Dóra Magnúsdóttir

Ég heiti Dóra Magnúsdóttir og býð mig fram í flokkstjórn Samfylkingarinnar. Ég bauð mig fram til borgarstjórnar árið 2014, m.a. af því ég hafði helgað borginni starfskrafta mína áratuginn á undan, á sviði markaðs- og kynningarmála hjá Höfuðborgastofu. Þar fann ég nýjan farveg fyrir áhuga minn á borginni og þörfina til að hafa áhrif á samfélagið undir merkjum jafnaðarstefnunnar. Ég hef átt því láni að fagna að starfa sem varaborgarfulltrúi síðan 2014 en ég hef einnig sinnt öðrum hlutverkum fyrir flokkinn, m.a hef ég setið í verkalýðsráði, flokkstjórn, fulltrúaráði, stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, leitt málefnastarf um umhverfismál, hringt í kjósendur, gengið í hús og gefið rósir. 
Ég er alveg virka týpan!

Ég hef verið virk í öðru félagsstarfi; m.a. í stjórn VR og hef setið í fjölmörgum stjórnum samtaka tengdum ferðaþjónustu, átti þátt í að koma Plastlausum september á laggirnar og fleira mætti tína til. Störf mín gegnum tíðina hafa tengst blaðamennsku, almannatengslum, markaðssetningu og fræðslumálum.  Að auki á ég farsælan feril að baki sem leiðsögukona. Ég starfa nú sem upplýsinga- og fræðslufulltrúi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð. 

Það er gangur í Samfylkingunni eftir uppbyggingu undanfarinna ára og tvær mikilvægar kosningar framundan. Með mínar hugmyndir, atorku og reynslu tel ég mig geta lagt heilmikið af mörkum í flokksstjórninni.  Læt þetta duga í bili, en hér eru nokkrir tenglar: 
Facebook síða,
Prívat vefsíða
DM á vef Reykjavíkurborgar