Réttlátt samfélag, bætt lífskjör og aukinn jöfnuð

 • Öruggt húsnæði fyrir alla – minnst 6000 nýjar leiguíbúðir
 • Tvöföldun barnabóta, hærri lífeyri og fjórfalt frítekjumark
 • Réttlátan arð af auðlindum í stað skatta á almenning
 • Ekkert brask með heilbrigði fólks eða þjóðareignir

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sína um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

 • Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
 • Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
 • Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
 • Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
 • Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

 

Milljarður á ári í stórsókn gegn ofbeldi

Samfylkingin ætlar að ráðast í stórsókn gegn ofbeldi. Við höfum ákveðið að setja einn milljarð króna árlega inn í þetta verkefni.

Hvað ætlum við að gera?

1. Efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega.

Við ætlum í fyrsta lagi að efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti eitt hundrað lögregluþjóna svo vel eigi að vera. Skortur á faglærðum lögregluþjónum er allsstaðar um landið og kemur það auðvitað niður á því starfi sem þar er unnið. Þetta kemur harkalega niður á meðferð kynferðis-, heimilis- og annarra ofbeldisbrota enda bitnar þetta á rannsóknum og meðferð mála. Það gengur ekki að brotaþolar þurfi að bíða í 2 – 3 ár eftir niðurstöðu mála. Þetta fælir brotaþola frá því að kæra og rannsóknir verða einfaldlega ekki eins góðar.

2. Markviss vinna er varðar forvarnir og fræðslu

Í öðru lagi ætlum við að fara í markvissa vinnu er varðar forvarnir og fræðslu. Ekki enn eitt átakið sem lifir í mánuð heldur fókuserað starf sem sett er inn í allar menntastofnanir, öll skólastigin. Þar eru hvort tveggja gerendur og brotaþolar í nútíð og framtíð sem þurfa að læra það frá fyrsta degi að ofbeldi drepur. Langtímaverkefni er málið – setja þetta inn í alla samfélagsfræðslu og það með markvissum hætti.

3. Samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.

Í þriðja lagi verður farið í átak til að samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala er sífellt í þróun og að bæta þjónustu sína en betur má ef duga skal. Það þarf að samræma móttöku og meðferð mála um allt land og á sumum stöðum erum við áratugum á eftir þegar kemur að utanumhaldi þessara mála.

Fjölskyldur landsins eiga miklu betra skilið

Forskot á fasteignamarkaði

Jöfnum leikinn og nýtum fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga. Kjósum heilbrigðari húsnæðismarkað.

Vandamálið í hnotskurn:

 • Stærsta vandamál ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er að kljúfa útborgunina, sem er mismunur á kaupverði og hámarksláni.
 • Margar fjölskyldur eru fastar á ótryggum leigumarkaði þar sem stærstu útgjöld heimilisins eru í leigu og minna til skiptanna fyrir aðrar nauðsynjar.
 • Mánaðarleigan er hærri en það sem fólk myndi borga af húsnæðisláni.
 • Ekkert er til skiptanna til að spara fyrir öruggu húsnæði.
 • Börn geta lent á vergangi þegar íbúðir eru teknar úr langtímaleigu í skammtímaleigu til ferðamanna.

 Forskot á fasteignamarkaðithriggja-milljona-forskota-fasteignamarkadi-3

Með því að greiða vaxtabætur næstu fimm ára út fyrirfram er hægt að styrkja fólk til kaupa á íbúð um:

 • 3,0 milljónir kr fyrir fólk í sambúð
 • 2,5 milljónir kr fyrir einstætt foreldri
 • 2,0 milljónir kr fyrir einstakling

Þrjár milljónir króna er til dæmis útborgun í 20 milljón króna íbúð m.v. 85% lán, eða stór hluti útborgunar í dýrari eign.

Það er stuðningur sem kemur unga fólkinu úr foreldrahúsum, námsmannaíbúðum og leigjendum í öruggt húsnæði.

Nýjar húsnæðisbætur

Samhliða Forskoti á fasteignamarkaði ætlum við að taka upp nýtt kerfi húsnæðisbóta, hækka skerðingarmörk og styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert. Við ætlum að láta vaxtabætur ráðast af fjölda barna, sem er nýmæli.

6.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu

Forskot á fasteignamarkaði er liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar. Í henni felst einnig veruleg fjölgun almennra leiguíbúða um 5000 á kjörtímabilinu auk 1000 námsmannaíbúða um allt land.

Einnig að tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur og útrýma barnafátækt á Íslandi, en árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort á Íslandi, þar af flest í leiguhúsnæði.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Samfylkingin leggur áherslu á að allir geti búið í öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum enda er öryggi í húsnæðismálum eitt mikilvægasta velferðarmálið.

 

Húsnæðisöryggi

Húsnæðismál hafa alla tíð verið höfuðverkefni jafnaðarmanna þar sem húsnæðisöryggi óháð efnahag er forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Húsnæðismál eru nú í algeru öngstræti og gríðarlegur vandi steðjar að. Húsnæðisverð er svo hátt að fólk getur ekki keypt sína fyrstu íbúð, á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum og leiguverð hátt. Margir geta hvorki keypt né leigt og ungt fólk sér ekki fram á úrlausn á næstu árum.

Alvarlegt ástand á leigumarkaði

Ástandið á leigumarkaði er alvarlegt. Rannsóknir sýna að leigjendur eru líklegri til að vera í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líklegri en önnur til að búa við fátækt og skorta efnisleg gæði. Bráðaaðgerðir eru nauðsynlegar vegna þessa ástands. Þær aðgerðir þurfa að auka án tafar framboð á leiguhúsnæði, halda aftur af hækkun leiguverðs og gera fyrstu kaupendum mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð.

Áherslumál Samfylkingarinnar:

 1. Þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði fyrir þá sem ekki eiga. Jöfnum leikinn og nýtum fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga. Meira hér.
 2. Byggja þarf 6000 leiguíbúðir á næsta kjörtímabili .
 3. Hækka húsaleigubætur svo að þær verði sambærilegar þeim stuðningi sem ríkið veitir þeim sem búa í eigin húsnæði í gegnum vaxtabætur.
 4. Auka framboð á leiguíbúðum enn frekar með því að gera skattfrjálsar tekjur einstaklinga vegna útleigu á einni íbúð. Skilyrði verði að leigusamningur sé að lágmarki til 12 mánaða, með forleigurétti leigjanda og leigan má ekki vera hærri en sem nemur vísitölu leiguverðs. Þannig verði stuðlað að því að íbúðir verði frekar leigðar út til búsetu en til ferðamanna og haldið aftur af hækkun á leiguverði.
 5. Þróa kerfi bundinna húsnæðissparnaðarreikninga sem veiti skattaafslátt til fyrstu íbúðakaupa. Mikilvægt er að slíkt kerfi nýtist jafnt námsmönnum og þeim sem eru á vinnumarkaði til húsnæðissparnaðar, hvort heldur til kaupa á á eigin húsnæði eða kaupa á búseturétti.
 6. Bjóða ónýttar lóðir ríksins til að greiða fyrir byggingu minni leiguíbúða.
 7. Endurskoðun á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni og ódýrari eignar- og leiguíbúða.
 8. Auðvelda sveitarfélögum að fjölga félagslegum íbúðum.

Til þess þarf:

 1. Að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga svo skuldir vegna íbúðakaupa teljist ekki til almennra skulda, svo þeim verði kleift að kaupa og byggja fleiri félagslegar íbúðir og heimila ríkinu að niðurgreiða beint lántöku sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á félagslegum íbúðum, en ekki verði lengur skilyrði að lán séu tekin hjá Íbúðalánasjóði. að rýmka reglur um fjölda íbúða sem ríkið veitir niðurgreiðslu til. Til langs tíma á húsnæðislánakerfið að vera öruggt, fyrirsjáanlegt og tryggja lántakendum fjölbreytt lánaform á hagstæðum kjörum. Verðtrygging og háir vextir eru og verða óhjákvæmilegur fylgifiskur íslensku krónunnar, gagnrýni á verðtryggingu er í raun gagnrýni á íslensku krónuna og efnahagssveiflurnar sem henni fylgja. Með evru geta íslensk heimili vænst langþráðs stöðugleika, lægri vaxta og endaloka verðtryggingar. Auka þarf fjárhagslegt og lagalegt jafnræði milli ólíkra búsetuforma og fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Þannig verður húsnæðisöryggi tryggt án mikilla fjárhagslegra skuldbindinga til langs tíma. Til þess þarf á næstu árum að byggja upp öruggan langtímaleigumarkað og fjölga búseturéttaríbúðum með stefnumótun og fjárhagslegri aðkomu hins opinbera. Horfa ber til þess fordæmis sem Samfylkingin hefur skapað með pólitískri forystu um öfluga uppbyggingu á fjölbreyttum húsnæðiskostum í Reykjavík.
 2. Innleiða þarf húsnæðisbætur sem taka mið af greiðslugetu fólks og aðstæðum. Húsnæðisstuðningur opinberra aðila á ekki að mismuna fólki eftir því hvort það leigir eða býr í eigin húsnæði.
 3. Styðja verður við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ekki ræður við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki fest kaup á húsnæði né leigt á almennum leigumarkaði. Þessi hópur býr við mikið óöryggi í húsnæðismálum og ber allt of háan húsnæðiskostnað sem hlutfall af tekjum.
 4. Endurmeta þarf stöðu, hlutverk, áhættutöku og stjórnun Íbúðalánasjóðs. Skapa þarf sátt um starfsemi sjóðsins til framtíðar og gera honum kleift að sinna hlutverki sínu við að veita íbúum á öllu landinu hagstæð húsnæðislán.
 5. Rétta þarf stöðu leigjenda, búseturéttarhafa og lánsveðshafa svo allir sitji við sama borð þegar húsnæðismál eru annarsvegar.

Kjósum stuðning við barnafjölskyldur

Samfylkingin ætlar að bjóða strax upp á betri stuðning við leigjendur, úrræði fyrir fyrstu kaupendur,  hærri barnbætur og betra fæðingarorlof. Við í Samfylkingunni ætlum að bæta kjör allra barnafjölskyldna og útrýma  barnafátækt á Íslandi. Árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort. Það er algerlega óviðunandi þegar 5% landsmanna eiga jafn mikið af nettóeignum þjóðarinnar og hin 95% tilsamans.

Við ætlum að stórauka stuðning við barnafjölskyldur í formi hærri barnabóta og fæðingarorlofsgreiðslna og lengja fæðingarorlofið. Verði jafnaðarmenn í næstu ríkisstjórn munum við standa við bakið á barnafjölskyldum.

Öruggt húsnæði
Þau börn sem eru í mestri hættu á að búa við fátækt eru á leigumarkaði. Fólk á leigumarkaði festist margt hvert í fátæktrargildru vegna  lítils framboðs af leiguhúsnæðis og hárrar leigu.  Þess vegna er forgangsmál að mæta vanda leigjenda. Börn eiga að geta búið í öruggu húsnæði. 

 • Tryggja að bygging 6.000 nýrra leiguíbúða hefjist á næstu 4 árum.
 • Styðja mun betur við leigjendur og húseigendur með hærri húsnæðisbótum og vaxtabótum.
 • Við bjóðum þeim sem ekki eiga húsnæði en vilja kaupa þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði með fyrirframgreiðslu vaxtabóta. Lestu meira um þessa leið Samfylkingarinnar hér.

Hækkun barnabóta
Barnabætur er auðveldasta leiðin til að styðja við foreldra barna og þar verður að gera betur. Við viljum hækka barnabætur  Barnabótakerfi líkt hinna norrænu ríkjanna er okkar fyrirmynd enda góð reynsla af þeim fyrir börnin og foreldra þeirra.  Þar eru bæturnar almennt ekki tekjutengdar og eru fyrst og fremst hugsaðar til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. 

 • Við ætlum að tvöfalda barnabætur og minnka tekjutengingar.

Við viljum að foreldrar geti verið heima með börnum sínum fyrsta æviárið
Við ætlum að hækka þak á fæðingarorlofsgreiðslur í 600 þúsund svo fleiri foreldrar sjái sér fært að taka orlof svo að fleiri börn fái að njóta samvista við báða foreldra sína á fyrsta ári þeirra.

Við ætlum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Það er mikilvægt fyrsta skref í að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla sem verður að brúa. Kostnað vegna lengingarinnar á að greiða úr ríkissjóði en ekki með hærri tryggingagjaldi.

Styttum vinnuvikuna
Stytting vinnuvikunnar er eitt stærsta hagsmunamál fjölskyldunnar og stórt heilbrigðismál líka. Styttri vinnudagur virðist minnka streitu, fækka veikindadögum og auka ánægju í starfi. Við ætlum að halda áfram að þróa þessa hugmynd líkt við gerum í Reykjavíkurborg í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Markmiðið er að fleiri vinnustaðir geti stytt vinnuviku fólks og stutt þannig við heilbrigðara samfélag.

Útrýmum kynferðisofbeldi

Vitundarvakning hefur orðið um kynferðisofbeldi á síðustu misserum með hinni svokölluðu Beauty tips byltingu, frelsun geirvörtunar og druslugöngunni en slíkt ofbeldi er þó ennþá alltof algengt í okkar samfélagi. 

Útrýmum kynferðisobeldi

Það þarf að vera forgangatriði nýrrar ríkisstjórnar að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi í samstarfi við skóla, heilbrigðisþjónustuna, lögreglu og dómstóla. Ráðast þarf í aðgerðir gegn mansali á Íslandi, styðja betur fjárhagslega við aðgerðir grasrótarsamtaka og auka fræðslu. Huga þarf sérstaklega að aðgerðum gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

Fylgjum góðu fordæmi

Mikilvægt er að fara nýjar leiðir í baráttunni gegn ofbeldi og fylgja ætti fordæmi Reykjavíkurborgar sem tekið hefur upp nýtt verklag og sett þýðingarmikið fjármagn til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi. Styrkja þarf réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis samkvæmt lögum og efla lögregluna og félagsþjónustuna með því samræma verklagsreglur um land allt. Mikilvæga fyrirmynd er að finna í samvinnu lögreglu og félagsþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu. 

Kynferðislegt áreiti  á ekki að viðgangast í okkar samfélagi og Samfylkingin vill vinna gegn því með markvissum hætti á öllum stigum samfélagsins.

 

Betra fæðingarorlof

Lengra orlof og hærri greiðslur

Horfið verði frá styttingu fæðingarorlofs og stefnt að frekari eflingu fæðingarorlofskerfisins. 

Við ætlum að hækka lámarksgreiðslur  strax í 600.000 kr á mánuði og lengja orlofið í 12 mánuði.

Samspil orlofs og atvinnu

Nauðsynlegt er að stuðla að sveigjanlegum vinnutíma á almennum vinnumarkaði.

Aðgengi foreldra að góðri og öruggri dagvistun og leikskólum á viðráðanlegu verði tryggt frá lokum fæðingarorlofs svo konur hafi raunverulegt val um að snúa aftur til vinnu.