Góð hvatning og fróðlegur fyrirlestur frá Loga um þróunarstarf í Malaví

Samfylkingin vill að framlög landsins til þróunarsamvinnu nái að minnsta kosti viðmiðum Sameinuðu þjóðanna eða um 0,7% af þjóðartekjum. Framlögin eru nú 0,28% og stefna ríkisstjórnarinnar um að hækka framlögin upp í 0,35 lýsir í raun metnaðarleysi. Þetta er meðal þess sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræddi á fyrirlestri sem hann flutti í hádeginu á Hallveigarstíg fyrir alþjóðamálahóp flokksins. Fyrirlesturinn var einkar fróðlegur; sýndi árangur af þróunarstarfi Íslendinga í Malaví, en Logi var þar á ferð til að kynna sér starfið fyrr á þessu ári, og um leið voru orð hans mikil hvatning um að gera betur í þessum málum.

Hér má sjá glærur Loga frá fundinumen þær skarta meðal annars gullfallegum ljósmyndum sem hann tók á ferð sinni í Malaví fyrr á árinu.

Magnús Árni Skjöld, formaður alþjóðahópsins, þakkaði Loga kærlega fyrir erindið og segir hópinn stefna að því að koma með ályktun um þróunarstarf og alþjóðatengsl á næsta flokksstjórnarfundi, 16. mars.