Ellen Calmon

Kæri félagi,

Ég hef starfað virkt með Samfylkingunni frá árinu 2018 og er því enn að kynnast innviðum flokksins en á þessum tveimur árum sé ég að við getum gert enn betur saman. Mig langar til að hafa áhrif á að efla málefnastarf flokksins enn frekar. Þá tel ég okkur einnig geta samhæft starf okkar betur og nýtt samlegðaráhrifin til að skila okkur ríkulegri árangri, þar sem markmiðið er að jafnaðarstefnan nái fram að ganga í íslensku samfélagi. 

Ég er fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og ritari framkvæmdastjórnar og sækist eftir áframhaldandi sæti í framkvæmdastjórn. Ég er kennari að mennt, með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og komin langt í meistaranámi í því fagi. 

Mín hjartans mál eru mannréttindi, þar á meðal réttindi barna, kvenna og jaðarsettra hópa. Ég hef unnið að verkefnum tengdum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í góðu samstarfi við UNICEF. Þá er ég ritari stjórnar Kvenréttindafélags Íslands og er í stjórn European Women‘s Lobby sem eru stærstu réttindabaráttusamtök kvenna í Evrópu. 

Þegar við tölum um mannréttindi er óhjákvæmilegt að tala um loftslagsmálin sem eru í raun grundvöllur allra mannréttinda. Ef við hröðum ekki orkuskiptunum, hugum betur að endurvinnslu og endurnýtingu verður erfitt að tryggja mannréttindi.  Flóttafólki fjölgar í heiminum vegna loftslagsváarinnar og búa við ólíðandi aðstæður í flóttamannabúðum. Loftslagsmálin og grænu málin eru mál málanna og við eigum að hafa hvað hæst um þau. Allt líf hangir á því að jörðin beri okkur.

Jafnaðarfólk, ungt, gamalt og miðaldra, þéttum raðirnar enn frekar, því saman erum við sterkari!