er því mikilvægara en áður að fá sem flesta að borðinu. Við í Samfylkingunni viljum að ákvarðanir um framtíðina séu teknar í samvinnu sem flestra en ekki í þröngum hópi.

Við biðjum ykkur að vera í sambandi. Á næstunni mun Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, standa fyrir opnum fundum á netinu sem ætlunin er að hafa vikulega til að fá innsýn í mikilvæg verkefni almennings og upplýsa um stöðuna í sveitarstjórnum og á þingi.

Við gerum okkur þegar grein fyrir því að 20 ára afmæli flokksins sem fyrirhugað var halda upp á þann 9. maí verður með öðru sniði en lagt var upp með. Við sjáum hverju fram vindur áður en ákvarðanir verða teknar og biðjum ykkur að sýna skilning á stöðunni.

Í myndbandi hér að neðan fer svo Logi yfir áherslur Samfylkingarinnar gagnvart aðgerðum ríkisstjórnarinar. Kórónuveiran mun ganga yfir og með réttum viðbrögðum og samvinnu getum við lágmarkað samfélagslegan kostnað sem af henni hlýst.

Okkar kærustu jafnaðarmannakveðjur,

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar

Frestað!! – Konur og verkalýðshreyfingin

Vegna óviðráðanlegra aðstæðna hefur verið ákveðið að fresta fundi Verkalýðsmálaráðs sunnudaginn 8.mars, sem átti að vera í húsnæði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Strandgötu 43 í Hafnarfirði á milli kl. 14 og 16.

Frestað! Vorfundur flokksstjórnar Samfylkingarinnar

Vorfundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar frestað

Stjórn Samfylkingarinnar hefur ákveðið að fresta Vorfundi flokksstjórnar sem halda átti í Hljómahöll Reykjanesbæjar laugardaginn 7. mars. Ný tímasetning verður auglýst síðar.

Ákvörðunin var tekin að vandlega athuguðu máli með stjórn Samfylkingarinnar. Þau rök vógu þyngst að Samfylkingin vill ekki skapa lýðræðishalla á fundum sem þessum þar sem teknar eru stefnumótandi ákvarðanir. Hætta er á að fólk sem er viðkvæmt fyrir smiti á kórónuveirunni COVID-19, eða á ættingja sem þannig háttar til um, veigri sér við að mæta á fundi sem þessa. Með þetta í huga var ákveðið að fresta flokksstjórnarfundi um sinn.

 

______________________________________________________________________________________

 

Vinnum saman

Förum saman yfir helstu markmið jafnaðarmanna á komandi árum. Í ár er 20 ára afmælisár Samfylkingarinnar og viljum við hvetja fundargesti til að hugsa til framtíðar og hvaða markmiðum við viljum hafa náð í þágu samfélagsins eftir önnur 20 ár.

Lausnir við aðsteðjandi verkefnum framtíðarinnar þurfa að koma frá almenningi og viðfangsefnin eru stór. Vinnum saman – að réttlátara og frjálsara samfélagi.

DAGSKRÁ

10:00    Velkomin á Suðurnesin – Guðný Birna Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, fer yfir helstu atriði dagsins og brýnustu verkefni í heilbrigðismálum.
10:15    Tillögur og ályktanir
10:45    Almennar umræður
12:00    Ræða formanns – Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fer yfir stöðuna í pólitísku landslagi.
12:30    Hádegishlé*
13:30    Uppbygging grundvölluð á jöfnuði, hugviti og skýrri framtíðarsýn – Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, ræðir endurreisn í efnahagsmálum á Suðurnesjum undir forrystu jafnaðarmanna.
13:45    Skrifum saman framtíðina  – Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, leggur línurnar.
14:00    Framtíðin er núna – fundargestir greina og móta mikilvægustu verkefnin framundan ásamt formönnum málefnanefnda Samfylkingarinnar.
16:00    Samantekt
16:30    Gleðistund með félögum okkar á Suðurnesjum – Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, býður í stefnumót og spjall með þingmönnum á barnum.

Fundarstjóri: Inga Björk Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar
*Aðalfundur sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar kl. 12.30 – 13.30

Skráðu þig á Vorfund flokksstjórnar Samfylkingarinnar

Vorfundur flokksstjórnar verður haldinn laugardaginn 7. mars í Hljómahöllinni, menningarmiðstöð í Reykjanesbæ.

Flokksstjórnarfundir eru opnir öllum flokksfélögum og stuðningsmönnum, við hvetjum alla áhugasama til að mæta og taka virkan þátt í flokksstarfinu. Á fundinum verður áhersla lögð á innra starf flokksins og málefnastarf.

Grasrótin og stjórnmálastarfið fram undan verður í brennidepli svo þetta er fullkomið tækifæri til að taka virkan þátt í umræðum og málefnahópum.

Allir skráðir félagar í Samfylkingunni eru velkomnir!

Einungis kjörnir fulltrúar í flokksstjórn hafa þó atkvæðisrétt á fundinum.

Nánari dagskrá verður auglýst síðar, vinsamlegast skráið mætingu hér https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSd79JVjoRU7POtWba28xj_Vm6aV7LhOY3UlVwpUkFaOKpoJNg/viewform?usp=sf_link

Ný stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík

Kjörin til embætta fyrir starfsárið 2020-21 hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík á aðalfundi félagsins í kvöld miðvikudaginn 5. febrúar 2020 eru:

Formaður: Ellen Calmon
Gjaldkeri: Herbert Baldursson
Meðstjórn:
Sigfús Ómar Höskuldsson
Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir
Ólafur Kjaran Árnason
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
Ragna Sigurðardóttir.

Varastjórn (í þessari röð):
Sabine Leskopf
Þorkell Heiðarsson
Mörður Árnason
Teitur Atlason
Barbara Kristvinsson

Kjör þriggja manna skoðunarnefndar
Sigríður Arndís Jóhannsdóttir , Sara Björg Sigurðardóttir og Kristinn Karlsson

Kjör í uppstillingarnefnd
Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson og Dóra Magnúsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir Ellen Calmon forman Samfylkingar félagsins í Reykjavík í síma 6947864 eða í netfanginu [email protected]
Aðalfundur Samfylkingafélagsins í Reykjavík var haldinn í kvöld miðvikudaginn 5. febrúar 2020 og var góður hugur í fólki á aðalfundi afmælisársins.

Fráfarandi stjórn var þakkað fyrir ríkulegt starf á árinu og sérstakar þakkir voru færðar Söru Björg Sigurðardóttur fráfarandi formans fyrir gott skipulag og fasta viðburði.

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands fagnar 20 ára afmæli í ár og er því margt framundan í starfinu. Jafnaðarmenn munu nota árið til að fagna því sem hefur áunnist síðustu og til að skerpa á og miðla þeirri framtíðarsýn sem Samfylkingarfólk leggur áherslu á í íslensku samfélagi. Lagðar verða fram raunverulegar tillögur að lausnum um þær ólíku áskoranir sem við okkur blasa þannig að allir hér á landi megi búa við sannkallaðan jöfnuð.

Ellen Calmon var kjörin formaður en hún starfar sem verkefnisstýra hjá Reykjavíkurborg og hefur umsjón með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ellen gegnir einnig formennsku stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands, ritari stjórnar Kvenréttindafélags Íslands og á sæti í Evrópusamtökum kvenna European Womens Lobby. Ellen gegndi áður formennsku hjá Öryrkjabandalagi Íslands um fjögurra ára skeið.
Ellen hlaut kjör sem borgarfulltrúi en er í leyfi frá borgarfulltrúastörfum um sinn.

Ellen segist vera spennt fyrir þeim brýnu verkefnum sem framundan eru á afmælisárinu en ekki síst fyrir því að virkja grasrót Samfylkingarfólks í Reykjavík og þétta raðirnar.

Vestfirðingar, ræðum alþjóðlegar áskoranir jafnaðarmanna

Samfylkingin á N Vestfjörðum boðar til opins fundar um loftslagsmál í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins á Ísafirði kl 20.00 miðvikudaginn 5. febrúar

Frummælendur á fundinum verða:

Magnús Árni Skjöld, formaður alþjóðanefndar Samfylkingarinnar og forseti Félagsvísindasviðs Háskólans á Bifröst
– Alþjóðlegar áskoranir og hreyfingu jafnaðarmanna

Eva Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Unicef
– Staða flóttafólks

Dagbjört Jóhannsdóttir feministi og aðgerðarsinni:
– Ungt fólk og loftslagsmálin

Allir velkomnir !

Fyrir hönd stjórnar Samfylkingarinnar á N Vestfjörðum, Bryndís Friðgeirsdóttir formaður

Þrír næstu fundir málefnanefnda Samfylkingarinnar um landið

Alþjóðanefnd 

Miðvikudagurinn 5. febrúar kl. 20 í Edinborgarhúsinu, Ísafirði.
Magnús Árni Skjöld, formaður alþjóðanefndar Samfylkingarinnar og forseti Félagsvísindasviðs Háskólans á Bifröst, ræðir alþjóðlegar áskoranir og hreyfingu jafnaðarmanna. Þá ræðir Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Unicef, um stöðu flóttafólks og Dagbjört Jóhannsdóttir feministi og aðgerðarsinni, um ungt fólk og loftslagsmálin. Láttu þig ekki vanta ef þú ert fyrir vestan!
Sjá Facebook-viðburð
Sjá frétt

Velferðarnefnd

Mánudaginn 10. febrúar kl. 17 í Strandgötu 43, Hafnarfirði 
verður fundur málefnanefndar Samfylkingarinnar um velferð
Vilborg Oddssdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar, er formaður nefndarinna. Vilborg ætlar stilla upp starfi nefndarinnar á árinu ásamt fundarmönnum og fara yfir verkefnin framundan.  Á fundinn mætir einnig Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Velferðarnefndar Alþingis, og er ætlunin að fræðast um verkefni hennar og hvernig málefnanefndin um velferð getur orðið að liði.
Vinsamlega skráið ykkur hér ef þið ætlið að mæta eða fá senda slóð á fjarfundvelferðarnefndar Samfylkingarinnar. 
Sjá einnig Facebook-viðburð

Efnahagsnefnd

Mánudaginn 10. febrúar kl. 17 á Café Orange í Ármúla 4-6, Reykjavík
Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður nefndarinnar, boðar til opins fundar með nefndinni ásamt Kristínu Ernu Arnardóttir, formanns Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Fundurinn verður haldinn á kaffihúsinu Orange í Ármúla 4-6 en skrifstofur Samfylkingarinnar voru nýlega fluttar þangað. Boðið verður uppá súpu á fundinum. 

Vinsamlegast skráið mætingu hér á fund efnahagsnefndarinnar.
Fyrir fundinn er gott að kynna sér eftirfarandi skjal frá síðasta landsfundi með því að smella hér.

Fjöldi umræðufunda á vegum málefnanefnda er opinn öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér stefnu jafnaðarmanna.
Hægt er að skrá sig í nefndir hér og fá allan póst um starf nefndanna.

Nánar um starf nefndanna má lesa hér.

Verið hjartanlega velkomin.

Samfylkingin

 

Starf og skráning í málefnanefndir – Gaman gaman, saman

Í málefnanefndum Samfylkingarinnar er stefna flokksins mótuð milli landsfunda. Næsti landsfundur Samfylkingarinnar er áætlaður 6.-7. nóvember. Tillögur málefnanefnda skulu berast framkvæmdastjórn minnst 10 vikum fyrir upphaf landsfundar. Niðurstöðum málefnanefnda er dreift til aðildarfélaga 8 vikum fyrir landsfund og því þurfa málefnanefndir að skila drögum að stefnu fyrir 1.september 2020. Það er því mikilvægt að hver málefnanefnd geri sér verkáætlun og miðað er við að formenn kynni hana á flokksstjórnarfundi 7. mars. 

Málefnanefndirnar og formenn þeirra hafa mikið frelsi í störfum sínum og er öllu frumkvæði og frumleika fagnandi tekið. Við hvetjum við nefndarformenn til að nýta sér það og vera í sambandi við skrifstofu flokksins varðandi skipulag. Netfangið er [email protected] og sími 414 2200. 

SKRÁNING Í NEFNDIR

Hér fyrir neðan eru tilmæli um tilhögun á starfi nefndanna að landsfundi:

  • 1-2 opnir fundir – Flokkurinn veitir fjármagn og aðstoð við auglýsingu á tveimur opnum fundum á tímabilinu. Um að gera er að fá gestafyrirlesara, auglýsa, brydda upp á nýjum og spennandi málefnum. Nokkrar hugmyndir að umfjöllunarefnum eru neðar í skjalinu. Spennandi gæti verið að stefna að því að annar af tveimur fundum hverrar nefndar væri haldinn einhversstaðar utan höfuðborgarsvæðisins. 
  • Vinnufundir – Virkir meðlimir nefndarinnar hittist og móti stefnu. Úrvinnslu getur kallað á miklar umræður og fróðleg erindi á opnum fundum, rýna þarf eldri stefnu og rita texta. Ágætt að miða að a.m.k. 4 vinnufundum á tímabilinu, en auðvitað fyrst og fremst eftir þörfum.
  • Texti – Málefnanefndirnar hafa það lögbundna hlutverk að skila af sér rituðum tillögum fyrir landsfund. Til að stuðla að samræmi leggjum við til eftirfarandi form á niðurstöðum málefnanefnda:
    • Inngangur – Hugmyndafræði flokksins í málaflokkinum lýst í formi framtíðarsýnar: Hvernig myndi Samfylkingin vilja sjá samfélagið líta út eftir 20 ár. 
    • Hnitmiðaðar aðgerðir (bæði á vegum ríkisins og á sveitarstjórnarstigi) sem flokkurinn myndi vilja sjá á næstu örfáu árum sem myndu færa samfélagið nær framtíðarsýninni.

Fjöldi umræðufunda á vegum málefnanefnda er opinn öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér stefnu jafnaðarmanna. Hins vegar eru vinnufundir fyrst og fremst hugsaðir fyrir þá sem eru formlega skráðir á póstlista nefndanna. Hægt er að skrá sig í nefndir hér.

SKRÁNING Í NEFNDIR

 

Frá opnum fundi Menntanefndar í 16. janúar 2020 á Orange Café.

Vorfundur flokksstjórnar – Leiðbeiningar um tillögur og ályktanir

Vorfundur flokksstjórnar verður haldinn laugardaginn 7. mars í Hljómahöllinni, Hjallavegi 2, 260 Reykjanesbæ.

Á fundinum verður áhersla lögð á stefnumótun og samtal innan flokksins.
Nánari dagskrá auglýst þegar nær dregur.

Við hlökkum til að sjá þig!

Hér getur þú sett daginn í rafrænt dagatal

Flokksstjórnarfundir eru opnir öllum flokksfélögum og stuðningsmönnum, við hvetjum alla áhugasama til að mæta og taka virkan þátt í flokksstarfinu. Einungis kjörnir fulltrúar í flokksstjórn hafa þó atkvæðisrétt á fundinum.

Hér fyrir neðan má finna leiðbeiningar um hvernig bera á upp tillögur  og ályktanir á fundinum.

Leiðbeiningar um tillögur

Leiðbeiningar um tillögur sem bera á upp á flokksstjórnarfundi 7. mars.

Tillögur og ályktanir þurfa að berast undirritaðar, tveimur vikum fyrir flokksstjórnarfundinn, það er að segja fyrir lok dags,  laugardaginn 22. febrúar. Þær skulu vera skriflegar, undirritaðar og studdar af ekki færri en 5 fundarmönnum að tillöguflytjendum meðtöldum.

Undirskriftunum þurfa tillöguflytjendur að safna sjálfir og koma á skrifstofuna, í Ármúla 6, 108 Reykjavík, fyrir klukkan 16 föstudaginn 21. febrúar eða senda afrit af gögnunum rafrænt á[email protected] fyrir lok dags, laugardaginn 22. febrúar.

Hægt er að undirrita tillögur rafrænt ef undirritunin er á viðkomandi tillögu, skönnuð inn og send úr netfangi viðkomandi flokksfélaga á [email protected]
Hér fyrir neðan eru úrdrættir úr lögum Samfylkingarinnar og fundarsköpum flokksstjórnar.

Lög Samfylkingarinnar: 

7.08 Ályktunartillögur fyrir reglulega flokkstjórnarfundi skv. grein 7.06, sem aðrir flytja en stjórn eða framkvæmdastjórn, skulu hafa borist a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan fund og skulu kynntar á heimasíðu flokksins og eftir föngum í viðeigandi málefnanefndum hans. (Eigi síðar en laugardaginn 22. febrúar).

Fundarsköp flokksstjórnar: 

1.5 Fundir flokksstjórnar eru opnir öllu félagsfólki Samfylkingarinnar sem njóta skal málfrelsis, tillöguréttar og kjörgengis en ekki atkvæðisréttar sbr. þó grein 1.6.Framkvæmdastjórn getur kallað til flokksstjórnarfundar, ef hún telur ástæðu til, þar sem einungis til þess bærir fulltrúar hafa seturétt. Skrá um atkvæðisbæra flokksstjórnarfulltrúa skal liggja frammi hjá fundarstjóra.

5.0 Tillögur og atkvæðagreiðsla 5.1 Engar tillögur sem aðrir en stjórn og/eða framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar flytja um mál á reglulegum flokksstjórnarfundi, skv. grein 7.09 í lögum flokksins, skv. boðaðri dagskrá er hægt að bera upp til atkvæða sem ályktun fundarins nema þær hafi borist framkvæmdastjórn a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan fund og að þeim hafi verið dreift skriflega til fundarmanna.

5.4 Allar tillögur sem bornar eru fram af öðrum en stjórn eða framkvæmdastjórn skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 5 fundarmönnum að tillöguflytjendum meðtöldum. Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en fundarstjóri hefur lýst henni.

Alþjóðasamvinna: Lykillinn að lausnum

Næsti fundur Alþjóðanefndar Samfylkingarinnar verður haldinn fimmtudaginn 30. janúar á Orange Café í Ármúla 4 á milli 17 til 18:30.

Fundurinn verður helgaður umræðum um alþjóðasamvinnu og máttinn sem henni fylgir. Allir velkomnir sem áhuga hafa á alþjóðlegum áskorunum.

Alþjóðlegar áskoranir eiga það sameiginlegt að hafa veruleg áhrif á allt eða stóran hluta mannkynsins.

Þær virða engin landamæri, eru viðvarandi og til langframa, eru oft á tíðum samtvinnaðar, erfiðar viðfangs og krefjast sameiginlegs átaks sem flestra, eða allra, stjórnvalda heims og einstaklinga.

Dagskrá:
Ný umhverfisstefna Evrópusambandsins, hvaða lausnir felast í alþjóðasamstarfi? – Michael Mann, sendiherra ESB á Íslandi

Samstaða Norðurlandana í loftslagsmálum og hlutverk sveitarfélaga Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar

Aðkoma Íslands að loftslagsmálum – Guðmundur Andri Thorsson, alþingismaður og rithöfundur

Baráttan við ójöfnuð – Henný Hinz, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ)

Mikilvægi alþjóðasamstarfs – Magnús Árni Skjöld, formaður alþjóðanefndar og forseti Félagsvísindasviðs Háskólans á Bifröst

Fundarstjóri:
Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri fyrir Samfylkinguna